Ferill 583. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 981  —  583. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um tekjuskatt (séreignarsparnaður).

Flm.: Birgir Þórarinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
nr. 129/1997, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2019“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum kemur: 30. júní 2022.

2. gr.


    Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2019“ tvívegis í 1. mgr. og í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVII í lögunum kemur: 30. júní 2022.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2019“ í 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LV í lögunum kemur: 30. júní 2022.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að úrræði til að nýta séreignarsparnað til íbúðarkaupa og niðurgreiðslu lána verði framlengt um þrjú ár.
    Markmið frumvarpsins er að auðvelda fólki að kaupa íbúðarhúsnæði og komast þannig af leigumarkaði. Heimildin var upphaflega sett í lög til þess að bregðast við skuldavanda heimila á Íslandi. Heimildinni var í fyrstu ætlað að gilda í þrjú ár en hefur verið framlengd nokkrum sinnum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að úrræðið standi lengur til boða og leggja til að heimildin verði framlengd til ársins 2022.