Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 918  —  336. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um framkvæmdir og starfsemi sem ógnað geta öryggi vatnsöflunar.


     1.      Hvernig er þess gætt að framkvæmdir, starfsemi og önnur landnot, einkum til útivistar, ógni ekki öryggi vatnsöflunar á grannsvæðum vatnsbóla, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns, með síðari breytingum, sem og 15. gr. samþykktar nr. 555/2015, um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar?
    Samþykktin sem vísað er til tekur til hvers konar athafna eða framkvæmda sem geta haft áhrif á gæði grunnvatns á vatnstökustað, svo sem ræktunarstarfa, umgengni, nýrra bygginga, breytinga, viðhalds og frágangs mannvirkja. Samþykktin nær til umferðar vélknúinna farartækja, meðferðar efna sem valdið geta mengun, atvinnurekstrar, húsdýrahalds, landbúnaðar og útivistar. Þá skal mannvirkjagerð á verndarsvæðum vera í samræmi við skipulagsáætlanir og hafa öryggi vatnsverndar og faglegan undirbúning að leiðarljósi. Rekstraraðili áformaðra framkvæmda verður að sýna fram á að starfseminni verði ekki fundinn annar staður vegna eðlis hennar og að engin hætta sé á mengun. Mannvirkjagerð vegna slíkrar starfsemi þarf starfsleyfi heilbrigðisnefndar, að undangengnu áhættumati, áður en framkvæmdir hefjast. Umráðaaðili útivistarsvæðis skal sjá um að komið verði fyrir ílátum fyrir rusl þar sem það á við og að fram fari reglubundin tæming þeirra. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að fram fari reglubundin hreinsun á og við stíga og áningarstaði.
    Samkvæmt 7. gr. samþykktarinnar mynda framkvæmdastjórar heilbrigðiseftirlitssvæða á höfuðborgarsvæðinu með sér framkvæmdastjórn, sem hefur m.a. það hlutverk að tryggja upplýsingaflæði á milli heilbrigðisnefnda, samræma vinnubrögð við leyfisveitingar og tryggja samræmt eftirlit. Framkvæmdastjórnin gerir árlega skýrslu um störf sín. Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd skipuleggur eftirlit samkvæmt samþykktinni og hefur umsjón með að viðbragðsáætlanir vegna mengunaróhappa séu gerðar.

     2.      Hvernig er gætt að skilyrðum skv. 13. gr. fyrrgreindrar reglugerðar og 32. gr. fyrrgreindrar samþykktar varðandi notkun og geymslu varasamra efna á grannsvæðum og hvernig er eftirliti háttað með að flutningsaðilar slíkra efna á grannsvæðum hafi fullnægjandi viðbragðsáætlun og leyfi heilbrigðisnefndar til flutninganna?
    Eins og fram kemur í 32. gr. samþykktarinnar er geymsla á varasömum efnum og olíuáfyllingar á tæki og tanka óheimil nema það sé tiltekið í tímabundnu starfsleyfi heilbrigðisnefndar, einnig að flutningsaðili slíkra efna skuli hafa fullnægjandi viðbragðsáætlun og leyfi heilbrigðisnefndar til flutninganna.
    Skilyrðum í starfsleyfum er fylgt eftir í reglubundnu eftirliti heilbrigðiseftirlits, þar sem teknir eru út allir þættir leyfanna, þar á meðal viðbragðsáætlanir.

     3.      Hvaða efnum og aðferðum er beitt við gróðureyðingu í nágrenni vatnsverndarsvæða, svo sem í vegköntum? Hvaða reglur gilda í þessu efni til að tryggja vernd vatnsbóla og hvernig er þeim fylgt eftir með rannsóknum og eftirliti?
    Notkun plöntuverndarvara, útrýmingarefna og annarra varasamra efna er óheimil nema í smáum stíl til einkanota innan verndarsvæðis vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins. Hvorki framkvæmdastjórn né heilbrigðiseftirliti þar er kunnugt um slíka notkun né hafa komið til þeirra umsóknir um slíkt.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fer öll vinna innan og í nágrenni vatnsverndarsvæða fram í samræmi við samþykktir og reglur veitufyrirtækja á hverjum stað. Sláttur vegkanta u.þ.b. 1,5–3 m út frá vegöxl er sú aðferð sem mest er notuð, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Vegagerðin bannaði notkun á umræddum vörum í starfsemi sinni fyrir nokkrum árum.

     4.      Hvernig metur ráðherra áhættu vegna ofangreindra þátta gagnvart einstökum vatnsverndarsvæðum á landinu? Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar í þessu efni? Hvað hefur ráðherra aðhafst og hver eru áform ráðherra um aðgerðir til að verja vatnsbólin gegn þessari áhættu?
    Í reglugerð nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns, eru m.a. ákvæði um verndun vatns, flokkun og ráðstafanir vegna verndarsvæða, staðsetningu og frágang vatnsbóla og eftirlit með verndarsvæðum fyrir neysluvatn. Einnig eru hlutverk leyfisveitenda og eftirlitsaðila, heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar, skilgreind. Starfsemi sem getur haft í för með sér mengun er starfsleyfisskyld og haft er eftirlit með að ákvæði starfsleyfa séu uppfyllt.
    Um flutning á hættulegum farmi gildir reglugerð (nr. 1077/2010) og einnig er sérstök reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi (nr. 887/2017). Um neysluvatn gildir reglugerð nr. 536/2001. Markmið hennar er að vernda heilsu manna með því að tryggja að neysluvatn sé heilnæmt og hreint. Með reglugerðinni var aukin áhersla lögð á leit að óæskilegum efnum í neysluvatni, efnum sem ýmist eru náttúrulega til staðar í vatni eða tilkomin vegna mengunar. Í skýrslu Matvælastofnunar, Gæði neysluvatns á Íslandi 2002–2012, kemur fram að örveruástand er í flestum tilvikum mjög gott hjá stærri vatnsveitum en lakara hjá minni veitum sem þjóna færri en 500 íbúum. Þá er efnafræðilegt ástand neysluvatns á landinu almennt mjög gott og sjaldgæft að eiturefni greinist í vatninu.
    Markmið laga nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, er að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Lögin mæla fyrir um gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlunar, sem er hluti vatnaáætlunar, og vöktunaráætlunar. Áætlanirnar skal taka til endurskoðunar á sex ára fresti. Nú er unnið að gerð þessara áætlana og er gert ráð fyrir að fyrsta vatnaáætlunin komi til framkvæmda árið 2022.