Ferill 792. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1253  —  792. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

    Á eftir 5. mgr. 9. gr. a laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með því er lagt til að við III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, verði bætt nýju ákvæði þess efnis að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar má rekja til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar sá möguleiki að tengja raforkukerfi landsins við raforkukerfi annarra landa. Hefur þar fyrst og fremst verið horft til Bretlands. Má þar meðal annars vísa til skýrslna sem starfshópur á vegum stjórnvalda skilaði í júlí 2016 þar sem fram komu ýmsar greiningar varðandi raforkusæstreng á milli Íslands og Evrópu.
    Með hliðsjón af því hversu umfangsmikið slíkt verkefni og slík ákvörðun yrði er talið eðlilegt og nauðsynlegt að framkvæmdin sé á hverjum tíma í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og háð samþykki Alþingis. Er frumvarpið lagt fram til að taka af öll tvímæli þess efnis.
    Samhliða lagafrumvarpi þessu er lögð fram tillaga til breytingar á þingsályktun nr. 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku frá 11. júní 2018. Í breytingartillögunni er lagt til að kveðið verði á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfi landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Jafnframt að það samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir við slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Því til grundvallar skuli liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum tengingar og framkvæmda vegna hennar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Eina efnisákvæði frumvarpsins lýtur að því að bæta ákvæði við raforkulög þess efnis að um tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
    Frá því að skýrslum starfshóps var skilað í júlí 2016 hefur lítið verið unnið að frekari skoðun á þeim möguleika að tengja raforkukerfi Íslands við raforkukerfi Evrópu með sæstreng. Ýmis atriði þarf að kanna nánar varðandi slíkt verkefni, eins og nánar er bent á og gerð grein fyrir í framangreindum skýrslum. Með frumvarpi þessu er ekki tekin afstaða til slíkrar framkvæmdar en undirstrikað að vanda þurfi vel til skoðunar á henni og aðkoma Alþingis að slíkri ákvarðanatöku er nauðsynleg.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Almennt er litið svo á að ákvörðun um hvort raforkukerfi landsins verði einhvern tímann tengt við raforkukerfi annars lands sé ávallt alfarið á forræði íslenskra stjórnvalda. Með því að fela Alþingi að taka afstöðu á grundvelli mats á áhrifum tengingar út frá umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum er litið svo á að ekki sé farið gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Bent hefur verið á að innleiðing þriðja orkupakka ESB leggi engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Um efnisatriði þriðja orkupakka ESB vísast almennt til tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES samninginn.
    Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili veitir leyfi fyrir lagningu raforkusæstrengs og á hvaða forsendum. Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda („Any decision on new interconnectors must remain a sovereign decision that is made by the Norwegian authorities.“). Hið sama gildir um Ísland. Því er óhugsandi að sæstrengur yrði lagður til landsins gegn vilja Íslendinga og það er á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort heimila skuli að leggja, eiga og reka raforkusæstreng til og frá Íslandi.
    Í norskum raforkulögum er krafist sérstaks leyfis ráðherra fyrir því að eiga og reka millilandatengingar. Við mat á því hvort leyfið er veitt skal taka mið af efnahags- og samfélagslegum áhrifum framkvæmdarinnar. Leyfi til að eiga og reka millilandatengingar er til viðbótar við þau leyfi sem almennt þarf til að byggja, eiga og reka flutningsvirki samkvæmt norskum lögum.
    Hvað varðar forsendur fyrir slíkri ákvörðun þá skiptir einnig máli að sveitarfélög á Íslandi fara með skipulagsvald og hafa á þeim forsendum ákvörðunarvald um hvaða uppbygging skuli leyfð og á hvaða forsendum. Í því sambandi koma óhjákvæmilega til skoðunar þættir eins og áhrif á umhverfi, samfélag o.fl.

5. Samráð.
    Frumvarpið var unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti í samráði við sérfróða aðila á sviði orkumála. Frumvarpið var lagt fram í Samráðsgátt Stjórnarráðsins 22. mars 2019. Ein umsögn barst og gaf hún ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á einstaka hagsmunaaðila umfram aðra. Segja má að hagsmunaaðilar frumvarpsins séu öll íslenska þjóðin þar sem markmið frumvarpsins er að tryggja að um hugsanlega tengingu raforkukerfi landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þeirri stefnu komi fram að Alþingi hafi úrslitavald varðandi ákvörðun um hvort tengja eigi raforkukerfi landsins við raforkukerfi annarra landa. Er því frumvarpið lagt fram með almannahagsmuni að leiðarljósi.
    Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem hagsmunaaðili er öll íslenska þjóðin.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér nein áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að tekið verði fram í 9. gr. a raforkulaga, nr. 65/2003, að um tengingu raforkukerfi landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Nánar vísast til greinargerðar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki nánari skýringa.