Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 911  —  228. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um breska ríkisborgara á Íslandi og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.


     1.      Hversu margir breskir ríkisborgarar eru búsettir hér á landi?
    Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands voru 1.002 breskir ríkisborgarar skráðir með lögheimili hér á landi 23. október 2018.

     2.      Hvaða ráðstafanir verða gerðar vegna réttinda breskra ríkisborgara hér á landi sem byggð eru á EES-samningnum við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu?
    Bretland stefnir á að ganga formlega úr Evrópusambandinu 29. mars 2019. Nú hafa samninganefndir Bretlands og Evrópusambandsins komist að samkomulagi um drög að samningi. Samningurinn hefur verið samþykktur af Evrópusambandinu en hafnað af breska þinginu. Samkvæmt samningnum átti að taka við svokallað bráðabirgðatímabil frá útgöngudegi til 31. desember 2020. Jafnframt var í samningnum gert ráð fyrir því að löggjöf Evrópusambandsins gilti í Bretlandi og um breska ríkisborgara innan Evrópusambandsins á bráðabirgðatímabilinu.
    Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við hin EFTA-ríkin innan EES, Noreg og Liechtenstein, hafa undanfarna mánuði átt í viðræðum við bresk stjórnvöld með það að markmiði að endurspegla í samningi sín á milli þá þætti í útgöngusamningi Bretlands og ESB sem varða einnig þessi ríki vegna þátttöku þeirra í EES-samstarfinu. Þar má helst nefna réttindi borgaranna, hvað Ísland varðar réttindi íslenskra ríkisborgara sem dvelja í Bretlandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES, og gagnkvæm réttindi breskra ríkisborgara á Íslandi. Viðræður við bresk stjórnvöld hafa gengið vel og eru langt á veg komnar.
    Á fundi forsætisráðherra Íslands og Bretlands í Ósló hinn 29. október 2018 sammæltust þeir um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES, jafnvel þótt svo færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. Það er vilji ríkjanna að þessi réttindi verði í framhaldinu tryggð með samningi um gagnkvæm réttindi borgara þessara landa, hvernig sem fer í viðræðum Bretlands og ESB.

     3.      Er til skoðunar hjá ráðuneytinu að setja sérreglur um réttindi breskra ríkisborgara búsettra hér á landi sem munu gilda eftir útgöngu Bretlands? Ef ekki:
                  a.      munu þeir falla undir útlendingalöggjöfina almennt varðandi dvalar- og atvinnuleyfi,
                  b.      hvaða reglur munu gilda um önnur réttindi þeirra en dvalar- og atvinnuleyfi,
                  c.      munu breskir ríkisborgarar hafa réttarstöðu sambærilega því sem gildir um aðra borgara utan Evrópska efnahagssvæðisins?

    Það er til skoðunar að setja sérreglur um réttindi breskra ríkisborgara hér á landi en slíkt verður að skoða í ljósi þess hvaða réttindi Bretland kemur til með að veita íslenskum ríkisborgurum þar. Einnig er vísað til svarsins hér að framan að í þessu sambandi skiptir máli hvort samningar nást eða ekki.