Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 988  —  478. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Snæbirni Brynjarssyni um vernd úthafsvistkerfa.


     1.      Telur ráðherra nauðsynlegt að styrkja alþjóðlegt eftirlit með úthafsveiðum til að tryggja heilbrigt vistkerfi, sjálfbærni alþjóðlegra fiskstofna og lífvænleika íslenskra fiskimiða til langframa?
    Um veiðar á úthafinu gilda reglur hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982 og úthafsveiðisamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1995 (samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim). Markmið úthafsveiðisamningsins er tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna og mælir samningurinn fyrir um að verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna úthafsveiða skuli byggðar á bestu vísindalegum niðurstöðum og að sýna skuli sérstaka varúð þegar upplýsingar um viðkomandi stofn eru óvissar eða ónógar. Þá mælir úthafsveiðisamningurinn enn fremur fyrir um að strandríki og úthafsveiðiríki skuli starfa saman, annaðhvort beint sín á milli eða á vettvangi svæðisbundinna veiðistjórnarstofnana, við verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim. Þá er í V. og VI. hluta úthafsveiðisamningsins að finna ákvæði um eftirlit og framkvæmd þeirra verndunar- og stjórnunarráðstafana sem teknar hafa verið í samræmi við ákvæði samningsins, þ.m.t. ákvæði um skyldur fánaríkis, samstarfs ríkja um eftirlit og skyldur hafnríkja í þessu samhengi.
    Það er afstaða íslenskra stjórnvalda að það fyrirkomulag sem úthafsveiðisamningurinn mælir fyrir um sé farsælasta leiðin til að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna í úthafinu. Í þessu samhengi er rétt að undirstrika að úthafsveiðisamningurinn mælir beinlínis fyrir um skyldu strandríkja og úthafsveiðiríkja til að vinna saman að því að vernda fiskstofna í úthöfunum og mælir samningurinn m.a. fyrir um skyldu ríkja til þess að hefja tafarlaust viðræður þegar sýnt þykir hætta sé á ofnýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Með þessum hætti setur úthafsveiðisamningurinn þá ábyrgð á hendur bæði strandríkjum og úthafsveiðiríkjum að tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu um leið er tryggt að ákvarðanir séu teknar á grundvelli staðbundinnar þekkingar og sjónarmiða. Vandséð er að annað fyrirkomulag alþjóðlegs eftirlits yrði skilvirkara við að ná fram sjónarmiðum um langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu fiskveiða í úthafinu.
    Íslensk stjórnvöld hafa tekið virkan þátt í styrkingu alþjóðlegs eftirlits með úthafsveiðum. Ísland er aðili að þremur veiðistjórnarstofnunum: NEAFC, Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni, NAFO, Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnuninni, og ICCAT, Atlantshafstúnfisksráðinu. Á vettvangi þeirra hafa verið settar skuldbindandi reglur um veiðar og veiðieftirlit fyrir úthafsveiðar og má í því sambandi nefna fyrirmæli um fjareftirlit, skoðun fiskiskipa á úthafinu og eftirlit við komu fiskiskipa til hafna (hafnríkiseftirlit). Íslensk stjórnvöld eru fylgjandi frekari styrkingu eftirlits með úthafsveiðum. Í því sambandi hefur Ísland verið leiðandi í vinnu NEAFC við uppbyggingu eftirlitskerfis sem byggist á rafrænum afladagbókum og miðlun upplýsinga úr þeim til eftirlitsmanna (svonefnds ERS-kerfis). Allar þessar stofnanir hafa jafnframt sett sér reglur með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif fiskveiða á aðra hluta vistkerfis sjávar.
    Áhersla Íslands hefur verið á úthafsveiðar í Norður-Atlantshafi, en þó hefur Ísland tekið þátt í starfi til styrkingar eftirliti með úthafsveiðum á öðrum svæðum. Hvort tveggja er þetta með þátttöku í hnattrænum ferlum, svo sem á vettvangi FAO og Sameinuðu þjóðanna, og með samstarfi við þróunarríki, svo sem í gegnum fiskveiðiskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNU-FTP).

     2.      Styður ríkisstjórnin frumkvæði til að skapa bindandi alþjóðlega yfirumsjón með vernd stofna og vistkerfa á úthöfum? Ef ekki, hvernig hyggst ráðherra tryggja að bestu venjur íslenskra fiskveiða séu viðhafðar alþjóðlega?
    Eins og rakið var í svari við fyrri spurningu er þegar fyrir hendi alþjóðlegt fyrirkomulag á því hvernig skuli fara með samstarf ríkja um vernd og nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna í samræmi við ákvæði úthafsveiðisamnings Sameinuðu þjóðanna. Afstaða íslenskra stjórnvalda er að þetta fyrirkomulag svæðisbundinnar stjórnunar með þátttöku viðkomandi strandríkja og úthafsveiðiríkja sé farsæla leiðin til að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna í úthafinu. Mikilvægt er að haldið verði áfram að byggja á þessu fyrirkomulagi og það treyst enn frekar, enda er skilvirk framkvæmd úthafsveiðisamningsins forsenda þess að árangur náist við tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu fiskstofna á úthafinu.

    Alls fóru sex vinnustundir í að taka þetta svar saman.