Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 912  —  490. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um áhrif aukinna fjárveitinga til löggæslu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa auknar fjárveitingar til eflingar löggæslu haft áhrif á starfsemi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu sem ráðherra kynnti í upphafi árs, og þá hvaða áhrif?

    Í samræmi við aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota, sem kynnt var í febrúar 2018, hefur dómsmálaráðherra lagt áherslu á auknar fjárveitingar til lögregluembætta landsins sem og héraðssaksóknara í þeim tilgangi að bæta og flýta meðferð mála. Byrjað var á því að leggja lögregluembættum landsins til fjármagn í þeim tilgangi að efla og styrkja rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála með fjölgun stöðugilda. Alls var fjölgað um 15 stöður, þar af fékk embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hlutfallslega flest stöðugildi, eða alls sex. Þá var héraðssaksóknara jafnframt veitt viðbótarfjármagn til að fjölga stöðugildum hjá embættinu sem sinna meðferð kynferðisbrota. Þá hefur verulegu fjármagni verið veitt til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til að endurnýja og kaupa tækjabúnað, til mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar, í þeim tilgangi að efla og auka sérþekkingu á málaflokknum og nú síðast var viðbótarfjármagni veitt til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara í þeim tilgangi að útbúa verklagsreglur, leiðbeiningar og gátlista sem nýtast við rannsókn og meðferð mála af þessu tagi á landinu öllu. Er það von stjórnvalda að með því viðbótarfjárframlagi, sem fylgdi aðgerðaáætluninni, megi styrkja og efla rannsóknir og meðferð kynferðisbrota og stytta eins og hægt er þann tíma sem það tekur að afgreiða mál á lögreglu- og ákæruvaldsstigi.
    Í þeim tilgangi að svara spurningu þingmannsins leitaði dómsmálaráðuneytið til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eftir upplýsingum og koma þær hér á eftir.
    Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hafa auknar fjárveitingar til rannsókna kynferðisbrota haft mikil áhrif á starfsemi lögreglunnar og gert henni kleift að breyta verklagi, afgreiða mál hraðar og huga betur að þjónustu við þá sem til hennar leita. Aukin fjárveiting hefur ekki síst skipt máli í því ljósi að á sama tíma og farið var í breytingar fjölgaði tilkynningum til lögreglu verulega.
    Í byrjun árs 2018 kom í ljós að rannsókn á kæru um kynferðisbrot, sem barst embættinu í ágúst 2017, var ekki í samræmi við almennt vinnulag. Í framhaldinu var farið í innri athugun á því máli sem kynnt var á blaðamannafundi 12. febrúar 2018. Við þessa skoðun kom í ljós að bregðast þyrfti við fjölda atriða og endurskoða verklag. Slík endurskoðun kallar á aðkomu margra og tekur nokkurn tíma. Henni er enn ekki lokið. Þó var ljóst að skipulag kynferðisbrotadeildar þyrfti að skoða sérstaklega og var strax gerð skipulagsbreyting 1. mars 2018.
    Starfsmenn, daglegir stjórnendur, lögreglustjóri, deildarstjóri ákærusviðs og deildarstjóri stoðþjónustu og greininga funda nú reglulega í þeim tilgangi að öllum sem koma að þessum málaflokki sé ljós stefna embættisins í þessum málaflokki, markmið þess og staða hverju sinni.

Áhrif aukinna fjárveitinga ráðherra í tölum.
    Hinn 1. nóvember 2017 var með markvissum hætti byrjað að mæla vikulega flæði mála inn og út úr kynferðisbrotadeild. Frá þeim tíma og til 1. apríl 2018 komu 178 mál til rannsóknar og á sama tímabili voru 109 mál afgreidd úr deildinni. Frá 1. apríl 2018 til 31. desember 2018 komu 280 mál til rannsóknar og á sama tímabili voru afgreidd 324 mál. Af þessu má sjá að sá viðsnúningur hefur orðið að í stað þess að afgreiða um 60% mála ásamt því að mál safnist upp hefur starfsfólki deildarinnar tekist að afgreiða 15% fleiri mál út en koma inn. Kynferðisbrotadeild heldur því nú í við þann fjölda mála sem berst og gott betur. Það er enn ánægjulegra í ljósi þess að á árinu 2018 voru kærur vegna kynferðisbrota 384 eða 34% fleiri en meðaltal þriggja næstliðinna ára.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Fjöldi opinna kynferðisbrota í kynferðisbrotadeild frá nóvember 2017 til 31. desember 2018 og spá um þróun án fjárveitingar.

    Af þessu má draga þá ályktun að ef ekki hefðu komið til auknar fjárheimildir, ásamt skipulagsbreytingum, og sama þróun hefði haldið áfram hefðu 312 mál verið til rannsóknar í kynferðisbrotadeild 31. desember sl. Þess í stað voru þau 155 talsins. Munar þarna 157 málum.
    Á mynd 2 má sjá mun á fjölda mála, sem koma inn og fara út úr deildinni, í hverri viku frá 1. nóvember 2017 til 31. desember 2018. Frá því í apríl er greinilega komið mun betra jafnvægi á fjölda mála inn og út úr deildinni.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Áhrif aukinna fjárveitinga á önnur verkefni og skipulag.
Innra skipulag vegna rannsókna sem eru í kynferðisbrotadeild:
    Málsgögn voru áður í plastvösum þar til þeim var úthlutað til rannsóknar og þannig ekki nægjanlega greinilegt hvaða mál voru í forgangi. Nú eru öll mál sett strax í möppur sem eru merktar með málsnúmeri og hafðar sýnilegar. Í þeim tilvikum sem um er að ræða brot gegn börnum eða öðrum í viðkvæmri stöðu eru þau mál aðgreind sérstaklega og færð í litaðar möppur. Markmið þessa er þríþætt:
          Hefja innleiðingu teymisvinnu, sem fjallað er nánar um hér á eftir.
          Bæta skipulag og tryggja að mál gleymist ekki eða skjöl glatist.
          Tryggja að rannsóknir dragist ekki um of.

Fjölgun stjórnenda og innleiðing teymisvinnu:
    Sú breyting var gerð frá og með 1. apríl sl. að við hlið aðstoðaryfirlögregluþjóns í kynferðisbrotadeild er nú lögreglufulltrúi sem fer með daglega verkstjórn auk þess sem settir voru þrír teymisstjórar sem fara fyrir eftirtöldum málaflokkum:
          rannsóknum nauðgana,
          rannsóknum sem snúa að börnum og öðrum í viðkvæmri stöðu,
          rannsóknum annarra kynferðisbrota ásamt því að sinna stuðningi við hin teymin.

Rafræn rannsóknaráætlun:
    Við rannsóknir alvarlegra og flókinna mála ber lögreglu að gera rannsóknaráætlun. Þar sem sú áætlun var áður gerð samhliða og skráð í ritvinnsluforrit ótengt lögreglukerfi lögreglu fór nokkur tími í tvískráningar. Til að spara tíma, tryggja gæði rannsókna, gæði greiningafunda og gefa þeim, sem fjalla um rannsóknir á hverjum tíma, tækifæri til að fylgjast með framgangi rannsóknarinnar var ákveðið að leita til tölvudeildar ríkislögreglustjóra um hvort unnt væri að hefja forritun áætlunarinnar í kerfi lögreglu. Það gekk eftir og nú er rannsóknaráætlunin orðin hluti lögreglukerfisins og hefur reynst mjög vel. Þessi breyting hefur gefið LRH ný tækifæri til að kynna sér enn frekar stöðu rannsókna en áður. Að auki er unnt að sjá stöðu rannsóknar hverju sinni. Þá fá starfsmenn ekki lengur úthlutað heilu máli til rannsóknar heldur skilgreindu og skráðu verkefni auk þess sem þeir skrá verk sem sinnt er. Hver sem stofnar verkefni getur svo úthlutað því til sín eða annarra. Þegar verkefni er úthlutað fær sá hinn sami tölvupóst sem áminningu auk þess sem hver og einn sér öll verkefni deildarinnar, sín eigin verkefni og stöðu þeirra. Stefnt er að því að þróa þessa vinnu enn frekar og ætti jafnvel að vera unnt að hafa hana þannig að við stofnun tiltekinna brota í kerfum lögreglu yrði samhliða til rannsóknaráætlun, sem mörkuð er vissum verkferlum sem sinna þarf og ákveðnir hafa verið af fulltrúum ákæruvalds og þarf að lágmarki að sinna og gera grein fyrir og taka afstöðu til.
    Önnur og ekki eins sýnileg áhrif eru þau að nú er auðveldar en áður að gefa starfsmönnum tækifæri á að sinna sumum þáttum rannsókna frekar en öðrum, þá sérstaklega þáttum sem liggja nærri þeirra færni. Til er að verða liðsheild sem virðist leiða til faglegri og skilvirkari málsmeðferðar.

Greiningafundir:
    Tekið var upp það verklag að halda greiningafundi þar sem sitja daglegir stjórnendur deildarinnar og fulltrúar ákærusviðs, sem eru faglegir stjórnendur hennar. Þessir fundir eru nú fastir á mánudögum og fimmtudögum. Á fundunum er farið yfir öll ný mál, þau flokkuð á teymin og sett í sérstakan forgang þurfi þess og bókað í dagbók lögreglukerfisins. Þá er að þróast það fyrirkomulag að sérstakar ákvarðanir eru færðar samtímis í rafræna rannsóknaráætlun og þeim úthlutað þegar hætta er á að gögn tapist sé þeirra ekki aflað strax.

Fagfundir:
    Á hverjum miðvikudegi koma allir starfsmenn saman auk starfsmanna ákærusviðs til að ræða faglega þætti lögreglurannsókna og það sem snýr sérstaklega að lögfræðilegum þáttum sem snúa að einstaka rannsóknum. Þessir fundir eru sérlega mikilvægir vegna þeirra ákvarðana sem þar eru teknar.

Stjórnendaupplýsingar:
    Til að tryggja sem besta yfirsýn, mæla sem flesta þætti og þekkja á hverjum tíma til stöðu rannsókna og aldur þeirra var lögð áhersla á að þróa rafrænt mælaborð fyrir deildina. Nú er á hverjum degi unnt að sjá stöðu mála, skipt niður á teymin, hvar öll kynferðisbrot eru innan deildar og embættis einnig, aldur þeirra og stöðu. Í hverri viku er einnig gerð sérstök tölfræðiskýrsla fyrir deildina sem segir til um fjölda mála inn og út í hverri viku og nánari útlistun á brotaflokkum.

Breytingar á starfsmannafjölda í kynferðisbrotadeild:
    Í febrúar 2018 voru starfsmenn níu, einn aðstoðaryfirlögregluþjónn, einn lögreglufulltrúi og sjö rannsóknarlögreglumenn. Auk þeirra voru í deildinni tveir aðrir lögreglumenn, annar í verkefnum sem snúa að Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og einn lögreglumaður í því sérverkefni að leita týndra barna. Í dag telur deildin 13 starfsmenn, einn aðstoðaryfirlögregluþjón, þrjá lögreglufulltrúa og níu rannsóknarlögreglumenn auk þeirra sem eru í nefndum sérverkefnum.

Breytingar á starfsmannafjölda á ákærusviði:
    Fjölgað var um einn ákærenda og eru nú tveir ákærendur alfarið í faglegri stýringu. Bera þeir ábyrgð á rannsókn málanna, taka ákvörðun um einstakar rannsóknaraðgerðir, gera kröfu um þvingunarráðstafanir fyrir héraðsdómi, taka ákvörðun um hvenær hætta á rannsókn og meta hvenær mál eru fullrannsökuð og í kjölfarið senda þau áfram til ákærumeðferðar hjá embætti héraðssaksóknara. Ákærendurnir sitja alla fundi kynferðisbrotadeildar og eru ávallt til taks þegar þarf að fara í aðgerðir eða hvað annað sem snýr að lögfræðilegum úrlausnarefnum. Á árinu 2018 lauk ákærusvið 397 kynferðisbrotamálum og er þannig mikið jafnvægi á skilum kynferðisbrotadeildar og ákærusviðs.

Breytingar á starfsmannafjölda í stoðþjónustu og greiningu:
    Fjölgað var um einn starfsmann í þjónustudeild sem heyrir til stoðþjónustu og greiningar hjá embættinu. Undanfarna mánuði hefur verið markvisst unnið að því að þróa verkefni sem snerta báðar einingar og nú þegar hafa tvö verkefni verið þróuð og innleidd þar, en þau eru:
          Að taka alfarið við skjalmerkingu við lok rannsóknar. Um er að ræða sífelluverk sem gerir kröfu um samræmt verklag sem nú er sinnt af fáum og er á tíðum tímafrekt. Þetta hefur gefið mjög góða raun.
          Að bæta kærumóttöku kynferðisbrota, tryggja samræmingu og gæði þegar kærur þola bið. Áður fór mikill tími í þetta hjá starfsmönnum kynferðisbrotadeildar, en gæta þarf þess að tími henti kæranda, réttargæslumanni og ef við á, túlki, réttindagæslumanni fatlaðs fólks og/eða fulltrúa barnaverndarnefnda. Kærum sem ekki þola bið er sinnt strax. Starfsmenn kynferðisbrotadeildar taka þannig áfram við kærum en tímabókanir og skipulag fer um þjónustudeild.
    Af öllu framantöldu má sjá að sá stuðningur sem veittur hefur verið til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur skipt verulegu máli og tryggt viðsnúning í meðferð kynferðisbrota. Samhliða hefur skapast svigrúm til að skoða meðferð kynferðisbrotamála hjá embættinu í heild sinni og greina tækifæri til úrbóta. Mörgum verkefnum hefur þegar verið hrint í framkvæmd en önnur eru í undirbúningi eða á hugmyndastigi. Enn eru því tækifæri til að gera betur og hjá embættinu verður áfram unnið í þá átt með það að markmiði að bæta þjónustu lögreglu.