Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 954  —  332. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Loga Einarssyni um aldursgreiningar ungra umsækjenda um alþjóðlega vernd.


     1.      Hefur ráðherra í hyggju að breyta framkvæmd líkamlegra aldursgreininga ungra umsækjenda um alþjóðlega vernd, þá aðallega tanngreininga, á grundvelli 113. gr. útlendingalaga, nr. 80/2016? Telur ráðherra líkamlegar aldursgreiningar siðferðislega réttlætanlegar eða nauðsynlegar í núverandi mynd? Telur ráðherra þessar greiningar vera í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna?
    Mikilvægt er að aldur umsækjenda um alþjóðlega vernd liggi fyrir því að börn eiga rétt á þjónustu og aðstoð í samræmi við stöðu sína, t.d. á aðgengi að menntun, auknu aðgengi að heilbrigðisþjónustu umfram fullorðna o.fl. Einnig ber að taka tillit til sérstakrar stöðu barna þegar metið er hvort viðkomandi og aðstæður hans uppfylli skilyrði um alþjóðlega vernd. Bent hefur verið á að það sé barni til hagsbóta að fá stöðu sína sem barn formlega viðurkennda og að aldursgreining geti leyst úr verulegum vafa á aldri viðkomandi.
    Heimild fyrir beitingu líkamsrannsóknar til þess að ákvarða aldur er að finna í 113. gr. útlendingalaga. Í athugasemdum frumvarps er varð að lögum nr. 80/2016, um útlendinga, kemur fram að gildissvið greinarinnar hafi verið útvíkkað með nýjum lögum og eigi nú við um fleiri tegundir mála en áður. Þá kemur fram að læknisskoðun samkvæmt ákvæðinu skuli fara fram með fullri virðingu fyrir sæmd einstaklingsins, ekki vera meira íþyngjandi en þörf krefur og framkvæmd af hæfu heilbrigðisstarfsfólki til að tryggja áreiðanlega niðurstöðu. Í reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017, með síðari breytingum, segir að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásögn hans af ævi sinni, en auk þess megi beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Við líkamsrannsókn skuli beita viðurkenndum aðferðum við mat á aldri og skal hún framkvæmd af þar til bærum sérfræðingum. Þá skal tryggt að sú aðferð sem valin er til greiningar á aldri sé mannúðleg og að gætt sé að réttindum og reisn þess einstaklings sem undir hana gengst.
    Við mat á aldri umsækjanda er því ekki eingöngu stuðst við líkamlega aldursgreiningu heldur heildstætt mat.
    Annars staðar á Norðurlöndum er einnig stuðst við líkamsrannsóknir þegar tekin er ákvörðun um aldur og alls staðar er þar stuðst við rannsóknir á tönnum og öðrum beinum. Svíþjóð skilur sig frá hinum ríkjunum hvað varðar greiningar út frá beinþroska þar sem þeir einir kanna þroska hnjáliðar en önnur ríki kanna aðeins þroska úlnliðs. Danir framkvæma einir mat á kynþroska við ákvörðun um aldur. Þar að auki styðjast Finnar og Danir einnig við klínískar skoðanir á einstaklingnum en Svíar og Norðmenn gera það ekki.
    Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir telur ráðherra ekki ástæðu til að breyta framkvæmd aldursgreininga og álítur þær ekki siðferðislega ámælisverðar, enda gert ráð fyrir upplýstu samþykki umsækjanda í hvert sinn auk þess sem gerðar eru kröfur um að framkvæmdin sé mannúðleg og gætt að réttindum og reisn þeirra einstaklinga sem undir slíkar rannsóknir gangast. Áfram þarf að tryggja að þær aðferðir sem beitt er við líkamlegar aldursgreiningar séu áreiðanlegar í hvert sinn en niðurstöður slíkra rannsókna hér á landi og í nágrannalöndum okkar hafa sýnt að umsækjendur eru oft í reynd eldri en þeir segjast vera. Dómsmálaráðherra hefur lagt áherslu á að Útlendingastofnun hafi verklag og viðmiðanir sínar um ákvörðun aldurs til stöðugrar endurskoðunar og taki mið af og nýti sér bestu mögulegu heimildir og tækni í þeim efnum. Þá hefur ekki verið álitið að líkamlegar rannsóknir, þegar þær reynast nauðsynlegur þáttur í heildstæðu mati til ákvörðunar aldurs, teljist sem slíkar brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

     2.      Hefur ráðherra ráðist í aðgerðir eða reglugerðarbreytingar til þess að aldur ungra umsækjenda verði metinn á heildstæðan hátt með faglegu mati barnasálfræðinga og lækna þar sem ekki síst sé tekið tillit til umhverfis- og menningarlegra aðstæðna ungmenna? Ef ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir heildstæðara mati?
    Þegar útlendingur sækir um alþjóðlega vernd hér á landi og kveðst vera undir 18 ára aldri fer af stað ákveðið rannsóknarferli, en líkamleg aldursgreining er aðeins einn hluti þess. Geti umsækjandi ekki sýnt fram á aldur sinn með gögnum er reynt að varpa ljósi á reynslu umsækjanda á ólíkum aldursskeiðum sem rennt gætu stoðum undir framburð um aldur. Ef grunur leikur á að umsækjandi sem kveðst vera barn sé lögráða er óskað eftir því að viðkomandi undirgangist líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur. Slík rannsókn fer aðeins fram með upplýstu samþykki umsækjanda. Notast er við fjórar mismunandi aðferðir til að tryggja sem mesta nákvæmni. Niðurstöður eru reiknaðar út frá þessum fjórum aðferðum og aldur ákvarðaður út frá þeim með staðalfrávikum. Staðalfrávik eru síðan metin umsækjanda í hag svo að hann verði ekki metinn eldri en hann er í raun og veru. Þegar tekin er ákvörðun um aldur eru niðurstöður líkamsrannsóknar metnar í samhengi við önnur atriði málsins, þ.e. frásögn umsækjanda og fyrirliggjandi gögn.
    Það liggur því ljóst fyrir að niðurstöður líkamlegrar rannsóknar eru aðeins hluti gagna sem liggja til grundvallar ákvörðun um aldur. Rannsókn og ákvörðun aldurs er því nú þegar fjölfagleg án þess að barnasálfræðingar og læknar komi sérstaklega að því mati.

     3.      Hverja hefur Útlendingastofnun látið framkvæma tanngreiningar síðustu 10 ár? Telur ráðherra rétt að tannlæknadeild Háskóla Íslands annist aldursgreiningar á tönnum?
    Undanfarin tíu ár hefur Útlendingastofnun beint beiðnum sínum um framkvæmd líkamlegrar aldursgreiningar í formi tannrannsókna til réttartannlæknanna Svends Richters og Sigríðar Rósu Víðisdóttur.
    Læknisskoðun sem framkvæmd er á grundvelli 113. gr. laga um útlendinga skal fara fram með fullri virðingu fyrir sæmd einstaklingsins, ekki vera meira íþyngjandi en þörf krefur og framkvæmd af hæfu heilbrigðisstarfsfólki svo að tryggja megi áreiðanlega niðurstöðu. Við slíka líkamsrannsókn skal beita viðurkenndum aðferðum við mat á aldri og skal hún framkvæmd af þar til bærum sérfræðingum. Fyrst og fremst skal tryggja að sá aðili sem framkvæmir rannsóknir á grundvelli 113. gr. útlendingalaga uppfylli framangreindar kröfur og að borin sé virðing fyrir réttindum þess sem undir rannsóknina gengst. Ráðherra gerir því ekki athugasemdir við að tannlæknadeild Háskóla Íslands framkvæmi rannsóknir sem þessar, hafi verið gengið úr skugga um að kröfur séu uppfylltar í hvert sinn.

     4.      Hversu mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur verið hafnað á grundvelli tanngreininga hér á landi?
    Engum. Óheimilt er að byggja synjun á umsókn um alþjóðlega vernd eingöngu á því að viðkomandi hafi neitað að undirgangast aldursgreiningu skv. 3. málsl. 2. mgr. 113. gr. útlendingalaga. Þá fer fram heildstætt og einstaklingsbundið mat í hvert sinn sem umsókn um alþjóðlega vernd er tekin til afgreiðslu óháð aldri viðkomandi. Samkvæmt lögum eiga einstaklingar sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi óháð aldri.

     5.      Er hafin vinna innan ráðuneytisins til að bæta réttarstöðu fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi? Ef svo er, hvers eðlis er hún, hversu langt er hún komin og hvenær verða niðurstöður kynntar Alþingi?
    Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 80/2016, um útlendinga, kemur fram að eitt af helstu nýmælum laganna væru aukin réttindi fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Er þar rakinn fjöldi atriða er varða réttarstöðu fylgdarlausra barna og hvernig bæta megi hana. Ekki hefur þótt ástæða til að ráðast í heildarendurskoðun á þeim atriðum sem þar koma fram. Ráðherra hefur þó kallað eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, stoðdeild ríkislögreglustjóra og Rauða krossinum á Íslandi svo að gera megi úttekt á stöðu barna, bæði fylgdarlausra sem annarra, sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi. Niðurstöðu þeirrar úttektar er að vænta fljótlega.