Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1061  —  648. mál.




Beiðni um skýrslu


frá mennta- og menningarmálaráðherra um árangur af stefnu um opinbera háskóla.

Frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Einari Kárasyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um árangur af stefnu ráðherra um opinbera háskóla sem birt var 6. ágúst 2010. Í skýrslunni verði fjallað um:
     a.      stöðu núverandi samstarfs opinberu háskólanna,
     b.      árangurinn af því samstarfi sem komið var á árið 2010,
     c.      mat á því hvort markmið stefnunnar sem mörkuð var 2010 hafi náðst á þann hátt sem ætlast var til og stöðu þeirra samninga sem gerðir voru í tengslum við þá stefnu,
     d.      stöðu fjarkennslu í opinberu háskólunum,
     e.      hvernig samstarf opinberu háskólanna hefur verið fjármagnað á tímabilinu,
     f.      stöðu opinberu háskólanna núverandi og hvort ástæða sé til að endurnýja stefnu mennta- og menningarmálaráðherra um opinbera háskóla.

Greinargerð.

    Markmið skýrslubeiðninnar er að láta meta árangurinn af stefnu mennta- og menningarmálaráðherra um opinbera háskóla sem birt var 9. ágúst 2010. Nú þegar unnið hefur verið eftir stefnunni í níu ár er æskilegt að meta stöðuna og átta sig á hvort markmið stefnunnar hafi náðst.
    Í stefnunni frá 2010 kemur fram að það sé stefna ráðherra „að standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna“ með stofnun samstarfsnets þeirra. Markmið stefnunnar var að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags, að hagræða í rekstri háskólanna þannig að fjármunir nýttust sem best og að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu. Markmiðið var að árið 2012 yrði starfandi samstarfsnet opinberra háskóla Ísland með Háskóla Íslands sem þungamiðju.
    Í stefnunni voru lagðar fram ýmsar leiðir að markmiðum og má þar nefna eitt gæðakerfi og samræmt gæðamat, vefgátt með sameiginlegri umsóknargátt, eitt upplýsingakerfi, og að stjórnsýsla og stoðþjónusta háskólanna yrði skipulögð sem ein heild þótt starfsmenn væru staðsettir víða.
    Mikilvægt er að meta árangurinn af stefnumótun hins opinbera og því er með þessari skýrslubeiðni lagt til að það sé gert.