Ferill 606. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1222  —  606. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um aldraða sem dveljast á Landspítalanum.


     1.      Hve margir aldraðir dveljast á Landspítalanum og bíða eftir vist á hjúkrunarheimili eða öðru úrræði?
    Eins og spurningin ber með sér er gerður greinarmunur á þeim einstaklingum sem hafa gilt færni- og heilsumat og bíða eftir dvöl á hjúkrunarheimili og þeim einstaklingum sem ekki eru með færni- og heilsumat og bíða eftir öðru úrræði, enda eru slík úrræði alla jafna tímabundin og miða að því að einstaklingar geti snúið heim.
    Hinn 4. mars 2019 biðu 45 einstaklingar, með gilt færni- og heilsumat, eftir dvöl í hjúkrunarrými á bráðadeildum og öldrunarlækninga- og endurhæfingardeildum spítalans. Á sama tíma beið 31 einstaklingur í bráðalegurýmum spítalans eftir endurhæfingu á Landakoti eða á Eir, þ.e. 23 eftir endurhæfingu á Landakoti en 8 eftir endurhæfingu á Eir. Ekki liggja fyrir upplýsingar um þá einstaklinga sem hugsanlega dvelja lengur á Landspítala vegna skorts á heimahjúkrun, dagdvöl eða öðrum slíkum úrræðum.
    Til viðbótar má nefna að á undanförnum árum hafa heilbrigðisyfirvöld gert ráðstafanir til að bæta aðbúnað þeirra sem bíða eftir varanlegri dvöl í hjúkrunarrými en geta ekki beðið heima eftir slíku úrræði. Opnuð voru sérstök biðrými eða biðhjúkrunarrými á Vífilsstöðum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og hjúkrunarheimilunum Höfða á Akranesi og Brákarhlíð í Borgarnesi. Þau rými hafa nýst vel þeim sem þau henta og kjósa að bíða þar eftir varanlegri dvöl. Alls eru þar 64 biðrými.

     2.      Hver er nýting legurýma á Landspítalanum?
    Heildarrúmanýting á almennum deildum Landspítala í febrúar 2019 var 98%. Sjá nánar skiptingu eftir sviðum á meðfylgjandi súluriti.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
     3.      Hve hátt hlutfall þeirra sem eru í legurými á Landspítalanum eru eldri borgarar sem bíða eftir vist á hjúkrunarheimili eða öðru úrræði?
    Hinn 25. febrúar 2019 voru 18% af virkum legurýmum á almennum legudeildum Landspítala nýtt fyrir einstaklinga sem lokið höfðu meðferð. Þar af biðu 12% eftir hjúkrunarrými og 6% eftir öðrum úrræðum. Þeir sem biðu eftir hjúkrunarrými í sérstökum biðrýmum teljast ekki með.

     4.      Hvert er meðaltal daglegs kostnaðar ríkissjóðs af að hýsa og annast um eldri borgara sem dveljast á hjúkrunarheimili?
    Kostnaður á hjúkrunarheimilum er breytilegur eftir hjúkrunarþyngd. Ef miðað er við meðalhjúkrunarþyngd er heildarkostnaður hjúkrunarrýmis samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands 35.051 kr. á dag í mars 2019.

     5.      Hvert er meðaltal daglegs kostnaðar ríkissjóðs af að hýsa og annast um eldri borgara sem dveljast á Landspítalanum?
    Að meðaltali er umönnunarkostnaður hvers sólarhrings á bráðadeildum lyf- og skurðlækningasviðs Landspítala 140.000 kr. en 64.000 kr. á öldrunardeildum. Ekki er þar meðtalinn mögulegur kostnaður vegna aðgerða, rannsókna eða annarra meðferða né stjórnunarkostnaður sviða eða kostnaður stoðþjónustu. Með þessum fyrirvörum er áætlaður kostnaður vegna fjölda þeirra sem biðu annarra úrræða á Landspítala eftir að meðferð var lokið á legudeildum spítalans hinn 4. mars sl. (sbr. svar við 1. tölul.) ríflega 5 millj. kr. þann dag. Biðrými teljast ekki með.