Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 919  —  517. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um aðgerðir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.


     1.      Til hvaða aðgerða hefur ráðherra gripið eða hyggst grípa í því skyni að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum iðnaði? Óskað er eftir upplýsingum um allar þær aðgerðir sem er lokið, eru þegar hafnar eða eru fyrirhugaðar.
    Í september 2018 kynntu stjórnvöld aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Áætlunin samanstendur af 34 verkefnum sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og efla kolefnisbindingu úr andrúmslofti. Höfuðáhersla er lögð á orkuskipti í samgöngum með áherslu á rafvæðingu vegasamgangna og átak í kolefnisbindingu, þar sem skógrækt og landgræðsla verða í lykilhlutverki, en jafnframt verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi með endurheimt votlendis. Á fjármálaáætlun 2019–2023 er gert ráð fyrir 6,8 milljörðum kr. til aðgerða í loftslagsmálum.
    Markmiðið með þeim aðgerðum sem kynntar eru í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins árið 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Unnið er að frekari útfærslu áætlunarinnar og því að koma verkefnum af stað en margir aðilar fyrir utan umhverfis- og auðlindaráðuneyti eiga aðkomu að því. Þær aðgerðir sem settar eru fram í aðgerðaáætlun varða losun frá öllum helstu uppsprettum, þar á meðal frá iðnaði. Bent er á að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins þar sem finna má ítarlegri upplýsingar um hverja og eina aðgerð, sjá www.co2.is.
    Varðandi losun frá stóriðju fellur sú losun undir evrópska viðskiptakerfið um losunarheimildir, ETS (EU Emissions Trading System). Fyrirtæki sem falla undir kerfið fá úthlutað heimildum vegna losunar endurgjaldslaust upp að ákveðnu marki en þurfa að standa skil á því sem út af stendur með því að draga úr losun eða kaupa heimildir á markaði. Árlega er heimildum í kerfinu fækkað um sem nemur 1,74% á ári sem hvetur fyrirtæki til að draga úr losun. ETS-kerfinu er þannig ætlað að ná utan um það verkefni að draga úr losun frá stóriðju. Ráðherra hefur engu síður fundað með fulltrúum allra stóriðjufyrirtækja á Íslandi til að ræða loftslagsmál við þau og til hvaða aðgerða fyrirtækin hyggist grípa til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

     2.      Hefur ráðherra í huga að beita hagrænum hvötum til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Hagrænum hvötum er nú þegar beitt í þágu loftslagsmála og má þar nefna kolefnisgjald á eldsneyti og ívilnanir fyrir rafbíla og önnur vistvæn ökutæki. Jafnframt má nefna að vörugjöld á bíla eru tengd útblæstri bifreiða þannig að neyslugrennri og umhverfisvænni bifreiðar bera lægri vörugjöld, óháð stærð. Viðskiptakerfi með losunarheimildir má einnig flokka með hagrænum hvötum. Þar myndast verð á losun kolefnis, sem virkar hvetjandi til að draga úr losun, svo að fyrirtæki þurfi ekki að kaupa heimildir og geti jafnvel selt þær ef losun er minni en heimilt er.
    Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eru tilgreindar nokkrar hagrænar aðgerðir, svo sem að áfram verði veittar ívilnanir fyrir loftslagsvæna bíla og eldsneyti, kolefnisgjald verði hækkað, hlutfall vistvæns eldsneytis í skipum verði hækkað og skattur settur á vegna urðunar lífræns úrgangs.