Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 829  —  470. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé um vistvæn atvinnutæki við flugvelli.


     1.      Hefur verið mörkuð stefna um að einungis vistvæn atvinnutæki, svo sem fólksflutningabifreiðar, þjónustubifreiðar o.fl., fái að koma á svæði í umsjá stofnana sem heyra undir ráðuneytið, þ.e. alla innanlandsflugvelli og Keflavíkurflugvöll?
    Aðgerðaáætlun liggur fyrir en stefnan hefur ekki verið mörkuð. Isavia ohf. á og rekur Keflavíkurflugvöll og rekur innanlandsflugvelli samkvæmt þjónustusamningi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Isavia hefur sett sér umhverfisstefnu og samþykkt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem fylgir hér með. Samkvæmt aðgerðaáætluninni á m.a. að setja upp og fjölga rafhleðslum á bílastæðum og auka hlutfall vistvænna bíla í eigu félagsins. Þá var tekin ákvörðun um að kolefnisjafna alla eldsneytisnotkun félagsins frá og með 1. janúar 2018.

     2.      Ef ekki, er áformað að setja slíka stefnu og kynni þá að koma til skoðunar að tilgreina í henni að eftir tiltekinn árafjölda verði óheimilt að aka atvinnutækjum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti inn á umrædd svæði?
    Fyrstu skrefin hafa verið tekin í að móta stefnuna. Mikilvægt er við slíka stefnumótun að samráð sé haft við rekstraraðila flugvallar og eftir atvikum aðra sem reka starfsemi á flugvellinum, að skýrt sé til hvaða tækja og til hvaða svæðis slík stefna nái og hvaða aðilar beri ábyrgð á framkvæmd hennar.

     3.      Hvaða fjárfestingar þyrfti að ráðast í við innviðauppbyggingu yrði slík stefna sett?
    Vinna við mótun slíkrar stefnu er ekki hafin nema að litlu leyti eins og fram kom hér fyrr. Kostnaður hefur ekki verið metinn. Þó er ljóst að um umtalsverða fjárfestingu yrði að ræða ef takmarka ætti verulega eða jafnvel banna alveg notkun óvistvænna atvinnutækja á flugvallarsvæðum. Þar er bæði gengið út frá því að fjárfesta yrði í ökutækjum, aðstöðu sem þyrfti, hugsanlega rekstur tvenns konar aðstöðu á yfirfærslutímabili, aðgangsstýringu og eftirliti, auk annarra atriða.

     4.      Hefur við uppbyggingaráform á Keflavíkurflugvelli verið hugað að þeirri uppbyggingu innviða, svo sem fyrir tengla til hleðslu rafbíla og hraðhleðslustöðva, sem nauðsynleg er til þess að draga úr og að lokum hverfa frá umferð bifreiða sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti?
    Isavia hefur gert aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Samkvæmt henni verður hleðslustöðvum fjölgað þannig að þær mæti þeirri þörf sem er á hverjum tíma.

     5.      Hvaða innviðir eru nú þegar til staðar fyrir hleðslu rafbíla og hraðhleðslustöðvar við flugvellina og hvert er hlutfall þeirra af heildarfjölda bílastæða?
    Nú þegar hafa verið settar upp hleðslustöðvar á nokkrum stæðum við Keflavíkurflugvöll. Ein hraðhleðslustöð er við skammtímastæði og fjórtán á starfsmannastæðum. Hlutfall af heildarfjölda er því 15/4.020. Einnig eru sjö hleðslustöðvar innan haftasvæðis á Keflavíkurflugvelli. Þar af er ein hraðhleðslustöð. Þá hafa verið settar upp og teknar í notkun hleðslustöðvar við höfuðstöðvar Isavia í flugturninum í Reykjavík, Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og á starfsstöð Flugfjarskipta í Gufunesi.

     6.      Hefur Isavia mótað sér stefnu um að bifreiðar og atvinnutæki í eigu fyrirtækisins verði vistvæn?
    Isavia hefur samþykkt aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum þar sem kveðið er á um að í 70% tilfella skulu keyptar vistvænar bifreiðar í þeim flokkum þar sem slíkt býðst. Hvað atvinnutæki varðar er horft til vistvænni lausna við endurnýjun tækjanna. Í mörgum tilfellum eru tæki flugvallarins mjög sérhæfð og vistvænni lausnir hafa ekki staðið til boða enn sem komið er.

     7.      Hvert hefur verið hlutfall vistvænna bifreiða og atvinnutækja af þeim bifreiðum og atvinnutækjum sem Isavia hefur keypt á árinu 2018?
    Fjöldi vélknúinna ökutækja, atvinnutækja og bifreiða, sem keyptur var á árinu 2018 var 18. Þar af var ein bifreiða svokölluð plug in hybrid. Sú bifreið var á síðastliðnu ári sú eina sem telst vistvæn. Hlutfall vistvænna bifreiða og atvinnutækja sem falla í vistvænan flokk er því 6%. Ekkert atvinnutæki sem keypt var 2018 telst vistvænt.


Fylgiskjal.


Aðgerðaáætlun í umhverfismálum.
Minnisblað ISAVIA.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0829-f_I.pdf