Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1037  —  632. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um vátryggingasamstæður (reglugerðir og reglur).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, með síðari breytingum.
1. gr.

    78. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið setur reglur þar sem fram koma upplýsingar um áhættulausan vaxtaferil fyrir viðeigandi gjaldmiðla um besta mat vátryggingaskuldar vegna ársfjórðungslegra gagnaskila.
    Fjármálaeftirlitið birtir upplýsingar skv. 1. mgr. á vef sínum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 87. gr. laganna:
     a.      2. tölul. orðast svo: Aðferðir við að reikna áhættulausan vaxtaferil til núvirðingar á besta mati vátryggingaskuldar skv. 2. mgr. 76. gr., þ.m.t. skilyrði þess að nota aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna samræmingar, útreikninga á aðlögun vegna samræmingar og aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna óstöðugleika.
     b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Málsmeðferð sem fylgja skal við samþykki á umsókn um aðlögun vegna samræmingar.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað orðanna „um kröfur, sem umsókn skv. 1. mgr. þarf að fullnægja“ og „byggjast“ í 8. mgr. 21. gr. laganna kemur: um ferli vegna umsóknar skv. 1. mgr.; og: byggist.

4. gr.

    Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um ferli vátryggingasamstæðu við gerð skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og um form skýrslunnar.

5. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, og reglugerð um áhættulausan vaxtaferil vegna núvirðingar á vátryggingaskuld, nr. 1077/2017, voru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga, ásamt breytingum sem gerðar voru á henni með tilskipun 2014/51/ESB. Tilskipunin er kölluð „Solvency II“-tilskipunin. Tilskipun 2009/138/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011 hinn 1. júlí 2011. Tilskipun 2014/51/ESB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 247/2018 hinn 5. desember 2018.
    Í tilskipun 2009/138/EB með síðari breytingum eru víða ákvæði þar sem kveðið er á um að Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin (EIOPA) semji drög að tæknilegum framkvæmda- eða eftirlitsstöðlum sem eru þá nánari útfærsla á efni ákvæðanna. Framkvæmdastjórn ESB samþykkir tæknistaðlana áður en þeir taka gildi.
    Í lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, og lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð og Fjármálaeftirlitið reglur sem byggist á framangreindum tæknistöðlum ESB. Frumvarp þetta er meðal annars lagt fram til að bæta við slíkum ákvæðum sem annars vegar veita ráðherra heimild til að setja reglugerð og hins vegar Fjármálaeftirlitinu heimild til að setja reglur sem byggjast á tæknistöðlum ESB. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum um setningu reglna Fjármálaeftirlitsins til að þau séu skýrari. Þá er lagt til að skilgreina nánar heimild fyrir reglugerð nr. 1077/2017.
    Í frumvarpinu er lagt til að 78. gr. laga um vátryggingastarfsemi verði breytt. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gert athugasemdir við innleiðingu á framkvæmdastöðlum ESB sem eru gefnir út ársfjórðungslega og varða tæknilegar upplýsingar fyrir útreikning á vátryggingaskuld vegna ársfjórðungslegra gagnaskila. Í greininni er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli gefa upplýsingarnar út ársfjórðungslega. Samkvæmt því hefur Fjármálaeftirlitið birt upplýsingar á vef sínum þar sem meðal annars er tengill á vef EIOPA þar sem hægt er að finna tæknilegu upplýsingarnar. Athugasemdir ESA lúta að því að framkvæmdastaðlarnir séu ekki innleiddir í heild sinni í íslenskan rétt samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Í frumvarpi þessu er lagt til að Fjármálaeftirlitið setji reglur sem innleiða framkvæmdastaðlana. Áfram er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið birti upplýsingarnar á vef sínum til hægðarauka fyrir notendur.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er annars vegar að setja heimildir fyrir reglugerð ráðherra og reglur Fjármálaeftirlitsins í lög nr. 100/2016 og lög nr. 60/2017, sem byggjast á tækni- og framkvæmdastöðlum framkvæmdastjórnar ESB. Hins vegar er tilefnið að gefa skýrari heimild í lögum nr. 60/2017 fyrir reglum Fjármálaeftirlitsins sem byggjast á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/461 sem og heimild í lögum nr. 100/2016 fyrir reglugerð nr. 1077/2017, um áhættulausan vaxtaferil vegna núvirðingar á vátryggingaskuld.
    Nauðsynlegt er að breyta framangreindum lögum til að hafa skýrar lagastoðir fyrir reglum og reglugerðum sem innleiða EES-gerðir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Breytingar sem lagt er til í frumvarpinu að gerðar verði á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, eru í fyrsta lagi að breyta ákvæði um útreikning á vátryggingaskuld í þá veru að Fjármálaeftirlitið setji reglur þar sem fram koma upplýsingar sem nota skal við útreikninginn við ársfjórðungsleg gagnaskil. Í öðru lagi er lagt til að gera skýrara ákvæði 2. tölul. 87. gr. sem kveður á um reglugerðarheimild ráðherra til að útfæra nánar aðferðir til að reikna út vátryggingaskuld. Í þriðja lagi er lagt til að bæta við 87. gr. ákvæði um að ráðherra setji reglugerð um málsmeðferð sem fylgja skal við samþykki á umsókn um aðlögun vegna samræmingar.
    Lagt er til að lögum nr. 60/2017, um vátryggingasamstæður, verði breytt annars vegar til að gera skýrari heimild fyrir reglum Fjármálaeftirlitsins um ferlið til að taka sameiginlega ákvörðun um umsókn til að nota eigið líkan samstæðu og hins vegar að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að setja reglur um ferli vátryggingasamstæðu vegna skýrslugerðar um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og á hvaða formi skýrslan skuli vera.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæðum til að gera skýrari nokkur atriði vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var haft samráð við Fjármálaeftirlitið við gerð þess. Áform um lagasetningu voru send í innra samráð í Stjórnarráðinu í desember 2018 og bárust ekki athugasemdir. Áformin voru birt á samráðsgátt stjórnvalda 15. janúar 2019 og bárust engar athugasemdir. Frumvarpið var birt á samráðsgátt stjórnvalda 5. febrúar 2019. Frestur til umsagna var til 13. febrúar 2019 og bárust engar athugasemdir.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur hvorki fjárhags- né efnahagsáhrif þar sem eingöngu er um tæknilegar lagabreytingar að ræða. Frumvarpið hefur því hvorki áhrif á gildandi fjárlög, fjárlagafrumvarp ársins né fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið setji reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar þar sem fram koma upplýsingar sem nota skal við útreikning á vátryggingaskuld vegna ársfjórðungslegra gagnaskila. Þessar upplýsingar eru í fyrsta lagi áhættulaus vaxtaferill til að reikna út besta mat vátryggingaskuldar án aðlagana vegna samræmingar eða óstöðugleika, í öðru lagi grunnáhættuálag til að reikna út aðlögun vegna samræmingar fyrir tímalengd vaxta, flokk lánshæfismats og eignaflokk og í þriðja lagi aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna óstöðugleika. Upplýsingarnar eru gefnar út ársfjórðungslega í framkvæmdastöðlunum. Í reglugerð nr. 1077/2017 eru reglur um áhættulausan vaxtaferil vegna núvirðingar á vátryggingaskuld.
    Breytingin er lögð til þar sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur það ekki fullnægjandi innleiðingu á framkvæmdastöðlunum að Fjármálaeftirlitið birti eingöngu upplýsingar um þá á vef sínum eins og framkvæmdin er nú. Því er lagt til að framkvæmdastaðlarnir verði innleiddir með reglum sem Fjármálaeftirlitið setur þannig að ekki fari á milli mála að tækni-staðlarnir séu innleiddir samkvæmt EES-samningnum og Ísland uppfylli þannig þjóðréttar-legar skyldur sínar samkvæmt samningnum.

Um 2. gr.

    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á orðalagi 2. tölul. til að útfæra nánar heimild fyrir reglugerð nr. 1077/2017, um áhættulausan vaxtaferil vegna núvirðingar á vátryggingaskuld. Í öðru lagi er lagt til að ráðherra setji reglugerð um málsmeðferð sem fylgja skal þegar umsókn um aðlögun vegna samræmingar er sett. Reglugerðin mun byggjast á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/500 frá 24. mars 2015 um tæknilega framkvæmdastaðla að því er varðar málsmeðferðarreglur sem fylgja skal við samþykki eftirlitsyfirvalda á umsókn um aðlögun vegna samræmingar.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að orðalagi 8. mgr. 21. gr. verði breytt til að gera ákvæðið skýrara. Í ákvæðinu er heimild fyrir Fjármálaeftirlitið að setja reglur sem byggjast á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/461 frá 19. mars 2015 um tæknilega framkvæmdastaðla að því er varðar ferlið þegar tekin er sameiginleg ákvörðun um umsókn til að nota eigið líkan samstæðu.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið setji reglur um ferli við gerð skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og á hvaða formi skýrslan skuli vera. Reglurnar byggjast á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2462 frá 2. desember 2015 um tæknilega framkvæmdastaðla að því er varðar verklag, framsetningu og sniðmát fyrir skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.