Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 878  —  482. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um aksturskostnað þingmanna fyrir kosningar.


     1.      Hversu margar ferðir, samkvæmt akstursdagbók bílaleigubíls eða samkvæmt upplýsingum um endurgreiddan aksturskostnað, fór hver þingmaður í hverri viku í apríl og maí annars vegar og september og október hins vegar frá því á árinu 2013 og þar til nú? Svar óskast sundurliðað eftir kjördæmum og þingmönnum hvers kjördæmis. Ef ekki er unnt að nafngreina þingmenn óskast svarið án nafna þingmanna.
    Fjölda ferða hvers þingmanns í þessum mánuðum ár hvert er ekki hægt að taka saman á þeim tímafresti sem áskilinn er. Fletta þarf upp öllum reikningum hjá öllum þingmönnum og yfirfara þá. Til að fá samt sem áður sæmilega mynd af því sem spurt er um má í eftirfarandi töflu sjá yfirlit yfir aksturskostnað eftir kjördæmum fyrir tímabilin janúar–júní og júlí–desember ár hvert. Slíkt yfirlit var hægt að taka saman úr bókhaldi án mikillar fyrirhafnar.

2013 2014
Kjördæmi Jan.–júní Júlí–des. Jan.–júní Júlí–des.
NV 11.139.094 6.635.315 7.948.493 5.805.371
NA 10.788.158 6.000.840 4.509.273 6.687.050
SU 12.186.760 10.261.871 10.333.016 10.207.119
SV 609.842 231.678 116.670 277.794
RN 26.243 97.839 343.273 491.753
RS 293.045 762.584 548.564 1.254.888
35.043.142 23.990.127 23.799.289 24.723.975
2015 2016
Kjördæmi Jan.–júní Júlí–des. Jan.–júní Júlí–des.
NV 6.480.006 4.558.688 3.949.294 6.352.508
NA 6.104.711 5.496.077 6.345.890 6.769.104
SU 9.407.326 9.298.901 8.981.966 9.332.239
SV 14.622 459.946 4.051 240.221
RN 280.250 247.538 308.330 364.100
RS 544.132 1.088.196 597.047 1.011.087
22.831.047 21.149.346 20.186.578 24.069.259
2017 2018
Kjördæmi Jan.–júní Júlí–des. Jan.–júní Júlí–nóv.
NV 4.676.430 5.371.201 2.915.553 2.933.483
NA 4.840.392 4.975.142 5.241.963 5.348.773
SU 7.744.515 7.135.885 3.807.786 3.140.856
SV 71.431 148.211 164.340 149.270
RN 0 0 0 0
RS 0 0 0 0
17.332.768 17.630.439 12.129.642 11.572.382

     2.      Hefur forseti Alþingis eða skrifstofa Alþingis einhvern tíma gefið þingmönnum leiðbeiningar um hvort hægt sé að fá endurgreiddan aksturskostnað vegna ferða á fundi sem haldnir eru vegna kosninga? Eru í gildi reglur um hvort eða í hvaða tilfellum þingmenn geti fengið ferðir vegna kosningabaráttu endurgreiddar?
    Nei, þingmönnum hafa ekki verið gefnar leiðbeiningar um endurgreiddan aksturskostnað „vegna kosninga“. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, fjalla um ferðakostnað alþingismanna „í tengslum við störf sín“. Að öðru leyti er vísað til svars við 3. og 4. lið.
    Ekki eru til sérstakar reglur um akstursgreiðslur til þingmanna „vegna kosningabaráttu“ eða þær sérstaklega tilgreindar í reglum um þingfararkostnað.

     3.      Lítur forseti svo á að ferðir á fundi vegna kosninga tengist störfum þingmanna skv. 2. mgr. 7. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995? Svar óskast með rökstuðningi.
    Lög nr. 88/1995 mæla m.a. fyrir um rétt alþingismanna til greiðslu ferðakostnaðar allt þar til kjörtímabili þeirra lýkur. Almennt verður að líta svo á að ferðir „vegna kosninga“ geti verið „í tengslum við störf“ alþingismanna. Tilefni slíkra fundarferða, oftast í aðdraganda kosninga, getur verið mjög mismunandi, t.d. að hitta kjósendur að eigin frumkvæði eða að ósk einstaklinga eða hagsmunaaðila til að fara yfir þau störf sem þingmaður hefur unnið á kjörtímabilinu og hvað standi honum næst á komandi þingi. Litið hefur verið svo á að í slíkum tilvikum sé þingmaður að sinna starfi sínu gagnvart kjósendum sínum. Þá er ekki hægt að álykta að allar ferðir þingmanns í aðdraganda kosninga séu vegna kosninga. Verður t.d. ekki fram hjá því litið að ekki sækjast allir þingmenn eftir endurkjöri þó svo að þeir eigi fundi með kjósendum sínum í kjördæmi í tengslum við störf sín þegar kemur að lokum kjörtímabils.
    Forseti hefur eigi að síður íhugað, og það alllengi, hvort gera þurfi breytingar á reglum um ferðakostnað sem tækju til þingmanna sem leita endurkjörs í þeim tilgangi að girða fyrir mögulegan aðstöðumun á milli þeirra og frambjóðenda sem ekki sitja á þingi á tilteknu tímabili í aðdraganda kosninga. Forseti hefur rætt það mál við varaforseta, formenn þingflokka og fleiri og hyggst taka málið upp í forsætisnefnd á þessu kjörtímabili. Ljóst er þó að setning reglna um ferðir þingmanna í aðdraganda kosninga getur verið vandasöm.

     4.      Fá þingmenn endurgreiddan aksturskostnað vegna ferðar sem er á tvo eða fleiri fundi í sömu ferð sem teljast ýmist þáttur í starfi þingmanns eða vegna prófkjörs eða kosningabaráttu? Ef svo er, hvers vegna er litið svo á að þingmenn nýti ferðina vegna kosningafundar til þingstarfa en ekki öfugt? Svar óskast með rökstuðningi.
    Eins og sjá má af svari við 3. lið hér á undan leiðir það af lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað og reglum forsætisnefndar að fundir með einstaklingum og hagsmunaaðilum, hvort sem þeir fara fram í aðdraganda prófkjörs, þar sem þau hafa verið ákveðin, eða í aðdraganda kosninga, geta verið „í tengslum við störf“ alþingismanns. Skiptir þá ekki máli hvort sá greinarmunur er gerður sem fram kemur í spurningunni.

     5.      Hvaða afleiðingar hefur það ef þingmaður skráir ekki réttilega hlunnindi sem hann fær frá þinginu í formi endurgreiðslu ferðakostnaðar eða ferða með bílaleigubíl þegar hann er ekki í erindum sem teldust störf þingmanns skv. 2. mgr. 7. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995?
    Ef gögn, sem send eru til skrifstofunnar, eru ekki rétt eða fullnægjandi er haft samband við viðkomandi þingmann og hann beðinn um að leiðrétta og skila réttum gögnum. Komi fram eðlilegar skýringar eða hafi átt sér stað mistök eru leiðréttingar gerðar. Getur slíkt eðli málsins samkvæmt leitt til lækkunar eða hækkunar á endurgreiddum ferðakostnaði. Engin dæmi eru um að skrifstofa Alþingis eða forsætisnefnd hafi þurft að úrskurða um rétt þingmanns til endurgreiðslu ferðakostnaðar skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 88/1995.

     6.      Ef þingmaður kynni að brjóta gegn ákvæðum laga um þingfararkostnað varðandi endurgreiðslu ferðakostnaðar yrði honum gefið tækifæri til þess að endurgreiða ofgreiddan kostnað áður en gripið er til ýtrustu mögulega aðgerða sem eru fyrir hendi samkvæmt lögum og reglum?
    Þingmaður getur að sjálfsögðu greitt til baka kostnað sem hann telur að sér hafi verið ofgreiddur, af hvaða ástæðu sem það kann að vera, en að öðru leyti ræðst það af atvikum máls hverju sinni og almennum reglum hvort og til hvaða aðgerða yrði gripið.