Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1040  —  239. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um íslenska ríkisborgara á Bretlandi og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.


     1.      Hefur ráðuneytið upplýsingar um það hversu margir íslenskir ríkisborgarar eru búsettir á Bretlandi? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra fljótlega gera ráðstafanir til þess að afla þeirra upplýsinga?
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu voru tæplega 2.400 íslenskir ríkisborgarar skráðir með lögheimili í Bretlandi hinn 1. nóvember 2018. Hafa ber í huga að Íslendingar gætu verið búsettir þar í landi án þess að hafa skráð lögheimili þar, t.d. vegna tímabundinnar dvalar við nám eða störf.

     2.      Hefur verið kannað á vegum ráðuneytisins hver réttarstaða íslenskra ríkisborgara á Bretlandi getur orðið eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu? Ef svo er, hver er þá niðurstaða slíkrar könnunar?
    Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu hinn 29. mars 2019. Samningamenn Bretlands og ESB náðu samkomulagi um útgöngusamning í nóvember 2018. Í honum er gert ráð fyrir að eftir útgöngu taki við svokallað bráðabirgðatímabil, að því gefnu að útgöngusamningurinn taki gildi. Meðan á bráðabirgðatímabilinu stendur er gert ráð fyrir að löggjöf Evrópusambandsins gildi áfram í Bretlandi og að framkvæmd EES-samningsins taki áfram til Bretlands. Ráðgert er að bráðabirgðatímabilinu ljúki 31. desember 2020 með möguleika á framlengingu. Ekki er víst að útgöngusamningurinn verði samþykktur í breska þinginu. Því er ekki hægt að útiloka að Bretland hverfi úr ESB án útgöngusamnings. Þetta hefði í för með sér að EES-samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB hættu að eiga við um Bretland strax við útgöngu 29. mars 2019. Vinna íslenskra stjórnvalda við að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi hefur tekið mið af báðum þessum sviðsmyndum eins og nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir.

Ef útgöngusamningur milli Bretlands og ESB tekur gildi:
    Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við hin EFTA-ríkin innan EES, Noreg og Liechtenstein, hafa átt í viðræðum við bresk stjórnvöld með það að markmiði að endurspegla í samningi sín á milli þá þætti í útgöngusamningi Bretlands og ESB sem varða einnig þessi ríki vegna þátttöku þeirra í EES-samstarfinu. Þar má helst nefna réttindi borgaranna, hvað Ísland varðar réttindi íslenskra ríkisborgara sem dvelja í Bretlandi til áframhaldandi búsetu eftir lok bráðabirgðatímabilsins og gagnkvæm réttindi breskra ríkisborgara á Íslandi. Viðræðum við bresk stjórnvöld er nú lokið og leyst hefur verið úr málum sem varða þátttöku á innri markaðnum með sambærilegum hætti og á milli Bretlands og ESB. Þetta hefur í för með sér, ef útgöngusamningur Bretlands og ESB verður staðfestur og tekur gildi, að íslenskir ríkisborgarar sem flytja til Bretlands fyrir lok bráðabirgðatímabilsins geta búið þar áfram. Lokadrög að samningi EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland hafa verið árituð og eru aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins ásamt frekari skýringum. Þegar bráðabirgðatímabilinu lýkur tekur frjáls för launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga á EES-svæðinu, sem er hluti af fjórfrelsinu, ekki lengur til Bretlands. Eftir er að semja um framtíðarfyrirkomulag varðandi dvalarleyfi og atvinnuleyfi fyrir íslenska ríkisborgara sem vilja flytja til Bretlands eftir að bráðabirgðatímabilinu lýkur. Gert er ráð fyrir að samningaviðræður um það fari fram á bráðabirgðatímabilinu.

Ef Bretland gengur úr ESB án útgöngusamnings:
    Framangreind umfjöllun gerir ráð fyrir að útgöngusamningur Bretlands úr ESB verði staðfestur og taki gildi. Á þessum tímapunkti (í byrjun febrúar 2019) er óvíst hvort útgöngusamningurinn hljóti samþykki breska þingsins.
    Íslensk stjórnvöld hafa einnig verið að undirbúa sig fyrir þá sviðsmynd að Bretland gangi úr ESB án útgöngusamnings. Á fundi forsætisráðherra Íslands og Bretlands í Ósló hinn 29. október 2018 sammæltust þeir um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES 29. mars 2019, jafnvel þó svo færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. Í framhaldinu hófst vinna við að tryggja þessi réttindi með samningi um gagnkvæm réttindi borgara þessara landa, hvernig sem fer í viðræðum Bretlands og ESB. Sá samningur yrði á milli EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands.
    Náið samstarf hefur átt sér stað við Bretland um tæknilega útfærslu á þessu samkomulagi. Endanleg samningsdrög liggja nú fyrir og hafa verið árituð og birt á heimasíðu ráðuneytisins ásamt frekari skýringum. Hafa ber í huga að ef Bretland gengur úr ESB án útgöngusamnings verður ekki bráðabirgðatímabil til loka árs 2020 þar sem EES-samningurinn mundi gilda áfram. Í þessu tilfelli er því samið um réttindi þeirra sem eru búsettir í Bretlandi fyrir útgöngudagsetningu.
    Bresk stjórnvöld gáfu nýverið út hvaða reglur gilda fyrir ríkisborgara ESB og EFTA-ríkjanna sem vilja flytja til Bretlands til náms eða starfa eftir útgöngudag og fram til loka árs 2020 ef kemur til útgöngu Bretlands úr ESB án útgöngusamnings. Stefnan felur í grófum dráttum í sér að ríkisborgarar þessara ríkja geta sótt um og fengið dvalarleyfi sem gildir í 36 mánuði. Óvíst er hvaða reglur gilda fyrir íslenska ríkisborgara sem mundu vilja flytja til Bretlands eftir 2020.

Skráning réttinda í Bretlandi:
    Hinn 21. júní 2018 gáfu bresk stjórnvöld út stefnuskjalið EU Settlement Scheme: Statement of Intent þar sem fram kemur að ríkisborgarar Evrópusambandsríkja, sem þegar dvelja í Bretlandi eða sem flytjast til Bretlands á bráðabirgðatímabilinu, fái rétt til áframhaldandi ótímabundinnar búsetu og verða þeir að skrá þann rétt hjá breska innanríkisráðuneytinu innan ákveðinna tímamarka. Þessi réttur nær einnig til íslenskra ríkisborgara, sbr. einnig samningaviðræður EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við Bretland, og yfirlýsingu á fundi forsætisráðherra Íslands og forsætisráðherra Bretlands í Ósló 30. október 2018, um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES.
     3.      Hyggst ráðuneytið aðstoða íslenska ríkisborgara á Bretlandi sérstaklega eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í ljósi þess að breska ríkisstjórnin virðist hafna því að hún muni veita EES-borgurum sérstök réttindi eins og m.a. kemur fram í nýlegri skýrslu ráðgjafarnefndar um málefni innflytjenda (MAC) og umfjöllun fjölmiðla um þessi mál?
    Eins og komið hefur fram er ljóst á þessu stigi að íslenskir ríkisborgarar geta flutt til Bretlands fram til ársins 2020, að því gefnu að samningar náist á milli Bretlands og ESB, þar sem EES-samningurinn og reglur um frjálsa för fólks gilda áfram um Bretland. Þá hafa bresk stjórnvöld kynnt stefnu þess eðlis að gangi Bretland úr ESB án samnings geti EES-borgarar fengið dvalarleyfi í 36 mánuði til að stunda þar nám eða störf.
    Bresk stjórnvöld vinna nú að mótun almennrar innflytjendalöggjafar sem tekur gildi eftir að bráðabirgðatímabilinu og frjálsri för fólks gagnvart EES-ríkjunum lýkur. Haustið 2018 skilaði bresk ráðgjafarnefnd um innflytjendamál (e. Migration Advisory Committee – MAC) tillögum til stjórnvalda með ráðgjöf um nýtt innflytjendakerfi. Nefndin leggur til nýtt kerfi sem tryggi nægjanlegan fjölda innflytjenda með sérþekkingu sem nýtist bresku samfélagi og atvinnulífi án þess að mismuna eftir uppruna. Nefndin tók einnig fram að stjórnvöld kynnu að vilja semja um betri réttindi við önnur ríki á gagnkvæmnisgrundvelli, m.a. í viðræðum við ESB. Bresk stjórnvöld birtu hvítbók 19. desember 2018 um nýja innflytjendalöggjöf á grunni skýrslu MAC og í kjölfarið stendur til að leggja fram frumvarp til nýrra innflytjendalaga á breska þinginu.
    Á þessu stigi er óvíst hvort Bretland vilji semja við önnur ríki um ívilnandi reglur um för fólks sem tækju gildi eftir 2020 en það hefur þó ekki verið útilokað. Ísland leitast eftir því að tryggja sveigjanleika varðandi áframhaldandi rétt til farar og búsetu í framtíðarviðræðum við Bretland þegar þar að kemur svo að íslenskir ríkisborgarar geti m.a. áfram verið við nám og störf í Bretlandi.

    Alls fóru tuttugu vinnustundir í að taka þetta svar saman.