Ferill 773. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1230  —  773. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.


Frá utanríkisráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um að koma veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins sem undirritaður var hinn 3. október 2018 í Ilulissat á Grænlandi.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins (Norður-Íshafssamningurinn). Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.

Tildrög og meginmarkmið Norður-Íshafssamningsins.
    Gríðarstórt hafsvæði í miðhluta Norður-Íshafsins, um 2,8 milljónir ferkílómetra að stærð, telst úthaf í skilningi Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Fram til þessa hefur þetta hafsvæði verið þakið ís mestan hluta ársins og hafa fiskveiðar þar því ekki verið mögulegar. Miklar breytingar hafa orðið á umhverfi hafsvæða á norðurslóðum á undanförnum árum og hefur miðhluti Norður-Íshafsins ekki farið varhluta af þeim breytingum, meðal annars með breytingum á ísþekju, hlýnun sjávar, breyttum seltuskilyrðum og breyttri hringrás, flæði og aðstreymi sjávar. Margt er á huldu um áhrif þessara breytinga á vistkerfi í Norður-Íshafinu. Hins vegar hafa þessar breytingar í för með sér að ekki verður lengur útilokað að síðar meir kunni fiskveiðar í atvinnuskyni á þessu hafsvæði að verða mögulegar.
    Fimm ríki með fiskveiðihagsmuni í Norður-Íshafi, Bandaríkin, Kanada, Noregur, Rússland og Danmörk fyrir hönd Grænlands, gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um málefni Norður-Íshafsins á ráðstefnu í Ilulissat á Grænlandi 28. maí 2008. Þessi sömu ríki gáfu síðan út yfirlýsingu í Ósló hinn 16. júlí 2015 um takmörkun fiskveiða og rannsóknasamstarf á úthafinu í miðhluta Norður-Íshafsins. Framangreindum yfirlýsingum var ítrekað mótmælt af hálfu íslenskra stjórnvalda þar sem óeðlilegt væri að ekki hefði verið haft samráð við Ísland sem strandríki um fiskveiðar á þessu hafsvæði.
    Í kjölfar framangreindrar yfirlýsingar ákváðu bandarísk stjórnvöld að bjóða til fundar um úthafsveiðar og rannsóknasamstarf í Norður-Íshafinu í desember 2015 í Washington D.C. Auk framangreindra fimm ríkja var Íslandi, Evrópusambandinu, Japan, Kína og Suður-Kóreu boðið til fundarins. Á fundinum kom fram einhugur þessara ríkja um nauðsyn þess að koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar á úthafinu í Norður-Íshafi. Hins vegar voru skoðanir skiptar um hvernig skyldi ná því markmiði. Á árunum 2016 og 2017 voru haldnir fimm samningafundir til viðbótar. Viðræðunum lauk með gerð samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar og um rannsóknasamstarf á úthafinu í miðhluta Norður-Íshafsins og var samningurinn undirritaður í Ilulissat hinn 3. október 2018.
    Af hálfu Íslands var meginmarkmiðið með þátttöku í viðræðunum að tryggja Íslandi aðkomu að ákvarðanatöku um sjálfbæra nýtingu fiskistofna á þessu hafsvæði, halda til haga rétti Íslands sem strandríkis ef deilistofnar sem Ísland hefur áður nýtt leita á þetta alþjóðlega hafsvæði og sömuleiðis rétti Íslands sem úthafsveiðiríkis. Enn fremur að leggja áherslu á mikilvægi Hafréttarsamnings SÞ, úthafsveiðisamnings SÞ og mikilvægi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana eða viðeigandi fyrirkomulags við stjórn veiða úr deilistofnum á alþjóðlegum hafsvæðum.

Helstu efnisatriði samningsins.
Meginmarkmið samnings.
    Meginmarkmið Norður-Íshafssamningsins er að koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar á úthafinu í miðhluta Norður-Íshafsins. Með stjórnlausum fiskveiðum í þessu samhengi er átt við veiðar sem ekki lúta fiskveiðistjórnun viðkomandi ríkja eða svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana eða -fyrirkomulags. Samningurinn byggist á varúðarnálgun og er ætlað að tryggja að verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna þessa hafsvæðis verði hluti af langtímaáætlun sem miði að því að tryggja heilbrigð sjávarvistkerfi og tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu fiskistofna.
    Samkvæmt úthafsveiðisamningi SÞ er það í höndum svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana eða -fyrirkomulags að taka ákvarðanir um verndun og nýtingu fiskistofna í úthafinu. Ekki var hins vegar farin sú leið með Norður-Íshafssamningnum að koma á nýrri svæðisbundinni fiskveiðistjórnunarnefnd heldur felur samningurinn í sér að aðildarríki hans skuldbinda sig til þess skv. 3. gr. samningsins að heimila ekki fiskiskipum sínum að stunda fiskveiðar á samningssvæðinu nema slíkar fiskveiðar séu annað hvort í samræmi við ákvarðanir svæðisbundinnar fiskveiðistjórnunarstofnunar eða -fyrirkomulags eða að slíkar veiðar séu í samræmi við verndunar- og stjórnunarráðstafanir sem aðilar samnings hafa ákveðið skv. 5. gr. samningsins.
    Þá mælir 5. gr. samningsins fyrir um að samningsaðilar skuli koma saman á tveggja ára fresti hið minnsta og fara yfir framkvæmd samningsins, meðal annars í ljósi fyrirliggjandi vísindalegra upplýsinga, og ræða hvort grundvöllur sé til að hefja sjálfbærar fiskveiðar í atvinnuskyni á samningssvæðinu. Á þeim grundvelli skulu aðilar taka ákvörðun um hvort hefja skuli viðræður um að koma á fót svæðisbundinni fiskveiðistjórnunarstofnun eða -fyrirkomulagi og jafnframt taka ákvarðanir um bráðabirgðaráðstafanir á meðan slíkar viðræður standa yfir.
    Segja má að markmið framangreindra ákvæða séu tvíþætt. Annars vegar skuldbinda aðilar sig til þess að koma í veg fyrir veiðar í atvinnuskyni á samningssvæðinu á meðan vísindaleg óvissa ríkir um hvort stunda megi slíkar veiðar með sjálfbærum hætti. Hins vegar skapar samningurinn ramma um hvernig taka megi næsta skref þegar vísindalegar upplýsingar styðja að hefja megi slíkar veiðar, að teknu tilliti til viðeigandi sjónarmiða varðandi stjórnun fiskveiða og áhrif slíkra veiða á vistkerfið, þ.m.t. varúðarnálgunar.

Samningssvæðið.
    Eins og áður er rakið tekur samningurinn til alþjóðlega hafsvæðisins á miðju Norður-Íshafinu sem liggur 200 sjómílur norðan Svalbarða eða utan lögsögu ríkja. Þess skal getið að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (North East Atlantic Fisheries Commission, NEAFC), sem Ísland er aðili að, hefur stjórnunarlögsögu á Norðaustur-Atlantshafi, þ.m.t. til um 7% hluta samningssvæðisins sem þessi samningur fjallar um og snýr mót austanverðu Norður-Atlantshafi. Skýrt er tekið fram í samningnum að eigi sé heimilt að ganga á samningsrétt NEAFC. Nánari skilgreiningu á samningssvæðinu er að finna í a-lið 1. gr. samningsins en samkvæmt honum tekur samningurinn til „úthafssvæðisins í miðhluta Norður-Íshafsins sem er umkringt hafsvæðum þar sem Kanada, Konungsríkið Danmörk fyrir hönd Grænlands, Konungsríkið Noregur, Rússneska sambandsríkið og Bandaríki Norður-Ameríku fara með fiskveiðilögsögu“.

Vísinda- og rannsóknasamstarf.
    Mælt er fyrir um samstarf samningsaðila á sviði vísinda og rannsókna í 4. gr. samningsins. Mælir ákvæðið fyrir um skyldu samningsaðila til að greiða fyrir vísindalegu samstarfi með það að markmiði að efla þekkingu á lifandi sjávarauðlindum og vistkerfum í miðhluta Norður-Íshafsins. Þá er enn fremur mælt fyrir um að aðilar skuli samþykkja innan tveggja ára frá gildistöku samnings sameiginlega áætlun um vísindarannsóknir og vöktun lífríkis og umhverfis. Einnig skal halda sameiginlega vísindafundi a.m.k. á tveggja ára fresti þar sem fulltrúar samningsaðilanna skuli leggja fram niðurstöður rannsókna sinna, fara yfir bestu fyrirliggjandi vísindaupplýsingar og veita vísindalega ráðgjöf fyrir fundi samningsaðilanna.

Ákvarðanataka, lausn deilumála og aðild fleiri ríkja.
    Í viðræðum um gerð samningsins kom fram nokkur ágreiningur um hvernig hafa skyldi ákvæði samningsins um ákvarðanatöku, einkum vegna kröfu um að þau fimm ríki sem stóðu að Ilulissat-yfirlýsingunni hefðu neitunarvald á þessum vettvangi. Niðurstaðan í samningaviðræðunum varð sú að allar ákvarðanir um efnisleg álitaefni skulu teknar samhljóða. Hafa því allir samningsaðilar í raun neitunarvald um efnislegar ákvarðanir sem teknar eru á fundum samningsaðila. Þá mælir 7. gr. samningsins fyrir um að ákvæði VIII. hluta úthafsveiðisamnings SÞ um lausn deilumála skuli gilda að breyttu breytanda um hvers konar deilur milli aðila er varða túlkun eða beitingu samningsins. Þá segir í 10. gr. að samningsaðilar geti boðið öðrum ríkjum sem hafa „raunverulegra hagsmuna að gæta“ að gerast aðilar að honum. Hugtakið „raunverulegir hagsmunir“ í þessu samhengi vísar til ákvæðis 8. gr. úthafsveiðisamningsins sem gerir slíka raunverulega hagsmuni að veiðum á tilteknum deili- eða víðförlum fiskistofnum að skilyrði þess að gerast aðilar að svæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum eða -fyrirkomulagi sem komið er á fót til að stýra veiðum úr slíkum stofnum.

Gildistaka og gildistími.
    Samningurinn skal taka gildi 30 dögum eftir að allir samningsaðilar hafa tilkynnt um að þeir hafi lokið fullgildingu eða staðfestingu samningsins. Samkvæmt 13. gr. hans skal samningurinn gilda í upphafi til sextán ára eftir að hann hefur tekið gildi en að því tímabili loknu skal hann framlengdur um fimm ár í senn, nema einhver samningsaðili mótmæli formlega framlengingu hans. Slíkt fyrirkomulag tímabundins gildis alþjóðasamnings er fremur óalgengt en skýrist í þessu tilfelli af markmiði og efni samningsins.

Staða hafsvæðanna í kringum Svalbarða.
    Eins og rakið hefur verið er samningssvæði Norður-Íshafssamningsins skilgreint sem úthafssvæðið í miðhluta Norður-Íshafsins sem er umkringt þeim hafsvæðum þar sem Kanada, Danmörk fyrir hönd Grænlands, Noregur, Rússland og Bandaríkin „fara með fiskveiðilögsögu“. Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á því að norsk stjórnvöld hafa einhliða lýst yfir 200 sjómílna „fiskverndarsvæði“ í kringum Svalbarða. Þessi aðgerð norskra stjórnvalda á sér hins vegar ekki stoð í Svalbarðasamningnum frá 1920. Ísland og fleiri ríki (þ.m.t. ESB og Rússland) viðurkenna ekki þessar aðgerðir Noregs og hafa íslensk stjórnvöld raunar ítrekað mótmælt þeim. Í viðræðunum um gerð Norður-Íshafssamningsins var skilgreining samningssvæðisins eitt af viðkvæmari úrlausnarefnum samningaviðræðnanna, meðal annars vegna réttarstöðu hafsvæðanna í kringum Svalbarða. Niðurstaðan sem greint var frá hér að framan byggðist á málamiðlun um þetta atriði. Ekki verður þó talið að þetta ákvæði samningsins hafi nein áhrif á réttarstöðu hafsvæðanna umhverfis Svalbarða og er í því samhengi rétt að vekja athygli á að í 2. mgr. 14. gr. samningsins er sérstaklega kveðið á um að ekkert í samningnum skuli skaða stöðu nokkurs aðila með tilliti til réttinda hans og skuldbindinga samkvæmt alþjóðasamningnum eða stöðu hans með tilliti til álitaefna sem varða hafrétt, meðal annars að því er varðar hvers kyns stöðu í tengslum við beitingu réttinda og lögsögu í Norður-Íshafinu. Af þessu leiðir að samningurinn hefur með engu móti áhrif á afstöðu ríkja hvað varðar lögsögu yfir tilteknum hafsvæðum í Norður-Íshafinu, þ.m.t. hafsvæðunum í kringum Svalbarða. Gerð Norður-Íshafssamnings er hins vegar tilefni til að ítreka fyrri afstöðu íslenskra stjórnvalda um réttarstöðu hafsvæðanna í kringum Svalbarða og mun utanríkisráðuneytið ítreka þessa afstöðu íslenskra stjórnvalda þegar gengið verður frá fullgildingu samningsins.

Framkvæmd samningsins hér á landi.
    Framkvæmd samnings hér á landi kallar á að íslensk stjórnvöld meini íslenskum fiskiskipum að stunda veiðar á úthafinu á miðju Norður-Íshafi. Engar slíkar veiðar eru stundaðar í dag. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið fer með málaefni er varða úthafsveiðar íslenskra skipa, samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996. Það er mat atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins að ákvæði framangreindra laga veiti því fullnægjandi heimildir til þess að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að uppfylla skuldbindingar Norður-Íshafssamningsins af Íslands hálfu. Enn fremur telur atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að ákvæði laga nr. 112/2015, um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, feli í sér fullnægjandi stoð fyrir þátttöku í því vísindasamstarfi sem samningurinn mælir fyrir um. Kallar framkvæmd samningsins hér á landi því ekki á breytingar á lögum.Fylgiskjal.


SAMNINGUR UM AÐ KOMA Í VEG FYRIR STJÓRNLAUSAR ÚTHAFSVEIÐAR Í MIÐHLUTA NORÐUR-ÍSHAFSINS.


    Aðilar að þessum samningi,
          sem gera sér grein fyrir því að allt þar til nýlega hefur ís að mestu þakið úthafssvæðið í miðhluta Norður-Íshafsins árið um kring sem leiddi til þess að ógerningur var að stunda fiskveiðar á því hafsvæði en á síðustu árum hefur íshellan hopað,
          sem hafa í huga að enda þótt athafnir manna hafi lítil áhrif haft á vistkerfin í miðhluta Norður-Íshafsins séu þessi vistkerfi nú að taka breytingum vegna loftslagsbreytinga og annarra fyrirbæra og að ekki er fyrir hendi góður skilningur á áhrifum þessara breytinga,
          sem gera sér grein fyrir því að heilbrigð og sjálfbær sjávarvistkerfi og sjávarútvegur gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í tengslum við fæðu og næringu,
          sem gera sér grein fyrir sérstakri ábyrgð og sérstökum hagsmunum strandríkja við miðhluta Norður-Íshafsins í tengslum við verndun og sjálfbæra stjórnun fiskistofna í miðhluta Norður-Íshafsins,
          sem veita því athygli í þessu tilliti að frumkvæði strandríkja við miðhluta Norður-Íshafsins endurspeglast í yfirlýsingunni um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins sem var undirrituð 16. júlí 2015,
          sem hafa í huga meginreglur og ákvæði sáttmála og annarra alþjóðlegra gerninga er varða veiðar í sjó sem eiga þegar við um úthafssvæðið í miðhluta Norður-Íshafsins, m.a. þau sem er að finna í:
                   hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 („hafréttarsamningurinn“)
                   samningnum um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim frá 4. ágúst 1995 („úthafsveiðisamningurinn frá 1995“) og
                   siðareglunum um ábyrgar fiskveiðar frá 1995 og öðrum viðeigandi gerningum sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt,
          sem leggja áherslu á mikilvægi þess að koma á samstarfi og samræmi milli aðilanna og Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, sem hefur valdheimildir til að samþykkja verndunar- og stjórnunarráðstafanir á hluta úthafssvæðisins í miðhluta Norður-Íshafsins, og annarra viðeigandi fiskveiðistjórnunarkerfa sem komið hefur verið á fót og starfrækt eru í samræmi við reglur þjóðaréttar og aðra viðeigandi alþjóðlega aðila og áætlanir,
          sem telja ólíklegt að fiskveiðar í atvinnuskyni verði arðbærar á úthafssvæðinu í miðhluta Norður-Íshafsins í náinni framtíð og að af þeim sökum sé ótímabært, við núverandi aðstæður, að koma á fót öðrum svæðis- eða undirsvæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum eða öðru fiskveiðifyrirkomulagi til viðbótar á úthafssvæðinu í miðhluta Norður-Íshafsins,
          sem vilja, í samræmi við varúðarnálgun, koma í veg fyrir að hafnar verði stjórnlausar fiskveiðar á úthafssvæðinu í miðhluta Norður-Íshafsins jafnframt því að skoða reglulega hvort fyrir liggi þörf fyrir frekari verndunar- og stjórnunarráðstafanir,
          sem hafa í huga yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja frá 2007,
          sem gera sér grein fyrir hagsmunum íbúa við Norðurskautssvæðið, þ.m.t. frumbyggja, af verndun og sjálfbærri nýtingu lifandi sjávarauðlinda til lengri tíma og heilbrigðum sjávarvistkerfum í Norður-Íshafinu og leggja áherslu á mikilvægi þess að hafa þá og samfélög þeirra með í ráðum og
          sem vilja stuðla að nýtingu bæði vísindaþekkingar og þekkingar frumbyggja og staðkunnugra á lifandi sjávarauðlindum í Norður-Íshafinu og vistkerfum þeirra sem undirstöðu fyrir verndun og stjórnun fiskveiða á úthafssvæðinu í miðhluta Norður-Íshafsins,
          hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. gr.

Notkun hugtaka.

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a.      „samningssvæði“ merkir úthafssvæðið í miðhluta Norður-Íshafsins sem er umkringt hafsvæðum þar sem Kanada, Konungsríkið Danmörk fyrir hönd Grænlands, Konungsríkið Noregur, Rússneska sambandsríkið og Bandaríki Norður-Ameríku fara með fiskveiðilögsögu,
     b.      „fiskur“ merkir tegundir fisks, lindýra og krabbadýra, að undanskildum þeim sem tilheyra botnsetutegundum eins og þær eru skilgreindar í 77. gr. hafréttarsamningsins,
     c.      fiskveiðar merkir að leita að, laða að, finna, veiða, taka eða nýta fisk eða hvers kyns athafnir sem ætla má að feli í sér að laða að, finna, veiða, taka eða nýta fisk,
     d.      „fiskveiðar í atvinnuskyni“ merkir fiskveiðar í ábataskyni,
     e.      „tilraunaveiðar“ merkir fiskveiðar í þeim tilgangi að meta sjálfbærni og hagkvæmni framtíðarfiskveiða í atvinnuskyni með því að leggja af mörkum til vísindagagna er varða slíkar fiskveiðar,
     f.      „skip“ merkir skip sem er notað, útbúið eða ætlað til fiskveiða.

2. gr.

Markmið samningsins.

    Markmið þessa samnings er að koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar á úthafssvæðinu í miðhluta Norður-Íshafsins með því að beita í varúðarskyni verndunar- og stjórnunarráðstöfunum sem hluta af langtímaáætlun til að vernda heilbrigð sjávarvistkerfi og tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu fiskistofna.

3. gr.

Verndunar- og stjórnunarráðstafanir til bráðabirgða vegna fiskveiða.

     1.      Sérhver aðili skal heimila skipum, sem eiga rétt á að sigla undir fána hans, að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á samningssvæðinu eingöngu í samræmi við:
                  a.      verndunar- og stjórnunarráðstafanir til sjálfbærrar stjórnunar fiskistofna, sem samþykktar eru af svæðis- eða undirsvæðisbundinni fiskveiðistjórnunarstofnun eða -stofnunum eða öðru fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi, sem hefur verið eða kann að verða komið á fót og starfrækt í samræmi við reglur þjóðaréttar til þess að stjórna fiskveiðum í samræmi við viðurkennda alþjóðlega staðla eða
                  b.      verndunar- og stjórnunarráðstafanir til bráðabirgða sem aðilarnir kunna að samþykkja skv. ii. lið c-liðar í 1. mgr. 5. gr.
     2.      Aðilarnir eru hvattir til þess að stunda vísindarannsóknir innan ramma sameiginlegu áætlunarinnar um vísindarannsóknir og vöktun sem komið er á fót skv. 4. gr. og samkvæmt innlendum landsáætlunum á sviði vísinda.
     3.      Aðili getur heimilað skipum, sem mega sigla undir fána hans, að stunda tilraunaveiðar á samningssvæðinu eingöngu í samræmi við verndunar- og stjórnunarráðstafanir sem aðilarnir hafa samþykkt á grundvelli d-liðar 1. mgr. 5. gr.
     4.      Aðilarnir skulu sjá til þess að vísindarannsóknir þeirra sem taka til fiskveiða á samningssvæðinu grafi ekki undan ráðstöfunum gegn stjórnlausum fiskveiðum í atvinnu- og tilraunaskyni og verndun heilbrigðra sjávarvistkerfa. Aðilarnir eru hvattir til að upplýsa hver annan um áætlanir sínar um að heimila slíkar vísindarannsóknir.
     5.      Aðilarnir skulu tryggja að farið sé að þeim bráðabirgðaráðstöfunum sem samþykktar eru í þessari grein, sem og frekari eða annars konar bráðabirgðaráðstöfunum sem þeir samþykkja skv. c-lið 1. mgr. 5. gr.
     6.      Aðilar sem eru strandríki og aðrir aðilar skulu, í samræmi við 7. gr. úthafsveiðisamningsins frá 1995, hafa með sér samstarf til þess að tryggja að farið sé að verndunar- og stjórnunarráðstöfunum vegna fiskistofna sem er að finna bæði innan og utan lögsögu einstakra ríkja í miðhluta Norður-Íshafsins í því skyni að tryggja verndun og stjórnun þessara stofna í heild sinni.
     7.      Að öðru leyti en því sem kveðið er á um í 4. mgr. hér að framan skal ekki túlka neitt í þessum samningi svo að það takmarki rétt aðila í tengslum við hafrannsóknir eins og fram kemur í hafréttarsáttmálanum.

4. gr.

Sameiginleg áætlun um vísindarannsóknir og vöktun.

     1.      Aðilarnir skulu greiða fyrir samstarfi í vísindalegri starfsemi með það að markmiði að efla þekkingu á lifandi sjávarauðlindum í miðhluta Norður-Íshafsins og þeim vistkerfum þar sem þær er að finna.
     2.      Aðilarnir samþykkja að koma á fót, innan tveggja ára frá gildistöku þessa samnings, sameiginlegri áætlun um vísindarannsóknir og vöktun með það að markmiði að bæta skilning þeirra á vistkerfum samningssvæðisins og einkum ákvarða hvort fiskistofnar kunni að vera fyrir hendi á samningssvæðinu nú eða í framtíðinni sem hægt væri að nýta með sjálfbærum hætti og möguleg áhrif slíkra fiskveiða á vistkerfi samningssvæðisins.
     3.      Aðilarnir skulu stýra þróun, samræmingu og framkvæmd sameiginlegu áætlunarinnar um vísindarannsóknir og vöktun.
     4.      Aðilarnir skulu sjá til þess að í sameiginlegu áætluninni um vísindarannsóknir og vöktun sé tekið tillit til starfs á vegum viðeigandi vísinda- og tæknistofnana, -aðila og -áætlana, auk þekkingar frumbyggja og staðkunnugra.
     5.      Aðilarnir skulu, innan ramma sameiginlegu áætlunarinnar um vísindarannsóknir og vöktun, samþykkja, innan tveggja ára frá gildistöku þessa samnings, reglur um gagnamiðlun og skulu miðla viðeigandi gögnum, beint eða fyrir milligöngu vísinda- og tæknistofnana, -aðila og -áætlana, í samræmi við þær reglur.
     6.      Aðilarnir skulu halda sameiginlega vísindafundi, með því að koma saman eða með öðrum hætti, a.m.k. á tveggja ára fresti og a.m.k. tveimur mánuðum áður en fundir aðilanna skv. 5. gr. eru haldnir, þar sem þeir leggja fram niðurstöður rannsókna sinna, fara yfir bestu fyrirliggjandi vísindaupplýsingar og láta tímanlega í té vísindalega ráðgjöf á fundum aðilanna. Aðilarnir skulu samþykkja, innan tveggja ára frá gildistöku þessa samnings, starfsskilmála og aðrar verklagsreglur að því er varðar hlutverk sameiginlegu vísindafundanna.

5. gr.

Endurskoðun og frekari framkvæmd.

     1.      Aðilarnir skulu koma saman á tveggja ára fresti eða oftar ef þeir ákveða það. Á fundum sínum skulu aðilarnir m.a.:
                  a.      fara yfir framkvæmd þessa samnings og, þegar við á, fjalla um hver þau málefni er varða gildistíma þessa samnings í samræmi við 2. mgr. 13. gr.,
                  b.      fara yfir allar fyrirliggjandi vísindalegar upplýsingar, sem fjallað er um á vettvangi sameiginlegu áætlunarinnar um vísindarannsóknir og vöktun og koma frá vísindaáætlunum einstakra ríkja og öðrum viðeigandi heimildum, m.a. þekkingu frumbyggja og staðkunnugra,
                  c.      á grundvelli vísindalegra upplýsinga, sem rekja má til sameiginlegu áætlunarinnar um vísindarannsóknir og vöktun, frá vísindaáætlunum einstakra ríkja og frá öðrum viðeigandi heimildum, og með tilliti til viðeigandi sjónarmiða varðandi stjórnun fiskveiða og vistkerfið, m.a. varúðarnálgunar og mögulegra skaðlegra áhrifa fiskveiða á vistkerfin, m.a. fjalla um hvort útbreiðsla, göngur og magn fisks á samningssvæðinu myndi styðja við sjálfbærar fiskveiðar í atvinnuskyni og ákvarða, á þeim grundvelli:
                      1.      hvort hefja skuli samningaviðræður til þess að koma á fót öðrum svæðis- eða undirsvæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum eða öðru fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi til viðbótar á samningssvæðinu og
                      2.      hvort koma skuli á fót, eftir að samningaviðræður eru hafnar skv. i. lið hér að framan og þegar aðilar hafa samþykkt kerfi til þess að tryggja sjálfbærni fiskistofna, bráðabirgðaverndunar- og stjórnunarráðstöfunum, sem koma til viðbótar eða eru annars eðlis, í tengslum við þessa fiskistofna á samningssvæðinu,
                  d.      koma á fót, innan þriggja ára frá gildistöku þessa samnings, verndunar- og stjórnunarráðstöfunum vegna tilraunaveiða á samningssvæðinu. Aðilarnir geta breytt þessum ráðstöfunum öðru hverju. Í ráðstöfununum skal m.a. kveðið á um:
                      1.      að tilraunaveiðar skuli ekki grafa undan markmiði þessa samnings,
                      2.      að takmarka skuli tilraunaveiðar hvað varðar tímalengd, gildissvið og umfang til þess að draga eins og kostur er úr áhrifum á fiskistofna og vistkerfi og skulu þær vera í samræmi við þær stöðluðu kröfur sem settar eru fram í reglunum um gagnamiðlun sem samþykktar eru í samræmi við 5. mgr. 4. gr.,
                      3.      að aðili geti heimilað tilraunaveiðar einungis á grundvelli traustra vísindarannsókna og þegar þær eru í samræmi við sameiginlegu áætlunina um vísindarannsóknir og vöktun og hans eigin vísindaáætlun/-áætlanir,
                      4.      að aðili geti heimilað tilraunaveiðar einungis eftir að hann hefur tilkynnt hinum aðilunum um fyrirætlanir sínar varðandi slíkar fiskveiðar og veitt öðrum aðilum tækifæri til að gera athugasemdir við þessar fyrirætlanir og
                      5.      að aðili verði að hafa fullnægjandi eftirlit með hvers kyns tilraunaveiðum sem hann hefur heimilað og veita hinum aðilunum upplýsingar um niðurstöður slíkra fiskveiða.
     2.      Til þess að stuðla að framkvæmd þessa samnings, m.a. með tilliti til sameiginlegu áætlunarinnar um vísindarannsóknir og vöktun og annarrar starfsemi sem stunduð er skv. 4. gr., geta aðilarnir komið á fót nefndum eða sambærilegum aðilum með þátttöku fulltrúa samfélaganna, m.a. frumbyggja, við Norðurskautssvæðið.

6. gr.

Ákvarðanataka.

     1.      Meirihluti aðila, sem greiða atkvæði með eða á móti, skal taka ákvarðanir um álitaefni varðandi málsmeðferð.
     2.      Aðilarnir skulu taka ákvarðanir um efnisleg álitaefni með samhljóða samþykki. Að því er þennan samning varðar merkir „samhljóða samþykki“ það að enginn setur fram formleg andmæli þegar ákvörðunin er tekin.
     3.      Álitaefni skal teljast efnislegt ef einhver aðilanna lítur svo á.

7. gr.

Lausn deilumála.

    Ákvæði varðandi lausn deilumála, sem fram koma í VIII. hluta úthafsveiðisamningsins frá 1995, gilda að breyttu breytanda um hvers kyns deilur milli aðila er varða túlkun eða beitingu þessa samnings, hvort sem þeir eru einnig aðilar að úthafsveiðisamningnum frá 1995 eða ekki.

8. gr.

Aðilar sem ekki eiga aðild að samningnum.

     1.      Aðilarnir skulu hvetja þá aðila, sem ekki eiga aðild að samningnum, til þess að gera ráðstafanir sem eru í samræmi við ákvæði þessa samnings.
     2.      Aðilarnir skulu gera ráðstafanir í samræmi við ákvæði þjóðaréttar til þess að hindra starfsemi skipa sem mega sigla undir fána aðila sem eiga ekki aðild að þessum samningi, sem grefur undan skilvirkri framkvæmd hans.

9. gr.

Undirritun.

     1.      Samningur þessi er opinn til undirritunar í [staðsetning] hinn [dagsetning] fyrir Kanada, Alþýðulýðveldið Kína, Konungsríkið Danmörku fyrir hönd Færeyja og Grænlands, Ísland, Japan, Lýðveldið Kóreu, Konungsríkið Noreg, Rússneska sambandsríkið, Bandaríki Norður-Ameríku og Evrópusambandið og skal vera áfram opinn til undirritunar í 12 mánuði frá þeim degi.
     2.      Samningur þessi skal vera opinn til fullgildingar, staðfestingar eða samþykkis hvenær sem er fyrir undirritunaraðila hans.

10. gr.

Aðild.

     1.      Samningurinn skal vera opinn til aðildar hvenær sem er fyrir þau ríki sem fram koma í 1. mgr. 9. gr. og hafa ekki undirritað þennan samning og fyrir Evrópusambandið ef það hefur ekki undirritað samninginn.
     2.      Eftir gildistöku samnings þessa geta aðilarnir boðið öðrum ríkjum, sem hafa raunverulegra hagsmuna að gæta, að gerast aðilar að honum.

11. gr.

Gildistaka.

     1.      Samningur þessi öðlast gildi 30 dögum eftir að vörsluaðili hefur tekið við öllum skjölum um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild þessara ríkja og Evrópusambandsins, sem fram koma í 1. mgr. 9. gr., að honum.
     2.      Eftir gildistöku samnings þessa skal hann öðlast gildi gagnvart hverju því ríki sem býðst að gerast aðili að honum skv. 2. mgr. 10. gr. og hefur lagt fram aðildarskjal 30 dögum eftir að skjalið er afhent til vörslu.

12. gr.

Uppsögn.

    Aðili getur hvenær sem er sagt upp aðild að þessum samningi með því að senda skriflega tilkynningu til vörsluaðila eftir diplómatískum leiðum, þar sem hann tilgreinir gildistökudag uppsagnarinnar sem skal vera a.m.k. sex mánuðum eftir að tilkynningin er send. Uppsögn á samningi þessum skal ekki hafa áhrif á beitingu hans af hálfu þeirra samningsaðila sem eftir eru eða þá skyldu uppsagnaraðila að uppfylla skuldbindingu í þessum samningi sem hann yrði ella bundinn af samkvæmt reglum þjóðaréttar óháð þessum samningi.

13. gr.

Gildistími samningsins.

     1.      Samningur þessi skal í upphafi gilda í 16 ár frá gildistöku hans.
     2.      Þegar upphafstímabilinu, sem tilgreint er í fyrstu málsgrein hér að framan, lýkur skal samningur þessi framlengdur um fimm ár í senn nema aðili:
                  a.      leggi fram formleg andmæli við framlengingu samningsins á síðasta fundi aðilanna fyrir lok upphafstímabilsins eða framlengingartímabils þar eftir eða
                  b.      sendi formleg, skrifleg andmæli við framlengingu til vörsluaðilans eigi síðar en sex mánuðum fyrir lok viðkomandi tímabils.
     3.      Aðilarnir skulu sjá um skilvirk umskipti frá þessum samningi yfir í hugsanlegan nýjan samning þar sem komið er á fót öðrum svæðis- eða undirsvæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum eða öðru fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi til viðbótar á samningssvæðinu í því skyni að varðveita heilbrigð sjávarvistkerfi og tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu fiskistofna á samningssvæðinu.

14. gr.

Tengsl við aðra samninga.

     1.      Aðilarnir gera sér grein fyrir því að þeir eru og verða áfram bundnir af skuldbindingum sínum samkvæmt ákvæðum þjóðaréttar, m.a. skuldbindingum sem endurspeglast í hafréttarsáttmálanum og úthafsveiðisamningnum frá 1995, og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að halda áfram samstarfi um að uppfylla þessar skuldbindingar jafnvel þótt þessi samningur renni úr gildi eða honum verði sagt upp án þess að fyrir liggi samningur um að koma á fót öðrum svæðis- eða undirsvæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum eða öðru fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi til viðbótar á samningssvæðinu.
     2.      Ekkert í þessum samningi skal skaða stöðu nokkurs aðila með tilliti til réttinda hans og skuldbindinga samkvæmt alþjóðasamningum eða stöðu hans með tilliti til álitaefna er varða hafrétt, m.a. að því er varðar hvers kyns stöðu í tengslum við það að neyta réttinda og lögsögu í Norður-Íshafinu.
     3.      Ekkert í þessum samningi skal hafa áhrif á réttindi, lögsögu og skyldur aðila samkvæmt viðeigandi ákvæðum þjóðaréttar, eins og sett er fram í hafréttarsamningnum eða úthafsveiðisamningnum frá 1995, þ.m.t. tillögurétt um að gengið verði til viðræðna um að koma á fót öðrum svæðis- eða undirsvæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum eða öðru fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi til viðbótar á samningssvæðinu.
     4.      Samningur þessi skal ekki breyta réttindum og skuldbindingum aðila sem leiðir af öðrum samningum og eru í samræmi við þennan samning og sem hafa ekki áhrif á að aðrir aðilar nýti sér réttindi sín eða uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi. Samningur þessi skal hvorki grafa undan né vera í andstöðu við hlutverk og umboð fyrirliggjandi alþjóðlegra fiskveiðistjórnunarkerfa.

15. gr.

Vörsluaðili.

     1.      Ríkisstjórn Kanada skal vera vörsluaðili samnings þessa.
     2.      Skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild skulu afhent vörsluaðila.
     3.      Vörsluaðilinn skal tilkynna öllum undirritunaraðilum og öllum aðilum um afhendingu allra skjala um fullgildingu, staðfestingu, samþykki og aðild og annast hver þau störf önnur sem kveðið er á um í Vínarsamningnum um alþjóðasamningarétt frá 1969.

    Gjört í Ilulissat hinn 3. október 2018 á kínversku, ensku, frönsku og rússnesku og eru allir textarnir jafngildir.