Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 872  —  538. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að ríkið eignist Landssímahúsið við Austurvöll.


Flm.: Ólafur Ísleifsson, Ásmundur Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að ríkið eignist Landssímahúsið við Austurvöll með því að leita samninga um kaup ríkisins á húsinu en að öðrum kosti að hefja undirbúning þess að ríkið taki eignarnámi þann hluta byggingarlóðar sem tilheyrir Víkurkirkjugarði. Ráðherra flytji Alþingi munnlega skýrslu um aðgerðir í þessa veru á vorþingi 2019.

Greinargerð.

    Samkvæmt 36. gr. stjórnarskrárinnar er Alþingi friðheilagt og má enginn raska friði né frelsi þess. Fyrirhugaðar framkvæmdir og starfsemi á Landssímareitnum við Austurvöll, þar sem rísa eiga stórt og mikið hótel og veitingastaðir með tilheyrandi umferð ferðamanna og hópferðabíla, mega með réttu teljast fela í sér röskun á þingfriði í andstöðu við umrætt ákvæði. Flutningsmenn þessarar tillögu telja slíkt ekki mega viðgangast og leggja í því skyni til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið, helst með samningum en með eignarnámi ef nauðsyn krefur, að tryggja ríkinu eignarhald á Landssímahúsinu eða eftir atvikum þeim hluta byggingarlóðar sem tilheyrir Víkurkirkjugarði. Áður hefur verið bent á að friðhelgi Alþingis sé virt að vettugi með áformunum og kærði forsætisnefnd Alþingis m.a. deiliskipulag svæðisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á sínum tíma.
    Fleiri rök hníga í átt til þess að ríkið eignist Landssímahúsið eða eftir atvikum umráðarétt yfir Landssímareitnum. Má þar nefna þá staðreynd að á Landssímareitnum var á tímabili kirkjugarður Reykvíkinga. Í grein Helga Þorlákssonar, prófessors emeritus, „Gef dánum ró en hinum líkn sem lifa“, sem birtist í Fréttablaðinu 14. apríl 2016, segir að upphaf kirkjugarðs Víkurkirkju megi rekja hátt í 1000 ár aftur í tímann og að þar hafi verið jarðað fólk á seinni hluta 19. aldar. Í greininni segir enn fremur: „En legsteinar molna og minningar hverfa. Þegar svo stendur á er gamall og góður siður að sýna kirkjugörðum virðingu, setja upp minningarmark um hina framliðnu og leyfa lifendum að njóta þess friðar sem hinum framliðnu er veittur.“
    Í tölvubréfi Helga Þorlákssonar til 1. flutningsmanns er lýst hvernig ríkisstjórnin greip á árunum 1965–66 inn í rás atburða sem ógnaði gamla kirkjugarðinum og kom í veg fyrir að mikil bygging, en álíka stór og sem næst alveg á sama stað og sú sem nú er áformað að þar hýsi hótel, risi sunnan við Landssímahúsið. Skipulagsnefnd kirkjugarða, undir forystu Sigurbjarnar Einarssonar biskups og Kristjáns Eldjárn þjóðminjavarðar, hefði í mars 1965 vakið athygli borgarlögmanns á því að lög heimiluðu ekki að þarna yrði reist mannvirki nema samkvæmt sérstakri undanþágu ráðherra, að fengnu samþykki skipulagsnefndar kirkjugarða sem var fyrirrennari núverandi kirkjugarðaráðs. Sambærilegt ákvæði er enn í lögum, sbr. 33. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993. Í bréfi Helga kom fram að ríkisstjórnin hafi á fundi sínum 9. september 1965 fjallað um nauðsyn þess að ekki yrði leyfð bygging norðan Kirkjustrætis, milli Aðalstrætis og Thorvaldsensstrætis. Í bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 16. nóvember 1966, sem Jón Skúlason ritaði fyrir hönd póst- og símamálastjóra, nefnir hann Víkurkirkjugarð og segir að hann sé ástæða þess að ríkisstjórnin hefði „bannað“ hina umræddu byggingu. Loks hefði verið sæst á um helmingi minni byggingu, þ.e. viðbygginguna við Landssímahúsið sem var brotin niður nýlega.
    Fyrir liggur samkomulag milli Alþingis og Lindarvatns, nýs eiganda Landssímahúss, dags. 15. maí 2015. Fram hefur komið í fjölmiðlum að eigandinn sé tilbúinn til að beita sér fyrir að inngangur hótelsins valdi sem minnstu ónæði fyrir húsin næst Alþingishúsinu. Í viðtölum hefur komið fram að niðurstaðan hafi orðið sú að inngangur hótelsins yrði ekki frá Kirkjustræti. Það þýði að aðalaðkoma verði að vera frá Thorvaldsensstræti eða um Fógetagarðinn. Í bréfi dags. 22. mars 2016 til Alþingis var því heitið fyrir hönd Lindarvatns að aðalinngangur yrði ekki frá Austurvelli, aðeins aukainngangur. Aðalinngangur yrði úr Víkurgarði. Stefnt hefði verið að hinu síðarnefnda en fram hefði komið að Minjastofnun væri því andvíg. Minjastofnun vill ekki að aðalinngangur verði um Fógetagarð (Víkurgarð). Bent er á að hafa verður hugfast að auk aðkomu gesta þarf að huga að aðflutningi ýmissa vara og vista og annarra nauðsynja til hótelrekstrar og því fylgir bílaumferð. Fram hafi komið í fjölmiðlum að slökkvilið þurfi einnig aðkomubraut um Fógetagarðinn fyrir slökkvitæki sem kosta muni mikið rask í garðinum. Fram kemur á uppdrætti að fyrirhuguð braut fyrir tæki slökkviliðs er í Fógetagarði. Kemur fram að þetta hafi ýtt við Minjastofnun að óska friðlýsingar Fógetagarðsins. Tilkynnt var 8. janúar 2019 að mennta- og menningarmálaráðherra hefði fallist á tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu Víkurgarðs. Gerir það örðugt um vik að finna lausnir á inngangsvandanum og braut fyrir slökkviliðið. Allt sýnir þetta að hótelið er of stórt og á of viðkvæmum stað þótt ekki væri einnig kirkjugarði til að dreifa.
    Í áðurnefndu bréfi Helga Þorlákssonar segir að forsvarsmenn Lindarvatns, eiganda fasteigna á Landssímareitnum, hafi haldið því fram í fjölmiðlum að ekki eigi að reisa hótelbyggingu í Víkurgarði. Þar vísi þeir hins vegar eingöngu til Fógetagarðs sem á uppdrætti umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar sé kallaður Víkurgarður. Svo segir orðrétt: „Fógetagarðurinn er aðeins vesturhluti gamla kirkjugarðsins en verndunarmenn tala um allan Víkurkirkjugarð, líka austurhlutann þar sem hótelið skal byggt. Allur austurhlutinn að Thorvaldsensstræti nefnist Landsímareitur, og u.þ.b. helmingur þessa reits, vesturhelmingurinn, heyrði til Víkurkirkjugarði. Þar voru grafnar upp 32 grafir árið 2016 við fornleifarannsóknir, þar af 22 heillegar beinagrindur í heillegum kistum, og var allt flutt á Þjóðminjasafnið til að rýma fyrir hótelinu. Þarna nærri í austurhlutanum komu líka upp bein árið 1915 en voru grafin niður aftur, annars staðar í austurhlutanum. Aftur komu upp bein í austurhlutanum árið 1967 þegar leyft var að grafa skurð fyrir undirstöðu viðbyggingarinnar sem var brotin niður í sumar, 2018. Kjallaragröftur var ekki leyfður 1967. Við skurðgröftinn þetta ár komu upp fimm kistur með beinum einstaklinga og líka bein sjötta einstaklings, án kistuleifa, og var allt flutt á Þjóðminjasafnið. Í þessum austurhluta Víkurkirkjugarðs, á Landsímareitnum, voru áður málmhellur, notaðar sem legsteinar, með nöfnum jarðsettra en Landsíminn (síðar Póstur og sími) lét fjarlægja þær af leiðum. Þær eru núna í Fógetagarðinum. Loks sást þarna í austurhlutanum enn árið 1966 leiði mæðgna sem voru jarðsettar 1882 og 1883, og var legsteinn á leiðinu og girðing umhverfis. Á dögunum fundust svo kistuleifar þarna í austurhlutanum, að sögn fjölmiðla.“ Hinn 8. janúar 2019 birti Minjastofnun tilkynningu um skyndifriðun austurhluta garðsins með varanlega friðlýsingu í huga. Skyndifriðunin gildir í 42 daga.
    Flutningsmenn telja einsýnt að sameina verði virðingu við grafreitinn og virðingu við friðhelgi Alþingis með öðrum hætti en að breyta reitnum í ferðamannamiðstöð. Fyrirhuguðu hóteli sé ofaukið í hjarta höfuðstaðarins og auk grófra helgispjalla sé mikilvægu og sögufrægu svæði fórnað fyrir einkahagsmuni. Í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 36/1993 kemur fram að niðurlagðan kirkjugarð megi „ekki nota til neins þess sem óviðeigandi er að dómi prófasts (prófasta)“. Ekki má þar jarðrask gera né reisa nein mannvirki nema ráðherra veiti undanþágu að fengnu samþykki kirkjugarðaráðs. Slík undanþága hefur ekki verið veitt. Vel fer á að þessi forni og söguhelgi kirkjugarður verði í heild sinni skrúðgarður fyrir almenning. Telja flutningsmenn að úr því sem komið er verði framtíð reitsins best borgið þannig að ríkið verði eigandi Landssímahússins sem gæti sem best nýst í þágu Alþingis eða að ríkið eftir atvikum eignist þann hluta byggingarlóðar sem tilheyrir Víkurkirkjugarði. Sem fyrr segir er lagt til að ráðherra verði falið að tryggja framkvæmd þessa og jafnframt að Alþingi verði upplýst um framgang málsins á vorþingi 2019.
    Tillögu þessari fylgja eftirtalin fylgiskjöl:
     I.      Áskorun heiðursborgara Reykjavíkur til borgarstjóra, afhent 25. september 2018.
     II.      Greinargerð með áskorun heiðursborgara Reykjavíkur.
     III.      Uppdráttur Hjörleifs Stefánssonar arkitekts af Víkurkirkjugarði.


Fylgiskjal I.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal II.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal III.


Uppdráttur Hjörleifs Stefánssonar arkitekts af Víkurkirkjugarði.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.