Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 859  —  528. mál.
Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2018.


1. Inngangur.
    Tvö stærstu mál Evrópuráðsþingsins á árinu 2018 voru annars vegar samskipti þingsins og Evrópuráðsins við Rússa og hins vegar viðbrögð við spillingarmálum innan þingsins. Árið 2014 var landsdeild Rússlands svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum í Úkraínu og innlimunar Krímskagans. Hið sama gerðist þegar Rússar sendu landsdeild sína árið 2015 og hafa Rússar ekki sent landsdeild á Evrópuráðsþingið síðan. Rússar hafa því ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins síðastliðin fjögur ár og þar með ekki átt þátt í kjöri dómara við Mannréttindadómstól Evrópu eða framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Sumarið 2017 tilkynntu Rússar að þeir hygðust halda eftir aðildargreiðslum sínum til stofnana Evrópuráðsins þar til þeim yrðu tryggð full þátttökuréttindi í öllum stofnunum ráðsins, þar á meðal Evrópuráðsþinginu.
    Á vettvangi þingsins og innan sérnefndar um hlutverk og verkefni þingsins (e. ad hoc committee on the role and mission of PACE) var tekist hart á um hvort ætti að breyta reglum Evrópuráðsþingsins þannig að þinginu væri ekki fært að svipta landsdeild atkvæðisrétti sínum. Slík reglubreyting hefði mætt kröfum Rússa um að geta skipað nýja landsdeild án þess að eiga á hættu að missa atkvæðisréttinn. Miklar deilur sköpuðust um tillögur þingskapanefndar að breytingum á þingsköpum sem lagðar voru fram í október. Að endingu gaf þingskapanefnd út túlkun á þingsköpum í kjölfar fundar nefndarinnar í desember. Niðurstaða þingskapanefndar var að ákvæði stofnskrár Evrópuráðsins, um rétt aðildarlanda til að koma að kosningum til æðstu embætta við stofnanir Evrópuráðsins, væru æðri ákvæðum þingskapa um sviptingu atkvæðisréttar. Þannig gæti svipting atkvæðisréttar landsdeilda í kjölfar athugasemda við kjörbréf ekki átt við um rétt landsdeilda til að taka þátt í þessum kosningum.
    Í kjölfar fregna af spillingu meðal Evrópuráðsþingmanna árið 2017 var skipuð óháð rannsóknarnefnd um spillingarmál innan þingsins. Rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni við upphaf aprílfundar þingsins. Í skýrslunni komu fram vitnisburðir um óeðlilega náið samband ýmissa núverandi og fyrrverandi Evrópuráðsþingmanna við stjórnvöld í Aserbaídsjan.
    Í kjölfarið fékk þingskapanefnd á sinn fund þá einstaklinga sem nafngreindir voru í skýrslunni, bæði núverandi og fyrrverandi þingmenn. Starfandi þingmenn sem nefndin áleit hafa brotið siðareglur voru sviptir réttinum til að sinna trúnaðarstörfum fyrir þingið, t.d. að vera framsögumenn skýrslna, sinna formennsku í nefndum eða taka þátt í kosningaeftirliti. Í þeim tilvikum þar sem hinir brotlegu voru fyrrverandi þingmenn voru þeir sviptir réttinum til að koma í húsakynni Evrópuráðsins ævilangt. Þjóðþing aðildarríkja voru beðin um að fylgja því eftir að rannsókn færi fram í heimalandinu á þeim atvikum sem gætu talist glæpsamleg.
    Til þess að bregðast við þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni hefur Evrópuráðsþingið tekið upp hagsmunaskráningu meðal þingmanna. Þingmönnum ber framvegis að skila hagsmunaskráningu sinni fyrir lok febrúar ár hvert og er hún birt á vefsíðu þingsins. Fylli þingmenn ekki út hagsmunaskráningu, eða gerist þeir uppvísir að því að leyna upplýsingum í skráningunni, eru þeir sviptir réttinum til að sinna trúnaðarstörfum fyrir þingið. Árlega er birtur listi yfir þá þingmenn sem ekki hafa skilað hagsmunaskráningu.
    Á árinu var framkvæmd rannsókn á kynferðislegri áreitni í þjóðþingum Evrópu. Rannsóknin fór fram samhliða í Evrópuráðsþinginu og á fundum Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU). Leitað var eftir þátttöku frá breiðum hópi þingkvenna og starfskvenna þinga. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að 85% þingkvenna höfðu upplifað kynbundið andlegt ofbeldi í störfum sínum. Nánar er fjallað um rannsóknina í frásögn af fundi stjórnarnefndar í nóvember.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með þetta að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 324 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, tuttugu varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
     *      eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
     *      hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
     *      vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúlsamningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins. Istanbúlsamningurinn tók gildi árið 2014 og Ísland fullgilti hann í apríl 2018.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Kosið var til Alþingis 28. október 2017 og var Íslandsdeild kjörin á þingfundi 14. desember. Aðalmenn eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Pírata, og Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks. Varamenn eru Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Miðflokks.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
     *      Stjórnarnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Bergþór Ólason.
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Bergþór Ólason.
     *      Jafnréttisnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Þingskapanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Nefnd um val á dómurum við Mannréttindadómstól Evrópu: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Eftirlitsnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var kosin einn af tuttugu varaforsetum Evrópuráðsþingsins á janúarfundi þingsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var kjörin formaður laga- og mannréttindanefndar í júní. Í krafti embætta sinna sóttu Rósa Björk og Þórhildur Sunna fundi framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins auk þess sem Þórhildur Sunna sótti einnig fundi stjórnarnefndar og sameiginlegrar nefndar Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins. Rósa Björk Brynjólfsdóttir var jafnframt tengiliður Alþingis við herferð Evrópuráðsþingsins um afnám ofbeldis gegn konum. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Íslandsdeild hélt tíu fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum Evrópuráðsþingsins og vinna að tilnefningu þriggja einstaklinga til að starfa fyrir hönd Íslands í Evrópunefnd um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni). Nefndarsetan var auglýst á vef Alþingis í september 2018 og voru tilnefningar sendar Evrópuráðsþinginu í desember. Ráðherranefnd Evrópuráðsins velur síðan fulltrúa Íslands í nefndina af lista tilnefndra að undangenginni umsögn framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins, sem fær ráðgjöf frá undirnefnd þingsins um mannréttindamál.
    Fyrir aprílfund þingsins hafði Íslandsdeild frumkvæði að beiðni um sérstaka umræðu um hlutverk Evrópuráðsins í friðarumleitunum í Sýrlandi og var Rósa Björk Brynjólfsdóttir framsögumaður umræðunnar. Rósa Björk var einnig skipuð framsögumaður skýrslu framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar þingsins á októberfundi Evrópuráðsþingsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var skipuð framsögumaður skýrslu laga- og mannréttindanefndar um Kaupmannahafnaryfirlýsinguna í kjölfar umræðu um knýjandi málsmeðferð á aprílfundinum. Hún var einnig skipuð framsögumaður álits laga- og mannréttindanefndar á ályktun um frelsi fjölmiðla og álits um ályktun um stöðu fjölmiðlafólks í Evrópu.
    Laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins fundaði í Hörpu 22.–23. maí í boði Íslandsdeildar. Fundinn sóttu um 35 þingmenn frá 30 aðildarríkjum Evrópuráðsins, en lesa má nánar um það í frásögn af fundum hér á eftir.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2018.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 22.–26. janúar 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, varamaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá voru m.a. stjórnarhættir innan íþróttasamtaka, mannúðaráhrif átakanna í Úkraínu og verndun tungumála minnihlutahópa í Evrópu. Þá fóru fram sérstakar umræður um friðarferli í átökum Ísraela og Palestínumanna og hernaðaríhlutun Tyrkja á svæðum Kúrda í Sýrlandi.
    Á fyrsta degi þingsins var Michele Nicoletti frá Ítalíu kosinn forseti Evrópuráðsþingsins árið 2018. Að auki voru kosnir átján af tuttugu varaforsetum þingsins og þeirra á meðal var Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður Íslandsdeildar. Í ræðu sinni kallaði Nicoletti eftir samstöðu aðildarríkja Evrópuráðsins um gildi stofnunarinnar, þ.e. mannréttindi, lýðræði og réttarríki, og virðingu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Hann sagði Evrópuríki takast á við stórar áskoranir í formi hryðjuverka, fólksflutninga, fátæktar og vantrausts á stjórnmálastofnunum. Ekki síst væru auknir kynþáttafordómar viðsjárverðir og hvatti hann meðlimi Evrópuráðsþingsins til að bregðast af festu við þjóðernissinnaðri orðræðu. Nicoletti harmaði það að Rússland hefði ekki sent sendinefnd til þingsins en sagði mikilvægt að halda áfram samræðum við Rússa. Hann benti á að starf Evrópuráðsins í þágu mannréttinda þyrfti að styðja með samstöðu allra aðildarlandanna. Stella Kyriakides, þingkona frá Grikklandi og fráfarandi forseti Evrópuráðsþingsins, flutti skýrslu framkvæmdastjórnar þingsins. Kyriakides sagði árið 2017 hafa verið það erfiðasta í sögu þingsins þar sem spillingarmál hefðu grafið undan trúverðugleika stofnunarinnar og vakið upp efasemdir um hvatirnar á bak við aðgerðir þingsins.
    Á þingfundi fór einnig fram kosning mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og dómara við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir hönd Spánar. María Elósegui Ichaso var kosin dómari við Mannréttindadómstólinn til níu ára fyrir hönd Spánar, en þrír voru tilnefndir. Dunja Mijatovic frá Bosníu hlaut kjör sem mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, en þrír voru í framboði.
    Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins, en Danir fóru með formennskuna í Evrópuráðinu fyrri helming ársins. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ávarpaði einnig þingið og varð báðum ráðherrum tíðrætt um umbætur á mannréttindasáttmála Evrópu. Rasmussen sagði umbætur nauðsynlegar til að unnt væri að standa vörð um mannréttindasáttmálann til frambúðar. Eins og staðan væri í dag vantaði upp á innleiðingu dóma Mannréttindadómstólsins, álag á dómstólinn væri of mikið og því löng bið eftir úrlausn mála auk þess sem vaknað hefðu spurningar um túlkun dómstólsins á mannréttindasáttmálanum. Ekki mætti gleyma að aðildarríkin væru helstu verndarar sáttmálans og sem slíkir ættu þau að fá aukið svigrúm. Í spurningum til forsætisráðherrans komu fram efasemdir þingmanna um að hugmyndir hans um endurskoðun á dómstólnum færu saman við kröfuna um sjálfstæði dómstóla. Petra De Sutter, þingkona frá Belgíu, sagði tillögurnar hljóma eins og forsætisráðherrann vildi gera aðildarríkjunum auðveldara fyrir að hafa áhrif á Mannréttindadómstólinn.
    Serzh Sargsyan, forseti Armeníu, ávarpaði þingið og sagði frá lýðræðisumbótum í landi sínu frá því að Armenía fékk aðild að Evrópuráðinu 2001. Hann ítrekaði nauðsyn þess að leysa deiluna um Nagorno-Karabakh og sagði að Armenía og Aserbaídsjan yrðu að taka sameiginlega ábyrgð á friðarviðræðum og málamiðlun í deilunni. Sargsyan lýsti einnig stuðningi sínum við áformaðan fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins og sagði hann þátt í að styrkja og sameina Evrópu.
    María, krónprinsessa Danmerkur, flutti ávarp á þinginu þar sem hún brýndi fyrir Evrópuráðsþingmönnum að ekki mætti taka mannréttindum sem gefnum hlut. Hún fjallaði sérstaklega um réttindi kvenna og hinsegin fólks og sagði hún Istanbúlsamninginn vera helsta staðalinn fyrir vernd kvenna gegn heimilisofbeldi. Þrátt fyrir að kynfrelsi og kynréttindi væru umdeildust meðal mannréttinda sagði María þau vera grundvallarréttindi og bæði náin og persónuleg. Í þeim fælist rétturinn til þess að taka ákvarðanir um undirstöðuatriði lífsins, líkama sinn, kynhneigð, heilbrigði og sambönd.
    Samhliða þinginu var haldinn fyrsti fundur nýskipaðrar sérnefndar um hlutverk og verkefni þingsins (e. ad hoc committee on the role and mission of PACE). Í nefndinni sátu formenn landsdeilda og formenn flokkahópa. Hvatinn að stofnun nefndarinnar var sú staða sem upp var komin í samskiptum Evrópuráðsins og Rússlands í kjölfar þess að Evrópuráðsþingið svipti landsdeild Rússa atkvæðisrétti sínum árin 2014 og 2015. Rússar höfðu ekki skipað sendinefnd fyrir Evrópuráðsþingið síðan og höfðu tilkynnt að þeir hygðust ekki gera það fyrr en öruggt væri að sú landsdeild yrði ekki svipt atkvæðisrétti sínum. Árið 2017 héldu Rússar auk þess eftir stærstum hluta greiðslna sinna til Evrópuráðsins á grundvelli þess að þeim væri ekki heimilt að nýta að fullu þátttökurétt sinn. Í skipunarbréfi sérnefndarinnar kom fram að hlutverk hennar væri að samræma reglur Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndarinnar. Töldu margir Evrópuráðsþingmenn að megintilgangur sérnefndarinnar væri að breyta því ákvæði þingskapa Evrópuráðsþingsins sem heimilar þinginu að svipta landsdeildir atkvæðisrétti sínum.
    Nicoletti þingforseti var formaður sérnefndarinnar og kynnti á þessum fyrsta fundi tillögur sínar að verkefnum nefndarinnar. Þær tillögur voru víðtækar og náðu m.a. yfir leiðir til að auka sýnileika þingsins og innleiðingu kynjasjónarmiða. Nicoletti hvatti meðlimi til að líta á störf nefndarinnar sem tækifæri til að endurskoða verkefni þingsins og megináherslur. Í umræðum lýstu margir nefndarmenn hins vegar yfir efasemdum sínum með hlutverk nefndarinnar og sögðu óhæft að leyfa Rússum að komast upp með að beita fjárkúgun til að komast aftur inn í Evrópuráðsþingið.
    Þingið samþykkti að halda tvær sérstakar umræður um knýjandi málefni, annars vegar um átök Ísraela og Palestínumanna og hugsanlegt hlutverk Evrópuráðsins í sáttamiðlun milli átakaaðila og hins vegar um hernaðaríhlutun Tyrkja á svæðum Kúrda í Sýrlandi. Birgir Þórarinsson tók til máls í umræðum um friðarferli Ísraela og Palestínumanna. Hann sagði frá reynslu sinni sem starfsmaður UNRWA í Austur-Jerúsalem. Þar hefði hann orðið þess áskynja í samræðum sínum við unga Palestínumenn að sjálfstætt ríki Palestínu væri ekki forgangsatriði þeirra heldur frekar öryggi, frelsi og mannréttindi. Birgir sagði nauðsynlegt að velta fyrir sér nýjum lausnum á þessari langvinnu deilu. Slík lausn fælist í einu ríki fyrir Palestínumenn og Ísraela innan landamæra fyrrverandi Palestínu. Í slíku ríki nytu allir þegnarnir öryggis og mannréttinda. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók einnig til máls og sagði Ísrael vera eina ríkið sem hún þekkti til sem réttaði yfir börnum í herrétti. Palestínumenn sem ákærðir væru á grundvelli brota á hernaðartilskipunum nytu ekki grundvallarréttinda á sviði réttarfars. Hún benti á að yfirskrift umræðunnar velti upp spurningunni um hvaða hlutverk Evrópuráðið gæti tekið að sér í friðarferlinu milli Ísraela og Palestínumanna. Svarið við þeirri spurningu væri að Evrópuráðið ætti að krefjast þess af stjórnvöldum Ísraels, sem væri áheyrnaraðili að Evrópuráðinu, að virða megingildi Evrópuráðsins um mannréttindi, lýðræði og réttarríki.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um grunnframfærslu, framfylgd skuldbindinga Bosníu, verndun barna á átakasvæðum, samning evrópsks sáttmála um stétt lögfræðinga, friðhelgi alþjóðastofnana gagnvart dómstólum og reglugerðir til að hindra verslun með vörur sem notaðar eru við pyntingar og dauðarefsingar.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var skipuð framsögumaður álits laga- og mannréttindanefndar um skýrslu og ályktun menningarmálanefndar um frelsi fjölmiðla. Samhliða þinginu hélt Íslandsdeild fundi utan dagskrár með landahópi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, með Kristjáni Andra Stefánssyni, sendiherra Íslands í París, Róberti Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, og íslenskum starfsmönnum Evrópuráðsins, með Jan Kleijssen, skrifstofustjóra hjá Evrópuráðinu fyrir málefni upplýsingasamfélagsins og aðgerðir gegn glæpum, með sonum maltnesku blaðakonunnar Daphne Caruana Galizia og með fulltrúum Kúrda.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París 16. mars 2018.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sótti fundinn auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá var ályktun um jafnrétti og meðlög með börnum auk yfirlýsingar um stuðning þingsins við Mannréttindadómstólinn.
    Í upphafsávarpi sínu sagðist Michele Nicoletti, forseti Evrópuráðsþingsins, uggandi vegna stöðu fjölmiðlafólks í Evrópu. Í október 2017 var maltneska blaðakonan Daphne Caruana Galizia myrt. Nicoletti sagðist sjálfur hafa fundað með sonum hennar og fullvissað þá um að Evrópuráðsþingið myndi starfa í þágu fjölmiðlafrelsis. Í febrúar var síðan slóvakíski blaðamaðurinn Ján Kuciak myrtur ásamt kærustu sinni. Nicoletti sagði þingið verða að fordæma þessar árásir með skýrum hætti.
    Guido Raimondi, forseti Mannréttindadómstólsins, ávarpaði fund stjórnarnefndar. Hann lýsti ánægju sinni með að fá í fyrsta sinn tækifæri til að taka þátt í umræðum með fulltrúum stjórnarnefndar þingsins. Raimondi sagði dómstólinn verja Evrópubúa fyrir einræði og bæta líf þeirra á áþreifanlegan hátt. Hann varaði við því að gera of mikið úr umræðu um deilur um Mannréttindadómstólinn. Dómstóllinn hefði aldrei siglt lygnan sjó og ávallt hefðu verið uppi raddir um skerðingu fullveldis aðildarríkjanna. Stundum þyrfti dómstóllinn að úrskurða í viðkvæmum pólitískum málum en hann þyrfti samt að reyna að halda hlutleysi sínu. Mannréttindasáttmálann þyrfti að aðlaga og túlka í ljósi breyttra samfélagsaðstæðna. Í yfirferð sinni yfir málastöðu Mannréttindadómstólsins sagði Raimondi dómstólinn vera fórnarlamb eigin velgengni. Fjöldi mála færi vaxandi og mikilvægt væri að finna skilvirkar leiðir til að draga úr fjölda mála sem biðu. Raimondi sagði Evrópuráðsþingið mynda brú á milli dómstólsins og þjóðþinga aðildarríkjanna. Hann benti einnig á að í þjóðþingum sínum gegndu þingmennirnir mikilvægu hlutverki við innleiðingu dóma Mannréttindadómstólsins. Um 95% af dómum Mannréttindadómstólsins kæmu til framkvæmdar.
    Stjórnarnefnd þingsins samþykkti yfirlýsingu í nafni þingsins um orðræðu formennsku Dana í Evrópuráðinu um mannréttindamál í Evrópu. Þingið lýsti því yfir að neikvæð orðræða Dana gagnvart mannréttindastofnunum Evrópu græfi undan vernd mannréttinda í álfunni. Í yfirlýsingu þingsins kom fram að í yfirlýsingum Dana í tengslum við ráðstefnu um mannréttindamál, sem haldin var í apríl, væri efast um að þau réttindi sem vernduð eru í mannréttindasáttmálanum væru algild. Einnig væri dregið í efa sjálfstæði Mannréttindadómstólsins og valdsvið hans, réttur dómstólsins til að túlka og aðlaga mannréttindasáttmálann og skilyrðislaus skylda aðildarríkja til að framfylgja dómum dómstólsins. Þingið áleit að ráðherranefndin ætti að einbeita sér að því að minnka álag á Mannréttindadómstólinn og að það álag skýrðist helst af takmarkaðri innleiðingu mannréttindasáttmálans í mörgum aðildarríkjum.
    Í ályktun um jafnrétti og meðlög með börnum hvatti þingið aðildarríkin til að koma upp meðlagsgreiðslukerfi til að tryggja tímanlega greiðslu meðlags til einstæðra foreldra. Í þeim tilvikum þegar meðlagsgreiðandi greiði ekki meðlag ætti ríkið að greiða meðlagið og sækja greiðslur til greiðanda síðar. Einnig þyrfti að auka samstarf milli ríkja þegar um væri að ræða meðlagsgreiðslur milli landa. Í skýrslu jafnréttisnefndar kom fram að fjölskyldumynstur hefði þróast í Evrópu á undanförnum áratugum með þeim afleiðingum að þeim börnum fjölgaði sem ælust upp hjá öðru foreldri sínu. Meiri hluti einstæðra foreldra væri kvenkyns og í ljósi þeirrar staðreyndar þyrfti að skoða meðlagsgreiðslur út frá jafnréttissjónarmiðum. Aðildarríki Evrópuráðsins voru hvött til þess að fullgilda og innleiða Haag-sáttmálann frá árinu 2007 um meðlagsgreiðslur. Einnig voru þau hvött til þess að taka upp viðurlög við því að hundsa meðlagsgreiðslur og að láta það varða við hegningarlög þegar meðlagsgreiðslum væri haldið eftir í þeim tilgangi að valda börnum eða foreldrum þeirra sálfræðilegu tjóni.
    Stjórnarnefnd samþykkti að breyta þingsköpum (e. Rules of Procedure) til að fjarlægja tyrknesku af lista yfir vinnutungumál Evrópuráðsins. Einnig var reglum breytt þannig að aðeins verði gert ráð fyrir túlkun yfir á vinnutungumál Evrópuráðsins (þýsku, ítölsku og rússnesku) svo fremi að þessi lönd greiði aukið framlag til Evrópuráðsins. Breytingin var gerð til að bregðast við fjárhagsvanda þingsins í kjölfar þess að Rússar héldu eftir greiðslum sínum og Tyrkir óskuðu eftir því að hætta að greiða aukið framlag. Fulltrúi Tyrklands í þingskapanefnd mótmælti tillögunum og benti á að Tyrkir hefðu boðist til að greiða sjálfir fyrir kostnaðinn við að halda tyrknesku sem vinnutungumáli Evrópuráðsins, óháð ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda um að hætta að greiða aukið framlag. Í svari skýrsluhöfundar kom fram að þannig hefði fyrirkomulagið verið áður en Tyrkir juku framlag sitt og að þeim væri frjálst að gera það áfram.
    Samhliða stjórnarnefndarfundi var haldinn fundur sérnefndar um hlutverk og verkefni þingsins. Á fundinum voru tillögur landsdeilda varðandi áhersluefni nefndarinnar ræddar.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 23.–27. apríl 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bergþór Ólason, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Helstu mál fundarins voru spillingarmál innan þingsins, átökin í Sýrlandi, Kaupmannahafnaryfirlýsing ráðherranefndar Evrópuráðsins og málefni fjölmiðla.
    Daginn fyrir þingið var skýrsla óháðrar rannsóknarnefndar um spillingarmál innan Evrópuráðsþingsins (e. Independent Investigation Body on the allegations of corruption within the Parliamentary Assembly) kynnt framkvæmdastjórn og í kjölfarið birt opinberlega. Í skýrslunni komu fram vitnisburðir um óeðlilega náið samband ýmissa núverandi og fyrrverandi Evrópuráðsþingmanna við stjórnvöld í Aserbaídsjan. Á fyrsta degi þingsins var ákveðið að halda tvær umræður um knýjandi málsmeðferð (e. debate under urgent procedure), aðra um rannsóknarskýrsluna og hina um Kaupmannahafnaryfirlýsinguna, sem gefin var út fyrr í mánuðinum af ráðherranefndinni. Einnig samþykkti þingið beiðni Íslandsdeildar um að halda sérstaka umræðu (e. current affairs debate) um hlutverk Evrópu í friðarumleitunum í Sýrlandi.
    Í kjölfar umfjöllunar þingskapanefndar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og umræðna á þinginu var samþykkt ályktun um eftirfylgni skýrslunnar. Í ályktuninni var hvatt til raunverulegra breytinga á störfum þingmanna og viðhorfum þeirra. Tekið var fram að það hefði ekki verið á færi rannsóknarnefndarinnar að sanna sekt þeirra sem hún fjallaði um og að frekari rannsókn eða saksókn fyrir ólögmætar gjörðir í starfi yrði að vera í höndum stjórnvalda aðildarlandanna. Þjóðþing aðildarríkjanna voru beðin um að gera viðeigandi ráðstafanir í þeim tilvikum sem nefnd voru í skýrslunni.
    Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins og lagði þar áherslu á meginmarkmið Dana í forsæti Evrópuráðsins, sem voru umbætur á mannréttindalöggjöf Evrópu. Hann sagði að í yfirlýsingu frá fundi ráðherra Evrópuráðsins í Kaupmannahöfn fyrr í mánuðinum hefði verið skýrt að meginábyrgð á verndun mannréttinda væri í höndum ríkisstjórna, þinga og dómstóla í aðildarlöndunum. Styrkja þyrfti tengingu mannréttinda við lýðræðið og tryggja þannig þróun mannréttinda. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir beindi fyrirspurn til ráðherra, fyrir hönd flokkahóps sósíalista, demókrata og græningja, um hvatann að ákalli Dana um umbætur á Mannréttindadómstóli Evrópu. Hún benti á að Samuelsen hefði áður lýst því hvernig Dönum gremdist það hvernig Mannréttindadómstóllinn hefði hlutast til um brottvísun erlends fanga frá Danmörku. Þórhildur Sunna spurði ráðherrann hvernig hann gæti réttlætt að draga úr sjálfstæði og hlutleysi dómstólsins í þágu pólitískra hagsmuna heima fyrir. Samuelsen benti á að 47 aðildarríki Evrópuráðsins hefðu samþykkt Kaupmannahafnaryfirlýsinguna og að á ráðstefnunni hefðu ríkin staðfest skuldbindingu sína gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu. Í yfirlýsingunni væri sett fram skýr sýn á skilvirkari, einbeittari og hlutlausari sáttmála, sem væri jákvætt fyrir framtíð hans.
    Í umræðu samkvæmt knýjandi málsmeðferð um Kaupmannahafnaryfirlýsinguna var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir framsögumaður skýrslu laga- og mannréttindanefndar. Hún benti á að mannréttindasáttmálinn og umhverfi hans væri í viðkvæmu jafnvægi. Þessu jafnvægi yrði raskað ef ríki virtu ekki skuldbindingar sínar eða sjálfstæði dómstólsins. Í tilmælum sem þingið samþykkti á grundvelli skýrslunnar var bent á að í Kaupmannahafnaryfirlýsingunni væru ekki lagðar fram tillögur að lausnum á þeim vanda sem dómstóllinn stæði frammi fyrir. Vandinn fælist í óskilvirkri innleiðingu mannréttindasáttmálans í aðildarlöndum hans og skorti á framfylgd dóma Mannréttindadómstólsins. Í yfirlýsingunni væri óskýr tilvísun í samræður (e. dialogue) milli aðildarríkja sáttmálans og dómstólsins, sem gæti stofnað sjálfstæði Mannréttindadómstólsins í hættu.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var framsögumaður í sérstakri umræðu um hlutverk Evrópu í friðarumleitunum í Sýrlandi. Í ræðu sinni lagði Rósa Björk áherslu á mikilvægi þess að ríki Evrópu öxluðu aukna ábyrgð. Hún hrósaði Evrópusambandslöndum fyrir framlög þeirra til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi en benti á að Evrópulönd þyrftu að leggja meira af mörkum en einvörðungu fjármagn. Undanfarin sjö ár hefðu verið gerðar tilraunir til friðarviðræðna milli átakaaðila, með aðkomu ýmist Sameinuðu þjóðanna, Rússa eða Bandaríkjamanna, en án árangurs. Evrópulöndin bæru ábyrgð á að stöðva hryllinginn sem ætti sér stað í Sýrlandi og að það yrði ekki gert með hernaðaraðgerðum á borð við þær sem Frakkar og Bretar hefðu tekist á hendur ásamt Bandaríkjamönnum rúmri viku áður. Enn fremur benti Rósa Björk á að átökin í Sýrlandi hefðu haft áhrif á öllu svæðinu og nú væri svo komið að nágrannaríki á borð við Jórdaníu, Líbanon og Tyrkland væru að kikna undan álagi vegna flóttamannastraumsins frá Sýrlandi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók einnig til máls og sagði undanfarin sjö ár hafa sýnt fram á að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna væri ófært um að gæta friðar og öryggis í heiminum. Hún hvatti Evrópulönd til að nýta hernaðarmátt sinn fremur til að sinna mannúðaraðstoð við Sýrlendinga og benti á að Evrópa gæti fært Sýrlendingum frið með því að bjóða sýrlenska flóttamenn velkomna. Enn fremur hvatti hún þingið til að beina þeim tilmælum til aðildarríkja sinna að stuðla að stofnun alþjóðlegs dómstóls í málefnum Sýrlands og styðja við söfnun sönnunargagna um stríðsglæpi.
    Þingið samþykkti tvær ályktanir um fjölmiðla, aðra um verndun heiðarleika í fjölmiðlun og hina um stöðu fjölmiðlafólks í Evrópu. Í ályktununum eru aðildarríki Evrópuráðsþingsins hvött til að bregðast við viðsjárverðri þróun í fjölmiðlun og þar eru nefndar sem dæmi falsfréttir og sífellt erfiðara rekstrarumhverfi fjölmiðla sem leiði til samþjöppunar á eignarhaldi með tilheyrandi áhrifum á atvinnuöryggi fjölmiðlafólks. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður í áliti laga- og mannréttindanefndar um ályktun um stöðu fjölmiðlafólks í Evrópu. Þórhildur Sunna talaði fyrir því að í ályktuninni yrði lögð aukin áhersla á persónulegt og líkamlegt öryggi fjölmiðlafólks í Evrópu, sérstaklega í ljósi morða á fjölmiðlafólki undanfarna mánuði. Einnig benti hún á að nauðsynlegt væri að víkka út skilgreiningu á fjölmiðlafólki þannig að hún næði yfir álitsgjafa og bloggara.
    Í ályktun Evrópuráðsþingsins um loftslagsbreytingar og innleiðingu Parísarsamkomulagsins voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að leiða aðgerðir til að stuðla að framfylgd samkomulagsins. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna og ítrekaði mikilvægi þess að aðilar Parísarsamkomulagsins öxluðu ábyrgð sína og ynnu að framfylgd þess. Hún benti á að þrátt fyrir að Íslendingar væru í fararbroddi í notkun endurnýjanlegrar orku þá myndu íslensk stjórnvöld eiga erfitt með að ná þeim markmiðum sem þau hefðu sett sér í samkomulaginu. Þetta sýndi fram á að ríki heims mættu ekki sofna á verðinum og þyrftu öll að leggjast á eitt til að tryggja sjálfbæra framtíð fyrir komandi kynslóðir.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um að stöðva aðgengi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki að fjármögnun, um vegalaust fólk innan eigin lands, ástandið í Líbíu og hlutverk Evrópuráðsins, lagaflækjur í tengslum við blönduð stríð, baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sýklalyfjaónæma berkla í Evrópu og um aðlögun og valdeflingu flóttabarna fyrir tilstilli skyldunáms.
    Fastanefndir Íslands og Danmerkur gagnvart Evrópuráðinu, ásamt Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, stóðu fyrir rakarastofuviðburði (e. barbershop) á þinginu um kynjamismunun á opinberum vettvangi. Þátttakendur í pallborði voru Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður Íslandsdeildar.
    Samhliða þinginu fundaði sérnefnd um hlutverk og verkefni þingsins. Einnig hélt Íslandsdeild fundi með Thorbjørn Jagland, og með landahópi Norðurlanda og Eystrasaltslanda.

Fundur laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík 22.–23. maí 2018.
    Laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins fundaði í Hörpu 22.–23. maí 2018. Fundinn sóttu 35 þingmenn frá 30 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Meðal þeirra sem ávörpuðu fundinn voru Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Rósa Björk, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Sigurður Kári Árnason, lögfræðingur hjá umboðsmanni. Jafnframt var haldin opin málstofa undir yfirskriftinni „Reynsla Íslands af baráttu gegn spillingu meðal þingmanna“. Fyrirlesarar voru Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Þórhildur Sunna og Jón Ólafsson, formaður Gagnsæis og formaður stýrihóps forsætisráðuneytisins um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Fyrirlesarar fjölluðu um framfylgd Íslands á tilmælum úr fjórðu úttekt GRECO, samtaka ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir opnaði fund nefndarinnar og bauð gesti velkomna. Í erindi sínu fjallaði Rósa Björk um sögu Alþingis og lagasetningar á Íslandi og lýsti því hvernig textar Jónsbókar hefðu áhrif í lagasetningu enn þann dag í dag. Hún sagði efnahagshrunið hafa gert út af við traust almennings til stjórnvalda og að þessi skortur á trausti almennings væri núna ein helsta áskorun íslenskra stjórnmálamanna. Í ljósi þessa væri ánægjulegt að Alþingi hefði framfylgt tilmælum GRECO og sett sér siðareglur árið 2016. Rósa Björk sagðist vera stolt af því að þessar siðareglur hefðu þegar verið teknar til endurskoðunar í kjölfar umræðu um kynferðislega áreitni meðal kvenna í stjórnmálum, undir myllumerkinu #MeToo. Hún sagðist vona að sams konar endurskoðun yrði gerð á siðareglum Evrópuráðsþingmanna.
    Í erindi sínu fjallaði Steingrímur J. Sigfússon um mikilvægi alþjóðastarfs Alþingis á vettvangi Evrópuráðsþingsins. Hann sagði Evrópuráðið hafa haft mikil áhrif á Ísland, til að mynda hefði mannréttindasáttmáli Evrópu verið grundvöllurinn að nýjum mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar árið 1995. Steingrímur lýsti stuðningi sínum við vinnu Evrópuráðsþingsins í baráttunni gegn spillingu innan þingsins og benti á að trúverðugleiki væri hornsteinn starfa þingsins í þágu mannréttinda og lýðræðis.
    Í ræðu sinni sagði Sigríður Á. Andersen að mælingar hefðu sýnt að spilling væri einna minnst í heimi á Íslandi. Mútur þekktust ekki í opinberri stjórnsýslu og stjórnvöld hefðu lagt sig fram um að auka gagnsæi. Efnahagshrunið hefði hins vegar haft mikil áhrif á samfélagið og átt þátt í að grafa undan trausti almennings á stjórnvöldum. Mikilvægt væri að benda á það sem betur mætti fara og í þeim tilgangi væri vinna GRECO ómetanleg. Sigríður benti á að í nýrri skýrslu GRECO væri fjallað um að þrátt fyrir að spilling mældist lág á Íslandi sýndu kannanir fram á að almenningur upplifði spillingu í samfélaginu. Á Íslandi væri því það vandamál að almenningur skynjaði spillingu sem ekki væri fótur fyrir.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði of lítið hafa breyst á Íslandi í kjölfar skýrslu GRECO árið 2013. Í skýrslunni væru dregnar fram þær hættur sem sköpuðust af smæð samfélagsins og þéttu tengslaneti. Þetta tengslanet smygi inn í stofnanir stjórnsýslunnar og hefði áhrif á ákvarðanatöku. Þórhildur Sunna benti á að skilgreiningar fólks á spillingu væru ólíkar eftir stöðu þeirra og að upplifun Íslendinga hefði verið sú að nær engin spilling hefði verið hér á landi árin fyrir hrun. Í kjölfar hrunsins hefði hins vegar komið í ljós að hluti landsmanna hefði nýtt sér aðstöðu sína og tengsl til að svíkja fé út úr sameiginlegum sjóðum og keyra fyrirtæki í þrot. Þrátt fyrir þetta hefðu Íslendingar ekki lært nóg af hruninu og ekki tekist á hendur nógu víðtækar umbætur. Þórhildur Sunna nefndi Landsréttarmálið og umræðuna um ferðakostnað þingmanna sem dæmi um hve hægt gengi að vinna gegn spillingu á Íslandi.
    Jón Ólafsson sagði stjórnvöld hafa brugðist hægt við tilmælum GRECO í áranna rás. Hann sagði mikilvægt að hafa í huga að spilling væri ekki einungis sú hegðun sem sannarlega væri glæpsamleg. Dæmi um spillingu væru til dæmis óbein áhrif á ákvarðanatöku í gegnum ráðningar, óformleg tengsl milli einstaklinga sem væru fulltrúar fyrir andstæða hagsmuni og skortur á skýrum reglum til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Jafnframt þyrfti að taka tillit til skynjunar og upplifunar almennings. Þessi skynjun væri nefnilega mikilvægt merki um að almenningur treysti því ekki að stjórnvöld tækju ákvarðanir af hlutleysi og eftir settum reglum. Það hefði síðan áhrif á traust almennings til stjórnvalda.
    Meðal annarra mála á dagskrá fundarins voru sameiginlegir staðlar fyrir umboðsmenn í Evrópu, aðstaða fanga með fötlun, verndun mannréttindafrömuða í ríkjum Evrópuráðsins og mál Sergeis Magnitskys.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Zagreb 1. júní 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fundurinn var haldinn í Zagreb í Króatíu en landið fór með formennsku í Evrópuráðinu síðari hluta ársins. Á dagskrá var barátta gegn orðræðu hryðjuverkasamtaka, aukin fjölbreytni í stjórnmálum í Evrópu og aðbúnaður fatlaðra fanga.
    Marija Pejcinovic Buric, utanríkisráðherra Króatíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynnti áherslur króatískra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði. Króatísk stjórnvöld hygðust leggja áherslu á baráttu gegn spillingu, vernd þjóðernisminnihluta og annarra hópa sem standa höllum fæti, styrkingu svæðisbundinna stjórnvalda og verndun menningararfs. Pejcinovic Buric sagði fjárhagsvanda ráðsins stefna vinnu þess í hættu og benti á nauðsyn þess að endurskoða framlög aðildarríkja með tilliti til verðbólgu síðustu ára. Gordan Jandrokovic, forseti króatíska þingsins, ávarpaði einnig fundinn. Hann sagði Króatíu hafa gefið skýr skilaboð við inngönguna í Evrópuráðið árið 1996 um að aukin samvinna og samruni Evrópulanda væri forgangsmál hins nýstofnaða ríkis. Króatísk stjórnvöld stæðu með Evrópuráðsríkjum að verndun sameiginlegra gilda um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Hann lýsti ánægju sinni með áherslur króatískra stjórnvalda á formennskutímabilinu. Sérstaklega væri mikilvægt að vernda sameiginlegan menningararf Evrópulanda. Með því að beina sjónum að því hvað sameinaði Evrópulönd væri hægt að sigrast á þeim áskorunum sem blöstu við og þróa lýðræðishefðina til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.
    Á fundi stjórnarnefndar var samþykkt samhljóða ályktun um baráttu gegn orðræðu hryðjuverkasamtaka. Í ályktuninni var kallað eftir því að aðildarríki ynnu markvisst gegn áróðri ofbeldisfullra öfgahópa. Bent var á að jákvæð og hnitmiðuð skilaboð gætu unnið gegn orðræðu hryðjuverkasamtaka og sýnt fram á hræsni þeirra. Slík skilaboð væri hægt að byggja á sameiginlegum siðferðislegum gildum sem fyndust bæði í mannréttindasáttmála Evrópu og íslamstrú. Þeim tilmælum var einnig beint til ráðherranefndar Evrópuráðsþingsins að útbúa leiðbeiningar fyrir aðildarríkin um hvernig best mætti vinna gegn áróðri hryðjuverkasamtaka. Í umræðum kom fram að nauðsynlegt væri að mæta unga fólkinu á sama vettvangi og hryðjuverkamennirnir nota til að reyna að ná til þeirra, þ.e. á samfélagsmiðlum. Skýrsluhöfundur benti á að í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökum, líkt og í baráttu við uppreisnarmenn, væri nauðsynlegt að vinna hug og hjörtu almennings. Það væri hægt að gera með því að beina sjónum að því sem sameinaði fólk og með því að Evrópubúar væru stoltir af sameiginlegum gildum sínum.
    Í ályktun um fjölbreytni í stjórnmálum var kallað eftir aðgerðum til að auka þátttöku minnihlutahópa í stjórnmálum. Þjóðþing voru hvött til þess að tryggja gagnsæi og aðgengi og stjórnmálaflokkar hvattir til þess að vinna að jafnrétti og fjölbreytni í flokksstarfi sínu. Í ályktuninni var bent á að meðal stjórnmálamanna í Evrópu væru hlutfallslega fáar konur, afkomendur innflytjenda, hinsegin fólk og fatlaðir. Þessi staðreynd ýtti undir þá ímynd að stjórnmál væru vettvangur hvítra karlmanna yfir fimmtugt. Aukin fjölbreytni meðal kjörinna fulltrúa mundi bæta ákvarðanatöku þeirra og auka traust almennings á stjórnkerfinu.
    Í ályktun um aðgengi og aðstæður fyrir fatlaða fanga voru aðildarlönd Evrópuráðsins hvött til þess að aðlaga löggjöf sína til að tryggja fötluðum föngum viðeigandi aðbúnað. Kallað var eftir greiningu á þörfum fatlaðra fanga, hvort sem fötlun þeirra væri líkamleg, andleg eða í formi greindarskerðingar. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsþingsins var kallað eftir rannsókn á löggjöf aðildarríkja og framkvæmd þeirra hvað varðar fangelsisdóma yfir einstaklingum með fatlanir.
    Samhliða fundi stjórnarnefndar var haldinn fundur sérnefndar um hlutverk og verkefni þingsins. Formaður sérnefndarinnar og forseti Evrópuráðsþingsins, Michele Nicoletti, tilkynnti á fundinum um áætlanir sínar um að halda fund sameiginlegrar nefndar Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndarinnar samhliða júnífundi þingsins. Lýsti hann óskum sínum um að umræðum í sérnefndinni gæti lokið í júní og að nefndin vísaði tillögum sínum áfram til þingskapanefndar og framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins. Nicoletti hafði tekið saman tillögur landsdeilda og flokkahópa til umbóta innan Evrópuráðsþingsins á minnisblað sem var grundvöllur umræðna í sérnefndinni frá því í mars. Þetta minnisblað var gert opinbert eftir fundinn í Zagreb.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 25.–29. júní 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, varamaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá voru m.a. málefni flóttamanna og viðbrögð Evrópulanda við flóttamannastrauminum, versnandi staða mannréttindafrömuða og frjálsra félagasamtaka í aðildarríkjum Evrópuráðsins og ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu.
    Á fyrsta degi þingsins var Liliane Maury Pasquier kjörin forseti þingsins. Þingið samþykkti að halda tvær sérstakar umræður sem felldar voru undir knýjandi málsmeðferð, annars vegar um úkraínska fanga í Rússlandi og á Krímskaga og hins vegar um alþjóðlegar skyldur aðildarríkja Evrópuráðsins að því er varðar björgun mannslífa á hafi úti.
    Sérstök umræða um alþjóðlegar skyldur aðildarríkja Evrópuráðsins gagnvart björgun mannslífa á hafi úti var haldin samhliða umræðum um ályktanir þingsins, annars vegar um umfjöllun hælisumsókna og stofnun flóttamannabúða erlendis og hins vegar ályktun um áhrif flóttamannastefnu Evrópusambandsins á mannréttindi flóttafólks. Dimitrios Vitsas, ráðherra innflytjendamála í Grikklandi, ávarpaði þingið og sagði nauðsynlegt að horfast í augu við að aukinn flóttamannastraumur til Evrópu væri ekki tímabundinn heldur kominn til að vera. Evrópulönd þyrftu að takast á við orsakir flóttamannastraumsins, t.d. í Sýrlandi, og einnig deila ábyrgðinni sín á milli. Sergio Divina, þingmaður frá Ítalíu, sagði mikilvægt að greina á milli flóttamanna, sem hefðu rétt á vernd samkvæmt alþjóðalögum, og þeirra sem kæmu til Evrópu í leit að betra lífi en væru ekki á flótta undan ofsóknum. Hann benti á að Ítalir hefðu, án aðstoðar frá öðrum Evrópulöndum, farið yfir umsóknir um stöðu flóttamanns frá 329 þúsundum manna árin 2015–2017. Um 90% umsækjenda uppfylltu ekki nauðsynleg skilyrði til að teljast flóttamenn og væru sendir aftur til upprunalanda sinna. Ítalir vildu nú koma á fót móttökumiðstöðvum fyrir flóttafólk í öðrum löndum, t.d. á Balkanskaga, til að flýta vinnslu umsókna. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók til máls í umræðunum fyrir hönd flokkahóps sósíalista, demókrata og græningja. Hún benti á að grunngildi Evrópuráðsins væru mannréttindi, lýðræði og réttarríkið og að öll aðildarríkin væru aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Þrátt fyrir það væru leiðtogar Evrópulanda í baktjaldamakki um varðhald flóttamanna í búðum utan landamæra Evrópu í stað þess að vinna gaumgæfilega úr umsóknum flóttafólks. Miðstöðvar um vinnslu flóttamannaumsókna utan landsvæðisins (e. extraterritorial processing centres) væru martraðarkennt fyrirkomulag sem hingað til hefði aðeins verið viðhaft af áströlskum yfirvöldum.
    Í ályktun um valdeflingu kvenna í hagkerfinu brýndi þingið aðildarríki Evrópuráðsins til þess að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að vinna að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, auka launagagnsæi svo að tryggja mætti sömu laun fyrir sama starf, og til að hefja jafnlaunavottun. Einnig mæltist þingið til þess að stuðlað yrði að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs, t.d. með sveigjanlegum vinnutíma, foreldraorlofi og hagkvæmri dagvistun fyrir börn. Í skýrslu framsögumanns, Elenu Centemero, þingkonu frá Ítalíu, var sagt frá heimsókn hennar til Íslands þar sem hún fræddist m.a. um jafnlaunavottun og kynjakvóta á fundum með ráðherrum utanríkismála og jafnréttismála, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands og Félagi kvenna í atvinnulífinu. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps síns og lýsti ánægju sinni með ályktunina. Hún sagði Ísland hafa tekið upp jafnlaunavottun til þess að vinna gegn launamun kynjanna. Kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja og stofnana hefði verið tekinn upp árið 2006 að fordæmi Norðmanna en sú nýjung hefði krafist baráttu, bæði í Noregi og á Íslandi. Rósa Björk sagði valdeflingu kvenna í efnahagslífinu vera baráttu fyrir grundvallarmannréttindum, óháð kynferði, kynþætti, trú eða kynhneigð. Í umræðum komu fram þau sjónarmið að kynjakvótar væru mikilvægir til að breyta menningu og hefðum. Aukin þátttaka kvenna á vinnumarkaði skilaði auknum hagvexti og bættum lífskjörum fyrir alla.
    Í ályktun um þvinguð hjónabönd í Evrópu beindi þingið þeim tilmælum til aðildarríkja Evrópuráðsins að auðvelda aðlögun innflytjenda, verja fórnarlömb þvingaðra hjónabanda og sækja þá til saka sem stæðu að baki þeim. Þingið ítrekaði að þvinguð hjónabönd fælu í sér víðtækt ofbeldi gegn konum og stúlkum og brytu gegn grundvallarréttindum fórnarlambsins, þar á meðal réttinum til líkamlegs öryggis, líkamlegrar og andlegrar heilsu, kyn- og æxlunarheilbrigðis, menntunar, einkalífs, frelsis og sjálfstæðis. Í skýrslunni kom fram að 39.000 stúlkur á barnsaldri væru þvingaðar í hjónaband á degi hverjum. Í umræðum benti Birgir Þórarinsson á að þrátt fyrir að barnahjónabönd væru algengari í múslimalöndum væru þvinguð hjónabönd ekki bundin við nein sérstök trúarbrögð heldur væru þau harmleikur sem tengdist fátækt og hefðum. Hins vegar væri ótækt að réttlæta þvinguð hjónabönd með vísun í hefðir eða menningu þar sem þau væru andstæð grundvallargildum um mannréttindi. Birgir sagði baráttuna gegn þvinguðum hjónaböndum verða að fara fram á mörgum vígstöðvum, þar á meðal með vitundarvakningu, aðstoð við fórnarlömb, þjálfun viðbragðsaðila og í menntakerfinu. Einnig væri mikilvægt að fá trúarleiðtoga til að taka þátt í baráttunni þar sem þeir gætu sýnt fordæmi um breytta hegðun og viðhorf og talað fyrir því að manngildi stúlkna og kvenna fælist í fleiru en hjónabandi og móðurhlutverkinu.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu, verndun mannréttindafrömuða í aðildarríkjum Evrópuráðsins, auknar hömlur á starfsemi frjálsra félagasamtaka, viljandi eyðileggingu og sölu á menningarverðmætum og jafnvægi milli hagsmuna barna og nauðsynjar þess að halda fjölskyldum saman í barnaverndarmálum.
    Samhliða þinginu fundaði sérnefnd um hlutverk og verkefni þingsins í síðasta sinn og skilaði skýrslu sinni til framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins. Einnig var haldinn fundur í sameiginlegri nefnd ráðherraráðsins og þingsins þar sem fulltrúar í nefndinni skiptust á upplýsingum um ferlið og viðruðu skoðanir sínar á gildandi reglum Evrópuráðsþingsins um sviptingu atkvæðisréttar sendinefnda aðildarríkja. Á lokadegi þingsins samþykkti framkvæmdastjórn að vísa tillögum um umbætur á reglum þingsins til þingskapanefndar til umfjöllunar og skýrslugerðar fyrir októberfund þingsins.
    Þingskapanefnd hélt áfram fundum sínum um niðurstöður skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar um spillingarmál innan Evrópuráðsþingsins. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að fjórtán fyrrverandi meðlimir Evrópuráðsþingsins hefðu gerst brotlegir við siðareglur þingsins og ákveðið var að banna þeim aðgang að byggingum Evrópuráðsins og -þingsins til frambúðar. Nefndin hefur í kjölfar skýrslunnar einnig svipt sjö núverandi meðlimi þingsins ýmsum réttindum.
    Marija Pejcinovic Buric, utanríkisráðherra Króatíu, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins, en þingið ávörpuðu einnig Andrej Plenkovic, forsætisráðherra Króatíu, Peter Pellegrini, forsætisráðherra Slóvakíu, og Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar. Þá var Gilberto Felici kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir San Marínó.
    Á fyrsta fundi laga- og mannréttindanefndar samhliða þinginu var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kjörin formaður nefndarinnar til ársloka 2019. Samhliða þinginu hélt Íslandsdeild fundi utan dagskrár með landahópi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og með fulltrúum Open Dialogue Foundation um stöðu mannréttinda og réttarríkis í Kasakstan og Póllandi.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 8.–12. október 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bergþór Ólason auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru tillögur um breytingar á þingsköpum, deilur Rússa við Evrópuráðsþingið og Evrópuráðið, málefni flóttamanna og réttindi regnbogafjölskyldna.
    Stærsta mál októberfundarins voru tillögur þingskapanefndar Evrópuráðsþingsins um breytingar á þingsköpum og versnandi samskipti Rússa og Evrópuráðsins. Rússar höfðu ekki sent landsdeild á Evrópuráðsþingið frá árinu 2015 í mótmælaskyni við það að landsdeildir þeirra voru í tvígang sviptar atkvæðisrétti sínum á þinginu. Sú svipting var samþykkt vegna innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014 á grundvelli reglna þingsins um athugasemdir við kjörbréf landsdeilda af efnislegum ástæðum (e. challenge to credentials on substantive grounds). Frá sumrinu 2017 höfðu Rússar enn fremur haldið eftir greiðslum sínum til Evrópuráðsins í heild.
    Petra De Sutter, framsögumaður ályktunarinnar, benti á að reglur um athugasemdir við kjörbréf af efnislegum ástæðum væru 30 ára gamlar. Að mati þingskapanefndar hefði þingið áunnið sér rétt til að svipta landsdeildir ýmsum réttindum þrátt fyrir að lagalegt álit frá lögfræðiskrifstofu Evrópuráðsins kvæði á um annað. Þingskapanefnd styngi því upp á að halda þessum rétti þingsins til að gera athugasemdir við kjörbréf af efnislegum ástæðum en að styrkja pólitískt lögmæti slíkra ákvarðana. Í tillögum þingskapanefndar var aukið við fjölda þeirra sem þyrftu að standa að baki athugasemdum við kjörbréf. Einnig var reglum um atkvæðagreiðslur breytt þannig að 2/ 3 hlutar þingmanna þyrftu að greiða atkvæði með því að svipta landsdeildir réttindum sínum, auk þess sem þingfundur þyrfti að vera ákvörðunarbær. Í ályktun þingskapanefndar var enn fremur sett fram sú túlkun að svipting atkvæðisréttar hefði ekki áhrif á rétt landsdeilda til að kjósa dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, mannréttindafulltrúa eða framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
    Heitar umræður urðu um tillögurnar þar sem hópur þingmanna, aðallega frá Bretlandi, Úkraínu, Georgíu, Svíþjóð og Eystrasaltslöndum, hélt því fram að tillögurnar þjónuðu þeim tilgangi einum að gera Rússum kleift að leggja fram kjörbréf nýrrar sendinefndar á næsta ári án þess að eiga á hættu að sendinefndin yrði svipt atkvæðisrétti sínum. Þannig væri þingið að láta undan kúgunartilburðum. Bent var á árásargirni Rússa gagnvart Úkraínu og Georgíu, eiturefnaárásina í Salisbury, flug MH17 sem grandað var og netárásir Rússa á ýmis vestræn lönd. Rússar sæktust ekki eftir samræðum heldur vildu valda sundrung og óstöðugleika í vestrænum ríkjum. Svo lengi sem sú væri raunin ætti ekki að koma til móts við kröfur Rússa. Nokkrir þingmenn sögðu tillögurnar um breytingar á þingsköpum jafnast á við friðkaupastefnu (e. appeasement) Evrópuríkja gagnvart Hitler í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar.
    Jafnmargir þingmenn ræddu um mikilvægi þess að halda Evrópu sameinaðri og að tryggja rússneskum almenningi þá vernd sem Mannréttindadómstóll Evrópu veitti þeim. Bent var á mikilvægi samvinnu landa á viðsjárverðum tímum. Þinglegt samstarf ætti að byggjast á samræðum og að best væri að gera athugasemdir við framkomu Rússa ef þeir væru þátttakendur í starfi þingsins. Refsiaðgerðir ættu betur við á vettvangi ríkisstjórna en í þinglegu samstarfi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók til máls og sagði Evrópuráðsþingið standa á krossgötum. Með því að samþykkja ályktunina mundi Evrópuráðsþingið staðfesta rétt sinn til að gera athugasemdir við kjörbréf um leið og ábyrgðinni á úrlausn deilunnar yrði varpað á Rússa. Nauðsynlegt væri að Rússar yrðu áfram aðilar að Evrópuráðinu, bæði fyrir Evrópuríki og fyrir rússneskan almenning. Ef þingmenn væru hins vegar þeirrar skoðunar að Rússar ættu að víkja úr Evrópuráðinu væri nauðsynlegt að ræða það og eðlilegra að Rússum yrði boðið að ganga úr samstarfinu á vettvangi ráðherraráðsins á grundvelli 7. greinar stofnsáttmálans. Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, benti á að samkvæmt lagalegu áliti væri réttur aðildarlanda Evrópuráðsins til að kjósa dómara við Mannréttindadómstólinn og framkvæmdastjóra ráðsins bundinn í stofnsáttmála ráðsins. Reglubreytingar þær sem lægju fyrir þinginu, og sú túlkun á þingsköpum sem fælist í ályktuninni, væru mikilvægar til að leysa úr vonlausu ástandi þar sem eitt aðildarríkja tæki þátt í starfi sumra stofnana Evrópuráðsins en ekki annarra. Jagland tók undir með Þórhildi Sunnu og sagði að ákvörðun á grundvelli 7. og 8. greinar stofnsáttmálans væri mjög öflugt tæki þegar aðildarríki virtu ekki skuldbindingar sínar. Í lok umræðna lagði framsögumaður til að skýrslunni yrði vísað aftur til nefndar og var það samþykkt. Rökstuðningur De Sutter var sá að með því að fresta umræðunni yrði fjarlægð sú tímapressa sem þingmenn kvörtuðu undan og hægt yrði að taka afstöðu til reglubreytinga án þess að þær yrðu tengdar við deilu Rússa og Evrópuráðsins.
    Í ályktun um palestínsk börn í ísraelsku réttarkerfi hvatti þingið stjórnvöld í Ísrael til að breyta ísraelskum lögum, starfsreglum og viðhorfum til að standa vörð um alþjóðlega viðurkennd réttindi palestínskra barna. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps síns og lýsti samúð sinni með börnum sem væru tekin höndum á heimilum sínum um miðja nótt, þau jafnvel barin, svelt eða niðurlægð og yfirheyrð án nærveru lögfræðings eða foreldris. Hún benti á að Ísrael væri eina landið í heiminum þar sem réttað væri yfir börnum frammi fyrir herdómstól og að börnin væru yfirleitt látin afplána fangelsisvistina í Ísrael, fjarri fjölskyldum sínum og lögfræðingum mánuðum saman. Börnin sneru til baka brotin og afleiðingarnar væru víðtækar fyrir fjölskyldu þeirra og samfélagið allt. Þessi meðferð flokkaðist undir sameiginlega refsingu (e. collective punishment) sem væri stríðsglæpur. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók einnig til máls og sagði mikilvægt að verja börn fyrir ofbeldi sem gengi í arf og að koma í veg fyrir að þau álitu ofbeldi eðlilegan hluta af tilveru sinni. Í skýrslunni væri bent á alvarleg brot á mannréttindum barna og þar kæmi fram að börn væru fangelsuð í síauknum mæli. Hún hvatti ísraelsk stjórnvöld til að virða alþjóðalög þegar börn kæmust í kast við lögin. Rót vandans væri þó viðvarandi hernám Ísraels á palestínsku landi. Pólitísk lausn á deilu Ísraels og Palestínu væri nauðsynleg til að tryggja frið og öryggi beggja aðila.
    Í ályktun um jafnrétti í einkalífi og fjölskyldulífi óháð kynhneigð bað þingið aðildarríki Evrópuráðsins m.a. um að afnema mismunun gagnvart pörum af sama kyni þegar kæmi að búseturétti, heilbrigðisþjónustu, fjölskyldusameiningu, erfðarétti, ríkisborgararétti, ættleiðingu og læknisfræðilegri aðstoð við getnað. Í umræðum tók Þórhildur Sunna Ævarsdóttir til máls og benti á að stórfengleg viðhorfsbreyting hefði átt sér stað á Íslandi á örfáum áratugum í kjölfar þrotlausrar baráttu hinsegin fólks. Regnbogafjölskyldur væru eins og hverjar aðrar fjölskyldur og ættu rétt á sams konar viðurkenningu og vernd. Þingið samþykkti einnig tvær ályktanir um málefni flóttamanna. Önnur fjallaði um fjölskyldusameiningu og hin um mikilvægi kynjasjónarmiða að því er snerti aðlögun flóttamanna. Í umræðum um ályktanirnar tók Rósa Björk Brynjólfsdóttir til máls og sagði tímabært að huga að málefnum stúlkna og kvenna á flótta. Margar þeirra yrðu fyrir mismunun og kynbundnu ofbeldi í viðtökulöndum. Mikilvægt væri að horfast í augu við vandamálið og styðja við réttindi kvenna og gildi manngæsku og samúðar.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um erlenda fjármögnun íslams í Evrópu, um róttækni meðal innflytjenda, kjarnorkuöryggi, ótakmarkaðan aðgang eftirlitsaðila að aðildarríkjum Evrópuráðsins, um hlutverk þjóðþinga í árangursríkri valddreifingu, samningaviðræður í sakamálum og um brotlendingu flugvélar pólska hersins árið 2010 á rússnesku landsvæði. Rósa Björk Brynjólfsdóttir var framsögumaður skýrslu framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar þingsins.
    Marija Pejcinovic Buric, utanríkisráðherra Króatíu, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins og þingið ávarpaði einnig Khemaies Jhinaoui, utanríkisráðherra Túnis. Darian Pavli var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Albaníu og Arnfinn Bårdsen fyrir Noreg. Þá voru afhent mannréttindaverðlaun Václavs Havels. Verðlaunahafinn að þessu sinni var Oyub Titiev, yfirmaður mannréttindasamtaka í Grosní í Tsjetsjeníu, en við afhendingu verðlaunanna sat hann í fangelsi vegna fréttaflutnings af mannréttindabrotum í héraðinu.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Helsinki 23. nóvember 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fundurinn var haldinn í Helsinki en Finnland hafði nýtekið við formennsku í Evrópuráðinu. Á dagskrá var viðurkenning táknmáls sem opinbers tungumáls, líknandi meðferð sem mannréttindi og frjáls för erlendra námsmanna í Evrópu.
    Liliane Maury Pasquier, forseti Evrópuráðsþingsins, setti fundinn og ræddi m.a. um tillögur þingskapanefndar um breytingar á þingsköpum, sem lagðar voru fram á októberfundi þingsins en vísað var aftur í nefnd. Forseti sagði frá því að skýrslan og ályktunardrögin yrðu á dagskrá þingskapanefndar á fundi nefndarinnar í desember. Einnig myndi nefndin ræða um túlkun á núverandi þingsköpum í ljósi ákvæða stofnsáttmála Evrópuráðsins. Bent hefði verið á að samkvæmt stofnsáttmála ættu öll aðildarlönd rétt á að kjósa dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, framkvæmdastjóra og mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins. Maury Pasquier sagði að það væri allra hagur ef nefndin kæmist að samkomulagi um túlkun þingskapa á þann veg að svipting atkvæðisréttar landsdeilda næði ekki til þessa kjörs. Forseti sagðist einnig stefna að auknum samskiptum og samvinnu við ráðherranefnd Evrópuráðsins á árinu 2019.
    Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynnti áherslur finnskra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði, en Frakkar taka við formennskunni í maí 2019. Soini ítrekaði mikilvægi Evrópuráðsins fyrir íbúa aðildarríkjanna, alls 830 milljónir manna, því að ráðið væri verndari mannréttinda, réttarríkisins og lýðræðis. Evrópuráðið stæði frammi fyrir brýnum verkefnum sem sneru að þátttökuréttindum á Evrópuráðsþinginu og fjárhagsvanda í kjölfar þess að Rússar héldu eftir aðildargjöldum sínum til ráðsins. Soini sagði finnsk stjórnvöld mundu gera sitt besta til að stuðla að uppbyggilegum samræðum sem gætu leitt til lausna á deilum Evrópuráðsins við Rússa. Nauðsynlegt væri hins vegar að ráðast í allsherjarumbætur og endurskoðun á rekstri ráðsins og þar vildu Finnar einkum huga að kjarnastarfsemi ráðsins. Helsta áhersluefni Finna í formennsku Evrópuráðsins yrði því styrking mannréttindastarfs ráðsins, Mannréttindadómstólsins og sáttmála um mannréttindi og réttarríkið. Einnig mundu Finnar leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og aukið gagnsæi og baráttu gegn hatursorðræðu. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir spurði ráðherrann hvort einhver umræða hefði verið um það á vettvangi ráðherranefndarinnar að önnur aðildarríki Evrópuráðsins hækkuðu aðildargjöld sín til að standa undir rekstri ráðsins á meðan deilan við Rússa stæði yfir. Soini sagðist mundu hvetja Rússa til að standa við skuldbindingar sínar en benti á að Evrópuráðið ætti við víðtækari rekstrarvanda að etja. Nauðsynlegt væri að taka ákvarðanir um hvert ráðið ætti að stefna og forgangsraða starfinu. Ráðherrann var spurður um afstöðu sína til mögulegrar nýrrar túlkunar á þingsköpum Evrópuráðsþingsins. Með þeirri túlkun yrði komið í veg fyrir að hægt væri að svipta landsdeildir kosningarrétti við kjör dómara og framkvæmdastjóra og þar með væri helsta ágreiningsefni Evrópuráðsþingsins og Rússa leyst. Soini sagði nauðsynlegt að reyna eitthvað nýtt og sagðist opinn fyrir öllum hugmyndum. Rósa Björk Brynjólfsdóttir bað Soini að greina nánar frá fyrirætlunum Finna varðandi baráttu gegn auknum pópúlisma og hatursorðræðu. Soini, sem var leiðtogi stjórnmálaflokksins Sannra Finna í tuttugu ár, sagðist vel að sér um pópúlisma. Átök hefðu alltaf fylgt stjórnmálunum en á síðustu árum hefði orðræða orðið harðskeyttari og oft grafið undan mannréttindum pólitískra andstæðinga, ekki síst á samfélagsmiðlum. Nú ættu stjórnmálamenn í auknum mæli í höggi við öfl sem vildu þurrka út núverandi stjórnmálakerfi. Mikilvægt væri að stjórnmálamenn tækjust á á siðmenntaðan hátt.
    Anna Rurka, forseti Ráðstefnu frjálsra félagasamtaka hjá Evrópuráðinu (e. Conference of the INGOs), kom á fund stjórnarnefndar og kynnti starf samtakanna. Rurka benti á að úttektir samtakanna á lagaumhverfi frjálsra félagasamtaka hefðu sýnt fram á neikvæða þróun mála í Póllandi og Rúmeníu. Hún hvatti þingmennina til að nýta sér útgefið efni frá samtökunum.
    Á fundi stjórnarnefndar var samþykkt einróma ályktun um að vernda táknmál og hefja það til virðingar. Í ályktuninni kallaði þingið eftir því að aðildarríki viðurkenndu táknmál sem opinbert tungumál og tryggðu heyrnarlausum börnum menntun á táknmáli. Einnig voru aðildarríki hvött til þess að styðja við táknmálstúlkun í sjónvarpi og tryggja túlkun í opinberri þjónustu. Enn fremur var kallað eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins tryggðu heyrnarlausum grundvallarrétt til atvinnu, menntunar, aðgengis að heilbrigðisþjónustu og þátttöku í stjórnmálum. Í tilmælum til ráðherranefndarinnar, sem einnig voru samþykkt einróma, var kallað eftir stofnun vinnuhóps um stöðu og vernd táknmála í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók til máls í umræðum og sagði frá því að táknmál hefði verið viðurkennt sem opinbert tungumál á Íslandi árið 2011. Ekki væri þó nóg að viðurkenna táknmál formlega sem opinbert tungumál heldur þyrfti pólitískan vilja til að styðja við táknmál. Hún hvatti alla viðstadda til að vinna ályktuninni brautargengi í sínum heimaþingum.
    Stjórnarnefnd samþykkti einnig ályktun um breytt vinnulag í aðdraganda kjörs dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Í ályktuninni kemur fram að hafna skuli tilnefningum frá aðildarríkjum Evrópuráðsins þegar ekki öll dómaraefni sem tilnefnd eru uppfylla kröfur sem gerðar eru til dómaranna. Einnig skuli tilnefningum hafnað ef ferli tilnefningarinnar í heimalandinu uppfyllir ekki lágmarkskröfur um gagnsæi og sanngirni eða ef ekki er haft samráð við ráðgjafarnefnd sérfræðinga um dómaraefni við Mannréttindadómstólinn.
    Í ályktun um þverfaglega og líknandi meðferð í Evrópu hvatti þingið aðildarlönd Evrópuráðsins til þess að viðurkenna líknandi meðferð sem mannréttindi og innleiða hana í heilbrigðiskerfi sitt. Einnig var kallað eftir því að aðildarríki fjarlægðu hindranir við notkun verkjastillandi lyfja í líknandi meðferð og styddu við aðstandendur og umönnunaraðila langveikra. Í ályktun um frjálsa för námsmanna um Evrópu voru aðildarríki hvött til að stuðla að slíkum hreyfanleika námsmanna milli landa. Þannig nytu námsmenn, háskólar, atvinnurekendur og ríki góðs af aukinni fjölbreytni og fjölhæfni. Einnig kallaði þingið eftir því að aðildarríki auðvelduðu erlendum námsmönnum að öðlast starfsreynslu í kjölfar náms og að dvelja áfram í námslandinu eftir nám.
    Liliane Maury Pasquier, forseti Evrópuráðsþingsins, kynnti á fundinum niðurstöður rannsóknar á kynferðislegri áreitni og ofbeldi í þingum Evrópu. Rannsóknin var unnin í samstarfi Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins og þátttakendur voru 123 þingkonur og kvenkyns starfsmenn þinga í 45 Evrópulöndum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á að 85% þeirra þingkvenna sem tóku þátt í rannsókninni höfðu upplifað kynbundið andlegt ofbeldi í starfi. Um fjórðungur þingkvennanna og 40% starfskvenna þinga höfðu upplifað kynferðislegt ofbeldi í störfum sínum. Maury Pasquier sagði að í lýðræðisríkjum þyrftu þing að vera fyrirmyndarstofnanir og staðir þar sem konur og karlar gætu unnið saman á grundvelli jafnréttis, virðingar og öryggis. Hún hvatti alla þingmenn Evrópuráðsþingsins til að taka þátt í vitundarvakningu í þeim tilgangi að breyta hugarfari fólks og binda enda á refsileysi í þessum málaflokki. Evrópuráðsþingið þyrfti að senda skýr skilaboð um að kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi væri einfaldlega óásættanlegt. Í þeim tilgangi, og í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, hleypti forseti af stokkunum herferð á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #NotInMyParliament. Paula Risikko, forseti finnska þingsins, ávarpaði einnig fundinn og lýsti ánægju sinni með framtak Maury Pasquier. Hún sagðist vera stolt af því að taka þátt í herferðinni og benti á að finnska þingið hefði framkvæmt eigin rannsókn á kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni innan þingsins.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sótti fundi framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í mars, maí, september, nóvember og desember. Hún sótti auk þess fund stjórnmála- og lýðræðisnefndar í mars og fundi nefndar um fólksflutninga og málefni flóttamanna í mars og september. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sótti fundi framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í september, nóvember og desember sem formaður laga- og mannréttindanefndar. Hún sótti einnig fundi laga- og mannréttindanefndar í mars og september, fundi þingskapanefndar í maí og september og fund jafnréttisnefndar í mars. Bæði Rósa Björk og Þórhildur Sunna sóttu fund eftirlitsnefndar í mars þar sem drög að skýrslu um framfylgd skuldbindinga Íslands gagnvart Evrópuráðinu voru til umræðu. Fundur laga- og mannréttindanefndar var haldinn í Reykjavík í maí og sóttu bæði Þórhildur Sunna og Rósa Björk fundinn. Auk þess sinnti Rósa Björk kosningaeftirliti fyrir Evrópuráðsþingið í Tyrklandi í júní og Þórhildur Sunna í Aserbaídsjan í apríl. Bergþór Ólason sótti fund félagsmálanefndar í september og fund menningarmálanefndar í september.

Alþingi, 30. janúar 2019.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaform. Bergþór Ólason.

Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2018.
    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2018:

Fyrsti hluti þingfundar 22.–26. janúar:
     *      Ályktun 2196 um verndun tungumála minnihlutahópa í Evrópu.
     *      Tilmæli 2118 um sama efni.
     *      Ályktun 2197 um grunnframfærslu.
     *      Ályktun 2198 um áhrif stríðs í Úkraínu á mannúðarmál.
     *      Tilmæli 2119 um sama efni.
     *      Ályktun 2199 um regluverk fyrir stjórnun íþróttasamtaka.
     *      Tilmæli 2120 um sama efni.
     *      Ályktun 2200 um stjórnun fótboltasamtaka.
     *      Tilmæli 2121 um samningu evrópsks sáttmála um stétt lögfræðinga.
     *      Ályktun 2201 um framfylgd skuldbindinga Bosníu.
     *      Ályktun 2202 um átök Ísraela og Palestínumanna og hugsanlegt hlutverk Evrópuráðsins í sáttamiðlun milli átakaaðila.
     *      Ályktun 2203 um eftirlit með framfylgd skuldbindinga aðildarlanda Evrópuráðsins: skýrslur um Eistland, Grikkland, Ungverjaland og Írland.
     *      Ályktun 2204 um verndun barna á átakasvæðum.
     *      Ályktun 2205 um athugasemdir við kjörbréf landsdeildar Andorra á grundvelli formgerðar.
     *      Ályktun 2206 um friðhelgi alþjóðastofnana gagnvart dómstólum.
     *      Tilmæli 2122 um sama efni.
     *      Tilmæli 2123 um styrkingu alþjóðlegra reglugerða til að hindra verslun með vörur sem notaðar eru við pyntingar og dauðarefsingar.

Stjórnarnefndarfundur 16. mars:
     *      Ályktun 2207 um jafnrétti og meðlög með börnum.
     *      Ályktun 2208 um breytingu á þingsköpum Evrópuráðsþingsins að því er lýtur að vinnutungumálum þingsins.
     *      Tilmæli 2124 um sama efni.

Annar hluti þingfundar 23.–27. apríl:
     *      Ályktun 2209 um yfirlýsingu neyðarástands og mikilvægi þess að gæta meðalhófs þegar kemur að virkjun 15. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
     *      Tilmæli 2125 um sama efni.
     *      Ályktun 2210 um loftslagsbreytingar og innleiðingu Parísarsamkomulagsins.
     *      Ályktun 2211 um að stöðva aðgengi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) að fjármögnun.
     *      Ályktun 2212 um verndun heiðarleika í fjölmiðlum.
     *      Ályktun 2213 um stöðu fjölmiðlafólks í Evrópu.
     *      Ályktun 2214 um þarfir og réttindi vegalauss fólks innan eigin lands í Evrópu.
     *      Tilmæli 2126 um sama efni.
     *      Ályktun 2215 um ástandið í Líbíu og hlutverk Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 2127 um sama efni.
     *      Ályktun 2216 um eftirfylgd skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar um spillingarásakanir innan Evrópuráðsþingsins.
     *      Tilmæli 2128 um sama efni.
     *      Tilmæli 2129 um eftirfylgd Kaupmannahafnaryfirlýsingarinnar.
     *      Ályktun 2217 um lagaflækjur í tengslum við blönduð stríð og skyldur aðildarlanda gagnvart vernd mannréttinda.
     *      Tilmæli 2130 um sama efni.
     *      Ályktun 2218 um baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi með því að heimila eignaupptöku ólöglegra eigna.
     *      Ályktun 2219 um sýklalyfjaónæma berkla í Evrópu.
     *      Ályktun 2220 um aðlögun og valdeflingu flóttabarna fyrir tilstilli skyldunáms.

Stjórnarnefndarfundur 1. júní:
     *      Ályktun 2221 um baráttu gegn orðræðu hryðjuverkasamtaka.
     *      Tilmæli 2131 um sama efni.
     *      Ályktun 2222 um fjölbreytni og jafnrétti í stjórnmálum.
     *      Ályktun 2223 um aðgengi og aðstæður fatlaðra fanga í Evrópu.
     *      Tilmæli 2132 um sama efni.

Þriðji hluti þingfundar 25.–29. júní:
     *      Ályktun 2224 um stöðu mannréttindamála meðal flóttafólks í nágrannalöndum Sýrlands.
     *      Ályktun 2225 um verndun mannréttindafrömuða í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 2133 um sama efni.
     *      Ályktun 2226 um auknar hömlur á starfsemi frjálsra félagasamtaka.
     *      Tilmæli 2134 um sama efni.
     *      Ályktun 2227 um umfjöllun hælisumsókna og stofnun flóttamannabúða erlendis.
     *      Tilmæli 2135 um sama efni.
     *      Ályktun 2228 um áhrif flóttamannastefnu Evrópusambandsins á mannréttindi flóttafólks.
     *      Tilmæli 2136 um sama efni.
     *      Ályktun 2229 um skyldur aðildarríkja Evrópuráðsins að því er varðar björgun mannslífa á hafi úti.
     *      Tilmæli 2137 um sama efni.
     *      Ályktun 2230 um ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu.
     *      Tilmæli 2138 um sama efni.
     *      Ályktun 2231 um úkraínska pólitíska fanga í Rússlandi.
     *      Ályktun 2232 um jafnvægi milli hagsmuna barna og nauðsynjar þess að halda fjölskyldum saman í barnaverndarmálum.
     *      Ályktun 2233 um þvinguð hjónabönd í Evrópu.
     *      Ályktun 2234 um viljandi eyðileggingu og sölu á menningarverðmætum.
     *      Tilmæli 2139 um sama efni.
     *      Ályktun 2235 um valdeflingu kvenna í hagkerfinu.

Fjórði hluti þingfundar 8.–12. október:
     *      Ályktun 2236 um meðferð palestínskra barna í ísraelsku réttarkerfi.
     *      Ályktun 2237 um reglur um erlenda fjármögnun íslams í Evrópu til að koma í veg fyrir róttækni og fordóma gagnvart íslam.
     *      Ályktun 2238 um róttækni meðal innflytjenda í Evrópu.
     *      Ályktun 2239 jafnrétti í einkalífi og fjölskyldulífi óháð kynhneigð.
     *      Ályktun 2240 um óheftan aðgang eftirlitsaðila Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna að aðildarríkjum Evrópuráðsins, þar á meðal svokölluðum gráum svæðum.
     *      Tilmæli 2140 um sama efni.
     *      Ályktun 2241 um kjarnorkuöryggi í Evrópu.
     *      Ályktun 2242 um hlutverk þjóðþinga í árangursríkri valddreifingu.
     *      Ályktun 2243 um fjölskyldusameiningu meðal flóttamanna og innflytjenda í Evrópuráðsríkjum.
     *      Tilmæli 2141 um sama efni.
     *      Ályktun 2244 um mikilvægi kynjasjónarmiða í málefnum flóttafólks: valdefling kvenna sem lykillinn að aðlögun flóttafólks.
     *      Ályktun 2245 um samningaviðræður í sakamálum og nauðsyn þess að fylgja lágmarkskröfum um málsmeðferð í samningamálum.
     *      Tilmæli 2142 um sama efni.
     *      Ályktun 2246 um hrap flugvélar pólska hersins, Tu-154M, árið 2010 á rússnesku landsvæði.

Stjórnarnefndarfundur 23. nóvember:
     *      Ályktun 2247 um að vernda táknmál í Evrópu og hefja þau til virðingar.
     *      Tilmæli 2143 um sama efni.
     *      Ályktun 2248 um breytt vinnulag í aðdraganda kjörs dómara við Mannréttindadómstól Evrópu.
     *      Ályktun 2249 um þverfaglega og líknandi meðferð í Evrópu.
     *      Ályktun 2250 um frjálsa för námsmanna um Evrópu.