Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 980  —  537. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um fjölda hjúkrunar- og dvalarrýma.


     1.      Hve mörg ný hjúkrunar- og dvalarrými hafa verið tekin í notkun undanfarin 10 ár, sundurliðað eftir árum?
     2.      Hve mörgum hjúkrunar- og dvalarrýmum hefur verið lokað á sama tímabili, hvort heldur er vegna lokunar viðkomandi stofnana/húsnæðis eða fækkunar rýma, t.d. vegna áherslu á einstaklingsrými?
     3.      Hve mörg hjúkrunar- og dvalarrými er áætlað að taka í notkun á næstu tveimur árum?

    Í kjölfar hrunsins var farið í sérstaka aðgerð til samdráttar í heilbrigðiskerfinu og var þá hjúkrunarrýmum fækkað þar sem þörfin var talin minnst eða rýmin ekki í notkun. Í aðhaldskröfum stofnana forgangsröðuðu sumar heilbrigðisstofnanir kjarnastarfsemi sinni framar en hjúkrunarrýmum og voru þá mörg hjúkrunarrými aflögð að frumkvæði stofnananna sjálfra. Þar má nefna hjúkrunarrými á Akranesi og á Akureyri og voru þá fjármunir sem fylgt höfðu hjúkrunarrýmunum nýttir í aðra starfsemi. Eins voru dæmi um að hjúkrunarheimilum væri lokað vegna ófullnægjandi aðbúnaðar eða ákvörðunar forstöðumanns þar um.
    Uppbygging hjúkrunarheimila undanfarin tíu ár hefur að mestu falist í nauðsynlegum endurbótum á eldri rýmum. Byggð hafa verið 392 hjúkrunarrými og 302 verið aflögð. Fjölgun er því um 90 hjúkrunarrými á þessum tíu árum, þar af voru 40 þeirra tekin í notkun á þessu ári á Seltjarnarnesi. Fyrir lok þessa árs bætast við 100 ný rými þegar hjúkrunarheimilin verða opnuð á Sólvangi í Hafnarfirði og við Sléttuveg í Reykjavík.
    Með aukinni áherslu á stuðning við sjálfstæða búsetu aldraðra með styrkingu heimahjúkrunar og fjölgun dagdvalarrýma hefur dvalarrýmum fækkað á þessum tíma úr 661 árið 2009 í 214 nú. Að frumkvæði rekstraraðila hefur dvalarrýmum verið breytt í hjúkrunar- og dagdvalarrými sem talin hefur verið meiri þörf fyrir.
    Til viðbótar við nýlega opnun hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi mun nýtt hjúkrunarheimili í Hafnarfirði verða tekið í notkun á vormánuðum. Framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í Reykjavík eru komnar vel á veg og byggingaframkvæmdir að hefjast í Árborg. Með þessum byggingum fjölgar hjúkrunarrýmum um tæp 200 innan tveggja ára auk endurbóta á 94 eldri rýmum.
    Vatnaskil eru fram undan í fjölgun hjúkrunarrýma á landsvísu. Á yfirstandandi framkvæmdaáætlun, sem nær fram til ársins 2023, eru alls um 790 hjúkrunarrými, þar af fjölgun um rúmlega 580 hjúkrunarrými og endurbætur á yfir 200 eldri hjúkrunarrýmum. Eftirfarandi tafla sýnir breytingar á fjölda hjúkrunarrýma á árunum 2009–2023.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Árin 2009–2011 urðu ekki breytingar á fjölda hjúkrunarrýma.
    Árið 2012 voru byggð ný hjúkrunarheimili til að bæta aðbúnað í Lögmannshlíð á Akureyri, í Brákarhlíð í Borgarnesi og á Höfða á Akranesi án nettófjölgunar á rýmum það árið.
    Árið 2013 fjölgaði hjúkrunarrýmum á landsvísu um 50 með endurbótum og fjölgun rýma á Ísafold í Garðabæ og Hömrum í Mosfellsbæ og byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Hulduhlíð á Eskifirði sem leysti eldra hús af hólmi.
    Árið 2014 fjölgaði hjúkrunarrýmum um 34 með byggingu nýrra hjúkrunarheimila á Dyngju á Egilsstöðum og á Nesvöllum í Reykjanesbæ auk þess sem aðbúnaður batnaði í 56 rýmum.
    Árin 2015 og 2016 varð ekki breyting á fjölda hjúkrunarrýma á landsvísu en ný heimili voru byggð á Bjargi í Bolungarvík og á Eyri á Ísafirði en eldra húsnæði lagt af og rýmum fjölgað þar um 11 en hjúkrunar- og dvalarheimilinu að Blesastöðum lokað á Suðurlandi.
    Árið 2017 varð fækkun á hjúkrunarrýmum við lokun Kumbaravogs á Stokkseyri en endurbætur voru gerðar á rýmum á Lundi á Hellu með byggingu nýrrar álmu.
    Árið 2018 stóð fjöldi hjúkrunarrýma í stað en endurbætur voru gerðar á rýmum á Fellaskjóli í Grundarfirði og á Kirkjuhvoli á Hvolsvelli.
    Samkvæmt framkvæmdaáætlun verður 140 rýma fjölgun nú í ár, við opnun Seltjarnar á Seltjarnarnesi, Sólvangurs í Hafnarfirði og hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í Reykjavík.
    Árið 2020 verður fjölgun hjúkrunarrýma um 60 við opnun nýs hjúkrunarheimilis í Árborg sem áætlað er að verði opnað í lok ársins 2020. Hluti af þeim rýmum kemur í stað þeirra rýma sem lokað var á Kumbaravogi og á Blesastöðum árin 2016 og 2017.
    Árið 2021 verður fjölgun hjúkrunarrýma um 45 samkvæmt framkvæmdaáætlun þegar nýtt hjúkrunarheimili verður opnað á Húsavík og á Höfn í Hornafirði með endurbótum og fjölgun rýma en endurbótum á hjúkrunarheimilinu í Stykkishólmi á að ljúka það ár.
    Árið 2022 er gert ráð fyrir að nýtt hjúkrunarheimili verði opnað við Boðaþing í Kópavogi sem dregist hefur í tvö ár vegna dómsmáls.
    Á yfirstandandi framkvæmdaáætlun sem nær fram til 2023 er ekki komin tímasetning á verklok bygginga hjúkrunarheimila í Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og Akureyri auk hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu, alls fjölgun um 276 hjúkrunarrými og endurbætur á 30 rýmum.

     4.      Liggur fyrir nýlegt mat á þörf fyrir ný hjúkrunar- og dvalarrými, bæði miðað við núverandi stöðu og næstu 5–10 árin?

    Fyrir liggur ársgamalt mat á reiknaðri þörf fyrir fjölda hjúkrunarrýma sem liggur til grundvallar framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma til ársins 2023. Slíkt mat er endurtekið árlega. Við útreikning á reiknaðri þörf fyrir fjölda hjúkrunarrýma er horft til fjölda þeirra sem eru í hjúkrunarrýmum og á biðlista eftir varanlegu hjúkrunarrými, dvalartíma á hjúkrunarheimili og biðtíma eftir úthlutun, auk aldurssamsetningar íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi.