Ferill 742. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1171  —  742. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um innstæðutryggingar.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hvert er heildarumfang innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum hér á landi?
     2.      Hvert er lágmark og hámark þeirrar tryggingaverndar sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta veitir innstæðueigendum?
     3.      Hvert er heildarumfang innstæðna sem eru tryggðar af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta?
     4.      Hver er heildargreiðslugeta Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna innstæðutrygginga?
     5.      Hafa þar til bærir eftirlitsaðilar framkvæmt álagsprófanir til að sannreyna greiðslugetu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta miðað við sviðsmyndir sem gera ráð fyrir erfiðleikum í fjármálakerfinu og hafa niðurstöður þeirra verið birtar opinberlega?
     6.      Hvar og hvernig eru eignir Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta varðveittar?
     7.      Hvert er heildarumfang óveðsettra eigna viðskiptabanka og sparisjóða sem gætu komið til ráðstöfunar upp í þær forgangskröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta mundi eignast skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 ef á þær mundi reyna vegna fjárhagslegra erfiðleika innlánsstofnunar, sundurliðað eftir innlánsstofnunum?
     8.      Hversu stór hluti af eignum viðskiptabanka og sparisjóða eru veðsettar kröfuhöfum þeirra og kæmu því ekki til úthlutunar upp í forgangskröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ef á þær mundi reyna vegna fjárhagslegra erfiðleika innlánsstofnana, sundurliðað eftir innlánsstofnunum?
     9.      Hverjar yrðu afleiðingar þess ef óveðsettar eignir innlánsstofnunar mundu ekki hrökkva til greiðslu forgangskrafna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ef á þær mundi reyna vegna fjárhagslegra erfiðleika innlánsstofnunar og hvaða önnur úrræði gætu þá staðið innstæðueigendum til boða í því skyni að endurheimta eignir sínar?
     10.      Telur ráðherra greiðslugetu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vera nægilega sterka til að veita innstæðueigendum raunhæfa tryggingavernd ef á trygginguna reynir, hvort sem er vegna erfiðleika einstakra innlánsstofnana eða fjármálakerfisins í heild?
     11.      Telur ráðherra koma til greina að gera kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 að búskröfum til að tryggja þeim forgang umfram veðkröfur þannig að innlánsstofnanir geti ekki skert tryggingavernd innstæðna með því að veðsetja eignir sínar?


Skriflegt svar óskast.