Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1221  —  565. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um stjórnsýslu og skráningu landeigna.


     1.      Er stjórnsýsla og skráning landeigna þannig háttað að raunhæft sé að nýta hana sem grundvöll til að stýra og hafa áhrif á ráðstöfun lands, með lögum, skipulagsáætlunum eða skattalegum hvötum?
    Landeignaskrá með hnitsettum eignarmörkum er öflugur grundvöllur til þess að hafa áhrif á ráðstöfun landeigna. Til þess að af því geti orðið þarf að breyta lagaumgjörð og gera átak í skráningu og uppmælingu landeigna, sér í lagi í dreifbýli.
    Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 5. mars 2012, var því beint til Þjóðskrár Íslands að hraða eftir föngum þróun og uppbyggingu landeignaskrár, sem væri einn af þremur kjörnum fasteignaskrár. Vinna stofnunarinnar við skipulega yfirferð skráningar landeigna og uppbyggingu landeignaskrár hófst í upphafi árs 2013.
    Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að Þjóðskrá Íslands hóf innleiðingu verkefnisins hafa tæplega 57.000 afmarkanir verið færðar inn í landeignaskrá. Samanlagt er það um helmingur allra landeigna á Íslandi. Um tveir þriðju hlutar afmarkana eru fengnir úr landupplýsingakerfi sveitarfélaga, en þriðjungur er hnitaður inn við yfirferð á nýskráningu sveitarfélaga eða af eldri uppdráttum og skjölum úr fórum sveitarfélaga og sýslumanna. Gögnin eru af misjöfnum gæðum og hefur verið eftir fremsta megni reynt að halda utan um uppruna og gæði við innskráningu. Í vefsjá landeignaskrár ( geo.skra.is/landeignaskra/) má sjá afrakstur þessarar vinnu sem og í meðfylgjandi töflu.

Tafla. Yfirlit yfir skráningu landeigna í landeignaskrá ásamt hlutfalli afmarkaðra landeigna. Þar sést að einungis 20% hafa verið hnitsettar og að heildarflatarmál allra skráðra landeigna er einungis tæpur fjórðungur af flatarmáli Íslands.


Gerð landeignar Fjöldi landeigna Afmarkaðar landeignir Hlutfall Heildarstærð
Þjóðlenda 96 93 97% 19.861 km²
Jörð 7698 1424 18% 2.566 km²
Lóð 100500 55417 55% 2.344 km²
Samtals 108294 56934 53% 24.771 km²

    Samhliða skráningu í landeignaskrá hefur Þjóðskrá Íslands í samvinnu við sveitarfélög þróað og kynnt verklag og verkferla við yfirferð uppdrátta, málsmeðferð og skráningu. Einnig hefur Þjóðskrá Íslands haft umsjón með þróunarverkefni um uppmælingu jarða í dreifbýli með þátttöku Ríkiseigna og Landmælinga Íslands. Markmið þess verkefnis er að skilgreina framkvæmd og skráningu mælinga og kröfur þar að lútandi, svo sem til framsetningar uppdrátta og hefur m.a. skilað af sér leiðbeiningum um ferlið fyrir landeigendur og sveitarfélög. Á undanförnum árum hefur því mikil reynsla byggst upp á þessu sviði hjá Þjóðskrá Íslands, sem og öðrum þeim aðilum sem einkum koma að skráningu eignarmarka landeigna.
    Betur má ef duga skal og því er nauðsynlegt að skapa skráningu landeigna stjórnsýslulega umgjörð sem kvæði á um feril skráningar, skilgreind gæði og að í allri ráðstöfun landeigna fælist uppmæling eignarmarka séu þau ekki fyrir hendi.

     2.      Eftir hvaða stefnu er unnið við skráningu landeigna?
    Það er engin opinber stefna til um skráningu landeigna á Íslandi og einungis ákvæði um landeignaskrá í 47. gr. skipulagslaga. Þar kemur fram að sveitarstjórnir skuli láta gera skrá yfir allar jarðir, lönd og lóðir innan sveitarfélags í landeignaskrá sem skal vera hluti af fasteignaskrá. Skráin skal hafa tilvísun í afmörkun og eignarhald í samræmi við þinglýstar heimildir.
    Þó er að finna ákvæði um framkvæmd landeignaskrár í fleiri lögum. Benda má á 2. mgr. 1. gr. laga um skráningu og mat fasteigna og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í þinglýsingalögum. Upptalning þessi er ekki tæmandi.
    Einnig má benda á að í bréfi innanríkisráðuneytisins til Þjóðskrár Íslands frá 5. mars 2012 kemur fram að við þróun og uppbyggingu landeignaskrár sé mikilvægt að Þjóðskrá Íslands hafi frumkvæði að samráði við hlutaðeigandi hagsmunaaðila svo sem sveitarfélög og landeigendur um verkferla skráningar er varða uppmælingu og skráningu eignamarka, framsetningu uppdrátta og gæðaviðmið.

     3.      Telur ráðherra þörf á að bæta skráningu landeigna?
    Ráðherra telur rétt að halda þeirri góðu vinnu áfram sem Þjóðskrá Íslands hóf árið 2013 svo sem rakið er í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Þá telur ráðherra rétt að skoða endurbætur á þeim lagaramma sem gildir um skráningu landeigna, sbr. svar við 1. og 4. tölul.

     4.      Eru til skýrar og samræmdar reglur um skráningu landeigna?
    Uppbygging á landeignaskrá hefur farið fram á grundvelli gildandi laga, einkum laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, og skipulagslaga, nr. 123/2010. Þar er kveðið á um landeignaskráningu, án þess þó að skýra að fullu framkvæmd hennar eða málsmeðferð. Reglugerð um fasteignaskráningu og fasteignamat nr. 406/1978 lýtur t.d. fyrst og fremst að skráningu mannvirkja og framkvæmd fasteignamats en þar er ekki fjallað sérstaklega um skráningu landeigna. Þau lög sem í gildi eru og fjalla um skráningu eignamarka eru svo að segja úrelt þar sem tölvur og nútímamælitæki voru ekki komin til sögunnar þegar þau voru samin. Þar er t.d. átt við Jónsbók frá 1281, lög um landamerki, nr. 41/1919, vatnalög, nr. 15/1923, landskiptalög, nr. 46/1941, og lög um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, nr. 35/1914, og lög um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmi Akureyrar, nr. 16/1951.
    Ráðuneytið tekur undir það mat Þjóðskrár Íslands að núverandi lagarammi og regluverk fullnægi ekki nútímakröfum til málaflokksins og telur stofnunin nauðsynlegt að halda áfram þeirri stefnumótun um uppbyggingu landeignaskrár sem sett var fram í bréfi innanríkisráðuneytisins frá árinu 2012. Stofnunin telur að skortur á uppfærðu regluverki á sviði landeignaskráningar hamli frekari uppbyggingu landeignaskrár og telur því nauðsynlegt að farið verði í endurskoðun laga og reglugerða á sviði skráningar landeigna og eignamarka.