Ferill 783. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1243  —  783. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fleiri lögum (skilvirkni og samræming málsmeðferðarreglna o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

1. gr.

    2. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    1. Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum. Dómari getur veitt undanþágu frá banni við öllu framangreindu ef sérstaklega stendur á. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi án leyfis dómara er óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir. Sama gildir um birtingu hljóð- og myndupptakna af munnlegum framburði, sem dómstóll hefur annast. Brot gegn þessari málsgrein varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

3. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Dómara er rétt að rita á tölvu það sem væri ella fært í slíka bók, en það sem skráð er með þeim hætti skal þá varðveita á rafrænu formi þannig að það sé öruggt og aðgengilegt.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Landsrétti“ í 1. mgr. kemur: æðra dómi.
     b.      Fyrri málsliður 3. mgr. orðast svo: Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi er dómara skylt gegn greiðslu gjalds að afhenda aðilum máls afrit hljóðupptöku skv. 3. mgr. 11. gr. eða leyfa þeim að hlýða á slíkar upptökur eða horfa á myndupptökur, svo fljótt sem við verður komið eftir að þess er óskað.
     c.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Dómstólasýslan setur nánari reglur um afhendingu afrita af hljóðupptökum og um aðgang að myndupptökum.
     d.      Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Forseti æðra dóms tekur slíka ákvörðun eða kveður upp úrskurð þegar meðferð máls er endanlega lokið fyrir þeim dómi.

5. gr.

    Í stað orðanna „1. mgr. 149. gr.“ í 4. mgr. 124. gr. laganna kemur: 148. gr.

6. gr.

    Í stað orðanna „Þegar vika er liðin frá því að kærumálsgögn bárust Landsrétti“ í 1. mgr. 149. gr. laganna kemur: Að liðnum fresti skv. 148. gr. eða þegar greinargerð gagnaðila hefur borist.

7. gr.

    E-liður 1. mgr. 155. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 156. gr. laganna:
     a.      Orðin „og hljóð- og myndupptökur“ í 2. málslið falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Héraðsdómstóll skal afhenda Landsrétti hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði í málinu.

9. gr.

    Eftirfarandi breyting verður á 1. mgr. 167. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Úrskurðir“ kemur: Dómsathafnir.
     b.      Við a-lið bætist: ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms.
     c.      Á undan orðinu „réttarfarssekt“ í d-lið kemur: úrskurð um.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 168. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og eftir atvikum“ í 1. mgr. kemur: ef við á með.
     b.      Orðin „ásamt skriflegri kæru“ í 1. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „Kæra eða ósk um kæruleyfi“ í 2. mgr. kemur: Kæra, ef við á með ósk um kæruleyfi.

11. gr.

    Í stað orðsins „henni“ í c-lið 1. mgr. 169. gr. laganna kemur: hinni kærðu dómsathöfn.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 171. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eða ósk um kæruleyfi ásamt kæru“ í 1. mgr. kemur: ef við á með ósk um kæruleyfi.
     b.      Í stað orðanna „eða óskar eftir kæruleyfi vegna dómsathafnar“ í 2. mgr. kemur: ef við á með kæruleyfi, dómsathöfn.
     c.      Í stað orðsins „fjórriti“ í 2. mgr. kemur: sex eintökum.
     d.      Í stað orðanna „eða óskar eftir kæruleyfi“ í 3. mgr. kemur: ef við á með ósk um kæruleyfi.

13. gr.

    Í stað orðanna „Þegar vika er liðin frá því að kærumálsgögn og eftir atvikum greinargerð gagnaðila bárust“ í 1. mgr. 173. gr. laganna kemur: Að liðnum fresti skv. 172. gr. eða þegar greinargerð gagnaðila hefur borist.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 174. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í tilkynningu skal greint frá ástæðum fyrir synjuninni.
     b.      Á eftir orðinu „Landsrétti“ í fyrri málslið 4. mgr. kemur: og eftir atvikum héraðsdómara.
     c.      Síðari málsliður 4. mgr. orðast svo: Hæstiréttur tilkynnir aðilum kærumáls sem hafa látið það til sín taka fyrir réttinum um úrslit þess.

15. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 176. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hæstiréttur ákveður hvort orðið verði við umsókn um áfrýjunarleyfi og má takmarka leyfið við tiltekin atriði máls. Við mat á því hvort fallist verði á beiðni um áfrýjunarleyfi skal líta til þess hvort úrslit máls hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar leyfis.

16. gr.

    Í stað orðanna ,,í héraði eftir“ í 190. gr. laganna kemur: fyrir Landsrétti.

II. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

17. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

    1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum. Dómari getur veitt undanþágu frá banni við öllu framangreindu ef sérstaklega stendur á. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi án leyfis dómara er óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir. Sama gildir um birtingu hljóð- og myndupptakna af munnlegum framburði, sem dómstóll hefur annast.

19. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Dómara er rétt að rita á tölvu það sem væri ella fært í slíka bók, en það sem skráð er með þeim hætti skal þá varðveita á rafrænu formi þannig að það sé öruggt og aðgengilegt.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi er dómara skylt endurgjaldslaust að afhenda aðilum máls afrit hljóðupptöku skv. 3. mgr. 13. gr. eða leyfa þeim að hlýða á slíkar upptökur eða horfa á myndupptökur, svo fljótt sem við verður komið eftir að þess er óskað.
     b.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Dómstólasýslan setur nánari reglur um afhendingu afrita af hljóðupptökum og um aðgang að myndupptökum.
     c.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Forseti æðri dóms tekur slíka ákvörðun eða kveður upp úrskurð þegar meðferð máls er endanlega lokið fyrir þeim dómi.

21. gr.

    Í stað orðanna „eftir atvikum“ í síðari málslið 4. mgr. 21. gr. laganna kemur: um kæru til.

22. gr.

    3. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Ef rannsókn á því broti sem héraðssaksóknari fer með skv. 1. og 2. mgr. leiðir til þess að rannsakað er annað eða önnur brot sama sakbornings sem ákæruvald héraðssaksóknara nær alla jafna ekki til getur hann höfðað mál vegna brotanna en ella gerir lögreglustjóri það.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Því má þó marka lengri tíma en fjórar vikur meðan á áfrýjunarfresti skv. 199. gr. stendur eða fresti til að leita leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar skv. 217. gr., svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðri dómi uns endanlegur dómur gengur.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Gæsluvarðhaldi lýkur með endanlegum dómi eða ef ákærði er sýknaður eða honum dæmd refsing sem er vægari en óskilorðsbundið fangelsi.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 122. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „nafni sínu, kennitölu og heimili“ í fyrri málslið kemur: nafni sínu og kennitölu.
     b.      Á eftir fyrri málslið kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Dómari lætur lögreglumann þó aðeins gera grein fyrir lögreglunúmeri.

25. gr.

    Í stað orðanna „í fjórriti“ í 4. málsl. 1. mgr. 194. gr. laganna kemur: á því formi eða í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 202. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hljóð- og myndupptökur“ í 1. málsl. kemur: hljóðupptökur.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkissaksóknari skal afhenda verjanda málsgögn.
     c.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Héraðsdómstóll skal afhenda Landsrétti hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði í málinu.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 211. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Úrskurðir“ kemur: Dómsathafnir.
     b.      Við a-lið bætist: ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms.
     c.      Á undan orðinu „réttarfarssekt“ í c-lið kemur: úrskurð um.

28. gr.

    Í stað tölunnar „200“ í síðari málslið 3. mgr. 212. gr. laganna kemur: 216.

29. gr.

    Í stað orðsins „fjórriti“ í 3. málsl. 1. mgr. 213. gr. laganna kemur: sex eintökum.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 214. gr. laganna
     a.      Á eftir orðinu „Landsrétti“ í fyrri málslið kemur: og eftir atvikum héraðsdómara.
     b.      Síðari málsliður orðast svo: Hæstiréttur tilkynnir aðilum kærumáls sem hafa látið það til sín taka fyrir réttinum um úrslit þess.

31. gr.

    Við 1. málsl. 4. mgr. 215. gr. laganna bætist: og má takmarka leyfið við tiltekin atriði máls.

32. gr.

    Orðin „sbr. þó 1. mgr. 198. gr.“ í 1. og 2. mgr. 216. gr. laganna falla brott.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 217. gr. laganna:
     a.      Við 3. málsl. 3. mgr. bætist: svo og endurrit af dómi Landsréttar.
     b.      Í stað orðsins „áfrýjað“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: óskað eftir leyfi til áfrýjunar.
     c.      Í stað orðsins „áfrýjunarfrests“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: framangreindra fresta.

34. gr.

    Í stað orðsins „héraðsdómi“ í 1. mgr. 218. gr. laganna kemur: dómi Landsréttar.

35. gr.

    Í stað orðanna „viðkomandi dómstóll“ í 1. mgr. 219. gr. laganna kemur: Landsréttur.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 237. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „dæmdur“ kemur: úrskurðaður.
     b.      Í stað orðsins „dómi“ kemur: úrskurði.

37. gr.

    Á eftir 2. mgr. 238. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur fyrir Hæstarétti nema máli sé þá lokið með dómi.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ kæruleyfi“ í 1. tölul. kemur: beiðni um kæruleyfi ásamt kæru.
     b.      Í stað orðsins „áfrýjunarleyfi“ í 2. tölul. kemur: beiðni um áfrýjunarleyfi.

IV. KAFLI

Breyting á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

39. gr.

    1. mgr. 54. gr. laganna orðast svo:
    Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal kveðja til setu í dómi sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka. Um fjölda þeirra og kvaðningu fer að öðru leyti eftir 2. gr. og 2. gr. a laga um meðferð einkamála.

V. KAFLI

Breyting á lögum nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, með síðari breytingum.

40. gr.

    3. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Kæra má til Landsréttar úrskurð dómara um hvort lagt verði á nálgunarbann eða um brottvísun af heimili, svo og úrskurð sem gengur í máli um slíka kröfu, ef hann getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála. Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

VI. KAFLI

Breyting á lögum nr. 50/2016, um dómstóla, með síðari breytingum.

41. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Stjórn dómstólasýslunnar setur reglur um birtingu dóma og úrskurða héraðsdómstóla, Landsréttar og Hæstaréttar.

42. gr.

    Lokamálsliður 2. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

43. gr.

    Á undan 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fullnægi enginn dómari við Landsrétt sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með mál kveður forseti í einu lagi upp úrskurð um að þeir víki allir sæti í því.

44. gr.

    Síðari málsliður 2. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

45. gr.

    Orðin „setur reglur og“ í 1. mgr. 38. gr. laganna falla brott.

46. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við réttarfarsnefnd. Frumvarpið felur í sér nokkrar mikilvægar breytingar á ákvæðum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Þá eru jafnframt lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, barnaverndarlögum, nr. 80/2002, lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, og lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Með þeim breytingum sem lagðar eru til er fyrst og fremst að því að skýra, samræma og einfalda lagaákvæði sem fjalla um málsmeðferð fyrir dómstólum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á því rúma ári sem liðið er frá því að þriggja þrepa dómskerfi var komið á fót hér á landi og Landsréttur tók til starfa, á grundvelli laga nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála, og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), og nýrra laga nr. 50/2016, um dómstóla, hafa dómsmálaráðuneytinu og réttarfarsnefnd borist ábendingar meðal annars frá Landsrétti, Hæstarétti og ríkissaksóknara um ýmis atriði sem reynslan hefur leitt í ljós að betur megi fara í hinu nýja regluverki um málsmeðferð fyrir þessum dómstólum auk annarra atriða sem ekki tengjast nýlegum breytingum á dómstólum og réttarfari. Ekki er um að ræða atriði sem hafa hamlað málsmeðferð fyrir þessum dómstólum heldur frekar þætti í málsmeðferðinni sem þarfnast frekari útfærslu eða samræmingar milli dómstiga og milli einkamálaréttarfars og sakamálaréttarfars.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur jöfnum höndum í sér breytingar á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Í nokkrum tilvikum er um að ræða samsvarandi breytingar á báðum lagabálkunum þannig í raun er um að ræða færri efnisbreytingar en fjöldi greina í frumvarpinu bendir til. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um dómstóla og öðrum lögum. Veigamestu breytingarnar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:
     Upptökur og miðlun upplýsinga úr þinghaldi. Samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi án þess að dómari veiti til þess undanþágu og gildir þá einu hvort um einkamál eða sakamál er að ræða. Í frumvarpinu er lagt til að jafnframt verði óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum. Dómari getur veitt undanþágu frá þessu. Þá verði óheimilt að birta slíkar upptökur sem gerðar hafa verið án leyfis dómara að viðlögðum sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Sama gildi um hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði, sem dómstóll annast.
     Afhending hljóð- og myndupptakna til aðila máls. Meðan mál er rekið í héraði eða fyrir æðra dómi, svo og á meðan áfrýjunarfresti stendur, er dómara skylt samkvæmt gildandi lögum að láta málsaðilum í té hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði eða leyfa þeim að hlýða og horfa á slíkar upptökur. Þetta gildir bæði í einkamálum og sakamálum. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að einungis afrit af hljóðupptökum af munnlegum framburði verði afhent aðilum málsins en aftur á móti verði þeim leyft að horfa á slíkar myndupptökur í húsakynnum dómstóls. Um þetta fari nánar eftir reglum sem dómstólasýslan setji.
     Kæra á frávísunarúrskurðum Landsréttar. Lagt er til að skýrt verði kveðið á um það í lögum að úrskurðir Landsréttar um að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um frávísun séu ekki kæranlegir til Hæstaréttar. Eftir sem áður verður heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar um að vísa máli frá héraðsdómi að eigin frumkvæði. Þessi breyting er lögð til bæði er varðar einkamál og sakamál.
     Málsmeðferðartími í kærumálum. Lagt er til að Landsréttur og Hæstiréttur geti kveðið upp dóm eða úrskurð í kærumálum, hvort heldur í einkamáli eða sakamáli, þegar greinargerð varnaraðila hefur borist jafnvel þótt hann hafi ekki nýtt til þess allan lögbundinn frest. Þessi breyting leiðir til styttri málsmeðferðartíma í einhverjum tilvikum en samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að kveða upp slíkan dóm eða úrskurð fyrr en vika er liðin frá því að kærumálsgögn bárust viðkomandi dómstól.
     Afhending gagna í kærumálum í sakamálum. Lagt er til í frumvarpinu að í stað þess að fastsetja með lögum að héraðsdómur afhendi Landsrétti gögn kærumála í sakamálum í fjórriti þá afhendi héraðsdómur gögnin á því formi eða í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður. Með því verði lögin gerð hlutlaus að því er varðar sendingarmáta og gefinn sá möguleiki að senda gögnin rafrænt á milli dómstiganna og þannig verði stigið skref í átt að rafrænu réttarfari.
     Kæra til Hæstaréttar og kæruleyfi. Í hagkvæmnisskyni er lagt til að kæra til Hæstaréttar og ósk um kæruleyfi í einkamálum verði eftirleiðis sett fram í einu og sama skjalinu þar sem við á.
     Áfrýjunarstefna í einkamálum. Lagt er til að við áfrýjun til Landsréttar þurfi ekki lengur að greina frá því í áfrýjunarstefnunni hverja áfrýjandi hyggst leiða fyrir dóm til skýrslugjafar um atvik máls og í hvaða skyni það skuli gert. Nægilegt sé að slíkt komi skýrlega fram í greinargerð áfrýjanda sem lögð er fram við þingfestingu.
     Áfrýjun til Hæstaréttar. Lagt er til að skýrt verði tekið fram í lögum að Hæstarétti sé heimilt að takmarka áfrýjunarleyfi, hvort heldur í einkamáli eða sakamáli, við tiltekin atriði máls.
     Gæsluvarðhald. Lagt er til að ekki verði lengur kveðið á um það í lögum að gæsluvarðhaldi ljúki þegar dómur héraðsdóms hefur verið kveðinn upp. Í stað þess verði kveðið á um að gæsluvarðhaldi ljúki með endanlegum dómi ef ákærði er sýknaður eða honum dæmd refsing sem er vægari en óskilorðsbundið fangelsi. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum að heimilt sé að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald á meðan á áfrýjunarfresti til Hæstaréttar stendur svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðri dómi.
     Vitni í sakamálum. Lagt er til að vitnum í sakamálum verði einungis gert að greina frá nafni sínu og kennitölu, en ekki heimili líkt og nú gildir. Þá er lagt til að lögreglumönnum verði einungis gert að greina frá lögreglunúmeri.
     Dómsmálagjöld við meðferð einkamála. Lagt er til að tvímæli séu tekin af um að gjald sé tekið fyrir kæru til Hæstaréttar þegar um beina kæruheimild til Hæstaréttar er að ræða, en í þeim tilvikum sem lög mæla fyrir um að óska þurfi eftir leyfi Hæstaréttar til kæru sé greitt fyrir beiðni um kæruleyfi, hvort sem kæruleyfi er veitt eður ei. Ekki þurfi aftur á móti að greiða viðbótargjald fyrir kæru verði leyfið veitt. Þá er jafnframt lagt til að skýrt verði kveðið á um að gjald sé tekið fyrir að leggja fram beiðni um leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar einkamáls hvort sem slíkt leyfi verði veitt eður ei. Sé beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt skuli á hinn bóginn greiða viðbótargjald fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu.
     Sérfróðir meðdómsmenn og barnaverndarmál. Lagt er til að skylt verði að kveða til meðdómsmann eða meðdómsmenn í málum sem rekin eru skv. 54. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Um fjölda þeirra og kvaðningu fari aftur á móti eftir almennum reglum um meðferð einkamála.
     Samræmdar reglur um birtingu dóma. Lagt er til að dómstólasýslunni verði falið að setja samræmdar reglur um birtingu dóma og úrskurða allra dómstiganna þriggja. Samkvæmt gildandi lögum ná reglur dómstólasýslunnar einungis til birtingar héraðsdóma, en um birtingu dómsúrlausna Landsréttar og Hæstaréttar fer eftir ákvörðun þessara dómstóla að höfðu samráði við dómstólasýsluna. Lögð er áhersla á að í þessu frumvarpi eru ekki lagðar til neinar aðrar breytingar á reglum um birtingu dóma.
    Þá hefur frumvarpið að geyma nokkrar smærri lagfæringar á orðalagi einstaka ákvæða og tilvísunum á milli lagaákvæða sem þó þykja nauðsynlegar til að tryggja nægilegan skýrleika ákvæðanna. Nánari grein er gerð fyrir þessum breytingum í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu gefa ekki tilefni til að ætla að þær séu í andstöðu við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið og félagsmálaráðuneytið um breytingar á þeim lögum sem undir þessi ráðuneyti heyra.
    Frumvarpið var til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins á vefsíðunni Ísland.is frá 6. febrúar til 20. febrúar 2019 og bárust umsagnir frá Hagsmunasamtökum heimilanna og tveimur einstaklingum. Þá barst ráðuneytinu jafnframt umsögn frá Lögmannafélagi Íslands og frá Landssambandi lögreglumanna.
    Af hálfu Landssambands lögreglumanna og þeirra tveggja einstaklinga sem skiluðu umsögn um frumvarpið var lagt til að lögum um meðferð sakamála yrði breytt þannig að lögreglumönnum yrði einungis gert að gera grein fyrir lögreglunúmeri er þeir gæfu skýrslu fyrir dómi vegna starfa síns, en ekki bæði nafni og lögreglunúmeri eins og drög að frumvarpi þessu gerðu ráð fyrir. Ráðuneytið telur þessa tillögu til bóta og hefur 24. gr. þess verið breytt í samræmi við það.
    Af hálfu Lögmannafélags Íslands var lagst gegn því að þingvottar yrðu lagðir niður. Reynslan sýndi að ágreiningur gæti komið upp um hvað fram fór í þinghaldi og því væri nauðsynlegt að hafa þingvotta áfram. Ekki voru gerðar breytingar á frumvarpinu í tilefni af þessari athugasemd og er um það vísað til þeirra sjónarmiða sem fram koma í skýringum við 1. gr. frumvarpsins. Þá benti Lögmannafélag Íslands á að með því að leggja bann við samtímaendursögn af því sem fram fer í þinghaldi væri gengið nærri reglunni um opinbera málsmeðferð. Nægilegt væri að slíkt bann takmarkaðist við skýrslutökur. Ráðuneytið telur þessa athugasemd réttmæta og hefur 2. gr. og 11. gr. frumvarpsins verið breytt í samræmi við það. Hvað varðar þau ákvæði frumvarpsins sem fjalla um afhendingu myndupptakna til aðila málsins þá tók Lögmannafélag Íslands undir mikilvægi þess að slíkar myndupptökur kæmust ekki í almenna umferð. Í þágu meðalhófs lagði félagið aftur á móti til að fundin yrði önnur lausn en sú að slíkar myndupptökur yrðu ekki afhentar, t.d. með því að veita aðgang að rafrænni gátt þannig að ekki væri hægt að afrita myndupptökur. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að jafnvel þó að aðgangur væri veittur í gegnum gátt eða skrár sem innihalda myndupptökur, sem væru þannig úr garði gerðar að þær væri ekki hægt að afrita, þá væri afritun eftir sem áður möguleg, til að mynda með því að taka afspilun upp á síma eða annað fjarskiptatæki. Ekki hafa því verið gerðar breytingar á frumvarpinu í tilefni af þessari athugasemd.
    Í umsögn sinni lögðu Hagsmunasamtök heimilanna til að gerð yrði sú breyting á ákvæðum um áfrýjun til Hæstaréttar Íslands að einungis yrði greitt gjald fyrir beiðni um áfrýjunarleyfi en ekki fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu í kjölfarið, yrði leyfi veitt. Að auki lögðu samtökin til að ekki væri gerð krafa um afhendingu kærumálsgagna fyrr en eftir að niðurstaða Hæstaréttar um kæruleyfi lægi fyrir og jafnframt að frestur til að afhenda réttinum yrði lengdur úr einni viku í tvær. Ekki er talið tilefni til að breyta frumvarpinu í ljósi þessara athugasemda. Er sérstaklega bent á í því sambandi að meðferð áfrýjunarmála er annars eðlis en meðferð kærumála, og tekur gjald fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu mið af áfrýjunarfjárhæð. Ekki er til athugunar í tengslum við frumvarp þetta að breyta því fyrirkomulagi. Þá er með frumvarpinu lagt til að beiðni um kæruleyfi og kæra til Hæstaréttar verði eftirleiðis sett fram samhliða þar sem við á. Ekki verður því lengur um tvö aðskilin ferli að ræða og einfaldar það málsmeðferð umtalsvert.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er ekki til þess fallið að hafa merkjanleg fjárhagsleg áhrif fyrir ríkissjóð eða sveitarfélög. Áhrif frumvarpsins eru fyrst og fremst þau að málsmeðferðarreglur verða afdráttarlausari, skýrari og samræmdari og lögfesting þess ætti að koma dómstólunum sjálfum og þeim sem þeir eiga að þjóna til góða. Ekki verður séð að frumvarpið geti haft neikvæð eða íþyngjandi áhrif á starfsemi dómstólanna. Frumvarpið gerir ekki greinarmun á kynjum eða tekur kyn til skoðunar og því hvorki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Vegna skilvirknissjónarmiða hafa eiginlegir þingvottar ekki verið til staðar í þinghöldum í áratugi hér á landi. Dómritarar hafa þó gegnt hlutverki þingvotta þegar þeir eru að störfum í dómsölum, einkum þegar skýrslur eru teknar. Segja má því að lagafyrirmæli um þingvotta í einkamálum og sakamálum séu dauður lagabókstafur og rétt að nema þau brott úr réttarfarslögum. Dómritarar og dómverðir sem viðstaddir eru þinghöld geta þó, ef á reynir, áfram borið vitni um það sem þeir verða áskynja í dómsal.

Um 2. gr.

    Rétt þykir að taka af öll tvímæli um að öðrum en dómstólunum sjálfum sé óheimilt að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi og að þetta bann taki einnig til þess að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda úr dómsal samtímaendursögn af skýrslutökum. Eftir sem áður getur dómari veitt undanþágu frá þessu banni ef sérstaklega stendur á, og er þá átt við undanþágu frá banni við öllu framangreindu, þ.e. hljóðritun og myndatökum í þinghaldi, streymis hljóðs úr þinghaldi og samtímaendursögn af skýrslutökum. Breytingunni er fyrst og fremst ætlað að treysta réttaröryggi en 3. mgr. 56. gr. laga um meðferð einkamála hefur að geyma þá mikilvægu reglu að hvert vitni skuli að jafnaði prófa sér án þess að önnur vitni hlýði á. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að framburður vitnis í dómsmáli mengist ekki af framburði annarra vitna sem þegar hafa gefið skýrslu þannig að áhrif geti haft á niðurstöðu dómsmáls. Þessi varúðarregla hefur augljóslega engin áhrif ef vitni geta fylgst með skýrslugjöf annarra vitna í beinni útsendingu utan dómsals. Ástæða þess að nauðsynlegt þykir að víkka gildissvið slíks banns er jafnframt tilkoma ýmiss konar nýrrar fjarskiptatækni sem gerir þeim sem viðstaddir eru þinghöld mögulegt að senda út til smærri eða stærri hóps manna það sem fram fer í dómsal.
    Þá er með ákvæðinu lagt til að óheimilt verði að birta hljóð- og myndupptökur sem gerðar hafa verið án leyfis dómara, sem og hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði, sem dómstóll hefur annast. Hvað síðarnefnda atriðið varðar þá má leiða að því rök að hverjum þeim sem hefur undir höndum slíka upptöku af eigin munnlega framburði ætti að vera í sjálfsvald sett að birta eða veita samþykki fyrir birtingu upptökunnar. Má í því sambandi benda á að ekki eru lagðar til neinar breytingar á reglum um birtingu endurrita eða annarra dómsskjala sem geta innihaldið sömu efnislegu upplýsingar og upptaka. Andstætt þessu er það sjónarmið að munnlegur framburður varðar sjaldnast einungis þann sem hann gefur. Þannig getur í honum verið fjallað í verulegum atriðum um einkahagsmuni annars manns eða önnur viðkvæm málefni, auk þess sem fleiri taka þátt í skýrslutöku en skýrslugjafi, svo sem lögmenn og dómarar. Þannig er ljóst að munnlegur framburður er ekki einkamál skýrslugjafa. Við þetta er því að bæta að þótt upptökur innihaldi í stórum dráttum sömu upplýsingar og endurrit af munnlegum framburði þá er grundvallarmunur þarna á. Þannig fela endurrit í sér endursögn af því sem fram fór en upptökurnar eru nær því að vera frumheimild um skýrslugjöf. Auk þess getur verið mun áhrifameira að horfa eða hlusta á munnlegan framburð en að lesa endurrit af framburði. Þá er mikilvægt að hafa í huga að ef skýrslugjafa er í sjálfsvald sett að birta upptökur af eigin framburði getur það hamlað störfum í réttarsalnum, enda getur það haft þau áhrif að þeir sem þar starfa hagi störfum sínum öðruvísi ef raunverulegur möguleiki er á að upptökur af þeim rati á netið. Í þessu ljósi er lagt til að leggja alfarið bann við birtingu upptaka af munnlegum framburði, sem dómstóll hefur annast, jafnvel þótt birtingin nái einungis til eigin framburðar.
    Þá þykir rétt að setja sérstök refsiviðurlög við brotum á ákvæðinu enda má leiða líkur að því að varnaðaráhrif ákvæðisins verði lítil sem engin án slíks viðurlagaákvæðis.

Um 3. gr.

    Breytingin miðar annars vegar að því að færa lagaákvæði um þingbækur til núverandi framkvæmdar en þingbækur hafa um langt skeið verið ritaðar á tölvur en ekki vélritaðar. Þá er lagt til að ekki verði lengur skylt að prenta út þingbækur og varðveita á pappír enda hefur verið talsverður misbrestur á því að það hafi verið gert. Þess í stað er lagt til að þingbækur dómstólanna verði varðveittar á rafrænu formi þannig að þær séu aðgengilegar og öruggar.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lögð til sú breyting á 1. mgr. 14. gr. laganna að lagafyrirmæli um afhendingu eftirrits af málsskjölum og úr þingbók og dómabók í málum sem rekin eru fyrir Landsrétti eða héraðsdómi verði víkkuð út þannig að þau nái einnig yfir mál sem rekin eru fyrir Hæstarétti.
    Í b-lið er lögð til sú breyting á ákvæði um afhendingu á upptökum af skýrslutökum að það verði takmarkað við afhendingu á hljóðupptökum. Jafnframt er gert ráð fyrir aðstöðu þar sem málsaðilar fái að hlusta á hljóðupptökur og horfa á myndupptökur í húsakynnum viðkomandi dómstóls. Þessi greinarmunur á hljóð- og myndupptökum er nauðsynlegur vegna hættu á því að myndupptökum af skýrslutökum fyrir dómi verði komið á netið. Augljóst er að myndskeið af munnlegum framburði er að þessu leyti mun áhrifameira en hljóðupptaka eða endurrit af framburði og þungbærara fyrir þann sem framburð gaf að myndupptaka af framburðinum komi fyrir sjónir almennings á netinu. Mikilvægt er að aðilar og vitni í dómsmálum, sem í flestum tilvikum hvílir skylda á að gefa skýrslu fyrir dómi, oft um viðkvæm og erfið málsatvik, geti treyst því að myndupptaka af framburði þeirra verði ekki gerð öllum aðgengileg um aldur og ævi. Möguleikinn á að slíkar upptökur rati á netið er til þess fallinn að fæla vitni frá því að gefa skýrslu fyrir dómi eða hafa áhrif á framburð vitnis og ógna þar með réttaröryggi þar sem niðurstaða dómsmáls getur oltið á munnlegum framburði. Þessi breyting felur ekki í sér takmörkun á meginreglunni um opinbera málsmeðferð þar sem hún felur ekki í sér neina hindrun á aðgengi almennings að þinghöldum eða endurriti af framburði fyrir héraðsdómi. Breytingunni er fyrst og fremst ætlað að vernda hagsmuni þeirra sem gefa munnlega skýrslu og tryggja réttaröryggi málsaðila.
    C-liður þarfnast ekki skýringa.
    Sú breyting sem lögð er til í d-lið miðar að því að samræma framkvæmd á öllum dómstigum.

Um 5. gr.

    Sú breyting sem lögð er til leiðir af þeirri breytingu sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins en hún miðar að því að samræma tímamörk Landsréttar og Hæstaréttar til að leggja dóm eða úrskurð á kærur í einkamálum og sakamálum.

Um 6. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til miðar að því að samræma tímamörk Hæstaréttar og Landsréttar til að leggja dóm eða úrskurð á kæruefni í einkamálum og sakamálum og ákvörðunar Hæstaréttar um hvort kæra í einkamáli verði tekin til meðferðar, sbr. einnig 13. gr. frumvarpsins og 1. mgr. 195. gr. og 1. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála. Af breytingunni leiðir að Landsréttur getur kveðið upp úrskurð í kærumáli þegar greinargerð varnaraðila hefur borist jafnvel þótt hann hafi ekki nýtt allan þann frest sem hann fékk til að skila greinargerðinni. Breytingin er til þess fallin að stytta málsmeðferðartíma í kærumálum þegar varnaraðili nýtir ekki frest sinn að fullu.

Um 7. gr.

    Breytingin miðar að því að sá sem áfrýjar máli þurfi ekki að gera grein fyrir því í áfrýjunarstefnu til Landsréttar hverja hann hyggst leiða fyrir réttinn til skýrslugjafar og í hvaða skyni það skuli gert. Í e-lið 2. mgr. 156. gr. laganna er kveðið á um að í greinargerð áfrýjanda skuli koma fram hverjir það eru sem ákærandi telur nauðsynlegt að gefi aðila- og vitnaskýrslur eða viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti ásamt rökstuðningi þar að lútandi. Í því ákvæði er kveðið nánar á um skyldu áfrýjanda til að upplýsa um þá munnlegu sönnunarfærslu sem hann óskar eftir og hvaða upptökur af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi hann telur nauðsynlegt að spila við aðalmeðferð málsins vegna endurmats á sönnunargildi þeirra.
    Áfrýjunarfrestur er nú fjórar vikur. Reynslan hefur sýnt að við útgáfu áfrýjunarstefnu hefur lögmaður áfrýjanda tæpast haft nægilegt ráðrúm til að leggja grunn að málatilbúnaði sínum hvað varðar endurskoðun á sönnun. Þar sem gert er ráð fyrir að greinargerð áfrýjanda sé lögð fram við þingfestingu og frestur stefndu til að skila greinargerð byrjar þá fyrst að líða er þessi breyting ekki til þess fallin að valda stefnda óhagræði við varnir fyrir Landsrétti. Hagkvæmt virðist því að fella brott lagaáskilnað um að upplýsingar um þá sem áfrýjandi vill að komi fyrir dóm komi fram í áfrýjunarstefnu. Með því er jafnframt undirstrikað hversu mikilvægt er að áfrýjandi fylgi fyrirmælum e-liðar 2. mgr. 156. gr. laganna en vanræksla þar á getur leitt til þess að munnleg sönnunarfærsla verði ekki heimiluð fyrir Landsrétti.

Um 8. gr.

    Breytingin miðar að því að hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði í héraði teljist ekki hluti af málsgögnum sem áfrýjanda beri að afhenda Landsrétti vegna áfrýjunar máls. Þess í stað er lagt til að héraðsdómstóll skuli afhenda Landsrétti hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði í málinu. Breytingin er til komin af tæknilegum ástæðum. Hljóð- og myndupptökur eru varðveittar á rafrænu formi hjá héraðsdómstólunum og einfaldast og öruggast er að héraðsdómstólar komi þessum rafrænu skrám til Landsréttar eða það sem einfaldara er, veiti Landsrétti rafrænan aðgang að þeim. Breytingin er jafnframt í samræmi við þá breytingu sem lögð er til á 3. mgr. 14. gr. laganna í 4. gr. frumvarpsins en sú breyting miðar að því að aðilar máls fái einungis í hendur hljóðupptöku af framburði fyrir héraðsdómi en hins vegar einungis aðstöðu til að horfa á myndupptökur af framburði í húsakynnum viðkomandi dómstóls.

Um 9. gr.

    Ákvæðið um kæru til Hæstaréttar í upphafsmálslið 1. mgr. 167. gr. laganna er nú að breyttu breytanda samhljóma upphafsmálslið 1. mgr. 143. gr. laganna eins og það ákvæði hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, en síðarnefnda ákvæðið fjallaði um kæru á úrskurðum héraðsdóms til Hæstaréttar. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar er niðurstaða héraðsdóms um frávísun máls að hluta í dómi talin kæranleg þrátt fyrir að einungis væri í ákvæðinu talað um úrskurði héraðsdómara. Form dómsúrlausnar Landsréttar um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti ræðst af því hvort málið hefur einungis verið flutt um formsatriði þess eða samhliða um form og efni, sbr. 2. mgr. 164. gr. laganna. Með þeirri breytingu á 1. mgr. 167. gr. sem mælt er fyrir um í a-lið er ætlunin að taka af öll tvímæli um að unnt sé að kæra til Hæstaréttar niðurstöðu Landsréttar um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti, að öllu leyti eða hluta, hvort sem sú niðurstaða kemur fram í úrskurði eða dómi.
    Með b-lið er ætlunin að bregðast við dómum Hæstaréttar, meðal annars frá 5. júní 2018 í máli nr. 8/2018 og 13. sama mánaðar í máli nr. 15/2018. Í þessum dómum var fjallað um heimild til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar þar sem staðfestir voru úrskurðir héraðsdóms um frávísun málanna frá héraðsdómi. Hæstiréttur taldi að skoða þyrfti kæruheimildina í a-lið 1. mgr. 167. gr. laganna í ljósi þeirrar meginreglu að baki ákvæðum 6. þáttar laga nr. 91/1991 að úrlausnaratriði, hvort sem það varðaði efni máls eða form, gæti ekki komið til meðferðar á þremur dómstigum nema í því tilviki að Hæstiréttur hefði veitt leyfi til slíkrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 167. gr. og 175. gr. sömu laga. Að þessu gættu taldi Hæstiréttur að skýra yrði áðurnefndan a-lið 1. mgr. 167. gr. laganna eftir orðanna hljóðan og þá á þann hátt að úrskurður Landsréttar gæti sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefði verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi, sem ekki hefur fyrr verið gert, en á hinn bóginn ekki ef þar hefði verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun. Hæstiréttur taldi því að heimild brysti til að kæra þessa úrskurði Landsréttar og vísaði málunum frá Hæstarétti.
    Með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar þykir rétt að breyta ákvæðinu til samræmis við niðurstöðuna fremur en að kveða skýrar á um það í ákvæðinu að heimilt sé að skjóta dómsúrlausn Landsréttar um staðfestingu á frávísunarúrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar.
    Breytingin sem lögð er til í c-lið á d-lið 1. mgr. 167. gr. laganna er til komin vegna breytingarinnar í a-lið og er henni ætlað að taka af öll tvímæli um að aðeins úrskurðir um réttarfarssekt fyrir Landsrétti sæti kæru til Hæstaréttar en ekki dómar þar sem réttarfarssekt er ákveðin en samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar sæta slíkar niðurstöður um réttarfarssekt í dómi áfrýjun en ekki kæru, sbr. dóm Hæstaréttar 12. mars 2012 í máli nr. 103/2012.

Um 10. gr.

    Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á 168. gr. laganna er stefnt að því að einfalda skjalaframlagningu í kærumálum til Hæstaréttar þannig að í stað þess að senda Hæstarétti annars vegar beiðni um leyfi til að kæra dómsathöfn Landsréttar og hins vegar kæru nægi að beiðni um leyfi til kæru og rökstuðningur fyrir henni komi fram í sama skjali og kæran sjálf. Breytingunni er ætlað að vera til einföldunar og hægðarauka fyrir þann sem vill leita eftir kæruleyfi Hæstaréttar.

Um 11. gr.

    Um einfalda orðalagsbreytingu er að ræða til að taka af öll tvímæli um að í c-lið 1. mgr. 169. gr. laganna sé átt við kröfu um breytingu á hinni kærðu dómsathöfn.

Um 12. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til í a-, b- og d-lið eru til komnar af sömu ástæðu og fjallað er um í skýringum við 10. gr. frumvarpsins, þ.e. til að einfalda skjalaframlagningu í kærumálum til Hæstaréttar þannig að beiðni um kæruleyfi og kæran skjálf komi fram í einu skjali.
    Sú breyting sem lögð er til í c-lið tekur mið af því að fimm dómarar dæma nú í öllum kærumálum í Hæstarétti og því er þörf á að Hæstiréttur fái afhent sex eintök af málsgögnum í kærumálum.

Um 13. gr.

    Sú breyting sem lögð er til miðar að því að samræma tímamörk Hæstaréttar og Landsréttar til að leggja dóm eða úrskurð á kæruefni í einkamálum og sakamálum og ákvörðunar Hæstaréttar um hvort kæra í einkamáli verði tekin til meðferðar, sbr. einnig 6. gr. frumvarpsins og 1. mgr. 195. gr. og 1. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála. Af breytingunni leiðir að Hæstiréttur getur ákveðið hvort kæra verði tekin til meðferðar og eftir atvikum lagt dóm á kæruefnið þegar greinargerð varnaraðila hefur borist jafnvel þótt hann hafi ekki nýtt allan þann frest sem hann fékk til að skila greinargerð. Breytingin er þannig til þess fallin að stytta málsmeðferðartíma í kærumálum þegar varnaraðili nýtir ekki frest sinn að fullu.

Um 14. gr.

    Með a-lið ákvæðisins er ætlunin að lögfesta þá framkvæmd sem Hæstiréttur hefur þegar tekið upp við afgreiðslu beiðna um leyfi til áfrýjunar, að í tilkynningu til málsaðila um synjun á beiðni komi fram ástæður fyrir synjuninni. Eftir sem áður þykir ekki þörf á að Hæstiréttur rökstyðji sérstaklega þegar hann samþykkir að veita leyfi til áfrýjunar.
    Þeirri breytingu sem lögð er til í b- og c-lið ákvæðisins er ætlað að einfalda tilkynningar um lyktir mála í Hæstarétti til héraðsdómara, Landsréttar og málsaðila. Einfaldara, fljótlegra og handhægara þykir að Hæstiréttur sjái sjálfur um tilkynningar til héraðsdómara og málsaðila. Hins vegar þykir ástæðulaust að Hæstiréttur sendi héraðsdómara og þeim sem hafa látið málið til sín taka fyrir réttinum endurrit af dóminum enda eru dómar réttarins jafnharðan birtir á vefsíðu réttarins.

Um 15. gr.

    Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 176. gr. laganna að tekið verði fram í lagatextanum að Hæstarétti verði heimilt að takmarka leyfi til áfrýjunar við tiltekin atriði máls. Þó að rétturinn hafi talið sér heimilt að takmarka leyfi með þessu móti er rétt að taka það beinlínis fram. Þetta samræmist vel því hlutverki Hæstaréttar að vera fordæmisgefandi dómstóll. Samkvæmt þessu getur Hæstiréttur tekið til endurskoðunar þá þætti máls sem falla að þeim skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu leyfis til áfrýjunar í 1. mgr. 176. gr. og stendur þá niðurstaða Landsréttar um önnur atriði máls óhögguð. Breytingin er í samræmi við ákvæði 2. mgr. greinar 30-4 í norsku einkamálalögunum sem heimilar Hæstarétti Noregs að takmarka samþykki fyrir málskoti til réttarins við einstaka kröfur og af einstökum ástæðum fyrir málskoti.

Um 16. gr.

    Með þessu ákvæði er lögð til einföld lagfæring þannig að vísað sé til meðferðar mála fyrir Landsrétti en ekki í héraði.

Um 17. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á 2. mgr. 8. gr. laga um meðferð sakamála og lögð er til í 1. gr. frumvarpsins að verði gerð á 2. mgr. 7. gr. laga um meðferð einkamála. Vísað er til skýringa við þá grein.

Um 18. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á 1. mgr. 11. gr. laga um meðferð sakamála og lögð er til í 2. gr. frumvarpsins að verði gerð á 1. mgr. 9. gr. laga um meðferð einkamála, að því frátöldu að refsiheimild er nú þegar að finna í 11. gr. fyrrnefndra laga. Um þetta er nánar vísað til skýringa við 2. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á síðari málslið 1. mgr. 13. gr. laga um meðferð sakamála og lögð er til í 3. gr. frumvarpsins að verði gerð á síðari málslið 1. mgr. 11. gr. laga um meðferð einkamála. Vísað er til skýringa við þá grein.

Um 20. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á 16. gr. laga um meðferð sakamála og lögð er til í b-, c- og d-lið 4. gr. frumvarpsins að verði gerð á 14. gr. laga um meðferð einkamála. Vísað er til skýringa við þá grein.

Um 21. gr.

    Breytingu á síðari málslið 4. mgr. 21. gr. laganna er ætlað að taka af tvímæli um það hlutverk ríkissaksóknara að taka ákvörðun um kæru til Hæstaréttar en það fyrirkomulag leiðir af því hlutverki ríkissaksóknara að taka ákvörðun um áfrýjun héraðsdóms til Landsréttar, sbr. fyrri málslið 4. mgr. 21. gr. laganna, og því fyrirkomulagi sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 25. gr. laganna að ríkissaksóknari sæki mál fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Ekki er hins vegar haggað við því fyrirkomulagi að ríkissaksóknari taki ákvörðun um kæru til Landsréttar í þeim málum sem hann hefur höfðað. Sama regla gilti fyrir gildistöku laga nr. 49/2016 um ákvörðun um kæru á úrskurðum héraðsdóms til Hæstaréttar.

Um 22. gr.

    Breyting á 3. mgr. 23. gr. laganna er lögð til að tillögu ríkissaksóknara í því skyni að eyða öllum vafa um að þegar héraðssaksóknari rannsakar brot sem fellur undir ákæruvald hans geti hann jafnframt ákært fyrir annað eða önnur tengd brot sem í ljós koma við rannsókn, þótt hann fari alla jafna ekki með ákæruvald í þeim brotaflokki. Ef héraðssaksóknari kýs að höfða ekki mál vegna slíks fylgibrots getur lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi höfðað mál vegna þess. Þessi breyting er raunar í samræmi við skýringar við 2. gr. laga nr. 47/2015 sem færðu ákvæðið í núverandi mynd, en orðalag þess er þrengra en þær skýringar gefa til kynna að hafi staðið til.

Um 23. gr.

    Tilefni þeirra breytinga sem lagðar eru til á 1. og 3. mgr. 97. gr. laganna eru vandkvæði sem upp hafa komið í tilvikum þar sem ákærði situr í gæsluvarðhaldi þegar dómur er kveðinn upp í héraði eða Landsrétti þess efnis að dómfelldi skuli sæta óskilorðsbundinni fangelsisvist. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að sú staða skapist eftir uppkvaðningu fangelsisdóma vegna alvarlegra brota, sem geta sætt áfrýjun, að óvissa verði um heimild fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi dómfellda.
    Í 3. mgr. 97. gr. laganna er kveðið á um að gæsluvarðhaldi ljúki þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Héraðsdómari getur þó eftir kröfu ákæranda úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti skv. 199. gr. stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðri dómi uns endanlegur dómur er upp kveðinn. Í 1. mgr. 97. gr. laganna, sem fjallar um hámarkslengd þess gæsluvarðhalds sem heimilt er að úrskurða mann í hverju sinni, er meðal annars vísað til 3. mgr. greinarinnar. Ekki er hins vegar kveðið á um í lögunum hvort sama eigi við þegar dómur Landsréttar er kveðinn upp. Lagt er til að í stað tilvísunar í 1. mgr. 97. gr. til 3. mgr. 97. gr. verði sú sérstaka heimild til að marka gæsluvarðhaldi lengri tíma en fjórar vikur í senn, sem fram kemur í ákvæðinu, færð yfir í 1. mgr. Jafnframt verði aukið við hana með þeim hætti að heimildin taki einnig til þess að kveða á um gæsluvarðhald meðan standi á fresti til að leita leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar skv. 217. gr. laganna.
    Þá er jafnframt lagt til að 3. mgr. 97. gr. verði breytt þannig að ekki verði kveðið á um það að gæsluvarðhaldi ljúki fortakslaust þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í máli. Í stað þess verði kveðið á um að gæsluvarðhaldi ljúki með endanlegum dómi eða ef ákærði er sýknaður eða honum dæmd refsing sem er vægari en óskilorðsbundið fangelsi. Með endanlegum dómi er ekki aðeins átt við dóm Hæstaréttar heldur einnig héraðsdóm, ef dómfelldi lýsir því yfir að hann uni dómi eða áfrýjunarfrestur rennur út, eða dóm Landsréttar ef dómfelldi lýsir því yfir að hann uni dómi eða frestur til að óska eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar rennur út. Breytingarnar á 97. gr. munu hafa það í för með sér að ef ákærði situr í gæsluvarðhaldi þegar héraðsdómur eða dómur Landsréttar um óskilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða er kveðinn upp og gæsluvarðhaldinu hefur verið markaður tími fram yfir dómsuppsögudag þá lýkur gæsluvarðhaldinu ekki sjálfkrafa við dómsuppsöguna nema dómfelldi lýsi því yfir að hann uni dómi. Uni dómfelldi óskilorðsbundnum fangelsisdómi er mögulegt að honum verði gert að hefja afplánun dómsins þegar í stað. Standi svo á að ákærði er dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar og hann lýsir ekki yfir að hann uni dómi verður ekki þörf á að færa hann þegar í stað fyrir héraðsdómara og krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds. Þess skal þó getið að gert er ráð fyrir að gæsluvarðhald falli niður ef ákærði hefur verið sýknaður eða honum dæmd refsing sem er vægari en óskilorðsbundið fangelsi.
    Það skal áréttað að ef ákærði sætir gæsluvarðhaldi eftir að dómur hefur fallið án þess að til áfrýjunar komi ber í samræmi við niðurstöðu þess dóms að láta gæsluvarðhald koma til frádráttar refsivist eftir að dómurinn gekk í samræmi við 76. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Um 24. gr.

    Með ákvæðinu er felld út sú skylda vitna í sakamálum að gefa upp heimilisfang sitt og látið nægja að þau geri grein fyrir nafni og kennitölu. Þá er lagt til að lögreglumenn gefi einungis upp lögreglunúmer. Sú breyting miðar að því að vernda lögreglumenn, sem oft þurfa að koma fyrir dóm starfa sinna vegna, fyrir mögulegu ónæði og jafnvel ógn við öryggi þeirra og fjölskyldna þeirra.

Um 25. gr.

    Með þessu ákvæði er lögð til einföld breyting á meðferð kærumála í sakamálum fyrir Landsrétti, sem felur í sér skref í átt að rafrænni málsmeðferð. Þannig er lagt til að í stað þess að kveða á um það í 1. mgr. 194. gr. laganna að héraðsdómur sendi gögn kærumáls til Landsréttar í fjórum eintökum þá verði kveðið á um að héraðsdómur sendi gögnin á því formi eða í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður. Með því að gera ákvæðið hlutlaust gagnvart sendingarmáta á þennan hátt getur Landsréttur ákveðið að héraðsdómur sendi gögn kærumáls rafrænt að því gefnu að öryggi gagnasendinganna sé tryggt.

Um 26. gr.

    Sú breyting sem lögð er til á 2. mgr. 202 gr. laganna er af sama toga og lögð er til í 8. gr. frumvarpsins að verði gerð á 1. mgr. 156. gr. laga um meðferð einkamála og vísast til skýringa við 8. gr. um tilefni breytinganna.
    Nánar tiltekið er í a-lið lagt til að myndupptökur af framburði í héraði teljist ekki til málsgagna í sakamálum heldur aðeins hljóðupptökur. Þegar framburður er tekin upp í hljóði og mynd telst hljóðupptakan hluti af málsgögnum.
    Rétt þykir að kveða sérstaklega á um það í 2. mgr. 202. gr. laganna að ríkissaksóknari skuli afhenda verjanda málsgögn, sbr. b-lið greinarinnar.
    Í c-lið er lögð til sams konar breyting og á 1. mgr. 156. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. b-lið 8. gr. frumvarpsins, en hún felur í sér að leggja þá skyldu á héraðsdómstól að afhenda Landsrétti hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði í héraði í málum, enda lagt til að myndupptökurnar verði samkvæmt framansögðu ekki hluti af málsgögnum sem ríkissaksóknara ber að afhenda Landsrétti.

Um 27. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á 1. mgr. 211. gr. laganna og lögð er til í 9. gr. frumvarpsins að verði gerð á 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og er tilefnið að öllu leyti það sama. Vísað er til skýringa við þá grein.

Um 28. gr.

    Um er að ræða einfalda leiðréttingu á tilvísun til lagaákvæðis en í 3. mgr. 212. gr. laganna er nú ranglega vísað til ákvæðis 200. gr. laganna um meðferð á beiðni til Landsréttar um áfrýjunarleyfi en réttara er að vísa til ákvæðis 216. gr. um meðferð á beiðni til Hæstaréttar um áfrýjunarleyfi.

Um 29. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á 3. málsl. 1. mgr. 213. gr. laganna og lögð er til í c-lið 12. gr. frumvarpsins að verði gerð á 2. mgr. 171. gr. laga um meðferð einkamála og er tilefnið að öllu leyti það sama. Vísað er til skýringa við þá grein.

Um 30. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á 3. mgr. 214. gr. laganna og lögð er til í b- og c-lið 14. gr. frumvarpsins að verði gerð á 4. mgr. 174. gr. laga um meðferð einkamála en tilefnið er að öllu leyti það sama. Vísað er til skýringa við þá grein.

Um 31. gr.

    Lögð er að hluta til til sambærileg efnisbreyting á 1. málsl. 4. mgr. 215. gr. laganna og lögð er til í 15. gr. frumvarpsins að verði gerð á 1. mgr. 176. gr. laga um meðferð einkamála að því að varða heimild Hæstaréttar til að takmarka áfrýjunarleyfi við tiltekin atriði máls. Vísað er til skýringa við þá grein frumvarpsins.

Um 32. gr.

    Ákvæðið er nú samhljóða 197. gr. laganna sem kveður á um áfrýjun á dómum héraðsdóms til Landsréttar, sem að meginstefnu gerist án þess að veita þurfi áfrýjunarleyfi. Til þess að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar þarf í öllum tilvikum leyfi og því verður tengingin á milli ákvæða 215. gr. og 216. gr., sbr. 1. mgr. 198. gr., ekki sú sama og á milli 197. gr. og 1. mgr. 198. gr. Því er lagt til að tilvísun til 1. mgr. 198. gr. í 1. og 2. mgr. 216. gr. laganna falli brott.

Um 33. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 217. gr. laganna sem ætlað er að samræma orðalag og gera ákvæðið skýrara.

Um 34. gr.

    Sú breyting sem lögð er til á orðalagi 1. mgr. 218. gr. laganna tekur mið af því að ekki er heimilt að áfrýja dómi héraðsdóms í sakamáli beint til Hæstaréttar og því fer betur á að í stað orðsins „héraðsdómi“ komi „dómi Landsréttar“.

Um 35. gr.

    Sú breyting sem lögð er til á orðalagi 1. mgr. 219. gr. laganna tekur mið af því að ekki er heimilt að áfrýja dómi héraðsdóms í sakamáli beint til Hæstaréttar.

Um 36. gr.

    Um er að ræða nauðsynlega lagfæringu á orðalagi 3. mgr. 237. gr. laganna þar sem Landsréttur kveður upp úrskurði en ekki dóma í kærumálum gagnstætt því sem Hæstiréttur gerði fyrir gildistöku laga nr. 49/2016.

Um 37. gr.

    Um er að ræða nauðsynlega viðbót við 238. gr. laganna en sú breyting sem lögð er til á greininni er í samræmi við 3. mgr. 237. gr. laganna sem kveður á um kærumálskostnað í málum fyrir Landsrétti. Síðarnefnda ákvæðinu var beitt með lögjöfnun um kærumálskostnað fyrir Hæstarétti í dómi réttarins 30. maí 2018 í máli nr. 14/2018. Breytingin er í samræmi við niðurstöðu þess dóms.

Um 38. gr.

    Breytingunni á 1. tölul. 3. mgr. 1. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs er ætlað að taka af tvímæli um að gjald sé tekið fyrir kæru til Hæstaréttar þegar um beina kæruheimild er að ræða en í þeim tilvikum sem lög mæla fyrir um að óska þurfi eftir leyfi Hæstaréttar til kæru sé greitt fyrir beiðni um kæruleyfi, hvort sem kæruleyfi er veitt eða ekki, en ekki greitt viðbótargjald fyrir kæru, enda er gert ráð fyrir því í 10. gr. frumvarpsins að beiðni um kæruleyfi til Hæstaréttar og kæra skuli koma fram í einu skjali.
    Breytingunni á 2. tölul. 3. mgr. 1. gr. laganna er ætlað að taka af tvímæli um að gjald sé tekið fyrir að leggja fram beiðni um leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar einkamáls hvort sem slíkt leyfi er veitt eða ekki. Framsetning slíkrar beiðni kallar á sömu málsmeðferð í Hæstarétti hver sem niðurstaðan verður. Sé beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt skal greiða viðbótargjald fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu skv. 3. tölul. 3. mgr. 1. gr. laganna.

Um 39. gr.

    Þegar gerðar voru þær breytingar á 2. gr. laga um meðferð einkamála með 1. gr. laga nr. 49/2016 að meginreglan yrði sú að heimilt væri að kveðja einn sérfróðan meðdómsmann til setu í dómi í héraði í stað tveggja áður, var ekki hugað sérstaklega að því að taka til endurskoðunar sérregluna um sérfróða meðdómsmenn í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga eins og henni var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011. Það sem greindi ákvæðið um meðdómsmenn í 1. mgr. 54. barnaverndarlaga frá almennu heimildinni í 2. gr. laga um meðferð einkamála, eins og það var fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, var að í fyrrnefnda ákvæðinu var kveðið á um skyldu til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn en það síðara var orðað sem heimildarákvæði. Í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga er aðeins talað um meðdómsmenn en ekki mælt fyrir um fjölda þeirra enda óþarft þar sem gert var ráð fyrir því í almenna ákvæðinu í 2. gr. laga um meðferð einkamála að meðdómsmenn væru tveir.
    Nokkur réttaróvissa hefur af framangreindum ástæðum skapast um fjölda meðdómsmanna í barnaverndarmálum eftir að almenna reglan í 2. gr. laga um meðferð einkamála varð sú að kveðja skyldi til setu í dómi í héraði einn sérfróðan meðdómsmann. Með breytingunni er ætlunin að greiða úr þessari réttaróvissu. Svo virðist sem tilefni þess að ákvæði 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011 hafi fyrst og fremst verið að tryggja að sérþekkingar nyti við í dómi í málum í þessum málaflokki en ekki endilega að tryggja að þeir yrðu fleiri en einn. Til marks um þetta segir í skýringum við 27. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 80/2011 að ekki þætti rétt að hvika frá því að þörf væri sérfræðiþekkingar til að kveða upp efnisdóm í barnaverndarmáli, sbr. 139. löggjafarþing 2010–2011 (56. mál, þskj. 57). Til skýringar er rétt að taka fram að 27. gr. téðs frumvarps varð að 26. gr. laga nr. 80/2011 í meðförum Alþingis. Orðalagið „sérfróða meðdómsmenn“ virðist þannig til komið af þeirri ástæðu einni að almenna reglan í 2. gr. laga um meðferð einkamála gerði þá ráð fyrir tveimur meðdómsmönnum.
    Að frágenginni skyldu til þess að kveðja til meðdómsmann í málum samkvæmt 29. gr. og 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga þykja ekki sérstök rök fyrir að hafa aðra tilhögun á fjölda og kvaðningu sérfróðra meðdómsmanna í slíkum málum en öðrum málum þar sem bornar eru fram málsástæður sem dómari telur sérkunnáttu þörf til að leysa úr í dómi.

Um 40. gr.

    Breytingunni er ætlað að gera kæruheimild til Landsréttar og Hæstaréttar í málum samkvæmt lögum nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, skýrari og gleggri og í betra samræmi við aðrar kæruheimildir til Hæstaréttar í málum sem rekin eru á grundvelli laga um meðferð sakamála. Dómur Hæstaréttar frá 11. janúar 2019 í máli nr. 1/2019 gefur tilefni til að gera umrædda breytingu á 3. mgr. 15. gr. laganna.

Um 41. gr.

    Hér er lagt til að stjórn dómstólasýslunnar verði falið að setja reglur um birtingu dóma og úrskurða allra dómstólanna. Samkvæmt gildandi lögum er hlutverk dómstólasýslunnar að hafa umsjón með útgáfu dóma og úrskurða héraðsdómstólanna og setja reglur um útgáfuna. Um útgáfu dóma Hæstaréttar og Landsréttar fer aftur á móti eftir ákvörðun þeirra dómstóla að höfðu samráði við dómstólasýsluna. Rétt er að samræmdar reglur gildi um birtingu dóma og er því lagt til hér að stjórn dómstólasýslunnar verði falið að setja reglur um birtingu dóma á öllum dómstigum. Áréttað er að í þessu felast engar frekari efnislegar breytingar á gildandi reglum laga um dómstóla um birtingu eða birtingarhátt dóma, svo sem um hvaða dómar og úrskurðir skuli birtir, nafnleynd aðila o.s.frv.

Um 42. gr.

    Þessi breyting leiðir af þeirri breytingu sem lögð er til í 41. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við það ákvæði.

Um 43. gr.

    Breytingin er til samræmis við samsvarandi ákvæði í 34. gr. laga um dómstóla en það ákvæði mælir fyrir um að þegar enginn dómari við héraðsdómstól fullnægir sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með mál kveði dómstjóri í einu lagi upp úrskurð um að þeir víki allir sæti í því. Sömu aðstæður geta komið upp í Landsrétti og fyrir héraðsdómstól hvað það varðar að allri dómarar réttarins teljist vanhæfir. Að óbreyttum lögum þarf hver dómari við Landsrétt að úrskurða um hæfi sitt og þar sem úrskurður Landsréttar um að dómari víki sæti sætir kæru til Hæstaréttar kann að taka óralangan tíma að leysa til fullnustu úr um hæfi allra dómara Landsréttar þótt þeir séu augljóslega allir vanhæfir af sömu ástæðu. Fyrirsjáanlegt er að slík aðstaða getur komið upp í Landsrétti og er breytingunni ætlað að leysa úr þessari óþægilegu aðstöðu á sama hátt og gert hefur verið í héraði. Komi til þess að allir dómarar Landsréttar teljist vanhæfir virkjast það ferli sem þegar er til staðar í 2. mgr. 25. gr. laganna, þ.e. að ráðherra skal þá skipa varadómara í dóminn að tillögu nefndar sem starfar skv. III. kafla laganna.

Um 44. og 45. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til með þessum ákvæðum leiða af þeirri breytingu sem lögð er til í 41. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við það ákvæði.

Um 46. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.