Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 860  —  529. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2018 .


1. Inngangur.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Ilulissat í janúar. Umfjöllunarefni þemaráðstefnunnar var tækifæri og áskoranir í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum. Í máli fyrirlesara kom fram að bæði Færeyingar og Grænlendingar hefðu notið góðs af vinsældum Íslands meðal ferðamanna. Fyrirlesarar fjölluðu m.a. um möguleika á aukningu í ferðaþjónustu með nýjum flugvöllum við Nuuk og Ilulissat. Áskoranir fælust fyrst og fremst í að dreifa álaginu til að vernda náttúruna og lífsmáta íbúanna. Ekki mætti horfa framhjá auknum kostnaði sem skapaðist af aukningu í ferðaþjónustu, t.d. við styrkingu innviða. Á aukaársfundi samhliða þemaráðstefnunni var ítrekuð fyrri samþykkt Vestnorræna ráðsins um að setja á fót sérnefnd um málefni norðurslóða. Einnig var samþykkt verkefnatillaga um áhersluefni ráðsins á vettvangi Norðurskautsráðs. Í verkefnatillögunni var ákveðið að Vestnorræna ráðið mundi leggja áherslu á auknar rannsóknir á vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum, í samstarfi við Rannsóknir og greiningu. Verkefnatillagan gerði ráð fyrir að sett yrði á fót sérstakt verkefni á vettvangi Norðurskautsráðs og að skrifstofa Vestnorræna ráðsins færi með verkefnastjórn og aðstoðaði við framkvæmdina. Forsætisnefnd og ársfundur fjölluðu talsvert um málið á árinu og rætt var að fara þá leið að vekja athygli á starfsemi Rannsókna og greiningar á fundi á vegum íslensku formennskunnar í Norðurskautsráði haustið 2019.
    Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn í Lögþinginu í Þórshöfn í Færeyjum 4.–5. september og var það í annað sinn sem ársfundur var haldinn í þingsal aðildarlands. Utanríkisráðherrar landanna þriggja tóku þátt í leiðtogafundi sem bar yfirskriftina „Staða Vestur-Norðurlanda í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna“. Þemað átti uppruna sinn í ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2016 um að halda sameiginlega ráðstefnu þar sem þessi staða yrði krufin. Utanríkisráðherrar landanna stóðu að málstofu um málefnið á Hringborði norðurslóða í október og tekin var sú ákvörðun á ársfundi að þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins í Reykjavík í janúar 2019 yrði lögð undir málefnið í nokkrum málstofum sem yrðu opnar almenningi.
    Á ársfundi voru samþykktar tvær ályktanir sem báðar voru lagðar fram af Íslandsdeild. Í þeirri fyrri voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að kanna möguleika á auknu samstarfi á sviði íþróttamála. Í ályktuninni kom fram að mikilvægt væri fyrir æsku vestnorrænna landa að kynnast á vettvangi íþrótta og menningar. Það væri t.d. hægt að gera með því að halda vestnorræn íþróttamót fyrir börn og unglinga. Í annarri ályktuninni var kallað eftir stofnun samstarfsvettvangs um framtíð vestnorrænna tungumála í stafrænum heimi. Í ályktuninni var bent á ógnina sem steðjar að smærri tungumálum í kjölfar stafrænu byltingarinnar. Mikilvægt væri að leggja rækt við þróun máltæknibúnaðar til að styrkja stöðu tungumálanna. Ályktanirnar voru lagðar fram sem tillögur til þingsályktunar á Alþingi á haustþingi 2018.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, átti sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Reykjavík í febrúar. Evrópuþingmennirnir lýstu áhuga sínum á að fræðast um íslensk lög um jafnlaunavottun, sem gengu í gildi í janúar 2018. Einnig var á fundinum rætt um innflutning á selaafurðum til Evrópusambandsins og málefni norðurslóða. Þá tók forsætisnefnd þátt í 70. þingi Norðurlandaráðs í Ósló í lok október þar sem hún fundaði með ráðherrum Vestur-Norðurlanda og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Til umræðu á fundunum voru m.a. aðgerðir til að stemma stigu við plastmengun í hafi, málefni norðurslóða og verndun tungumála á tímum stafrænnar byltingar.
    Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Inga Dóra Markussen, lét af störfum í upphafi ársins og í janúar gekk forsætisnefnd frá ráðningu Sigurðar Ólafssonar í stöðuna. Í kjölfar þess að Vestnorræna ráðið fékk áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu árið 2017 hafa aðildargjöld þjóðþinganna til ráðsins hækkað og samkvæmt ályktunum Vestnorræna ráðsins skyldu aukin fjárráð nýtt til að ráða annan starfsmann á skrifstofu ráðsins í hálfa stöðu. Auglýst var eftir starfsmanni í hálfa stöðu í desember 2018 og mun ráðning fara fram á árinu 2019.
    Íslandsdeild lagði fram fimm tillögur til þingsályktunar á vormánuðum 2018 upp úr ályktunum Vestnorræna ráðsins frá ársfundum ráðsins 2016 og 2017. Ályktanirnar fimm voru samþykktar á Alþingi í apríl.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafni þess breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru lögð fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Samþykki þingið ályktanirnar er þeim beint til viðeigandi ráðuneyta sem bera ábyrgð á að hrinda ályktunum í framkvæmd. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.
    Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með samningnum var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 sem fjallaði um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða (e. Arctic Circle) árið 2016.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins var kosin á þingfundi 14. desember 2017 í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn voru kosnir Guðjón S. Brjánsson, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl Gauti Hjaltason, þingflokki Flokks fólksins, og Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hinn 7. desember 2018 var sú breyting gerð á Íslandsdeild að Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, kom í stað Karls Gauta sem varamaður. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir alþjóðaritari.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd um málefni norðurslóða var Bryndís Haraldsdóttir og varamaður var Lilja Rafney Magnúsdóttir. Íslandsdeild hélt níu fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2018.
    Þemaráðstefna ársins var haldin í Grænlandi í lok janúar og ársfundurinn í Þórshöfn í Færeyjum í byrjun september. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti fund með þingmannanefnd Evrópuþingsins í Reykjavík í febrúar. Þá fundaði forsætisnefnd einnig með ráðherrum frá Vestur-Norðurlöndum í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Ósló í lok október auk fundar með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Auk þess fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins tvisvar sinnum utan annarra funda, í janúar og í júní, auk símafunda.
    Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar, tók þátt í fundum Norðurlandaráðs á Akureyri í apríl fyrir hönd forsætisnefndar. Hann sótti einnig sendiherrafund Norðurskautsráðs í Leví í Finnlandi í mars og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Inari í Finnlandi í september. Guðjón og Bryndís Haraldsdóttir tóku auk þess þátt í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Færeyjum í maí og í Reykjavík í október, Guðjón fyrir hönd forsætisnefndar og Bryndís fyrir hönd undirnefndar um málefni norðurslóða.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn 10. janúar 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Aðrir fundarmenn voru Kári Páll Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, Aaja Chemnitz Larsen, starfandi formaður landsdeildar Grænlands, Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Elly Hauge, ritari grænlensku landsdeildarinnar og Høgni Joensen, ritari færeysku landsdeildarinnar. Helstu mál á dagskrá fundarins voru ráðning nýs framkvæmdastjóra ráðsins og þemaráðstefna ráðsins sem haldin var síðar sama mánuð.
    Formenn landsdeildanna þriggja sögðu stuttlega frá verkefnum deildanna frá síðasta fundi forsætisnefndar. Guðjón S. Brjánsson, formaður nýkjörinnar Íslandsdeildar, sagðist hlakka mikið til að taka þátt í starfi Vestnorræna ráðsins. Hann legði mikla áherslu á Norðurlandasamstarf og löndin stæðu frammi fyrir krefjandi úrlausnarefnum. Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, greindi frá starfi ráðsins og benti á að þar sem hún mundi hætta störfum í lok janúar yrði Vestnorræna ráðið án starfsmanns í einhvern tíma. Inga Dóra kynnti því næst fyrir forsætisnefnd greinargerð ráðningarnefndar sem forsætisnefnd hafði falið að auglýsa starf framkvæmdastjóra og taka viðtöl við umsækjendur. Í kjölfar greinargerðar Ingu Dóru af ferlinu fjallaði forsætisnefnd um ráðningarmálin á lokuðum fundi þar sem ákvörðun var tekin um að ráða Sigurð Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra ráðsins.
    Forsætisnefnd ræddi tillögu Ingu Dóru um verkefni innan vinnuhóps um sjálfbæra þróun í Norðurskautsráði. Um var að ræða verkefni í samvinnu við rannsóknamiðstöðina Rannsóknir og greiningu um rannsókn á áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Fram kom að meðlimir ráðsins hefðu gert athugasemdir við það að fá ekki að taka þátt í undirbúningi verkefnatillögunnar á fyrri stigum. Fjallað var um mikilvægi þess að ræða málefnið ítarlega á aukaársfundi ráðsins í Ilulissat síðar í mánuðinum, þar sem ráðsmeðlimir tækju afstöðu til verkefnatillögunnar. Inga Dóra Markussen sagðist hafa verið í sambandi við framkvæmdastjóra Rannsókna og greiningar um að koma til Ilulissat til að kynna rannsóknina fyrir ráðsmeðlimum. Kári Páll Højgaard, formaður færeysku landsdeildarinnar, lagði til að skipaður yrði vinnuhópur á aukaársfundinum með tveimur fulltrúum frá hverri landsdeild. Í vinnuhópnum gæfist kostur á að ræða málið nánar og velta upp nýjum hugmyndum að verkefnum á vettvangi Norðurskautsráðs. Hann benti á að einn fulltrúi færeysku landsdeildarinnar hefði óskað eftir að ráðið tæki frekar þátt í vinnuhópi um leit og björgun innan Norðurskautsráðs. Aaja Chemnitz Larsen sagði mikilvægt að tryggja þátttöku ráðsmeðlima og fá álit þeirra á verkefninu. Gott yrði ef færeysku og grænlensku landsdeildirnar héldu fund um málið líkt og Íslandsdeild hefði gert. Inga Dóra ítrekaði að þrátt fyrir samþykkt verkefnatillögunnar yrði hægt að vinna að fleiri málefnum innan Norðurskautsráðs. Verkefnið um áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna hefði vakið mikinn áhuga meðlima Norðurskautsráðs og íslenska utanríkisráðuneytið hefði lýst áhuga á að styðja það.
    Farið var yfir dagskrá og þátttakendalista þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem halda skyldi í Ilulissat á Grænlandi í janúarlok 2018. Einnig ræddi forsætisnefnd fjárhagsuppgjör ársins 2017 og fjárhagsáætlun ársins 2018.

Þemaráðstefna í Ilulissat á Grænlandí 29.–31. janúar 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Guðjón S. Brjánsson, formaður, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland og Lilja Rafney Magnúsdóttir auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Frá Íslandi kom jafnframt Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra.
    Samhliða ráðstefnunni hélt Vestnorræna ráðið aukaársfund. Á fundinum var fjallað um verkefnatillögu Vestnorræna ráðsins um áhersluefni ráðsins á vettvangi Norðurskautsráðsins. Samkvæmt tillögunni mundi Vestnorræna ráðið leggja megináherslu á rannsókn á vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Í umræðum um verkefnatillöguna kom fram óánægja meðal nokkurra ráðsmeðlima með það að of lítið samráð hefði verið haft við þingmennina og að vinnan við tillöguna hefði að mestu leyti farið fram á skrifstofu ráðsins. Jörgen Niclasen, þingmaður frá Færeyjum, sagðist heldur vilja að ráðið legði áherslu á mikilvægari málefni á norðurslóðum, t.d. varðandi leit og björgun. Aaja Chemnitz Larsen, þingkona frá Grænlandi, benti hins vegar á að ungmennin væru helsta auðlindin sem norðurslóðir hefðu á að skipa og mikilvægt væri fyrir framkvæmdastjórann að hafa skýra stefnu innan Norðurskautsráðsins. Hún benti á að verkefnatillagan hefði verið rædd í forsætisnefnd og ítrekaði mikilvægi þess að formenn landsdeilda upplýstu deildir sínar um það sem fram færi á forsætisnefndarfundum. Lars-Emil Johansen, þingforseti Grænlands og formaður grænlensku landsdeildarinnar, tók undir það. Bryndís Haraldsdóttir benti á að með þessari tillögu væru Vestur-Norðurlönd að leggja af mörkum sérhæfða þekkingu sem þörf væri á meðal annarra landa á norðurslóðum. Magni Laksáfoss, þingmaður frá Færeyjum, spurði Ingu Dóru Markussen, framkvæmdastjóra, hvaða fleiri hugmyndir að verkefnum hefðu verið skoðaðar og hvers vegna þessi hefði orðið fyrir valinu. Inga Dóra sagði þessa hugmynd hafa passað vel inn í þá stefnu sem mótuð hefði verið í umsóknarferlinu auk þess sem hún hefði fengið góðan hljómgrunn meðal fulltrúa Norðurskautsráðs, þar á meðal fulltrúa Íslands og Bandaríkjanna. Jón Sigfússon, framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar, flutti fyrirlestur á aukaársfundinum um forvarnastefnu og rannsóknir á Íslandi og svaraði spurningum ráðsmeðlima.
    Verkefnatillagan var samþykkt samhljóða og í kjölfarið var einnig samþykkt að skrifa undir samstarfsyfirlýsingu við Rannsóknir og greiningu um framkvæmd rannsóknarinnar. Næsta skref yrði að tryggja stuðning aðildarlands að Norðurskautsráðinu við verkefnatillöguna svo unnt yrði að leggja hana fram í vinnuhópi um sjálfbæra þróun. Meðlimir Vestnorræna ráðsins samþykktu ályktun um að setja á fót sérnefnd um málefni norðurslóða. Sérnefndin skyldi skipuð einum fulltrúa úr hverri landsdeild auk varamanna og hafa það verkefni að sækja ráðstefnur Hringborðs norðurslóða og fylgjast með norðurslóðamálum fyrir hönd ráðsins. Á fundinum var ársreikningur ársins 2016 samþykktur og einnig fjárhagsáætlun ársins 2018. Að lokum var svo fráfarandi framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Inga Dóra Markussen, kvödd og nýr framkvæmdastjóri, Sigurður Ólafsson, boðinn velkominn.
    Þemaráðstefnan bar yfirskriftina „Tækifæri og áskoranir í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum“ og var sérstök áhersla á sjálfbærni í ferðaþjónustu. Ráðstefnan hófst þriðjudaginn 30. janúar með opnunarávarpi Kára Páls Højgaard, formanns Vestnorræna ráðsins. Í málstofu um ferðaþjónustu á Grænlandi tók meðal annarra til máls Kattie Nielsen, frá ferðaþjónustu Suður-Grænlands. Nielsen benti á að vegna þess hvað það væri dýrt að koma til Grænlands kæmu þangað aðeins vel stæðir ferðamenn. Í stað þess að einblína á leiðir til að gera flugsamgöngur ódýrari ætti frekar að nýta það tækifæri sem fælist í þessum hópi viðskiptavina og bæta gæði þjónustunnar. Iddimanngiu Bianco, frá ferðaþjónustu Austur-Grænlands, benti á að þrátt fyrir að íbúar á austurströndinni væru aðeins 3.000 hefðu ferðamenn gist í 11.000 nætur á svæðinu í fyrra. Nær allir ferðamennirnir kæmu með Air Iceland Connect frá Íslandi og lentu í Kulusuk. Ole Dorph, fyrrum bæjarstjóri Ilulissat bæjarfélagsins, sagði erfitt fyrir Grænlendinga að taka þátt í ferðaþjónustu. Flestir ferðaþjónustuaðilar væru erlendir og þeir flyttu með sér eigið starfsfólk og tækju mestan hluta hagnaðarins með sér úr landi. Hann sagði sárvanta reglugerðir um starfsemi ferðaþjónustuaðila á Grænlandi og menntun í ferðaþjónustu fyrir Grænlendinga.
    Lykke Yakaboylu, frá ferðamálaráði Grænlands, sagði landið hafa notið góðs af vinsældum Íslands. Grænlendingar ynnu að því að lengja ferðaþjónustutímabilið og bæta gagnaöflun. Yakaboylu og fleiri fyrirlesarar ræddu um mikilvægi þess að halda við þekkingu á notkun hundasleða svo nýta mætti þann ferðamáta í ferðaþjónustu. Þörf væri á að kenna yngri kynslóðinni hvernig fara ætti að við hundahald og þjálfun. Ole Dorph benti á að í Ilulissat hefði fjöldi hunda farið úr 5.000 í 1.200 á nokkrum árum. Ef hundaeign minnkaði enn frekar yrði það alvarlegt fyrir grænlenska hundastofninn. Einnig var rætt um mikilvægi menningar í ferðaþjónustu og bentu sumir fyrirlesarar á það að ferðaþjónusta gæti stuðlað að því að vernda menningararf. Aðrir efuðust um að menningarviðburðir sem framleiddir væru fyrir ferðamenn gætu flokkast sem raunverulegur menningararfur.
    Hans Enoksen, ráðherra atvinnumála, vinnumarkaðarins, verslunar og orku, ræddi um áætlanir grænlensku landstjórnarinnar um að lækka kostnað ferðamanna og fjölga komum þeirra. Hann sagði ferðamönnum hafa fjölgað um 20% á undangengnum þremur árum og að stefnt væri að því að fjölga þeim úr 37.000 í 74.000 árið 2040. Einnig væri stefnt að því að fjölga komum skemmtiferðaskipa. Þessum markmiðum hygðist landsstjórnin ná með því að stækka flugvellina í Ilulissat og Nuuk, bæta aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip og lækka skatta og gjöld á ferðaþjónustu. Enoksen benti á að eins og staðan væri í flugvallarmálum kæmu flestir ferðamenn frá Kaupmannahöfn til gamla herflugvallarins í Kangerlussuaq og færu þaðan áfram með dýru innanlandsflugi. Þannig yrði Grænland illa samkeppnishæft á alþjóðamarkaði.
    Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði frá viðbrögðum stjórnvalda við aukningu ferðamanna á Íslandi. Brugðið hefði verið á það ráð að hefja samstarf milli fjögurra ráðherra, þ.e. ráðherra fjármála, umhverfismála og samgöngumála, auk ferðamálaráðherra. Stjórnvöld hefðu lagt áherslu á að dreifa ferðamönnum, bæði um landið og yfir árið. Að svo komnu kæmi aðeins þriðjungur ferðamanna á háannatímanum júní fram í ágúst. Þórdís sagði að vonin væri sú að aukningin yrði sjálfbær í framtíðinni og benti á að enn hefðu stjórnvöld ekki beitt aðgerðum á borð við kvóta til að stjórna aðgangi að ferðamannastöðum. Bjørt Samuelsen, þingkona frá Færeyjum, kynnti ferðamálastefnu Færeyja í fjarveru ráðherra. Sú stefna legði áherslu á menntun leiðsögumanna, aukna skipulagningu og skýra ábyrgð auk þess sem samþykkt verða ný lög um náttúruvernd.
    Ólöf Ýrr Atladóttir, fyrrverandi ferðamálastjóri og sjálfstætt starfandi sérfræðingur hjá Alþjóðaferðamálastofnuninni, hélt fyrirlestur um sjálfbærni í ferðaþjónustu. Hún benti á að aukin ferðaþjónusta skapaði álag á innviði samfélagsins. Fulltrúar stjórnvalda sæju oft fyrir sér auknar tekjur af ferðaþjónustu án þess að gera sér grein fyrir kostnaðinum sem skapaðist. Sem dæmi mætti nefna aukna þörf á sérhæfðum reglugerðum og eftirfylgd með þeim. Innviðir á borð við vegasamgöngur og almenningssundlaugar væru þar að auki hannaðir með þarfir íbúanna í huga en alls ekki hina gríðarlegu aukningu í ferðaþjónustu sem sést hefði t.d. á Íslandi. Sjálfbær ferðaþjónusta væri sú sem tæki tillit til upplifunar íbúanna, umhverfisáhrifa og efnahagslegra þátta. Fulltrúar stjórnvalda þyrftu að taka ábyrgð á aðgerðum sínum en einnig gestirnir og íbúarnir sjálfir. Ólöf Ýrr sagði ekki rétt að spyrja stöðugt hvernig við gætum aukið ferðaþjónustu heldur frekar hvaða áhrif við vildum að hún hefði á samfélag okkar.
    Að lokinni þemaráðstefnunni miðvikudaginn 31. janúar var haldið menningarkvöld í félagsheimilinu í Ilulissat með þátttöku bæjarstjóra Avannaata-bæjarfélagsins og íbúa bæjarins. Boðið var upp á þjóðlegan mat frá löndunum þremur, þar á meðal íslenskan þorramat.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins í Reykjavík 13. febrúar 2018.
    Árlegur fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með sendinefnd Evrópuþingsins fór fram í Reykjavík hinn 13. febrúar. Af hálfu Alþingis sótti fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Þingmannanefndin (DEEA) sinnir samskiptum Evrópuþingsins við Sviss, Noreg, Ísland og EES-svæðið, auk norðursins. Helstu mál á dagskrá voru málefni norðurslóða, jafnréttismál og nýting auðlinda sjávar. Í tengslum við fundinn fengu sendinefndirnar einnig kynningu á starfsemi vinnuhópa Norðurskautsráðs sem starfa á Akureyri og á jafnlaunavottun frá fulltrúum velferðarráðuneytisins. Fundarmenn fóru auk þess í fræðsluheimsókn í Íslenska sjávarklasann á Granda og á Landnámssýninguna í Aðalstræti.
    Kári Páll Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, og Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar, sögðu stuttlega frá starfi ráðsins frá síðasta fundi sendinefndanna. Guðjón kynnti fyrir fundarmönnum samþykkta verkefnatillögu Vestnorræna ráðsins um rannsókn á áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum, sem áformað væri að leggja fram í vinnuhópi Norðurskautsráðs um sjálfbæra þróun. Hann sagði að þingmannasamtök ættu að hafa áhrif á stefnumótun á norðurslóðum og að Vestnorræna ráðið mundi starfa að velferð íbúa norðurslóða. Ráðið ynni auk þess með öðrum þingmannasamtökum á norðurslóðum og tæki þátt í ráðstefnum Hringborðs norðurslóða (e. Arctic Circle).
    Anna Hedh, varaformaður sendinefndar Evrópuþingsins, sagði Evrópusambandið treysta á stuðning Vestnorræna ráðsins þegar kæmi að umsókn sambandsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, en ESB hafði sótt um áheyrnaraðild frá árinu 2008 án árangurs. Julia Pitera, Evrópuþingkona frá Póllandi, vakti máls á fyrirætlunum Kínverja á norðurslóðum. Hún sagði kínversk stjórnvöld hafa fjárfest gríðarlega mikið í þessari nýju „silkileið“, sem einnig hefur verið kölluð „belti og braut“ (e. belt and road), frá árinu 2013. Kína treysti á útflutning og með bráðnun íss á norðurslóðum gætu Kínverjar stytt siglingaleiðir til Evrópu og Ameríku um 20 daga. Þessi áhugi Kínverja mundi hafa mikil áhrif á heimsviðskipti og löndin á svæðinu. Daniela Aiuto, Evrópuþingkona frá Ítalíu, tók í sama streng og benti á að Kínverjar væru nú í þeirri stöðu að viðsnúningur á áhrifum loftslagsbreytinga mundi draga úr ávinningi þeirra af þessari nýju siglingaleið. Þetta ætti við um fleiri lönd sem hygðust hagnast á opnun siglingaleiðarinnar. Hagsmunir þeirra af því að standa vörð um norðurslóðir væru ekki jafn ríkir og áður.
    Sjálfbær nýting auðlinda sjávar var rædd á fundinum og sagði Anna Hedh mikilvægt að notast við vísindaleg gögn frekar en upplýsingar af samfélagsmiðlum þegar rætt væri um sjálfbæra nýtingu sjávarafurða. Hún ítrekaði stuðning Evrópuþingsins við undanþágu inúíta frá banni Evrópusambandsins við innflutningi selaafurða. Kári Páll Højgaard sagði frá því að vorið 2018 yrðu í fyrsta sinn framleiddar selaafurðir með QR merki í Grænlandi. Þegar merkið væri skannað með farsíma væri neytendum beint inn á upplýsingasíðu ESB um undanþáguna.
    Kári Fannar Lárusson, verkefnastjóri hjá vinnuhópi Norðurskautsráðs um líffræðilega fjölbreytni (e. biodiversity working group / Conservation of Arctic Flora and Fauna, CAFF), kynnti starfsemi vinnuhópsins og einnig vinnuhóps um verndun sjávar á norðurslóðum (e. Protection of the Arctic Marine Environment, PAME). Meðal mikilvægustu starfa vinnuhóps um líffræðilega fjölbreytni væru rannsóknir til að afla upplýsinga um stöðu hinna ýmsu stofna. Kári Fannar nefndi nokkrar tegundir sem væru í útrýmingarhættu og benti á hversu flókið það væri að vernda þær. Til að mynda hefði orðið vart við fækkun þriggja farfuglategunda sem verptu á norðurslóðum en að þeim væri ógnað af fæðuskorti við Gulahaf við Kína, þar sem fuglarnir dveldu á veturna. Kári Fannar benti á að vinnuhópur um verndun sjávar á norðurslóðum gæfi árlega út skýrslu um siglingar á norðurslóðum. Áhersla væri lögð á að vernda viðkvæma náttúru og vistkerfi fyrir mengun sem hlytist af skipaflutningum og nýtingu auðlinda við strendur norðurslóða.
    Rósa Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur, og Petra Baumruk, lögfræðingur, kynntu lagasetningu um jafnlaunavottun meðal fyrirtækja, sem gekk í gildi árið 2018, fyrir hönd velferðarráðuneytisins. Þær útskýrðu að jafnlaunastaðallinn hefði verið búinn til að fyrirmynd ISO-staðla árið 2012 og hefði fyrirtækjum verið frjálst að nota hann síðan. Eftir að löggjöf frá því í júní 2017 gekk í gildi um áramótin 2017–2018 væri öllum fyrirtækjum með fleiri en 25 starfsmenn gert að öðlast jafnlaunavottun á þriggja ára fresti. Rósa Guðrún sagði hvatann að þessari ákvörðun hafa verið að enn hefði verið launamunur milli kynja þrátt fyrir að hann hefði verið ólöglegur frá því árið 1961. Bent hefði verið á að í gegnum aðild að alþjóðlegum sáttmálum væru íslensk stjórnvöld skuldbundin til að grípa til aðgerða til að útrýma launamun kynjanna og styrkja stöðu kvenna. Með þessari aðgerð færi ábyrgðin á því að minnka launamun kynjanna af herðum launþega yfir á atvinnurekendur. Þingmenn Evrópuþingsins spurðu m.a. hvernig viðbrögð atvinnulífsins hefðu verið við lagasetningunni. Rósa Guðrún svaraði því að fram hefðu komið beiðnir um framlengingu á aðlögunartíma fyrirtækja í kjölfar stjórnarskipta en það hefði ný ríkisstjórn ekki fallist á. Þau fyrirtæki sem hefðu tekið þátt í innleiðingartilraunum hefðu verið ánægð með staðalinn og sagt hann færa mannauðssviðinu aukin tæki og tól, auk þess sem upptaka jafnlaunastaðalsins hefði aukið ánægju starfsfólks og dregið úr starfsmannaveltu.
    Í umræðum í kjölfar kynningarinnar benti Anna Hedh á að í Svíþjóð væru lög sem bönnuðu launamismunun kynjanna en þó væri launamunur. Hún sagðist álíta það skyldu sína að vinna að jafnrétti kynjanna. Það væru margir þættir sem stæðu í vegi fyrir breytingum og þar dygði ekki ein löggjöf eða lausn. Nauðsynlegt væri að auka atvinnuþátttöku kvenna til að valdefla konur og að krefjast réttarins til fullrar vinnu og jafnra launa. Einnig þyrfti að auka hlutfall kvenna í ábyrgðarstöðum í Evrópusambandslöndum. Jill Evans, Evrópuþingkona frá Bretlandi, sagðist gleðjast yfir því að sjá dæmi um vel heppnaða stjórnvaldsaðgerð. Nauðsynlegt væri að halda þessu fordæmi á lofti á alþjóðavettvangi. Daniela Aiuto sagði Ísland dæmi um land í fremstu röð í málaflokknum. Ekki síst í ljósi þess væri athyglisvert að sjá að tölur um ofbeldi gegn konum væru svipaðar þar og í flestum löndum. Þannig væri ekki hægt að sjá áhrif aukinnar atvinnuþátttöku á kynbundið ofbeldi. Rætur þess væru djúpar og það væri erfitt að uppræta. Julia Pitera sagði nauðsynlegt að endurskoða hugmyndir um fæðingarorlof. Hún benti á að í Póllandi væri fæðingarorlof 12 mánuðir samanlagt fyrir það foreldrið sem kysi að vera heima með barninu. Í flestum tilvikum væri það konan sem tæki fæðingarorlofið og því væri tveggja barna móðir frá vinnu í samtals tvö ár. Þessi fjarvera hefði áhrif á möguleika hennar til að afla sér reynslu og auka frama sinn. Þessi mál þyrfti að skoða í tengslum við tilraunir til að útrýma launamun kynjanna.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Reykjavík 14. júní 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Aðrir fundarmenn voru Kári Páll Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, Hans Enoksen, formaður landsdeildar Grænlands, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Helstu mál á dagskrá fundarins voru undirbúningur undir ársfund ráðsins í september og áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráði.
    Formenn landsdeildanna þriggja sögðu stuttlega frá verkefnum deildanna frá síðasta fundi forsætisnefndar. Hans Enoksen þakkaði fyrir hlýjar móttökur í sinn garð af hálfu forsætisnefndar í kjölfar kosninga í Grænlandi í apríl 2018. Hann sagði sjálfstæði Grænlands hafa verið ofarlega á baugi í kosningabaráttunni og benti á að 14 þingmenn af 31 kæmu nýir inn á grænlenska þingið. Kári Páll Højgaard greindi frá því að sem formanni Vestnorræna ráðsins hefði honum verið boðið á hátíðarþingfund Alþingis á Þingvöllum til að fagna 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Guðjón S. Brjánsson sagði frá þátttöku sinni í fundum Norðurskautsráðsins í mars fyrir hönd forsætisnefndar og í Hringborði norðurslóða í Færeyjum í maí fyrir hönd Íslandsdeildar.
    Sigurður Ólafsson greindi frá starfi ráðsins. Í mars tók Vestnorræna ráðið þátt í fundum vinnuhóps um sjálfbæra þróun og sendiherrafundi hjá Norðurskautsráði. Einnig fór framkvæmdastjóri á Hringborð norðurslóða í Færeyjum. Forsætisnefnd samþykkti að fela Sigurði að endurskoða reglur barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins og koma með tillögur að umbótum. Stuttlega var rætt um dönsku sem vinnutungumál ráðsins í ljósi versnandi dönskukunnáttu meðal íslenskra meðlima ráðsins á undanförnum árum. Bent var á að Íslandsdeild hefði á síðustu árum átt sífellt erfiðara með að taka þátt í starfi ráðsins vegna tungumálaörðugleika. Kári Páll Højgaard sagði nauðsynlegt að ræða það ef meðlimum ráðsins fyndist erfitt að taka þátt í starfi ráðsins sökum tungumálsins. Hann benti hins vegar á að fjárhagur ráðsins leyfði ekki túlkun yfir á þrjú tungumál og sagði varhugavert að breyta vinnutungumálinu í ensku. Ef landsdeildir óskuðu hins vegar eftir því að gera einhverjar breytingar yrði að leggja fram breytingartillögu á ársfundi.
    Forsætisnefnd ræddi þátttöku Vestnorræna ráðsins í starfi Norðurskautsráðs, en Vestnorræna ráðið er með áheyrnaraðild að Norðurskautsráði. Í umræðum kom fram að í kjölfar áheyrnaraðildarinnar hefðu framlög aðildarlanda Vestnorræna ráðsins hækkað til að standa straum af ráðningu viðbótarstarfsmanns í hálfa stöðu. Þessi starfsmaður hafði ekki enn verið ráðinn en skyldi, samkvæmt samþykktum ráðsins, fyrst og fremst sinna málefnum norðurslóða. Fram kom að innan landsdeildanna hefði verið nokkur óánægja með litla aðkomu þingmanna að þróun þeirrar verkefnistillögu sem samþykkt var á aukaársfundi ráðsins í janúar, en hún laut að rannsókn á áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Bent var á að frestur til að sækja um fjárstyrki til verkefnisins hefði runnið út og að næst yrði hægt að sækja um í lok febrúar 2019. Sigurður Ólafsson upplýsti einnig um fund sinn með fulltrúum utanríkisráðuneytis Íslands um málefnið þar sem viðraðar voru hugmyndir um að tengja verkefnið við formennsku Íslands í Norðurskautsráði haustið 2019. Forsætisnefnd samþykkti að bíða með að auglýsa í hálfa stöðu starfsmanns ráðsins þar til síðar á árinu. Fram að því yrði forgangsröðun vinnu Vestnorræna ráðsins innan Norðurskautsráðsins rædd nánar í forsætisnefnd og á ársfundi í september.
    Guðjón S. Brjánsson kynnti tillögu Íslandsdeildar að þema fyrir ráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2019 á Íslandi. Tillagan gerði ráð fyrir að haldin yrði opin ráðstefna miðvikudaginn 30. janúar og að þemað yrði „Staða Vestur-Norðurlanda í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála“. Þemaráðstefnan mundi þannig uppfylla ályktun ráðsins nr. 3 frá árinu 2016 þar sem kallað var eftir því að ríkisstjórnir landanna ynnu saman að því að halda ráðstefnu um þetta efni. Tillaga Íslandsdeildar hlaut góðan hljómgrunn og var lögð fyrir ársfund í september.

Ársfundur í Þórshöfn í Færeyjum 4.–5. september 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Guðjón S. Brjánsson formaður, Þórunn Egilsdóttir varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland og Lilja Rafney Magnúsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá fundarins voru framtíðarstefna ráðsins, málefni norðurslóða og sjávarútvegsmál.
    Fyrsti dagskrárliður ársfundarins var fundur með utanríkisráðherrum vestnorrænu landanna. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja, og Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, fluttu ávörp undir yfirskriftinni Staða Vestur-Norðurlanda í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála. Vivian Motzfeldt sagði að útganga Breta úr Evrópusambandinu gæti haft mikil áhrif á Vestur-Norðurlönd, sem stunduðu umtalsverð viðskipti við Breta. Aðspurð um aukinn áhuga Rússa og Kínverja á Grænlandi undanfarin ár sagði Motzfeldt að mikilvægt væri að Grænlendingar nýttu þennan aukna áhuga þjóð sinni og Vestur-Norðurlöndum til framdráttar. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði umhverfi Vestur-Norðurlanda hafa breyst mikið undanfarin ár og tók dæmi af auknum áhrifum Kína, átökum við Rússa, vandræðum Evrópusambandsins og loftslagsbreytingum. Til þess að takast á við þessar áskoranir þyrftu löndin að vinna enn betur saman en áður. Ef til þess kæmi að siglingaleiðin um norðurslóðir opnaðist alveg hefði það jafnmikil áhrif á sjósamgöngur í heiminum og þegar Súezskurðurinn var opnaður. Þetta hefði í för með sér ýmsar áskoranir með tilliti til aukinnar hættu á mengunarslysum og umbóta í björgunarmálum. Poul Michelsen sagði stjórnmálamenn verða að kynna sér stöðuna í heimsmálunum, þá möguleika og þær áskoranir sem stjórnmálaástandið hefði í för með sér. Hann sagði að Færeyingar hefðu hug á að endurskoða stjórnskipunarsamning sinn við Danmörku til þess að tryggja að færeyska landsstjórnin yrði betur upplýst um öryggismál.
    Formenn landsdeilda gerðu ráðinu grein fyrir starfinu á liðnu ári og flutti Guðjón S. Brjánsson, formaður, skýrslu Íslandsdeildar. Hann lýsti ánægju sinni með það að Alþingi hefði á vormánuðum afgreitt fimm þingsályktanir sem voru í samræmi við ályktanir Vestnorræna ráðsins frá árunum 2016–2017. Fulltrúar samstarfsaðila Vestnorræna ráðsins ávörpuðu einnig fundinn. Poul Michelsen flutti ávarp fyrir hönd hinna vestnorrænu samstarfsráðherra Norðurlandanna. Britt Lundberg, þingkona á Álandseyjum og meðlimur í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, sagði þátttökuna á fundum Vestnorræna ráðinu veita sér innblástur í vinnu Norðurlandaráðs. Hún sagði Norðurlöndin vera efnahagsveldi sem hefði sterka rödd á alþjóðavettvangi. Magne Rommetveit, 3. varaforseti norska Stórþingsins, lýsti ánægju sinni með ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2017 um samstarf um rannsóknir á plastmengun í Norður-Atlantshafi.
    Í umræðum um framtíð Vestnorræna ráðsins lagði Bryndís Haraldsdóttir áherslu á að ráðið markaði sér stefnu sem hægt væri að vísa til í samstarfi ráðsins við önnur þingmannasamtök og ríkisstjórnir. Stefnan skyldi marka áherslur Vestnorræna ráðsins varðandi sameiginleg hagsmunamál landanna þriggja. Hún ítrekaði mikilvægi formlegs samstarfs milli landanna og sagði slíka stefnumörkun geta gert starf ráðsins markvissara. Ákveðið var að ræða þetta mál nánar á aukaársfundi í tengslum við þemaráðstefnu ráðsins í janúar 2019. Í umræðum um samstarf Vestnorræna ráðsins við önnur þingmannasamtök og ríkisstjórnir lýsti Inga Sæland ánægju sinni með alþjóðlegt samstarf Vestnorræna ráðsins. Með virku alþjóðlegu samstarfi gætu Vestur-Norðurlönd haft meiri áhrif á stjórnmál á norðurslóðum. Hún benti á að á fundum með samstarfsaðilum gæfist færi á að kynna hagsmunamál og áherslur Vestur-Norðurlanda, eins og gert hefði verið á fundi Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu á árinu.
    Ásmundur Friðriksson tók til máls í umræðum um sjávarútvegsmál. Hann sagði að þrátt fyrir að löndin greindi á um skiptingu kvóta vegna sameiginlegra stofna þá gætu allir verið sammála um nauðsyn þess að nýta auðlindir hafsins á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Ásmundur vakti athygli á mikilvægi hafsins í áætlun Íslands fyrir formennsku í Norðurskautsráði og Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2019. Hann lýsti einnig ánægju með ítarlega skýrslu umhverfisráðuneytis Íslands um framfylgd ályktunar nr. 3 frá 2017 um rannsóknir á plastmengun í hafinu. Í skýrslunni væri að finna upplýsingar um fjölmörg íslensk og alþjóðleg verkefni sem Íslendingar tækju þátt í, en þrátt fyrir það væri áhugavert að sjá frekara vestnorrænt samstarf um rannsóknir og viðbrögð við þessari umhverfisvá. Bill Justinussen, þingmaður frá Færeyjum, sagði í ræðu sinni að Vestur-Norðurlönd þyrftu að auka samstarf sitt í sjávarútvegi. Sjávarútvegur væri mikilvægasta atvinnugreinin í löndunum og að ráðamenn yrðu að skoða af alvöru þá möguleika sem væru á samstarfi, ekki síst varðandi markaðssetningu svæðisins. Ef löndin stæðu saman að því að fá sem mest út úr auðlindunum mundu þau öll græða á því en of virk samkeppni milli landanna gæti komið niður á sameiginlegum auðlindum.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir tók þátt í umræðum um menntamál og fjallaði m.a. um ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2016. Í ályktuninni voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að íhuga stofnun vestnorrænna eftirskóla, að danskri fyrirmynd, í aðildarlöndunum. Lilja Rafney benti á að þetta skólaform, heimavistarskóli fyrir 14–18 ára unglinga, væri nær óþekkt á Íslandi. Svör ríkisstjórnar Íslands bentu enn fremur til þess að lítill vilji væri til að skoða möguleikann á því að stofna nýtt skólastig. Hún sagðist jákvæð gagnvart vestnorrænni menntun og benti á tækifæri til að auka samgang milli ungmenna á Vestur-Norðurlöndum og efla þekkingu þeirra á vestnorrænni menningu á framhaldsskólastigi eða í nýjum lýðháskóla á Íslandi. Miklar umræður sköpuðust um ályktunina og ákveðið var að halda henni lifandi og biðja ríkisstjórnirnar að finna sameiginlegan flöt á því að hrinda henni í framkvæmd. Í umræðum um samgöngur og innviði sagði Þórunn Egilsdóttir að þær breytingar sem nú ættu sér stað á norðurslóðum af völdum loftslagsbreytinga hefðu í för með sér bæði áskoranir og tækifæri fyrir Vestur-Norðurlönd. Íbúar landanna ættu með réttu að hafa áhrif á þróun mála á norðurslóðum. Þórunn sagðist telja ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2 frá 2015, um aukið samstarf landanna varðandi samgöngur og innviði, vera mjög þarfa. Þórunn hvatti ríkisstjórnirnar til að framkvæma ályktunina með því að takast á hendur athugun á forsendum sameiginlegrar stefnu varðandi málaflokkinn. Í umræðum um önnur mál tók Bryndís Haraldsdóttir til máls um stöðu fríverslunarsamnings Íslendinga og Færeyinga, sem nefndur er Hoyvíkursamningurinn. Bryndís ítrekaði mikilvægi fríverslunar milli vestnorrænna landa sérstaklega í ljósi aukinnar umræðu í Færeyjum um einhliða uppsögn samningsins.
    Á ársfundi var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði í Reykjavík í janúar 2019 og að þemaefnið yrði staða Vestur-Norðurlanda í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála. Ársfundurinn samþykkti tvær ályktanir sem verða sendar til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Báðar tillögurnar voru lagðar fram af Íslandsdeild en í þeirri fyrri voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að kanna möguleika á auknu samstarfi á vettvangi íþróttamála. Í ályktuninni kom fram að mikilvægt væri fyrir æsku vestnorrænna landa að kynnast á vettvangi íþrótta og menningar. Það væri t.d. hægt að gera með því að halda vestnorræn íþróttamót fyrir börn og unglinga. Í annarri ályktuninni var kallað eftir stofnun samstarfsvettvangs um framtíð vestnorrænna tungumála í stafrænum heimi. Í ályktuninni var bent á ógnina sem steðjar að smærri tungumálum í kjölfar stafrænu byltingarinnar. Mikilvægt væri að leggja rækt við þróun máltæknibúnaðar til að styrkja stöðu tungumálanna.
    Að lyktum var samþykkt að Ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins. Hans Enoksen, formaður landsdeildar Grænlendinga, var einróma kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi.

Þátttaka forsætisnefndar í ráðstefnunni Hringborði norðurslóða í Reykjavík 19.–21. október 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu Hringborð norðurslóða Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi Íslands í sérnefnd Vestnorræna ráðsins um málefni norðurslóða, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Utanríkisráðuneyti Vestur-Norðurlanda stóðu fyrir málstofu um stöðu landanna í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna. Samhliða fundum áttu þingmenn Vestnorræna ráðsins fund með sendinefnd Skota.
    Utanríkisráðherrar Vestur-Norðurlanda opnuðu málstofuna. Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja, benti á að í kringum löndin þrjú hefði orðið vart við aukinn hernaðarlegan viðbúnað og heræfingum hefði fjölgað. Hann sagði nauðsynlegt að stjórnmálamenn í fámennum löndum fylgdust náið með umhverfi sínu og hefðu trú á að löndin gætu haft áhrif, þrátt fyrir smæð sína. Fyrir færeysk stjórnvöld skipti höfuðmáli að vera betur upplýst um stöðu heimsmálanna af ríkisstjórn Danmerkur en hingað til hefði verið raunin. Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, sagði að til að skýra stöðu Grænlands í alþjóðastjórnmálum þyrfti að horfa til þriggja þátta: ríkjasambandsins við Danmörku, aðildar Danmerkur að NATO og náins sambands Grænlands við Bandaríkin. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, benti á að það eina sem héldist stöðugt í alþjóðastjórnmálum væri að þau væru breytileg. Áskorun stjórnvalda væri að tryggja frið, sjálfbæra þróun og hagsæld á tímum mikilla breytinga. Vestur-Norðurlönd þyrftu að beina sjónum að því sem sameinaði löndin, t.d. fríverslun, rannsóknum og sjálfbærri þróun.
    Aðalfyrirlesari á málstofunni var Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor við Háskólann í Tromsø, Norðurslóðaháskólann í Noregi. Bertelsen sagði algengt að einblínt væri á breytingar frekar en samhengi og samfellu í alþjóðastjórnmálum. Það væri þó ekkert nýtt að áhrifa alþjóðastjórnmála gætti áþreifanlega á Vestur-Norðurlöndum. Öll hefðu þau orðið fyrir verulegum áhrifum frá utanaðkomandi aðilum í seinna stríði og á tímum kalda stríðsins. Innviðir flugsamgangna bæði á Grænlandi og Íslandi bæru þess skýr merki að vera byggðir til að þjóna hernámsliðinu, ekki íbúunum. Bertelsen sagðist telja að aukin stofnanavæðing á norðurslóðum á síðustu þremur áratugum, sem lýsti sér í auknu samstarfi ríkisstjórna við hagaðila á borð við samtök innfæddra, frjáls félagasamtök og háskóla, yrði ekki endilega varanleg. Hann benti á að átök milli stórvelda hefðu sett svip sinn á svæðið að nýju með aukinni árásargirni Rússa. Þetta teldi hann eðlilegra ástand og í raun það sem flestir fræðimenn byggjust við af Rússlandi. Lognmollan síðustu áratugi væri undantekningin sem sannaði regluna. Bertelsen benti einnig á að aukin hlutdeild Kína í alþjóðastjórnmálum og efnahagsmálum virtist óhjákvæmileg ef horft væri lengra aftur í tímann en til 19. aldar. Bertelsen ítrekaði að vestnorræn lönd gætu aldrei haft áhrif á þróun alþjóðastjórnmálanna með beinum hætti. Til þess væru þau einfaldlega alltof smá. Hins vegar hefðu vestnorrænu löndin einstök alþjóðleg sambönd og gætu í gegnum þau haft áhrif langt umfram það sem ætlast mætti til af þeim útfrá stærð þeirra, efnahagsumsvifum og hernaðarmætti. Þetta gætu vestnorrænu löndin gert með því að leggja rækt við mannauðinn. Skýr áhersla á menntun og rannsóknir mundu gera það að verkum að þau gætu haft áhrif á alþjóðastjórnmál í gegnum ríkjasamstarf á sviði vísinda (e. science diplomacy).
    Bryndís Haraldsdóttir og Bjørt Samuelsen, þingkona frá Færeyjum, tóku þátt í panelumræðum ásamt Bertelsen. Bryndís sagði mikilvægt að hafa í huga það sem Bertelsen hefði bent á, að þrátt fyrir að löndin væru fámenn þá gætu þau haft áhrif í gegnum menntun og vísindi og í góðu samstarfi við atvinnugreinarnar. Einna mikilvægast væri að tryggja öryggi í umhverfismálum. Samuelsen ítrekaði að saman væru vestnorrænu löndin sterkari og að mikilvægt væri að þau kæmu saman þegar þau ættu sameiginlegra hagsmuna að gæta. Hún benti einnig á að sjálfstæðisbarátta Færeyinga og Grænlendinga hefði augljós áhrif á alþjóðastjórnmál á svæðinu.

Fundir forsætisnefndar á Norðurlandaráðsþingi 29.–31. október 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti þingið Guðjón S. Brjánsson, formaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Auk þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fund með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda. Einnig var haldinn undirbúningsfundur fyrir þessa fundi. Af hálfu landsdeildar Grænlands sótti fundinn Vivian Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins og formaður Grænlandsdeildar, og af hálfu Færeyinga tók þátt formaður færeysku landsdeildarinnar, Kári Páll Højgaard.
    Vivian Motzfeldt, formaður Vestnorræna ráðsins, flutti ræðu á þinginu fyrir hönd ráðsins undir umræðulið um alþjóðlega samvinnu. Hún þakkaði fyrir gjöfult samstarf við Norðurlandaráð á árinu og vakti athygli þingmanna á ráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Reykjavík í janúar 2019. Ráðstefnan yrði opin almenningi og umræðuefnið staða Vestur-Norðurlanda í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála. Motzfeldt sagði heiminn breytast hratt og að mikilvægt væri fyrir vestnorræn lönd að fylgjast vel með og taka þátt í ákvarðanatöku um framtíð svæðisins. Í þeim tilgangi væri áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu kærkomið tækifæri fyrir ráðsmeðlimi til að fylgjast með þróun mála á norðurslóðum. Á viðsjárverðum tímum væri enn meiri ástæða til að styrkja samstarfið við Norðurlandaráð sem deildi viðhorfum Vestnorræna ráðsins um traust, sjálfbærni, jafnrétti og gagnsæi.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði einnig með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda. Til fundarins komu Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi, Poul Michelsen, samstarfsráðherra Færeyinga, og Upaluk Poppel, starfsmaður grænlenska utanríkisráðuneytisins, en grænlenski samstarfsráðherrann boðaði forföll. Vivian Motzfeldt stýrði fundinum og þakkaði ráðherrunum og ráðuneytum þeirra fyrir samvinnuna á árinu og fyrir skýrslur þeirra um stöðu vinnu við að bregðast við ályktunum ráðsins. Guðjón S. Brjánsson kynnti stuttlega nýjar ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins í Færeyjum í byrjun september. Í annarri ályktuninni voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að kanna möguleika á auknu samstarfi á vettvangi íþróttamála. Guðjón sagði ályktunina miða að því að vestnorræn ungmenni kynntust hvert öðru gegnum íþróttir. Hægt væri að stuðla að því með því að halda vestnorræn íþróttamót fyrir börn og unglinga. Í annarri ályktuninni var kallað eftir stofnun samstarfsvettvangs um framtíð vestnorrænna tungumála í stafrænum heimi. Guðjón ítrekaði að með aukinni samvinnu um þróun í máltækni og nýtingu tæknimöguleika yrðu vestnorræn lönd betur í stakk búin til að vernda tungumálin, sem stæðu frammi fyrir sífellt stærri ógn í kjölfar stafrænu byltingarinnar. Motzfeldt sagðist vonast til þess að fundarmenn gætu verið sammála um mikilvægi þess að taka ályktanir Vestnorræna ráðsins alvarlega og vinna saman að því að framfylgja þeim. Sigurður Ingi benti á að ályktun Vestnorræna ráðsins um aukið samstarf um rannsóknir á örplasti í sjávarlífverum hefði leitt það af sér að málefnið væri áhersluefni á vettvangi formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Samnorrænt verkefni um rannsóknir á plastmengun í hafi yrði starfrækt næstu árin á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og vestnorrænar hafrannsóknastofnanir tækju þátt í því. Auk þess yrði málefnið áhersluefni þegar kæmi að formennsku Íslands í Norðurskautsráði árið 2019.
    Fyrir fundinn með samstarfsráðherrunum lagði Vestnorræna ráðið fram skriflega fyrirspurn um greiðslur fyrir þýðingar á bókum sem tilnefndar væru til barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins sem afhent eru annað hvert ár. Samkvæmt samningi Vestnorræna ráðsins við vestnorræna menningarmálaráðherra um stofnun bókmenntaverðlaunanna skulu ráðuneyti Vestur-Norðurlanda greiða fyrir þýðingu tilnefndra bóka á vestnorrænu tungumálin þrjú og á dönsku. Raunin hafði hins vegar verið sú að Vestnorræna ráðið hafði greitt fyrir þýðingarnar. Frá ráðherrunum bárust þau svör að engar frekari formlegar ákvarðanir um málefnið lægju fyrir og því ætti samstarfssamningurinn og ákvæði hans að gilda.
    Á fundi Vestnorræna ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var rætt um samstarf ráðanna tveggja, áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráði og sameiginlegar áskoranir á Norðurlöndum. Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðsþings, stýrði fundi og lýsti ánægju forsætisnefndar með samvinnuna við Vestnorræna ráðið. Tetzschner ræddi um ógnina sem steðjaði að norðurslóðum, ekki síst frá loftslagsbreytingum. Hann benti á að orðið hefði vart við mikla hækkun hitastigs sem hefði áhrif á fiskstofna. Einnig væri mikilvægt að auka öryggi siglinga um svæðið til að minnka líkur á neikvæðum umhverfisáhrifum á svæðið. Tetzschner vakti máls á að hefja skipulagningu sameiginlegrar ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs, að fyrirmynd ráðstefnu sem haldin var í Qaqortoq á Grænlandi árið 2015. Þema ráðstefnunnar gæti orðið plastmengun í hafi eða áskoranir í tengslum við stafræna byltingu. Britt Lundberg hvatti til þess að sameiginlega ráðstefnan yrði skipulögð í tengslum við fundi Norðurlandaráðs. Þannig yrði hægt að vekja athygli á málefnum Vestur-Norðurlanda innan Norðurlandaráðs. Fundarmenn sammæltust um að stefna á að halda slíka ráðstefnu haustið 2020, á formennskuári Íslendinga í Norðurlandaráði. Mikill stuðningur var meðal fundarmanna við tillögur Tetzschners að þema, sérstaklega hvað varðar hafið og áhrif plastmengunar í hafi. Kári Páll Højgaard benti á að sjávarútvegurinn væri stærsti atvinnuvegur Færeyinga og Grænlendinga og næststærstur á Íslandi. Plastmengun í hafi ógnaði í síauknum mæli þessum mikilvægu auðlindum. Í umræðum um stafræna byltingu vakti Guðjón S. Brjánsson máls á nýrri ályktun Vestnorræna ráðsins um samstarf á vettvangi máltækni. Hann benti á að mikilvægt væri fyrir vestnorræn lönd, sem ættu það sameiginlegt að standa vörð um mjög smá málsvæði, að búa sig undir frekari tækniframfarir og tryggja framgang tungumálanna á tímum stafrænnar byltingar. Fulltrúar Norðurlandaráðs leituðu einnig eftir upplýsingum um hvernig Vestnorræna ráðið hygðist nýta áheyrnaraðild sína að Norðurskautsráði. Guðjón S. Brjánsson sagði Vestnorræna ráðið hafa unnið að því að móta sér stefnu gagnvart norðurslóðum og áheyrnaraðildinni. Hann sagði Vestnorræna ráðið hafa ákveðið að leggja áherslu á velferð íbúa á norðurslóðum og sett á oddinn að vekja athygli á verkefni um forvarnir gegn vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Þó ætti eftir að útfæra nánar hvernig verkefnið yrði unnið. Vivian Motzfeldt bauð að lokum fulltrúa forsætisnefndar til þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Reykjavík í janúar 2019.
    Samhliða Norðurlandaráðsþingi fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins einnig um innri mál ráðsins, m.a. fyrirhugaða ráðningu sérfræðings í hálfa stöðu hjá skrifstofu ráðsins. Rætt var um kostnað við ráðninguna og möguleika á frekara samstarfi skrifstofunnar við Alþingi. Ákveðið var að fresta auglýsingu vegna ráðningarinnar þar til skýrari upplýsingar fengjust varðandi mögulega aðkomu Alþingis að ráðningarferlinu. Sigurður benti auk þess á að skrifstofa Vestnorræna ráðsins gæti átt nánara samstarf við skrifstofu Alþingis þannig að framkvæmdastjóri og hlutastarfsmaður aðstoðuðu Alþingi á álagstímum og öfugt. Forsætisnefnd þyrfti þó að taka afstöðu til slíks samstarfs með tilliti til þess hvort það skapaði hagsmunaárekstra eða drægi úr sjálfstæði ráðsins. Einnig var rætt um skipan dómnefnda landanna vegna barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Bent var á að í öllum þremur dómnefndum sætu meðlimir sem hefðu setið umfram það tímabil sem þeir voru skipaðir til eða hefðu verið skipaðir á óformlegan hátt. Landsdeildir þyrftu sem fyrst að ráðast í skipun nýrra meðlima í dómnefndir landanna í stað þeirra sem ekki hefðu formlegt umboð.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum 4.–5. september 2018.
     .      Ályktun nr. 1/2018 um vestnorrænt samstarf á sviði íþróttamála.
     .      Ályktun nr. 2/2018 um samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

Alþingi, 28. janúar 2019.

Guðjón S. Brjánsson,
formaður.
Þórunn Egilsdóttir, varaformaður. Ásmundur Friðriksson.
Bryndís Haraldsdóttir. Inga Sæland. Lilja Rafney Magnúsdóttir.