Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1202  —  663. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um hrygningarfriðun þorsks.



     1.      Hver var áætluð stærð hrygningarstofns íslenska þorsksins í tonnum talið á árunum 1992 til 2019?
    Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem gefin var út 13. júní 2018 kemur fram að hrygningarstofn þorsks hefur vaxið úr 154 þús. tonnum árið 1992 í um 652 þús. tonn árið 2018. Stofnmat fyrir árið 2019 mun ekki liggja fyrir fyrr en í júní 2019, því miðast svarið við tímabilið 1992 til og með 2018. Til samanburðar má nefna að hrygningarstofn þorsks er talinn hafa verið um 950 þús. tonn árið 1955. Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar, sem er fylgiskjal með svari þessu, er sýnd þróun hrygningarstofns þorsks frá 1992 til 2018.

     2.      Hvernig var áætluð stærðarsamsetning hrygningarstofns þorsksins á hverju ári á árunum 1992 til 2019? Óskað er eftir tölum um áætlaðan heildarfjölda einstaklinga á hverju ári, fjölda í árgöngum eftir ári, meðalþyngdir í árgöngum eftir ári og meðallengdir í árgöngum eftir ári.
    Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar, sem vísað var til hér að framan, eru ítarlegar upplýsingar um hlutfallslega aldursdreifingu hrygningarstofnsins miðað við þyngd á tímabilinu 1992 til 2018. Þar má m.a. sjá að árið 1992 voru um 85% hrygningarstofnsins átta ára þorskur og yngri en 2018 var þetta hlutfall um 60%.

     3.      Hvernig hefur svæðalokunum í „hrygningarstoppi“ verið háttað á árabilinu? Hvaða svæði nær það yfir? Í hvaða dagabil gildir það á ákveðnum svæðum? Um hvaða veiðarfæri hefur það gilt? Hefur fyrirkomulagi „hrygningarstopps“ verið breytt á árabilinu 1992 til 2019 og þá hvenær og hvernig?
    Ítarleg grein er gerð fyrir því í greinargerð Hafrannsóknastofnunar hvernig hrygningarstoppi hefur verið háttað undanfarna áratugi. Þar kemur m.a. fram að hrygningarstopp gildi fyrir öll veiðarfæri með tilteknum undantekningum samkvæmt reglugerð nr. 289/2010. Jafnframt kemur fram að miklar og örar breytingar hafi verið á framkvæmd lokana til að vernda hrygningu þorsks á milli 1992 og 2005, þegar reglugerð nr. 30/2005 var sett. Sjá nánar greinargerð í fylgiskjali.

     4.      Hefur verið rannsakað hvort sá tími sem „hrygningarstoppið“ nær yfir sé hápunktur hrygningar þorsksins á þeim svæðum sem um ræðir?
    Fram kemur í greinargerð Hafrannsóknastofnunar að rannsóknir stofnunarinnar hafi sýnt fram á að hámark hrygningar sé í apríl og að jafnaði sé talið að hrygningarstoppið nái að mestu yfir það tímabil þegar hámark hrygningar á sér stað. Sjá nánar greinargerð í fylgiskjali.

     5.      Hefur það verið staðfest með rannsóknum að árangur í nýliðun þorsks sé af samfelldu „hrygningarstoppi“ frá árinu 1992? Þá hvaða rannsóknum?
    Fram kemur í greinargerð Hafrannsóknastofnunar að erfitt sé að greina árangur af einstökum aðgerðum sem hafa verið í gangi samtímis, svo sem hrygningarstoppi, upptöku aflareglu og betri stjórn á veiðum almennt. Á það er bent að á umræddu tímabili hafi hrygningarstofninn u.þ.b. þrefaldast að stærð og tíðni slakra árganga minnkað. Þannig hafi t.d. ekki verið metinn árgangur undir 100 milljónum nýliða síðan 2004. Stofnunin segir að beinar rannsóknir til mats á árangri af hrygningarstoppi hafi ekki farið fram hér, en erlendar rannsóknir bendi til að árangur sé af slíkum lokunum þar sem veiðiálag geti truflað atferli þorsks við hrygningu.

     6.      Hvaða líffræðilegu og fiskifræðilegu rök liggja að baki því að banna veiðar með línu og handfærum á tilteknum svæðum í „hrygningarstoppi“?
    Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar segir: „Í upphafi var markmið hrygningarstopps að minnka sókn í stórþorsk. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að truflun við hrygningu t.d. vegna veiðarfæra getur haft þau áhrif að þorskur fari af hrygningarslóð og snúi ekki þangað það árið. Af þeim sökum sem og því sem rakið er í inngangi telur stofnunin að alger friðun fyrir veiðum á hrygningarslóð auki líkur á að hrygning og klak heppnist vel.“

     7.      Hvaða þjóðir aðrar beita „hrygningarstoppi“ til að stöðva veiðar með línu og handfærum á hrygningartíma þorsks eða annarra nytjastofna í því markmiði að vernda hrygningu?
    Þessari spurningu svarar Hafrannsóknastofnun með eftirfarandi hætti: „Við austurströnd Kanada og Bandaríkjanna eru hrygningarstopp bæði fyrir þorsk og ýsu þar sem notkun allra veiðarfæra sem geta veitt botnfisk er bönnuð á skilgreindum hrygningarsvæðum. Tímalengd lokana þar er frá einum og hálfum mánuði til fimm mánaða. Svipaða sögu er að segja frá vesturströnd Skotlands þar sem hrygningarsvæði í Clyde-firði er lokað í 2 mánuði á ári en þar eru á hluta svæðisins leyfðar veiðar með humarvörpu. Afmörkuðum hrygningarsvæðum í Noregi er lokað frá 1. janúar til 6. júní fyrir öllum veiðum m.a. frístundaveiðum (sportveiðum). Fleiri dæmi má eflaust tína til.“
    Í fylgiskjali er greinargerð Hafrannsóknastofnunar sem vísað er til hér að framan.

Fylgiskjal.



Greinargerð Hafrannsóknastofnunar, tekin saman í tilefni af fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hrygningarfriðun þorsks.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.