Ferill 759. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1201  —  759. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013, með síðari breytingum (breytt hugtakanotkun, einföldun á framkvæmd, EES-reglur um kvikasilfur).

Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.1. gr.

    Í stað orðanna „sértækra nota samkvæmt lögum þessum“ í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: nota í vörum sem falla undir lög þessi.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við 22. tölul. bætast tveir nýir stafliðir:
              a.      Hvað varðar plöntuverndarvörur er markaðssetning það að hafa umráð með sölu, þ.m.t. að bjóða til sölu eða afhendingar í öðru formi, hvort heldur er gegn gjaldi eða án endurgjalds, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar að undanskilinni endursendingu til fyrri seljanda. Afgreiðsla í frjálst flæði inn á EES-svæði telst markaðssetning.
              b.      Hvað varðar sæfivörur er markaðssetning það að bjóða tiltekna sæfivöru eða meðhöndlaða vöru fram í fyrsta sinn á markaði, þ.m.t öll afhending sæfivöru eða meðhöndlaðrar vöru til dreifingar eða notkunar meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort heldur er gegn greiðslu eða án endurgjalds.
     b.      27. tölul. orðast svo: Notendaleyfi: Leyfi sem veitir nafngreindum einstaklingi heimild til að kaupa og nota notendaleyfisskyldar vörur.
     c.      32. og 33. tölul. falla brott.
     d.      41. tölul. orðast svo: Útrýmingarefni: Nagdýraeitur, lindýraeitur, ormaeitur og vörur til að verjast öðrum hryggleysingjum, skordýraeitur, mítlasæfar og vörur til að verjast liðdýrum.
     e.      42. tölul. fellur brott.
     f.      Við 45. tölul. bætist við: sem tekin hafa verið saman í samræmi við kröfur um form og innihald öryggisblaða sem settar eru í reglugerð.
     g.      Við bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
                  1.      Eiturefnaleyfi: Leyfi veitt af Vinnueftirliti ríkisins til nafngreinds einstaklings eða fyrirtækis til að kaupa og nota eiturefni við framkvæmd vinnu.
                  2.      Faggilding: Aðferð sem þar til bær aðili beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni. Um faggildingu fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl., nr. 24/2006.
                  3.      Kvikasilfur: Frumefnið kvikasilfur (Hg(0) CAS-nr. 7439-97-6).
                  4.      Kvikasilfurssamband: Hvers konar efni sem samanstendur af kvikasilfursatómum og einu eða fleiri atómum annarra frumefna sem einungis er unnt að aðskilja í mismunandi efnisþætti með efnahvörfum.
                  5.      Notendaleyfisskyld vara: Plöntuverndarvörur og útrýmingarefni þar sem skilgreint er í markaðsleyfi að varan sem um ræðir sé einungis ætluð til notkunar í atvinnuskyni, enda krafist sérstakrar kunnáttu við notkun hennar.
                  6.      Sambandsleyfi: Stjórnvaldsaðgerð þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimilar að sæfivara eða flokkur skyldra sæfivara sé boðin fram á markaði og notuð á yfirráðasvæði Evrópusambandsins eða hluta þess.
                  7.      Tannsilfur: Málmblendi sem inniheldur kvikasilfur og notað er til tannviðgerða.
                  8.      Vara með viðbættu kvikasilfri: Vara eða efnisþáttur vöru sem inniheldur kvikasilfur eða kvikasilfurssamband sem bætt var við af ásetningi.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 5. tölul. kemur: plöntuverndarvara.
     b.      Í stað orðanna „á varnarefnum“ í 9. tölul. kemur: fyrir plöntuverndarvörum og sæfivörum.
     c.      11. tölul. fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      2. tölul. orðast svo: hafa, í samvinnu við Umhverfisstofnun og í samræmi við áherslur eftirlitsáætlunar, sbr. 52. gr., eftirlit með meðferð og merkingum efna og efnablandna í starfsleyfisskyldri og skráningarskyldri starfsemi sem heyrir undir starfsleyfi sem nefndin gefur út og/eða hefur eftirlit með á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Leiki grunur á um brot á þáttum sem falla undir lög þessi skal heilbrigðisnefnd tilkynna um það til Umhverfisstofnunar á þann hátt sem stofnunin ákveður.
     b.      4. tölul. fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 3. tölul. kemur: plöntuverndarvara.
     b.      4. tölul. orðast svo: tilkynna Umhverfisstofnun á þann hátt sem stofnunin ákveður ef grunur leikur á um brot á þáttum sem falla undir lög þessi og eftir atvikum að upplýsa slökkvilið um framkvæmd og niðurstöður eftirlits samkvæmt ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
     c.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: taka saman upplýsingar um atvinnusjúkdóma sem tengjast sæfivörum, einkum að því er varðar viðkvæma hópa, og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr áhættunni á frekari tilvikum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. tölul. fellur brott.
     b.      Við bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
              3.      taka saman upplýsingar um öll tilvik eitrunar vegna sæfivara og allar ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr áhættu á frekari tilvikum,
              4.      halda utan um algeng eitrunartilvik og upplýsa Umhverfisstofnun um þau í því skyni að stofnunin geti upplýst almenning um hættu tengda notkun á efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni þegar þörf er á til verndar heilsu eða umhverfi.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Framleiðendum, eftirnotendum og hverjum þeim öðrum sem hafa undir höndum upplýsingar sem geta talist nauðsynlegar til að upplýsa um eitrunartilvik ber að afhenda þær Eitrunarmiðstöð Landspítalans sem og gögn sem hafa þýðingu vegna tiltekins eitrunartilviks, þ.m.t. upplýsingar um hlutfallslega samsetningu vörunnar.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „varnarefna“ í f-lið í 2. tölul. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara.
     b.      Í stað orðsins „Varnarefni“ í inngangslið 3. tölul. kemur: Plöntuverndarvörur og sæfivörur.
     c.      Í stað orðsins „varnarefna“ í a-lið í 3. tölul. kemur: plöntuverndarvara.
     d.      Í stað orðsins „efnanna“ í b-lið í 3. tölul. kemur: varanna.
     e.      Á eftir orðinu „markaðsleyfis“ í b-lið í 3. tölul. kemur: sem og afgreiðslu sambandsleyfa.
     f.      Í stað orðsins „varnarefna“ í c-lið í 3. tölul. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara.
     g.      Í stað orðsins „varnarefnum“ í e- og i-lið í 3. tölul. kemur: plöntuverndarvörum og sæfivörum.
     h.      Í stað orðsins „varnarefni“ í f-lið í 3. tölul. kemur: plöntuverndarvörum og sæfivörum.
     i.      Í stað orðsins „varnarefna“ í g- og h-lið í 3. tölul. kemur: plöntuverndarvara.
     j.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 12. tölul. kemur: notendaleyfisskyldra vara.
     k.      Í stað orðanna „tiltekinna varnarefna“ í 14. tölul. kemur: notendaleyfisskyldra vara.
     l.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 15. tölul. kemur: plöntuverndarvara og útrýmingarefna.
     m.      Við bætist nýr töluliður, 21. tölul., sem orðast svo:
              21.      Kvikasilfur, sbr. X. kafla C, þ.m.t. um:
                          a.      Takmarkanir á eða bann við útflutningi kvikasilfurs, þ.m.t. kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur, sem og undanþágur frá útflutningstakmörkunum eða útflutningsbanni.
                          b.      Takmarkanir á eða bann við innflutningi kvikasilfurs, þ.m.t. kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur, sem og undanþágur frá innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni.
                          c.      Takmarkanir á eða bann við útflutningi, innflutningi og framleiðslu vara með viðbættu kvikasilfri sem og undanþágur frá takmörkunum eða banni.
                          d.      Eyðublöð fyrir inn- og útflutning kvikasilfurs.
                          e.      Takmarkanir á og bann við notkun kvikasilfurs, kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur í iðnaðarstarfsemi og bráðabirgðageymslu kvikasilfurs, kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur.
                          f.      Takmarkanir á og bann við framleiðslu og markaðssetningu nýrra vara með viðbættu kvikasilfri og nýrra framleiðsluferla, leyfisveitingar vegna framleiðslu og markaðssetningar nýrra vara með viðbættu kvikasilfri sem og undanþágur frá slíkum takmörkunum og bönnum.
                          g.      Bann við notkun kvikasilfurs við óvélvæddan og minni háttar gullnámugröft.
                          h.      Takmarkanir og bann við notkun tannsilfurs sem og meðferð tannsilfurs.
                          i.      Meðferð kvikasilfursúrgangs, þ.m.t. förgun, skýrslugjöf, varðveislu og geymslu kvikasilfursúrgangs, rekjanleika og menguð svæði.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Orðin „og varnarefni“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „tiltekin varnarefni skulu geymd“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: notendaleyfisskyldar vörur skulu geymdar.
     c.      Í stað orðanna „og varnarefna“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara.

9. gr.

    Í stað orðanna „svo sem varnarefnum“ í 19. gr. laganna kemur: þar á meðal plöntuverndarvörum og sæfivörum.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sá sem markaðssetur tiltekin leyfisskyld efni eða efnablöndur skal tilkynna Umhverfisstofnun um hvaða efni og efnablöndur ræðir og gefur Umhverfisstofnun út skráningarnúmer fyrir tollafgreiðslu þeirra.
     b.      Í stað orðanna „eiturefni og“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tiltekin.
     c.      Í stað orðanna „á þar til gerðum eyðublöðum fyrir undangengið ár“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: fyrir undangengið ár á þann hátt sem stofnunin ákveður.
     d.      Í stað orðanna „Tollstjóra er heimilt að“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: Tollstjóri skal.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eða sem varnarefni“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: þar á meðal plöntuverndarvörur og sæfivörur.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Innflytjandi, framleiðandi eða annar aðili sem ber ábyrgð á markaðssetningu hættulegra efna eða efnablandna sem flokkast sem slík, skal upplýsa Eitrunarmiðstöð Landspítala, á þann hátt sem hún ákveður, um efnasamsetningu og áhrif þeirra.

12. gr.

    24. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Markaðssetning eiturefna notendaleyfisskyldra vara.

    Sá sem setur á markað eiturefni eða notendaleyfisskyldar vörur skal tilkynna um það til Umhverfisstofnunar á þann hátt sem stofnunin ákveður. Í tilkynningu skal tilgreina nafngreindan ábyrgðaraðila til að tryggja að nægjanleg fagþekking sé innan fyrirtækisins og skal hann vera til taks þegar sala fer fram. Umhverfisstofnun birtir á vefsetri sínu skrá yfir þá aðila sem hafa tilkynnt um markaðssetningu og tilnefnt ábyrgðaraðila.
    Nafngreindur ábyrgðaraðili á vegum þess sem um getur í 1. mgr. skal hafa lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um, eftir atvikum, meðferð á eiturefnum eða notendaleyfisskyldum vörum, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Viðkomandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Láti viðkomandi ábyrgðaraðili af störfum hjá hlutaðeigandi verslun eða birgi skal tilkynna til Umhverfisstofnunar um nýjan ábyrgðaraðila sem uppfyllir ákvæði 1. og 2. málsl.
    Til að taka við, kaupa og nota eiturefni þarf einstaklingur að vera 18 ára eða eldri. Kaupandi og viðtakandi skal veita upplýsingar um til hvers og hvar nota skuli eiturefnið og framvísa skilríkjum til að staðfesta á sér deili. Til að taka við og kaupa eiturefni í því skyni að nota það við framkvæmd vinnu skal framvísa eiturefnaleyfi sem veitt hefur verið af Vinnueftirliti ríkisins. Sá sem markaðssetur eiturefni ber ábyrgð á því að einungis þeim sem mega kaupa, nota og veita viðtöku eiturefnum séu afhent umrædd efni. Ráðherra setur í reglugerð, sbr. 11. gr., nánari ákvæði um kaup og viðtöku eiturefna, svo sem um hámarksmagn sem einstaklingur má kaupa af eiturefnum.
    Til að taka við, kaupa og nota notendaleyfisskyldar vörur skal einstaklingur, eftir því sem við á, vera handhafi að notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum eða útrýmingarefnum. Sá sem markaðssetur notendaleyfisskyldar vörur ber ábyrgð á því að einungis handhöfum notendaleyfa séu afhentar slíkar vörur.
    Eiturefnum og notendaleyfisskyldum vörum skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að þær séu ekki aðgengilegar viðskiptavinum heldur skulu þær afhentar sérstaklega. Sá sem markaðssetur eiturefni og notendaleyfisskyldar vörur skal halda skrá yfir sölu þeirra og afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar um kaupanda og selt magn á því formi sem stofnunin tilgreinir. Ráðherra setur í reglugerð, sbr. 11. gr. nánari ákvæði um framsetningu eiturefna á útsölustöðum og undanþágur frá skilyrðum um að eiturefnum sé komið þannig fyrir að þau séu ekki aðgengileg viðskiptavinum.
    Óheimilt er að afhenda eiturefni eða notendaleyfisskylda vöru ef ástæða er til þess að ætla að viðkomandi kynni að fara sjálfum sér að voða eða gæti unnið öðrum tjón með efnunum sökum geðveiki, neyslu vímugjafa, vanþroska, vanstillingar, fákunnáttu o.s.frv.

13. gr.

    2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisstofnun tekur ákvörðun um veitingu markaðsleyfis og skal sú ákvörðun samsvara ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ákvörðun Umhverfisstofnunar skal liggja fyrir áður en 30 dagar eru liðnir frá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Birting ákvörðunar á vefsetri Umhverfisstofnunar telst opinber birting.

14. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 32. gr. laganna bætist: í samræmi við ákvæði reglugerðar, sbr. 11. gr.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „varnarefna“ hvarvetna í greininni kemur: plöntuverndarvara.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður svohljóðandi: Áætlun um notkun plöntuverndarvara.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Varnarefna sem sett“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Plöntuverndarvörur og sæfivörur sem settar.
     b.      Í stað orðanna „varnarefna nema þau“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: og nota sæfivörur og plöntuverndarvörur nema þær.
     c.      Í stað orðanna „varnarefna“ og „varnarefni“ í 5. málsl. 1. mgr. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara; og: plöntuverndarvörur og sæfivörur.
     d.      2.–5. mgr. orðast svo:
                      Þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veitir sambandsleyfi fyrir sæfivöru eða ákveður að sambandsleyfi fyrir sæfivöru hafi ekki verið veitt skal Umhverfisstofnun taka samsvarandi ákvörðun samtímis, þ.e. áður en 30 dagar eru liðnir frá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Birting ákvörðunar á vefsíðu Umhverfisstofnunar telst opinber birting. Ráðherra setur í reglugerð, sbr. 3. tölul. 11. gr. nánari ákvæði um sambandsleyfi.
                      Umhverfisstofnun er heimilt að veita undanþágur frá 1. mgr. Ráðherra setur í reglugerð, sbr. 11. gr., nánari fyrirmæli um undanþágur.
                      Plöntuverndarvörur og sæfivörur skal setja á markað undir heiti sem tilgreint er í markaðsleyfi.
                      Ráðherra skal í reglugerð, sbr. 11. gr., takmarka notkun notendaleyfisskyldra vara við þá sem hafa notendaleyfi og sölu notendaleyfisskyldra vara við þá aðila sem hafa tilkynnt um tilnefningu ábyrgðarmanns slíkra vara, sbr. 24. gr.
     e.      Fyrirsögn greinarinnar verður svohljóðandi: Markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvörum og sæfivörum.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „varnarefni“ í 1. málsl. kemur: plöntuverndarvöru og sæfivöru.
     b.      2. málsl. orðast svo: Leyfið er háð því að plöntuverndarvaran eða sæfivaran uppfylli viðmið sem sett eru í reglugerð þannig að hún sé að öllu leyti sambærileg við plöntuverndarvöru eða sæfivöru sem þegar hefur fengið markaðsleyfi á Íslandi, sbr. 35. gr.

18. gr.

    Í stað orðsins „varnarefna“ í 1. málsl. 37. gr. laganna kemur: plöntuverndarvara.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Varnarefni skulu merkt“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Plöntuverndarvörur og sæfivörur skulu merktar.
     b.      Í stað orðanna „varnarefni með sérheiti eða markaðsheiti vörunnar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: plöntuverndarvörur og sæfivörur með heiti sem tilgreint er í markaðsleyfi vörunnar.
     c.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 2. mgr. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara.

20. gr.

    Í stað orðsins „varnarefna“ hvarvetna í 39. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarmynd: plöntuverndarvara og sæfivara.

21. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Plöntuverndarvörur og sæfivörur.

22. gr.

    45. og 46. gr. laganna falla brott.

23. gr.

    Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Notendaleyfi.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „varnarefni“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: plöntuverndarvörur og útrýmingarefni.
     b.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 3. málsl. a-liðar 2. mgr. kemur: plöntuverndarvara og útrýmingarefna.
     c.      Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                      Notendaleyfi skulu gefin út til átta ára. Framlengja má notendaleyfi í allt að tvö ár hafi umsækjandi ekki komist á námskeið, sbr. a-lið 2. mgr. Notendaleyfi skal gefið út á einstakling og í því skal tilgreina notkunarsvið og takmarkanir sem um meðferð efnanna gilda. Heimilt er að binda notendaleyfi því skilyrði að aðstaða eða búnaður leyfishafa sé yfirfarinn reglulega af Vinnueftirliti ríkisins.
                      Umhverfisstofnun er heimilt að endurnýja notendaleyfi til átta ára í senn. Skilyrði fyrir endurnýjun notendaleyfis er að umsækjandi hafi, eftir því sem við á, lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð plöntuverndarvara eða útrýmingarefna, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á viðhald þekkingar hans. Með umsókn um endurnýjun notendaleyfis skal fylgja staðfesting á skoðun Vinnueftirlits ríkisins á aðstöðu og búnaði umsækjanda vegna endurnýjunar notendaleyfisins.

25. gr.

    Á eftir X. kafla B laganna kemur nýr kafli, X. kafli C, Kvikasilfur, með þremur nýjum greinum, 47. gr. q – 47. gr. s, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (47. gr. q.)

Takmarkanir á inn- og útflutningi.

    Inn- og útflutningur kvikasilfurs er óheimill, þ.m.t. kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur og ráðherra tilgreinir í reglugerð, sbr. 11. gr.
    Ráðherra skal í reglugerð, sbr. 11. gr., setja nánari fyrirmæli um inn- og útflutning kvikasilfurs, kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur sem og undanþágur frá inn- og útflutningstakmörkunum eða inn- og útflutningsbanni.

    b. (47. gr. r.)

Innflutningur, útflutningur og framleiðsla vara með viðbættu kvikasilfri.

    Innflutningur, útflutningur og framleiðsla vara með viðbættu kvikasilfri, sem tilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 11. gr., eru óheimil frá og með þeim dagsetningum sem tilgreindar eru í reglugerð, sbr. 11. gr.
    Ráðherra skal í reglugerð, sbr. 11. gr., setja nánari fyrirmæli um innflutning, útflutning og framleiðslu vara með viðbættu kvikasilfri.

    c. (47. gr. s.)

Tannsilfur.

    Notkun tannsilfurs er eingöngu heimil þegar því er komið fyrir í hylkjum í fyrir fram ákveðnum skömmtum. Notkun tannsilfurs í lausu er óheimil.
    Notkun tannsilfurs til viðgerða á barnatönnum, til viðgerða á tönnum barna undir 15 ára aldri, barnshafandi kvenna og kvenna með barn á brjósti er óheimil nema tannlæknir telji slíka notkun nauðsynlega með hliðsjón af læknisfræðilegum þörfum sjúklingsins.
    Ráðherra gefur út, í samráði við þann ráðherra sem fer með málefni lýðheilsu og forvarna, aðgerðaáætlun um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr notkun tannsilfurs. Aðgerðaáætlunin skal birt opinberlega.

26. gr.

    Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í því skyni að gæta hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun í eftirliti, eftir því sem frekast er unnt, skal Umhverfisstofnun, við gerð eftirlitsáætlunarinnar, hafa samráð við önnur stjórnvöld sem hafa hlutverki að gegna skv. II. kafla.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 1. og 6. tölul. 1. mgr. kemur: fyrir plöntuverndarvörum og sæfivörum.
     b.      3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Útgáfu vottorða fyrir ábyrgðaraðila, sbr. 24. gr., sem hafa lokið námi eða námskeiði, sbr. a-lið 2. mgr. 47. gr.
     c.      7. tölul. 1. mgr. fellur brott.
     d.      Á eftir orðinu „eftirlit“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: beitingu þvingunarúrræða.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „stöðvun markaðssetningar á vöru um stundarsakir“ í 3. málsl. kemur: tímabundna stöðvun markaðssetningar á vöru.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður svohljóðandi: Tímabundin stöðvun markaðssetningar á vöru.

29. gr.

    Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Þvingunarúrræði og bráðabirgðaúrræði.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 62. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tiltekinna varnarefna“ í 2. tölul. kemur: notendaleyfisskyldra vara.
     b.      Í stað orðanna „varnarefna“ í 7. tölul. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara.
     c.      Við bætast þrír nýir töluliðir, 12., 13. og 16. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því:
              12.      Ákvæðum um markaðssetningu flúoraðra gróðurhúsalofttegunda, sbr. 44. gr. b.
              13.      Ákvæðum um magn flúoraðra gróðurhúsalofttegunda, sbr. 44. gr. c.
              16.      Ákvæðum um að eldsneytisbirgjar skuli draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 3. mgr. 47. gr. m.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og varnarefna“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara.
     b.      Í stað orðsins „varnarefna“ í 4. tölul. 1. mgr. kemur: plöntuverndarvara og sæfivara.

32. gr.

    Við 69. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008.

33. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

34. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða:
    Tímabundin skráning Umhverfisstofnunar fyrir plöntuverndarvöru sem veitt var á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum gildir:
     a.      í 12 mánuði frá því að virka efnið í vörunni hefur verið áhættumetið og samþykki fyrir því endurnýjað í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 11. gr., og á meðan afgreiðsla umsóknar um markaðsleyfi, sem sótt hefur verið um fyrir vörunni í samræmi við ákvæði 35. gr. er í vinnslu eða
     b.      þar til virka efnið í vörunni verður bannað á Íslandi með reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 11. gr.
    Umhverfisstofnun er heimilt að fella úr gildi tímabundna skráningu fyrir plöntuverndarvöru hafi varan ekki verið sett á markað næstliðin fimm ár.
    Umhverfisstofnun skal gera aðila viðvart þegar tímabundin skráning fellur úr gildi.

35. gr.

Gildistaka.

Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á efnalögum, nr. 61/2013. Farið var í heildarendurskoðun á íslenskri efnalöggjöf árið 2011 í þeim tilgangi að skoða frá grunni þáverandi eftirlits- og leyfisveitingakerfi auk þess að sameina lög um eiturefni og hættuleg efni og lög um efni og efnablöndur ásamt því að laga íslenska löggjöf að evrópskri efnalöggjöf. Endurskoðun þessari lauk með setningu efnalaga í apríl 2013 þar sem sett var lagastoð fyrir fjölmörgum ákvæðum í gildandi EES-löggjöf um efni og efnablöndur sem Ísland þarf að innleiða vegna aðildar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Lögunum hefur verið breytt tvisvar sinnum frá gildistöku. Annars vegar efnislega með lögum nr. 63/2015, einkum til þess að styrkja lagastoð vegna innleiðingar á EES-gerðum um eldsneyti auk fleiri atriða og hins vegar með lögum nr. 60/2016, sem voru safnlög sem vörðuðu breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar (sameiningar stofnana). Að fenginni reynslu af beitingu efnalaga hefur Umhverfisstofnun bent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á nokkur ákvæði sem þurfi að lagfæra, svo sem að skýra einstök ákvæði nánar og breyta hugtakanotkun til að auka skýrleika, afmarka ákvæði sem hindra frjálst flæði á vörum, styrkja lagastoð, m.a. fyrir kröfu um endurmenntun vegna notendaleyfa, vegna innleiðingar á EES-löggjöf, nánar til tekið reglugerð (ESB) 2017/852 um kvikasilfur og niðurfellingu á reglugerð 1102/2008 sem tengist nauðsynlegum breytingum í framhaldi af fullgildingu á Minamata-samningnum um að draga úr notkun á kvikasilfri og síðari breytingar á EES-löggjöf sem innleidd er með efnalögunum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Að fenginni reynslu af beitingu efnalaga þarf að lagfæra ýmis ákvæði laganna, svo sem að skýra einstök ákvæði nánar og breyta hugtakanotkun til að auka skýrleika, gera nauðsynlegar breytingar vegna Minamata-samningsins, styrkja lagastoð fyrir heimildum til setningar reglugerða vegna innleiðingar á EES-löggjöf, afmarka ákvæði sem kunna að fara í bága við frjálst flæði á vörum og til þess að gera lögin skýrari og einfaldari í framkvæmd sem og að tryggja jafnræði. Framkvæmd laganna hefur leitt í ljós hvaða ákvæði laganna þarfnast lagfæringar til að gera lögin skýrari og einfaldari í framkvæmd. Styrkja þarf og setja lagastoð fyrir EES-löggjöf sem innleidd hefur verið hér á landi eða verður innleidd og breyta ákvæðum sem fara í bága við frjálst flæði á vörum innan EES.
    Markmiðið með lagasetningunni er að bæta efnalöggjöfina, gera lögin skýrari og aðgengilegri og að tryggja, eins og best verður, að ákvæði í reglugerðum vegna innleiðingar á evrópsku efnalöggjöfinni og Minamata-samningsins eigi sér stoð í íslenskum lögum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins varðar fyrst og fremst breytingar á efnalögum sem taldar eru nauðsynlegar í ljósi þeirrar reynslu sem er komin á framkvæmd laganna innan Umhverfisstofnunar. Stofnunin hefur umsjón með framkvæmd laganna, er ráðherra til ráðgjafar og fer með eftirlit eftir því sem kveðið er á um í 1. mgr. 5. gr. og XI. kafla laganna. Komið hafa fram nokkrir vankantar á lögunum. Þar af má nefna að upp hafa komið álitaefni um hvort að tiltekin ákvæði laganna brjóti í bága við EES-samninginn vegna hindrana á frjálsu flæði vöru, svo sem skyldan um að tilkynna markaðssetningu eiturefna og plöntuverndarvara og útrýmingarefna sem eingöngu eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni. Einnig hafa komið upp álitaefni sem líklega má rekja til þess að með efnalögunum eru 13 Evrópugerðir, þ.e. reglugerðir og tilskipanir, innleiddar í landsrétt í einum lagabálki. Til að mynda hefur komið í ljós að tiltekin hugtök í lögunum eru skilgreind á ólíkan hátt í gerðunum sem lögunum er ætlað að innleiða. Þannig hefur hugtakið varnarefni, sem er samheiti yfir plöntuverndarvörur og sæfivörur, reynst óheppilegt við framkvæmd og fremur til þess fallið að flækja lögin en að gera þau skýrari, enda gildir sitt hvor ESB-reglugerðin um plöntuverndarvörur og sæfivörur, þ.e. annars vegar reglugerð (ESB) nr. 1107/2009, um setningu plöntuverndarvara á markað, og hins vegar reglugerð (ESB) nr. 528/2012, um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra.
    Í frumvarpinu er fyrirhugað að breyta nokkrum skilgreiningum, fella aðrar á brott eða uppfæra, sem og að breyta heiti hugtaka. Þá er lögð til lítils háttar breyting á verkaskiptingu og hlutverki stjórnvalda til að gera stjórnsýsluna skilvirkari. Lagt er til að tollstjóra verði skylt að hafna tollafgreiðslu efna og efnablandna sem uppfylla ekki skilyrði laganna að fengnum tilmælum frá Umhverfisstofnun, í stað þess að hafa heimild til þess, og að Umhverfisstofnun hætti að gefa út skráningarnúmer fyrir tollafgreiðslu eiturefna og leyfiskyldra efna og efnablandna. Í samræmi við framkvæmd í Noregi er lagt til að lengja gildistíma notendaleyfa. Það hefur verið fimm ár sem kallar á óþarflega tíðar endurnýjanir með tilheyrandi kostnaði fyrir leyfishafa vegna skyldubundinnar endurmenntunar og gjaldtöku Umhverfisstofnunar. Það er mat Umhverfisstofnunar að lagaumhverfi og aðferðir við notkun plöntuverndarvara og útrýmingarefna taki ekki svo miklum breytingum að þörf sé á svo tíðri endurnýjun leyfa. Þá þarf að setja lagastoð fyrir skilyrði um endurmenntun áður en til endurnýjunar notendaleyfis kemur í ljósi kröfu um slíkt í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/128/EB um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna. Einnig þarf að skýra í hvaða tilfellum Umhverfisstofnun sé heimilt að draga notendaleyfi til baka, t.d. ef leyfishafi gerist brotlegur við lög og reglugerðir sem tengjast starfi hans. Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á gjaldtökuheimildum, m.a. vegna útgáfu vottorða fyrir ábyrgðaraðila fyrir markaðssetningu eiturefna, sem og plöntuverndarvara og útrýmingarefna sem eingöngu eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni. Talin er ástæða til að skýra betur gjaldtökuheimild vegna beitingar þvingunarúrræða í eftirfylgnimálum sem nú þegar kveðið er á um í gjaldskrá Umhverfisstofnunar. Nokkur tilfelli hafa komið upp þar sem beiting þvingunarúrræða efnalaga hefur valdið vandkvæðum og þarf að lagfæra þau. Talið er rétt að líta svo á að úrræðið stöðvun markaðssetningar um stundarsakir sem fellur undir XIII. kafla efnalaganna sé í raun bráðabirgðaúrræði en ekki þvingunarúrræði. Þær lagfæringar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúa í raun að lagatæknilegri útfærslu á heimild Umhverfisstofnunar til að stöðva tímabundið markaðssetningu vöru sem ekki uppfyllir skilyrði efnalaga, sbr. 57. gr. Um er að ræða bráðabirgðaákvörðun, þ.e. ákvörðun sem yfirleitt er tekin við upphaf máls og gildir jafnan aðeins á meðan mál er til meðferðar en fellur úr gildi þegar stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin. Vakin hefur verið athygli á því í fræðiskrifum að ákvæðinu sé ranglega skipað í kafla sem ber heitið þvingunarúrræði, sem geti verið til þess fallið að villa mönnum sýn um eðli úrræðisins. Þannig er lagt til að heiti XIII. kafla laganna verði breytt auk þess sem lagt er til að heiti úrræðisins verði breytt í „tímabundin stöðvun markaðssetningar vöru“ í stað „stöðvun markaðssetningar um stundarsakir“. Bæta þarf við heimildum til beitingar stjórnvaldssekta vegna brota gegn ákvæðum um markaðssetningu flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og ákvæðum um magn flúoraðra gróðurhúsalofttegunda. Bæta þarf við ákvæði vegna fullgildingar Minamata-samningsins og innleiðingar ESB-reglugerðar um kvikasilfur. Loks þarf að breyta ákvæði til bráðabirgða um tímabundna skráningu plöntuverndarvara með tilliti til þess að fella brott lögákveðinn gildistíma og veita Umhverfisstofnun heimild til að fella úr gildi tímabundna skráningu þegar um er að ræða plöntuverndarvörur sem ekki eru lengur á markaði eða hafa aldrei verið það.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Áform um lagasetningu og mat á áhrifum fór í innra samráð 7. desember 2018 og í ytra samráð í samráðsgátt 21. janúar 2019 til 1. febrúar 2019. Málsnúmer er S-24-2019. Umsagnir við áformin bárust frá Kjartani Kjartanssyni, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Orkuveitu Reykjavíkur og Inspectionem ehf., auk þess sem ábendingar bárust frá ráðgjafarnefnd um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur. Umræddar umsagnir voru hafðar til hliðsjónar við samningu frumvarpsins. Drög að frumvarpinu voru sett í samráðsgátt 8. febrúar 2019. Málsnúmer er S-44/2019 og þar er gerð grein fyrir framangreindum umsögnum og viðbrögðum við þeim.
    Frumvarpið var auk þess sent sérstaklega til umsagnar 8. febrúar 2019 og tilteknum haghöfum boðið að funda með ráðuneytinu um efni þess og koma ábendingum á framfæri. Meðal annars var fundað með fulltrúa Eitrunarmiðstöðvar Landspítalans. Umsagnir við drög að frumvarpi til laga um breytingu á efnalögum bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Inspectionem ehf., Vinnueftirliti ríkisins, Bændasamtökum Íslands (Samtökum garðyrkjubænda) og sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Auk þess bárust ábendingar frá ráðgjafarnefnd um um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur, og Umhverfisstofnun.
    Faglegt samráð milli ráðuneyta hefur ekki farið fram þar sem fyrst og fremst er um að ræða lagfæringar á efnalögunum í ljósi reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þeirra. Ítarlegt samráð var við heilbrigðisráðuneytið við vinnu að fullgildingu Minamata-samningsins á sínum tíma.
    Í sameiginlegri umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu kemur fram að samtökin telji að reynslan af efnalögunum sé góð og að fyrirtækjum hafi almennt gengið vel að tileinka sér breytingar sem fylgdu í kjölfar setningar laganna 2013. Þar sé mikilvægur þáttur sá að eftirlitið sé í höndum eins aðila, Umhverfisstofnunar. Að mati samtakanna mun sú breyting sem boðuð er í frumvarpinu á 6. gr. efnalaga stuðla að því að eftirlitshlutverk heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar verði skýrara. Samtökin benda á mikilvægi þess að það verði í höndum eins eftirlitsaðila, þ.e. Umhverfisstofnunar, að taka á móti og meðhöndla ábendingar um möguleg brot á þáttum sem falla undir efnalögin. Með því móti ættu líkur að aukast á samræmingu eftirlits og viðurlaga og í því felist nokkur réttarbót í ljósi aukins fyrirsjáanleika. Samtökin gerðu athugasemdir við skilgreiningu á hugtakinu markaðssetningu sem brugðist var við að hluta, sjá umfjöllun um 2. gr., og heimildir til álagningar stjórnvaldsekta vegna vanefnda á skyldu til skýrsluskila. Fallist var á þau rök og umrædd ákvæði felld brott úr frumvarpinu.
    Vinnueftirlit ríkisins lagði til að hugtakið eiturefnaleyfi yrði skilgreint og var fallist á það. Þá lagðist Vinnueftirlit ríkisins gegn því í umsögn sinni að hugtakið varnarefni yrði fellt úr efnalögunum. Ekki er fallist á að verða við þessari ábendingu. Varnarefni er, eins og fram kemur í frumvarpi þessu, samheiti fyrir sæfivörur og plöntuverndarvörur. Eins og gerð er grein fyrir hér að framan hefur það flækt framkvæmd laganna að nota hugtakið varnarefni og myndi það að auka skýrleika laganna að nota frekar hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur eða útrýmingarefni eftir því sem við á.
    Bændasamtök Íslands telja það hins vegar jákvætt að skýra efnalögin að því leyti að tilgreint sé hvort að átt er við plöntuverndarvörur eða sæfivörur þar sem í lögunum er nú einungis notað samheitið varnarefni yfir báða vöruflokka. Í umsögninni benda bændasamtökin á að í frumvarpinu sé að finna fleiri breytingar sem horfa til framfara, t.d. lengingu gildistíma notkunarleyfa. Loks er bent á nauðsyn þess að eftirlitið sé einfalt, skilvirkt og á einni hendi. Slíkt dragi úr flækjustigi og kostnaði fyrir eftirlitsþega og þá sem sinna eftirlitinu.
    Í ábendingum og athugasemdum Inspectionem ehf. er lögð áhersla á að háskólamenntun og sambærileg menntun sé metin jafngild námskeiðum á vegum hins opinbera um hættuleg efni, upplýsa þurfi slökkviliðin um hvaða efni eru geymd, notuð og framleidd í mannvirkjum sem þau hafa þörf fyrir í útkalli og að eftirlit með efnavöru færist út á almennan markað til óháðra skoðunarstofa. Hvað varðar viðurkenningu á námi er í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 890/2015, um meðferð varnarefna, sem sett er á grundvelli 47. gr. efnalaga, kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli viðurkenna nám og námskeið sem lokið er frá búnaðarskóla, garðyrkjuskóla og háskóla eða annað sambærilegt nám, ef stofnunin metur það svo að innihald þess uppfylli sett skilyrði og viðkomandi hafi staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Ábending Inspectionem ehf. um að koma þurfi á efnavöruskrá eða upplýsingabanka, t.d. svokölluðum „produktregister“ að norskri fyrirmynd, er mun stærra mál sem var skoðað ítarlega við undirbúning efnalaganna á sínum tíma. Þá var niðurstaðan sú að fara ekki þessa leið hér á landi, m.a. með hliðsjón af stærð efnavörumarkaðarins hér á landi í samanburði við umfang og kostnað sem af því hlytist. Í frumvarpinu er fyrst og fremst verið að leggja til breytingar á hugtakanotkun og lagfæra tæknileg atriði sem reynsla við framkvæmd laganna hefur dregið fram að þarfnist lagfæringa. Í ljósi þess hversu umfangsmikið og kostnaðarsamt verkefni efnavöruskrá eða upplýsingabanki er var ákveðið að ráðast ekki í það að svo stöddu. Í þessu samhengi er þó vert að geta þess að Umhverfisstofnun hefur ríkar heimildir samkvæmt efnalögunum til að kalla eftir upplýsingum um innflutning og markaðssetningu efnavara ásamt fleiri atriðum sem skipt geta máli í því samhengi.
    Ábendingar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands snúa að breytingum á 6. gr. efnalaganna, þvingunarúrræðum og fræðslu fyrir heilbrigðisfulltrúa í efnavörueftirliti. Hvað varðar breytinguna á 6. gr. var tekið tillit til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogs þannig að eftirlitsskylda verði ekki víkkuð út frá því sem nú gildir. Þess í stað er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um ríkari samvinnu við Umhverfisstofnun þegar um er að ræða eftirlit með meðferð og merkingum efna og efnablandna í starfsleyfisskyldri eða skráningarskyldri starfsemi. Í þessu samhengi er einnig lagt til að nýjum málslið verði bætt við 52. gr. laganna, þannig að við undirbúning eftirlitsáætlunar skuli Umhverfisstofnun hafa samráð við stjórnvöld sem hlutverki gegna skv. II. kafla laganna. Með því móti er talið að stjórnvöld geti stillt saman strengi sína, stuðlað að hagkvæmni og komið í veg fyrir tvíverknað í eftirliti. Þannig verði eftirlitið tvíþætt, en ekki tvöfalt. Verði frumvarp þetta að lögum verður skýrt að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi, í samvinnu við Umhverfisstofnun og í samræmi við áherslur í eftirlitsáætlun stofnunarinnar, eftirlit með meðferð, merkingum efna og efnablandna í starfsleyfisskyldri og skráningarskyldri starfsemi sem heyrir undir þau starfsleyfi sem nefndin gefur út og/eða hefur eftirlit með á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í þessu samhengi er rétt að benda á að hugtakið meðferð er sérstaklega skilgreint í 23. tölul. 3. gr. efnalaganna sem hvers konar meðhöndlun, svo sem notkun, framleiðsla, vigtun, blöndun, áfylling, flutningur, geymsla og förgun.
    Segja má að sú breyting sem lögð er til með frumvarpinu og helst er fallin til þess að auka skýrleika 6. gr. efnalaga snúi að tilkynningar- eða upplýsingaskyldu heilbrigðisnefndanna til Umhverfisstofnunar. Samkvæmt núgildandi lögum eiga heilbrigðisnefndir annars vegar að upplýsa Umhverfisstofnun um niðurstöður eftirlits, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr., og hins vegar að senda Umhverfisstofnun upplýsingar um niðurstöður eftirlits með þáttum sem falla undir lögin, sbr. ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, um eftirlit nefndanna á þeim tíma og á þann hátt sem stofnunin ákveður, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Breytingartillagan felur í sér að tilkynnt verði um það þegar grunur leikur á um brot á ákvæðum efnalaga, um leið og slíkur grunur vaknar, í stað þess að heilbrigðisnefndum verði gert að skila skýrslum til Umhverfisstofnunar. Þannig getur Umhverfisstofnun tekið við hinu eiginlega efnavörueftirliti, sem í mörgum tilfellum snýr ekki að starfsleyfi umrædds fyrirtækis, og gert kröfu um úrbætur ef þörf er á.
    Heimildir Umhverfisstofnunar eru ríkar, úrræði vegna efnalaganna eru hjá stofnuninni og þau beinast ekki endilega að starfsleyfisskyldu eða skráningaskyldu á starfseminni sjálfri.
    Hvað varðar þvingunarúrræðin er ekki fallist á að ástæða sé til að færa heimildir til beitingar þvingunarúrræða eða stjórnvaldssekta til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Einhvers misskilnings virðist gæta í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, en með frumvarpinu er ekki verið að breyta fyrirkomulagi varðandi þvingunarúrræði eða stjórnvaldssektir þannig að heimildir séu teknar af heilbrigðisnefndum. Þær hafa heimild til beitingar slíkra úrræða á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, en aðeins Umhverfisstofnun hefur haft heimildir til beitingar þvingunarúrræða eða álagningar stjórnvaldssekta allt frá gildistöku efnalaga árið 2013. Það fyrirkomulag hefur mælst vel fyrir og reynst vel og er því ekki talin ástæða til að breyta því, enda er með fyrirkomulaginu stuðlað að samræmdri beitingu þvingunarúrræða. Að gefnu tilefni skal ítrekað að stjórnvaldssektir eru ekki þvingunarúrræði. Beiting stjórnvaldssekta kemur til greina þegar brot eru endanleg og ekki hægt að beita þvingunarúrræðum sem miða að því að koma hlutum í lag.
    Hvað varðar fræðslu og leiðbeiningar fyrir heilbrigðisfulltrúa hefur Umhverfisstofnun þá skyldu skv. 51. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Samkvæmt greininni hefur Umhverfisstofnun yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og skal sjá um samræmingu þess þannig að framkvæmdin sé eins á landinu öllu. Stofnunin skal sjá um gerð fræðsluefnis og upplýsa og fræða þá sem starfa að heilbrigðiseftirliti. Samkvæmt ákvæðum 5. gr. efnalaganna skal Umhverfisstofnun útbúa eftirlitsáætlun fyrir eftirlit með efnum og efnablöndum sem gildir fyrir land allt og gæta sérstaklega að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Þá ber henni að upplýsa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga um þá þætti sem falla undir efnalögin og þær hafa þörf á að þekkja til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Fræðsla fyrir heilbrigðisfulltrúa er því hlutverk sem Umhverfisstofnunin hefur og sinnir nú þegar en mögulega getur stofnunin sinnt því enn markvissar. Stofnunin heldur í samstarfi við aðra aðila réttindanámskeið fyrir heilbrigðisfulltrúa og reglulega eru haldnir samráðsfundir með heilbrigðisfulltrúum. Í áformum stofnunarinnar eru fræðsla um eftirlit í ákveðnum málaflokkum, svo sem um eftirlit með snyrtivörum, f-gasi og flokkun og merkingar efna og efnablandna. Auk þess er lagt til í frumvarpinu að kveðið verði skýrar á um samvinnu og samráð heilbrigðisnefndanna og Umhverfisstofnunar. Á slíkum vettvangi getur Umhverfisstofnun sinnt fræðsluskyldu sinni og tekið á móti ábendingum um fræðslu sem nefndirnar telja þörf á. Umhverfisstofnun mun útbúa frekari leiðbeiningar fyrir heilbrigðiseftirlitið um hlutverk heilbrigðisnefnda sveitarfélaga skv. 6. gr. efnalaga.
    Þegar áform um breytingu á efnalögunum og drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgáttinni var gert ráð fyrir að fallið yrði frá kröfu um að öryggisblöð, sem fylgja við afhendingu efnis til notkunar í atvinnuskyni, skyldu vera á íslensku. Lagt til að öryggisblöðin geti verið á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Var breytingin rökstudd með vísan til þess að hætt væri á minni gæðum og áreiðanleika öryggisblaða þegar þýðingar væru unnar af öðrum en sérfræðingum í efnaöryggi með góða íslenskukunnáttu eða þegar þýðingar á heitum efnavara innihéldu svo marga séríslenska stafi að leit að heitinu á vefnum skilaði litlum sem engum niðurstöðum. Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur vegna áforma um lagasetningu kom fram andstaða Orkuveitunnar við því að fallið yrði frá þeirri skyldu að hafa öryggisblöð á íslensku. Í umsögn Vinnueftirlitsins vegna frumvarpsins var einnig lagst gegn umræddri breytingu með þeim rökum að nauðsynlegt væri að hafa öryggisblöð á íslensku, bæði fyrir íslenska starfsmenn og til að íslenskir atvinnurekendur og starfsmenn þeirra gætu leiðbeint erlendum starfsmönnum sem skildu ekki íslensku um það sem fram kemur á öryggisblöðunum. Samband garðyrkjubænda töldu það hins vegar til framfara í umsögn sinni ef að heimilt væri að hafa öryggisblöðin á öðrum tungumálum og til þess fallið að forðast ónauðsynlegan og íþyngjandi kostnað. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu fögnuðu einnig tillögunni með vísan til þess að skyldan til þýðingar á íslensku öryggisblaða fæli í sér stjórnsýslubyrði og hefði stundum valdið nokkurri óvissu. Á fundi um frumvarpið kom fram hjá fulltrúa Eitrunarmiðstöðvar Landspítalans það mat að mesta öryggið fælist í því að þýða ekki öryggisblöðin og að ætíð væri hægt að nálgast þau á ensku. Í framhaldi af framangreindum umsögnum var umrætt ákvæðið yfirfarið frekar og tekin tók ákvörðun um að leggja ekki til breytingu á ákvæðinu að sinni. Vert er að geta þess að heimilt er að öryggisskýrsla sem er viðauki við öryggisblöð sé á ensku.
    Ábendingar bárust frá ráðgjafarnefnd um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur. Ráðgjafarnefndin bendir á að í frumvarpinu vanti mat á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar á atvinnulíf og samkeppni og taka Bændasamtök Íslands undir þessa ábendingu. Umfjöllun um þetta hefur verið bætt inn í 6. kafla sem fjallar um mat á áhrifum. Ráðgjafarnefndin vekur sérstaka athygli á að fyrirhugað er að auka við heimildir Umhverfisstofnunar til að beita stjórnvaldssektum og að rökstyðja þurfi þörfina fyrir þessari breytingu og hvers vegna önnur úrræði en stjórnvaldssektir dugi ekki til að ná markmiðum laganna. Um rökstuðning er vísað til umfjöllunar um 30. gr.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur áhrif á atvinnurekstur sem fellur undir gildissvið efnalaga, nr. 61/2013, þ.e. starfsemi þar sem meðferð efna og efnablandna fer fram, svo sem framleiðsla, markaðssetning, útflutningur og umflutningur. Stærsti hluti breytingartillagna frumvarpsins snýr aftur á móti að breyttri hugtakanotkun með það fyrir augum að auka skýrleika laganna auk þess sem lagðar eru til breytingar vegna tæknilegra útfærslna á atriðum sem reynsla við framkvæmd laganna leiddi í ljós að þörfnuðust lagfæringa. Jafnframt er verið að lögfesta ákvæði sem þegar voru komin til framkvæmda hér á landi, til að mynda í tengslum við kvikasilfur og sambandsleyfi. Meiri hluti breytingartillagnanna hefur því óveruleg áhrif á skyldur fyrirtækja sem falla undir efnalöggjöfina.
    Þær breytingartillögur sem fela í sér efnislegar breytingar snúa fyrst og fremst að nýjum heimildum til að leggja á stjórnvaldssektir og breyttu fyrirkomulagi í tengslum við endurnýjun á notendaleyfum. Þannig er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota gegn ákvæðum sem varða annars vegar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir og hins vegar losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku. Heimildirnar geta einungis haft áhrif á annars vegar fyrirtæki sem flytja inn flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða búnað sem inniheldur þær og hins vegar eldsneytisbirgja. Umhverfisstofnun áætlar að fyrirtæki sem flytja inn flúoraðar gróðurhúsalofttegundir séu innan við tíu talsins en ekki er hægt að segja til um það með vissu þar sem ýmiss búnaður getur innihaldið slíkar lofttegundir, t.d. kæliskápar. Fyrirtækin sem um ræðir gætu því hlaupið á nokkrum tugum. Eldsneytisbirgjar hér á landi eru aðeins fjórir talsins. Hvað varðar endurnýjun notendaleyfa verður samkvæmt frumvarpinu kostnaðarsamara að endurnýja notendaleyfi en áður vegna kröfu um endurmenntun. Notendaleyfishafar hér á landi eru 280 talsins.
    Vert er að taka fram, hvað samkeppni varðar, að ef tillaga frumvarpsins um að Umhverfisstofnun verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á eldsneytisbirgja sem ekki uppfylla skyldu sína skv. 47. gr. m um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda má telja að heimildin geti haft hvetjandi áhrif á birgjana. Hún gæti komið í veg fyrir að tiltekinn eldsneytisbirgir láti hjá líða að grípa til aðgerða til að uppfylla minnkunarskyldu sína meðan aðrir uppfylla skyldur sínar með tilheyrandi kostnaði.
    Með frumvarpinu er lagt til að fest verði í lög ákvæði um sambandsleyfi fyrir sæfivörum sem er til þess fallið að auka úrval sæfivara á markaði án aukins kostnaðar fyrir markaðsaðila. Meðal algengra vara sem falla í flokk sæfivara eru sótthreinsiefni, viðarvarnir o.fl. sem fjölmargir aðilar flytja til landsins.
    Líkt og áður hefur komið fram eru í frumvarpinu fyrst og fremst lagðar til lagfæringar á efnalögunum sem miða að því að gera framkvæmd málaflokksins markvissari og draga úr kostnaði fyrir atvinnulífið. Frumvarpið kann að hafa áhrif á þá sem uppfylla ekki skyldur sínar og fá á sig lagðar stjórnvaldssektir. Frumvarpið hefur áhrif á stjórnsýslu Umhverfisstofnunar vegna heimildar til að leggja á stjórnvaldssektir. Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á tekjur og gjöld ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum. Loks er í ljósi skýringa sem fram koma í 5. kafla hér að framan, og að fengnu áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga, niðurstaðan að frumvarpið hafi ekki kostnaðaráhrif í för með sér fyrir sveitarfélög.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 2. gr. eru lagðar til breytingar á ýmsum skilgreiningum, þar á meðal er lagt til að fella brott skilgreiningu hugtaksins „sértæk not“ vegna þess hve hún er óljós. Hugtakið er einungis notað í gildissviðsákvæði 2. gr. efnalaganna. Lagt er til að ákvæðið verði uppfært í samræmi við þetta. Breytingin hefur ekki áhrif á gildissvið laganna.
    Til að tryggja að gildissvið laganna breytist ekki var litið til 3. málsl. ákvæðisins og sama orðalag notað þannig að lögin gildi um örverur, aðrar lífverur eða hluta þeirra sem ætlaðar eru til nota í vörum sem falla undir efnalögin.

Um 2. gr.

    Í 3. gr. efnalaga er að finna tæplegar fimmtíu skilgreiningar. Þar af eru nokkur tilfelli þar sem lögin hafa að geyma skilgreiningu á tilteknu hugtaki sem er skilgreint á annan hátt í Evrópugerðum sem lögin innleiða. Í frumvarpinu er lagt til að breyta fjórum skilgreiningum, fella þrjár brott og bæta við átta nýjum skilgreiningum.
    Í a-lið er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins markaðssetning þannig að skilgreiningunni verði skipt upp eftir því hvort um er að ræða markaðssetningu í skilningi REACH, sæfivörureglugerðarinnar eða plöntuverndarvörureglugerðarinnar. Í 22. tölul. 3. gr. efnalaga er markaðssetning skilgreind sem það að sjá þriðja aðila fyrir vöru sem fellur undir lögin eða bjóða hana fram, hvort heldur er gegn greiðslu eða án endurgjalds. Innflutningur er markaðssetning. Skilgreiningin er þýðing á 12. tölul. 3. gr. REACH-reglugerðarinnar. Í þessu samhengi þarf einnig að hafa í huga að hugtakið „innflutningur“ er skilgreint sem „flutningur efnis, efnablöndu eða efna í hlutum inn á Evrópska efnahagssvæðið frá ríkjum utan svæðisins“, sbr. 18. tölul. 3. gr. laganna. Í sæfivörureglugerðinni, þ.e. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra, sem innleidd er með efnalögunum, er að finna aðra skilgreiningu á hugtakinu „setning á markað“ sem er „það að bjóða tiltekna sæfivöru eða meðhöndlaða vöru fram í fyrsta sinn á markaði“. Í sæfivörureglugerðinni er jafnframt að finna skilgreiningu á hugtakinu „bjóða fram á markaði“ sem er „öll afhending sæfivöru eða meðhöndlaðrar vöru til dreifingar eða notkunar á meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds“, sbr. i-lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Í plöntuverndarvörureglugerðinni, þ.e. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1107/2009, er einnig að finna skilgreininguna á hugtakinu „setning á markað“ sem er önnur en í sæfivörureglugerðinni, sbr. 9. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar. Þar er hugtakið skilgreint sem „það að hafa umráð með sölu í Bandalaginu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar að undanskilinni endursendingu til fyrri seljanda. Afgreiðsla í frjálst flæði inn á yfirráðasvæði Bandalagsins telst setning á markað í skilningi þessarar reglugerðar.“ Hugtakið er mikilvægt í efnalögum þar sem markmið laganna er meðal annars að koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu, sbr. 1. gr. efnalaga, auk þess sem lögin gilda um framleiðslu, markaðssetningu o.fl., sbr. 2. gr. laganna. Þá er eitt þvingunarúrræða laganna stöðvun markaðssetningar, en með hliðsjón af skilgreiningunni, eins og hún er í lögunum nú, væri ekki tækt að beita því ef aðili flytur inn sæfivöru til eigin nota frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins. Að framansögðu er lagt til að skilgreiningu hugtaksins markaðssetning sé skipt upp eftir því hvort um sé að ræða almenna markaðssetningu vöru, þ.e. markaðssetningu í skilningi REACH, markaðssetningu plöntuverndarvöru eða markaðssetningu sæfivöru. Þannig nær skilgreiningin á markaðssetningu sæfivöru einnig til notkunar sæfivöru.
    Í b-lið er lagt til að skilgreiningu hugtaksins notendaleyfi verði breytt í samræmi við þá tillögu að hætta notkun hugtakanna varnarefni og tiltekin varnarefni.
    Í c-lið er lagt til að fella brott tvær skilgreiningar. Fyrra hugtakið, sérheiti, kom einungis tvisvar fyrir í lögunum og var með því líklega átt við heiti eða vöruheiti. Ekki verður séð að sérstök ástæða sé til að skilgreina hugtakið sérstaklega. Þeim ákvæðum þar sem hugtakið var notað var breytt til að auka skýrleika þeirra þannig að vísað er til þess að heiti vöru skuli vera í samræmi við markaðsleyfi. Síðara hugtakið sem lagt til að fellt verði brott er sértæk not. Um það vísast til athugasemda við 1. gr.
    Í d-lið er lagt til að skilgreiningu hugtaksins útrýmingarefni verði breytt. Útrýmingarefni er undirflokkur sæfivöru. Í 41. tölul. 3. gr. laganna er það skilgreint sem sæfivörur sem falla undir vöruflokkana nagdýraeitur, fuglasæfu, lindýraeitur, ormaeitur og vörur til að verjast öðrum hryggleysingjum, fiskisæfa, skordýraeitur, mítlasæfa og vörur til að verjast liðdýrum, fæliefni og löðunarefni og vörn gegn öðrum hryggdýrum. Hugtakið er ekki skilgreint í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra en með skilgreiningunni er ætlað að ná yfir þær vörur sem taldar eru upp í aðalflokki 3 í V. viðauka reglugerðarinnar. Í flokknum er að finna lista yfir tiltekna vöruflokka efna sem ætlaðar eru til meindýravarna. Lagt er til að hugtakinu verði breytt og nái yfir nagdýraeitur, lindýraeitur, ormaeitur og vörur til að verjast öðrum hryggleysingjum, skordýraeitur og mítlasæfa og vörur til að verjast liðdýrum.
    Í e-lið er lagt til að skilgreining hugtaksins varnarefni verði felld brott. Hugtakið varnarefni er skilgreint í 42. tölul. 3. gr. efnalaga sem samheiti fyrir sæfivörur og plöntuverndarvörur. Það hefur flækt framkvæmd laganna að nota hugtakið varnarefni og myndi það að auka skýrleika þeirra að nota frekar hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur eða útrýmingarefni eftir því sem við á. Því er lagt til skilgreining hugtaksins varnarefni verði felld brott og breytt eftir því sem við á í öðrum ákvæðum laganna.
    Í f-lið er lagt til að skilgreining hugtaksins öryggisblöð verði ítarlegri til að auka skýrleika hennar. Í IV. bálki REACH-reglugerðarinnar er fjallað um kröfur sem gerðar eru til öryggisblaða en hugtakið ekki skilgreint sérstaklega. Með hliðsjón af kröfunum sem gerðar eru má segja að núgildandi skilgreining lýsi öryggisblöðum ekki nægilega vel. Því er lagt til að bætt verði við skilgreininguna að í þeim séu upplýsingar sem hafa verið teknar saman í samræmi við kröfur um form og innihald öryggisblaða sem settar eru í reglugerð.
    Í g-lið er lagt til að átta nýjum skilgreiningum verði bætt við lögin. Það eru skilgreiningar á hugtökunum eiturefnaleyfi, faggilding, kvikasilfur, kvikasilfurssamband, notendaleyfisskyldar vörur, sambandsleyfi, tannsilfur og vara með viðbættu kvikasilfri.
    Lagt er til eftir ábendingu frá Vinnueftirliti ríkisins að skilgreiningu hugtaksins eiturefnaleyfi verði bætt við til að auka skýrleika laganna. Vinnueftirlit ríkisins veitir eiturefnaleyfi til nafngreinds einstaklings eða fyrirtækis.
    Lagt er til skilgreiningu hugtaksins faggilding verði bætt við til að auka skýrleika laganna. Um er að ræða sömu skilgreiningu og í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
    Lagt er til að skilgreiningu hugtaksins notendaleyfisskyld vara verði bætt við lögin til að auka skýrleika þeirra. Hingað til hafa notendaleyfisskyldar vörur verið kölluð tiltekin varnarefni og í almennu tali hefur verið talað um vörur til notkunar í atvinnuskyni. Að mati Umhverfisstofnunar er það óskýrt í lögunum að fjalla um tiltekin varnarefni en um leið er erfitt að nota hugtakið vörur í atvinnuskyni þar sem að sú hugtakanotkun getur átt við um mun fleiri vörur en þær sem krefjast notendaleyfis. Þar af leiðandi er lagt til að breyta hugtakinu tiltekin varnarefni í notendaleyfisskyldar vörur. Öllum viðeigandi ákvæðum laganna er breytt til samræmis við þetta án þess þó að efnisleg breyting verði á lögunum. Breytingunni er aðeins ætlað að auka skýrleika laganna. Í markaðsleyfum fyrir tilteknum plöntuverndarvörum og sæfivörum er notkun varanna afmörkuð við einstaklinga með sérstaka þekkingu eða þjálfun (e. professionals/trained professionals). Markaðsleyfið gerir það því að verkum að samkvæmt lögunum mega einungis handhafar notendaleyfa nota umræddar vörur.
    Lagt er til að skilgreiningu hugtakanna kvikasilfur, kvikasilfurssamband og vara með viðbættu kvikasilfri verði bætt við lögin. Skýringar hugtakanna eru fengnar orðrétt úr íslenskri þýðingu Minamata-samningsins um kvikasilfur og krefjast ekki frekari skýringa.
    Lagt er til að skilgreiningu hugtaksins tannsilfur verði bætt við lögin þar sem að fjallað er um tannsilfur í X. kafla C, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008, og í Minamata-samningnum. Hugtakið er þó hvorki sérstaklega skilgreint í Evrópugerðinni né Minamata-samningnum. Um er að ræða þýðingu á enska hugtakinu „dental amalgam“. Í þessu samhengi var litið til skilgreiningar hugtaksins amalgam í reglugerð nr. 860/2000, um amalgammengað vatn og amalgammengaðan úrgang frá tannlæknastofum.
    Lagt er til að skilgreiningu hugtaksins sambandsleyfi verði bætt við lögin þar sem þörf er á því að skilgreina hugtakið sérstaklega. Í VIII. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra er fjallað um svokölluð sambandsleyfi fyrir sæfivörum. Hugtakið sambandsleyfi er skilgreint í n-lið 1. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar sem stjórnvaldsaðgerð þar sem framkvæmdastjórnin heimilar að sæfivara, eða flokkur skyldra sæfivara, sé boðin fram á markaði og notuð á yfirráðasvæði Evrópusambandsins eða á hluta þess. Lagt er til að sama skilgreining verði notuð í lögunum.

Um 3. gr.

    Til að auka skýrleika efnalaga eru lagðar til breytingar í a- og b-lið í þá veru að nota frekar hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur og útrýmingarefni eftir því sem við á frekar en hugtakið varnarefni. Þá er lagt til í c-lið að fella brott hugtakið sérheiti og nota þess í stað heiti sem tilgreint er í markaðsleyfi.

Um 4. gr.

    Talið er rétt að skerpa á hlutverki heilbrigðisnefnda sveitarfélaga skv. 2. tölul. 6. gr. efnalaga, sérstaklega með hliðsjón af tilkynningarskyldu þegar grunur leikur á um brot gegn efnalögum og með því að festa í lög aukna samvinnu og samráð heilbrigðisnefndanna og Umhverfisstofnunar. Heilbrigðisnefndum sveitarfélaga ber skv. 2. tölul. 6. gr. laganna að hafa eftirlit með meðferð og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyrir undir starfsleyfi sem nefndin gefur út á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og upplýsa Umhverfisstofnun um niðurstöður eftirlitsins. Skv. 4. tölul. 6. gr. ber heilbrigðisnefndum síðan að senda Umhverfisstofnun upplýsingar um niðurstöður eftirlits með þáttum sem falla undir lög þessi, sbr. ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir um eftirlit nefndanna, á þeim tíma og á þann hátt sem stofnunin ákveður. Síðastnefnda ákvæðið hefur aldrei verið notað í framkvæmd. Þess í stað hafa heilbrigðisnefndir stundum sent Umhverfisstofnun upplýsingar vegna gruns um að efnavörur uppfylli ekki skilyrði laganna í samræmi við 2. tölul. 6. gr. Með frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á þessu atriði, þannig að heilbrigðisnefndir tilkynni til Umhverfisstofnunar þegar grunur leikur á um brot á þáttum sem falla undir lögin á þann hátt sem stofnunin ákveður, sbr. a-lið 4. gr. en að 4. tölul. 6. gr. verði felldur brott, sbr. b-lið. Þá er lagt til að í 2. tölul. 6. gr. verði sérstaklega kveðið á um það að eftirlit með meðferð og merkingum efna og efnablandna fari fram í samvinnu við Umhverfisstofnun og í samræmi við áherslur eftirlitsáætlunar sem Umhverfisstofnun útbýr í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. og 52. gr. Um leið er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 52. gr., sbr. 27. gr. frumvarpsins, þannig að kveðið verði á um að Umhverfisstofnun skuli vinna eftirlitsáætlun í samráði við stjórnvöld sem hafa hlutverki að gegna skv. II. kafla efnalaga.
    Eftirlit með meðferð og merkingu efnavara er tiltölulega sérhæft eftirlit sem fáir hafa sérþekkingu á hér á landi. Eftir gildistöku efnalaganna hafa Umhverfisstofnun borist mjög fáar tilkynningar frá heilbrigðisnefndum um grun á brotum gegn ákvæðum laganna. Engu síður er talið að þetta eftirlit eigi áfram að vera í höndum heilbrigðisnefnda en nauðsynlegt sé að upplýsa þær um reglurnar sem hér gilda og efna til aukins samstarfs í eftirliti til þess það verði skilvirkara.

Um 5. gr.

    Í a-lið er lögð til sú breyting að hugtakið plöntuverndarvara verði notað í stað hugtaksins varnarefni í samræmi við aðrar breytingartillögur í frumvarpinu. 7. gr. efnalaga fjallar um hlutverk Vinnueftirlits ríkisins. Í b-lið eru lagðar til breytingar út frá sömu sjónarmiðum og fjallað er um í 4. gr. þegar um er að ræða brot á efnalögum. Í c-lið er lagt til að Vinnueftirlitið taki saman upplýsingar um atvinnusjúkdóma sem tengjast sæfivörum, einkum að því er varðar viðkvæma hópa, og allar ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr áhættunni á frekari tilvikum, sjá nánar umfjöllum um 6. gr.

Um 6. gr.

    Í a-lið er lögð til breyting vegna þess að skylda til að taka við upplýsingum verður skýrari með þeirri breytingu sem fyrirhuguð er á 2. tölul. og því má fella 1. tölul. á brott.
    Í b-lið er lagt til að Eitrunarmiðstöð Landspítalans verði gert að taka saman upplýsingar um öll tilvik eitrunar vegna sæfivara og allar ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr áhættu á frekari tilvikum til að Umhverfisstofnun geti upplýst framkvæmdastjórn ESB í samræmi við ákvæði 65. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra þar sem kveðið er á um að aðildarríki skuli senda framkvæmdastjórninni skýrslu um framkvæmd reglugerðarinnar á yfirráðasvæði sínu á fimm ára fresti. Í skýrslunni skulu m.a. koma fram upplýsingar um öll tilvik eitrunar og, ef tiltækar eru, um atvinnusjúkdóma sem tengjast sæfivörum, einkum að því er varðar viðkvæma hópa, og allar sértækar ráðstafanir sem eru gerðar til að draga úr hættunni á frekari tilvikum.
    Í c-lið er lagt til að Eitrunarmiðstöð Landspítala haldi utan um algeng eitrunartilvik og upplýsi Umhverfisstofnun um þau í því skyni að stofnunin geti upplýst almenning um hættu tengda notkun á efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni þegar þörf er á til verndar heilsu eða umhverfi í samræmi við skyldur sínar skv. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. efnalaga. Eitrunarmiðstöðin er líkleg til að verða fyrst vör við eitrunaráhrif efnavara sem sæta opinberu eftirliti Umhverfisstofnunar. Dæmi eru um að „tískuleikföng“ hafi valdið alvarlegum eiturhrifum og verið á markaði í töluverðan tíma án vitneskju Umhverfisstofnunar.
    Í d-lið er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein sem kveði á um að framleiðendum, eftirnotendum og hverjum þeim öðrum sem hafa undir höndum upplýsingar sem geti talist nauðsynlegar vegna eitrunartilvika beri að veita Eitrunarmiðstöð Landspítalans allar umbeðnar upplýsingar og afhenda gögn sem hafa þýðingu vegna tiltekins eitrunartilviks, þ.m.t. upplýsingar um hlutfallslega samsetningu vörunnar. Aðildarríki skulu samkvæmt evrópsku sæfivörureglugerðinni tilnefna stofnun eða stofnanir sem skulu bera ábyrgð á viðtöku upplýsinga frá innflytjendum og eftirnotendum, sem setja blöndur á markað, og varða aðallega mótun ráðstafana til forvarna og lækninga, einkum þegar um er að ræða viðbúnað í neyðartilvikum sem varða lýðheilsu. Þessar upplýsingar skulu fela í sér efnasamsetningu blandna sem settar eru á markað og flokkast sem hættulegar á grundvelli þeirra áhrifa sem þær hafa á heilbrigði eða eðlisfræðilegra áhrifa þeirra, þ.m.t. efnafræðilegt auðkenni efna í blöndum sem beiðni um notkun á staðgönguefnaheiti hefur verið samþykkt fyrir af hálfu Efnastofnunar Evrópu. Í 45. gr. CLP-reglugerðarinnar er kveðið á um tilnefningu stofnana sem bera ábyrgð á viðtöku upplýsinga um viðbúnað í neyðartilvikum sem varða lýðheilsu. Eitrunarmiðstöð Landspítalans er tilnefnd skv. 1. mgr. 10. gr. efnalaga sem kveður á um að hlutverk Eitrunarmiðstöðvarinnar sé að taka við upplýsingum frá innflytjanda, framleiðanda eða öðrum. Hlutverk tilnefndra stofnana er útfært nánar í 45. gr. CLP-reglugerðarinnar en þar er kveðið á um að þeim sé skylt að tryggja að þagnarskylda sé virt við meðferð upplýsinga sem tekið er við, í hvaða tilfellum sé heimilt að nota slíkar upplýsingar og að upplýsingarnar skuli ekki notaðar í öðrum tilgangi. Þá er sérstaklega tekið fram í 3. mgr. ákvæðisins að tilnefndar stofnanir skuli hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum frá innflytjendum og eftirnotendum sem bera ábyrgð á markaðssetningu til að framkvæma verkefni sem þeim eru falin. Í nágrannaríkjum hefur gagnagrunnum verið komið á fót í því skyni að veita tilnefndum aðilum aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og uppfylla framangreinda skyldu 45. gr. CLP-reglugerðarinnar. Ljóst er að gagnagrunnum af þessu tagi fylgir mikill kostnaður og vinna og því er lagt til að Eitrunarmiðstöð Landspítalans fái víðtæka heimild til að kalla eftir upplýsingum sem geta talist nauðsynlegar vegna eitrunartilvika. Vitað er til þess að íslenskur framleiðandi hafi neitað að veita umbeðnar upplýsingar og því er talin ástæða til að lögfesta skyldu framleiðenda og eftirnotenda til að veita upplýsingar.

Um 7. gr.

    Um er að ræða breytingar á 11. gr. efnalaga sem fjallar um reglugerðarheimildir. Allar breytingar í greininni fyrir utan tvær varða það að gerð er tillaga um að nota, eftir því sem við á, hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur og útrýmingarefni í stað hugtaksins varnarefni.
    Í e-lið er bætt við ákvæði um að ráðherra skuli í reglugerð setja nánari ákvæði um afgreiðslu sambandsleyfa, sjá nánar umfjöllum um 2. og 18. gr.
    Í m-lið er lagt til að við bætist nýr töluliður og níu stafliðir vegna innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008. Evrópureglugerð þessi var sett af Evrópuþinginu og ráðinu (ESB) til að innleiða ákvæði Minamata-samningsins, sjá nánar umfjöllun um 26. gr. Með stafliðunum er lagt upp með að reglugerðarheimildin nái yfir öll ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2017/852 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008. Þannig kveður a-liður á um að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um takmarkanir á eða bann við útflutningi kvikasilfurs, þ.m.t. kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur sem og undanþágur frá útflutningstakmörkunum og eða útflutningsbanni, en kveðið er á um takmarkanir við útflutningi í 3. gr. ESB-reglugerðarinnar um kvikasilfur. Í b-lið er kveðið á um að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um takmarkanir við innflutningi sem kveðið er á um í 4. gr. reglugerðarinnar. Í c-lið er kveðið á um að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um takmarkanir við útflutningi, innflutningi og framleiðslu vara með viðbættu kvikasilfri sem kveðið er á um í 5. gr. reglugerðarinnar. Í d-lið er lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um eyðublöð fyrir inn- og útflutning kvikasilfurs, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Í e-lið er lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um takmarkanir á bann við notkun kvikasilfurs, kvikasilfurssambanda eða efnablandna sem innihalda kvikasilfur í iðnaðarstarfsemi og bráðabirgðageymslu kvikasilfurs, kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar. Í f-lið er lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um takmarkanir á og bann við framleiðslu og markaðssetningu nýrra vara með viðbættu kvikasilfri og nýrra framleiðsluferla, leyfisveitingar vegna framleiðslu og markaðssetningar nýrra vara með viðbættu kvikasilfri sem og undanþágur frá slíkum takmörkunum og bönnum, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Í g-lið er lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um bann við notkun kvikasilfurs við óvélvæddan og minni háttar gullnámugröft, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar. Í h-lið lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um takmarkanir og bann við notkun tannsilfurs sem og meðferð tannsilfurs, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Loks er í g-lið lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um meðferð kvikasilfursúrgangs, þ.m.t. förgun, skýrslugjöf, varðveislu og geymslu kvikasilfursúrgangs, rekjanleika og menguð svæði, sbr. IV. kafla reglugerðarinnar.

Um 8. og 9. gr.

    Breytingar þær sem lagðar eru til á 16. og 19. gr. efnalaga varða allar það að nota, eftir því sem við á, hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur og útrýmingarefni í stað hugtaksins varnarefni.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að orðið eiturefni verði fellt brott úr 1. mgr. 20. gr. þar sem kveðið er á um tollafgreiðslu. Í ákvæðinu segir að sá sem markaðssetji eiturefni og leyfisskyld efni eða efnablöndur skuli tilkynna Umhverfisstofnun um hvaða efni og efnablöndur er að ræða og að stofnunin gefi út skráningarnúmer fyrir tollafgreiðslu eiturefna og leyfisskyldra efna og efnablandna. Þá segir í lokamálslið 1. mgr. 20. gr. að í upphafi hvers árs skuli sá sem markaðssetur eiturefni og leyfisskyld efni eða efnablöndur gera Umhverfisstofnun grein fyrir magni þeirra á þar til gerðum eyðublöðum fyrir undangengið ár. Ákvæðinu hefur hvað varðar eiturefni ekki verið fylgt í framkvæmd frá því í júlí 2017 og er það mat Umhverfisstofnunar að mögulega sé um að ræða tæknilega aðgangshindrun þegar slíkar vörur eru fluttar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í ákvæðinu er ekki sérstaklega talað um innflutning frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. skilgreining hugtaksins innflutningur í 18. tölul. 3. gr. og gæti það talist aðgangshindrun að innflytjendur efna sem hafa leyfi og uppfylla lagaskilyrði innan Evrópska efnahagssvæðisins þurfi að tilkynna um efnin og fá skráningarnúmer fyrir tollafgreiðslu frá Umhverfisstofnun. Ákveðin efni eru háð sérstöku leyfi til innflutnings hvort sem þau koma frá ríkjum innan eða utan EES. Þetta helgast af því að ákvæði Montreal-bókunarinnar um ósoneyðandi efni, sem Ísland er aðili að, gera ekki greinarmun á innflutningi efna sem heyra undir bókunina frá löndum innan eða utan EES svo framarlega sem viðkomandi lönd eru aðilar að bókuninni. Jafnframt þarf að vera til staðar heimild eða fyrirkomulag til að stöðva tollafgreiðslu efna sem koma hingað til lands frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Því er lögð til breyting á orðalagi ákvæðisins. Skv. 2. mgr. 20. gr. er tollstjóra heimilt að hafna tollafgreiðslu efna og efnablandna sem uppfylla ekki skilyrði laganna að fengnum tilmælum frá Umhverfisstofnun en lagt er til í greininni að tollstjóra verði skylt að hafna tollafgreiðslu efna sem falla undir lögin að fengnum tilmælum frá Umhverfisstofnun enda liggur sérþekking á efnunum þar. Hugtakið eiturefni er fellt úr ákvæðinu með a-lið og heimild tollstjóra til að hafna tollafgreiðslu er breytt í skyldu í c-lið. Þá er í b-lið lagt til að fyrirkomulagi á skilum upplýsinga um innflutning tiltekinna leyfisskyldra vara verði breytt þar sem til stendur að opna skilagátt fyrir upplýsingarnar í stað þess að nota eyðublöð. Með tilteknum leyfisskyldum vörum er m.a. átt við vörur sem krefjast markaðsleyfis og vörur sem hafa leyfislykilinn BKH í tollskrá vegna innflutningstakmarkana sem byggjast á alþjóðasamningum, t.d. Montreal-bókuninni.

Um 11. gr.

    Breytingar sem lagðar eru til í a-lið varða það að nota, eftir því sem við á, hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur og útrýmingarefni í stað hugtaksins varnarefni.
    Í b-lið er lagt til að ný málsgrein bætist við 21. gr. laganna. Ekki er verið að leggja á nýja skyldu heldur færa til ákvæði í augnamiði að heildarframsetning laganna sé skýrari, sjá nánar umfjöllun um a-lið 12. gr. og h-lið 18. gr.

Um 12. gr.

    Í greininni er lagt til að 24. gr. efnalaga verði endurskrifuð í heild sinni til að auka skýrleika hennar, auk þess sem lagt er til að ákvæði 45. og 46. gr., sem fjalla um kaup og viðtöku eiturefna og varnarefna, verði felld inn í ákvæðið þar sem að talið er eðlilegra að fjalla um kaup og viðtöku á sama stað og fjallað er um markaðssetningu. Hugtakinu tiltekin varnarefni er skipt út fyrir notendaleyfisskyldar vörur í 1. mgr. og við ákvæðið bætist einnig við heimild fyrir Umhverfisstofnun til að ákveða með hvaða hætti verði tilkynnt um markaðssetningu eiturefna og notendaleyfisskyldra vara. Jafnframt er felld brott skylda um að tilkynna um markaðssetningu til Eitrunarmiðstöðvar þar sem sú skylda á ekki við um allar notendaleyfisskyldar vörur heldur einungis þær sem flokkast sem hættulegar en fjallað er um þá tilkynningarskyldu í 21. gr. efnalaganna, sbr. 11. gr.
    Í 2. mgr. eru lagðar til breytingar sem snúa eingöngu að breyttri hugtakanotkun. Þannig er hugtakinu tiltekin varnarefni skipt út fyrir „notendaleyfisskyldar vörur“.
    Í 3. mgr. er lagt til að ákvæði 24. gr. og 45. gr. efnalaga, sem snúa að kaupum og viðtöku eiturefna og skyldum seljenda slíkra vara, verði sameinuð í eina málsgrein til að auka skýrleika laganna. Þannig eru öll ákvæði um afhendingu eiturefna sameinuð í eina málsgrein, bæði til einstaklinga sem eru orðnir 18 ára, sem þurfa að veita upplýsingar um til hvers og hvar skuli nota eiturefni og staðfesta á sér deili sem og þeirra sem eru handhafar eiturefnaleyfis frá Vinnueftirliti ríkisins og þurfa að nota eiturefni í tengslum við framkvæmd vinnu. Þar sem pappírslaus viðskipti skipa stöðugt hærri sess er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt þannig að kveðið verði á um að kaupandi og viðtakandi skuli veita upplýsingar um til hvers og hvar nota skuli eiturefnið og framvísa skilríkjum til að staðfesta á sér deili. Þannig þarf seljandi eiturefna ekki að halda sölubók á pappír til að kvitta í, heldur einungis að taka við upplýsingum frá kaupanda um til hvers og hvar skuli nota eiturefnið sem hann nýtir til að halda skrá yfir sölu eiturefna, sbr. 24. gr. efnalaga. Umhverfisstofnun hefur til skoðunar þá tilhögun að bjóða kaupendum upp á að hlaða niður af vef stofnunarinnar stöðluðum eyðublöðum þar sem þeir geta fyllt inn viðeigandi upplýsingar og afhent seljanda við kaup á eiturefni. Til samræmis er gerð tillaga um að breyta orðalagi í 3. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna, sbr. nánar umfjöllun um c-lið 11. gr.
    Í 5. mgr. er lagt til að ákvæði 24. gr. og 46. gr., sem snúa að kaupum og viðtöku notendaleyfisskyldra vara og skyldum seljenda slíkra vara verði sameinuð í eina málsgrein til að auka skýrleika laganna. Þannig er lagt til að í málsgreininni verði kveðið á um að aðeins handhafar notendaleyfis megi taka við, kaupa og nota notendaleyfisskyldar vörur og jafnframt að sá sem markaðssetur notendaleyfisskyldar vörur beri ábyrgð á því að afhenda slíkar vörur aðeins til þeirra sem eru með notendaleyfi í gildi.
    Loks eru í 6. mgr. 2. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 46. gr. færð í 24. gr. laganna án efnislegra breytinga.
    Með ákvæði í 5. mgr. er sú skylda sem kveðið er á um í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 24. gr. varðandi fyrirkomulag á sölu eiturefna á útsölustöðum færð í sér málsgrein til að auka skýrleika. Einnig er lagt til að í málsgreininni verði kveðið á um að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framsetningu eiturefna á útsölustöðum og undanþágur frá skilyrðum um að eiturefnum sé komið þannig fyrir að þau séu ekki aðgengileg viðskiptavinum. Mikilvægt er að ráðherra verði heimilt að setja undanþágur frá ákvæðinu í reglugerð þar sem að tiltekin eiturefni geta verið almenn neytendavara, svo sem eldsneyti, rúðuvökvi o.fl. Fyrirmyndin af þessu fyrirkomulagi er fengið úr norskri og danskri efnalöggjöf.

Um 13. gr.

    Í 2. mgr. 27. gr. segir að Umhverfisstofnun staðfesti markaðsleyfi efnis útgefið af Efnastofnun Evrópu fyrir sérlega varasöm efni hér á landi. Þrátt fyrir að sótt sé um slíkt leyfi til Efnastofnunar Evrópu og mat umsókna sé á hennar hendi tekur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvörðun um veitingu markaðsleyfis. Með breytingunni sem hér er lögð fram er þetta því leiðrétt. Að auki er bætt við texta sem útlistar það fyrirkomulag sem bundið er í EES-samninginn um að Umhverfisstofnun skuli innan 30 daga frá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar taka samsvarandi ákvörðun. Með því að gera birtingu markaðsleyfanna á vef Umhverfisstofnunar að opinberri birtingu fæst aukin skilvirkni í birtingarferlið en hingað til hafa markaðsleyfi verið birt í Lögbirtingablaði. Fordæmi fyrir því að opinber birting leyfa fari fram á vefsíðu Umhverfisstofnunar má finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, varðandi starfsleyfi.

Um 14. gr.

    Lagt er til að vísað verði sérstaklega til þess í 2. málsl. 1. mgr. 32. gr. að þau atriði sem þar eru talin upp séu í samræmi við reglugerð, sbr. 11. gr., þar sem í reglugerð nr. 415/2014, um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, og Evrópugerðum sem innleiddar eru með þeirri reglugerð eru gerðar nokkuð ítarlegar kröfur varðandi framsetningu, útfærslu og fleiri atriði sem varða hættusetningar, varnaðarsetningar, viðvörunarorð og hættumerki.

Um 15. gr.

    Lagt er til að taka ákvæði um sæfivöru út úr greininni þar sem tilskipun (EB) 128/2009 um sjálfbæra notkun varnarefna nær ekki til sæfivara. Að öðru leyti er lagt til að ákvæðinu og fyrirsögn greinarinnar verði breytt í samræmi við breytta hugtakanotkun.

Um 16. gr.

    Breytingar sem lagðar eru til á 35. gr. efnalaga varða flestar það að nota, eftir því sem við á, hugtökin plöntuverndarvörur og sæfivörur í stað hugtaksins varnarefni.
    Í d-lið er lagt til að nýrri málsgrein bætt við vegna tilkomu sambandsleyfa og að 2.–4. mgr. verði breytt.
    Í VIII. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra er fjallað um svokölluð sambandsleyfi fyrir sæfivörum. Hugtakið sambandsleyfi er skilgreint í n-lið 1. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar sem stjórnvaldsaðgerð þar sem framkvæmdastjórnin heimilar að sæfivara, eða flokkur skyldra sæfivara, sé boðin fram á markaði og notuð á yfirráðasvæði Evrópusambandsins eða á hluta þess. Skv. 41. gr. reglugerðarinnar skal sambandsleyfi sem framkvæmdastjórnin gefur út í samræmi við reglugerðina gilda í öllu sambandinu nema annað sé tilgreint og því skulu fylgja öll réttindi og skyldur í hverju aðildarríki sem fylgja landsbundnu leyfi. Ferlinu við veitingu sambandsleyfa er lýst ítarlega í reglugerðinni en að því loknu, þ.e. þegar framkvæmdastjórninni berst álit Efnastofnunar Evrópu skal hún annaðhvort samþykkja framkvæmdareglugerð til að veita Sambandsleyfi fyrir sæfivörunni eða framkvæmdarákvörðun þar sem því er lýst yfir að ekki hafi verið veitt sambandsleyfi fyrir sæfivörunni, sbr. 5. mgr. 44. gr. reglugerðarinnar. Við innleiðingu reglugerðarinnar var undirgrein bætt við 5. mgr. 44. gr., sbr. e-lið 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 878/2014, um sæfivörur, og e-lið viðauka við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 225/2013 um breytingu á II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn. Undirgreinin kveður á um að þegar framkvæmdastjórnin veitir sambandsleyfi eða ákveður að sambandsleyfi hafi ekki verið veitt skuli EFTA-ríkin taka samsvarandi ákvörðun samtímis, þ.e. áður en 30 dagar eru liðnir frá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar auk þess sem senda skal sameiginlegu EES-nefndinni upplýsingar um slíkar ákvarðanir en henni ber að birta þær reglulega í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Hvorki í efnalögum né reglugerð nr. 878/2014, um sæfivörur, er þó kveðið á um hvernig staðið skuli að því að taka samsvarandi ákvörðun og framkvæmdastjórnin í samræmi við framangreinda undirgrein, þ.e. 6. mgr. 44. gr. sæfivörureglugerðarinnar (ESB). Umhverfisstofnun hafa nú þegar borist tilkynningar um útgáfu sambandsleyfa og tilkynningar um breytingu á sambandsleyfum í gegnum svokallaðan R4BP-gagnagrunn Efnastofnunar Evrópu, sem notaður er til að koma tilkynningunum á framfæri til aðildarríkjanna auk þess sem óskað er eftir því að aðildarríkin samþykki sambandsleyfin fyrir sitt leyti. Stofnunin hefur nú þegar samþykkt fimm sambandsleyfi í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, en við samþykktina var litið til þess fyrirkomulags sem notað er til að samþykkja markaðsleyfi samkvæmt REACH-reglugerðinni, sbr. 27. gr. efnalaga. Þannig voru sambandsleyfin samþykkt í framangreindum gagnagrunni Efnastofnunar Evrópu og veiting sambandsleyfisins auglýst í Lögbirtingablaði (sbr. auglýsingu í Lögbirtingablaði, „Veiting sambandsleyfa samkvæmt reglugerð nr. 878/2014“, útgáfunúmer 2108020075, útgáfudagur 12.11.2018). Nauðsynlegt er að þessi stjórnvaldsaðgerð sé skýr samkvæmt lögum og reglugerðum. Því er lagt til að í efnalögum verði kveðið á um hvernig staðið skuli að útgáfu sambandsleyfa og það síðan útfært nánar í reglugerð. Talið er eðlilegt að fyrirkomulagið verði sambærilegt útgáfu markaðsleyfa samkvæmt reglugerð nr. 888/2015 (REACH), sbr. 4. gr. reglugerðarinnar og 27. gr. efnalaga, en þar segir framkvæmdastjórnin taki ákvörðun um veitingu markaðsleyfis samkvæmt reglugerðinni og að Umhverfisstofnun staðfesti slíka ákvörðun innan 30 daga eftir að hún hefur verið birt með því að birta stutta samantekt um hana í Lögbirtingablaðinu. Þá er sérstaklega tekið fram að stofnunin skuli halda lista yfir útgefin markaðsleyfi á vef sínum. Til að auka skilvirkni við staðfestingu Umhverfisstofnunar á ákvörðunum framkvæmdastjórnar ESB er birting á vef stofnunarinnar gerð að opinberri birtingu þar sem ekki er talið að birting í Lögbirtingablaðinu nýtist þeim sem upplýsingarnar beinast að. Því er í c-lið lagt til að bætt verði inn í greinina nýrri málsgrein sem kveði á um framangreint.
    Lögð er til breyting á orðalagi 2. mgr. 35. gr., sem verður 3. mgr., sem snýr að því að taka út hugtakið tímabundin markaðsleyfi. Það er gert vegna þess að hugtakið tímabundið markaðsleyfi kemur ekki fyrir í EES-gerðum sem innleiddar eru með efnalögunum, heldur er þar fjallað um ýmsar heimildir lögbærra yfirvalda til að veita undanþágur. Veiting undanþágu getur ekki talist tímabundið markaðsleyfi þar sem í raun er ekki verið að gefa út leyfi heldur undanþágu. Með því að kveða á um að Umhverfisstofnun sé heimilt að veita undanþágur frá 1. mgr. er komist hjá því að vísa sérstaklega til mismunandi fyrirkomulags varðandi undanþágur og leyfi til að víkja frá kröfum á grundvelli plöntuverndarvörureglugerðarinnar annars vegar og sæfivörureglugerðarinnar hins vegar. Þær undanþágur og leyfi til að víkja frá kröfum sem um ræðir hafa nú þegar verið innleidd í íslenskan rétt, annars vegar með reglugerð nr. 554/2015, um plöntuverndarvörur, og hins vegar með reglugerð nr. 878/2014, um sæfivörur.
    Lagt til að orðalagi 3. mgr. verði breytt þannig að ekki verði skylt að markaðssetja plöntuverndarvörur og sæfivörur undir sérheiti eða íslensku heiti heldur undir því heiti sem tilgreint er í markaðsleyfi. Breytingin mun hvorki hafa efnislega áhrif á ákvæðið né þau áhrif að mögulegt verði að markaðssetja vörur undir íslensku heiti þar sem umsækjendur um markaðsleyfi geta sótt um markaðsleyfi undir íslensku heiti. Þannig var til að mynda sótt um markaðsleyfi fyrir sæfivörunni „Protect Wax Block Extruded“ undir íslensku heitunum „Rode vaxkubbar“ og „Músabaninn“.
    Lagt er til að 4. mgr. falli brott þar sem ákvæðin eru færð til í lögunum, sjá umfjöllun um 6. og 11. gr.

Um 17.–20. gr.

    Um er ræða breytingar í samræmi við að lagt er til að hugtökin plöntuverndarvörur og sæfivörur verði notuð í stað hugtaksins varnarefni.

Um 21. gr.

    Lögð er til breyting á fyrirsögn VII. kafla sem er í samræmi við að lagt er til að hugtökin plöntuverndarvörur og sæfivörur verði notuð í stað hugtaksins varnarefni.

Um 22. gr.

    Lagt er til að 45. gr. og 46. gr. falli brott og ákvæðin sameinuð 24. gr. efnalaga, sbr. umfjöllun um 12. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.

    Lagt er til að heiti X. kafla verði breytt í „Notendaleyfi“ þar sem að eina ákvæðið sem stendur eftir í kaflanum eftir að 45. og 46. gr. falla brott fjallar um notendaleyfi.

Um 24. gr.

    Í a- og b-lið er um að ræða breytingar í samræmi við að lagt er til að hugtökin plöntuverndarvörur og útrýmingarefni verði notuð í stað hugtaksins varnarefni.
    Í c-lið er lagt til að gildistími notendaleyfa verði lengdur. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að notendaleyfi skuli gefin út til tiltekins tíma og gilda að hámarki í fimm ár. Í norskri reglugerð um meindýravarnir ( Forskrift om skadedyrbekjempelse) eru notendaleyfi veitt til tíu ára í stað fimm ára en ekki kveðið á um hámarksgildistíma notendaleyfa. Lagt er til að notendaleyfi verði veitt til átta ára í senn, með heimild til framlengingar í allt að tvö ár ef umsækjandi hefur ekki komist á námskeið, en þátttaka í því yrði skilyrði endurnýjunar. Þannig gefst viðkomandi tækifæri í tvö ár til þess sækja námskeiðið, en nauðsynlegt er að hafa tímabilið svo langt þar sem námskeið eru að jafnaði einungis haldin annað hvert ár. Samhliða er lagt til gerð verði krafa um viðhald þekkingar þegar notendaleyfi eru endurnýjuð.
    Í d-lið er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein um endurnýjun notendaleyfa. Hingað til hefur skort lagastoð fyrir því að gera endurmenntun að kröfu vegna endurnýjunar notendaleyfa. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna er gerð krafa um að skylt sé að leita sér endurmenntunar til að viðhalda þekkingu um meðferð og meðhöndlun plöntuverndarvara áður en til endurnýjunar leyfa kemur, sbr. 5. gr. framangreindrar tilskipunar.

Um 25. gr.

    Hér er lagt til að nýjum kafla verði bætt við efnalögin vegna innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008.
    Með a-lið er lagt til að inn- og útflutningur kvikasilfurs, þ.m.t. kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur, og ráðherra tilgreinir í reglugerð verði gerður óheimill. Með ákvæðinu eru 3. og 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008, innleiddar í efnalög með því að setja almennt bann við inn- og útflutningi kvikasilfurs, kvikasilfurssambanda og efnablandna sem innihalda kvikasilfur sem ráðherra tilgreinir í reglugerð í samræmi við lista sem er að finna í I. viðauka við framangreinda Evrópureglugerð. Þá munu undanþágur frá takmörkununum, svo sem vegna innflutnings í vísindalegum tilgangi, einnig verða útfærðar í reglugerð.
    Með b-lið er lagt til að innflutningur, útflutningur og framleiðsla vara með viðbættu kvikasilfri, sem tilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 11. gr., sé óheimill frá og með þeim dagsetningum sem tilgreindar eru í reglugerð. Með ákvæðinu er innleidd 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008. Listann yfir þær vörur með viðbættu kvikasilfri sem óheimilt verður að flytja inn, og tilgreindar verða í reglugerð sem ráðherra setur, er að finna í II. viðauka við framangreinda Evrópureglugerð. Þá verður einnig kveðið á um undanþágur frá takmörkununum í reglugerðinni.
    Með c-lið er 10. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/852 frá 17. maí 2017 um kvikasilfur, og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1102/2008, innleidd í efnalög. Minamata-samningurinn kveður á um að aðildarríki skulu innleiða a.m.k. tvær af níu skráðum ráðstöfunum til að draga úr notkun á tannfyllingum sem innihalda kvikasilfur. Í EB reglugerðinni er kveðið á um að einungis megi nota tannsilfur í hylkjum og að óheimilt sé að nota það hjá börnum undir 15 ára aldri eða barnshafandi konum og konum með börn á brjósti. Hins vegar er undanþáguákvæði frá banninu ef við eiga sérstakar læknisfræðilegar ástæður. Auk þess verða aðildarríkin að semja landsbundna aðgerðaáætlun í því skyni að hætta í áföngum notkun tannsilfurs, sbr. 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Aðgerðaráætlun verður unnin í samráði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og mælst er til þess að í áætluninni verði stefnt að því að útfösun tannsilfurs verði lokið árið 2030. Ísland er langt komið með að fasa út tannsilfur og settar hafa verið kröfur um að á tannlæknastofum þar sem unnið er með amalgam sé búnaður með síum sem halda til baka og safna amalgamúrgangi.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 2. mgr. 52. gr. laganna þannig að Umhverfisstofnun verði gert skylt að hafa samráð við stjórnvöld sem hafa hlutverki að gegna skv. II. kafla laganna við gerð eftirlitsáætlunar sem stofnuninni ber að gera skv. 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 52. gr. Samráðið er lagt til í því skyni að gæta að hagkvæmni í eftirliti og til að fyrirbyggja tvíverknað og skörun í eftirliti eftir því sem frekast er unnt. Með þessu er talið að stuðlað verði að því að eftirlit með efnavörum á markaði verði tvíþætt fremur en tvöfalt. Sem dæmi geti heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna og Umhverfisstofnun stillt saman strengi sína þannig að sameiginlegt eftirlit geti farið fram þegar þörf er talin á því.

Um 27. gr.

    Í a-lið er lagt til að ákvæði efnalaga um gjaldtökuheimildir vegna veitingar markaðsleyfa verði uppfært í samræmi við að hætt verður að nota hugtakið varnarefni. Þá er í b-lið lagt til að sett verði inn gjaldtökuheimild fyrir Umhverfisstofnun til útgáfu vottorða fyrir ábyrgðaraðila, sbr. 24. gr. efnalaga. Í c-lið er lagt til að 7. tölul. 1. mgr. 54. gr. verði felldur brott að því gefnu að Umhverfisstofnun hætti alfarið að gefa út skráningarnúmer fyrir tollafgreiðslu, sjá nánar umfjöllun um 10. gr. Í 2. mgr. 54. gr. er að finna heimild ráðherra til að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu, eftirlit og verkefni sem stofnuninni er falið að annast. Lagt er til í d-lið að bæta við skýrri gjaldtökuheimild vegna beitingar þvingunarúrræða í eftirfylgnimálum sem kveðið er á um í gjaldskrá Umhverfisstofnunar.

Um 28. og 29. gr.

    Breytingin sem er lögð til á 57. gr. efnalaga er gerð til að auka skýrleika. „Tímabundin stöðvun markaðssetningar“ er talið vera þjálla hugtak en „stöðvun markaðssetningar um stundarsakir“, m.a. með hliðsjón af upplýsingaskyldu og fréttaskrifum Umhverfisstofnunar. Breytingunni er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nokkur tilfelli hafa komið upp þar sem beiting þvingunarúrræða XIII. kafla efnalaga hafa valdið vandkvæðum. Þau varða einna helst skilgreiningu hugtaksins markaðssetning en einnig kröfur um förgun hjá viðurkenndum aðilum spilliefna.
    Eins og fram kemur í umfjöllun um 1. gr. er hugtakið markaðssetning skilgreint sem „það að sjá þriðja aðila fyrir vöru sem fellur undir lög þessi eða bjóða hana fram, hvort heldur er gegn greiðslu eða án endurgjalds. Innflutningur er markaðssetning“, sbr. 22. tölul. 3. gr. efnalaga. Hugtakið innflutningur er síðan skilgreint í 18. tölul. sem „flutningur efnis, efnablöndu eða efna í hlutum inn á Evrópska efnahagssvæðið frá ríkjum utan svæðisins.“ Eins og fram hefur komið er skilgreining hugtakanna mismunandi í reglugerðum sem efnalögin innleiða. Umhverfisstofnun er heimilt að stöðva markaðssetningu efna, efnablandna eða hluta sem innihalda efni um stundarsakir eða varanlega, sbr. 57. og 58. gr. efnalaga, en sökum framangreindra skilgreininga hafa komið upp tilfelli þar sem stofnuninni hefur ekki verið stætt á að stöðva markaðssetningu þrátt fyrir að tilefni hafi verið til. Þessi aðstaða getur til að mynda komið upp þegar að fyrirtæki flytur inn efni eða efnablöndu frá ríki innan EES sem ekki uppfyllir skilyrði efnalaga en notar vöruna einungis til eigin nota, t.d. við efnavöruframleiðslu.
    Í 30. gr. er lögð til breyting á fyrirsögn XIII. kafla, þ.e. bætt verði við í fyrirsögnina orðinu bráðabirgðaúrræði þar sem 57. gr. laganna felur það í sér.

Um 30. gr.

    Í a- og b-lið er um að ræða breytingar í samræmi við að lagt er til að hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur og notendaleyfisskyldar vörur verði notuð í stað hugtakanna varnarefni og tiltekin varnarefni.
    Í c- og d-lið er ákvæðum um í hvaða tilvikum hægt er að beita stjórnvaldsektum bætt við 62. gr. efnalaga.
    Með c-lið er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir annars vegar vegna brota gegn ákvæðum um markaðssetningu flúoraðra gróðurhúsalofttegunda, sbr. 44. gr. b, og hins vegar vegna brota gegn ákvæðum um magn flúoraðra gróðurhúsalofttegunda á markaði, sbr. 44. gr. c. Hér er um að ræða endanleg brot þannig að ekki er hægt að beita öðrum úrræðum.
    Skv. 44. gr. b er óheimilt að markaðssetja vörur og búnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eftir því sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 11. gr. Jafnframt er notkun tiltekinna flúoraðra gróðurhúsalofttegunda háð takmörkunum eftir því sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 11. gr. Í III. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 517/2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir og brottfall reglugerðar (EB) nr. 842/2006, sem innleidd er í reglugerð nr. 834/2010, er að finna ákvæði um setningu á markað og takmarkanir á notkun. Í III. viðauka við sömu gerð er jafnframt listi yfir ýmsan búnað sem bannað er að setja á markað. Í ljósi þess að komið getur til brota gegn þessum ákvæðum þannig að ekki sé hægt að beita öðrum úrræðum laganna, þ.e. þvingunarúrræðum, er eðlilegt að fyrir hendi sé heimild til að leggja stjórnvaldssektir á þá aðila sem gerst hafa brotlegir. Heimildin er því hugsuð þannig að komist upp um brot gegn framangreindum ákvæðum sem þegar hafa átt sér stað og úrbætur því ekki mögulegar hafi stofnunin heimild til að leggja stjórnvaldssektir á þá aðila sem gerst hafa brotlegir. Dæmi um þetta gæti verið að upp komist að fyrirtæki hafi markaðssett búnað sem er á bannlista í reglugerð eða notað efni til áfyllingar á kerfi þannig að brjóti í bága við ákvæði um takmarkanir á notkun.
    Skv. 44. gr. c er magn flúoraðra gróðurhúsalofttegunda á markaði háð takmörkun og setur ráðherra í reglugerð ákvæði um leyfilegt magn sem framleiðendur og innflytjendur mega setja á markað ár hvert og um úthlutun á kvótum til markaðssetningar þeirra. Jafnframt er kveðið á um skrásetningu markaðssetningar og útflutnings á efnunum. Á sama hátt og lýst er að framan varðandi 44. gr. b er heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á 44. gr. c hugsuð þannig að hægt sé að beita stjórnvaldssektum ef upp kemst um brot á ákvæðinu sem þegar hefur átt sér stað og úrbætur því ekki mögulegar. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að stýring á magni flúoraðra gróðurhúsalofttegunda er nauðsynleg vegna fyrirhugaðrar fullgildingar Íslands á Kigali-breytingu Montreal-bókunarinnar. Í forsendum bókunarinnar skuldbindur Ísland sig til að draga úr neyslu efnanna samkvæmt áætlun sem útlistuð er í ákvæðum hennar. Brot gegn 44. gr. c mun þannig geta leitt til brots á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands gagnvart bókuninni.
    Með d-lið er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota gegn 3. mgr. 47. gr. m sem kveður á um skyldu eldsneytisbirgja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 11. gr. Um er að ræða skyldu sem útfærð er í reglugerð nr. 960/2016 sem innleiðir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/30/EB frá 23. apríl um breytingu á tilskipun 98/70/EB að því er varðar forskriftir fyrir bensín, dísilolíu og gasolíu og um að innleiða fyrirkomulag til að vakta og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og um breytingu á tilskipun ráðsins 1999/32/EB að því er varðar forskriftir fyrir eldsneyti sem er notað fyrir skip á skipgengum vatnaleiðum og um niðurfellingu á tilskipun 93/12/EBE. Skv. 8. gr. reglugerðar nr. 960/2016 skulu birgjar smám saman draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku um allt að 10% fyrir 31. desember 2020, miðað við lágmarksstaðlana fyrir eldsneyti sem um getur í tilskipun ráðsins 2015/652/ESB frá 20. apríl 2015. Skv. a-lið 8. gr. skal minnkunin nema 6% eigi síðar en 31. desember 2020, en í b- og c-liðum eru útlistuð leiðbeinandi viðbótarmarkmið sem ná má með þar tilgreindum aðferðum. Í 3. mgr. 8. gr. er eldsneytisbirgjum gefinn sá valkostur að uppfylla minnkunarskyldu sína skv. 1. mgr. í sameiningu. Í þeim tilvikum skal líta á þá sameiginlega sem einn birgi að því er varðar skyldu þeirra til að draga úr losun. Umhverfisstofnun hefur nú þegar fengið afhentar skýrslur um losun frá öllum eldsneytisbirgjum landsins og fyrir liggur að þeir ætla ekki að nýta sér þann valkost að uppfylla minnkunarskylduna sameiginlega. Að því sögðu er ljóst að hverjum og einum eldsneytisbirgi hér á landi er skylt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku um alls 6% fyrir 31. desember 2020 og þurfa þeir hver fyrir sig að uppfylla þá skyldu sína til að markmiði tilskipunarinnar um 6% minnkun fyrir 31. desember 2020 verði náð. Þannig getur komið til þess að markmiðið náist ekki ef einn eldsneytisbirgir uppfyllir ekki minnkunarskylduna fyrir sitt leyti, þrátt fyrir að allir aðrir eldsneytisbirgjar hafi lagt sitt af mörkum. Í þessu samhengi er einnig rétt að vekja athygli á því að sá eldsneytisbirgir sem ekki uppfyllir minnkunarskylduna skv. 8. gr. reglugerðar nr. 960/2016 hefði á sama tíma sparað sér kostnað við að grípa til ráðstafana til að uppfylla skylduna. Ljóst er að þvingunarúrræði efnalaga kæmu ekki að notum ef í ljós kemur 31. desember 2020 að einstakur eldsneytisbirgir hafi ekki uppfyllt minnkunarskyldu sína, enda tíminn liðinn og markmiðinu ekki náð. Þar af leiðandi er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að leggja stjórnvaldssekt á þann eldsneytisbirgi sem ekki uppfyllir skyldu sína skv. 3. mgr. 47. gr. m laganna, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 960/2016.
    Vert er að geta þess að viðurlögum efnalaga hefur ekki verið beitt frá því að þau tóku gildi og eru stjórnvaldssektarheimildir laganna að miklu leyti hugsaðar til þess að draga úr líkum á brotum, þ.e. að skapa fælingarmátt.

Um 31. gr.

    Um er að ræða breytingar í samræmi við að lagt er til að hugtökin plöntuverndarvörur og sæfivörur verði notuð í stað hugtaksins varnarefni.

Um 32. gr.

    Ákvæðið varðar innleiðingu á Evrópugerð.

Um 33. og 34. gr.

    Lagt er til að ákvæði I og II til bráðabirgða verði felld brott og sett inn nýtt ákvæði til bráðabirgða. Ákvæði I til bráðabirgða á ekki lengur við þar sem aðlögunartímabil samkvæmt reglugerð um flokkun, merkingu og pökkun efna- og efnablandna er liðið.
    Nýja ákvæðið til bráðbirgða er í raun breyting á ákvæði II til bráðabirgða. Lögð er til mikil einföldun á ákvæðinu til að gera það skýrara í heild sinni með því að vísa til tímabundinna skráninga. Þar er átt við tímabundnar skráningar Umhverfisstofnunar fyrir plöntuverndarvörur sem veittar voru á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða laga nr. 61/2013 frá 8. apríl 2013, í stað þess telja upp grundvöll fyrir tímabundinni skráningu, enda er sá grundvöllur brottfallinn, verði frumvarp þetta að lögum, og ljóst að ekki munu bætast við tímabundnar skráningar enda er frestur til að sækja um slíka skráningu löngu liðinn. Með eldra bráðabirgðaákvæðinu gátu aðilar sem við gildistöku efnalaganna 8. apríl 2013 höfðu skráningar á grundvelli brottfallinna laga sótt um tímabundna skráningu. Talið er að einföld tilvísun sé nægileg þar sem einungis örfáir aðilar njóta réttinda á grundvelli tímabundinnar skráningar og fer þeim fækkandi. Einnig er lagt til að gildistímar umræddra skráninga verði skýrari. Jafnframt er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að fella úr gildi tímabundna skráningu hafi plöntuverndarvaran sem skráningin gildir um ekki verið sett á markað undanfarin fimm ár, vegna þess að umtalsverð vinna felst í því að endurnýja leyfi vara sem ekki eru á markaði og hafa jafnvel aldrei verið á markaði hér á landi en hafa samt sem áður tímabundna skráningu. Sú heimild mun leiða til þess að aðilum sem njóta réttinda á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins fækki enn frekar.

Um 35. gr.

    Gerð er tillaga um að lögin öðlist gildi 1. júlí 2019.