Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 852  —  522. mál.
Viðbót.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2018.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var að venju annars vegar farið yfir þann fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíða upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/ EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægi þess að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/ EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans. Ísland hefur bætt árangur sinn á þessu sviði en á árinu voru reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála endurskoðaðar með það að markmiði að gera EES-málum hærra undir höfði og auka um leið skilvirkni við upptöku og innleiðingu ESB-gerða. Þá gaf utanríkisráðuneyti út skýrsluna „Gengið til góðs: Skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins“ á árinu með tillögum um aðgerðir í því skyni. Þar á meðal er framlenging á sérstökum stuðningi við fagráðuneyti til að tryggja tímanlega innleiðingu EES-gerða og styrkingu sendiráðs Íslands gagnvart ESB í Brussel þannig að öll ráðuneyti eigi þar fulltrúa.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 30 talsins og taka til 40 ríkja. EFTA á nú í virkum fríverslunarviðræðum við sjö ríki, þar á meðal Argentínu, Brasilíu, Indland og Víetnam. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti í þessu skyni Argentínu og Úrúgvæ á árinu og átti viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA.
    Væntanleg útganga Bretlands úr ESB, Brexit, kom ítrekað til umfjöllunar á árinu. Þingmannanefnd EFTA átti fundi í London með þingnefndum, ráðuneytum og hagsmunaaðilum um stöðu ferlisins og áhrif útgöngunnar á samskipti EFTA-ríkjanna við Bretland. Þá átti þingmannanefnd EFTA fund með Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB um Brexit. Framtíðarskipan viðskipta við Bretland eftir útgöngu úr ESB, og þar með EES, er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríki EFTA en Bretland er stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan EES. Þrír möguleikar voru einkum nefndir, í fyrsta lagi að EFTA-ríkin fjögur gerðu saman samning við Bretland, í öðru lagi kæmi til greina að EFTA/EES-ríkin þrjú án Sviss hefðu samflot um slíkan samning og í þriðja lagi gæti sú staða komið upp að hvert EFTA-ríki fyrir sig gerði tvíhliða samning við Bretland.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna þróun í alþjóðaviðskiptum og stöðu Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar, netöryggi, ákvæði um vinnuvernd og sjálfbærni í fríverslunarsamningum, neytendamál og vinnumarkaðsmál.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og á þremur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hún hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES (EFTA-hluta sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð, í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB, leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom framan af saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Árið 2018 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES: Smári McCarthy, formaður, þingflokki Pírata, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Andrés Ingi Jónsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, Páll Magnússon, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þorsteinn Víglundsson, þingflokki Viðreisnar. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA, þingmannanefndar EES og sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB á árinu 2018.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2018. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar þrisvar sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum, ráðuneytum og stofnunum í Buenos Aires og Montevideo um fríverslunarmál.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu.
    Þá hélt sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB einn fund á árinu.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð, auk fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB.

Fundir þingmannanefndar EFTA í London 20.–21. mars 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Njáll Trausti Friðbertsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Tilgangur fundanna í London var að ræða við þingnefndir og ráðuneyti auk hagsmunaaðila og fulltrúa fræðasamfélags um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr ESB og áhrif hennar á samskipti EFTA-ríkjanna við Bretland. Helstu viðræðuaðilar í breska þinginu voru Brexit-nefnd neðri deildar undir forustu Hilary Benn, alþjóðaviðskiptanefnd sömu deildar undir forustu Nigel Evans, Evrópunefnd lávarðadeildar undir forustu Boswell lávarðar, og stefnumótunarnefnd íhaldsmanna um Brexit undir forustu Vicky Ford. Þá áttu EFTA-þingmenn fundi með Alan Duncan, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti, Greg Hands, aðstoðarráðherra í ráðuneyti alþjóðaviðskipta, Suellu Fernandes, þinglegum aðstoðarráðherra ráðuneytis útgöngumála, og Keir Starmer, skuggaráðherra Verkamannaflokksins fyrir Brexit. Að auki hitti nefndin fulltrúa fræðasamfélags og samtaka atvinnulífs, bænda og sjómanna. Svissneska þingkonan Karin Keller-Sutter, formaður þingmannanefndar EFTA, leiddi fyrri dag fundahaldanna en Smári McCarthy, varaformaður nefndarinnar, þann síðari.
    Daginn áður en fundir þingmannanefndar EFTA hófust var tilkynnt um samkomulag Bretlands og ESB um bráðabirgðafyrirkomulag til að brúa tímabilið frá útgöngu Breta úr ESB 29. mars 2019 að gildistöku nýs framtíðarsamnings milli sömu aðila. Samkomulagið verður lagalega bindandi sem hluti útgöngusamnings Breta og háð samþykkt hans. Á bráðabirgðatímabilinu verður Bretland bundið af löggjöf ESB, þ.m.t. alþjóðasamningum, til 31. desember 2020, sem það væri enn þá aðildarríki. EES-samningurinn mun þá gilda óbreyttur á bráðabirgðatímabilinu. Borgarar njóti áfram réttar til frjálsrar farar á bráðabirgðatímabilinu og viðmiðunardagsetning vegna réttar til áframhaldandi dvalar verði 31. desember 2020 (lok bráðabirgðatímabilsins). Á bráðabirgðatímabilinu getur Bretland samið um, undirritað og staðfest alþjóðasamninga á sviðum sem annars falla innan valdheimilda ESB (þ.m.t. fríverslunarsamninga), að því gefnu að þeir samningar taki ekki gildi eða verði beitt fyrr en eftir að bráðabirgðatímabilinu lýkur. Umræða um hið nýja samkomulag um bráðabirgðatímabil var eðlilega fyrirferðarmikil á öllum fundum þingmannanefndar EFTA í London enda hafa EFTA-ríkin lagt ofuráherslu á að slíkt samkomulag taki til og tryggi áframhaldandi óbreytta virkni EES-samningsins annars vegar og tvíhliða samnings Sviss og ESB hins vegar varðandi samskipti EFTA-ríkjanna við Bretland.
    Meginskilaboð þingmanna EFTA á öllum fundum voru m.a. að benda á mikilvægi viðskiptasambands Bretlands og EFTA en árleg viðskipti nema meira en 50 milljörðum punda. Um 10% af vöruútflutningi EFTA-ríkjanna fer til Bretlands og EFTA-ríkin eru kaupendur að yfir 5% af þjónustuútflutningi þaðan. Þá búa um 54.000 borgarar EFTA-ríkjanna í Bretlandi og svipaður fjöldi Breta í ríkjum EFTA. Samband Bretlands og EES/EFTA-ríkjanna byggist á EES-samningnum og þátttöku í innri markaði ESB en samband Bretlands og Sviss á tvíhliða samningi þess síðarnefnda við ESB. Komi samkomulagið um bráðabirgðatímabil til framkvæmda er ljóst að slík samskipti haldast óbreytt til ársloka 2020. Nýta verður tímann þangað til vel til þess að ganga frá framtíðarskipan samskipta Bretlands og EFTA-ríkjanna þannig að tryggt verði að samstarf og viðskiptakjör verði ekki verri en við núverandi skipan mála. Það mun væntanlega gerast samhliða því að Bretland semur við ESB um framtíðarskipan samskipta eftir að bráðabirgðatímabilinu lýkur en mikið var fjallað um væntanlegt framtíðarfyrirkomulag á fundunum. Viðmælendur voru sammála um að aukinnar bjartsýni gætti um að góður samningur gæti náðst um framtíðarskipanina og nefndu í því sambandi góðan gang í vinnu við útgöngusamninginn sem ráðgert var að lægi fyrir í október 2018 og fyrrnefnt samkomulag um bráðabirgðatímabilið frá 19. mars 2018. Enn fremur var nefnt að samningsaðilar nálguðust viðfangsefnið tæknilega og uppbyggilega og að tilfinningarót og reiði sem fylgdu úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu í júní 2016 hefði lægt. Þó væri áhyggjuefni að ef til vill þyrfti lengri tíma til að ganga frá samningi um framtíðarskipan en bráðabirgðatímabilið til ársloka 2020 veitti. Sjónarmið meiri hluta Brexit-nefndarinnar og fleiri viðræðuaðila var að þá bæri að framlengja bráðabirgðatímabilið en óljóst er hvort það verður hægt.
    Rætt var um ólíkar fyrirmyndir að samningi um framtíðarskipan sambands Bretlands og ESB, þ.m.t. EES-aðild, tvíhliða samning á borð við þann sem Sviss hefur við ESB, tollabandalag við ESB líkt og Tyrkir eru í og víðtækan fríverslunarsamning eins og ESB á við Kanada. Fulltrúar stjórnarinnar vísuðu fyrrnefndum fyrirmyndum á bug og töluðu fyrir víðtækum klæðskerasaumuðum fríverslunarsamningi sem gengi mun lengra en samningur ESB við Kanada. Vísuðu þeir til áherslna Theresu May forsætisráðherra á möguleika á samræmdu regluverki á tilteknum sviðum sem mundi tryggja meðferð eins og á innri markaði fyrir breskt atvinnulíf á viðkomandi sviðum. Unnt væri að tryggja lipur viðskipti með því að Bretar og ESB hefðu eins samræmdar reglur og mögulegt er samfara viðamiklu kerfi gagnkvæmrar viðurkenningar. Bretland gæti áfram verið með aðild að sumum sérstofnana ESB, t.d. Lyfjastofnun ESB, Efnastofnun Evrópu og Flugmálastofnun Evrópu. Bretar yrðu bundnir af reglum þessara stofnana og þyrftu jafnframt að greiða aðildargjöld. Yrði slíkt fyrirkomulag þáttur í samræmingu reglna á vörusviðinu til að tryggja greið viðskipti.
    Fulltrúar Verkamannaflokksins og samtaka atvinnulífsins töluðu fyrir tollabandalagslausninni sem auk þess að lágmarka neikvæð áhrif útgöngu á vöruskipti við ESB mundi tryggja áframhaldandi frjáls landamæri á Írlandi. Fulltrúar samtaka atvinnulífsins sögðu útreikninga sýna að ábati bresks efnahagslífs af tollabandalagi sem útilokaði sjálfstæða gerð fríverslunarsamninga við ríki utan ESB yrði mun meiri en efnahagsleg áhrif slíkra fríverslunarsamninga.
    Þingmenn EFTA ítrekuðu að óháð því hvaða form yrði fundið fyrir framtíðarskipan samskipta Bretlands og ESB væri það meginmarkmið EFTA-ríkjanna að tryggja eins góð samskipti við Bretland og hægt væri og helst efla samskipti og viðskiptakjör frá því sem nú væri.
    Á fundunum var ítrekað rætt hvort vænta mætti nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Viðmælendur töldu litlar líkur á því og nefndu að umdeilt væri um hvað skyldi kosið ef efnt yrði til slíkrar atkvæðagreiðslu. Ætti valið að snúast um framtíðarsamning við ESB þegar hann lægi fyrir eða útgöngu án framtíðarsamnings? Eða ætti að kjósa milli framtíðarsamnings og áframhaldandi veru í sambandinu? Ef af þjóðaratkvæðagreiðslu yrði mundi hún væntanlega vera á milli fyrstu kostanna. Nefnt var að erfiðleikar í samningagerð um framtíðarsamning, t.d. um landamæramál á Írlandi, gætu leitt til slíkrar atkvæðagreiðslu sem þó væri ólíkleg.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Buenos Aires og Montevideo
16.–20. apríl 2018.

    Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Buenos Aires og Montevideo var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila í Argentínu og Úrúgvæ um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA. Fríverslunarviðræður standa yfir á milli EFTA og Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja; Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Smári McCarthy og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Eitt af markmiðum EFTA með því að byggja upp net fríverslunarsamninga er að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja innan EFTA-ríkjanna gagnvart fyrirtækjum innan ESB á viðkomandi markaði. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga við EFTA.
    Mercosur hefur átt í fríverslunarviðræðum við ESB með hléum frá árinu 2000. Stærstu áskoranir í viðræðunum hafa verið krafa Mercosur um víðtæka verslun með landbúnaðarvörur og krafa ESB um aukna opnun á frjáls þjónustuviðskipti. Fríverslunarviðræður EFTA og Mercosur hófust í júní 2017 og hafa þrjár samningalotur farið fram.
    Í Buenos Aires átti sendinefnd EFTA-þingmanna m.a. fundi með Gabrielu Michetti varaforseta, þingnefndum sem fjalla um fríverslunarmál undir forustu Corneliu Schmidt-Liermann, formanns utanríkismálanefndar, Horacio Reyser, ráðherra efnahagssamskipta í utanríkisráðuneytinu, Lucio Castro, ráðherra umbótamála í ráðuneyti framleiðslu, og Santiago del Solar, ráðuneytisstjóra í landbúnaðariðnaðarráðuneytinu. Meginskilaboð sendinefndar EFTA á öllum fundum voru þau að fríverslunarsamningur á milli EFTA og Mercosur mundi efla viðskipti og efnahagslega samvinnu á milli samtakanna og það mundi einnig hafa í för með sér aukna samvinnu EFTA og Mercosur á öðrum sviðum. Í yfirstandandi samningaviðræðum EFTA og Mercosur væri mikilvægt að taka tillit til þeirra geira sem eru viðkvæmir til þess að ná samningi sem væri hagkvæmur báðum aðilum. Landbúnaður í EFTA-ríkjunum væri þannig viðkvæmur.
    Auk þess sem formaður þingmannanefndar EFTA hélt framsögu með fyrrnefndum meginskilaboðum á öllum fundum í Buenos Aires gafst formönnum einstakra landsdeilda færi á að ræða tvíhliða viðskiptatengsl við Argentínu. Smári McCarthy lagði áherslu á að þó að viðskipti Íslands og Argentínu væru lítil væru mikil sóknarfæri í fríverslunarsamningi, sér í lagi á sviði sjávarútvegs og jarðvarmavirkjunar. Nefndi Smári sem dæmi að nokkur viðskipti hefðu verið með vélbúnað til matvælaframleiðslu í sjávarútvegi frá Íslandi til Argentínu.
    Argentínskir viðmælendur sendinefndar EFTA voru jákvæðir gagnvart yfirstandandi fríverslunarviðræðum Mercosur og EFTA og sögðu þær hluta af umbótum í argentínsku efnahagslífi sem hófust árið 2015 og felast m.a. í því að Argentína hefji fulla þátttöku í alþjóðaviðskiptum að nýju eftir lokun síðustu áratuga. Í Brasilíu gætti líka aukinnar áherslu á opnun gagnvart alþjóðaviðskiptum en Argentína og Brasilía töldust annað og fjórða lokaðasta hagkerfi heims árið 2016 ef horft var til hlutfalls utanríkisviðskipta af vergri landsframleiðslu. Unnið væri að kerfisbreytingum í efnahagslífi Argentínu sem miðuðu að því að draga úr viðskiptahindrunum og hindrunum á fjármagnsflæði, minnka fjárlagahalla ríkisins og koma böndum á verðbólgu. Þó var lögð áhersla á að ákveðnar greinar iðnaðar væru lítt undirbúnar fyrir erlenda samkeppni og þyrftu aðlögunartíma þegar létt yrði á innflutningshindrunum. Argentínsk stjórnvöld vilja auka erlenda fjárfestingu í landinu og var sjávarútvegur tiltekinn sem grein þar sem erlend samvinna og fjárfesting væri æskileg. Sjávarútvegur var sú grein sem óx hraðast í argentínsku efnahagslífi árið 2017.
    Í Montevideo átti sendinefnd EFTA m.a. fundi með Lucíu Topolansky varaforseta, Rodolfo Nin Novoa utanríkisráðherra og þingnefndum sem fara með fríverslunarmál auk þess að heimsækja höfuðstöðvar Mercosur. Meginskilaboð sendinefndarinnar voru þau sömu og á fundunum í Argentínu, þ.e. að fríverslunarsamningur á milli EFTA og Mercosur mundi efla viðskipti og efnahagslega samvinnu á milli samtakanna og það mundi einnig hafa í för með sér aukna samvinnu EFTA og Mercosur á öðrum sviðum utan viðskipta.
    Viðmælendur sendinefndar EFTA í Montevideo voru bjartsýnir á lok fríverslunarviðræðna Mercosur og ESB og töldu að viðræður við EFTA mundu ganga mun hraðar fyrir sig í kjölfarið. Þeir lögðu áherslu á mikilvægi frjálsra viðskipta fyrir Úrúgvæ en sögðu, líkt og viðmælendur í Argentínu, nokkra geira vera viðkvæma fyrir opnun og að sérstakt tillit þyrfti að taka til þeirra. Mercosur væri full alvara í að efla þátttöku sína í alþjóðaviðskiptum auk þess að auka viðskipti milli aðildarríkjanna fjögurra og vísuðu viðmælendur til stefnubreytingar stærstu ríkjanna, Argentínu og Brasilíu, máli sínu til stuðnings.

50. fundur þingmannanefndar EES í Stavanger 7.–9. maí 2018.
    Fundur þingmannanefndar EES var haldinn í Stavanger í Noregi. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy formaður, Andrés Ingi Jónsson, Brynjar Níelsson, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson auk Stígs Stefánssonar ritara. Helstu dagskrármál fundarins voru staða EES-samstarfsins, netöryggi, væntanleg útganga Bretlands úr ESB og orkumál.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að flytja framsöguræður í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Boyan Natan fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Bergdís Ellertsdóttir fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni og Martin Skylv fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni. Þau fóru yfir svokallaðan upptökuhalla sem mælir fjölda ESB-gerða sem bíða upptöku í EES-samninginn. Um 600 gerðir biðu upptöku en yfir helmingur þeirra var á sviði eftirlits með fjármálamörkuðum. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda gerða sem biðu upptöku kom fram að fleiri gerðir voru teknar upp í EES-samninginn á árinu 2017 en nokkru sinni fyrr eða 514. Lögð var áhersla á að unnið væri af krafti við að fara yfir gerðir á sviði fjármálamarkaða sem ætti að vera hægt að taka hratt upp þegar þeirri yfirferð væri lokið. Einnig var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægi þess að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans. Smári McCarthy vísaði í skýrsluna „Gengið til góðs: Skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins“ sem utanríkisráðuneytið gaf út í apríl 2018 og fór yfir boðaðar aðgerðir í því skyni. Þar á meðal er framlenging á sérstökum stuðningi við fagráðuneyti til að tryggja tímanlega innleiðingu EES-gerða og styrking sendiráðs Íslands gagnvart ESB í Brussel þannig að öll ráðuneyti eigi þar fulltrúa. Þá væri unnið að breytingum á reglum um þinglega meðferð EES-mála og þess væri að vænta að þær gerðu verkferlið á Alþingi skilvirkara. Andrés Ingi Jónsson benti á að tíð stjórnarskipti og kosningar á Íslandi kynnu að hafa haft áhrif í þá átt að innleiðingarhallinn væri meiri á Íslandi en í hinum EES/EFTA-ríkjunum. Loks var rætt um samkomulag um verslun með landbúnaðarvörur sem tók gildi milli Íslands og ESB 1. maí 2018 og sömuleiðis samkomulag á sama sviði sem undirritað var með Noregi. Fram kom í máli fulltrúa ESB að hátt uppboðsverð á kvótum til innflutnings landbúnaðarvara hefði þau áhrif að útflytjendur innan ESB og neytendur í EFTA-ríkjunum nytu ekki ávinnings af slíkum kvótum sem skyldi.
    Í umfjöllun um Brexit og EES fluttu framsöguræður Niels Engelschiøn, skrifstofustjóri í norska utanríkisráðuneytinu, Ulf Sverdrup, forstjóri Alþjóðamálastofnunar Noregs, Jan Erik Grindheim prófessor og Evrópuþingmaðurinn Catherine Stihler. Líkt og í fyrri umfjöllun nefndarinnar um Brexit var lögð áhersla á virka hagsmunagæslu EES/EFTA-ríkjanna gagnvart ríkisstjórn Bretlands og framkvæmdastjórn ESB. Sér í lagi var undirstrikað að tryggja þyrfti að samkomulag í væntanlegum útgöngusamningi Bretlands úr ESB varðandi réttindi borgara og innri markaðsmál næði einnig til EES/EFTA-ríkjanna. Fram kom að þrátt fyrir það markmið að útganga Bretlands hefði sem minnst áhrif á viðskipti EFTA-ríkjanna og Bretlands væri einhver truflun óhjákvæmileg. Verkefnið væri að lágmarka þá truflun.
    Í umfjöllun um netöryggi fluttu Evrópuþingmaðurinn Julia Pitera og Smári McCarthy framsöguræður. Pitera lagði áherslu á að framkvæmdastjórn ESB væri að byggja upp getu og efla miðstöð á sviði netöryggis í takt við netöryggisstefnu ESB frá árinu 2013 og netöryggissamþykkt frá september 2017 þar sem m.a. væri að finna aðgerðir til að berjast gegn fjármálasvindli og ólöglegri mynt á netinu. Smári fór vítt og breitt yfir stöðu netöryggismála og sagði ljóst að internetið væri í hernaðarlegu tilliti að bætast við sem fimmti vettvangur átaka til viðbótar við land, sjó, loft og geim. Vígbúnaðarkapphlaup ætti sér því miður stað í netheimum og hefðbundnar varnir eins og hlutleysi eða aðild að hernaðarbandalögum veittu litla eða enga vernd gegn netárásum. Vaxandi markaður væri fyrir netvopn sem eru skilgreind sem hugbúnaður eða vélbúnaður sem gerir kaupanda kleift að valda þriðja aðila skaða. Flest slíkra vopna nýttu sér öryggisglufur í öllu frá farsímum einstaklinga til tölvukerfa stórfyrirtækja og stofnana. Stærstu kaupendur netvopna væru ríkisstjórnir. Hvað áhrif á fríverslun varðaði gætti aukinna netárása og átaka á milli landa og stórfyrirtækja. Fölskum upplýsingum væri jafnframt haldið að almenningi til að hafa áhrif á kosningahegðun og efnahagslega hegðun. Slíkum upplýsingum virtist einnig ætlað að draga úr trausti og tiltrú á lýðræðislegar stofnanir. Leiðin fram á við væri annars vegar að auka vitund og þekkingu almennings á nethættum og hins vegar að bæta öryggi tölvukerfa með áherslu á þau mikilvægustu, svo sem stjórnkerfi fjármálamarkaða og samgangna. Jafnframt ætti að auka öryggi einstaklingstækja eins og farsíma og fartölva en það yrði helst gert með því að skapa hvata fyrir framleiðslufyrirtækin til þess að eyða meira í rannsóknir og þróun öryggismála.
    Þingmannanefnd EES samþykkti eina ályktun á 50. fundi sínum um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar um framkvæmd EES-samningsins 2017.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA á Sauðárkróki 25. júní 2018.
    Hefðbundinn sumarfundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA fór fram á Sauðárkróki auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Smári McCarthy formaður, Brynjar Níelsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi ráðgjafanefndar og þingmannanefndar EFTA var fjallað um ákvæði um vinnuvernd og sjálfbærni í fríverslunarsamningum EFTA. Ákvæðin voru samþykkt af ráðherrum EFTA árið 2010 og hafa verið í öllum fríverslunarsamningum samtakanna síðan þá. Ákvæðin vísa til alþjóðasamþykkta og samninga á sviði sjálfbærni og vinnuverndar. ESB hefur ámóta ákvæði í sínum fríverslunarsamningum og eftirlitskerfi sem fylgist með framfylgd þeirra. Umgjörð EFTA til slíks eftirlits er aftur á móti mjög einföld og er það eitt af hlutverkum sameiginlegrar nefndar sem komið er á fót milli EFTA og samstarfsríkis við hvern fríverslunarsamning fyrir sig. Þannig geta fulltrúar EFTA tekið upp mál er varða vinnuvernd og sjálfbærni við samstarfsríki innan slíkra nefnda. Einungis þrisvar hafa slík mál verið tekin til umfjöllunar í sameiginlegum nefndum EFTA við Hong Kong, Svartfjallaland og Serbíu. Sérfræðingahópur hefur til skoðunar hvort ástæða sé til að endurskoða ákvæði um sjálfbærni og vinnuvernd í fríverslunarsamningum EFTA og mun móta tillögur í þá veru.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA fór m.a. fram kynning á skýrslu um viðskipti á milli EFTA-ríkjanna fjögurra árið 2017. Viðskiptakjör á milli Íslands, Noregs og Liechtensteins ráðast af EES-samningnum en Liechtenstein er jafnframt í tollabandalagi með Sviss. Viðskiptakjör Íslands og Noregs við Sviss eru samkvæmt EFTA-sáttmálanum. Vöruinnflutningur EFTA-ríkjanna hvers frá öðru nam 2,2 milljörðum evra árið 2017 sem eru einungis 0,9% af heildarinnflutningi ríkjanna. Þó er hlutfallið mjög misjafnt eftir ríkjum og sker Ísland sig úr hvað varðar mikilvægi viðskipta við hin EFTA-ríkin. Þannig fór 6,1% vöruútflutnings Íslands til hinna EFTA-ríkjanna og 10,1% vöruinnflutnings Íslands kom frá þeim. Helstu útflutningsvörur Íslands til Noregs eru fiskimjöl til fiskeldis, skip, lýsi og vélar, m.a. fyrir matvælaiðnaðinn. Til Sviss er einkum flutt út sjávarfang og landbúnaðarvörur, aðallega skyr, en einnig gervilimir og ál.
    Þá ræddu þingmenn EFTA á fundi sínum nauðsyn þess að gera greiningu á því hvaða áhrif það hefði á EFTA ef Bretland gengi í samtökin að nýju eftir útgöngu sína úr ESB. Litlar líkur eru taldar á því að Bretland óski aðildar að EFTA en ef af því yrði væri nauðsynlegt fyrir samtökin að hafa unnið heimavinnuna sína með fyrrnefndri greiningu.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var að venju fjallað annars vegar um fríverslunarmál og hins vegar um EES-samstarfið. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fór yfir fríverslunarmálin en eftir undirritun samnings við Ekvador 25. júní 2018 voru fríverslunarsamningar EFTA 28 talsins og tóku þeir til 39 ríkja. Jafnframt var undirrituð uppfærsla á fríverslunarsamningi EFTA við Tyrkland frá árinu 1992 og tekur uppfærði samningurinn m.a. til vöru- og þjónustuviðskipta, upprunavottunar, verndar hugverkaréttar og sjálfbærrar þróunar. EFTA ætti nú í fríverslunarviðræðum við Indland, Indónesíu, Malasíu, Víetnam og Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja; Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs. Karin Keller-Sutter, formaður þingmannanefndar EFTA, flutti framsöguræðu af hálfu þingmanna. Hún fór yfir samtöl og fundi þingmanna EFTA í Argentínu og Úrúgvæ í apríl 2018 til þess að styðja við fríverslunarviðræður EFTA við Mercosur. Þá greindi hún frá því að þingmennirnir hygðust þrýsta á um að stjórnvöld í Suður-Kóreu hæfu viðræður við EFTA um uppfærslu á fríverslunarsamningi frá árinu 2005 sem bætti viðskiptakjör til samræmis við þau sem kveðið væri á um í fríverslunarsamningi ESB og Suður-Kóreu frá 2015.
    Nokkuð var rætt um endurskoðun á ákvæðum um vinnuvernd og sjálfbærni í fríverslunarsamningum EFTA og lögðu þingmennirnir áherslu á að ráðherrarnir hefðu samráð við þá áður en að ákvörðun kæmi. Í þessu sambandi tók Hanna Katrín Friðriksson upp möguleika á að fella jafnrétti og kynjasjónarmið inn í fríverslunarsamninga sem einnig var rætt á síðasta fundi þingmanna og ráðherra EFTA. Benti hún á að enn hefðu bæst við rannsóknir á þessu sviði sem sýndu skýr tengsl á milli jafnréttis og efnahagslegrar þátttöku kvenna annars vegar og hagvaxtar og velsældar samfélaga hins vegar. Því var svarað til að sérfræðingahópnum, sem vinnur að því að yfirfara ákvæði um vinnuvernd og sjálfbærni í fríverslunarsamningum EFTA, væri einnig ætlað að meta kosti þess og galla að fella jafnréttisáherslur inn í samningana.
    Þá var fjallað um aukna spennu og vaxandi tilhneigingu til verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum og hættu á viðskiptastríði. EFTA-ríkin eru öll mjög háð frjálsum alþjóðaviðskiptum sem byggð eru á skýrum leikreglum og vilja gera sitt til að standa vörð um alþjóðaviðskiptakerfið. Sérlega mikilvægt væri að slá skjaldborg um Alþjóðaviðskiptastofnunina, regluverk hennar og úrræði til lausnar deilumála.
    Þá var sem fyrr sagði fjallað um EES-mál og samskiptin við ESB á fundi þingmanna og ráðherra EFTA. Þar kom m.a. fram að svonefndur upptökuhalli, sem mælir tafir á upptöku gerða ESB í EES-samninginn, og innleiðingarhalli, sem mælir hvort gerðir sem teknar hafa verið upp í samninginn séu innleiddar í EFTA/EES-ríkjunum innan tilgreindra tímamarka, hefðu minnkað undanfarin missiri. Þó biðu um 550 gerðir upptöku í EES-samninginn, einkum á sviði fjármálamarkaða. Innleiðingarhalli hefði minnkað hjá öllum EES/EFTA-ríkjunum og sér í lagi á Íslandi, en aukinn kraftur hefði verið settur í innleiðingarmálin með bættum verkferlum og fleiri starfsmönnum á þessu sviði.
    Loks var fjallað um væntanlega útgöngu Bretlands úr ESB og hvöttu þingmennirnir til þess að EFTA mundi vinna greiningu á hugsanlegum afleiðingum aðildar Bretlands að EFTA þar sem viðskiptahagsmunir Bretlands annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar yrðu m.a. kortlagðir.

12. fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins í Reykjavík 18. september 2018.
    Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins fór fram í Hörpu. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Smári McCarthy, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson, Logi Einarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Fyrir hönd Evrópuþingsins sátu fundinn þingmennirnir Catherine Stihler, Angelika Mlinar og France Jamet.
    Fundinum stýrðu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Catherine Stihler. Helstu dagskrármál voru fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, fríverslunarsamningar við þriðju ríki, samskiptin yfir Atlantshafið, jafnréttismál og samskipti Íslands og ESB. Í upphafsávarpi sínu lagði Áslaug Arna áherslu á mikilvægi þingmannanefndarinnar sem samstarfsvettvangs Alþingis og Evrópuþingsins. Þá vakti hún athygli á hinni miklu endurnýjun sem varð á Alþingi í kosningunum 28. október 2017 og undirstrikaði að ný sendinefnd Alþingis gagnvart Evrópuþinginu hlakkaði til samstarfs á næstu árum.
    Í umræðu um Brexit fluttu Catherine Stihler og Hanna Katrín Friðriksson framsöguræður. Stihler kvað aukinnar óvissu gæta í samningaviðræðum ESB og Bretlands og taldi þar með aukna hættu á að útganga Bretlands úr ESB yrði án samkomulags. Útgöngusamningur lægi að mestu fyrir svo og samkomulag um aðlögunartímabil frá útgöngu Bretlands 29. mars 2019 til 31. desember 2020. Þó gilti það að enginn samningur lægi fyrir fyrr en búið væri að semja um allt og þar strandaði á ólíkum hugmyndum um framtíðarsamband ESB og Bretlands og sér í lagi á því hvernig komið yrði í veg fyrir landamæraeftirlit á milli Írlands og Norður-Írlands. Ekki yrði samið um framtíðarsambandið fyrr en eftir útgönguna en samhliða því að samþykkja útgöngusamning stæði til að samþykkja pólitíska yfirlýsingu um sýn aðilanna varðandi framtíðarsamstarfið. Auk þess sem Bretland og ESB ættu erfitt með að ná samkomulagi um þessi atriði væri alls óljóst hvort breska stjórnin kæmi slíku samkomulagi í gegnum breska þingið þar sem bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn væru klofnir innbyrðis í afstöðunni til Brexit. Hanna Katrín lagði áherslu á að Brexit væri algjört forgangsmál fyrir Íslendinga enda væru hagsmunirnir miklir þar sem Bretland væri næststærsta viðskiptaríki Íslands. Undanfarna mánuði hefði Ísland ásamt hinum EES/EFTA-ríkjunum, Noregi og Liechtenstein, átt í viðræðum við Bretland með það að markmiði að endurspegla í samningi sín á milli þá þætti sem skipta máli í væntanlegum útgöngusamningi Bretlands og ESB. Þar má helst nefna réttindi borgara til dvalar og búsetu. Færi svo að samningaviðræður Bretlands og ESB rynnu út í sandinn og útgangan yrði án samkomulags yrðu Ísland og hin EES/EFTA-ríkin að reiða sig á náið samstarf við ESB og aðildarríki þess varðandi áhrifin á innri markaðinn. Harmaði Hanna Katrín væntanlega útgöngu sem hún sagði veikja bæði Bretland og Evrópu.
    Í umræðu um samskiptin yfir Atlantshafið fluttu Catherine Stihler og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir framsöguræður. Stihler sagði Bandaríkin hafa snúið baki við hlutverki sem þau hefðu gegnt áratugum saman sem forusturíki frjálslyndrar alþjóðahyggju og frjálsra viðskipta. Evrópa liti á alþjóðlegt samstarf og viðskipti sem bestu leiðina til að tryggja hagsæld, stöðugleika og framfarir í heiminum. ESB hefði verið þrýst inn í tómarúm sem myndaðist við stefnubreytingu Bandaríkjanna og ætti það ekki einungis við um stuðning við regluverk alþjóðaviðskipta heldur önnur stórmál eins og Parísarsáttmálann um loftslagsmál og kjarnorkusamninginn við Íran sem ESB styður þrátt fyrir brotthvarf Bandaríkjanna. Áslaug Arna lagði áherslu á að smáríki eins og Ísland ættu allt sitt undir stöðugu viðskiptaumhverfi. Samstarfið innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) væri því sérstaklega mikilvægt. Einhliða verndartollar græfu undan regluverki alþjóðaviðskipta og ykju líkur á viðskiptastríði sem allir töpuðu á. Þá væri áhyggjuefni að Bandaríkin stæðu í vegi fyrir að dómarar væru skipaðir til starfa á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Slík afstaða vegur að grunnstoðum samstarfsins sem mikilvægt er að standa vörð um.
    Í umfjöllun um samskipti við ríki utan EES fór Smári McCarthy yfir fríverslunarnet Íslands sem byggist annars vegar á fríverslunarsamningum EFTA sem taka til 38 ríkja og hins vegar á tveimur tvíhliða fríverslunarsamningum við Kína og Færeyjar. Um 6,6% af útflutningi Íslands fara til þessara 40 samstarfsríkja samanborið við 78% sem fara til ESB eða EFTA-ríkjanna. Þau 15% sem eftir standa eru útflutningur án fríverslunarívilnana sem byggist því á strípuðum reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Í umfjöllun um jafnrétti kynjanna gerði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, grein fyrir þróun og stöðu jafnréttismála á Íslandi. Hann ítrekaði að baráttan fyrir auknu kynjajafnrétti kæmi öllum við og að sú staðreynd að enn hallaði á konur hvað varðaði völd, áhrifastöður og laun hefði neikvæð áhrif á samfélagið, lífsgæði og stöðu kvenna og karla. Ísland hefði í níu ár verið í fyrsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um stöðu kynjajafnréttis í alþjóðlegum samanburði. Sú staða væri hvatning til að gera enn betur. Hann vísaði jafnframt til laga um jafnlaunavottun sem tóku gildi 1. janúar 2018 og ætlað er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Þá ítrekaði hann að þverpólitísk samstaða væri lykillinn að árangri. Angelika Mlinar sagði Evrópuþingið meðvitað um að Ísland væri í fararbroddi Evrópuríkja þegar kæmi að jafnrétti kynjanna. Á Evrópuþinginu væru starfræktar nefndir á þessu sviði og mest hefði farið fyrir umfjöllun um kynlífsheilbrigði og frjósemisréttindi. Þá stæðu vonir til að konum á Evrópuþinginu fjölgaði í komandi kosningum en þær skipuðu nú 37,4% þingsæta.
    Næst var fjallað um samskipti Íslands og ESB. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á að EES-samningurinn væri undirstaðan í nánum samskiptum Íslands og ESB og að hagsmunum Íslands væri best borgið utan ESB. Það væri sameiginleg ábyrgð EES/ EFTA-ríkjanna og ESB að tryggja framkvæmd samningsins. Þrátt fyrir að EES-samningurinn nyti stuðnings á Íslandi væru uppi vissar gagnrýnisraddir. Þannig væru dæmi um að markaðsaðgangur Íslands í gegnum EES væri nú verri en sumra ríkja utan EES. Hann sagði Ísland hafa gripið til aðgerða til að bæta virkni EES-samningsins. Innleiðingarhallinn stæði í 1% og hefði ekki verið minni síðan 2010. Áhersla hefði verið lögð á að bæta gæði innleiðinga ESB-gerða auk þess sem til stæði að auka viðveru fulltrúa íslenskra ráðuneyta í Brussel. Ísland legði auk þess aukna áherslu á aðkomu að mótun ESB-gerða á mótunarstigi í gegnum EES-samstarfið. Þá vakti Guðlaugur Þór athygli á starfshópi sem hann skipaði í ágúst 2018 til að vinna skýrslu um aðild Íslands að EES-samningnum. Starfshópurinn mun skila skýrslunni 2019. Michael Mann, sendiherra sendinefndar ESB á Íslandi, lagði áherslu á náin samskipti ESB og EES/EFTA-ríkjanna. ESB kynni að meta þau skref sem Ísland hefði tekið til að stuðla að betri virkni EES-samningsins. Þá væri Ísland virkur þátttakandi í verkefnum ESB á borð við Horizon 2020 og Erasmus-áætlunina. Mann lýsti yfir þakklæti fyrir þá samstöðu sem Ísland hefði sýnt í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi. Þá væri tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarafurðir jákvætt skref fyrir báða aðila. Áslaug Arna sagði að sú endurskoðun sem lagst hefði verið í til að bæta framkvæmd EES-samningsins hefði einnig náð til Alþingis. Alþingi hefði í því augnamiði lagst í heildarendurskoðun á reglum um þinglega meðferð EES-mála. Nýjar reglur hefðu verið samþykktar og vonir stæðu til að þær gerðu EES-málum hærra undir höfði og mundu um leið auka skilvirkni við upptöku og innleiðingu ESB-gerða.
    Í lok fundar var fjallað um starfsreglur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB og samþykkt samhljóða að fundum sameiginlegu þingmannanefndarinnar yrði fækkað í einn á ári eins og reyndin hefði verið frá árinu 2014.

Fundir þingmannanefndar EFTA í Brussel og Genf 20.–23. nóvember 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynjar Níelsson, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Í Brussel fór fram fundur þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna um EES-samstarfið og fundur með Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB um Brexit, auk fleiri funda. Í Genf var fundað með ráðherraráði EFTA um fríverslunarmál auk þess sem fundað var með fulltrúum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) o.fl. um stöðu alþjóðaviðskipta.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna var m.a. fjallað um niðurstöðu fundar EES-ráðsins sem ráðherrarnir sátu fyrr um daginn ásamt fulltrúum ráðs, framkvæmdastjórnar og utanríkisþjónustu ESB. Á fundinum var einkum fjallað um Brexit, viðskipti og svokallaðan upptökuhalla sem mælir tölu þeirra gerða sem bíða upptöku í EES-samninginn. Rætt var um stöðu Brexit-ferlisins eftir að drög að útgöngusamningi Bretlands lágu fyrir, samkomulag um gagnkvæm réttindi borgara og hvernig EFTA-ríkin mundu standa að viðræðum við Bretland um framtíðarskipan viðskiptatengsla. Um hið síðastnefnda hafa þrír möguleikar einkum verið nefndir: að EFTA-ríkin fjögur geri saman samning við Bretland; að EES/EFTA-ríkin þrjú án Sviss hafi samflot um slíkan samning; og að síðustu að hvert EFTA-ríki um sig geri tvíhliða samning við Bretland. Í umræðu um upptökuhallann kom fram að taka ætti um 170 gerðir á sviði fjármálaþjónustu upp í EES-samninginn í náinni framtíð en 310 gerðir á því sviði biðu upptöku.
    Á fundi með Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB um Brexit, var m.a. fjallað um drög að útgöngusamningi Bretlands og ESB og mögulega framtíðarskipan tengsla Bretlands og ESB. Áhersla var lögð á að útgöngusamningurinn væri sá besti sem mögulegt væri að ná miðað við kröfur og skilyrði samningsaðila jafnvel þótt honum væri lýst sem samningi sem allir töpuðu á. Í útgöngusamningnum er kveðið á um að hann standi framar löggjöf á Bretlandseyjum svo að ákvæðum hans verður ekki breytt einhliða af breskum stjórnvöldum síðar. Einn umdeildasti þáttur samningsins er þrautavaralausn (e. backstop) til þess að koma í veg fyrir landamæri á milli Norður-Írlands og Írlands. Þar er kveðið á um að nái ESB og Bretland ekki samkomulagi um framtíðarskipan tengsla sinna sem tryggi landamæraleysi á Írlandi verði Bretland áfram í tollabandalagi við ESB svo að ekki komi til landamæra þar. Verði Bretland í slíku tollabandalagi getur landið ekki gert sjálfstæða fríverslunarsamninga við ríki utan ESB sem hefur verið keppikefli Brexit-sinna. Eftir að Bretland gengur úr ESB 29. mars 2019 tekur samkvæmt drögum að útgöngusamningnum við svokallað bráðabirgðatímabil til 31. desember 2020 þar sem Bretland yrði áfram hluti af innri markaði ESB og færi gæfist á að semja um framtíðarskipan tengsla. Mögulegt yrði að framlengja bráðabirgðatímabilið ef nauðsyn krefði en þó aðeins einu sinni.
    Þingmannanefnd EFTA átti einnig fund um viðskiptastefnu ESB og kerfi til þess að hafa eftirlit með fjárfestingum Kína innan ESB. Fram kom að eftir langt skeið þar sem Kína virtist þróast á leið til markaðshagkerfis væri umfang ríkisrekstrar að aukast í hagkerfinu á nýjan leik. Fjárfestingar erlendis af hálfu Kína væru ekki síður á pólitískum en viðskiptalegum forsendum og því væri verið að koma á kerfi til að fylgjast með fjárfestingum innan ESB.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í Genf áttu þingmenn og ráðherraráð EFTA fund um fríverslunarmál en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Í framsöguræðu sinni fór Johann N. Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss og formaður ráðherraráðs EFTA, yfir stöðu fríverslunarviðræðna en EFTA á í virkum viðræðum við Malasíu, Víetnam, Indland og Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja; Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs. Þá á EFTA í viðræðum um uppfærslu samnings við Mexíkó frá árinu 2000 en slíkar uppfærslur snúa einkum að því að samningar sem áður tóku einungis til vöruviðskipta taki einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa og hugverkaréttinda. Þreifingar standa yfir við Síle og Kanada um að hefja formlegar viðræður um sams konar uppfærslur á fríverslunarsamningum þessara ríkja og EFTA. Helstu forgangsmarkmið EFTA í fríverslunarmálum voru kynnt á fundinum en þau eru m.a. að koma í veg fyrir truflun á viðskiptum við Bretland eftir Brexit, kanna möguleika á að hefja fríverslunarviðræður við Bandaríkin, uppfæra eldri fríverslunarsamninga EFTA á mörkuðum þar sem fyrirtæki EFTA standa höllum fæti gagnvart samkeppnisaðilum og halda áfram að útvíkka fríverslunarnet EFTA til hávaxtaríkja. Jafnframt því er stuðningur EFTA við WTO og regluverk alþjóðaviðskipta undirstrikað. Loks var fjallað um að fella jafnrétti og kynjasjónarmið inn í fríverslunarsamninga EFTA, annaðhvort formálsorð þar sem fjallað er um mannréttindi eða þá kafla sem fjalla um vinnuvernd og sjálfbæra þróun. Starfshópur vinnur að því að endurskoða formálsorð og ákvæði samninga um vinnuvernd og sjálfbæra þróun í þessu skyni. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir spurði út í leiðir EFTA til þess að fylgjast með stöðu mannréttinda í samstarfsríkjum og hvort metið hefði verið hvort fríverslunarsamningar EFTA hefðu haft áhrif á mannréttindi í samningslöndum. Því var svarað til að þegar fríverslunarsamningar væru gerðir eða uppfærðir væru mannréttindaákvæði áréttuð en að EFTA fylgdist ekki með framfylgd þeirra með virkum hætti.
    Einnig fundaði þingmannanefnd EFTA í Genf með fulltrúum WTO um stöðu stofnunarinnar í ljósi þess að Bandaríkjastjórn hefur stöðvað skipun dómara í gerðardóma hennar. Bandarísk stjórnvöld krefjast þess að skýrari skilyrði og nákvæmari reglur verði settar um skipan dómara til þess að tryggja hæfni þeirra og á meðan eru nýir dómarar ekki skipaðir. Af sjö föstum dómarastöðum hjá WTO eru einungis fjórar setnar og þar af eru dómarar frá Kína, Indlandi og Bandaríkjunum. Þeir geta ekki dæmt í deilumálum sinna ríkja en flest mál sem kærð eru til WTO snúa einmitt að þeim. Ýmis ríki og aðrir aðilar, þar á meðal Kanada og ESB, hafa lagt fram óformlegar umbótatillögur til þess að koma til móts við kröfur Bandaríkjanna um strangari skilyrði við dómaraskipan. Þá var fjallað um einhliða tollahækkanir Bandaríkjanna á stál- og álinnflutning sem ráðist var í á grundvelli þarlendra laga um að breyta megi viðskiptakjörum af þjóðaröryggisástæðum. Tollahækkanirnar eru þvert á samninga WTO. Bandaríkin hafa verið kærð fyrir hækkanirnar en vonast er til að deilan leysist utan dóms. Ef dómur gengur í málinu er óttast að hann geti orðið afdrifaríkur. Ef dæmt verður Bandaríkjunum í vil þýðir það að aðildarríki WTO geta hvenær sem er virt umsamda tolla að vettugi og beitt fyrir sig þjóðaröryggisrökum. Ef dómur gengur gegn Bandaríkjunum er óttast að Bandaríkjastjórn kunni að draga sig úr starfi WTO sem yrði mikið högg fyrir fjárhag stofnunarinnar.
    Þá kom Arancha González, forstjóri Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar (e. International Trade Center), á fund þingmannanefndar EFTA og fór yfir stöðu alþjóðaviðskipta. Hún sagði alþjóðleg viðskipti líða fyrir stórveldasamkeppni Bandaríkjanna og Kína. Af hálfu Bandaríkjastjórnar væri vilji til þess að veikja regluverk hnattrænna viðskipta og helsta einkenni þeirra sem eru virðisaukandi keðjur þvert yfir landamæri. Þá væri mikil áhersla í Bandaríkjunum á að ná niður vöruskiptahalla við útlönd án þess að sterk hagfræðileg rök stæðu þar að baki. Á meðan beittu kínversk stjórnvöld margs konar ríkisinngripum í hagkerfi sitt til að ná settu markmiði um að Kína verði jafnoki fremstu ríkja heims á sviði hátækni á næstu árum.
    Loks var á fundi þingmannanefndar EFTA kosin ný forusta fyrir nefndina árið 2019 og verður Smári McCarthy formaður og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen varaformaður. Því fylgir jafnframt að Smári verður af hálfu EFTA annar formaður þingmannanefndar EES en hinn formaðurinn kemur frá Evrópuþinginu.

51. fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 12.–13. desember 2018.
    Fundur þingmannanefndar EES var haldinn í Evrópuþinginu í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, og Andrés Ingi Jónsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru staða EES-samstarfsins, væntanleg útganga Bretlands úr ESB (Brexit), neytendamál og vinnumarkaðsmál.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að flytja framsöguræður í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Philip Bittner fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Claude Maerten fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni og Andri Lúthersson fyrir hönd norskrar formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni. Í umfjöllun þeirra og umræðunni sem á eftir fylgdi var m.a. fjallað um áskoranir EES-samstarfsins. Fjölgun stofnana ESB með reglugerðar- og eftirlitsvald hefur þrengt að hinu svokallaða tveggja stoða kerfi EES-samningsins þótt hingað til hafi tekist að aðlaga þær tveggja stoða kerfinu með því að breikka verkefnasvið Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Þá var farið yfir svokallaðan upptökuhalla sem mælir fjölda ESB-gerða sem bíða upptöku í EES-samninginn en um helmingur þeirra er á sviði fjármálamarkaða. Búist er við að um 150 gerðir á því sviði verði teknar upp í EES-samninginn á fyrri helmingi ársins 2019 sem minnkar upptökuhallann umtalsvert. Mikilvægi þess að upptaka gerða í EES-samninginn gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans.
    Í umfjöllun fundarins um Brexit fór Andri Lúthersson, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, yfir Brexit-undirbúning EES/EFTA-ríkjanna sem hafa haft náið samráð bæði við ESB og Bretland þótt þau komi ekki að samningaborði þessara aðila. Farið var yfir samkomulag um óbreytt tengsl við Bretland á svokölluðu bráðabirgðatímabili frá 29. mars 2019 til 31. desember 2020, þ.e. ef útgöngusamningur Bretlands og ESB verður fullgiltur. Um 10% af útflutningi EFTA-ríkjanna fara til Bretlands svo að ríkir hagsmunir eru í húfi. EFTA-ríkin og Bretland hafa unnið hörðum höndum að því að spegla samkomulag úr útgöngusamningi ESB og Bretlands um borgararéttindi. Breski Evrópuþingmaðurinn Catherine Stihler fór yfir nýfallinn úrskurð Evrópudómstólsins um að Bretland gæti einhliða afturkallað virkjun 50. gr. Lissabon-sáttmálans og stöðvað útgönguferlið án þess að slíkt kallaði á samþykki hinna 27 aðildarríkjanna. Þá sagði Stihler engan meiri hluta í breska þinginu fyrir fyrirliggjandi útgöngusamningi og þar sem rúmir 100 dagar væru í útgönguna 29. mars 2019 hefði hún miklar áhyggjur af stöðu 3,5 milljóna ESB-borgara sem búa í Bretlandi og 1,5 milljóna Breta sem búa á meginlandi Evrópu. Loks kom fram að EFTA-ríkin ynnu að varúðarráðstöfunum og áætlunum til að bregðast við hugsanlegri útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.
    Á fundinum var fjallað um neytendamál en framkvæmdastjórn ESB lagði fram margvíslegar tillögur á því sviði í apríl 2018 undir heitinu „Nýr samningur fyrir neytendur“ (e. New Deal for Consumers). Evrópuþingmaðurinn Daniel Dalton, framsögumaður nefndar Evrópuþingsins um innri markaðinn og neytendavernd í málinu, gerði grein fyrir tillögunum. Þær snúa að réttindum neytenda og kveða m.a. á um betri framfylgni og harðari viðurlög við broti á reglum um neytendavernd. Viðurlög skulu jafnframt samræmd svo að þau séu ekki vægari í sumum aðildarríkjum en öðrum. Þá snúa tillögurnar að því að uppfæra neytendavernd í samræmi við tækniþróun og aukna notkun stafrænna miðla til viðskipta. Ákvæði neytendaverndar taka einnig til stafrænnar þjónustu sem er veitt án greiðslu, annarrar en persónuupplýsinga neytenda.
    Loks var fjallað um vinnumarkaðsmál og tillögu framkvæmdastjórnar ESB að evrópskri vinnumálastofnun (e. European Labour Authority) og flutti Evrópuþingmaðurinn Georgi Pirinski úr vinnumarkaðs- og félagsmálanefnd þingsins framsöguræðu. Staðan á evrópskum vinnumarkaði er nú sú að 17 milljónir manna búa eða starfa í öðru aðildarríki ESB en heimalandi sínu. Þá starfa 2,3 milljónir tímabundið í öðru ríki en heimalandi sínu og 1,4 milljónir ferðast daglega yfir landamæri til vinnu sinnar. Loks fara 2 milljónir starfsmanna við samgöngur og flutninga daglega yfir landamæri innan ESB. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að hlutverk hinnar nýju stofnunar verði m.a. að tryggja starfsmönnum og atvinnurekendum aðgang að upplýsingum um réttindi sín og skyldur, styðja samstarf einstakra aðildarríkja um að framfylgja reglum ESB þvert á landamæri, miðla málum á milli aðildarríkja ef deilumál koma upp á sviði vinnumarkaðsmála yfir landamæri og aðstoða við lausn á átökum á vinnumarkaði, t.d. þegar endurskipulagning stórfyrirtækja hefur áhrif á nokkur aðildarríki samtímis.
    Í umfjöllun í lok fundar um framtíðarstarf þingmannanefndar EES var m.a. rætt um þá hugmynd að fundir fari eftirleiðis fram í Evrópuþinginu til þess að tryggja góða þátttöku Evrópuþingmanna og aðgang að þingmönnum í fastanefndum Evrópuþingsins. Þá var ákveðið að fjalla um Brexit, samskipti Sviss og ESB, komandi kosningar til Evrópuþingsins og viðbrögð Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA-ríkjanna við #MeToo-hreyfingunni á næsta fundi nefndarinnar sem ráðgerður er í Evrópuþinginu í Strassborg 13. mars næstkomandi.


5. Ályktanir árið 2018.

Ályktun þingmannanefndar EES:
     *      Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2017, samþykkt í Stavanger 8. maí 2018.

Alþingi, 25. janúar 2019.

Smári McCarthy,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaform. Brynjar Níelsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.