Ferill 725. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1187  —  725. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um auglýsingar á samfélagsmiðlum.


     1.      Hvaða útgjöld hefur Alþingi haft ár hvert frá árinu 2015 vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum, svo sem á Facebook, Instagram, YouTube og Twitter?
    Alþingi auglýsir ekki á samfélagsmiðlum og því hefur þingið engan auglýsingakostnað sem tengist þeim miðlum. Á vef Alþingis og Twitter-síðu þess eru hins vegar reglulega tilkynningar um starfsemi Alþingis og viðburði á vegum þess. Svipað gildir um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, en þar er efni miðlað á vef Jónshúss, Facebook, Instagram og Flickr. Þá má nefna að á Facebook-síðu vefjarins Fullveldi Íslands 1918–2018 var tvívegis á síðasta ári greint frá viðburðum er tengjast Alþingi (þingfundur 18. júlí á Þingvöllum og opið hús á Alþingi 1. desember).
    Auglýsingakostnaður Alþingis er fyrst og fremst auglýsingar um laus störf á skrifstofu Alþingis. Reglan hefur verið sú að birta slíkar auglýsingar í þeim tveimur dagblöðum sem gefin eru út, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Þá birtast þær sömu auglýsingar einnig á vefnum starfatorg.is, en þar er að finna upplýsingar um laus störf hjá ríkinu. Birting auglýsinga á starfatorgi er Alþingi að kostnaðarlausu.
    Til viðbótar við starfsauglýsingar er í dagblöðum og á vef Alþingis auglýst eftir umsóknum um dvöl í fræðimannsíbúðum í Jónshúsi og styrki til að rita meistaraprófsritgerð. Þá hafa einstaka sinnum verið birtar auglýsingar í Ríkisútvarpinu eins og í tengslum við opið hús á Alþingi 2018.

     2.      Hvaða stefnu hefur forseti Alþingis að því er snertir auglýsingakaup á samfélagsmiðlum?
    Engin áform eru uppi um að birta auglýsingar frá Alþingi á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram, YouTube og Twitter.