Ferill 762. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1213  —  762. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 3. mgr. 66. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. A-liðar 7. gr. skulu greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa frá viðurkenndum samtökum rétthafa teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar.

II. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum.
2. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur ný grein, 21. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa
frá viðurkenndum samtökum rétthafa.

    Ákvæði laga þessara, svo sem um skilaskylda aðila, afdrátt staðgreiðslu og skilaskyldu staðgreiðslu, gilda um greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa frá viðurkenndum samtökum rétthafa, sbr. 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2020 og við álagningu á árinu 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, í tengslum við skattlagningu tekna af höfundaréttindum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins má rekja til sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Í sáttmálanum kemur m.a. fram sú stefnuyfirlýsing að hugað verði að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum. Jafnframt kemur fram að höfundagreiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa innheimta skuli skattleggja sem eignatekjur. Fyrsta skrefið í þessum efnum var stigið með samþykkt laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, sbr. lög nr. 130/2018. Með frumvarpi þessu er stigið næsta skref til eflingar listum og menningu og lagt til að höfundagreiðslur frá viðurkenndum samtökum rétthafa sem greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa verði skattlagðar sem eignatekjur.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Breytingartillagan afmarkast við framangreinda stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og tengist efni hennar einnig höfundalögum. Í breytingartillögunni felst að greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa frá viðurkenndum samtökum rétthafa samkvæmt höfundalögum, nr. 73/1972, verði skattlagðar sem fjármagnstekjur án nokkurs frádráttar í stað launatekna. Er það í samræmi við gildandi meginreglur um skattlagningu fjármagnstekna.
    Núgildandi fyrirkomulag á skattlagningu tekna af höfundaréttindum hefur sætt gagnrýni þar sem komið hafa fram þau sjónarmið að eðlilegt þyki að tekjur vegna nýtingar á verkum sem þegar hafa verið sköpuð séu skattlagðar eins og aðrar tekjur manna af eignum sínum. Þá hefur einnig verið talið óeðlilegt að skattleggja umræddar greiðslur sem launatekjur þegar höfundur tiltekins verks er látinn en verkið heldur áfram að gefa af sér tekjur til erfingja eða annarra einstaklinga sem rétthafa. Áréttað er að breyting sem þessi mun einnig taka til þeirra einstaklinga sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna höfundarréttargreiðslna þeirra sem hér um ræðir.
    Þá er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Í ákvæðinu felst að fyrirkomulag skattheimtu á umræddum greiðslum til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa skuli vera í formi staðgreiðslu. Með því verður innheimta skattsins í samræmi við þær meginreglur sem gilda um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum auk þess að vera jafnframt öruggari og skilvirkari en ella.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið, ríkisskattstjóra og Samband íslenskra sveitarfélaga. Frumvarpið var kynnt á vettvangi ráðuneytisstjóra 18. desember 2018. Hinn 24. janúar 2019 birti fjármála- og efnahagsráðuneytið áform um lagasetningu ásamt frummati á áhrifum í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til þess að senda inn umsagnir vegna áformanna var til 31. janúar. Þá var frumvarpið kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opinni samráðsgátt stjórnvalda 8.-22. mars. Alls bárust fimm umsagnir. Almennt voru umsagnaraðilar jákvæðir en þó komu fram athugasemdir sem brugðist hefur verið við.

6. Mat á áhrifum.
    Gera má ráð fyrir því að breytingar á skattlagningu greiðslna til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa sem boðaðar eru í frumvarpinu muni hafa neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs þar sem lækkun tekna af tekjuskatti og tryggingagjaldi verða meiri en hækkun tekna af fjármagnstekjuskatti. Þá munu sveitarfélög verða af útsvarstekjum af þeim greiðslum sem hér um ræðir. Áætlað er að nettó tekjutap ríkisins nemi um 30 millj. kr. og tekjutap sveitarfélaga um 80 millj. kr.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í ákvæðinu felst að greiðslur frá viðurkenndum samtökum rétthafa til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa, meðal annars styrkgreiðslur, bætur og greiðslur vegna fylgiréttargjalds samkvæmt höfundalögum skuli skattleggja sem fjármagnstekjur hjá einstaklingum utan rekstrar en ekki sem launatekjur, sbr. 3. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Undir hugtakið greiðslur samkvæmt ákvæðinu falla því allar greiðslur samkvæmt höfundalögum sem greiddar eru frá viðurkenndum samtökum rétthafa til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa, að því gefnu að greiðslan eigi rætur sínar að rekja til höfundarverks rétthafa sem nýtur verndar samkvæmt höfundalögum. Með rétthafa samkvæmt ákvæðinu er átt við einstakling sem er höfundur eða flytjandi höfundaréttinda eða annan einstakling, til dæmis erfingja höfunda, umboðsmann eða aðra einstaklinga sem kunna að taka við höfundagreiðslum að hluta eða í heild.
    Með viðurkenndum samtökum rétthafa er átt við samtök sem vegna hagsmunagæslu fyrir félagsmenn sína þurfa viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins samkvæmt höfundalögum. Þau rétthafasamtök á sviði höfundaréttar sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt höfundalögum eru Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), Myndhöfundasjóður Íslands (Myndstef), Rithöfundasamband Íslands (RSÍ), Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH), Fjölís og Innheimtumiðstöð gjalda (IHM). Flest viðurkennd samtök rétthafa hér á landi eru starfrækt sem félagasamtök í eigu félagsmanna. Aðild að slíkum félagasamtökum getur ýmist verið í formi einstaklingsaðildar eða í gegnum aðildarfélag að samtökunum. Dæmi um félög þar sem aðild rétthafa byggist á einstaklingsaðild eru t.d. RSÍ og Hagþenkir. Dæmi um félag þar sem aðild rétthafa er í gegnum aðildarfélag er Myndstef. Viðurkennd samtök rétthafa úthluta greiðslum, svo sem réttindagreiðslum, styrkjum, bótum og greiðslum vegna fylgiréttargjalda til höfunda og/eða annarra rétthafa. Af því leiðir að einstaklingar geta móttekið greiðslur ýmist beint frá viðurkenndum samtökum rétthafa eða öðrum félagsaðilum sem eru aðilar að slíkum samtökum. Í ákvæðinu er lagt til að slíkar greiðslur skuli teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar. Því skiptir ekki máli hvort endanleg greiðsla til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa hafi verið greidd af viðurkenndum samtökum rétthafa eða félagsaðila slíkra samtaka þar sem greiðslan á rætur að rekja til viðurkenndra samtaka rétthafa.
    Að lokum er gert ráð fyrir að þær greiðslur sem um ræðir í ákvæðinu teljist til fjármagnstekna og beri því 22% fjármagnstekjuskatt án nokkurs frádráttar. Það felur í sér að skattleggja ber brúttótekjur af höfundaréttindum án heimildar til frádráttar.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, svo sem um skilaskylda aðila, afdrátt staðgreiðslu og skilaskyldu staðgreiðslu, skuli gilda um greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa frá viðurkenndum sam-tökum rétthafa, sbr. 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í því felst að halda skal eftir staðgreiðslu af greiðslum til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa samkvæmt áðurnefndum lögum. Viðurkennd samtök rétthafa teljast þannig til skilaskyldra aðila og ber sem slíkum við greiðslu til rétthafa að annast afdrátt staðgreiðslu af greiðslum og standa skil til ríkissjóðs samkvæmt ákvæðum þar um.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.