Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 845  —  428. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands.


    Með hliðsjón af efni fyrirspurnarinnar óskaði forsætisráðuneytið eftir því við Seðlabanka Íslands að stofnunin veitti ráðuneytinu svör við þeim spurningum sem settar eru fram í fyrirspurninni.

    Svör Seðlabanka Íslands eru svohljóðandi:
    Fyrirspurnin er í sjö liðum og leitast verður við að svara efni þeirra í sömu röð, undir hverjum lið.
     1.      Hversu mörg mál hefur gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands tekið til rannsóknar og hversu mörgum þeirra lauk gjaldeyriseftirlitið með:
                  a.      kæru til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar eða embættis sérstaks saksóknara,
                  b.      niðurfellingu,
                  c.      beitingu stjórnvaldssekta,
                  d.      sátt?

    Þegar bréf þetta er ritað hafa alls 557 rannsóknarmál verið skráð í skjalavistunarkerfi Seðlabankans. Seðlabankinn hefur kært 113 mál, með samtals 24 kærum, vegna meiri háttar brota gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Hver kæra til lögreglu getur innihaldið marga kærða aðila, þ.e. háttsemi margra aðila kann að vera felld undir sömu kæru, til að mynda vegna samþættingar undirliggjandi háttsemi eða tengsla.
    Seðlabankinn hefur fellt niður eða hætt rannsókn í 315 málum. Ástæður þess eru ýmsar, til að mynda þegar ekki hefur verið talið tilefni til að taka mál til rannsóknar eða rannsókn hefur ekki leitt í ljós brot. Má í því sambandi t.d. nefna að Seðlabankinn tók ákvörðun um að fella niður rannsókn allra mála sem lúta eingöngu að ætluðum brotum gegn reglum nr. 1130/2008, um gjaldeyrismál, sem settar voru með heimild í bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sbr. lög nr. 134/2008, í ljósi niðurstöðu ríkissaksóknara um að setning reglnanna hafi verið haldin annmörkum sem komi í veg fyrir að þeim verði beitt sem refsiheimild þar sem formlegt samþykki ráðherra var talið hafa skort við setningu þeirra. Í ljósi þess telur Seðlabankinn jafnframt ekki rétt að beita aðila stjórnvaldssektum vegna brota á reglum nr. 1130/2008, um gjaldeyrismál.
    Seðlabankinn hefur tekið ákvörðun í tíu málum fyrir brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál, en þar af lauk sjö málum með stjórnvaldssekt. Þá hefur Seðlabankinn á grundvelli heimildar í 15. gr. b laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, lokið samtals 31 máli með sátt við aðila máls. Í því felst nánar tiltekið að málsaðili gengst við brotlegri háttsemi og greiðslu sektar sem m.a. er ákvörðuð að teknu tilliti til framangreinds. Með sátt leitast Seðlabankinn jafnframt við að leiðrétta áhrif brotlegrar háttsemi, sé þess kostur, sem einnig hefur þýðingu við ákvörðun sektarfjárhæðar.
     2.      Hafi einhverjum málum lokið með annaðhvort stjórnvaldssekt eða sátt, hversu háar fjárhæðir hafa runnið í ríkissjóð vegna þess? Óskað er eftir sundurliðun fjárhæða sekta og sáttargreiðslna ásamt dagsetningum í hverju tilviki fyrir sig.
    Heildarfjárhæð sektargreiðslna samkvæmt stjórnvaldsákvörðunum og sáttum, sem runnið hafa í ríkissjóð, nemur 204.335.000 kr., eða 115.860.000 kr. á grundvelli stjórnvaldsákvarðana og 88.475.000 kr. á grundvelli sátta. Þar af hefur ríkissjóður endurgreitt samtals 114.200.000 kr. samkvæmt niðurstöðum dómstóla eins og nánar er rakið í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

Ár Upphæð kr. Staða málaloka Dagsetning
2012 45.000 Sátt 24.7.2012
2012 50.000 Stjórnvaldsákvörðun 12.7.2012
2013 180.000 Sátt 5.9.2013
2013 450.000 Sátt 31.10.2013
2013 90.000 Sátt 15.11.2013
2013 60.000 Stjórnvaldsákvörðun 21.3.2013
2014 95.000 Sátt 3.3.2014
2014 10.000.000 Sátt 12.7.2013
2014 25.000 Sátt 22.5.2014
2014 1.400.000 Sátt 6.6.2014
2014 15.000 Sátt 12.6.2014
2014 50.000 Sátt 23.9.2014
2014 60.000 Sátt 9.10.2014
2014 20.000 Sátt 4.12.2014
2014 500.000 Sátt 29.12.2014
2014 25.000.000 Sátt 30.12.2014
2014 250.000 Stjórnvaldsákvörðun 25.4.2014
2015 290.000 Sátt 26.1.2015
2015 350.000 Sátt 23.1.2015
2015 130.000 Sátt 19.1.2015
2015 2.500.000 Sátt 9.2.2015
2015 40.000 Sátt 18.2.2015
2015 50.000 Sátt 13.5.2015
2015 18.000.000 Sátt 15.10.2015
2015 1.100.000 Sátt 23.11.2015
2016 5.000.000 Sátt 12.2.2016
2016 400.000 Sátt 28.7.2016
2016 1.300.000 Stjórnvaldsákvörðun 1.9.2016
2016 75.000.000 Stjórnvaldsákvörðun (sekt síðar felld niður) 19.8.2016
2016 24.200.000 Stjórnvaldsákvörðun (sekt síðar felld niður) 19.8.2016
2016 15.000.000 Stjórnvaldsákvörðun (sekt síðar felld niður) 1.9.2016
2017 22.500.000 Sátt 9.2.2017
2018 185.000 Sátt 15.8.2018
Samtals 204.335.000

     3.      Hversu mörgum málum hefur lokið fyrir dómstólum þar sem sektarákvörðun bankans er felld niður eða lækkuð?
    Í þremur málum hafa stjórnvaldsákvarðanir Seðlabankans um beitingu sekta vegna brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál verið bornar undir dómstóla. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 463/2017 var fallist á kröfu málsaðila um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar Seðlabankans. Í dómum Hæstaréttar í máli nr. 638/2017 og nr. 639/2017 voru sektir felldar niður þar sem ekki voru talin efni til að gera málsaðilum sektir vegna brota þeirra.

     4.      Hversu margar kvartanir hafa bankanum borist vegna gjaldeyriseftirlitsins eða einstakra starfsmanna eftirlitsins? Að hvaða atriðum lutu kvartanirnar? Hvernig var brugðist við kvörtunum og hvernig var tryggt að kvartanir hlytu óháða meðferð?
    Hafi Seðlabankinn tekið stjórnvaldsákvörðun í máli getur aðili máls átt rétt samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, á að mál hans sé tekið til meðferðar á ný óski hann þess, auk þess sem hann getur höfðað mál til ógildingar ákvörðunar fyrir dómstólum vilji hann ekki una henni. Verður fyrirspurnin ekki skilin á annan hátt en svo að slík erindi falli utan hennar og athugasemdir sem bornar hafa verið upp við meðferð einstakra mála. Sama á við um kvartanir í tengslum við lagasetningar vegna afnáms hafta, sem til að mynda hefur verið beint til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þá eru ekki taldar með „kvartanir“ sem komu fram í fjölmiðlum, svo sem þegar auglýsingar birtust í erlendum og innlendum dagblöðum sem taldar voru fjármagnaðar af ákveðnum hluta aflandskrónueiganda á haustmánuðum 2016.
    Til Seðlabankans hafa ekki borist kvartanir vegna einstakra starfsmanna eftirlitsins.
    Aftur á móti hafa Seðlabankanum borist erindi frá umboðsmanni Alþingis vegna níu kvartana til umboðsmanns vegna takmarkana samkvæmt lögum og reglum um gjaldeyrismál, vegna meðferðar mála hjá gjaldeyriseftirlitinu og samskipta bankans við utanaðkomandi aðila. Að fengnum skýringum Seðlabankans í þeim málum sem lokið hefur verið hjá umboðsmanni við ritun bréfs þessa taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvartananna.
    Bankanum hafa jafnframt borist erindi Persónuverndar vegna þriggja kvartana utanaðkomandi aðila vegna gjaldeyriseftirlits á árunum 2010–2012. Tvær kvartanir lutu að kröfu viðskiptabanka um framvísun gagna við kaup á erlendum gjaldeyri, en krafa viðskiptabankans byggðist á fyrirmælum Seðlabanka Íslands. Þar sem afrit voru ekki tekin af gögnunum eða unnið með þau á annan hátt þótti ekki vera um vinnslu persónuupplýsinga að ræða í skilningi þágildandi laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þriðja kvörtunin laut að miðlun greiðslukortaupplýsinga til Seðlabanka Íslands í þágu gjaldeyriseftirlits. Álit Persónuverndar var að engin miðlun hefði átt sér stað í því tilviki sem kvörtunin laut að og taldi stofnunin því ekki tilefni til að aðhafast frekar. Hins vegar var það álit Persónuverndar að þegar hefði verið fjallað um lögmæti þeirrar vinnslu sem þá hefði verið um að ræða, þ.e. miðlun upplýsinga frá færsluhirðum til Seðlabankans, og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri lögmæt.
    Bankaráði Seðlabankans, sem kosið er af Alþingi, sbr. 26. gr. laga nr. 36/2001, og hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með því að bankinn starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda, sbr. 28. gr. sömu laga, hefur borist erindi vegna tveggja mála sem hlotið hafa umfjöllun í ráðinu og hafa verið til meðferðar hjá gjaldeyriseftirlitinu. Þá ritaði umboðsmaður Alþingis bréf, dags. 2. október 2015, til fjármála- og efnahagsráðherra, formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, m.a. vegna athugunar hans á meðferð gjaldeyrismála. Seðlabankinn tók, í kjölfar erindisins, saman greinargerð sem send var umboðsmanni 18. desember 2015 en svar bankans við erindinu var sent umboðsmanni 22. apríl 2016. Bankaráð svaraði umboðsmanni með bréfi 15. apríl 2016, en þess má geta að í kjölfar erindis umboðsmanns Alþingis samþykkti ráðið að óska eftir því að Lagastofnun Háskóla Íslands yrði fengin til að annast óháða úttekt á stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd laga um gjaldeyrismál. Lagastofnun skilaði úttektinni 26. október 2016, þar sem fram komu margar gagnlegar ábendingar. Var það hins vegar niðurstaða bankaráðs að úttektin gæfi að óbreyttu ekki tilefni til að aðhafast frekar.
    Þá þykir rétt að geta þess að 3. september 2014 birti Viðskiptaráð á heimasíðu sinni bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis með ábendingum um úrbætur sem Viðskiptaráð taldi nauðsynlegar á stjórnsýsluframkvæmd Seðlabanka Íslands við afgreiðslu beiðna um undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Ábendingarnar lutu í meginatriðum að málshraða við afgreiðslu undanþágubeiðna, ógagnsæi í ákvarðanatöku og því að ákvarðanir voru ekki birtar og að stjórnsýsluhættir Seðlabankans fælu mögulega í sér brot á jafnræðisreglu. Í tilefni bréfs Viðskiptaráðs, og þeirrar fjölmiðlaumfjöllunar sem varð í kjölfarið, birti Seðlabanki Íslands 10. september 2014 ítarlega yfirlýsingu á vefsíðu sinni (www.sedlabanki.is) þar sem brugðist var við bréfi Viðskiptaráðs. Í yfirlýsingu Seðlabankans var m.a. bent á að Seðlabankinn, sem bæri sem stjórnvaldi að starfa samkvæmt stjórnsýslulögum og í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar, gætti jafnræðis í hvívetna við afgreiðslu undanþágubeiðna auk þess sem bankinn væri stöðugt að leita leiða til að draga úr þeim óþægindum sem höftin kynnu að valda. Þannig fylgdu starfsmenn undanþágu, sem afgreiddu undanþágubeiðnir, innri verklagsreglum til að tryggja að sambærileg mál nytu sömu meðferðar. Þá væri jafnframt tryggt að starfsmenn afgreiddu hvorki undanþágubeiðnir frá tengdum aðilum né kæmu að meðferð þeirra mála. Í yfirlýsingunni kom jafnframt fram að Seðlabankinn hefði kallað eftir nánari upplýsingum frá Viðskiptaráði um tilefni ásakana um að stjórnsýsluhættir bankans hefðu að einhverju leyti farið á svig við jafnræðisreglu, en engar upplýsingar hefðu borist.

     5.      Hafa bankanum borist fjárkröfur vegna ákvarðana starfsmanna bankans og ef svo er, hversu margar eru þær kröfur og hversu háar? Hver er lagagrundvöllur þeirra?
    Í tveimur tilvikum hafa borist fjárkröfur vegna ákvarðana Seðlabankans um álagningu stjórnvaldssekta í kjölfar niðurfellingar sekta fyrir dómstólum, sem rakin eru í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Seðlabankanum hefur verið stefnt vegna fjárkrafnanna og málin voru þingfest 15. janúar sl. Ríkissjóður hefur endurgreitt sektarfjárhæðir samkvæmt niðurstöðum dómstóla auk vaxta. Þá þykir rétt að nefna Hæstaréttardóm nr. 432/2016, en Seðlabankanum og Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. var stefnt til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem aðili taldi sig hafa orðið fyrir. Niðurstaða málsins var sú að Seðlabankinn og Eignasafnið voru sýknuð af kröfum aðila.

     6.      Hver er heildarkostnaður við gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands? Óskað er eftir upplýsingum um kostnað innan húss og utanaðkomandi lögfræði-, sérfræði- og málskostnað.
    Hér á eftir má sjá skiptingu heildarkostnaðar gjaldeyriseftirlits, þ.e. kostnaður sem hefur verið bókaður sérstaklega á sviðið frá árinu 2013, en fram að þeim tíma var kostnaði Seðlabankans ekki skipt niður á einstök svið bankans. Málskostnaður Seðlabankans almennt fellur undir svið lögfræðiráðgjafar og er ekki sundurgreinanlegur milli sviða. Hvað varðar annan kostnað þá fellur t.d. þar undir kostnaður við þýðingar, innlendar gagnaveitur, ferðakostnaður og starfsmanna- og fræðslukostnaður.
Ár 2018 2017 2016 2015 2014 2013
Laun og launatengd gjöld 251.232.588 327.965.820 278.339.714 257.869.747 196.897.275 179.787.589
Sérfræðistörf 4.525.750 341.005 2.661.383 7.327.492 8.281.980 5.603.951
Annað 3.144.029 3.934.635 5.232.471 5.413.161 7.430.936 1.440.810
Samtals 258.902.367 332.241.460 286.233.568 270.610.400 212.610.191 186.832.350

     7.      Hversu margir starfsmenn gjaldeyriseftirlitsins eru enn við störf og hver hefur þróun fjölda starfsmannanna verið?
    Gjaldeyriseftirlitið varð að sjálfstæðri einingu innan Seðlabanka Íslands árið 2009. Stöðugildum í gjaldeyriseftirlitinu fjölgaði á árabilinu 2009 til 2017 í ljósi vaxandi málafjölda og umfangs verkefna í tengslum við framkvæmd fjármagnshafta. Hér á eftir er samantekt um fjölda starfsmanna (starfsmenn samkvæmt launaskrá) í upphafi hvers árs frá árinu 2010, að meðtöldum starfsmönnum í hlutastarfi.

Dagsetning 1.1.2019 1.1.2018 1.1.2017 1.1.2016 1.1.2015 1.1.2014 1.1.2013 1.1.2012 1.1.2011 1.1.2010
Fjöldi 15 21 24 21 20 19 16 9 9 3