Ferill 764. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1215  —  764. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um dreifingu vátrygginga.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmenn, aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð og vátryggingafélög hér á landi.
    Þeir sem hafa heimild til að dreifa vátryggingum samkvæmt lögum þessum eru:
     a.      vátryggingamiðlarar sem hafa starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins,
     b.      aðilar sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð,
     c.      vátryggingafélög,
     d.      vátryggingaumboðsmenn sem skráðir eru hjá vátryggingafélagi,
     e.      vátryggingamiðlarar, vátryggingafélög og vátryggingaumboðsmenn með starfsleyfi í öðru aðildarríki,
     f.      vátryggingamiðlarar, vátryggingafélög og vátryggingaumboðsmenn með starfsleyfi utan aðildarríkja sem hafa fengið leyfi til að reka útibú hér á landi.

2. gr.

Starfsemi sem er undanþegin.

    Lög þessi gilda ekki um eftirfarandi starfsemi:
     1.      Tilfallandi ráðgjöf eða upplýsingagjöf sem er veitt vegna annarrar atvinnustarfsemi ef:
                  a.      ráðgjöfin eða upplýsingagjöfin verður ekki til þess að aðstoð er veitt til að gera vátryggingarsamning eða efna hann.
                  b.      tilgangurinn með starfseminni er ekki að aðstoða viðskiptavin við að gera vátryggingarsamning eða efna hann.
     2.      Umsýslu vátryggingafélaga vegna bótakrafna, tjónsuppgjörs og sérfræðimats á bótakröfum.
     3.      Afhendingu gagna eða upplýsinga um mögulega vátryggingartaka til vátryggingamiðlara eða vátryggingafélaga þar sem engar frekari ráðstafanir eru gerðar til að aðstoða við að koma á eða gera vátryggingarsamning eða efna hann.
     4.      Afhendingu gagna eða upplýsinga til mögulegra vátryggingartaka um vátryggingar, vátryggingamiðlara eða vátryggingafélaga þar sem engar frekari ráðstafanir eru gerðar til að aðstoða við að koma á eða gera vátryggingarsamning eða efna hann.
    Lög þessi gilda ekki um dreifingu vátrygginga þegar vátryggingu er dreift sem aukaafurð með vöru og eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Vátryggingin er til viðbótar vöru eða þjónustu sem aðili lætur í té ef vátryggingin nær til áhættunnar á:
                  a.      vörum sem bila, glatast eða skemmast eða þjónustu sem ekki er notuð,
                  b.      farangri sem skemmist eða glatast og annarri áhættu sem tengist ferð sem bókuð er.
     2.      Árlegt iðgjald, reiknað hlutfallslega miðað við árið, er ekki hærra en jafnvirði 600 evra í íslenskum krónum.
     3.      Vátryggingin er viðbót við þjónustu skv. 1. tölul. sem er veitt í þrjá mánuði eða minna og iðgjald einstaklings er ekki meira en jafnvirði 200 evra í íslenskum krónum.
Þó gildir ákvæði 4. mgr. 33. gr. um endurgjald um dreifingu vátrygginga hjá aðilum sem eru undanþegnir lögunum samkvæmt þessari málsgrein.

3. gr.

Orðskýringar.

Í lögum þessum merkir:
     1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða Færeyjar.
     2.      Aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð: Einstaklingur eða lögaðili, sem ekki er lánastofnun skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, staðbundið fyrirtæki skv. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. a sömu laga eða verðbréfafyrirtæki sem uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 25. gr. sömu laga og dreifir vátryggingu sem aukaafurð gegn endurgjaldi að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
                  a.      starfsemin er í meginatriðum önnur en dreifing vátrygginga,
                  b.      aðilinn dreifir eingöngu vátryggingum sem eru viðbót við sölu á vöru eða þjónustu.
                  c.      vátryggingin er ekki líf- eða ábyrgðartrygging nema hún sé hluti af vörunni eða þjónustunni sem er dreift.
     3.      Dreifing vátrygginga:
                  a.      starfsemi sem felst í að veita ráðgjöf um, gera tillögu um eða undirbúa gerð vátryggingarsamnings, gera slíkan samning, eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins,
                  b.      starfsemi sem felst í að veita upplýsingar um vátryggingarsamning eftir forsendum sem viðskiptavinur velur, á vefsíðu eða öðrum miðlum; einnig að gefa upplýsingar um þær vátryggingar sem eru í boði, þ.m.t. verð, samanburð eða afslátt þegar viðskiptavinur getur gert vátryggingarsamning, beint eða óbeint, á vefsíðunni eða miðlinum,
                  c.      starfsemi sem felst í að veita ráðgjöf um, gera tillögu um eða undirbúa gerð endurtryggingarsamnings, efna slíkan samning eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins; sama gildir þegar starfsemin er hjá endurtryggingafélagi án íhlutunar endurtryggingamiðlara.
     2.      Dreifingaraðili: Vátryggingamiðlari, vátryggingafélag, vátryggingaumboðsmaður eða aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð.
     3.      Endurgjald: Hvers konar laun, þóknun, gjald eða önnur greiðsla, ásamt hvers konar efnahagslegum ávinningi eða öðrum fjárhagslegum eða ófjárhagslegum hagsmunum eða öðrum ávinningi eða hvata sem boðinn eða gefinn er vegna dreifingar vátrygginga.
     4.      Gistiríki: Aðildarríki þar sem einstaklingur eða lögaðili sem dreifir vátryggingum hefur útibú eða veitir þjónustu án starfsstöðvar.
     5.      Heimaríki:
                  a.      Þar sem einstaklingur sem dreifir vátryggingum hefur aðsetur.
                  b.      Þar sem lögaðili sem dreifir vátryggingum hefur höfuðstöðvar.
     6.      Náin tengsl: Þegar tveir eða fleiri aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, tengjast í gegnum yfirráð eða hlutdeild, eða aðstæður, þar sem tveir eða fleiri aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eru varanlega tengdir einum og sama aðilanum yfirráðatengslum.
     7.      Ráðgjöf: Persónuleg ráðlegging fyrir viðskiptavin að beiðni hans eða að frumkvæði dreifingaraðila vegna eins eða fleiri vátryggingarsamninga.
     8.      Útibú: Útibú eða umboð dreifingaraðila vátrygginga sem er staðsett í öðru aðildarríki en heimaríki.
     9.      Varanlegur miðill: Tæki sem gerir viðskiptavini kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma.
     10.      Vátryggingafélag: Frumtrygginga- eða endurtryggingafélag sem starfar samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.
     11.      Vátryggingamiðlari: Einstaklingur eða lögaðili, með starfsleyfi skv. 4. gr., sem dreifir frum- og/eða endurtryggingum gegn gjaldi.
     12.      Vátryggingasölumaður: Starfsmaður sem starfar við dreifingu vátrygginga á vegum vátryggingafélags, vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns og á ábyrgð þeirra.
     13.      Vátryggingaumboðsmaður: Einstaklingur eða lögaðili sem á grundvelli samnings dreifir frum- og/eða endurtryggingum á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga og á ábyrgð þeirra gegn endurgjaldi.

II. KAFLI

Starfsleyfi vátryggingamiðlara og fjárhagslegar kröfur.

4. gr.

Starfsleyfi.

    Fjármálaeftirlitið veitir vátryggingamiðlara starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Vátryggingamiðlara er heimilt að hefja starfsemi þegar Fjármálaeftirlitið hefur veitt starfsleyfi og skráð viðkomandi.

5. gr.

Umsókn um starfsleyfi.

    Umsókn um starfsleyfi vátryggingamiðlara skal vera skrifleg og skulu eftirfarandi skilyrði vera uppfyllt til að fá starfsleyfi:
     a.      ef um lögaðila er að ræða skal vera staðfesting á að stjórn og framkvæmdastjóri lögaðila fullnægi kröfum skv. 22. gr. og eftir atvikum 25. gr.,
     b.      ef um einstakling er að ræða skal vera staðfesting á að hann fullnægi kröfum skv. 22. gr. og eftir atvikum 25. gr.,
     c.      vera skal til staðar vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu og skilmála hennar ásamt heiti og aðsetri hlutaðeigandi vátryggingafélags,
     d.      ekki skulu vera náin tengsl við aðra starfsemi eða einstaklinga sem geta hindrað eftirlit Fjármálaeftirlitsins.
    Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja umsókn um starfsleyfi:
     1.      Nafn, kennitala og lögheimili umsækjanda.
     2.      Nöfn, kennitölur og lögheimili stofnenda og hluthafa ef um lögaðila er að ræða.
     3.      Nöfn, kennitölur og lögheimili stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda ef um lögaðila er að ræða.
     4.      Ef um lögaðila er að ræða, upplýsingar um hluthafa, hvort sem það eru einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meira en 10% eignarhlut í starfseminni.
     5.      Upplýsingar um greinaflokka vátrygginga sem miðla á, sbr. 20. og 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.
     6.      Samþykktir lögaðilaef við á.
     7.      Upplýsingar um fyrirhugað starfsskipulag þar sem meðal annars skal greina frá fyrirhugaðri starfsemi, starfsstöð, fjölda starfsmanna, innra eftirliti og áhættustýringu.
     8.      Áætlun um starfsemina þar sem koma skal fram:
                  a.      rökstutt mat á kostnaði við að koma starfseminni á fót og hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði,
                  b.      áætluð staða samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu reikningsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld,
                  c.      áætlun um hvernig umsækjandi hyggst standa við skuldbindingar sínar fyrstu þrjú reikningsárin.
     9.      Ef um lögaðila er að ræða, staðfesting á að starfsmenn hans uppfylli kröfur skv. 23. gr. og eftir atvikum 25. gr.
     10.      Greinargerð um náin tengsl við vátryggingafélög og vátryggingamiðlara.
     11.      Í hvaða aðildarríkjum er fyrirhugað að dreifa vátryggingum.
     12.      Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

6. gr.

Veiting starfsleyfis.

    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst.
    Í starfsleyfi skal koma fram til hvaða greinaflokka vátryggingastarfsleyfið tekur.
    Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu um starfsleyfi vátryggingamiðlara í Lögbirtingablaði.

7. gr.

Synjun starfsleyfis.

    Fullnægi umsókn um starfsleyfi ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal umsókninni hafnað.
    Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Hafi fullbúin umsókn ekki borist Fjármálaeftirlitinu innan sex mánaða frá móttöku skal umsókninni hafnað.

8. gr.

Heiti.

    Sá einn má nota heitið vátryggingamiðlari sem hefur starfsleyfi hér á landi og er skráður í miðlaraskrá.
    Sé hætta á að villst verði á nafni erlends vátryggingamiðlara sem starfar hér á landi á grundvelli X. kafla og innlends vátryggingamiðlara getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annar aðilinn verði auðkenndur sérstaklega.

9. gr.

Breyting á starfsemi.

    Vátryggingamiðlari sem hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga skal sækja um leyfi til Fjármálaeftirlitsins fyrir hinni nýju starfsemi. Í umsókn skal koma fram hvaða greinaflokka fyrirhugað er að taka upp. Þá skulu fylgja umsókn gögn sem sanna að gild starfsábyrgðartrygging sé fyrir hendi. Um afgreiðslu umsóknarinnar fer skv. 6. gr.

10. gr.

Takmarkanir á starfsemi.

    Vátryggingamiðlari skal einungis dreifa frumtryggingum á vegum vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi. Starfsleyfi vátryggingafélags í öðru aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi, enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi varðandi heimildir til að stofna útibú eða veita þjónustu án starfsstöðvar hér á landi.
    Fjármálaeftirlitið getur, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, heimilað undanþágur frá 1. mgr.

11. gr.

Fjárhagsleg staða. Áætlun.

    Vátryggingamiðlari skal á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Ef líkur eru á því að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum skal hann gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir stöðu sinni og leggja fyrir það áætlun um endurreisn fjárhags. Fjármálaeftirlitið ákveður hvort þær ráðstafanir teljast fullnægjandi.
    Áætlun skv. 1. mgr. skal meðal annars innihalda áætlaðan rekstrarkostnað, sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld og áætlaðan efnahagsreikning.
    Gefi ársreikningur vátryggingamiðlara Fjármálaeftirlitinu vísbendingu um að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum getur Fjármálaeftirlitið gert honum að skila áætlun skv. 1. mgr.
    Meðan áætlun skv. 1. mgr. er í gildi skal Fjármálaeftirlitið ekki framsenda tilkynningu vegna ráðagerða vátryggingamiðlara um starfsemi í öðru aðildarríki, sbr. 39. og 40. gr.

12. gr.

Starfsábyrgðartrygging vátryggingamiðlara og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð.

    Vátryggingamiðlara og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í starfi þeirra eða starfsmanna þeirra. Slík trygging getur verið vátrygging tekin hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða önnur trygging jafngild að mati Fjármálaeftirlitsins.
    Starfsábyrgðartrygging vátryggingamiðlara skal tekin til eins árs í senn og vátryggingafjárhæðin að lágmarki vera jafnvirði 1,25 milljóna evra í íslenskum krónum vegna hvers tjónsatviks og jafnvirði 1,85 milljóna evra í íslenskum krónum vegna allra tjónsatvika á vátryggingartímabilinu.
    Vátryggingamiðlari skal senda Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðartryggingar.
    Vátryggingamiðlari skal birta upplýsingar um það á vef sínum hjá hvaða vátryggingafélagi hann hefur starfsábyrgðartryggingu eða hvaða aðra jafngilda tryggingu hann hefur, sbr. 2. málsl. 1. mgr.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur sem breyta vátryggingafjárhæðum starfsábyrgðartryggingar skv. 2. mgr. sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar.

13. gr.

Viðtaka fjármuna.

    Vátryggingamiðlari má ekki taka við iðgjöldum, vátryggingarbótum eða öðrum fjármunum fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptavinar nema samkvæmt sannanlegu umboði.
    Fara skal með fjármuni sem viðskiptavinur greiðir til vátryggingamiðlara sem tilheyra vátryggingafélagi eins og þeir hafi verið greiddir til félagsins. Fjármunir sem tilheyra viðskiptavini sem vátryggingafélag greiðir vátryggingamiðlara teljast ekki hafa borist viðskiptavininum fyrr en hann fær þá afhenta.

14. gr.

Vörslufjárreikningar.

    Vátryggingamiðlara er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi. Vextir, sem á vörslufé kunna að falla, renna til eiganda þess. Vátryggingamiðlari er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi samkvæmt þessari grein og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.
    Ráðherra setur reglugerð um vörslufjárreikninga.

III. KAFLI

Skráning.

15. gr.

Skrá.

    Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir vátryggingamiðlara sem hafa leyfi til að dreifa vátryggingum hér á landi, vátryggingaumboðsmenn og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð hér á landi.
    Vátryggingafélög með starfsleyfi hér á landi og útibú vátryggingafélaga utan Íslands með starfsleyfi hér á landi sem gera samning við vátryggingaumboðsmenn eða aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð skulu tilkynna þá til Fjármálaeftirlitsins ásamt upplýsingum skv. 3. mgr.
    Eftirfarandi atriði skulu skráð hjá Fjármálaeftirlitinu:
     1.      Nafn, kennitala og lögheimili aðila.
     2.      Útgáfudagur starfsleyfis vátryggingamiðlara.
     3.      Vátryggingamiðlarar, vátryggingaumboðsmenn og aðilar sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð sem hafa fengið leyfi til að veita þjónustu eða reka útibú hér á landi.
     4.      Greinaflokkar vátrygginga sem heimilt er að dreifa.
     5.      Tengsl við vátryggingafélög, vátryggingamiðlara og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð.
     6.      Heiti og aðsetur þess vátryggingafélags er veitir lögboðna starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlara og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð. Gildistími vátryggingarinnar og vátryggingarfjárhæð.
     7.      Nöfn, kennitölur og heimili stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, þegar við á.
     8.      Í hvaða ríkjum starfsemi er stunduð á grundvelli 39. og 40. gr.
    Allar breytingar á skráningu skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu eins fljótt og unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að þær hafa tekið gildi. Fjármálaeftirlitið skal yfirfara reglulega hvort skráningar séu réttar.
    Uppfylli skráningarskyldur aðili ekki lengur kröfur til skráningar skal tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins sem tekur hann af skránni.
    Fjármálaeftirlitið skal synja aðila skv. 1. mgr. um skráningu ef lög og reglur ríkis utan aðildarríkja gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem aðilinn hefur náin tengsl við eða vandkvæði við framkvæmd laga þessara koma í veg fyrir að það geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
    Skráin skal vera aðgengileg á vef Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið skal veita Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni upplýsingar úr skránni.

IV. KAFLI

Vátryggingaumboðsmenn.

16. gr.

Skráning vátryggingaumboðsmanns hjá vátryggingafélagi.

    Þegar vátryggingafélag hefur gert samning við vátryggingaumboðsmann um dreifingu á vátryggingum félagsins skal félagið skrá vátryggingaumboðsmann, sbr. 17. gr.
    Vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja starfsemi þegar hann hefur verið skráður hjá vátryggingafélagi og Fjármálaeftirlitinu, sbr. 15. gr. Skráin skal vera aðgengileg á vef viðkomandi vátryggingafélags. Þegar vátryggingaumboðsmaður hættir að dreifa vátryggingum á vegum vátryggingafélags skal hann tekinn af skrá félagsins.
    Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um skráningu vátryggingaumboðsmanns.

17. gr.

Skilyrði fyrir skráningu vátryggingaumboðsmanns.

    Áður er vátryggingafélag skráir vátryggingaumboðsmann skal félagið ganga úr skugga um að einstaklingur sem starfar sem vátryggingaumboðsmaður, vátryggingaumboðsmaður sem er lögaðili og vátryggingasölumenn sem starfa á ábyrgð vátryggingaumboðsmanns uppfylli skilyrði V. kafla.

18. gr.

Heiti.

    Sá einn má nota heitið vátryggingaumboðsmaður sem hefur verið skráður.
    Sé hætta á að villst verði á nafni erlends vátryggingaumboðsmanns sem starfar hér á landi á grundvelli X. kafla og innlends vátryggingaumboðsmanns getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annar vátryggingaumboðsmaðurinn verði auðkenndur sérstaklega.

19. gr.

Takmarkanir á starfsemi.

    Vátryggingaumboðsmaður skal einungis miðla frumtryggingum á vegum vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi. Starfsleyfi vátryggingafélags í aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi, enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi varðandi heimildir til stofnunar útibús eða til að veita hér þjónustu án starfsstöðvar.
    Fjármálaeftirlitið getur, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, heimilað undanþágur frá 1. mgr.

20. gr.

Viðtaka fjármuna.

    Vátryggingaumboðsmaður má ekki taka við iðgjöldum, vátryggingarbótum eða öðrum fjármunum fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptavinar nema samkvæmt sannanlegu umboði.

21. gr.

Vörslufjárreikningur.

    Vátryggingaumboðsmanni er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Slíkir fjármunir skulu varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi. Vextir, sem á vörslufé kunna að falla, renna til eiganda þess. Vátryggingaumboðsmaður er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi samkvæmt þessari grein og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.
    Ráðherra setur reglugerð um vörslufjárreikninga.

V. KAFLI

Hæfi og hæfni.

22. gr.

Almenn hæfis- og hæfniskilyrði vátryggingamiðlara, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra þeirra.

    Stjórnarmaður og framkvæmdastjóri vátryggingamiðlara og einstaklingur með starfsleyfi sem vátryggingamiðlari:
     a.      skulu hafa nægilega þekkingu, faglega hæfni og starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt,
     b.      skulu hafa gott orðspor,
     c.      mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota,
     d.      mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi,
     e.      mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði starfsemina.
    Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi og hæfni aðila skv. 1. mgr. til sérstakrar skoðunar.
    Breytingar á hæfisskilyrðum skulu tilkynntar til Fjármálaeftirlitsins.
    Aðilar samkvæmt þessari grein skulu geta sýnt hvaða fagþekkingu þeir hafa og að þeir fullnægi hæfisskilyrðum þessa ákvæðis sem og hæfisskilyrðum 25. gr. eins og við á.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um mat á hæfi og hæfni.

23. gr.

Hæfis- og hæfniskilyrði vátryggingasölumanna.

    Vátryggingasölumaður:
     a.      skal vera lögráða og hafa forræði á búi sínu,
     b.      skal hafa gott orðspor og ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að hann misnoti aðstöðu sína eða skaði starfsemina,
     c.      má ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Vátryggingasölumaður skal hafa næga vitneskju um þær afurðir sem hann miðlar.
    Til að tryggja hæfi vátryggingasölumanna skulu vátryggingafélög og vátryggingamiðlarar hafa stefnu og sérstakt ferli þar að lútandi sem er endurskoðað reglulega. Í ferlinu skal tilgreint til hvaða ráðstafana skuli grípa ef breytingar verða á hæfi vátryggingasölumanna. Einnig skulu þau hafa skrá yfir gögn vegna þessa og tilgreina nafn ábyrgðaraðila ef Fjármálaeftirlitið óskar þess.
    Vátryggingamiðlarar og vátryggingafélög skulu tryggja að vátryggingasölumenn þeirra hafi nægt hæfi og hæfni til starfans.

24. gr.

Hæfis- og hæfniskilyrði aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð.

    Sá sem ber ábyrgð á dreifingu vátrygginga sem aukaafurð:
     a.      skal vera lögráða og hafa forræði á búi sínu,
     b.      skal hafa gott orðspor og ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að hann misnoti aðstöðu sína eða skaði starfsemina,
     c.      má ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð skal hafa næga vitneskju um þær afurðir sem hann selur.

25. gr.

Sérstök hæfis- og hæfniskilyrði.

    Við dreifingu skaðatrygginga skv. 1. mgr. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, skal dreifingaraðili auk skilyrða samkvæmt þessum kafla hafa lágmarksþekkingu á:
     a.      skilmálum vátrygginga sem eru í boði, þ.m.t. allri viðbótaráhættu ef hún er til staðar,
     b.      gildandi lögum um dreifingu vátrygginga, vátryggingarsamninga, neytendavernd og persónuvernd, viðeigandi skattalögum og félagsmála- og vinnulöggjöf,
     c.      meðferð tjónakrafna,
     d.      meðferð kvartana,
     e.      hvernig meta skal þarfir viðskiptavina,
     f.      vátryggingamarkaði,
     g.      reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti,
     h.      fjármálum.
    Aðilar sem dreifa persónutryggingum skv. 2. mgr. 20. gr. og 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, hafi þekkingu á lögum um dreifingu á vátryggingum, vátryggingarsamningum, neytendavernd, persónuvernd, peningaþvætti og eftir atvikum skatta- og vinnulöggjöf og stýringu á hagsmunaárekstrum. Þeir skulu einnig hafa lágmarksþekkingu á:
     a.      vátryggingum, þ.m.t. skilmálum, tryggðum bótum og viðbótaráhættu ef hún er til staðar,
     b.      skipulagi og bótarétti lífeyriskerfa hér á landi,
     c.      vátryggingamarkaði og þjónustu á fjármálamarkaði,
     d.      meðferð kvartana,
     e.      hvernig meta skal þarfir viðskiptavinar,
     f.      reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti,
     g.      fjármálum.
    Við dreifingu á vátryggingatengdum fjárfestingarafurðum skal dreifingaraðili hafa þekkingu á stýringu hagsmunaárekstra og lágmarksþekkingu á:
     a.      vátryggingatengdum fjárfestingarafurðum, þ.m.t. skilmálum, iðgjaldi og eftir atvikum tryggðum eða ótryggðum ávinningi,
     b.      kostum og ókostum á mismunandi fjárfestingarvalkostum vátryggingartaka,
     c.      fjárhagslegri áhættu sem viðskiptavinur ber,
     d.      skilmálum vátrygginga sem gilda um líftryggingar og aðrar sparnaðarafurðir,
     e.      skipulagi lífeyriskerfa hér á landi og bótarétti samkvæmt þeim,
     f.      gildandi lögum um dreifingu vátrygginga, lögum um vátryggingarsamninga, lögum um neytendavernd, peningaþvætti og viðeigandi skattalögum,
     g.      vátryggingamarkaði og markaði með sparnaðarafurðir,
     h.      meðferð kvartana,
     i.      hvernig meta skal þarfir viðskiptavinar,
     j.      reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti,
     k.      fjármálum sem varða vátryggingar.

26. gr.

Endurmenntun.

    Til að tryggja þekkingu og hæfni framkvæmdastjóra vátryggingamiðlara sem er lögaðili, einstaklings með starfsleyfi sem vátryggingamiðlari og vátryggingasölumanna skulu þeir árlega sækja sér endurmenntun eða starfsþjálfun í að minnsta kosti 15 klukkustundir.
    Endurmenntun eða starfsþjálfun skal vera í samræmi við starfsemi dreifingaraðila. Dreifingaraðili skal geta sýnt fram á með sannanlegum hætti að hann hafi sótt sér endurmenntun eða starfsþjálfun.

VI. KAFLI

Starfshættir vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanns.

27. gr.

Yfirsýn yfir starfsemi og sérstakar ráðstafanir.

    Vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður skulu gæta þess að:
     a.      framkvæmdastjóri hafi yfirsýn yfir rekstur starfseminnar, þar á meðal fjárhagslega stöðu,
     b.      sá starfsmaður sem hefur umsjón með daglegri starfsemi vegna dreifingar vátryggingar hafi yfirsýn yfir rekstur starfseminnar,
     c.      fjöldi vátryggingasölumanna sem starfa á hans vegum sé hæfilegur svo fullvíst megi telja að hann hafi yfirsýn yfir reksturinn.

28. gr.

Ráðningar- eða verksamningar.

    Vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður skulu gera skriflegan ráðningar- og/eða verksamning við vátryggingasölumenn sem eru í þjónustu þeirra eða koma fram fyrir þeirra hönd. Þar skal kveðið á um réttindi og skyldur aðila, þar á meðal um að vátryggingasölumaður starfi á ábyrgð og undir stjórn og eftirliti þeirra.

29. gr.

Umboð.

    Vátryggingamiðlari skal hafa sannanlegt umboð frá viðskiptavini áður en hann tekur til starfa fyrir hann. Í umboðinu skal koma fram í hverju umboðið felst, hversu víðtækt það er og til hvaða þátta á starfssviði hans það nær. Einnig skal koma fram hvort honum er heimilt að taka við fjármunum fyrir hönd viðskiptavinar og um skil á þeim.

30. gr.

Skilríki.

    Hver sá sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem gefin eru út af vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni sem hann starfar fyrir.

31. gr.

Trúnaðarupplýsingar.

    Vátryggingamiðlari, vátryggingaumboðsmaður, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, vátryggingasölumenn, aðrir starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptavina, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu á sama hátt og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingarnar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
    Við dreifingu vátrygginga skal fullnægja skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

VII. KAFLI

Eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir. Endurgjald.

32. gr.

Eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir.

    Dreifingaraðili skal starfa á heiðarlegan, sanngjarnan og faglegan hátt í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði og með hag neytenda fyrir augum. Hann skal tryggja að allar upplýsingar til viðskiptavina, þ.m.t. markaðsefni, séu í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Verði misbrestur á því skal Fjármálaeftirlitið gefa fyrirmæli um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti dreifingaraðila. Í reglunum skal meðal annars kveðið á um almenn samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana.

33. gr.

Endurgjald.

    Dreifingaraðili skal tryggja að endurgjald fyrir dreifingu vátrygginga brjóti ekki í bága við þá skyldu að hafa hagsmuni væntanlegs vátryggingartaka að leiðarljósi og að hafa í heiðri eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.
    Endurgjald má ekki vera þess eðlis að það hvetji til þess að mælt sé með tiltekinni vátryggingu umfram aðra sem hentar þörfum væntanlegs vátryggingartaka betur.
    Væntanlegur vátryggingartaki skal upplýstur um endurgjald sem dreifingaraðili þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna. Skýrt skal koma fram hvor skuli greiða endurgjaldið, væntanlegur vátryggingartaki eða vátryggingafélag.
    Aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð og er undanþeginn lögum þessum skv. 2. mgr. 2. gr. skal tryggja að endurgjald sé í samræmi við skilyrði 1. og 2. mgr.

VIII. KAFLI

Afturköllun og innlögn starfsleyfis vátryggingamiðlara.

34. gr.

Ástæður afturköllunar.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi vátryggingamiðlara þegar:
     a.      vátryggingamiðlari hefur fengið starfsleyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
     b.      vátryggingamiðlari hefur ekki gilda starfsábyrgðartryggingu,
     c.      eftirlitsgjald er í vanskilum,
     d.      vátryggingamiðlari eða starfsfólk hans uppfyllir ekki hæfisskilyrði sem fram koma í V. kafla,
     e.      starfsleyfi hefur ekki verið nýtt innan tólf mánaða frá því að það var veitt, því verið ótvírætt afsalað eða starfsemi hefur verið hætt í meira en sex mánuði samfellt,
     f.      vátryggingamiðlari brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal vátryggingamiðlara veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.
    Við afturköllun starfsleyfis skal Fjármálaeftirlitið taka vátryggingamiðlara af skrá skv. 15. gr.

35. gr.

Tilkynning um afturköllun starfsleyfis.

    Afturköllun á starfsleyfi vátryggingamiðlara skal tilkynnt fyrirsvarsmanni eða stjórn vátryggingamiðlara og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu í Lögbirtingablaði og á vef sínum. Starfræki vátryggingamiðlari útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal senda lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki tilkynningu.

36. gr.

Innlögn starfsleyfis.

    Hyggist vátryggingamiðlari hætta starfsemi, standi hann ekki lengur fyrir sjálfstæðri starfsemi eða starfi hann ekki lengur hjá vátryggingamiðlara skal hann skila inn starfsleyfi sínu.
    Áður en vátryggingamiðlari hættir starfsemi og leggur inn starfsleyfi sitt skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttarstöðu viðskiptavina sinna. Hann skal upplýsa viðsemjendur sína, þ.e. vátryggingafélög og þá sem hafa falast eftir vátryggingu, um innlögn starfsleyfis. Hann skal jafnframt leitast við að fá annan til þess bæran aðila, einn eða fleiri, til að taka að sér að þjónusta gildandi vátryggingarsamninga. Hann skal gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum.
    Vátryggingamiðlara sem hyggst skila inn starfsleyfi sínu skv. 1. mgr. er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á innlögn leyfis.
    Við innlögn starfsleyfis skal vátryggingamiðlari felldur út af skrá Fjármálaeftirlitsins sem birtir tilkynningu um það í Lögbirtingablaði.
    Óski aðili sem lagt hefur starfsleyfi inn að hefja starfsemi að nýju fer um þá umsókn eftir ákvæðum II. kafla.

IX. KAFLI

Tilkynningar og skil á gögnum vátryggingamiðlara.

37. gr.

Skil ársreiknings.

    Vátryggingamiðlari skal senda Fjármálaeftirlitinu ársreikning endurskoðaðan af löggiltum endurskoðanda eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Ársreikningur skal undirritaður af vátryggingamiðlara og stjórn og framkvæmdastjóra þegar um lögaðila er að ræða.
    Í skýringum ársreiknings skal greina frá heildarfjárhæð fjármuna sem vátryggingamiðlari varðveitir á vörslufjárreikningum í árslok fyrir hönd viðskiptaaðila, sbr. 14. gr. Þá skal fylgja yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að meðferð vátryggingamiðlara á fjármunum undangengið reikningsár sé í samræmi við lög þessi og reglur um vörslufjárreikninga.
    Ársreikningi skal fylgja skrá yfir þau vátryggingafélög sem miðlað er til vegna vátryggingaráhættu hér á landi ásamt iðgjaldamagni og þóknun frá hverju félagi vegna vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á, sundurliðað eftir greinaflokkum vátrygginga. Einnig skal fylgja greinargerð um önnur tengsl við vátryggingafélög.

38. gr.

Tilkynning um framkomna skaðabótakröfu.

    Vátryggingamiðlari skal þegar í stað tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef skaðabótakrafa er gerð vegna starfa hans. Í tilkynningunni skulu koma fram upplýsingar um efni og fjárhæð kröfunnar.

X. KAFLI

Stofnun útibúa og frjálst flæði þjónustu.

39. gr.

Þjónusta án starfsstöðvar í öðru aðildarríki.

    Vátryggingamiðlari með starfsleyfi hér á landi, vátryggingaumboðsmaður og aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð sem eru skráðir hér á landi og hyggjast veita þjónustu án starfsstöðvar í öðru aðildarríki skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu slíka fyrirætlan. Í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skal koma fram:
     1.      Heiti, kennitala, heimilisfang og skráningarnúmer.
     2.      Aðildarríki þar sem viðkomandi hyggst veita þjónustu án starfsstöðvar.
     3.      Hvaða starfsemi er fyrirhuguð og heiti vátryggingafélags ef við á.
     4.      Greinaflokkar vátrygginga ef við á.
    Fjármálaeftirlitið skal innan mánaðar frá móttöku tilkynningar tilkynna eftirlitsstjórnvaldi gistiríkis fyrirætlan aðila um að veita þar þjónustu án starfsstöðvar.
    Heimilt er að hefja starfsemi einum mánuði eftir að Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt aðilum skv. 1. mgr. að tilkynning um fyrirhugaða starfsemi hafi verið send gistiríki.
    Breytingar sem verða á upplýsingum skv. 1. mgr. skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu að minnsta kosti mánuði áður en þær taka gildi. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna gistiríkinu um breytingarnar eins fljótt og unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að þær berast Fjármálaeftirlitinu.

40. gr.

Stofnun útibús í öðru aðildarríki.

    Vátryggingamiðlari með starfsleyfi hér á landi, vátryggingaumboðsmaður og aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð sem skráðir eru með starfsleyfi hér á landi og hyggjast stunda starfsemi í öðru aðildarríki með stofnun útibús skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu slíka fyrirætlan. Í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skal koma fram:
     1.      Heiti, kennitala, heimilisfang og skráningarnúmer.
     2.      Aðildarríki þar sem viðkomandi hyggst stofna útibú.
     3.      Hvaða starfsemi er fyrirhuguð og heiti vátryggingafélags ef við á.
     4.      Greinaflokkar vátrygginga ef við á.
     5.      Heimilisfang í gistiríki þar sem nálgast má gögn.
     6.      Nafn þess aðila sem stjórnar útibúinu.
    Fjármálaeftirlitið skal innan mánaðar frá móttöku tilkynningar tilkynna eftirlitsstjórnvaldi í gistiríki fyrirætlan um að stofna útibú. Fjármálaeftirlitið skal upplýsa aðila skv. 1. mgr. um tilkynninguna.
    Aðilum skv. 1. mgr. er heimilt er að hefja starfsemi einum mánuði eftir að Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt þeim að tilkynning um fyrirhugaða starfsemi hafi verið send gistiríki.
    Fjármálaeftirlitið getur hafnað því að tilkynna gistiríki um fyrirætlan aðila skv. 1. mgr. að stofna útibú ef það hefur ástæðu til þess að ætla að stjórnskipulag eða fjárhagsstaða hans sé ófullnægjandi. Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja ákvörðunina og upplýsa viðkomandi aðila um ákvörðunina innan mánaðar frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr.
    Breytingar sem verða á upplýsingum skv. 1. mgr. skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu að minnsta kosti mánuði áður en þær taka gildi. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna gistiríkinu um breytingarnar eins fljótt og unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að þær berast Fjármálaeftirlitinu.

41. gr.

Þjónusta án starfsstöðvar og útibú hér á landi.

    Vátryggingamiðlari sem er með starfsleyfi í öðru aðildarríki, vátryggingaumboðsmaður, og aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð sem skráðir eru í öðru aðildarríki geta stofnað útibú hér á landi eða veitt þjónustu án starfsstöðvar. Fjármálaeftirlitið skal staðfesta móttöku tilkynningar um það frá eftirlitsstjórnvaldi í heimaríki viðkomandi aðila innan mánaðar.
    Fjármálaeftirlitið skal upplýsa aðila um að hann skuli fara eftir reglum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti hér á landi og senda honum tengil á reglurnar á vef Fjármálaeftirlitsins.
    Heimilt er að hefja starfsemi einum mánuði eftir að tilkynningin berst Fjármálaeftirlitinu.

42. gr.

Stofnun útibús vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna utan aðildarríkja hér á landi.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanni og aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi. Um leyfisveitingu og starfsemi slíkra aðila gilda ákvæði XXI. kafla laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.

XI. KAFLI

Eftirlit.

43. gr.

Almennt eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi samkvæmt lögum þessum, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um vátryggingastarfsemi og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa. Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.
    Ef vátryggingamiðlari, vátryggingaumboðsmaður eða aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð og hefur starfsleyfi eða er skráður hér á landi en meginstarfsstöð er í öðru aðildarríki getur Fjármálaeftirlitið gert samkomulag við eftirlitsstjórnvald þess ríkis um að það komi fram sem eftirlitsstjórnvald viðkomandi aðila vegna ákvæða laga þessara. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna viðkomandi aðila og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um slíkt fyrirkomulag án tafar. Fjármálaeftirlitið getur gert samkomulag um að vera eftirlitsstjórnvaldið ef aðili með starfsleyfi eða skráningu í öðru aðildarríki er með meginstarfsstöð hér á landi.

44. gr.

Eftirlit með þjónustu án starfsstöðvar.

    Hafi Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla að þjónusta vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanns eða aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð án starfsstöðvar hér á landi sé ekki í samræmi við lög þessi skal það tilkynna eftirlitsstjórnvaldi heimaríkis viðkomandi aðila um það. Ef ekki eru gerðar úrbætur að kröfu eftirlitsstjórnvalds heimaríkis eða þær eru ekki nægjanlegar og starfsemin er skaðleg fyrir neytendur eða vátryggingamarkaðinn hér á landi skal Fjármálaeftirlitið grípa til nauðsynlegra ráðstafana. Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið stöðvað frekari starfsemi vegna dreifingar vátrygginga hér á landi og bannað nýja starfsemi.
    Fái Fjármálaeftirlitið tilkynningu frá eftirlitsstjórnvaldi gistiríkis um að starfsemi vegna þjónustu vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanns eða aðila sem dreifir vátryggingu án starfsstöðvar í öðru aðildarríki sé ekki í samræmi við gildandi lög þar skal það grípa til viðeigandi ráðstafana og tilkynna eftirlitsstjórnvaldinu um þær.
    Fjármálaeftirlitið getur vísað málum skv. 1. og 2. mgr. til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar og óskað aðstoðar skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna aðilum um ráðstafanir sem það grípur til skv. 1. og 2. mgr. Einnig skal það tilkynna eftirlitsstjórnvaldi í heimaríki, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni eða Eftirlitsstofnun EFTA eftir því sem við á og framkvæmdastjórn ESB um ráðstafanirnar.

45. gr.

Eftirlit með útibúum.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að starfsemi útbúa skv. 41. gr. hér á landi sé í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Hafi Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla að starfsemi útibús hér á landi sé ekki í samræmi við lög þessi skal það tilkynna eftirlitsstjórnvaldi heimaríkis um það. Fái Fjármálaeftirlitið slíka tilkynningu frá eftirlitsstjórnvaldi gistiríkis vegna útibús í öðru aðildarríki skal það grípa til viðeigandi ráðstafana og tilkynna eftirlitsstjórnvaldinu um þær.
    Ef útibú hér á landi gerir ekki úrbætur að kröfu eftirlitsstjórnvalds heimaríkis eða þær ráðstafanir eru ekki nægjanlegar og starfsemin skaðleg fyrir neytendur eða vátryggingamarkaðinn hér á landi skal Fjármálaeftirlitið grípa til nauðsynlegra ráðstafana.
    Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið bannað frekari starfsemi hér á landi. Fjármálaeftirlitið getur enn fremur óskað aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna útibúi um ráðstafanir sem það grípur til skv. 2. og 3. mgr. Einnig skal það tilkynna eftirlitsstjórnvaldi í heimaríki, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni eða Eftirlitsstofnun EFTA um ráðstafanirnar, eftir því sem við á, sem og framkvæmdastjórn ESB.

46. gr.

Eftirlitsgjald.

    Vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi útgefið af Fjármálaeftirlitinu skulu árlega greiða eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar í samræmi við ákvæði laga þar um. Jafnframt skulu vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn sem heimild hafa til að starfa hér á landi skv. 42. gr. greiða eftirlitsgjald árlega.

XII. KAFLI

Ágreiningur.

47. gr.

Úrskurðarnefnd vegna dreifingar vátrygginga.

    Ágreiningi milli dreifingaraðila og viðskiptavina þeirra um réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum má vísa til úrskurðarnefndar um dreifingu vátrygginga.
    Úrskurðarnefndin kveður upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda en aðilar máls geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla.

XIII. KAFLI

Viðurlög.

48. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum eða reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      2. mgr. 1. gr. um heimild til handa tilteknum aðilum til að miðla vátryggingum.
     2.      5. gr. um vísvitandi ranga upplýsingagjöf í umsókn sem leiðir til þess að starfsleyfi skv. 4. gr. er gefið út á röngum forsendum.
     3.      8. gr. um heiti vátryggingamiðlara.
     4.      9. gr. um breytingu á starfsemi.
     5.      1. mgr. 10. gr. um að vátryggingamiðlari skuli einungis miðla frumtryggingum á vegum vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi.
     6.      2. málsl. 1. mgr. 11. gr. um fjárhagslega stöðu vátryggingamiðlara og viðbrögð við því ef líkur eru á því að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.
     7.      12. gr. um starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlara.
     8.      13. gr. um viðtöku fjármuna án heimildar.
     9.      1. mgr. 14. gr. um vörslufjárreikning vátryggingamiðlara.
     10.      1.–4. mgr. 15. gr. um kröfu um að tilkynna starfsemi til Fjármálaeftirlitsins.
     11.      1.–3. mgr. 16. gr. um skráningu umboðsmanns.
     12.      17. gr. um skilyrði skráningar.
     13.      1. mgr. 18. gr. um heiti vátryggingaumboðsmanns.
     14.      1. málsl. 1. mgr. 19. gr. um takmarkanir á starfsemi vátryggingaumboðsmanns.
     15.      20. gr. um viðtöku vátryggingaumboðsmanns á fjármunum.
     16.      21. gr. um vörslufjárreikning vátryggingaumboðsmanns.
     17.      22.–24. gr. um hæfis- og hæfniskilyrði.
     18.      3. mgr. 22. gr. um að tilkynna ekki breytingar á hæfisskilyrðum til Fjármálaeftirlitsins.
     19.      3. og . mgr. 23. gr. um stefnu og sérstakt ferli til að tryggja hæfi vátryggingasölumanna.
     20.      25. gr. um sérstök hæfis- og hæfniskilyrði.
     21.      26. gr. um endurmenntun.
     22.      27. gr. um yfirsýn yfir starfsemi.
     23.      28. gr. um ráðningar- og verksamninga.
     24.      29. gr. um umboð.
     25.      30. gr. um skilríki.
     26.      31. gr. um þagnarskyldu dreifingaraðila vátrygginga o.fl.
     27.      32. gr. um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.
     28.      33. gr. um endurgjald.
     29.      1.–3. mgr. 36. gr. um innlögn starfsleyfis.
     30.      37. gr. um skil á ársreikningi og fylgigögnum.
     31.      38. gr. um tilkynningu um framkomna skaðabótakröfu.
     32.      1. og 3. mgr. 39. gr. um starfsemi innlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna erlendis.
     33.      1. og 3. mgr. 40. gr. um stofnun útibús innlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna erlendis.
     34.      46. gr. um eftirlitsgjald.
     35.      49. gr. um sátt milli Fjármálaeftirlitsins og dreifingaraðila.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 90 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 650 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 5% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 5% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu eða allt að tvöfaldri fjárhæð hagnaðar eða taps sem komist er hjá vegna brotsins ef mögulegt er að ákvarða það. Við ákvörðun sekta skal meðal annars tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

49. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um heimild til að ljúka máli með sátt. .

50. gr.

Réttur einstaklinga.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

51. gr.

Fyrning stjórnvaldssektar.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

52. gr.

Sektir eða fangelsi.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
     1.      2. mgr. 1. gr., 8. og 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. um bann við að leyfisskyld starfsemi sé stunduð án heimildar.
     2.      1. mgr. 11. gr. um fjárhagslega stöðu vátryggingamiðlara og viðbrögð við því ef líkur eru á því að miðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.
     3.      12. gr. um starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlara og aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð.
     4.      13. gr. um viðtöku fjármuna án heimildar.
     5.      1. mgr. 14. gr. um vörslufjárreikning vátryggingamiðlara.
     6.      31. gr. um þagnarskyldu vátryggingamiðlara o.fl.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

53. gr.

    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

54. gr.

Ákvörðun kæru og afhending gagna.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

55. gr.

Tilkynning um brot.

    Dreifingaraðili vátrygginga skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot eða mögulegt brot skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gegn misrétti eða annars konar ósanngjarnri meðhöndlun sem rekja má til tilkynningar hans.
    Ef dreifingaraðili brýtur gegn skyldu sinni skv. 1. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
    Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.

XIV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

56. gr.

Innleiðing.

    Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018, frá 26. október 2018, eru með lögum þessum tekin upp 1.–3. mgr. og b-liður 4. mgr. 1. gr., 2. gr., 1.–7. mgr. 3. gr., 4.–8. gr., 1.–4. mgr., a- og c-liður 6. mgr., 7. og 8. mgr. 10. gr., 11.–16. gr., 1.–3. mgr. 17. gr., 31. gr., 33.–35. gr. og viðauki I tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga.

57. gr.

Fjárhæðir í evrum.

    Fjárhæðir í evrum sem tilgreindar eru í þessum lögum umreiknast í starfrækslugjaldmiðil vátryggingafélags miðað við sölugengi evru gagnvart umræddum gjaldmiðli í lok dags 31. október næstliðins árs.

58. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2019.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005.     

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi skv. 9. gr. laga um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005, við gildistöku þessara laga skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði þeirra og skulu uppfylla þau eigi síðar en 1. nóvember 2019.
    Hafi vátryggingamiðlari lagt inn starfsleyfi sitt fyrir gildistöku laga þessara gilda ákvæði þeirra um hvernig hann getur öðlast starfsleyfi á ný.
    Vátryggingaumboðsmenn og vátryggingasölumenn sem eru starfandi við gildistöku laga þessara skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði þeirra og skulu uppfylla þau eigi síðar en 1. nóvember 2019.

II.

    Úrskurðarnefnd skv. 47. gr. skal skipuð eigi síðar en 1. janúar 2020.
    Ráðherra skipar nefnd með fulltrúum frá dreifingaraðilum og Neytendasamtökunum sem er ætlað að koma með tillögu um skipulag, fjármögnun og málsmeðferðarreglur úrskurðarnefndarinnar. Nefndin skal ljúka störfum og skila tillögum til ráðherra fyrir árslok 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lög um dreifingu vátrygginga. Frumvarpið byggist á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga. Tilskipun 2016/97/ESB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) 26. október 2018 með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 214/2018. Verði frumvarpið að lögum mun það koma í stað laga um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005, en þau lög innleiddu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB um miðlun vátrygginga. Sú tilskipun féll úr gildi með tilkomu tilskipunar 2016/97/ESB.
    Frumvarpið er samið með aðstoð nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði 4. október 2017. Í nefndinni sátu fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Gildissvið gildandi laga um miðlun vátrygginga um starfsemi vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmenn er þrengra en efni tilskipunar 2016/97/ESB. Tilskipunin gildir um alla þá sem dreifa vátryggingum, þ.m.t. sölumenn vátryggingafélaga og aðila sem dreifa vátryggingum, sem er nýmæli. Í stað þess að nota hugtakið miðlun vátrygginga er í þessu frumvarpi lagt til, í samræmi við tilskipunina, að nota hugtakið að dreifa vátryggingum. Með dreifingu vátrygginga er í fyrsta lagi átt við starfsemi sem felst í að gefa ráðgjöf um, gera tillögu um eða undirbúa gerð vátryggingarsamnings, gera slíkan samning eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins. Í öðru lagi er átt við starfsemi sem felst í að veita upplýsingar um vátryggingarsamning eftir ákveðnum viðmiðun sem viðskiptavinur velur á vefsíðu eða á öðrum miðlum, og gera samantekt um vátryggingar sem eru í boði, ásamt verði, samanburði eða afslætti á vátryggingu ef viðskiptavinur getur gert vátryggingarsamning, beint eða óbeint, á vefsíðunni eða miðlinum. Í þriðja lagi er átt við starfsemi sem felst í að gefa ráðgjöf, gera tillögu um eða undirbúa gerð endurtryggingarsamnings, efna slíkan samning, eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins. Sama gildir þegar starfsemin er hjá endurtryggingafélagi án íhlutunar endurtryggingamiðlara. Þeir sem dreifa vátryggingum eru dreifingaraðilar. Dreifingaraðilar eru vátryggingamiðlarar, vátryggingafélög, vátryggingaumboðsmenn og aðilar sem selja vátryggingu sem aukaafurð.
    Í frumvarpinu er lagt til að þau ákvæði tilskipunarinnar sem varða starfsemi dreifingaraðila verði lögfest, þ.e. starfsleyfi, skráning, fjárhagslegar kröfur, hæfi og hæfni og starfshættir. Þá eru ákvæði tilskipunarinnar um stofnun útibúa og frjálst flæði þjónustu annarra en vátryggingafélaga ásamt eftirliti með starfseminni einnig í frumvarpinu. Lagt er til að mörg ákvæði gildandi laga um miðlun vátrygginga, sem meðal annars varða vátryggingaumboðsmenn, haldi gildi sínu.
    Þau ákvæði í tilskipuninni sem varða upplýsingaskyldu dreifingaraðila til vátryggingartaka verða lögð fram í frumvarpi sem breyta lögum um vátryggingarsamninga og er það lagt fram samhliða þessu frumvarpi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilskipun 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga var tekin upp í EES-samninginn 26. október 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018. Fyrir Alþingi hefur verið lögð þingsályktunartillaga til að staðfesta ákvörðunina. Ákvörðunin var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands sem þýðir að Ísland hefur sex mánaða frest frá töku hennar til að aflétta fyrirvaranum, sbr. 103. gr. EES-samningsins.
    Mikilvægt er að lagaumgjörð á vátryggingamarkaði á Íslandi sé vönduð og í samræmi við löggjöf annars staðar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ef tilskipunin yrði ekki innleidd í lög hér á landi yrðu reglur um dreifingu vátrygginga ekki í samræmi við reglur innan þess og það hefði áhrif á stöðu íslenskra fyrirtækja og hagsmuni íslenskra neytenda. Auk þess yrði Ísland brotlegt við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Frumvarpið felur í sér inngrip í starfsemi vátryggingamiðlara og vátryggingafélaga auk þess sem í því eru ákvæði um vátryggingaumboðsmenn og aðila sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð. Slík inngrip verða að íslenskri stjórnskipan að hafa stoð í lögum. Önnur úrræði en lagasetning koma því ekki til greina.
    Lög um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005, og lög um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, innihalda mörg ákvæði tilskipunarinnar. Sum ákvæðin eru í samræmi við tilskipunina en öðrum þarf að breyta til að þau samræmist henni. Auk þess þarf að bæta nýjum ákvæðum við íslenska löggjöf.
    Vegna þeirra breytinga sem þurfti að gera á ákvæðum laga um miðlun vátrygginga þótti tilefni til að setja ný sérlög um dreifingu vátrygginga. Í þessu frumvarpi eru ákvæði um starfsemi dreifingaraðila. Ákvæðin eru meðal annars um starfsleyfi vátryggingamiðlara og hæfi og hæfni og starfshætti þeirra sem dreifa vátryggingum.
    Tilskipunin kveður á um töluvert ítarlegri upplýsingagjöf dreifingaraðila en er í íslenskum rétti. Ákvæði um upplýsingagjöf vegna töku vátrygginga og vátryggingarsamninga eru nú í lögum um miðlun vátrygginga og lögum um vátryggingarsamninga. Reglur tilskipunarinnar um upplýsingagjöf eru einnig viðameiri og nýmæli eru mörg. Áformað er að öll ákvæði sem varða upplýsingagjöf vegna dreifingar vátrygginga og vátryggingarsamninga verði í lögum um vátryggingarsamninga.
    Meginmarkmið tilskipunar 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga er að samræma ákvæði um dreifingu vátrygginga í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þar sem tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn gildir hún einnig fyrir öll aðildarríki á EES-svæðinu.

Neytendavernd.
    Vátryggingamiðlarar hafa auk vátryggingafélaga gegnt lykilhlutverki í því að selja vátryggingar en aðrir aðilar hafa einnig selt vátryggingar. Sem dæmi má nefna ferðaskrifstofur, bílaleigur og aðra aðila sem bjóða saman fjármálaþjónustu- og vátryggingar, t.d. fjármálafyrirtæki sem bjóða kreditkort og vátryggingar með þeim.
    Markmið tilskipunarinnar er að neytendur njóti sömu verndar óháð því hvar þeir kaupa vátryggingar og einnig að jafna starfsskilyrði þeirra sem dreifa vátryggingum. Þess vegna þótti nauðsynlegt að hafa í tilskipuninni ákvæði um alla aðila sem dreifa vátryggingum. Tilskipunin nær því auk vátryggingamiðlara til vátryggingafélaga og aðila sem selja vátryggingu sem aukaafurð. Ákvæði um vátryggingaumboðsmenn eru ekki í tilskipuninni en hefð er fyrir þeirri starfsemi hér á landi sem og öðrum aðildarríkjum og því nauðsynlegt að fjalla um vátryggingaumboðsmenn sérstaklega en þeir eru áfram á ábyrgð vátryggingafélaga eins og í núgildandi lögum.
    Áföll á fjármálamarkaði hafa undirstrikað mikilvægi þess að tryggja neytendavernd. Því þótti rétt að setja reglur í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem ykju traust almennings og samræma reglur um dreifingu vátrygginga svo unnt væri að tryggja betur vernd neytenda. Einnig þótti mikilvægt að hafa reglur um vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir til að tryggja starfs- og samkeppnisskilyrði dreifingaraðila þeirra afurða.
    Tilskipunin gildir um alla aðila sem dreifa vátryggingum til neytenda. Í því felst einnig sú starfsemi að gefa upplýsingar um vátryggingarsamninga að ósk viðskiptavinar hvort sem slíkar upplýsingar eru veittar á vefsíðu eða öðrum miðli. Tilskipunin gildir hins vegar ekki um starfsemi þar sem veitt er tilfallandi ráðgjöf um vátryggingar með annarri þjónustu. Sem dæmi um slíka þjónustu er þjónusta lögmanna og endurskoðenda sem veita ráðgjöf. Tilskipunin gildir ekki um almenna upplýsingagjöf um vátryggingar, að því gefnu að tilgangur starfseminnar sé hvorki að aðstoða við gerð vátryggingarsamnings né að efna hann. Þá gildir tilskipunin ekki um kröfur sem vátryggingafélag gerir, tjónamat eða sérfræðimat á kröfum.
    Undanþegnir gildissviði tilskipunarinnar eru aðilar sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð ef iðgjald vátryggingarinnar nær ekki tiltekinni fjárhæð og vátryggða áhættan er takmörkuð. Slíkir aðilar þurfa þó að uppfylla tilteknar grunnkröfur eins og að gefa deili á sér, tilgreina hvernig unnt er að leggja fram kvörtun og taka tillit til þarfa viðskiptavinar.
    Tilskipunin á að tryggja að neytendavernd sé sambærileg innan aðildarríkja EES-samningsins og hún á að stuðla að jafnari starfsskilyrðum innan þeirra. Þá er ætlunin að stuðla að jafnara starfsumhverfi vátryggingamiðlara hvort sem þeir eru tengdir vátryggingafélagi eða ekki. Það er til hagsbóta fyrir neytendur að geta keypt vátryggingar og þjónustu með mismunandi hætti og að geta valið milligöngu vátryggingamiðlara sem hafa mismunandi fyrirkomulag við að dreifa vátryggingum, að því tilskildu að þeir starfi eftir sambærilegum reglum um neytendavernd.
    Í tilskipuninni kemur fram að þörf er á því að hafa fullnægjandi og skilvirka kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar til að skera úr um ágreining milli dreifingaraðila og viðskiptavina þeirra. Ágreiningsmálin geta varðað réttindi og skyldur viðskiptavina og er ætlað að vera skjótari og ódýrari lausn deilumála milli dreifingaraðila og viðskiptavina en að fara með mál fyrir dómstóla.

Dreifingaraðilar vátrygginga.
    Mikilvægt er að tryggja fagmennsku og hæfni þeirra sem dreifa vátryggingum og hefur tilskipunin því ítarleg ákvæði um hæfi og hæfni dreifingaraðila. Hæfi og hæfni dreifingaraðila skiptir verulegu máli þegar viðskiptavini er veitt ráðgjöf um hvaða vátryggingar eru í boði, þeim ráðlagt um val á vátryggingum og þegar vátryggingarsamningur er gerður. Þekking dreifingaraðila þarf að vera í samræmi við flækjustig vátryggingarafurðarinnar og gerð er krafa um að dreifingaraðilar þekki skilmála þeirra vátryggingarsamninga sem þeir veita ráðgjöf um eða bjóða og hvernig greina skuli þarfir viðskiptavina. Einnig skal dreifingaraðili þekkja málsmeðferðarreglur vegna mögulegra kvartana viðskiptavina vegna starfshátta dreifingaraðilans og hann skal leiðbeina viðkomandi um þann rétt að leita til úrskurðarnefndar með málið.
    Til að tryggja starfsþróun og frekari þjálfun dreifingaraðila eru í tilskipuninni ákvæði um að þeir skuli sækja 15 klukkustundir á ári í endurmenntun. Í slíkri endurmenntun felst til dæmis að sækja námskeið eða leita sér annarrar þekkingar.
    Kröfur um heilindi dreifingaraðila stuðla að traustum og áreiðanlegum vátryggingamarkaði og því er gerðar kröfur um að dreifingaraðili hafi hreint sakavottorð eða jafngildi þess og sé fjár síns ráðandi.
    Það þótti jafnmikilvægt að gera hæfis- og hæfnikröfur til aðila í yfirstjórn hjá dreifingaraðila sem er lögaðili sem og starfsfólks sem tekur beinan þátt í að dreifa vátryggingum og því eru sett ákvæði um þá aðila í tilskipuninni. Til að tryggja hæfis- og hæfniskilyrði vátryggingasölumanna er kveðið á um það í tilskipuninni að vátryggingafélög og vátryggingamiðlarar sem eru lögaðilar skuli hafa stefnu og ferla þar að lútandi.
    Vátryggingamiðlarar og vátryggingafélög sem veita ráðgjöf um vátryggingar og selja þær eiga að búa yfir fullnægjandi þekkingu á þeim vátryggingum sem eru í boði. Slík þekking og hæfni er afar mikilvæg þar sem vátryggingar verða sífellt flóknari.
    Endurgjald dreifingaraðila má ekki koma í veg fyrir að þeir starfi með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi, að þeir veiti viðeigandi ráðgjöf eða veiti upplýsingar á skýran hátt. Þá má endurgjald sem miðast við selja sem flestar vátryggingar ekki leiða til þess að mælt sé með tiltekinni vátryggingu umfram aðra.

Samstarf eftirlitsstjórnvalda í aðildarríkjum.
    Til að tryggja betur viðskipti yfir landamæri eru í tilskipuninni gerðar kröfur um gagnkvæma viðurkenningu á þekkingu og hæfni dreifingaraðila. Til að greiða fyrir viðskiptunum og auka gagnsæi fyrir viðskiptavini eiga aðildarríki að tryggja að reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti séu birtar almenningi.
    Samstarf og upplýsingaskipti milli eftirlitsstjórnvalda eru mikilvæg til að vernda viðskiptavini og stuðla að traustri dreifingu vátrygginga í aðildarríkjum. Því þarf að gera ráð fyrir upplýsingaskiptum, bæði í skráningarferlinu og eftir það, til að tryggja að fagleg hæfni og þekking dreifingaraðila standist kröfur.
    Til að tryggja gæði þjónustu og öfluga neytendavernd við dreifingu vátrygginga gerir tilskipunin ráð fyrir að eftirlitsstjórnvöld aðildarríkjanna hafi með sér samstarf til að framfylgja ákvæðum tilskipunarinnar. Eftirlitsstjórnvald hvers aðildarríkis ber ábyrgð á að starfsemi þar sé í samræmi við reglur tilskipunarinnar. Því þótti nauðsynlegt að hafa ákvæði um að eftirlitsstjórnvald gistiríkis upplýsi eftirlitsstjórnvald heimaríkis ef ekki er farið að lögum við þjónustu án starfsstöðvar eða starfsemi útibúa og að eftirlitsstjórnvald heimaríkis gæti þá gripið til viðeigandi ráðstafana. Til að tryggja fullnægjandi neytendavernd þótti einnig nauðsynlegt að setja ákvæði þess efnis að ef eftirlitsstjórnvald heimaríkis gripi ekki til fullnægjandi ráðstafana gagnvart dreifingaraðila í gistiríki gæti eftirlitsstjórnvald gistiríkis gripið til nauðsynlegra ráðstafana gagnvart honum. Þóttu slíkar ráðstafanir eiga að geta gengið það langt að heimila eftirlitsstjórnvaldi að loka útibúi í alvarlegum málum.
    Aðildarríki EES-samningsins eiga samkvæmt tilskipuninni að halda skrá yfir vátryggingamiðlara og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð. Til að tryggja gagnsæi og auðvelda flæði milli landamæra eru ákvæði í tilskipuninni sem kveða á um að skrár aðildarríkja skuli vera aðgengilegar almenningi á vef þeirra ásamt því að hafa tengil á vef Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) sem mun hafa á vef sínum tengil á skrár allra aðildarríkjanna. EIOPA mun einnig reka rafrænt gagnasafn sem geymir upplýsingar um aðila sem hyggjast opna útibú eða veita þjónustu í öðru aðildarríki. Eftirlitsstjórnvöld þurfa því að veita EIOPA þessar upplýsingar til að gagnagrunnurinn sé réttur.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Til að tryggja neytendavernd og til að neytendur geti notið ávinnings af samræmdum kröfum um upplýsingagjöf er nauðsynlegt að jafna starfsskilyrði dreifingaraðila. Frumvarpið felur í sér slíka samræmingu á starfsskilyrðum.
    Frumvarpið skiptist í níu kafla. Í I. kafla er gildissviðið tilgreint og þar eru orðskýringar. Eins og fyrr greinir gildir frumvarpið um vátryggingamiðlara, vátryggingafélög, vátryggingaumboðsmenn og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð.
    Í II. kafla eru ákvæði um starfsleyfi og fjárhagslegar kröfur. Líkt og í gildandi lögum verða vátryggingamiðlarar að hafa starfsleyfi til að geta starfað sem slíkir. Vátryggingafélög starfa á grundvelli laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, og vátryggingaumboðsmenn sem dreifa vátryggingum fyrir vátryggingafélög geta hafið starfsemi þegar viðkomandi vátryggingafélag hefur skráð þá. Aðilar sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð þurfa ekki að fá starfsleyfi en það vátryggingafélag sem þeir gera samning við skal skrá þá hjá Fjármálaeftirlitinu. Skilyrði frumvarpsins til að fá starfsleyfi sem vátryggingamiðlari eru sambærileg skilyrðum gildandi laga. Það nýmæli er lagt til í frumvarpinu að vátryggingamiðlarar megi ekki hafa náin tengsl við aðra starfsemi eða einstaklinga sem getur orðið til þess að hindra eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Einnig er það nýmæli að upplýsingar skuli liggja fyrir um þá aðila sem eiga meira en 10% eignarhlut í starfseminni.
    Í III. kafla eru ákvæði um skráningu vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og aðila sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð. Eins og í gildandi lögum um miðlun vátrygginga skal Fjármálaeftirlitið halda skrá yfir vátryggingamiðlara en að auki skal skrá aðila sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð og lagt er til að vátryggingaumboðsmenn verði einnig skráðir. Skráin skal vera aðgengileg á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins. Nýmæli er að upplýsingar um þá aðila sem eiga meira en 10% eignarhlut í starfseminni skuli skráðar.
    Í IV. kafla eru ákvæði um vátryggingaumboðsmenn. Vátryggingaumboðsmenn dreifa vátryggingum á grundvelli samnings sem þeir gera við vátryggingafélag. Vátryggingafélög skrá þá umboðsmenn sem þau gera samning við og skulu þær upplýsingar vera aðgengilegar almenningi á vefsíðu viðkomandi vátryggingafélags. Ákvæði kaflans eru nær samhljóða ákvæðum gildandi laga.
    Í V. kafla eru ákvæði um hæfi og hæfni dreifingaraðila. Í fyrsta lagi eru þar almenn hæfis- og hæfniskilyrði. Nýmæli er að tiltekið er í frumvarpinu að stjórnarmaður og framkvæmdastjóri vátryggingamiðlunar, einstaklingur sem er vátryggingamiðlari, sá sem ber ábyrgð á dreifingu vátrygginga sem aukaafurð og vátryggingasölumenn skuli að hafa gott orðspor. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar eru einnig lögð til sérstök hæfis- og hæfniskilyrði. Þessar kröfur eru meðal annars lágmarksþekking á skilmálum vátrygginga, meðferð krafna, lögum sem varða vátryggingar og reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þá er það nýmæli að framkvæmdastjóri vátryggingamiðlunar, einstaklingur sem er vátryggingamiðlari og vátryggingasölumenn skuli árlega sækja endurmenntun til að tryggja þekkingu þeirra og hæfni í starfi.
    Samkvæmt gildandi lögum skulu einstaklingur sem er vátryggingamiðlari, starfsmaður vátryggingamiðlara sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við vátryggingamiðlun og vátryggingasölumenn vátryggingamiðlara hafa staðist próf í miðlun vátrygginga til að fullnægja hæfisskilyrðum. Fallið er frá því fyrirkomulagi í frumvarpinu og er lagt til að einstaklingar sem sækja um starfsleyfi og fyrirsvarsmenn lögaðila undirgangist hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við það sem þekkist hjá öðrum aðilum sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
    Í VI. kafla eru ákvæði um starfshætti vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna. Þau eru efnislega samhljóða ákvæðum gildandi laga um miðlun vátrygginga um starfshætti.
    Í VII. kafla eru ákvæði um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og endurgjald. Í kaflanum eru lögð til ný ákvæði. Í samræmi við aðra nýlega löggjöf á fjármálamarkaði og tilskipun 2016/97/ESB er nú miðað við að viðskiptahættir séu eðlilegir og heilbrigðir í stað þess að nota hugtakið góðir viðskiptahættir eins og er í gildandi lögum. Hugtakanotkunin er í samræmi við ákvæði annarra tilskipana á fjármálamarkaði sem hafa tekið gildi á EES-svæðinu. Ákvæði um endurgjald er ítarlegra en í gildandi lögum og skal dreifingaraðili nú tryggja að endurgjald fyrir dreifingu vátrygginga brjóti ekki á bága við þá skyldu að hafa hagsmuni væntanlegs vátryggingartaka í fyrirrúmi. Þá er mælt fyrir um að endurgjald megi ekki vera þess eðlis að það hvetji til þess að mælt sé með tiltekinni vátryggingu umfram aðra sem henti vátryggingartaka betur. Til að tryggja hagsmuni neytenda skulu aðilar sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð og eru undanþegnir ákvæðum frumvarpsins einnig fara eftir ákvæðum um endurgjald.
    Í VIII. kafla eru ákvæði um afturköllun og innlögn starfsleyfis vátryggingamiðlara og í IX. kafla eru ákvæði um tilkynningar og skil á gögnum vátryggingamiðlara. Ákvæði beggja kaflanna eru nær samhljóða ákvæðum um sama efni í gildandi lögum um miðlun vátrygginga.
    X. kafli fjallar um stofnun útibúa og frjálst flæði þjónustu. Breytingar á þeim ákvæðum frá gildandi lögum eru þær að lagt er til að fleiri atriði verði tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins þegar viðkomandi aðilar hyggjast veita þjónustu í öðru aðildarríki eða stofna þar útibú. Meðal annars skal tilgreina hvaða starfsemi er fyrirhuguð og greinaflokkar vátrygginga. Þá skal einnig tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef breytingar verða á starfseminni. Í kaflanum er Fjármálaeftirlitinu gert að upplýsa viðkomandi aðila um að honum beri að fara eftir reglum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti í gistiríki og skal senda viðkomandi tengil á reglurnar á vef Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar. Ef reglur um upplýsingagjöf eru strangari í gistiríkinu en hér á landi skal einnig senda viðkomandi aðila tengil á þær reglur á vefnum og upplýsa aðila um að hann eigi að fara eftir þeim í gistiríki. Fjármálaeftirlitið mun geta hafnað því að tilkynna um starfsemi útibús ef það hefur ástæðu til að ætla að stjórnskipulag eða fjárhagsstaða félags sé þannig að það hafi ekki burði til að stofna útibúi í öðru aðildarríki.
    Í XI. kafla eru ákvæði um eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Þar eru lögð til tvö ný ákvæði, annars vegar um eftirlit með þjónustu án starfsstöðvar hér á landi og hins vegar með útibúum hér á landi. Ákvæðin fela í sér úrræði fyrir Fjármálaeftirlitið ef þessir aðilar fara ekki að lögum hér á landi. Mikilvægt nýmæli er að ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið stöðvað starfsemi þessara aðila. Í kaflanum er einnig kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti gripið til ráðstafana vegna félaga hér á landi sem hafa þjónustu eða starfsemi útibús í öðru aðildarríki.
    Í XII. kafla er það nýmæli að kveðið er á um að unnt sé að skjóta ágreiningi vegna réttinda og skyldna viðskiptavina til úrskurðarnefndar. Slíka úrskurðarnefnd þarf að setja á laggirnar og er lagt til að ráðherra skipi nefnd með fulltrúum frá dreifingaraðilum og Neytendasamtökunum sem er ætlað að gera tillögu um skipulag, fjármögnun og málsmeðferðarreglur nefndarinnar.
    Í XIII. kafla eru ákvæði um viðurlög. Viðurlög vegna nýrra ákvæða eru á grundvelli 5. gr. ef vísvitandi röng upplýsingagjöf er í umsókn sem leiðir til þess að starfsleyfi er gefið út á röngum forsendum, 4. mgr. 23. gr. um stefnu og ferli til að tryggja hæfi vátryggingasölumanna, 24. gr. um hæfi og hæfni aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð, 26. gr. um kröfur til endurmenntunar og 33. gr. um endurgjald. Þá er fallið frá því að einskorða viðurlög vegna eðlilegra og heilbrigðra viðskiptahátta við gróf eða ítrekuð brot. Aðrar viðurlagaheimildir eru efnislega samhljóða viðurlagaheimildum gildandi laga.
    Sektarheimildir samkvæmt frumvarpinu eru víkkaðar til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar. Bæði er um það að ræða að lágmarks- og hámarksfjárhæðir eru hækkaðar auk þess sem heimilt verður að miða sektir við hlutfall af veltu.
    Í XIV. kafla eru ákvæði sem tengjast innleiðingunni, um fjárhæðir í evrum og um gildistöku.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru tekin upp í lög hér á landi ákvæði tilskipunar 2016/97/ESB, um dreifingu vátrygginga, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018, frá 26. október 2018. Verði frumvarpið að lögum mun Íslands uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar vegna tilskipunarinnar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með aðstoð nefndar sem ráðherra skipaði vegna innleiðingar á tilskipun 2016/97/ESB, um dreifingu vátrygginga, í íslenskan rétt. Í nefndinni sátu fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja. Áform um lagasetningu voru send í innra samráð í Stjórnarráðinu í desember 2018 og bárust ekki athugasemdir. Áformin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 8. janúar 2019 og barst þar ábending frá ráðgjafarnefnd um eftirlit á vegum hins opinbera, samkvæmt lögum nr. 27/1999, sem tekið var tillit til eftir því sem unnt var. Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 26. febrúar 2019. Frestur til umsagna var til 10. mars 2019. Ein umsögn barst vegna frumvarpsins, frá Samtökum fjármálafyrirtækja, dags. 8. mars 2019.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) er gerð athugasemd við að ekki sé nægilega skýrt að átt sé við vátryggingafjárhæð í 2. mgr. 12. gr. þar sem fjallað erum starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlara. Þá telja samtökin að rétt sé að vátryggingamiðlara sem kjósi að hafa aðra tryggingu en starfsábyrgðartryggingu verði einnig skylt að birta þær upplýsingar á vef sínum, sbr. 4. mgr. 12. gr. Framangreindum ákvæðum var breytt í frumvarpinu til samræmis við tillögur SFF. Í umsögninni er farið yfir hugtakið dreifing vátrygginga og telur SFF mikilvægt að í greinargerð verði umfjöllun um hvar neðri mörk hugtaksins liggja til að koma í veg fyrir að ákvæðið verði túlkað á þann veg að fella aðila undir hugtakið sem ættu ekki eðli málsins samkvæmt að falla undir það. Mikilvægt sé að ekki verði litið svo á að lítil snerting við viðskiptavini, t.d. þjónusturáðgjöf í símaveri eða fyrirtæki sem bendir á tiltekið vátryggingafélag án þess þó að veita ráðgjöf um vátryggingar, falli undir hugtakið. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ákvæði tilskipunarinnar eigi ekki að gilda um starfsemi þar sem veitt er tilfallandi ráðgjöf um vátryggingar með annarri þjónustu og sem dæmi um slíka þjónustu sé þjónusta lögmanna og endurskoðenda sem veita ráðgjöf. Þá gildi tilskipunin ekki um almenna upplýsingagjöf um vátryggingar að því gefnu að tilgangur starfseminnar sé hvorki að aðstoða við gerð vátryggingarsamnings né að efna hann. Til skýrleika hefur umfjöllun um hvaða starfsmenn vátryggingafélaga falla undir hugtakið dreifing verið bætt við athugasemdir 3. gr.
    Að lokum kemur fram í umsögn SFF að í frumvarpinu felist umfangsmiklar breytingar sem kalli á undirbúning hjá vátryggingafélögunum, m.a. breytingar á skilmálum. Því sé nauðsynlegt að aðilum sem falla undir frumvarpið verði veittur nægur tími til að laga sig að breyttu lagaumhverfi. SFF leggja til að gildistöku frumvarpsins verði frestað í að minnsta kosti sex mánuði. Tilskipun 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands sem þýðir að Ísland hefur sex mánaða frest frá töku ákvörðunarinnar til að aflétta fyrirvaranum. Gert er ráð fyrir að honum verði aflétt í september 2019. Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. ágúst 2019 til að koma til móts við aðila á markaði.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu verður tilskipun 2016/97/ESB innleidd í íslenskan rétt. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að samþætta markaði og auka neytendavernd. Til að ná þessu markmiði eru gerðar auknar og samræmdar kröfur til þeirra sem dreifa vátryggingum. Kröfurnar ganga lengra og ná til fleiri aðila en núgildandi kröfur og því er líklegt að einhver breyting verði á rekstrarumhverfi þeirra sem dreifa vátryggingum. Ávinningurinn af fyrirhugaðri lagasetningu felst í því að starfsumhverfi dreifingaraðila innan Evrópska efnahagssvæðisins verður samræmt og verður það til þess fallið að jafna starfsskilyrði þeirra og auka samkeppni á markaðnum.

Áhrif á dreifingaraðila.
    Ekki er gert ráð fyrir mælanlegum áhrifum vegna frumvarpsins á dreifingaraðila. Hvorki er talið að frumvarpið takmarki fjölda dreifingaraðila á markaði né hafi áhrif á möguleika þeirra eða frumkvæði til að mæta samkeppni. Eitt af markmiðum frumvarpsins er að samræma kröfur sem gerðar eru til dreifingaraðila vátrygginga, óháð rekstrarformi eða -fyrirkomulagi, og ætti það að öllu jöfnu að skapa samræmdan samkeppnisgrundvöll. Samræming krafna sem gerðar eru til dreifingaraðila leiðir óhjákvæmilega til þess að einhverjir aðilar munu þurfa að standast kröfur sem voru ekki gerðar til þeirra áður, enda er ekki markmiðið að slaka á kröfum sem gerðar eru til markaðarins í heild. Kröfur um þekkingu á vátryggingarafurðum og endurmenntun munu hafa einhvern aukinn kostnað í för með sér, að því gefnu að aðilar hafi ekki haft frumkvæði að því að leita sér þessarar þekkingar áður. Sama má segja um kröfur til dreifingaraðila um upplýsingagjöf til væntanlegra viðskiptavina. Kostnaður við að mæta kröfum sem lagðar eru á í frumvarpinu er ekki talinn verulegur en hann getur verið mismunandi milli dreifingaraðila. Þar skiptir ekki eingöngu máli stærð aðila heldur einnig vinnuferlar og innri kröfur sem fyrirtækin hafa gert í núverandi lagaumhverfi. Þannig gæti til að mynda í einhverjum fyrirtækjum hafa verið stunduð endurmenntun starfsmanna án þess að það væri lagaskylda. Verði frumvarpið að lögum yrði breytingin minni fyrir slík fyrirtæki en önnur.
    Ekki liggur fyrir hversu margir verða fyrir áhrifum enda eru margir nýir aðilar felldir undir gildissvið frumvarpsins í samanburði við núgildandi lög. Gögn sem safnað er um markaðinn ná almennt ekki til þessara nýju aðila og því vandkvæðum bundið að áætla fjölda fyrirtækja sem verða fyrir áhrifum.
    Gögn um starfsemi vegna dreifingar á vátryggingum munu verða tiltæk hjá dreifingaraðilum og ætti því að vera unnt að meta árangur af nýjum reglum þegar fram líða stundir.

Áhrif á ríkissjóð.
    Fjármálaeftirlitið mun hafa eftirlit með framkvæmd laganna og felur frumvarpið í sér auknar skyldur þess. Í langtímaáætlun Fjármálaeftirlitsins um rekstur þess fram til ársins 2023 er lagt mat á þær skyldur. Samkvæmt því er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fyrirséðar breytingar á tekjur eða útgjöld Fjármálaeftirlitsins. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi önnur fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Efnahagsáhrif.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að samþætta starfsskilyrði dreifingaraðila og auka neytendavernd. Mismunandi lagaumhverfi dreifingar vátrygginga innan Evrópska efnahagssambandsins hefur valdið hindrunum á frjálsu flæði starfseminnar. Frumvarpið er liður í því að efla slíkt flæði til að stuðla að opnari innri markaði fyrir dreifingu líf- og skaðatryggingaafurða.
    Það er til hagsbóta fyrir neytendur ef vátryggingarafurðum er dreift með mismunandi leiðum og fyrir milligöngu vátryggingamiðlara sem hafa mismunandi fyrirkomulag á samvinnu við vátryggingafélög, að því tilskildu að allir dreifingaraðilar lúti sambærilegum reglum. Með frumvarpinu munu neytendur því njóta sömu verndar þrátt fyrir mismunandi leiðir við dreifingu vátrygginga.
    Með frumvarpinu mun umgjörð regluverks á vátryggingamarkaði styrkjast. Meiri kröfur eru gerðar um hæfi og hæfni þeirra sem dreifa vátryggingum og viðskiptavinir munu fá ítarlegri upplýsingar um vátryggingar svo þeir geti áttað sig betur á hvað felst í þeim og hvort vátryggingin henti þeim. Nýr hópur dreifingaraðila fellur undir frumvarpið sem eru aðilar sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð og nýmæli er að vátryggingafélög falli undir reglurnar.
    Með fyrirhugaðri lagasetningu eru gerðar auknar kröfur til þeirra sem dreifa vátryggingum, með samkeppnissjónarmið og neytendaverndarsjónarmið að leiðarljósi. Ekki er talið að of langt sé gengið í þeim efnum til þess að ná settum markmiðum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er gildissvið frumvarpsins tilgreint. Það gildir um vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmenn, aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð og vátryggingafélög hér á landi. Frumvarpið gildir um starfsemi þeirra við dreifingu vátrygginga en með dreifingu vátrygginga er átt við alla starfsemi sem felur í sér að veita ráðgjöf um og bjóða vátryggingar og samningsgerðina sjálfa, sbr. 3. tölul. 3. gr. Lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, gilda um starfsemi vátryggingafélaga en í þessu frumvarpi eru ákvæði sem gilda sérstaklega um dreifingu vátryggingafélaga á vátryggingum. Ákvæði sem gilda um starfsemi vátryggingafélaga í þessu frumvarpi eru meðal annars hæfis- og hæfniskilyrði vátryggingasölumanna þeirra, endurgjald og endurmenntunarkröfur.
    Ákvæðið er í samræmi við 1. og 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er tilgreint hvaða starfsemi fellur ekki undir frumvarpið. Í fyrsta lagi er það sú starfsemi þegar ráðgjöf er veitt tilfallandi um vátryggingarsamning vegna annarrar atvinnustarfsemi og ráðgjöfin leiðir ekki til þess að vátryggingarsamningur er gerður. Megintilgangur starfseminnar þarf því að vera annar en að gera vátryggingarsamning. Í öðru lagi fellur ekki undir frumvarpið starfsemi vátryggingafélags sem er tilkomin vegna bótakrafna, tjónsuppgjörs eða sérfræðimats á bótakröfum. Sérfræðimat á bótakröfum er til dæmis þegar utanaðkomandi matsmenn eru fengnir til að meta tjón. Í þriðja lagi fellur ekki undir frumvarpið sú starfsemi að afhenda gögn eða upplýsingar um mögulega vátryggingartaka þar sem ekki eru gerðar frekari ráðstafanir til að gera vátryggingarsamning. Í fjórða lagi fellur ekki undir frumvarpið sú starfsemi að gefa almennar upplýsingar um vátryggingar enda sé tilgangurinn ekki að gera vátryggingarsamning. Sú starfsemi lögmanns sem felur í sér að útskýra fyrir umbjóðanda þýðingu tiltekinnar vátryggingar fellur til dæmis ekki undir frumvarpið. Málsgreinin er í samræmi við 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.
    Í 2. mgr. er tilgreind sú starfsemi sem fellur ekki undir frumvarpið þegar vátryggingu er dreift sem aukaafurð með vöru eða þjónustu. Sú starfsemi sem fellur utan gildissviðs frumvarpsins í slíkum tilfellum er þegar vátryggingu er dreift sem viðbót við vöru eða þjónustu og vátryggingin nær yfir áhættuna á því að varan bili, glatist eða skemmist eða þjónustan ekki notuð að því gefnu að iðgjald sé ekki hærra en jafnvirði 600 evra í íslenskum krónum eða iðgjaldið nemi ekki meira en jafnvirði 200 evra í íslenskum krónum á hvern einstakling og vátryggingin gildi í þrjá mánuði eða minna. Sala á vátryggingu með raftæki getur verið dæmi um vátryggingu sem fellur undir a-lið 1. tölul. 2. mgr. Dæmi um starfsemi sem er undanþegin skv. b-lið 1. tölul. 2. mgr. er þegar vátrygging er seld með fargjaldi og vátryggingin nær yfir hættuna á því að farangur týnist eða skemmist eða aðra áhættu vegna ferðarinnar. Málsgreinin er í samræmi við 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru orðskýringar. Þær orðskýringar sem eru tilkomnar vegna tilskipunar 2016/97/ESB eru í samræmi við 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Frumvarpið gildir um þá aðila sem dreifa vátryggingum. Hugtakið að dreifa vátryggingum er nýtt og kemur í stað þess orðalags að miðla vátryggingum. Dreifing vátrygginga er víðtækara hugtak og er sú starfsemi sem felst í að veita ráðgjöf um, gera tillögu um eða undirbúa gerð vátryggingarsamnings, gera slíkan samning eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins. Einnig er það sú starfsemi sem felst í að veita upplýsingar um vátryggingarsamning eftir ákveðnum forsendum sem viðskiptavinur velur, á vefsíðu eða öðrum miðlum og að veita upplýsingar um vátryggingar sem eru í boði, þ.m.t. verð, samanburð eða afslátt, ef viðskiptavinur getur gert vátryggingarsamning, beint eða óbeint, á vefsíðunni eða miðlinum. Þegar ráðgjöf er veitt um vátryggingar á vegum vátryggingafélags þarf að liggja ljóst fyrir hvort starfsmaðurinn veitir ráðgjöf um vátryggingar, gerir tillögu um vátryggingar eða undirbýr gerð vátryggingarsamnings eða hvort starfsmaðurinn veitir aðeins almennar upplýsingar. Ekki yrði litið svo á að starfsmaður sem veitir almennar upplýsingar án þess að veita ráðgjöf eða koma á vátryggingarsamningi teljist vera að dreifa vátryggingum.
    Aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð er einnig nýtt hugtak í frumvarpinu. Um er að ræða einstakling eða lögaðila sem er með ákveðna starfsemi og dreifir vátryggingum sem aukaafurð með vöru eða þjónustu. Viðkomandi getur hvorki verið fjármála- né fjárfestingafyrirtæki né haft dreifingu vátrygginga sem aðalstarfsemi. Eingöngu getur verið um að ræða dreifingu vátrygginga sem er viðbót við sölu á vöru eða þjónustu. Sem dæmi um slíkan aðila má nefna flutningafyrirtæki sem selur vátryggingu gegn mögulegum skemmdum á vörum sem það flytur samkvæmt samningi eða hljóðfæraverslun sem selur vátryggingu með hljóðfærum sem það selur.
    Í frumvarpinu er skilgreining á varanlegum miðli og sem dæmi um geymslu upplýsinga á varanlegum miðli eru innri vefsvæði hjá fyrirtækjum, sem uppfylla þær kröfur sem eru gerðar til varanlegra miðla, þar sem viðskiptavinir hafa aðgang að gögnum sem beint er til hans.
    Aðrar nýjar skilgreiningar úr gildandi lögum um miðlun vátrygginga eru dreifingaraðili, endurgjald, náin tengsl og ráðgjöf.

Um 4. gr.

    Ákvæðið tilgreinir Fjármálaeftirlitið sem starfsleyfisveitanda fyrir vátryggingamiðlara. Það er óbreytt frá gildandi lögum. Vátryggingamiðlari getur ekki hafið starfsemi fyrr en Fjármálaeftirlitið gefur út starfsleyfi. Aðilar sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð þurfa ekki að hafa starfsleyfi en þeir skulu skráðir hjá Fjármálaeftirlitinu, sbr. 15. gr.
    Ákvæðið er í samræmi við 1., 2. og 8. málsl. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2016/97/ESB og er efnislega samhljóða 6. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga.

Um 5. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er í samræmi við 6. mgr. 3. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Í greininni er tiltekið hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að fá starfsleyfi sem vátryggingamiðlari. Nýmæli er það skilyrði að ekki megi vera náin tengsl við aðra starfsemi eða einstaklinga sem geti hindrað eftirlit Fjármálaeftirlitsins með starfsemi vátryggingamiðlara. Einnig er það nýmæli að gefa þurfi upplýsingar um þá aðila sem eiga meira en 10% eignarhlut í starfsemi vátryggingamiðlara. Við mat á því hvort umsækjandi uppfylli hæfis- og hæfniskilyrði 22. gr. og eftir atvikum 25. gr. frumvarpsins, sbr. a- og b-lið 1. mgr., þarf viðkomandi að standast hæfismat Fjármálaeftirlitsins sem nánar er kveðið á um í reglum þar að lútandi, sbr. heimild í lokamálsgrein 21. gr. Ákvæði um starfsleyfi vátryggingamiðlara er nú í 8. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 5. mgr. 3. gr. tilskipunar 2016/97/ESB og sú breyting er lögð til frá gildandi lögum um veitingu starfsleyfis, í samræmi við tilskipunina, að Fjármálaeftirlitið hafi þrjá mánuði í stað eins til að tilkynna ákvörðun um veitingu starfsleyfis. Ákvæðið er nú í 9. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er nær samhljóða 10. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en sú breyting er lögð til að Fjármálaeftirlitið skuli tilkynna umsækjanda innan þriggja mánaða um synjun í stað eins mánaðar eins og er í gildandi lögum. Breytingin er lögð til vegna samræmis við afgreiðslufrest umsókna í 6. gr.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 12. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga og kveður á um að starfsheitið vátryggingamiðlari sé lögverndað starfsheiti á sama hátt og verið hefur. Aðrir en þeir sem hafa fengið starfsleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu og verið skráðir þar hafa ekki heimild til að nota heitið vátryggingamiðlari.

Um 9. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 13. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga.

Um 10. gr.

    Ákvæðið er nánast samhljóða 14. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingar að ræða. Eðlilegt er að hafa slíka reglu þar sem vátryggingastarfsemi er starfsleyfisskyld starfsemi.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 19. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga og er það eitt þeirra ákvæða sem fela Fjármálaeftirlitinu að hafa fjárhagslegt eftirlit með vátryggingamiðlurum. Tilgangur ákvæðisins er að Fjármálaeftirlitið geti haft nánara eftirlit með fjárhagslegri stöðu vátryggingamiðlara og geti gripið inn í ef stefnir í vandræði. Með því að gera kröfu um að vátryggingamiðlari leggi fram áætlun um endurreisn fjárhags er líklegra að vátryggingamiðlari geri sér betur grein fyrir stöðu sinni og horfum til framtíðar. Í 4. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið framsendi ekki tilkynningu vátryggingamiðlara um fyrirhugaða starfsemi í öðrum aðildarríkjum til eftirlitsstjórnvalda þar á meðan áætlun skv. 1. mgr. er í gildi. Ekki er eðlilegt að heimila vátryggingamiðlara sem er að vinna sig út úr fjárhagsvandræðum að hefja starfsemi erlendis, enda getur slík útrás verið kostnaðarsöm og hefur reynslan leitt í ljós að útrás getur á stuttum tíma breytt miklu varðandi fjárhag vátryggingamiðlara.

Um 12. gr.

    1. og 3. mgr. ákvæðisins eru efnislega samhljóða 20. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Í 2. mgr. ákvæðisins eru tilteknar lágmarksfjárhæðir starfsábyrgðartrygginga sem eru í samræmi við kröfur í 4. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Það nýmæli er sett að vátryggingamiðlara er skylt að hafa upplýsingar um það á vef sínum hjá hvaða vátryggingafélagi hann hefur starfsábyrgðartryggingu eða hvaða aðra jafngilda tryggingu hann hefur. Í samræmi við neytendasjónarmið þykir eðlilegt að viðskiptavinur viti hvert hann eigi að leita ef til þess kemur að hann vilji leita réttar síns. Í ákvæðinu er kveðið á um að aðilum sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð sé skylt að hafa starfsábyrgðartryggingu eða aðra vátryggingu jafngilda. Sú skylda er í samræmi við 5. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Ábyrgðartryggingin skal bæði taka til tjóns sem valdið er af almennu og stórkostlegu gáleysi og hún skal gilda í öllum aðildarríkjum. Starfsábyrgðartryggingin skal taka bæði til vátryggingamiðlarans, aðilans sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð og starfsmanna þeirra og hún verður að ná bæði til launþega og verktaka sem starfa á þeirra ábyrgð.
    Reglur sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 4. mgr. eru settar á grundvelli tæknilegra framkvæmdastaðla Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar hafa stoð í 7. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 13. gr.

    1. mgr. er nær samhljóða 21. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en lagt er til að um sannanlegt umboð sé að ræða í stað skriflegrar heimildar. Þykir það eiga betur við um tæknibreytingar sem hafa orðið þar sem nú er mögulegt að veita sannanlegt umboð rafrænt. Enginn vafi má leika á um að sannanlegt umboð liggi fyrir áður en vátryggingamiðlari tekur við fjármunum. 2. mgr. er í samræmi við a-lið 6. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 14. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við c-lið 6. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB og er efnislega samhljóða 22. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga.

Um 15. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 11. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en sú breyting er lögð til að lagt er til að vátryggingaumboðsmenn verði einnig skráðir hjá Fjármálaeftirlitinu. Þykir heppilegra að vátryggingaumboðsmenn séu skráðir hjá Fjármálaeftirlitinu eins og aðrir dreifingaraðilar svo unnt sé að nálgast upplýsingar um þá á einum og sama stað. Í ákvæðinu er einnig lagt til að skráð verði það vátryggingafélag sem veitir aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð starfsábyrgðartryggingu. Þá hefur verið bætt við ákvæðið að skráin skuli vera aðgengileg á vef Fjármálaeftirlitsins auk þess sem Fjármálaeftirlitinu er skylt að veita Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni upplýsingar úr skránni. Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin heldur rafræna skrá um vátryggingamiðlara í aðildarríkjum á vef sínum og þarf að tryggja að sú skrá innihaldi ávallt réttar upplýsingar.
    Ákvæðið er í samræmi við 1.–7. mgr. 3. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 16. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 39. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en bætt hefur verið við ákvæðið að vátryggingaumboðsmenn verði einnig skráðir hjá Fjármálaeftirlitinu. Það eykur gagnsæi að hafa allir aðila sem dreifa vátryggingum skráða þar. Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur um skráningu vátryggingaumboðsmanns, nr. 236/2011.

Um 17. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skulu vátryggingaumboðsmenn uppfylla hæfis- og hæfniskilyrði V. kafla frumvarpsins. Í samræmi við ákvæði tilskipunar 2016/97/ESB eru ítarlegri kröfur gerðar til þeirra sem dreifa vátryggingum og falla vátryggingaumboðsmenn þar undir. Hæfisskilyrði vátryggingaumboðsmanna eru nú í 40. gr. laga um miðlun vátrygginga.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 41. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu þeir sem eru á skráðir sem slíkir hjá Fjármálaeftirlitinu og vátryggingafélagi hafa heimild til að nota heitið vátryggingaumboðsmaður.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er nær samhljóða 42. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingu að ræða.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er nær samhljóða 43. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en lagt er til að um sannanlegt umboð sé að ræða í stað skriflegrar heimildar. Þykir það ná betur um tæknibreytingar sem hafa orðið þar sem nú er mögulegt að veita sannanlegt umboð rafrænt. Enginn vafi má leika á um að sannanlegt umboð liggi fyrir áður en vátryggingaumboðsmaður tekur við fjármunum.

Um 21. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 44. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga og er eingöngu um lítils háttar orðalagsbreytingar að ræða.

Um 22. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 1.–3. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Greinin tiltekur hvaða hæfisskilyrði stjórnarmenn og framkvæmdastjórar vátryggingamiðlara þurfi að uppfylla. Ákvæðið gildir einnig um einstakling sem hefur starfsleyfi sem vátryggingamiðlari. Hæfisskilyrðin eru í samræmi við 15.–17. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en bætt hefur verið við ákvæðið því skilyrði að þessir aðilar skuli hafa gott orðspor.
    Þegar hæfi er metið er misjafnt hversu miklar kröfur eru gerðar samkvæmt ákvæðinu. Til dæmis þarf að gera meiri kröfur til þekkingar á vátryggingum hjá þeim sem starfar við dreifingu vátrygginga en stjórnarmanns hjá lögaðila. Stjórnarmaður þarf ekki að hafa eins djúpa þekkingu á vátryggingum. Honum nægir að hafa almenna þekkingu á þeim eða vátryggingamarkaði almennt. Stjórnarmaður getur verið hæfur í stjórn fyrirtækis sem hefur afmarkað starfssvið í dreifingu vátrygginga en ekki verið hæfur til að vera í stjórn stærra fyrirtækis með meiri umsvif. Þannig er ekki hægt að yfirfæra hæfisskilyrði frá einu fyrirtæki til annars heldur verður að meta hæfi í hverju og einu tilviki.
    Í b-lið er nýmæli það skilyrði að vátryggingamiðlari, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli hafa gott orðspor. Í því felst að viðkomandi sé þekktur af heiðarleika og muni viðhalda trausti í starfi sínu á markaðnum. Almennt verður að líta svo á að viðkomandi aðili hafi gott orðspor nema sýnt sé fram á annað og að ekki sé ástæða til að draga orðsporið í efa. Fjármálaeftirlitið leggur til grundvallar þær upplýsingar sem eiga að meta orðspor og líta verður svo á að orðsporið sé ekki gott ef vafi leikur á því að viðkomandi geti tryggt heilbrigða og örugga dreifingu vátrygginga. Matið myndi meðal annars byggjast á því hvort viðkomandi hafi brotið af sér á saknæman hátt eða á annan máta í stjórnarháttum, hvort leyfi hans til að starfa sem vátryggingamiðlari hafi áður verið afturkallað og ástæður þess. Alvarleiki brota skiptir máli, hve langt er síðan brotið var og orðspor viðkomandi eftir það.
    4. mgr. er í samræmi við síðasta málslið 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.
    Sú breyting verður frá núgildandi lögum að fallið er frá því fyrirkomulagi að einstaklingur sem sækist eftir starfsleyfi sem vátryggingamiðlari og þeir sem hafa umsjón með daglegum rekstri vátryggingamiðlunar þurfi að þreyta próf. Lagt er til að tekið verði upp sama fyrirkomulag og hjá öðrum aðilum sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, sbr. lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þ.e. að aðilar í fyrirsvari fyrir eftirlitsskylda aðila þurfi að standast munnlegt hæfismat sem framkvæmt er af Fjármálaeftirlitinu. Sama fyrirkomulag verður viðhaft fyrir einstaklinga sem sækjast eftir starfsleyfi sem vátryggingamiðlarar.

Um 23. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 1.–3. og 8. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Í greininni er tiltekið hvaða hæfisskilyrði vátryggingasölumaður þurfi að uppfylla.
    Ef breytingar verða á hæfi og hæfni vátryggingasölumanns skal vera ferli til staðar sem tiltekur ráðstafanir sem gripið skal til. Það er í samræmi við góða viðskiptahætti að gera hið fyrsta nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta úr því ef hæfisskilyrði eru ekki uppfyllt.

Um 24. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við lokamálslið 3. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Í greininni er tiltekið hvaða hæfisskilyrði ábyrgðaraðili aðila sem dreifir vátryggingum sem aukaafurð þurfi að uppfylla. Ábyrgðaraðili getur til dæmis verið framkvæmdastjóri fyrirtækis sem dreifir vátryggingum sem aukaafurð eða sá sem stýrir deild sem sér um dreifingu vátryggingu.
    Í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti ætti lögaðili að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta úr því ef ábyrgðaraðili eða framkvæmdastjóri uppfyllir ekki lengur hæfisskilyrði eða tilgreina nýjan aðila.

Um 25. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við viðauka I tilskipunar 2016/97/ESB og þar eru tilgreind sérstök hæfisskilyrði við dreifingu skaðatrygginga, persónutrygginga og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að framkvæmdastjóri vátryggingamiðlara sem er lögaðili, einstaklingur sem hefur starfsleyfi sem vátryggingamiðlari og vátryggingasölumenn skuli árlega fara í endurmenntun eða starfsþjálfun í að minnsta kosti 15 klukkustundir til að tryggja þekkingu og hæfni þeirra. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2016/97/ESB þar sem kveðið er á um að tryggja skuli þjálfun og eða endurmenntun þessara aðila. Gert er ráð fyrir að lögaðilar getir sjálfir útfært slíka endurmenntun eða starfsþjálfun en einnig er gert ráð fyrir að menntastofnanir geti skipulagt endurmenntunarnámskeið.

Um 27. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 23. og 45. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Ákvæðið tengist 11. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að vátryggingamiðlari skuli á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar og ef í óefni stefni skuli hann skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um fjárhagslega stöðu og hvernig hann hyggist bregðast við.
    Eins og starfsemi vátryggingamiðlara og vátryggingasölumanna er háttað er nokkur hætta á að framkvæmdastjóri eða leyfishafi missi yfirsýn yfir reksturinn. Þar sem vátryggingasölumenn eru alla jafna nokkuð sjálfstæðir í störfum sínum og eðli starfseminnar er slíkt að vátryggingasölumenn sinna starfi sínu sjálfstætt er möguleg hætta á því að yfirsýn tapist. Fyrstu tveir töluliðirnir tengjast ákvæði 3. tölul. þar sem gert er ráð fyrir að vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður takmarki fjölda þeirra vátryggingasölumanna sem starfa á þeirra vegum svo þeir hafi yfirsýn yfir starfsemi þeirra. Til að bregðast við því er gert ráð fyrir því að þeir geti ráðið til starfa vátryggingasölumann sem geti komið geti til aðstoðar við umsjón með daglegri starfsemi. Ekki er talin ástæða til að kveða nákvæmlega á um fjölda vátryggingasölumanna sem hver vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður getur haft í sinni þjónustu án þess að grípa til ráðstafana.

Um 28. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. og 2. málsl. 24. gr. og 1. og 2. málsl. 46. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingar að ræða. Frá upphafi hefur tíðkast að vátryggingasölumenn séu ýmist verktakar eða launþegar og er sú framkvæmd staðfest með ákvæðinu.

Um 29. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 25. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingar að ræða.

Um 30. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 26. og 47. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga og kveður á um að vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn skuli gefa út skilríki fyrir þá sem starfa hjá þeim eða fyrir þá.

Um 31. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 27. og 48. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingar að ræða. Þótt beiting ákvæðisins hljóti alltaf að vera háð mati verður í vafatilvikum að telja að upplýsingar sem vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður byggi yfir um viðskiptamann sinn félli undir þagnarskyldu, nema atvik bentu til annars.

Um 32. gr.

    Dreifingaraðili ber ábyrgð á því að vátryggingasölumenn þeirra starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti samkvæmt þessu ákvæði. Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga, nr. 673/2017. Sú breyting er gerð frá gildandi lögum að í stað góðra viðskiptahátta er gert ráð fyrir eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum. Þessi breyting tilkomin vegna orðalags í tilskipun 2016/97/ESB og fleiri nýjum tilskipunum á fjármálamarkaði þar sem fram kemur að viðskiptahættir eigi að vera eðlilegir og heilbrigðir.
    Ákvæðið er í samræmi við 11. gr. og 1. og 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 2016/97/ESB og 14. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um að dreifingaraðilar skuli hafa sérstakt ferli fyrir meðferð kvartana. 1. mgr. er efnislega samhljóða 28. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga.

Um 33. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að dreifingaraðili tryggi að endurgjald fyrir dreifingu vátrygginga sé þannig að það vinni ekki gegn því að hagsmunir væntanlegs vátryggingartaka séu hafðir að leiðarljósi. Dreifingaraðilar eiga að sjá til þess að viðskiptavinir fái tilboð sem er í samræmi við þarfir þeirra og það er skylda þeirra að gera greiningu á því hvað hentar væntanlegum vátryggingartaka best. Ákvæðið er sett vegna þeirra hagsmuna dreifingaraðila að fá sem hæst endurgjald fyrir vinnu sína en jafnvægi þarf að vera á milli endurgjalds og þess að dreifingin sé eins trygg og hægt er fyrir viðskiptavini. Væntanlegur vátryggingartaki getur í þessu tilviki bæði verið einstaklingur og lögaðili. Það myndi til dæmis stríða gegn ákvæðinu að bjóða viðskiptavini vátryggingu sem hann hefði þegar og augljóst væri að hann þyrfti ekki viðbótarvernd.
    Í 2. mgr. er fyrir það tekið að dreifingaraðili geti fengið sérstakt endurgjald fyrir að bjóða ákveðna vátryggingu þar sem slíkt getur valdið hagsmunaárekstrum milli dreifingaraðilans og væntanlegs vátryggingartaka. Ávallt skal liggja til grundvallar að ráðgjöf til væntanlegs vátryggingartaka sé í samræmi við þarfir hans.
    Í skilningi ákvæðisins er endurgjald allar tegundir launa, þóknunar eða umboðslauna sem greiðast vegna dreifingar vátrygginga. Líta skal á allt fyrirkomulag sem leiðir til endurgjalds fyrir tilboð eða kostnað vegna dreifingar vátryggingar sem endurgjald. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir launakerfi sem hvetur dreifingaraðila til að auka tekjur sínar svo framarlega sem það verður ekki til þess að hann mæli með tilteknum vátryggingarafurðum sem eru ekki til hagsbóta fyrir neytendur.
    Í 5. mgr. er gerð sú krafa að aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð og er undanþeginn lögum þessum tryggi að kröfur ákvæðisins um endurgjald séu uppfylltar. Skilyrðið er sett til að tryggja hagsmuni neytanda.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru í samræmi við 3. mgr. 17. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. 4. mgr. er í samræmi við b-lið 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Ákvæði 3. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 32. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga og þar er kveðið á um að væntanlegur vátryggingartaki skuli upplýstur um endurgjald sem dreifingaraðili þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna.

Um 34. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 34. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingar að ræða. Afturköllun er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem veltur á mati og er því eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi svigrúm til að meta hvort beitt skuli afturköllun eða öðrum vægari úrræðum. Í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga skal veita frest til úrbóta áður en starfsleyfi er afturkallað. Þó kunna að vera fyrir hendi þær aðstæður að frestur geti leitt til tjóns, t.d. fyrir viðskiptamenn, auk þess sem frestur til úrbóta á ekki alltaf við. Því er ekki um fortakslausan rétt vátryggingamiðlara að ræða hvað þetta snertir. Lokamálsgreinin er í samræmi við b-lið 3. mgr. 33. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 35. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 35. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Opinber birting á afturköllun starfsleyfis vátryggingamiðlara er í þágu neytenda. Í stað þess að Fjármálaeftirlitið auglýsi í fjölmiðlun þau starfsleyfi sem það hefur afturkallað er lagt til að tilkynning um það sé birt á vef þess. Slíkt þykir eðlilegt í samræmi við breyttan tíðaranda.

Um 36. gr.

    Ákvæðið er nær samhljóða 36. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðlagsbreytingar að ræða. Ákvæðið fjallar um innlögn starfsleyfis af fúsum og frjálsum vilja. Í flestum tilvikum myndi vátryggingamiðlari leggja inn starfsleyfi um leið og hann hættir starfsemi þar sem starfsábyrgðartryggingar eru kostnaðarsamar en vátryggingamiðlara er ekki heimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur staðfest innlögn starfsleyfis.

Um 37. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 37. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga þar sem kveðið er á um skil ársreiknings vátryggingamiðlara.

Um 38. gr.

    Ákvæðið er nær samhljóða 38. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingu að ræða.

Um 39. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 56. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga, en í þessu ákvæði er tilgreint hvaða atriði skulu koma fram í tilkynningu vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð ef þeir hyggjast veita þjónustu án starfsstöðvar í öðru aðildarríki. Einnig er lagt til að breytingar á þegar tilkynntum atriðum til Fjármálaeftirlitsins skuli tilkynntar þangað og að Fjármálaeftirlitið komi þeim upplýsingum til gistiríkisins.
    Ákvæðið er í samræmi við 4. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 40. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 56. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga en í þessu ákvæði er tilgreint hvaða atriði skuli koma fram í tilkynningu ef aðili hyggst setja á stofn útibú í öðru aðildarríki. Nýmæli er að Fjármálaeftirlitið getur hafnað því að tilkynna um stofnun útibús ef það hefur ástæðu til að ætla að stjórnskipulag og fjárhagsleg staða aðilans sé þannig að ekki séu burðir til að stofna útibú í öðru aðildarríki. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er unnt að bera undir dómstóla. Einnig er lagt til að breytingar á þegar tilkynntum atriðum skuli tilkynntar til Fjármálaeftirlitsins og að Fjármálaeftirlitið komi þeim upplýsingum til gistiríkisins.
    Ákvæðið er í samræmi við 6. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 41. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 6. gr. tilskipunar 2016/97/ESB og er efnislega samhljóða 55. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Heimildir erlendra aðila til að veita þjónustu hér á landi takmarkast ávallt af umfangi starfsleyfis eða skráningar í heimaríki þeirra. Fjármálaeftirlitinu er gert að upplýsa viðkomandi aðila um að honum beri að fara eftir reglum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti hér á landi og skal senda viðkomandi tengil á reglurnar á vef Fjármálaeftirlitsins.

Um 42. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 57. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eingöngu er um lítils háttar orðalagsbreytingar að ræða.

Um 43. gr.

    Greinin kveður á um að Fjármálaeftirlitið sé eftirlitsaðili með þeirri starfsemi sem frumvarpið fjallar um. 1.–2. mgr. eru í samræmi við 12., 13. og 16. gr. tilskipunar 2016/97/ESB og 3. mgr. í samræmi við 7. gr. tilskipunarinnar.

Um 44. gr.

    Greinin er ný og felur í sér til hvaða ráðstafana Fjármálaeftirlitið getur gripið til að vernda neytendur ef vátryggingamiðlari, vátryggingaumboðsmaður eða aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð sem starfar hér á landi á grundvelli frjáls flæðis þjónustu án starfsstöðvar samkvæmt EES-samningnum fer ekki að lögum hér á landi. Ákvæðið felur einnig í sér ráðstafanir Fjármálaeftirlitinu til handa ef vátryggingamiðlari, vátryggingaumboðsmaður eða aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð sem starfar á grundvelli frjáls flæðis þjónustu án starfsstöðvar í öðru landi fer ekki að lögum þar. Gert er ráð fyrir að ákvæðinu verði afar sjaldan beitt.
    Í 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti, hafi það ástæðu til að ætla að viðkomandi aðilar fari ekki að lögum eða reglum hér á landi, tilkynnt viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi um það. Það er þá í valdi þess eftirlitsstjórnvalds að gera ráðstafanir til að þessir aðilar fari að lögum hér á landi. Einnig er lagt til að Fjármáleftirlitið geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana ef starfsemi skaðar hagsmuni neytenda verulega eða markað með dreifingu vátrygginga. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið geti stöðvað starfsemi eða bannað nýja starfsemi ef nauðsyn þykir til. Þá getur Fjármálaeftirlitið óskað aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar vegna málsins.
    Í 2. mgr. er lagt fyrir Fjármálaeftirlitið að grípa til viðeigandi ráðstafana ef það fær tilkynningu frá eftirlitsstjórnvaldi gistiríkis um að starfsemi vegna þjónustu án starfsstöðvar í öðru aðildarríki fari ekki að lögum í því ríki. Fjármálaeftirlitinu ber að tilkynna eftirlitsstjórnvaldi í gistiríki um slíkar ráðstafanir. Ef ekki eru gerðar úrbætur að kröfu Fjármálaeftirlitsins getur eftirlitsstjórnvald í gistiríki gripið til nauðsynlegra ráðstafana og stöðvað starfsemina.
    Við mat á því hvort starfsemi skaði hagsmuni neytenda skal meðal annars litið til þess hvort vátryggingamiðlari, vátryggingaumboðsmaður eða aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð fari ekki eftir ákvæðum um endurgjald, hvort ekki liggi fyrir starfsleyfi eða að starfsemin sé ekki skráð. Þá skal einnig líta til þess að hvort aðilarnir veiti ekki lögbundnar upplýsingar eða starfsemin sé ekki í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Við mat á því hvort starfsemin skaði markað með dreifingu vátrygginga skal meðal annars líta til þess hvort starfsemin sé í bága við samkeppnisreglur.
    Ákvæðið er í samræmi við 5. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 45. gr.

    Greinin er ný og felur í sér til hvaða ráðstafana Fjármálaeftirlitið getur gripið til að vernda neytendur ef starfsemi útibús er ekki í samræmi við ákvæði laganna. Gert er ráð fyrir að ákvæðinu verði afar sjaldan beitt.
    Í 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti, hafi það ástæðu til að ætla að starfsemi útibús sé ekki í samræmi við ákvæði frumvarpsins, tilkynnt eftirlitsstjórnvaldi heimaríkis um það. Það er þá í valdi þess eftirlitsstjórnvalds að gera ráðstafanir til að viðkomandi aðilar fari að lögum hér á landi. Sama gildir ef Fjármálaeftirlitið fær tilkynningu frá eftirlitsstjórnvaldi gistiríkis vegna útibús og höfuðstöðvar eru hér á landi.
    Í 2. mgr. er lagt til að Fjármáleftirlitið geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana ef útibúið bætir ekki úr annmörkunum eða ráðstafanir útibúsins eru ekki nægilegar og starfsemin skaðar hagsmuni neytenda verulega eða markað með dreifingu vátrygginga. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið geti stöðvað starfsemi útibúsins eða bannað nýja starfsemi þess ef nauðsyn þykir til. Þá getur Fjármálaeftirlitið óskað aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar vegna málsins. Sama gildir varðandi útibú í gistiríki ef höfuðstöðvar eru hér á landi en þá er það eftirlitsstjórnvald gistiríkisins sem hefur heimild til þess að stöðva starfsemi útibúsins ef útibúið bætir ekki úr annmörkum í starfseminni.
    Við mat á því hvort starfsemi skaði hagsmuni neytenda skal meðal annars litið til þess hvort viðkomandi aðilar fari ekki eftir ákvæðum um endurgjald, hvort ekki liggi fyrir starfsleyfi eða að starfsemin sé ekki skráð. Þá skal einnig líta til þess að þeir veiti ekki lögbundnar upplýsingar eða starfsemin sé ekki í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Við mat á því hvort starfsemin skaði markað með dreifingu vátrygginga skal meðal annars líta til þess hvort starfsemin fari í bága við samkeppnisreglur.
    Ákvæðið er í samræmi við 8. gr. tilskipunar 2016/97/ESB.

Um 46. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 60. gr. gildandi laga um miðlun vátrygginga. Eftirlitsgjaldið er ákveðið árlega samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Vátryggingaumboðsmenn sem skráðir eru hjá vátryggingafélagi í öðrum aðildarríkjum greiða ekki slíkt eftirlitsgjald þar sem þeir starfa á ábyrgð vátryggingafélagsins og vátryggingafélagið greiðir eftirlitsgjald. Þeir lúta jafnframt eftirliti heimaríkis.

Um 47. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 15. gr. tilskipunar 2016/97/ESB sem kveður á um að til staðar skuli vera úrskurðarnefnd fyrir viðskiptavini dreifingaraðila sem þeir geti skotið ágreiningi til vegna réttinda þeirra og skyldna dreifingaraðila. Ekki er til staðar úrskurðarnefnd sem unnt er að vísa málum til vegna ágreinings um réttindi og skyldur samkvæmt frumvarpinu og er því lagt til í bráðabirgðaákvæði með frumvarpinu að ráðherra skipi nefnd þar sem fulltrúar dreifingaraðila og Neytendasamtökin komi að því að setja slíka úrskurðarnefnd á fót.

Um 48. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 31., 33. og 34. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Ákvæði um stjórnvaldssektir eru nú í 62. gr. um miðlun vátrygginga. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir nýjum sektarheimildum í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar sem eru í frumvarpinu. Þannig eru lögð til viðurlög ef vísvitandi eru gefnar rangar upplýsingar í umsókn um starfsleyfi, sbr. 1. tölul., ef starfsemi er ekki tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins skv. 15. gr., sbr. 10. tölul., ef hæfis- og hæfniskilyrði eru ekki uppfyllt, sbr. 17. tölul., ef breytingar á hæfisskilyrðum eru ekki tilkynntar til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 18. tölul., ef ekki er sett stefna til að tryggja hæfi vátryggingasölumanna, sbr. 19. tölul., ef sérstakar hæfis- og hæfnikröfur eru ekki uppfylltar, sbr. 20. tölul., ef kröfur um endurmenntun eru ekki uppfylltar, sbr. 21. tölul., og ef brotið er í bága við ákvæði um endurgjald, sbr. 28. tölul.
    Fjárhæðir sekta hafa hækkað verulega og eru þær í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Einnig er það nýmæli að unnt er að tengja sektir við 5% af heildarveltu ársreikninga. Hækkun fjárhæða og veltutenging er í samræmi við aðrar tilskipanir sem hafa verið innleiddar á fjármálamarkaði.

Um 49. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 62. gr. a gildandi laga um miðlun vátrygginga og veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til að bjóða málsaðilum að ljúka málum með sátt um hæfilega sektargreiðslu. Til að unnt sé að ljúka máli með sátt verður samþykki málsaðila að liggja fyrir. Sátt eru bindandi fyrir aðila þegar hann hefur samþykkt sáttina og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt, nr. 728/2014.

Um 50. gr.

    Greinin er samhljóða 62. gr. b gildandi laga um miðlun vátrygginga og kveður á um rétt einstaklings til að fella sig ekki við sök við rannsókn á stjórnsýslustigi.

Um 51. gr.

    Greinin er samhljóða 62. gr. c gildandi laga um miðlun vátrygginga og kveður á um að heimild Fjármálaeftirlitsins falli niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Við afmörkun þess hvenær háttsemi lauk ber að taka mið af meginreglum refsiréttar og fjármálamarkaðsréttar um það atriði. Af því leiðir að ef um samfellda brotastarfsemi eða ástandsbrot er að ræða telst broti ekki lokið fyrr en hinu ólögmæta ástandi linnir og upphaf fyrningarfrests telst þá einnig frá þeim tíma. 2. mgr. kveður á um að tilkynning Fjármálaeftirlitsins til aðila um rannsókn á meintu broti rjúfi fyrningu. Einnig er kveðið á um að rof fyrningarfrests hafi réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti. Af því leiðir að þótt rannsókn beinist í upphafi að einum aðila hindra fyrningarreglur ekki að lögð verði stjórnsýsluviðurlög á aðra aðila sem síðar kemur í ljós að stóðu einnig að broti. Þótt réttur Fjármálaeftirlitsins til álagningar stjórnvaldssekta sé fyrndur koma ákvæði þessarar greinar ekki í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið fjalli efnislega um mál og kveði upp úr um það hvort tiltekin háttsemi hafi falið í sér brot gegn lögum um miðlun vátrygginga.

Um 52. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 31. gr. og 33. gr. tilskipunar 2016/97/ESB þar sem fram kemur að aðildarríki eigi að sjá til þess að hæfileg viðurlög séu við brotum á ákvæðum laga sem innleiða tilskipunina. Ákvæði um sektir og fangelsi er í 62. gr. d gildandi laga um miðlun vátrygginga.

Um 53. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 31. og 33. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Ákvæðið er samhljóða 62. gr. e gildandi laga um miðlun vátrygginga þar sem meðal annars er kveðið á um að brot gegn lögunum varði refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi og að heimilt sé að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hefur hlotist af broti sem varðar refsingu.

Um 54. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 31. og 33. gr. tilskipunar 2016/97/ESB. Ákvæðið er samhljóða 62. gr. f gildandi laga um miðlun vátrygginga þar sem meðal annars er kveðið á um verklag við rannsókn mála þar sem meint brot varðar bæði stjórnvaldssektir og refsiviðurlög og samskipti milli Fjármálaeftirlitsins og lögreglu og ákæruvalds. Einnig er kveðið á um hvernig fara skuli með brot gegn lögunum.

Um 55. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við b-lið 35. gr. tilskipunar 2016/97/ESB og er nýmæli. Í ákvæðinu er einnig lagt til að dreifingaraðili sem brjóti gegn skyldu sinni til að vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot eða mögulegt brot skuli greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. 2. og 3. mgr. hafa fyrirmynd í 60. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Samkvæmt 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er Fjármálaeftirlitinu skylt að hafa ferla til staðar að taka við og fylgja eftir tilkynningum um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra. Það ákvæði er í samræmi við 1. mgr. og a- og c-lið 2. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar.

Um 56. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 57. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa. Samhljóða ákvæði er í 2. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.

Um 58. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í ákvæðinu er kveðið á um stöðu vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og vátryggingasölumanna sem eru starfandi við gildistöku laganna. Starfsleyfi vátryggingamiðlara verður áfram gilt en lagt er til að þessir aðilar hafi frest til 1. nóvember 2019 til að uppfylla skilyrði frumvarpsins.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í ákvæðinu er lagt til að ráðherra skipi nefnd sem komi með tillögu um skipulag, fjármögnun og málsmeðferðarreglur úrskurðarnefndar um dreifingu vátrygginga sem koma skal á fót samkvæmt 15. gr. tilskipunar (ESB) 2016/97.