Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1136  —  436. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um ökutækjatryggingar.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Stefánsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Gunnar Val Sveinsson og Þorstein Þorgeirsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Vigdísi Halldórsdóttur og Gunnar Pálsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Landssamtökum hjólreiðamanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og sýslumanninum á Vestfjörðum, auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að sérlög gildi um ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum ökutækja ólíkt því sem verið hefur en ákvæði um málefnið er að finna í XIII. kafla gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987. Fyrirhugað er að ný umferðarlög taki gildi og að lög nr. 50/1987 falli brott samhliða gildistöku þessa frumvarps, sbr. 219. þingmál á yfirstandandi löggjafarþingi, en frestist gildistaka þeirra laga er sá varnagli sleginn í gildistökuákvæði frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar að XIII. kafli laga nr. 50/1987 falli brott við gildistöku þess.
    Ekki er ætlunin að hverfa í meginatriðum frá þeim réttarreglum sem gilda um vátryggingar ökutækja og bótaábyrgð. Nokkrar breytingar verða þó á gildandi framkvæmd verði frumvarpið að lögum og vísast um þær til 3. kafla greinargerðar þess auk þess sem hér fer á eftir.

Ábyrgðarreglur vegna dráttar ökutækis við björgunarstörf.
    Samkvæmt gildandi reglum umferðarlaga er eigandi eða skráður umráðamaður ökutækis sem dregur annað ökutæki skaðabótaskyldur vegna tjóns sem af því hlýst, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Reglan er afdráttarlaus og hefur m.a. sætt þeirri gagnrýni að vegna hennar veigri björgunaraðilar sér við að draga ökutæki við björgunarstörf. Gert er ráð fyrir að meginreglan verði áfram sú sama hvað þetta varðar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 4. gr., en í 2. málsl. ákvæðisins er lögð til sú undantekning að ökutæki í eigu björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar verði undanþegin skaðabótaábyrgð þegar þau dragi önnur ökutæki í björgunarstarfi með sannanlegu samþykki eiganda eða umráðamanns ökutækis.
    Nefndinni bárust nokkrar ábendingar um að vert væri að rýmka gildissvið þessarar undanþágu þannig að hún næði ekki aðeins til Slysavarnafélagsins Landsbjargar heldur einnig til annarra viðbragðs- og björgunaraðila, svo sem slökkviliðs og lögreglu. Nefndin tekur undir sjónarmið í þessa veru og leggur til breytingu á orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins í þá veru að ákvæðið nái til þess þegar ökutæki er dregið af öðru ökutæki vegna björgunarstarfa enda liggi fyrir sannanlegt samþykki eiganda eða umráðamanns ökutækis. Lítur nefndin svo á að aðilar á borð við viðurkenndar björgunarsveitir og opinbera viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkvilið og sjúkraflutningsaðila, sem geta þurft að tryggja vettvang, t.d. vegna útbreiðslu elds eða annars viðlíka, geti fallið undir undanþáguheimild ákvæðisins.
    Vert er að geta þess að með undanþágunni er ekki ætlunin að ábyrgðaraðili ökutækis sem dregur annað ökutæki verði undanþeginn almennu sakarreglunni heldur aðeins hinni hlutlægu ábyrgðarreglu sem kveðið er á um í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Til að mynda er gert ráð fyrir að almennar reglur skaðabótaréttarins gildi eftir sem áður um tilvik þar sem tjóni er valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Þá tekur nefndin undir þann skilning ráðuneytisins og Samtaka fjármálafyrirtækja, sem fram kemur í erindum þeirra til nefndarinnar, að undanþágunni sé ætlað að ná til þess ökutækis sem dregið er en ekki til slysa á fólki sem kunna að verða við þessar aðstæður.

Ábyrgð þeirra sem ekki nota bílbelti.
    Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar til nefndarinnar kemur fram sú afstaða að teljast ætti til stórfellds gáleysis að brjóta gegn lögbundnum kröfum um notkun öryggisbúnaðar á borð við bílbelti í ökutækjum. Þannig yrði hvatning til þess að nota slíkan búnað aukin enda félli sú háttsemi þar með undir ákvæði 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Í minnisblaði til nefndarinnar bendir ráðuneytið á að breyting í þessa veru mundi koma í veg fyrir að tjónþolar fengju bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda ef þeir notuðu ekki bílbelti. Ráðuneytið taki ekki undir sjónarmið um að það að nota ekki bílbelti skuli lagt að jöfnu við að keyra ölvaður eða undir áhrifum fíkniefna eða að viðhafa ofsaakstur.
    Nefndin telur vert að skoðaðar verði leiðir til að hvetja til aukinnar notkunar öryggisbúnaðar ökutækja, einkum bílbelta, en bendir á að mikilvægt er að gætt verði meðalhófs við útfærslu þeirra. Beinir nefndin því til ráðuneytisins að taka málið til skoðunar og móta tillögur í þessa veru.

Úrræði vegna óvátryggðra ökutækja.
    Á meðal þess sem bent var á í umsögnum til nefndarinnar sem og á fundum nefndarinnar um málið var að hér á landi skorti úrræði til að bregðast við vanefndum eigenda eða umráðamanna ökutækja á þeirri skyldu að vátryggja ökutæki. Var m.a. bent á að reglur um vantryggingagjald hefðu gefið góða raun annars staðar á Norðurlöndunum. Nefndin tekur undir að brýnt sé að skoða gaumgæfilega með hvaða hætti taka megi upp úrræði á borð við vantryggingagjald í því skyni að stemma stigu við óvátryggðum ökutækjum í umferðinni sem valda árlega tjóni fyrir háar fjárhæðir og valda þar með hækkun iðgjalda hinna vátryggðu. Í minnisblaði sem nefndinni barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti kemur fram að í ráðuneytinu sé til skoðunar að skipa starfshóp sem hafi þetta hlutverk með höndum. Beinir nefndin því til ráðuneytisins að slíkur starfshópur verði skipaður og stefnt verði að því að ráðherra leggi fram frumvarp í þessa veru á næsta löggjafarþingi.
    Í umsögn sinni til nefndarinnar kalla Samtök fjármálafyrirtækja eftir því að ákvæði verði bætt við frumvarpið þar sem kveðið verði á um hver viðbrögð Samgöngustofu skulu vera þegar henni berst tilkynning um niðurfellingu ökutækjatryggingar vegna vanskila eða annarra ástæðna. Að höfðu samráði við ráðuneytið fellst nefndin á þessa ábendingu og leggur til að ný málsgrein bætist við 13. gr. frumvarpsins þar sem kveðið verði á um að þegar svo hátti til skuli lögreglustjóri þar sem eigandi eða varanlegur umráðamaður viðkomandi ökutækis er skráður til heimilis hlutast til um að skráningarmerki verði tafarlaust fjarlægð af ökutækinu.

Aðrar breytingartillögur nefndarinnar.
    Nefndinni var bent á að undanþáguákvæði 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins þyrfti að umorða þannig að skýrt yrði að það næði til tækja sem fest væru við ökutæki óháð því hvort tækið væri dregið á eftir ökutækinu eða ekki svo skýrt yrði að það næði til tækja á borð við snjótennur, krana o.fl. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur nefndin til breytingu á orðalagi ákvæðisins í þessu skyni.
    Bent hefur verið á að undanþáguákvæði 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins, um að ökutæki sem eingöngu eru ætluð til aksturs utan vega eða í brautum og skráð eru sem torfærutæki séu undanþegin vátryggingarskyldu, hefði aðeins verið ætlað að ná til ábyrgðartryggingar ökutækis, sbr. 8. gr. frumvarpsins, en ekki til slysatryggingar, sbr. 9. gr., enda hafi ætlunin ekki verið að falla frá gildandi reglum um þetta atriði. Nefndin leggur til viðeigandi breytingu á 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins í þessu skyni.
    Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins ber vátryggingafélag áfram ábyrgð á tjóni gagnvart þriðja manni sem verður þótt ábyrgðartrygging sé fallin úr gildi þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að vátryggingafélag sendi Samgöngustofu tilkynningu skv. 1. mgr. 13. gr. Skv. 2. mgr. ákvæðisins ber vátryggingafélag ekki ábyrgð á grundvelli slysatryggingar ökumanns og eiganda, sbr. 9. gr., eftir að tilkynning skv. 1. mgr. 13. gr. hefur verið send. Samtök fjármálafyrirtækja bentu í umsögn sinni á að sama regla ætti að gilda ef vátrygging fellur niður við innlögn skráningarmerkja til Samgöngustofu, sbr. 3. mgr. 13. gr. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er tekið í sama streng og leggur nefndin til viðeigandi breytingar á 14. gr.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins kom fram að óskýrt væri að hverjum endurkrafa skv. 3. málsl. 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins gæti beinst. Í samráði við ráðuneytið leggur nefndin til orðalagsbreytingu á ákvæðinu þar sem skýrt verður að vátryggingafélag sem greitt hefur bætur eftir að vátrygging var úr gildi fallin skv. 14. gr. eignist endurkröfu á hendur þeim sem valdið hefur tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali.
    Ásgerður K. Gylfadóttir, framsögumaður málsins, var fjarverandi við afgreiðsluna og ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 14. mars 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Ásgerður K. Gylfadóttir, frsm. Þorsteinn Víglundsson.
Brynjar Níelsson. Álfheiður Eymarsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir.
Einar Kárason. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.