Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1206  —  541. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heitis Einkaleyfastofunnar (nafnbreyting á stofnuninni).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Borghildi Erlingsdóttur frá Einkaleyfastofu, Sigríði Mogensen frá Samtökum iðnaðarins og Rán Tryggvadóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og höfundaréttarnefnd.
    Nefndinni barst umsögn frá Einkaleyfastofu.
    Með frumvarpinu er lagt til að heiti Einkaleyfastofu verði breytt í Hugverkastofa í lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991, og öðrum lögum sem vísa í þau. Markmið frumvarpsins er að breyta heiti stofnunarinnar þannig að heitið endurspegli starfsemi hennar. Núverandi heiti, Einkaleyfastofa, vísi eingöngu til einnar tegundar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og sé þannig of þröng skírskotun miðað við raunverulega starfsemi hennar. Heitið geti verið villandi í augum viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila og gefið til kynna að stofnunin láti sig aðeins varða málefni einkaleyfa þrátt fyrir að starfsemi hennar og ábyrgðarsvið tengist hugverkaréttindum almennt. Mikilvægt sé að tryggja að öllum fagsviðum hennar sé gert jafn hátt undir höfði og í heiti komi ekki fram sérstök áhersla á eitt fagsvið umfram annað.
    Fyrir nefndinni kom almennt fram ánægja með fyrirhugaða breytingu á heiti stofnunarinnar. Breytingin þjóni vel hagsmunum Íslands og sé eitt af þeim skrefum sem þurfi að stíga til að auka meðvitund almennings um hugverkaréttindi, þar sem íslensk fyrirtæki sæki ekki í nægilega ríkum mæli um verndun hugverkaréttinda. Þá lýstu Samtök iðnaðarins því yfir fyrir nefndinni að þau hafa breytt afstöðu sinni frá fyrri flutningi og styðja frumvarpið nú.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að annars staðar á Norðurlöndunum sé heiti sambærilegra stofnana með vísan í einkaleyfi, þ.e. patent. Þessi breyting geti valdið ruglingi og ekki sé nægileg þekking á höfundarétti hjá stofnuninni til þess að beina fólki í rétta átt. Var nefndinni bent á að svið innan hugverkaréttar skarist öll og erfitt sé að slíta þau í sundur. Þetta skref sé hins vegar til hagsbóta fyrir hagsmunaaðila og nægileg þekking á höfundarétti sé innan stofnunarinnar til að beina aðilum í rétta átt. Þetta sé þróunin innan Evrópu. Heiti hugverkastofu Evrópusambandsins hafi t.d. verið breytt fyrir tveimur árum til að hafa betri skírskotun til þess sem hún starfi við.
    Nefndin telur frumvarp þetta til bóta og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.
    Sara Elísa Þórðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 26. mars 2019.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.