Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1038  —  633. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum (gjald fyrir þinglýsingar með rafrænni færslu).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.1. gr.

    Á eftir orðinu „skjala“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: og þinglýsingu með rafrænni færslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því er lagt til að fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu skuli greiða sama gjald og fyrir venjulega þinglýsingu skjala.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
     Lög um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 151/2018, voru samþykkt á Alþingi hinn 14. desember 2018 og öðlast þau gildi 1. apríl 2019. Verður þar með heimilt að þinglýsa með rafrænni færslu sem telst jafngild þinglýsingu skjals. Áður en að gildistöku laganna kemur er talið að bæta þurfi orðalag 1. mgr. 8. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, sem kveður á um að fyrir þinglýsingu skjala skuli greiða 2.500 kr. til þess að skýrt verði að fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu skuli einnig greiða gjald að sömu fjárhæð.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með rafrænum þinglýsingum verður réttindum og skyldum samkvæmt skjali þinglýst en skjalið sjálft ekki sent til þinglýsingarstjóra. Í raun er þá þinglýst þeim atriðum sem þinglýsingarstjóri skráir nú í tölvukerfi þinglýsinga en þinglýsingarbeiðandi færir þau sjálfur rafrænt inn í þinglýsingarkerfið sem þinglýsir sjálfvirkt ef færslan uppfyllir skilyrði þinglýsingar. Ef ekki er beiðnin annaðhvort endursend eða hún fer til meðferðar hjá þinglýsingarstjóra. Afrit af hinu þinglýsta skjali verður því ekki lengur geymt hjá þinglýsingarstjóra. Frumrit skjalsins verður varðveitt hjá kröfuhafa ef um skuldaskjal er að ræða. Af þessum sökum er með frumvarpi þessu áréttað að gjaldtaka vegna þinglýsinga einskorðist ekki við skjöl, heldur einnig þinglýsingu með rafrænni færslu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Breytingin er lögð til vegna þeirra krafna sem ákvæði 40. og 77. gr. stjórnarskrár gera til skatta- og gjaldaákvæða. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið varði ákvæði EES-samningsins. Þar sem frumvarpið snýr aðeins að töku gjalds vegna þinglýsinga með rafrænni færslu er ekki gert ráð fyrir því að samþykkt þess kalli á breytingar á öðrum lögum.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaaðilar vegna tillögu frumvarpsins eru sýslumannsembættin, Lögmannafélag Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóður og Þjóðskrá Íslands.
    Samráð var haft við dómsmálaráðuneytið og Þjóðskrá Íslands sem bentu á að nauðsynlegt væri að ráðast í þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. Þá voru áform að frumvarpinu kynnt í opinni samráðsgátt Stjórnarráðsins dagana 11.–25. janúar 2019 og barst athugasemd frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra sem tekið var tillit til. Frumvarpið sjálft var kynnt í samráðsgáttinni dagana 24. janúar til 7. febrúar 2019. Engar athugasemdir bárust við frumvarpið.

6. Mat á áhrifum.
    Með innleiðingu rafrænna þinglýsinga hefur mikilvægt skref verið tekið í uppbyggingu innviða samfélagsins og upptöku stafrænnar tækni í stjórnsýslu og viðskiptum. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpi þessu leiðir af innleiðingu rafrænna þinglýsinga og verður ekki talið að hún muni hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um viðbót við 1. mgr. 8. gr. þannig að gjaldtaka fyrir þinglýsingu skjala nái einnig yfir gjaldtöku í tengslum við rafræna þinglýsingu.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um gildistöku. Gert er ráð fyrir að heimild til þinglýsingar með rafrænni færslu taki þegar gildi.