Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1247  —  435. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur og Þórunni Oddnýju Steinsdóttur frá heilbrigðisráðuneytinu, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur og Þórdísi Viborg frá Öryrkjabandalagi Íslands, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Dagrúnu Hálfdánardóttur frá embætti landlæknis, Þóru Steingrímsdóttur frá Landspítalanum og Salvöru Nordal og Guðríði Bolladóttur frá embætti umboðsmanns barna.
    Umsagnir bárust frá embætti landlæknis, Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Kvenréttindafélagi Íslands, Landspítalanum, Landssamtökunum Þroskahjálp, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, embætti umboðsmanns barna og Öryrkjabandalagi Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað um tiltekna þætti frumvarpsins frá heilbrigðisráðuneytinu.
    Frumvarpið er hluti af heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975. Með því er lagt til að III. kafli laganna falli úr gildi og í staðinn komi ný heildarlög um ófrjósemisaðgerðir, þá verði réttur til ófrjósemisaðgerða skýr og ótvíræður, þær verði gjaldfrjálsar og framkvæmdar af þeim sem hafa tilskilda menntun og reynslu. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fólki verði tryggðar upplýsingar um afleiðingar aðgerðarinnar. Samhliða frumvarpinu var lagt fram frumvarp til laga um þungunarrof.
    Við umfjöllun nefndarinnar var fyrst og fremst fjallað um ákvæði 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Þar segir að einungis sé heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerð á einstaklingum sem eru ólögráða fyrir æsku sakir þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklings og að liggja skuli fyrir staðfesting tveggja lækna um slíkt, auk samþykkis sérstaklega skipaðs lögráðamanns. Ákvæðið felur í sér undanþágu frá þeirri meginreglu að ófrjósemisaðgerð sé einungis heimil að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri.
    Í umsögnum um málið og við umfjöllun nefndarinnar var lýst áhyggjum af því að úrræðinu verði beitt óhóflega og að viðkomandi forspurðum. Þá var lýst yfir áhyggjum af reynslu fyrri ára hvað varðar ófrjósemisaðgerðir seinfærra og fatlaðra einstaklinga og að ákvæðinu yrði beitt gegn vilja og í einhverjum tilfellum án vitundar viðkomandi. Nefndin áréttar að markmið ákvæðisins er ekki að koma í veg fyrir að ákveðnir hópar einstaklinga eignist börn. Aðgerð verður því einungis framkvæmd á grundvelli heimildarinnar ef læknisfræðileg nauðsyn krefur. Auk þess bendir nefndin á að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að úrræðinu verði beitt ef önnur og vægari inngrip koma til greina. Fremur yrði leitast við að beita vægari úrræðum, svo sem langtímagetnaðarvörnum. Þá er einnig mikilvægt að benda á að kröfur 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins, einkum þær er varða skipun sérstaks lögráðamanns, sbr. 53. gr. lögræðislaga, tryggja að hagsmunir hins ólögráða einstaklings séu sérstaklega tryggðir í tilfellum sem þessum. Þá komu fram fyrir nefndinni ábendingar um mikilvægi þess að hafa í lögum heimildarákvæði sem þetta, enda væri tryggt að því yrði ekki misbeitt. Telur nefndin rétt að undirstrika sérstaklega að ákvæði 2. mgr. 3. gr. felur í sér undanþágu frá þeirri almennu reglu að ófrjósemisaðgerð sé aðeins heimil að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri og að ákvæðið beri að túlka þröngt.
    Þá kom fram það sjónarmið að ófrjósemisaðgerðir væru að jafnaði óafturkræfar og yrði að vanda sérstaklega til allrar ákvarðanatöku. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið. Nefndin telur þó rétt að benda á að ófrjósemisaðgerðir, eins og þær eru skilgreindar í frumvarpinu, fela í sér lokun á eggjaleiðara eða sáðrás, en ekki að kynkirtlar séu fjarlægðir. Því er við undirbúning aðgerðar mögulegt að tryggja, m.a. með frystingu eggfrumna eða sæðis, að viðkomandi geti með aðstoð nútímatækni aukið kyn sitt ef vilji stendur til þess síðar.
    Að framangreindu virtu telur nefndin því ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu vegna þessara atriða.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram þau sjónarmið að sérstaklega þyrfti að huga að fræðslu fyrir aðgerð, líkt og kemur fram í 4. gr frumvarpsins. Var bent á að íhuga þyrfti sérstaklega fræðslu til þeirra einstaklinga sem vegna fatlana, seinfærni eða andlegra veikinda ættu erfitt með að tileinka sér þær upplýsingar sem í boði eru. Í skýringu við 4. gr. frumvarpsins segir að fræðslan skuli einstaklingsmiðuð. Þá kemur skýrt fram í skýringu við 8. gr. frumvarpsins að fræðsluskyldan sé ein af starfsskyldum heilbrigðisstarfsmanns. Brot á skyldunni varðar viðurlögum samkvæmt almennum hegningarlögum og lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Áréttar nefndin þó mikilvægi þess að tryggja að heilbrigðisstarfsmenn séu upplýstir um þarfir einstaklingsins fyrir fræðslu og tryggi rétt hans til að taka upplýsta ákvörðun.
    Í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins segir að ófrjósemisaðgerðir skuli framkvæmdar í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, laga um réttindi sjúklinga og annarra laga eftir því sem við á. Í umsögn embættis landlæknis kom fram að mikilvægt væri að skráning upplýsinga um aðgerðirnar væri nákvæm og haldið yrði utan um fjölda aðgerða með skráningu í sjúkraskrá, því kynni að fara betur á því að tilgreina sérstaklega lög um sjúkraskrár í ákvæðinu. Í minnisblaði heilbrigðisráðuneytisins um málið kemur fram að óþarfi sé að tilgreina lög um sjúkraskrár sérstaklega í ljósi þess að vísað sé til annarra laga eftir því sem við á. Þrátt fyrir það telur nefndin fara betur á því að lög um sjúkraskrár séu sérstaklega tilgreind í ákvæðinu þar sem lögin gilda um allar ófrjósemisaðgerðir. Með hliðsjón af því leggur nefndin til þá breytingartillögu að lögum um sjúkraskrár verði bætt inn í upptalningu 1. mgr. 5. gr.
    Jafnframt kom fram í umsögn landlæknis að synjun um aðgerð eigi að vera skrifleg og rökstudd. Í því sambandi tekur nefndin fram að ákvörðun um synjun um aðgerð er stjórnvaldsákvörðun og aðili máls á alltaf rétt á rökstuðningi fyrir ákvörðun á grundvelli 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Þá leggur nefndin til smávægilegar orðalagsbreytingar sem hafa ekki efnislega þýðingu og þarfnast því ekki rökstuðnings.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðið „einstaklinga“ í 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. falli brott.
     2.      Í stað orðsins „einstakling“ í 4. gr. komi: viðkomandi.
     3.      Á eftir orðunum „laga um réttindi sjúklinga“ í 1. mgr. 5. gr. komi: laga um sjúkraskrár.

    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 28. mars 2019.

Halldóra Mogensen,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.