Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1097  —  618. mál.
Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur um lækkun á kostnaðargreiðslum þingmanna.


     1.      Hvaða greiðslur til alþingismanna voru lækkaðar í kjölfar úrskurðar kjararáðs um hækkun launa alþingismanna haustið 2016 þegar þáverandi forseti Alþingis lagði til lækkun fastra kostnaðargreiðslna til þingmanna með tillögu sem var samþykkt í forsætisnefnd 31. janúar 2017?
    Starfskostnaður og fastur ferðakostnaður í kjördæmi var lækkaður.

     2.      Eru greiðslur sem voru lækkaðar skattskyldar?
    Fastur ferðakostnaður í kjördæmi er undanþeginn skatti. Starfskostnaður, sem greiddur er sem föst mánaðarleg upphæð, er skattskyldur en heimilt er að leggja fram reikninga fyrir útlögðum starfskostnaði sem lækkar staðgreiðslugrunninn.

     3.      Var metið af hálfu forsætisnefndar hvað lækkunin jafnaðist á við háa greiðslu fyrir skatt?
    Samkvæmt útreikningum nam lækkunin 104.488 kr. á mánuði eða 150.639 kr. að launaígildi þegar tekið er tillit til þess að hluti greiðslna er undanþeginn skatti.

     4.      Hversu mikil var lækkunin í krónutölu annars vegar fyrir landsbyggðarþingmenn og hins vegar þingmenn af höfuðborgarsvæðinu?
    Lækkunin var sú sama fyrir alla þingmenn, eða 104.488 kr. eins og fram kemur í svari við 3. tölul.

     5.      Hver hefur þróun greiðslna til þingmanna, þ.e. þingfararkaups og fastra mánaðarlegra greiðslna, verið frá því að kjararáð hóf að úrskurða um þingfararkaup árið 2006?
    Í skýrslu sem starfshópur um málefni kjararáðs skilaði 15. febrúar 2018 er að finna yfirlit um þingfararkaup og fastar viðbótargreiðslur alþingismanna 2006–2016, sbr. eftirfarandi töflu. Laun þingmanna hafa verið óbreytt frá október 2016.

Þingfararkaup og fastar viðbótargreiðslur alþingismanna 2006–2016.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þingfararkaup og fastar viðbótargreiðslur alþingismanna hafa hækkað um tæplega 105% frá árinu 2006 en launavísitala hefur hækkað um tæplega 138% frá janúar 2006 til janúar 2019 eða úr 282,8 stigum í 672,6 stig.