Ferill 787. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1248  —  787. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samfélagstúlkun.


Flm.: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp sem móti stefnu um eflingu samfélagstúlkunar með það að markmiði að auka aðgengi þeirra sem ekki tala íslensku eða nota táknmál að opinberri þjónustu.
    Félags- og barnamálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í desember 2019.

Greinargerð.

    Einstaklingum sem búsettir eru hér á landi og hafa annað móðurmál en íslensku hefur fjölgað til muna á undanförnum árum. Samhliða því hefur skapast mikill skortur á samfélagstúlkum, þ.e. þeim sem sinna túlkun innan félagslega kerfisins og viðskipta og innan heilbrigðiskerfisins. Slíkir túlkar eru nauðsynlegir til að tryggja réttaröryggi þeirra sem ekki tala íslensku í samskiptum við stjórnvöld. Eitt af þeim vandamálum sem innflytjendur glíma við í íslensku samfélagi er skortur á þekkingu á stjórnsýslunni og fjölmargir vita ekki hvert þeir eiga að leita til að sækja sér nauðsynlega opinbera þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu eða ýmsa félagslega aðstoð. Hluti af því vandamáli á rætur sínar að rekja til tungumálaörðugleika og aukið aðgengi að túlkum mundi hjálpa þessum hópi verulega við að skilja stjórnsýsluna og þannig auðvelda aðlögun hans að samfélaginu. Sömuleiðis mundi aukið aðgengi að táknmálstúlkum bæta stöðu heyrnarlausra í samskiptum við stjórnvöld. Aðgengi að túlkum mundi jafnframt bæta aðstæður starfsmanna í opinberri þjónustu til muna sem oft lenda í erfiðleikum við að veita rétta þjónustu þegar skjólstæðingar stofnana skilja ekki íslensku. Aukið aðgengi að túlkum er þá einnig til þess fallið að efla íslenskuna sem opinbert mál á Íslandi. Aukinn fjöldi innflytjenda hefur haft það í för með sér að samskipti á opinberum stofnunum fara í meiri mæli fram á ensku. Þjónusta túlks er ekki einungis gagnleg fyrir þá sem ekki tala íslensku eða nota táknmál heldur geta opinberir starfsmenn tjáð sig á íslensku fyrir milligöngu túlks sem miðlar upplýsingunum áfram á því tungumáli sem viðkomandi skilur.
    Mikil eftirspurn hefur verið eftir túlkum innan ferðaþjónustunnar og fjöldi túlka horfið frá samfélagstúlkun vegna starfa innan hennar. Nauðsynlegt er að stemma stigu við þeirri þróun og gera störf samfélagstúlka eftirsóknarverðari. Meðal annars mætti leita leiða til að fjölga túlkum og bæta menntun þeirra en einnig er nauðsynlegt að auka skilvirkni þjónustunnar, t.d. með opinberri stefnu um aðgengi að fjartúlkaþjónustu.
    Enginn mælikvarði er til um hæfi samfélagstúlka og er mikilvægt að huga vel að því hvernig megi tryggja að þeir veiti með þjónustu sinni sem réttastar upplýsingar. Rétturinn til túlkunar er tryggður í ýmsum sérlögum og má sem dæmi nefna 5. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, sem tryggir sjúklingi sem ekki talar íslensku eða notar táknmál rétt til túlkunar, m.a. á upplýsingum um heilsufar og fyrirhugaða meðferð. Við þær aðstæður er brýnt að túlkur geti gert grein fyrir hæfni sinni til verksins og ábyrgð hans á því að miðla réttum upplýsingum þarf að vera skýr. Í umsögn Bandalags þýðenda og túlka um tillögu til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi (443. mál 149. löggjafarþings) er bent á að alvarleg mál hafi komið upp erlendis þar sem túlkun var ábótavant og misskilningur eða vanhæfni túlks hafi leitt til dauðsfalla.
    Samfélagstúlkun hefur verið kennd sem aukagrein eða grunndiplóma við Háskóla Íslands. Námið var fyrst í boði sem aukagrein kennsluárið 2009–2010 sem var kennd í þrjú ár. Frá árinu 2015 var námið í boði sem grunndiplóma og aukagrein en er það ekki í boði kennsluárið 2018–2019 vegna skorts á fjármagni. Samfélagstúlkun hefur jafnframt verið kennd við Menntaskólann á Ísafirði í samstarfi við Fjölmenningarsetur. Mikilvægt er að fundnar verði leiðir til þess að tryggja fjármagn svo að Háskóli Íslands geti haldið áfram að þróa og bæta nám í túlkun á háskólastigi og skoða möguleika á því að innleiða samfélagstúlkanám í námskrár skóla á landsbyggðinni. Þá má jafnframt kanna hvort hægt sé að hvetja aðra háskóla, og þá sérstaklega háskóla utan höfuðborgarsvæðisins, til að taka upp nám í samfélagstúlkun, þ.m.t. táknmálstúlkun, í einhverjum mæli.