Ferill 681. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1098  —  681. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um að auðvelda pörum af mismunandi þjóðerni að setjast að á Íslandi.


Flm.: Gísli Garðarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Jón Steindór Valdimarsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem móti heildstæðar tillögur með það að markmiði að auðvelda pörum af mismunandi þjóðerni að flytjast til landsins og setjast hér að. Starfshópurinn skili ráðherra tillögum fyrir 1. maí 2020.

Greinargerð.

    Sú tvíhliða breyting hefur orðið á íslensku samfélagi í heimi síaukinnar alþjóðavæðingar að fleiri erlendir ríkisborgarar flytjast til landsins en áður og að fleiri íslenskir ríkisborgarar flytjast búferlum til útlanda til lengri eða skemmri tíma í því skyni að mennta sig eða stunda vinnu. Af þessu leiðir að það færist í aukana að íslenskir ríkisborgarar stofni til ástarsambanda, samvista og hjónabanda sem og barneigna með erlendum ríkisborgurum frá ríkjum bæði innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins. Oft leiðir þetta til þess að hér á landi vilja setjast að varanlega pör þar sem aðilar eru af mismunandi þjóðerni. Því ber að fagna enda eykst fjölbreytileiki með fjölþjóðlegu samfélagi og hann styrkir menningu landsins með því stækka flóru þess sem hún hefur upp á að bjóða.
    Þessu fylgja hins vegar áskoranir fyrir íslenska stjórnsýslu. Nýlega komst til að mynda í hámæli mál ungra hjóna, íslensks karls og mexíkóskrar konu, sem þurftu að bera sjálf allan kostnað við meðgöngu og barnsburð, þó að bæði faðirinn og barn þeirra væru íslenskir ríkisborgarar.
    Að því undanskildu þegar erlendir ríkisborgarar hafa fyrir fram réttindi hér á landi, til að mynda í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða dvalarleyfi á grundvelli atvinnu eða náms, er ferlið sem erlendir ríkisborgarar í sambúð með íslenskum ríkisborgurum þurfa að fara í til að öðlast full réttindi hérlendis þrískipt. Í fyrsta lagi þurfa þeir að skrá hjónaband sitt eða staðfesta samvist eða sambúð hjá sýslumanni eða lífsskoðunarfélagi. Í öðru lagi þurfa þeir að sækja um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í þriðja lagi þurfa þeir að fá kennitölu hjá Þjóðskrá. Ofan á þetta bætist bið eftir réttindum sem einstaklingur öðlast með tímanum, t.d. sex mánaða bið eftir að komast að fullu inn í almenna sjúkratryggingakerfið.
    Ef litið er til þeirrar þjónustu sem ríkið veitir í gegnum sýslumannsembættin krefst hjónavígsla fæðingarvottorðs, persónuskilríkja, vottorðs um hjúskaparstöðu sem er yngra en átta vikna eða gagna um að fyrra hjónabandi sé lokið. Jafnframt er aðeins tekið við upprunalegum gögnum. Þessar reglur gera ráð fyrir að öll ríki gefi út sams konar gögn og íslenska ríkið, að hægt sé að fá öll ríki til að gefa út slík gögn hvernig sem á stendur og að hægt sé að koma þeim til Íslands hvaðan sem er úr heiminum á innan við tveimur mánuðum. Loks má benda á að sýslumaður tekur ekki við gögnum sem gefin eru út af sendiráðum annarra ríkja hérlendis, heldur verða þau að koma frá yfirvöldum í ríkjunum sjálfum, hversu fjarlæg eða afskekkt sem þau kunna að vera. Ljóslega má sjá að þessi þröngu skilyrði getur verið erfitt og kostnaðarsamt uppfylla, sér í lagi ef um er að ræða erlendan ríkisborgara sem ekki hefur fengið atvinnuleyfi hérlendis.
    Ef sótt er um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þarf að framvísa, auk umsóknar og staðfests afrits af frumriti hjúskaparstöðuvottorðs, ljósriti af vegabréfi, staðfestum frumritum erlendra sakavottorða frá öllum þeim löndum sem umsækjandi hefur búið í undanfarin fimm ár sem gefin skulu út af æðsta mögulega yfirvaldi hvers lands með apostille-vottun eða tvöfaldri keðjustimplun, sjúkrakostnaðartryggingu upp á 2.000.000 kr. hjá tryggingafélagi sem starfrækt er hérlendis og framfærslugögnum sem staðfesta trygga framfærslu á dvalartíma. Er hjónum annars vegar og sambúðarmökum hins vegar mismunað hvað hið síðastnefnda varðar með því að sambúðarmakar þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu og að leggja fram gögn sem sýna fram á að sambúðin hafi staðið í a.m.k. eitt ár. Enn fremur getur verið tímafrekt og kostnaðarsamt að nálgast staðfest frumrit erlendra sakavottorða frá æðstu yfirvöldum hvers lands fyrir sig, sér í lagi ef umsækjandi hefur dvalið víða eins og verður sífellt algengara. Fyrir það fyrsta gildir það sama og áður var bent á, að erfitt getur reynst að nálgast slík vottorð hvaðan sem er úr heiminum. Almennt má einnig benda á að í mörghundruð milljóna íbúa landi eins og Bandaríkjum Norður-Ameríku eru slík sakavottorð gefin út af alríkisstofnunum, svo sem FBI, og þarf að senda fingraför bréfleiðis vestur um haf þar sem þau bíða rannsóknar, niðurstöður hennar eru sendar með bréfi áfram til heimaríkis viðkomandi til vottunar þeirrar sem íslenska ríkið krefst og loks er sent bréf þaðan til Íslands. Þó hlýtur að vega þyngst að atvinnuleyfi umsækjanda á grundvelli fjölskyldusameiningar er bundið við dvalarleyfisumsóknina, þ.e. íslenska ríkið krefst þess að umsækjandi geti sýnt fram á framfærslu til þess að hann hljóti leyfi til að verða sér úti um framfærslu. Í tilfelli sambúðarmaka dugir ekki að hinn aðilinn að sambandinu geti framfleytt báðum og maki verður að treysta á að hinn aðilinn hafi nægar tekjur handa báðum.
    Þegar þessu öllu hefur verið lokið tekur við langdreginn afgreiðslutími Útlendingastofnunar, sem oft hefur orðið að umræðuefni í samfélaginu. Stofnunin gefur sér allt að hálfu ári til að afgreiða umsóknir um dvalarleyfi og getur því verið að fólk hafi skotið rótum í samfélaginu, farið í nám, ráðið sig í vinnu og kynnst fleira samferðafólki áður en því er synjað um dvalarleyfi. Ef umsókn er samþykkt getur umsækjandi loks fengið kennitölu og þar með lögheimilisskráningu. Frá þeim tíma tekur við sex mánaða bið áður en viðkomandi kemst að fullu inn í almenna sjúkratryggingakerfið. Ofan á kostnaðinn við að afla sér fyrrgreindra gagna, þ.m.t. greiðslur fyrir umsóknir, sendinga- og ferðakostnað o.s.frv., bætist því við að viðkomandi þarf að greiða fullt verð fyrir alla heilbrigðisþjónustu í allt að ár. Það er að því gefnu að viðkomandi hafi getað orðið sér úti um öll þessi gögn áður en komið er til landsins og að ekkert hafi verið við þau að athuga. Sá kostnaður getur verið gífurlegur ef um langveikan einstakling eða barnshafandi konu er að ræða og varla fyrir venjulegt launafólk að standa straum af honum.
    Ekki getur talist ásættanlegt að við jafneðlilegar og sjálfsagðar kringumstæður leggi stjórnvöld svo þungar byrðar á herðar einstaklinga sem vilja búa saman í heimalandi annars þeirra. Það er allra hagur að úr þessu ferli verði greitt enda felst í því hvort tveggja sparnaður og einföldun fyrir umsækjendur og ríkið.