Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 920  —  323. mál.
Fyrirsögn.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um flutninga á sorpi í grennd við vatnsverndarsvæði.


     1.      Hvert var magn sorps sem flutt var á árabilinu 2013–2017 milli landshluta þar sem leið liggur yfir og í grennd við vatnsverndarsvæði? Hvaða akstursleiðir ræðir um í þessu sambandi? Hve mikið var flutt af umhverfismengandi efnum?
    Upplýsingum er ekki safnað um magn sorps sem flutt er yfir eða í grennd við vatnsverndarsvæði. Umhverfisstofnun safnar hins vegar árlega gögnum frá rekstraraðilum sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla úrgang um magn og ráðstöfun þess úrgangs sem þeir taka við. Þetta eru gögn sem eru tekin saman á landsvísu og þau fela ekki sér upplýsingar um flutning úrgangs.

     2.      Hvað má gera ráð fyrir að eknir séu margir kílómetrar á ári með sorpið? Hver er meðalþungi flutningabíla með sorp og hver er mesti þungi þeirra? Hve mikil mengun fylgir því að flytja umrætt sorp landshluta á milli?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er þessum upplýsingum ekki safnað af opinberum aðilum.

     3.      Hvernig er háttað leyfisveitingum og eftirliti með slíkum flutningum?
    Flutningur sorps og annars úrgangs er starfsleyfisskyld starfsemi, sbr. töluliði 7.14 og 8.3 í viðauka IV við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það eru heilbrigðisnefndir sem gefa út starfsleyfi fyrir starfsemina og hafa eftirlit með henni, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga og 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

     4.      Liggur fyrir áhættumat sem endurskoðað er með reglubundnum hætti og viðbragðsáætlanir gagnvart hættu á mengun vatnsbóla vegna flutninga á sorpi á nágrenni þeirra?
    Heilbrigðisnefndum er heimilt að takmarka eða banna olíu-, efna- og úrgangsflutninga innan verndarsvæða vatnsbóla þar sem hætta er á að slíkt geti spillt vatninu, sbr. ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns. Strangar reglur eru um flutning á hættulegum farmi á vegum, sbr. reglugerð nr. 1077/2010 um flutning á hættulegum farmi á landi. Vinnueftirlit ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðarinnar og lögreglan hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé framfylgt á vegum úti. Samgöngustofa hefur eftirlit með að ökutæki sem flytja hættulegan farm séu viðurkennd til slíkra flutninga og slökkviliðsstjóri hefur stjórn á vettvangi í mengunaróhöppum og ber ábyrgð á að heilbrigðiseftirliti sé tilkynnt án tafar um mengunaróhöpp.
    Almennt sorp telst ekki vera hættulegur farmur og er ráðuneytinu ekki kunnugt um að gert hafi verið sérstakt áhættumat vegna mengunarhættu sem stafað gæti af flutningum á sorpi.

     5.      Til hvaða aðgerða hefur ráðherra gripið til að draga úr sorpflutningum milli landshluta? Hvaða aðgerðir eru áformaðar?
    Samkvæmt lögum nr. 55/2003 gefur ráðherra út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt og jafnframt gefa sveitarfélög út áætlanir fyrir viðkomandi svæði. Í svæðisáætlunum skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir.
    Sveitarstjórnir skulu ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn ber ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu, eftir atvikum í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir.

     6.      Hver er afstaða ráðherra gagnvart eyðingu, urðun og hagnýtingu á sorpi sem næst staðnum þar sem það fellur til? Hvaða áform hefur ráðherra um að breyta sorpinu í auðlind?
    Ráðherra leggur megináherslu á úrgangsforvarnir og minni sóun og að þannig sé dregið úr magni úrgangs sem þarf að meðhöndla, m.a. flytja á milli svæða.
    Mikil breyting hefur orðið á meðferð úrgangs frá því sem áður var þegar úrgangi var fargað með ófullkominni urðun eða frumstæðri brennslu í næsta nágrenni þéttbýliskjarna landsins. Með auknum kröfum um mengunarvarnir hefur verið komið á fót stærri og fullkomnari urðunarstöðum sem jafnframt þjóna stærra svæði og kallar það á flutning úrgangs. Samhliða þessu hafa verið gerðar kröfur um endurvinnslu úrgangs, sem hafa gjörbreytt meðferð hans. Þannig fóru 15% úrgangs í endurnýtingu árið 1995, en árið 2013 var þetta hlutfall orðið 69%.
    Í 5. gr. laga nr. 55/2003 kemur fram að ráðherra gefur út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs var gefin út árið 2013 og gildir hún fyrir tímabilið 2013–2024. Í 6. gr. laganna segir að sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, skuli semja og staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildi fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir, sbr. 5. gr. laganna.
    Árið 2016 gaf ráðherra út stefnu Íslands um úrgangsforvarnir sem ber heitið Saman gegn sóun. Stefnan gildir árabilið 2016–2027 og er þar lögð megináhersla á níu flokka; matvæli, plast, textíl, raftæki, grænar byggingar, pappír, aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og úrgang frá stóriðju. Haustið 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum um viðauka við stefnuna um úrgangsforvarnir sem lýtur að setningu mælikvarða og markmiða fyrir plast, textíl, aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og ál- og kísilmálmframleiðslu.
    Tillaga að aðgerðaáætlun um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi var til kynningar í samráðsgátt Stjórnarráðsins í nóvember 2018. Tillagan byggist á vinnu samráðsvettvangs um aðgerðaáætlun í plastmálefnum, sem ráðherra skipaði í júlí 2018. Þar áttu sæti fulltrúar m.a. frá atvinnulífinu, sveitarfélögum, félagasamtökum, stofnunum, Alþingi og ráðuneytum.