Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 858  —  527. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2018.

1. Inngangur.
    Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, bar á árinu 2018 hæst baráttu gegn hryðjuverkum, átökin í Úkraínu og mannréttindabrot í Rússlandi. Einnig var mikið rætt um jafnrétti kynjanna, málefni flóttamanna, loftslagsmál og netöryggi.
    Átökin í Úkraínu, sem hófust árið 2014, og innlimun Krímskagans var áberandi í umræðum á þinginu á árinu. Á ársfundi sínum beindi þingið þeim tilmælum til átakaaðila að axla ábyrgð á lausn deilunnar. Kallað var eftir því að hernaðaraðgerðir í Úkraínu yrðu stöðvaðar og að rússnesk stjórnvöld féllu frá innlimun Krímskaga. Auk þess samþykkti þingið aukaályktun um mannréttindabrot á Krímskaga þar sem ofbeldi og kúgun var fordæmd gegn minnihlutahópum á svæðinu, sérstaklega töturum og Úkraínumönnum. Landsdeild Svíþjóðar lagði fram aukaályktun á ársfundi um mannréttindabrot í Rússlandi og var efni hennar til umræðu á samráðsfundi Norðurlanda og Eystrasaltslanda í maí. Í aukaályktuninni var fjallað um ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu og ógnir við öryggi mannréttindafrömuða í Rússlandi. Rússnesk stjórnvöld voru hvött til að rannsaka árásir gegn baráttufólki fyrir mannréttindum. Á samráðsfundi Norðurlanda og Eystrasaltslanda var bent á að mikilvægt væri að beina sjónum að mannréttindabrotum í Rússlandi vegna þess að heimsmeistarakeppnin í fótbolta væri haldin í Rússlandi á árinu. Gagnrýnislaus þátttaka í keppninni gæti rennt styrkari stoðum undir stjórn Pútíns Rússlandsforseta. Í kjölfar samþykktar aukaályktananna tveggja á ársfundinum yfirgaf landsdeild Rússlands þingsal.
    Baráttan gegn róttækni meðal múslima í Evrópu var til umfjöllunar á vetrarfundi ÖSE. Bent var á þá öryggisógn sem skapaðist við það að vígamenn frá ÖSE-ríkjunum, sem tekið hefðu þátt í starfi hryðjuverkasamtaka, sneru aftur til heimalanda sinna. Í aukaályktun sem ÖSE-þingið samþykkti á ársfundi var mikilvægi þess að berjast gegn hryðjuverkum og róttækni ítrekað. Á haustfundi þingsins, sem haldinn var í Kirgisistan, var einnig rætt um áhrif af starfsemi hryðjuverkasamtaka í Afganistan á stjórnmálaástand og öryggi í nágrannalöndunum.
    Málefni flóttamanna voru rædd á öllum fundum ÖSE-þingsins á árinu. Á ársfundi ÖSE-þingsins í Berlín var ályktað bæði í efnahagsmálanefnd og í lýðræðis- og mannréttindanefnd um málefnið auk þess sem samþykkt var aukaályktun um málefni barna á flótta. ÖSE-þingið hvatti aðildarlöndin til að greina og takast á við orsakir þess að fólk neyddist til að flýja heimili sín og vinna gegn glæpasamtökum sem högnuðust á neyð flóttafólks. Einnig voru aðildarlönd minnt á að alþjóðalög banna að flóttafólki sé vísað aftur til síns heima ef ástæða er til að ætla að það sæti ofsóknum í heimalandi sínu.
    Fjallað var um mikilvægi kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna í tengslum við fjölmargar umræður á árinu, þar á meðal umræðu um baráttu gegn róttækni og hryðjuverkum, loftslagsmál og málefni flóttamanna. Sérstök ályktun um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi var samþykkt á ársfundi ÖSE-þingsins. Auk þess ályktuðu efnahagsmálanefnd og lýðræðis- og mannréttindanefnd um mikilvægi þess að tryggja þátttöku kvenna í stjórnmálum, hagkerfinu og í umræðum um loftslagsmál. Meðlimir Íslandsdeildar sóttu árlegan hádegisverð um jafnréttismál í boði sérstaks fulltrúa ÖSE-þingsins í jafnréttismálum.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, starfar á grundvelli Helsinki-lokagerðarinnar (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Með Helsinki-lokagerðinni skuldbundu aðildarríkin sig til þess að bæta samstarf sín á milli, virða landamæri hvert annars og tryggja mannréttindi íbúa sinna. Lagalega séð er Helsinki-lokagerðin hins vegar ekki hefðbundinn sáttmáli þar sem hann er ekki staðfestur af lögþingum í löndum þeirra þjóðhöfðinga sem undir hann skrifa. ÖSE er ólík öðrum fjölþjóðlegum stofnunum hvað þetta varðar. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 57 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 323 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið hefur samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Einnig hefur ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram.
    Þessu til viðbótar getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og stjórnarnefnd tekið ákvörðun um stofnun sérnefndar (e. ad hoc committee) til að ræða, taka afstöðu til og vera ráðgefandi um aðkallandi málefni eða úrlausnarefni. Einnig eru stofnaðir sérstakir vinnuhópar (e. working group) og þingmannalið (e. parliamentary team) um ákveðin málefni. Sérnefndir hafa t.d. verið stofnaðar um málefni Abkhasíu, Kósóvó, Hvíta-Rússlands og fangabúðir bandaríkjahers í Gvantanamó á Kúbu. Í lok árs 2018 eru starfandi sérstakar nefndir eða hópar um fólksflutninga, baráttuna gegn hryðjuverkum og um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins. Starf sérnefndanna hefur oftar en ekki skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi. Forseti ÖSE-þingsins getur einnig skipað sérstaka fulltrúa í tilteknum málum. Í lok árs 2018 eru starfandi sérstakir fulltrúar um Suðaustur-Evrópu, sáttamiðlanir, gyðingahatur, kynþáttahatur og fordóma, jafnrétti kynjanna, mansal og málefni Miðjarðarhafsins og Suðaustur-Evrópu.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeild var kosin á þingfundi 14. desember 2017 og voru aðalmenn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, þingflokki Miðflokks, Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðmundur Andri Thorsson, þingflokki Samfylkingar. Varamenn voru Sigurður Páll Jónsson, þingflokki Miðflokks, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingar. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir alþjóðaritari.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2018 var eftirfarandi:
     1.      Nefnd um stjórnmál og öryggismál
Gunnar Bragi Sveinsson

     2.      Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál
Bryndís Haraldsdóttir

     3.      Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál
Guðmundur Andri Thorsson

    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum ÖSE-þingsins. Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, sótti samráðsfund formanna sendinefnda Norðurlanda og Eystrasaltslanda á ÖSE-þinginu í Helsingborg í maí. Gunnar Bragi og Guðmundur Andri Thorsson sóttu einnig kosningaeftirlit á vegum ÖSE-þingsins í Bandaríkjunum í nóvember.

4. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra funda þrisvar sinnum á ári. Yfirleitt er vetrarfundur haldinn í febrúar, ársfundur í júlí og haustfundur í október.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 22.–23. febrúar 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, og Guðmundur Andri Thorsson, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu 240 þingmenn frá 53 ríkjum en að venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE, auk þess sem fram fór sameiginlegur fundur málefnanefndanna. Meginviðfangsefni fundarins var baráttan gegn róttækni og hryðjuverkum, átök á ÖSE-svæðinu og umræður um hvernig ÖSE-þingið gæti haft meiri áhrif í átt að lausn átaka.
    Gunnar Bragi Sveinsson tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál. Nefndina ávarpaði m.a. María Victoria González Román, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Spánar hjá ÖSE. Hún lýsti ánægju sinni með það að vera fyrsta konan til að gegna embætti formanns nefndarinnar og sagði að megináhersla nefndarinnar árið 2018 yrði á aukna þátttöku kvenna. Annar meginþáttur í starfi nefndarinnar yrði barátta gegn vopnasmygli, mansali og ólöglegum fjármagnsflutningum og tengsl þessara þátta við hryðjuverkastarfsemi og skipulögð glæpasamtök. Einnig yrði sjónum beint að landamæraöryggi og þeirri öryggisógn sem skapaðist þegar vígamenn frá ÖSE-ríkjunum, sem tekið hafa þátt í starfi hryðjuverkasamtaka, sneru heim aftur. Lamberto Zannier, fulltrúi ÖSE gagnvart þjóðarbrotum (e. OSCE High Commissioner on National Minorities), ávarpaði einnig fundinn. Hann benti á að öll langvinn átök á ÖSE-svæðinu ættu rætur sínar að rekja til þjóðernishópa sem hefðu ekki aðlagast samfélögunum þar sem þeir byggju. Þessi átök væru ekki óumflýjanleg heldur bæru vott um misheppnaða aðlögun og pólitískar ákvarðanir leiðtoga. Útilokun minnihlutahópa gæti leitt af sér róttækni og hryðjuverkaógn. Zannier sagði menntun ekki eiga að bæla niður þjóðernisvitund minnihlutahópa heldur stuðla að aðlögun þeirra. Á fundinum var haldin sérstök umræða um vopnatakmarkanir og afvopnun. Erindi hélt dr. Lassina Zerbo, framkvæmdastjóri skrifstofu samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn (CTBTO). Zerbo sagði heimsbúa geta treyst því að engar kjarnorkuvopnatilraunir ættu sér stað án vitneskju stofnunarinnar, en hún nýtir sér víðtækt net eftirlitstækja um allan heim. Hann sagði hins vegar ótta almennings við kjarnavopn hafa aukist í kjölfar tilraunasprenginga og átaka á landamærum Rússlands.
    Bryndís Haraldsdóttir tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Á fund nefndarinnar kom m.a. Kairat Sarybay, formaður efnahags- og umhverfisnefndar ÖSE og sendiherra Kasakstans hjá ÖSE. Hann kynnti vinnuáætlun nefndarinnar fyrir árið 2018 en í henni var lögð áhersla á hagvöxt gegnum nýsköpun, mannauð, góða stjórnunarhætti og upptöku endurnýjanlegra orkugjafa. Á fundinum var sérstök umræða um langtímastefnu til að takast á við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Erindi hélt Vuk Zugic, sendiherra Serbíu hjá ÖSE, sem stýrir verkefnum ÖSE á sviði efnahags- og umhverfismála. Zugic sagði mikilvægt að vinna að jafnrétti kynjanna og innleiða kynjasjónarmið í alla stefnumótun í efnahags- og umhverfismálum.
    Guðmundur Andri Thorsson tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Nefndina ávarpaði m.a. Sian MacLeod, formaður nefndar ÖSE um lýðræðis- og mannréttindamál og sendiherra Bretlands hjá stofnuninni. Hún greindi frá áherslum nefndarinnar fyrir árið 2018 sem yrðu m.a. á öryggi fjölmiðlafólks, og þá sérstaklega fjölmiðlakvenna, umburðarlyndi gagnvart ólíkum trúarbrögðum og ný verkefni í tengslum við mansal. MacLeod sagði kynjajafnrétti vera grundvöll friðar og öryggis og að áfram yrði barist fyrir því að aðildarlönd ÖSE kæmu sér saman um ályktun gegn ofbeldi gagnvart konum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, framkvæmdastjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR), ávarpaði einnig nefndina. Hún lýsti ánægju með gott samstarf stofnunarinnar við ÖSE-þingið í tengslum við kosningaeftirlit. Standa þyrfti vörð um lýðræðið og þörf væri á stöðugum umbótum. Sérstaklega væri mikilvægt að auka hlut kvenna í stefnumótun og þar mætti byggja á valdeflandi áhrifum #metoo-hreyfingarinnar. Ingibjörg Sólrún benti enn fremur á frekari möguleika þingmanna til samstarfs við Lýðræðis- og mannréttindastofnunina. Stofnunin væri boðin og búin að veita þjóðþingum ráðgjöf, t.d. varðandi löggjöf, siðareglur þingmanna og þinglegt eftirlit með hernaðarlegum stofnunum. Á fundinum var haldin sérstök umræða um vernd lýðræðis á tímum vantrausts á fjölmiðlum og falsfrétta (e. fake news). Erindi hélt Harlem Désir, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins fyrir fjölmiðlafrelsi. Í máli sínu sagði hann rangan fréttaflutning grafa undan lýðræðinu og skapa átök í samfélögum. Einna alvarlegast væri þegar slíkur fréttaflutningur væri runninn undan rifjum stjórnvalda. Mikilvægt væri hins vegar að grípa ekki til ritskoðunar til að bregðast við misvísandi fréttaflutningi á netinu. Désir nefndi dæmi um ný lög í Þýskalandi sem hefðu tekið gildi í ársbyrjun og miðuðu að því að koma í veg fyrir hatursorðræðu á netinu. Reynslan hefði hins vegar sýnt að samfélagsmiðlar fjarlægðu efni umfram það sem kallað væri eftir í lögunum til að verja sig fyrir ákærum eða greiðslum himinhárra sekta. Lausnin fælist frekar í að bæta fjölmiðlalæsi meðal almennings og að bæta rannsóknablaðamennsku. Désir fjallaði einnig um mikilvægi þess að tryggja öryggi fjölmiðlafólks og vísaði í morðið á Daphne Caruana Galizia, blaðakonu frá Möltu, haustið 2017.
    Á þingfundi sagði George Tsereteli, forseti ÖSE-þingsins, að ÖSE-svæðið stæði frammi fyrir þverrandi trausti milli aðildarlanda og aukinni hættu á átökum milli stórvelda. Hann sagðist mundu leggja áherslu á framfylgd ályktana þingsins og málamiðlun milli átakaaðila í Úkraínu. Á fundinum kynnti Peter Bowness, fulltrúi lávarðadeildar breska þingsins og formaður sérnefndar um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins, vinnu nefndarinnar. Bowness sagði tímaskort vera helsta vandamál þingsins. Ekki gæfist nægur tími til umræðna um mikilvæg málefni. Lausnin á þessu fælist ekki í því að lengja fundartíma, með tilheyrandi tilkostnaði þjóðþinganna og skrifstofu þingsins, heldur frekar að fækka breytingartillögum við ályktanir og sérstökum ályktunum einstakra þingmanna. Abid Qayyum Raja, varaforseti norska þingsins, flutti ávarp á fundinum um baráttuna gegn róttækni meðal múslima í Evrópu. Hann sagði rót hryðjuverkavandans í Evrópu vera misheppnaða aðlögun innflytjenda. Vandamálin væru alls staðar þau sömu og því væri hægt að nýta velheppnaðar aðgerðir á fleiri stöðum. Raja tók dæmi af sínum eigin uppvexti í Noregi. Honum hefði verið kennt að skammast sín fyrir tilfinningar sínar, og hann hefði upplifað ofbeldi bæði heima fyrir og í moskunni og fengið þau skilaboð frá kennurum sínum að hann mundi aldrei ná langt. Raja sagði þessa blöndu vekja reiði meðal ungmenna og vera frjóan jarðveg fyrir boðskap öfgahópa. Hann benti á að á bilinu 3.000–5.000 Evrópubúar hefðu ferðast til Sýrlands eða Íraks til að ganga til liðs við samtökin sem kalla sig Íslamska ríkið. Það skipti höfuðmáli fyrir framtíðaröryggi Evrópu hvernig brugðist yrði við því þegar þessir vígamenn sneru aftur heim. Enn mikilvægara væri að koma í veg fyrir liðssöfnun öfgahópa í framtíðinni. Þar gegndu hófsamir múslimar lykilhlutverki en einnig trúarsamtök og skólakerfið. Í baráttunni gegn róttækni og félagslegu taumhaldi þyrfti að halda á lofti grunngildum á borð við mannréttindi, trúfrelsi, málfrelsi og réttindi kvenna og minnihlutahópa.
    Á fundi stjórnarnefndar vöktu fulltrúar Litháens og Svíþjóðar athygli fundarmanna á bréfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna til forseta þingsins í febrúar sem Gunnar Bragi Sveinsson, formaður Íslandsdeildar, skrifaði undir. Í bréfinu var forseti hvattur til þess að auka eftirlit ÖSE-þingsins með framfylgd ályktana þingsins í aðildarlöndunum. George Tsereteli, forseti ÖSE-þingsins, sagðist vera sammála efni bréfsins. Helsta vandamál þingsins væri að tryggja sýnileika og framfylgd ályktana þingsins, vandamál sem þjóðþing aðildarríkjanna glímdu einnig við.
    Samhliða vetrarfundi fundaði Íslandsdeild með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um starfsemi Lýðræðis- og mannréttindastofnunarinnar. Gunnar Bragi Sveinsson fundaði einnig með fulltrúum Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna ásamt fulltrúum Bretlands.

Samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan ÖSE-þingsins í Helsingborg 28. maí 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sótti fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu 12 þingmenn Norðurlanda og Eystrasaltslandanna innan ÖSE-þingsins. Á dagskrá var undirbúningur undir ársfund þingsins í Berlín í júlí 2018, ásamt málstofu um stjórnmál og mannréttindamál í Rússlandi.
    Kent Härstedt, formaður sænsku landsdeildarinnar, opnaði fundinn og hvatti fundarmenn til að taka þátt í ráðstefnu aðildarríkja ÖSE um borgaralegt samfélag (e. civil society) undir heitinu Human Dimension Implementation Meeting (HDIM) sem haldin yrði í september í Varsjá í Póllandi. Þátttaka í ráðstefnunni væri skýr yfirlýsing um stuðning við borgaralegt samfélag á viðsjárverðum tímum.
    Joanna Kurosz, verkefnastjóri Evrasíuverkefna hjá samtökunum Civil Rights Defenders, fór yfir þróun umhverfis mannréttindasamtaka í Rússlandi undanfarin ár. Hún sagði rússnesk stjórnvöld hafa markvisst bælt niður borgaralegt samfélag í landinu frá árinu 2012. Kurosz sagði fjöldamótmæli í kringum þing- og forsetakosningar árin 2011 og 2012 hafa vakið stjórnvöldum ugg. Verst hefði ástandið svo verið í kringum átökin í Úkraínu og innlimun Krímskagans árið 2014. Á þeim tíma hefði andstaða við minnihlutahópa farið saman við andstöðu gegn afskiptum Vesturlanda af málefnum Rússa og aukna þjóðerniskennd. Sagði Kurosz einnig merki um að stöðu kvenna í Rússlandi væri ógnað. Viðhorf svarenda í könnun til stjórnmálaþátttöku kvenna hefðu orðið neikvæðari milli ára og samþykkt hefðu verið lög sem gerðu vægari tilvik heimilisofbeldis ekki refsiverð, þ.e. þau tilvik sem leiddu ekki af sér þörf fyrir aðhlynningu á spítala eða væru ekki tilkynnt oftar en einu sinni á ári. Kurosz sagði lagasetningu vera þá aðferð sem helst hefði verið notuð til að þjarma að borgaralegu samfélagi. Í lagasetningu væri orðalag oft óljóst og stjórnvöldum því gefið færi á að túlka lögin eftir hentugleika. Sem dæmi nefndi hún lög sem samþykkt voru árið 2013 og banna áróður gagnvart börnum um „óhefðbundin kynlífssambönd“. Sagði Kurosz þessi lög hafa verið notuð til að hindra fréttaflutning af ofsóknum gegn hinsegin fólki í Rússlandi. Einnig væru frjáls félagasamtök gjörn á að lenda á lista stjórnvalda yfir erlenda áhrifavalda (e. foreign agents) og þeim gefið að sök að ganga erinda erlendra afla. Til þess að komast af slíkum lista þyrftu félagasamtök að hafna fjárframlögum erlendis frá. Enn fremur hafi félagasamtökum á vegum stjórnvalda fjölgað (e. government-organised non-governmental organisations, GONGOs). Slík samtök störfuðu til að mynda í Þýskalandi og mörg þeirra kæmu fram sem frjáls félagasamtök, án þess að geta tengsla sinna við rússnesk stjórnvöld.
    Bo Petersson, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö, fjallaði um lögmæti rússneskra stjórnvalda. Petersson sagði lögmæti valda Pútíns aðallega hvíla á persónulegum vinsældum hans. Pútín hefði tekist að spila á rússneskar goðsagnir um hlutverk landsins á heimsvísu og styrk þess og að hann hefði ræktað ímynd sína sem sterkur leiðtogi sem yki hróður og völd Rússlands á alþjóðavettvangi. Skoðanakannanir hefðu í gegnum árin sýnt gríðarlegar vinsældir Pútíns. Ánægja með Pútín hefði mælst lægst í kringum kosningarnar árin 2011 og 2012 en þó aldrei undir 50%. Vinsældir Pútíns hefðu hins vegar tekið stökk upp fyrir 80% í kjölfar átakanna í Úkraínu og innlimunar Krímskagans. Petersson sagði augljósa hættu á að Pútín mundi reiða sig einna helst á stórveldisdrauma Rússa til að halda vinsældum sínum.
    Bæði Kurosz og Petersson bentu á mikilvægi þess að ræða um mannréttindamál í tengslum við heimsmeistarakeppnina í fótbolta sumarið 2018 í Rússlandi. Kurosz benti á að þjálfunarbúðir Egypta væru staðsettar í Grosní í Tsjetsjeníu, en þar hefðu árið 2016 verið fjölmörg dæmi um ofsóknir og jafnvel pyntingar og morð lögreglumanna á hinsegin fólki. Mikilvægt væri að fylgjast með umhverfi mannréttindasamtaka í Rússlandi í tengslum við keppnina og því væri líklegt að stjórnvöld tækju hart á gagnrýni í sinn garð á meðan athygli heimsbyggðarinnar beindist að Rússlandi. Petersson sagði að heimsmeistarakeppnin gæfi Pútín tækifæri til að leika hlutverk sitt sem hinn sterki leiðtogi á alþjóðavettvangi og auka þannig vinsældir sínar og lögmæti í augum þegna sinna.
    Margareta Cederfelt, varaformaður sænsku landsdeildarinnar og einn varaforseta ÖSE-þingsins, kynnti ályktunartillögu sænsku landsdeildarinnar fyrir ársfundinn í Berlín um mannréttindabrot í Rússlandi. Í umræðum komu fram áhyggjur af því að ályktunin væri til þess fallin að auka átök milli landa í vestri og austri innan ÖSE-þingsins. Mikilvægt væri að opna fyrir umræðu frekar en að fordæma og einangra Rússa. Cederfelt sagði hins vegar mikilvægt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Með sterku orðalagi væri stutt við borgaralegt samfélag og mannréttindi í Rússlandi. Laurynas Kasciunas, formaður litháísku landsdeildarinnar, kynnti einnig ályktunartillögu sem hvatti ÖSE-ríki til þess að vinna gegn hatursorðræðu og stríðsáróðri. Einnig var rætt um hliðarviðburði á vegum landahópsins og framboð þingmanna til trúnaðarstarfa innan ÖSE-þingsins.
    Roberto Montella, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, var gestur fundarins og ræddi um stefnu og hlutverk þingsins. Þingmenn leituðu svara hjá Montella um bréf landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslanda frá því í janúar þar sem kallað var eftir eftirliti með framfylgd ályktana ÖSE-þingsins. Montella minnti á að hvorki ályktanir ÖSE né ÖSE-þingsins væru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin þar sem ÖSE væri ekki stofnun sem hvíldi á sáttmála (e. treaty) heldur pólitískt samstarf. Hvorki þingið né ÖSE hefðu því völd til þess að krefjast þess að ályktunum væri fylgt eftir. Þrátt fyrir þetta skilaði samstarfið árangri í auknum samræðum. ÖSE-þinginu væri ætlað að skila ráðherranefnd ÖSE pólitískum tillögum og ályktanir hefðu áhrif með því að skapa siðferðilegan þrýsting og vekja athygli á málefnum. Hann ítrekaði að ÖSE-þingið gæti yfirleitt gengið lengra en ÖSE í þessu hlutverki sínu þar sem ályktanir þingsins væru samþykktar með einföldum meiri hluta en ráðherranefnd ÖSE samþykkti ályktanir samhljóða.
    Kent Härstedt lýsti áhyggjum af dvínandi samstöðu meðal ÖSE-ríkja um sameiginleg gildi á borð við mannréttindi og lýðræði. Hann sagði að alþjóðastofnanir þyrftu að gæta sín á því að þjóna ekki þeim tilgangi að veita vafasömum stjórnvöldum lögmæti. Montella sagði mikilvægt að benda á tilvik þar sem aðildarríki ÖSE stæðu ekki skil á skuldbindingum sínum samkvæmt Helsinki-lokagerðinni. Aðildarríkin hefðu öll skrifað undir gerðina og þannig lýst vilja sínum til að fara eftir þeim gildum sem þar væri að finna. Á hinn bóginn þyrfti að forðast það að einangra eða móðga ríki sem brytu gegn þessum sameiginlegu gildum. Eftir fremsta megni þyrfti að halda áfram samræðum, án þess þó að stofnunin leyfði stjórnvöldum að nota sig.

Ársfundur ÖSE-þingsins í Berlín 7.–11. júlí 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, og Guðmundur Andri Thorsson, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá ríkjum í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu en yfirskrift fundarins var Hlutverk þjóðþinga við innleiðingu skuldbindinga ÖSE-samstarfsins. Meginviðfangsefni fundarins voru átök í Úkraínu og í Nagorno-Karabakh, mannréttindabrot í Rússlandi, málefni barna á flótta og barátta gegn kynbundnu ofbeldi.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins. Gunnar Bragi Sveinsson tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál. Í ályktun nefndarinnar var ítrekað mikilvægi þess að aðildarríkin virtu grundvallarreglur alþjóðalaga, mannréttindi og réttarríkið. Sérstaklega þyrftu aðilar að átökum að axla aukna ábyrgð á að leysa átök í Úkraínu, Nagorno-Karabakh, Georgíu og Moldóvu. Þingið ítrekaði afstöðu sína til átakanna í Úkraínu og kallaði eftir friðarviðræðum sem byggðar yrðu á Minsk-samkomulaginu og jafnframt eftir því að rússnesk stjórnvöld létu af hendi Krímskaga. Þá fagnaði þingið þeim áfanga sem náðst hefði í viðræðum um átökin um Transnístríusvæðið í Moldóvu og hvatti átakaaðila til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt friðarviðræðunum. Kallað var eftir aðgerðum til að auka netöryggi milli ríkja og þróun bindandi alþjóðlegra sáttmála um málefnið til að koma í veg fyrir átök vegna notkunar upplýsingatækni. Aðildarríki ÖSE voru einnig hvött til þess að skuldbinda sig til að fækka kjarnorkuvopnum og innleiða ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1540 um að koma í veg fyrir fjölgun kjarnavopna. Loks voru þjóðþing aðildarríkjanna hvött til að sinna eftirliti með herjum, öryggissveitum og leyniþjónustustofnunum í eigin löndum og tryggja að þessar stofnanir virtu mannréttindi og störfuðu í samræmi við lög og reglur.
    Bryndís Haraldsdóttir tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Í ályktun nefndarinnar var ítrekað að orkuöryggi væri forsenda hagvaxtar og stöðugleika og að nauðsynlegt væri að auka notkun endurnýjanlegra og sjálfbærra orkugjafa. Þingið ályktaði að loftslagsbreytingar sköpuðu brýna ógn við öryggi ÖSE-ríkja. Þingið fagnaði þátttöku landa í Parísarsamkomulaginu og yfirlýsingu fjölda borgarstjóra og ríkisstjóra í Bandaríkjunum um áframhaldandi stuðning við samkomulagið, þrátt fyrir ákvörðun Trump Bandaríkjaforseta um að draga landið út úr samkomulaginu. Aðildarríki ÖSE voru hvött til þess að vinna gegn spillingu og til þess að leggja áherslu á gagnsæi varðandi raunverulegt eignarhald fyrirtækja (e. beneficial ownership) í þeim tilgangi. Kallað var eftir umhverfisvænum stjórnarháttum og bent á að ný tækni, stafræna hagkerfið og vísindi gegndu mikilvægu hlutverki við að leysa þann vanda sem umhverfið stæði frammi fyrir. ÖSE-ríki voru hvött til þess að greina og takast á við orsakir þess að fólk neyddist til að flýja heimili sín og til þess að vinna saman að því að takast á við fólksflutninga.
    Guðmundur Andri Thorsson tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Í ályktun nefndarinnar var lýst yfir áhyggjum af stöðu mannréttinda á ÖSE-svæðinu undangengið ár og minnt á skuldbindingar aðildarríkjanna samkvæmt Helsinki-lokagerðinni. Þingið ályktaði enn fremur að þjóðþing aðildarríkjanna hefðu ekki sinnt skyldu sinni sem eftirlitsaðili með því að aðildarríki ÖSE uppfylltu skuldbindingar sínar. Þá fordæmdi þingið að aðildarríki ÖSE færu á svig við lýðræði, mannréttindi og réttarríkið í skjóli yfirlýsts neyðarástands. Lýst var vonbrigðum yfir því að yfirlýsing um neyðarástand í Tyrklandi væri enn í gildi. Ítrekað var að alþjóðalög um mannréttindi og mannúð giltu einnig á átakasvæðum og hernumdum svæðum, ekki síst réttur flóttamanna til að snúa aftur til síns heima. Aðildarríki voru hvött til að vinna gegn glæpasamtökum sem högnuðust á neyð flóttafólks og sérstaklega gegn þrælasölu í Líbíu. Minnt var á að alþjóðalög banna að flóttafólki sé vísað aftur til síns heima ef ástæða er til að ætla að það sæti ofsóknum í heimalandi sínu. Þjóðþing aðildarríkja ÖSE voru hvött til þess að nýta siðareglur sínar til að vinna gegn hatursorðræðu gegn fólki af ákveðnum kynþáttum, trú eða þjóðerni. Einnig voru þingin hvött til þess að leita til lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE (e. ODIHR) sem álitsgjafa varðandi það hvort ný lög væru í samræmi við skuldbindingar ríkjanna samkvæmt Helsinki-lokagerðinni.
    Ályktanir nefndanna voru samþykktar á þingfundum ÖSE-þingsins og auk þess voru til viðbótar samþykktar 16 aukaályktanir, en saman mynduðu þær Berlínaryfirlýsinguna. Á meðal aukaályktana voru tvær um Rússland, önnur um mannréttindabrot í Rússlandi og hin um mannréttindabrot á Krímskaga. Í ályktun um mannréttindabrot í Rússlandi, sem lögð var fram af Margaretu Cederfelt frá Svíþjóð, voru rússnesk stjórnvöld hvött til þess að setja lög gegn hatursglæpum og verja fórnarlömb ofbeldis, sérstaklega þá sem yrðu fyrir árásum vegna kynhneigðar sinnar eða kynímyndar. Þá voru rússnesk yfirvöld hvött til að framfylgja skuldbindingum sínum samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu með því að rannsaka árásir og ógnir við öryggi mannréttindafrömuða í Rússlandi og einnig hvött til þess að afnema sérstök lög um frjáls félagasamtök sem starfa í þágu erlendra aðila. Í ályktuninni var sérstaklega minnst á ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu. Fulltrúar þingmannanefndar Rússa töluðu ítrekað gegn aukaályktununum og sögðu þær m.a. innihalda staðreyndavillur og rangfærslur. Rússar beindu máli sínu einnig gegn Svíum og sögðu hatursorðræðu gegn múslimum og innflytjendum þar í landi vera áhyggjuefni og sömuleiðis uppgang nýnasista. Christian Holm Barenfeld, þingmaður frá Svíþjóð og framsögumaður ályktunarinnar, sagði það engar fréttir að glæpamenn fyndust í Svíþjóð. Hins vegar væru ofsóknir og mismunun gegn hinsegin fólki í Rússlandi studdar af stjórnvöldum. Rússneski þingmaðurinn Artem Turov sagði Rússland vera fjölmenningarlegt land og benti á að í ritum flestallra trúarbragða væri hefðbundnum gildum um fjölskyldumynstur haldið á lofti. Rússland væri tilbúið að verja þessi gildi.
    Í umræðum sögðust þingmenn annarra landa uggandi um stöðu frjálsra félagasamtaka og hinsegin fólks í Rússlandi. Í umræðum um aukaályktun um mannréttindabrot á Krímskaga sagði Sergey Mamedov, þingmaður frá Rússlandi, rangt að tala um hernumin svæði Úkraínu. Þessi landsvæði væru rússnesk og yrðu það burtséð frá ályktunum ÖSE-þingsins eða annarra stofnana. Á Krímskaga væri uppgangur í efnahagslífinu og 60% hækkun hefði orðið á launum auk þess sem eftirlaun hefðu verið tvöfölduð. Báðar voru ályktanirnar samþykktar með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða.
    Í umræðum um ályktun um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi greindi Guðmundur Andri Thorsson frá vinnu Alþingis við að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi innan þingsins. Hann sagði frá því hvernig íslenskar konur hefðu árið 2017 deilt sögum af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á netinu undir myllumerkinu #metoo. Sögur kvenna í stjórnmálum hefðu síðan orðið hvatinn að því að alþingismenn beindu sjónum sínum að kynferðislegri áreitni og ofbeldi á rakarastofuviðburði í þinginu. Í kjölfarið hefði einnig verið ráðist í endurskoðun á siðareglum þingmanna og bætt við þær klausum sem bönnuðu kynferðislega áreitni gagnvart öðrum þingmönnum, starfsfólki eða gestum þingsins. Guðmundur Andri sagði þessar breytingar hafa verið bæði tímabærar og nauðsynlegar. Aðrar aukaályktanir fjölluðu m.a. um málefni barna á flótta, baráttu gegn hryðjuverkum og róttækni, áratuginn síðan stríðinu í Georgíu lauk, baráttu gegn mansali og aðgerðir gegn hatursorðræðu og stríðsáróðri.
    Í lok ársfundar var George Tsereteli, þingmaður frá Georgíu, kjörinn forseti ÖSE-þingsins. Einnig voru sjálfkjörnir fjórir varaforsetar þingsins.
    Samhliða ársfundinum sat Íslandsdeild hádegisverð um jafnréttismál í boði sérstaks fulltrúa um jafnréttismál, dr. Hedy Fry frá Kanada. Einnig fundaði Íslandsdeild með sendinefnd frá Open Dialogue Foundation þar sem málefni Moldóvu og Kasakstans voru til umfjöllunar. Auk þess hélt Íslandsdeild hádegisverð fyrir landsdeildir Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Bishkek 3.–5. september 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, og Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Helstu umræðuefni fundarins voru málefni Mið-Asíu, hryðjuverkaógn, málefni flóttamanna og innflytjenda og átök Rússa og Úkraínumanna.
    Í ávarpi sínu ræddi Sooronbay Jeenbekov, forseti Kirgisistans, um lýðræðisumbætur í landi sínu undanfarin ár. Hann benti á að þróun lýðræðis yrði að fara saman við hefðir og venjur í landinu og sagði frá umbótum á kosningakerfinu, baráttunni gegn spillingu og uppbyggingu efnahagskerfisins. Hann sagði kirgisk yfirvöld vilja þróa hátækniiðnað og einnig væru þau að skoða sjálfbæra þróun í tengslum við þá uppbyggingu. Hann sagði landið standa frammi fyrir áskorunum af völdum hryðjuverkasamtaka og útbreiðslu róttækni og að þessir þættir ógnuðu stöðugleika svæðisins og alls heimsins. Dastanbek Dzhumabekov, forseti kirgiska þingsins, sagði það mikinn heiður fyrir kirgiska þingið að halda haustfund ÖSE-þingsins á 25 ára afmælisári þingsins. Stjórnvöld væru stolt af því að hafa verið með þeim fyrstu meðal nýstofnaðra Mið-Asíulýðvelda til að koma á fót þingbundnu lýðræði árið 1993. Dzhumabekov sagði kirgiskt samfélag vera byggt á jafnrétti og félagslegu réttlæti. Hann ítrekaði mikilvægi ÖSE og sagði að í stað þess að skrifa undir friðarsáttmála ættu lönd heimsins að vinna að því að koma á eilífum friði líkt og Kant sá fyrir sér. Með friðarsáttmála væri bundinn endi á eitt stríð en með sáttmála um eilífan frið væri komið í veg fyrir öll stríð. Dzhumabekov minnti á að Kirgisistan hefði gegnum aldirnar verið brú á milli Evrópu og Asíu, viðkomustaður á hinni fornu Silkileið. Mið-Asíulönd hefðu auk þess þá sérstöðu að eiga landamæri að fjórum kjarnorkuveldum. Fundir ÖSE-þingsins væru vettvangur fyrir uppbyggilegar samræður milli þingmanna og aukin tengsl þeirra á milli.
    Ráðstefnu haustfundar var skipt í þrjá hluta eftir málefnaáherslum nefnda þingsins. Í fyrsta hluta, sem fjallaði um málefnasvið 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál, var sérstök áhersla á baráttuna gegn nýjum ógnum á landamærasvæðum gegnum svæðisbundna samvinnu. Rætt var um þá ógn sem Mið-Asíuríkjum stafaði af óstöðugu stjórnmálaástandi í Afganistan. Gyorgyi Szabo, yfirmaður skrifstofu ÖSE í Astana, Kasakstan, benti á að þing- og forsetakosningar færu fram í Afganistan á næsta ári. Nauðsynlegt væri að gera allt til að styðja við stjórnvöld í landinu. Hann sagði Mið-Asíuríkjum hafa undanfarin ár tekist að byggja aftur upp traust sín á milli og það hefði skilað áþreifanlegum árangri varðandi annað erfitt úrlausnarefni, yfirráð og deilingu vatnsauðlinda. Artur Gerasymov, formaður sendinefndar Úkraínu, lýsti ánægju sinni með yfirskrift fyrsta hluta ráðstefnunnar. Öll ÖSE-ríki þyrftu að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt Helsinki-lokagerðinni sem kveður á um að ytri landamæri séu virt. Hann sagði Úkraínu enn berjast gegn árásarhneigð Rússa og að tilraunir til að draga úr átökum í Donbass-héraði hefðu ekki haft tilætluð áhrif. Aleksei Kondratev, þingmaður frá Rússlandi, sagði árásir úkraínsku sendinefndarinnar ekki stuðla að uppbyggilegum samræðum. Hann sagði stjórnvöld í Úkraínu vera fasísk og gagnrýndi þau fyrir að ráða ekki við að berjast gegn hryðjuverkum á yfirráðasvæði sínu. Hann benti á að í baráttunni gegn hryðjuverkum hefðu Rússar aðstoðað sýrlensk stjórnvöld við aðgerðir gegn hryðjuverkahópum þar í landi. Tölur yfir fjölda handtekinna töluðu sínu máli. Hedy Fry, formaður sendinefndar Kanada, lýsti áhyggjum af auknum fordómum og kynþáttahatri í vestrænum löndum, þar á meðal í Kanada. Vissulega stæðu ÖSE-ríkin frammi fyrir áskorunum þegar kæmi að því að gæta landamæra sinna en tryggja þyrfti mannréttindi fyrir alla, ekki bara þá sem byggju innan vestrænna ríkja heldur líka þá sem væru ríkisfangslausir. Hún sagði kanadísk stjórnvöld hafa þurft að horfast í augu við að löggjöf sem samþykkt var í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 2001 hefði brotið í bága við alþjóðalög um mannréttindi. Fry sagði Kanada vissulega vera sterkt og öruggt land en að það væri vegna þess að landið virti réttarríkið og mannréttindi. Azay Guliyev, formaður sendinefndar Aserbaídsjan, lýsti ánægju sinni með að öll Mið-Asíulöndin væru meðlimir ÖSE-þingsins. Með því væri stuðlað að aukinni svæðisbundinni samvinnu.
    Á öðrum hluta ráðstefnunnar voru til umræðu málefni 2. nefndar um efnahags- og umhverfismál. Áhersla fundarins var á fólksflutninga, viðskipti og umhverfisógnir, sérstaklega í Mið-Asíu, auk þess sem samráðsvettvangur Miðjarðarhafsríkja var haldinn. Anat Berko, formaður sendinefndar Ísraels, gagnrýndi Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) fyrir að viðhalda flóttamannavanda Palestínumanna. Berko sagðist sjálf vera flóttamaður frá Írak en hún hefði verið boðin velkomin til Ísrael og ætti ekkert tilkall til að snúa aftur til síns fyrra heimilis í Írak. Á hinn bóginn gætu Palestínumenn erft stöðu flóttamanns frá foreldrum sínum sem væri einsdæmi á alþjóðavettvangi. Hún fagnaði flutningi Bandaríkjanna á sendiráði sínu til Jerúsalem og hvatti önnur ÖSE-ríki til að gera slíkt hið sama. Abdelrahim Barham, fulltrúi palestínska löggjafarþingsins, gagnrýndi ákvörðun ísraelskra stjórnvalda um að jafna við jörðu palestínskt þorp í Austur-Jerúsalem. Hann sagði ákvörðunina hafa sætt gagnrýni Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International. Bryndís Haraldsdóttir sagði frá alþjóðlegri samvinnu landa á norðurslóðum. Hún benti á að loftslagsmál og frjáls verslun væru áhersluþættir í samvinnu ríkja í norðri, ekki síður en meðal Miðjarðarhafsríkja og Mið-Asíuríkja. Bryndís sagði loftslagsbreytingar vera eina stærstu ógnina gegn friði í heiminum. Ríkisstjórn Íslands hefði sett sér metnaðarfulla stefnu til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt Parísarsamkomulaginu fyrir árið 2030 og stefnt væri að því að gera Ísland kolefnishlutlaust árið 2040. Liður í að ná þessum markmiðum væri að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Sjálfstæði Íslands og farsæld væru grundvölluð á núverandi heimsskipan þar sem áhersla væri lögð á virðingu fyrir alþjóðalögum, frjálsa verslun, lýðræði, frjálslyndi og alþjóðlega samvinnu. Hún hvatti aðildarríki ÖSE til að standa vörð um sameiginleg gildi og virða mannréttindi og alþjóðalög.
    Málefni 3. nefndar um mannréttindi og lýðræði voru til umfjöllunar á þriðja hluta ráðstefnunnar. Áhersla var þá lögð á að auka þátttöku almennra borgara í að byggja upp örugg samfélög. Gunnar Bragi Sveinsson sagði ríki best tryggja öryggi borgara sinna með því að virða alþjóðalög og alþjóðasamninga, landamæri og fullveldi annarra ríkja með því að deila þekkingu og tækni og með því að tryggja jafnrétti íbúanna. Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 og ályktanir sem fylgt hefðu í kjölfarið hefðu ítrekað bent á mikilvægi þess að tryggja aðkomu kvenna að friðarviðræðum og innleiðingu friðarsamninga. Þátttaka kvenna í samfélaginu og efnahagslífinu væri auk þess forsenda velgengni ríkja. Þátttaka og öryggi allra borgaranna væri forsenda pólitísks og efnahagslegs stöðugleika. Gunnar Bragi sagði baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna vera erfiða, að mörgu leyti vegna þess að sumir karlar skildu hana ekki. Hann benti á að Ísland hefði ekki getað þróast á nokkrum áratugum úr því að vera eitt fátækasta ríki heims í eitt það ríkasta án þátttöku kvenna í samfélaginu. Hann hvatti þingmenn ÖSE-ríkjanna til þess að standa vörð um jafnrétti kynjanna, sem og önnur mannréttindi.

Alþingi, 29. janúar 2019.

Gunnar Bragi Sveinsson,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
varaform.
Guðmundur Andri Thorsson.



Fylgiskjal.


Ályktanir ÖSE-þingsins árið 2018.


    Á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2018 samþykkti þingfundur Berlínaryfirlýsinguna. Auk ályktana málefnanefndanna þriggja innihélt Berlínaryfirlýsingin eftirfarandi aukaályktanir:
          Ályktun um málefni barna á flótta og hlutverk ÖSE og ÖSE-þingsins við að verja þau.
          Ályktun um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.
          Ályktun um baráttu gegn hryðjuverkum, öfgahópum og róttækni sem leitt getur til hryðjuverka.
          Ályktun um áratuginn síðan stríðinu í Georgíu lauk.
          Ályktun um að styrkja starf ÖSE í þágu umbóta í varnarmálum ÖSE-ríkja og samstarfsríkja.
          Ályktun um ítrekun stuðnings við starfsemi ÖSE.
          Ályktun um að auka sýnileika ÖSE-þingsins innan þjóðþinga aðildarríkja ÖSE.
          Ályktun um aukin tengsl innan ÖSE-svæðisins með því að þróa samgönguleiðir og endurreisa hina fornu Silkileið.
          Ályktun um að gera ungu fólki kleift að rækta hæfileika sína, í þeim tilgangi að stuðla að friði og öryggi.
          Ályktun um að efla stafrænt hagkerfi til að stuðla að hagvexti á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um samtengingu og samruna á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um viðbrögð við lýðfræðilegri þróun á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um að útrýma mansali.
          Ályktun um aðgerðir gegn hatursorðræðu og stríðsáróðri á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um mannréttindabrot í Rússlandi.
          Ályktun um mannréttindabrot á sjálfsstjórnarsvæðinu Krímeu og í Sevastopol, Úkraínu.


Berlínaryfirlýsinguna er að finna á eftirfarandi slóð:
drive.google.com/file/d/1Pbq1RdQT6AGU6vmHSfaZ2m5RqW3w0Q_b/view