Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 909  —  338. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um erindi sem varða kirkjugarða.


     1.      Hversu mörg skrifleg erindi sem varða kirkjugarða hafa borist ráðuneytinu, t.d. frá Kirkjugarðaráði, Kirkjugarðasambandi Íslands eða öðrum aðilum, á undanförnum fimm árum?
    Frá árinu 2012 hafa borist 15 skrifleg erindi frá Kirkjugarðaráði og Kirkjugarðasambandi Íslands og Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma er varða kirkjugarða og 15 erindi frá einstaklingum, sóknarnefndum og öðrum aðilum er varða kirkjugarðamál.

     2.      Hversu mörgum erindum hefur verið svarað skriflega og efnislega?
    Erindum frá sóknarnefndum, einstaklingum og öðrum aðilum sem kalla á svör hefur öllum verið svarað utan tveimur sem eru í vinnslu. Erindum frá Kirkjugarðaráði, Kirkjugarðasambandi Íslands og Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma hefur verið svarað þó að efnisleg niðurstaða hafi ekki fengist í öll mál sem bíða þá skoðunar en nokkur erindanna hafa fyrst og fremst verið send til upplýsingar og þarfnast því ekki svara.

     3.      Eftir hvaða ferli er unnið þegar ráðuneytinu berst skriflegt erindi frá framangreindum aðilum?
    Starfsfólk skjalasafns skráir öll innkomin erindi í málaskrá og stofnar um þau mál. Erindi sem afhent eru á fundum eða í viðtölum skilar móttakandi á skjalasafn til skráningar í málaskrá. Mál eru skráð á viðkomandi starfsmann og eftir atvikum á skrifstofustjóra. Unnið er úr málunum með viðeigandi hætti eftir því hvers eðlis erindið er hverju sinni.