Ferill 794. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1255  —  794. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um skráningu raunverulegra eigenda.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur svo unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Skrá skal upplýsingar um raunverulega eigendur aðila skv. 2. gr. í fyrirtækjaskrá sem starfrækt er af ríkisskattstjóra.

2. gr.

Gildissvið.

    Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar:
     1.      Hlutafélög.
     2.      Einkahlutafélög.
     3.      Samvinnufélög.
     4.      Sameignarfélög.
     5.      Samlagsfélög.
     6.      Byggingarsamvinnufélög.
     7.      Evrópufélög.
     8.      Evrópsk samvinnufélög.
     9.      Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög.
     10.      Húsnæðissamvinnufélög.
     11.      Skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.
     12.      Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
     13.      Sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
     14.      Stéttarfélög, þegar þau eru skráð í fyrirtækjaskrá.
     15.      Lífeyrissjóðir.
     16.      Sparisjóðir.
     17.      Veiðifélög.
     18.      Útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.
     19.      Öll önnur félög með takmarkaðri ábyrgð.
     20.      Erlendir fjárvörslusjóðir eða sambærilegir aðilar sem eiga viðskipti hér á landi, sbr. 5. gr.
     21.      Aðrir aðilar sem fengið hafa útgefna kennitölu, þó ekki aðilar samkvæmt 1.–3. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá..
    Í vafatilvikum sker ríkisskattstjóri úr um það hvort aðili eða flokkur aðila heyrir undir lög þessi.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Raunverulegur eigandi: Sjá skilgreiningu í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
     2.      Skráningarskyldir aðilar: Aðilar sem taldir eru upp í 2. gr.
     3.      Stjórnvöld sem hafa með höndum eftirlit eða gegna réttarvörsluhlutverki samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka: Skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri, lögregla, héraðssaksóknari, tollstjóri og Fjármálaeftirlitið.
     4.      Tegund eignarhalds: Beint eða óbeint eignarhald á hlutafé eða annars konar eignarheimildum, atkvæðavægi eða annars konar beint eða óbeint ákvörðunarvald, tilnefning stjórnarmanna eða annars konar bein eða óbein yfirráð eða stjórnun skráðs aðila skv. 2. gr.

II. KAFLI

Skráning upplýsinga um raunverulega eigendur.

4. gr.

Upplýsingar um raunverulega eigendur.

    Aðilar skv. 2. gr. skulu afla upplýsinga um raunverulega eigendur, þ.m.t. upplýsinga um réttindi raunverulegra eigenda sinna. Í undantekningartilfellum þar sem ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra skráningarskyldum aðila í skilningi laga þessara, eða ef vafi leikur á um eignarhald, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi.
    Aðilar skv. 1.–19. og 21. tölul. 2. gr. skulu, með tilkynningu, veita ríkisskattstjóra upplýsingar um raunverulega eigendur eins og þeir eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Veita skal upplýsingar um:
     a.      nafn,
     b.      lögheimili,
     c.      kennitölu eða fæðingardag ef kennitölu er ekki til að dreifa,
     d.      ríkisfang,
     e.      eignarhlut, tegund eignarhalds, dagsetningu eigendaskipta og
     f.      gögn sem staðfesta veittar upplýsingar og sýna fram á að viðkomandi sé raunverulegur eigandi.
    Tilkynna skal um raunverulega eigendur við nýskráningu í fyrirtækjaskrá.
    Tilkynningar skv. 2. mgr. skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn sé þess kostur.
    Ríkisskattstjóri metur hvort veittar upplýsingar séu réttar og fullnægjandi og krefur eftir því sem við á skráningarskylda aðila um frekari upplýsingar eða aflar þeirra sjálfstætt.
    Í tengslum við skráningu og viðhald skráningar samkvæmt lögum þessum er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta ríkisskattstjóra í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru til að tryggja rétta skráningu skv. 4. og 5. gr. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit samkvæmt lögum þessum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Vegna starfa sinna getur ríkisskattstjóri gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á hvern þann hátt sem hagkvæmt þykir og svo oft sem talin er þörf fyrir.

5. gr.

Upplýsingar um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila.

    Einstaklingar og lögaðilar sem sinna fjárvörslu eða öðrum störfum fyrir fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila, sbr. 20. tölul. 2. gr., skulu veita ríkisskattstjóra upplýsingar um eftirfarandi:
     a.      fjárvörsluaðila,
     b.      stofnaðila,
     c.      ábyrgðaraðila, ef við á,
     d.      rétthafa eða hóp þeirra,
     e.      aðra einstaklinga sem hafa yfirráð, beint eða óbeint, yfir fjárvörslusjóði eða sambærilegri ráðstöfun og
     f.      gögn sem staðfesta veittar upplýsingar.
    Tilkynna skal um upplýsingar skv. 1. mgr. þegar sótt er um útgáfu kennitölu samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá. Hafi skráning átt sér stað án þess að umræddar upplýsingar hafi verið veittar skal úr því bætt að frumkvæði skráðs aðila, skv. 1. mgr.
    Hafi upplýsingar skv. 1. mgr. verið skráðar í gagnagrunn annars aðildarríkis er ríkisskattstjóra heimilt að telja þá skráningu fullgilda og ber skráðum aðila að afla staðfestingar um að skráning sé til staðar.
    Í vafatilvikum sker ríkisskattstjóri úr um hvort aðilar falli undir 1. mgr., sbr. 20. tölul. 2. gr.
    Um form tilkynninga, mat á tilkynntum upplýsingum og upplýsingagjöf til ríkisskattstjóra fer að öðru leyti skv. 4.–6. mgr. 4. gr.

6. gr.

Tilkynningar um breytingu á áður skráðum upplýsingum.

    Skráningarskyldum aðilum er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra innan tveggja vikna um allar breytingar sem varða skráningu skv. 4. eða 5. gr.
    Tilkynningar skv. 1. mgr. skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn sé þess kostur.
    Tilkynningarskyldir aðilar og eftirlitsaðilar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu tilkynna ríkisskattstjóra verði þeir í störfum sínum varir við misræmi milli upplýsinga um raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá og upplýsinga sem þeir búa yfir, innan tveggja vikna.
    Ríkisskattstjóri skal án tafar rannsaka tilkynningar skv. 3. mgr. og grípa til viðeigandi ráðstafana. Ráðstafanir geta meðal annars falist í því að merkja tímabundið í fyrirtækjaskrá að raunverulegt eignarhald sæti skoðun og gera breytingar á skráningu reynist hún vera röng.

7. gr.

Aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur.

    Upplýsingar um raunverulega eigendur skv. 4. gr. skulu vera aðgengilegar:
     a.      skrifstofu fjármálagreininga lögreglu,
     b.      eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum sem gegna réttarvörsluhlutverki samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
     c.      skattyfirvöldum vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókna,
     d.      tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og
     e.      almenningi.
    Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og stjórnvöld sem gegna réttarvörsluhlutverki og skattyfirvöld skv. a–c-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart.
    Tilkynningarskyldir aðilar skv. d-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum.
    Almenningur skv. e-lið 1. mgr. skal hafa aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds.

8. gr.

Aðgangur að upplýsingum um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila.

    Upplýsingar um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila skv. 5. gr. skulu vera aðgengilegar:
     a.      skrifstofu fjármálagreininga lögreglu,
     b.      eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum sem gegna réttarvörslu samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
     c.      skattyfirvöldum vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókna,
     d.      tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun,
     e.      hverjum þeim einstaklingi og lögaðila sem sýnir fram á lögvarða hagsmuni og
     f.      hverjum þeim einstaklingi og lögaðila sem með skriflegum hætti óskar eftir upplýsingum um fjárvörslusjóð eða sambærilegan aðila sem fer með eða er eigandi ráðandi eignarhluta í félagi eða öðrum lögaðila, beint eða óbeint, þó ekki aðilum skv. 1.–19. og 21. tölul. 2. gr.
    Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og stjórnvöld sem gegna réttarvörslu og skattyfirvöld skv. a–c-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart.
    Tilkynningarskyldir aðilar skv. d-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum.
    Veita skal aðilum skv. e- og f-lið 1. mgr. aðgang að upplýsingum um nafn rétthafa, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds.

9. gr.

Takmarkaður aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur.

    Ríkisskattstjóra er heimilt að takmarka aðgang að upplýsingum um eignarhald barna og annarra ólögráða einstaklinga sem skráðar hafa verið skv. 7. og 8. gr. Beiðni um slíkar upplýsingar þarf að rökstyðja sérstaklega. Takmörkun samkvæmt þessari grein gildir ekki um aðila skv. a–d-lið 7. gr. og a–d-lið 8. gr.

10. gr.

Gjaldtaka.

    Ráðherra setur gjaldskrá um gjaldtöku fyrir aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur. Gjald samkvæmt þessari grein skal ekki vera hærra en raunkostnaður við að standa straum af kostnaði við afhendingu upplýsinganna.

11. gr.

Varðveisla upplýsinga og gagna.

    Aðilar skv. 2. gr. skulu varðveita upplýsingar og gögn skv. 4. og 5. gr. í fimm ár eftir að raunverulegu eignarhaldi lýkur. Að þeim tíma liðnum skal gögnunum eytt.
    Ríkisskattstjóri getur kveðið á um að gögn séu varðveitt umfram tímamörk skv. 1. mgr. ef tilefni er til, þó ekki lengur en í fimm ár til viðbótar.

12. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga.

    Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast lögum um persónuvernd og eingöngu vera í þeim tilgangi að tryggja að til staðar séu upplýsingar um raunverulegt eignarhald aðila skv. 2. gr. Önnur vinnsla persónuupplýsinga er óheimil á grundvelli þessara laga.
    Vinnsla og varðveisla gagna og upplýsinga samkvæmt lögum þessum telst til almannahagsmuna.

III. KAFLI

Viðurlög.

13. gr.

Úrbætur.

    Komi í ljós að skráningarskyldur aðili fylgir ekki lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra skal ríkisskattstjóri krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

14. gr.

Dagsektir.

    Ríkisskattstjóri getur lagt dagsektir á skráningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektir þar til farið hefur verið að kröfum ríkisskattstjóra. Dagsektirnar geta numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri skráningarskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
    Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði ríkisskattstjóra.
    Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra.
    Lækka má eða fella niður dagsektir hafi utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik valdið því að umbeðnar upplýsingar voru ekki lagðar fram eða kröfum um úrbætur ekki sinnt.
    Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
    Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

15. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara, reglugerðum settum á grundvelli þeirra:
     1.      4. gr. um að veita ríkisskattstjóra ekki upplýsingar eða veita rangar eða villandi upplýsingar,
     2.      1.–3. mgr. 5. gr. um að veita ríkisskattstjóra rangar eða villandi upplýsingar,
     3.      1. og 3. mgr. 6. gr. um að uppfæra ekki upplýsingar innan tveggja vikna,
     4.      11. gr. um varðveislu gagna.
    Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
     a.      alvarleika brots,
     b.      hvað brotið hefur staðið lengi,
     c.      ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
     d.      fjárhagsstöðu hins brotlega,
     e.      ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
     f.      hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
     g.      hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
     h.      samstarfsvilja hins brotlega,
     i.      fyrri brota og
     j.      hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar með úrskurði ríkisskattstjóra og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
    Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann ef brotið var í þágu hans.
    Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 1. og 2. málsl. 4. mgr., numið allt að tvöfaldri fjárhæð fjárhagslegs ávinnings hins brotlega.

16. gr.

Frestur til að leggja á stjórnvaldssektir.

    Heimild ríkisskattstjóra til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

17. gr.

Heimild til afskráningar og slita skráningarskylds aðila.

    Sinni skráningarskyldur aðili ekki kröfu ríkisskattstjóra um úrbætur skv. 13. gr. innan þriggja mánaða frá því þess var krafist má fella skráningu hans niður.
    Áður en skráning aðila er felld niður skal senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir aðilann samkvæmt skráningu aðvörun þess efnis að aðili verði afskráður úr fyrirtækjaskrá verði úrbætur ekki gerðar innan þess frests sem ríkisskattstjóri setur.
    Berist ekkert eða ófullnægjandi svar innan tilskilins frests skal aðvörun um afskráningu send til fyrirsvarsmanna aðilans og annarra sem hagsmuna eiga að gæta og jafnframt birt í Lögbirtingablaðinu. Berist ekki fullnægjandi svar eða athugasemdir innan þess frests sem þar er tiltekinn má fella skráningu aðila niður.
    Innan árs frá afskráningu geta raunverulegir eigendur, lánardrottnar eða ríkisskattstjóri gert þá kröfu að bú aðilans verði tekið til skipta í samræmi við 6.–8. mgr. Jafnframt má ríkisskattstjóri breyta skráningu þannig að afskráður aðili sé skráður á nýjan leik enda berist beiðni þar að lútandi innan árs frá afskráningu samkvæmt þessari grein og sérstakar aðstæður réttlæti endurskráningu. Ekki má ráðstafa heiti aðilans á þessum tíma.
    Þótt aðili hafi verið felldur af skrá samkvæmt þessari grein breytir það í engu persónulegri ábyrgð sem stjórnar- eða félagsmenn kunna að bera vegna skuldbindinga aðilans.
    Þegar héraðsdómara hefur borist krafa um skipti skv. 4. mgr. skal hann fara með hana eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta.
    Héraðsdómari skal kveða upp úrskurð um hvort orðið verði við kröfu um að bú aðilans verði tekið til skipta. Sé krafan tekin til greina skal farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum hins látna að öðru leyti en því að eigendur njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum.
    Skráning aðilans í fyrirtækjaskrá skal standa óbreytt eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú aðilans verði tekið til skipta.

18. gr.

Málshöfðunarfrestur.

    Nú vill aðili ekki una ákvörðun skv. 14., 15. eða 17. gr. og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni.
    Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir eða stjórnvaldssektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
    Ákvörðunum samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

IV. KAFLI

Önnur ákvæði.

19. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     a.      upplýsingar um raunverulega eigendur skv. 4. og 5. gr.,
     b.      einkenni fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila skv. 20. tölul. 2. gr.,
     c.      aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur skv. 7. og 8. gr. og
     d.      álagningu dagsekta og stjórnvaldssekta skv. III. kafla.

20. gr.

Innleiðing á tilskipun.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB og tilskipun ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2018, frá 5. desember 2018, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónusta), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 28. febrúar 2019, bls. 3–5.

21. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

22. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, með síðari breytingum:
                  a.      Við 4. tölul. 2. gr. laganna bætist: erlenda fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
                      1.      Við bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
                              10.      Raunverulega eigendur samkvæmt lögum um raunverulega eigendur.
                              11.      Í tilviki erlendra fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila, upplýsingar um fjárvörsluaðila, stofnaðila, ábyrgðaraðila, raunverulegan eiganda eða hóp þeirra og aðra einstaklinga sem hafa yfirráð yfir sjóðnum, samkvæmt lögum um raunverulega eigendur, eftir því sem við á.
                              12.      Netfang félags og forsvarsmanna.
                      2.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                              Tilkynningarskyldir aðilar skulu senda ríkisskattstjóra upplýsingar skv. 1. mgr. ásamt viðeigandi gögnum við nýskráningu í fyrirtækjaskrá.
                              Ríkisskattstjóri metur hvort veittar upplýsingar séu réttar og fullnægjandi og krefur eftir því sem við á tilkynningarskylda aðila um frekari upplýsingar eða aflar þeirra sjálfstætt.
                              Í tengslum við skráningu samkvæmt lögum þessum er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta ríkisskattstjóra í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem henni eru nauðsynlegar til að tryggja rétta skráningu samkvæmt lögum þessum. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varði þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit samkvæmt lögum þessum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Vegna starfa sinna getur ríkisskattstjóri gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem hún telur þörf á.
                  c.      Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Eingöngu lánastofnunum er heimilt að skrá fjárvörslusjóði og sambærilega aðila skv. 4. tölul. 2. gr. að undangenginni fullnægjandi áreiðanleikakönnun.
                  d.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna.
                      1.      Í stað orðanna „gefin kennitala“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: úthlutað kennitölu.
                      2.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Kennitölu skv. 1. mgr. verður ekki úthlutað fyrr en fullnægjandi upplýsingar samkvæmt þessum og öðrum viðeigandi lögum liggja fyrir.
                  e.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                      1.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Um aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur, sbr. 10. og 11. tölul. 4. gr., fer samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
                      2.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi:
                              Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og stjórnvöld sem gegna réttarvörslu samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum í fyrirtækjaskrá.
                  f.      Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:
                      Komi í ljós að tilkynningarskyldur aðili fylgir ekki ákvæðum laga þessara skal ríkisskattstjóri krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
                  g.      10. gr. laganna orðast svo:
                      Ríkisskattstjóri getur lagt dagsektir á tilkynningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektirnar þangað til farið hefur verið að kröfum ríkisskattstjóra. Dagsektirnar geta numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri tilkynningarskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
                      Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði ríkisskattstjóra.
                      Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
                      Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra nema ríkisskattstjóri samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra með úrskurði.
                      Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
                      Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
                      Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.
                  h.      Á eftir 10. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 10. gr. a – 10. gr. c, svohljóðandi:
                  a.     (10. gr. a.)
                                Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
                               1.      4. gr. um að veita ríkisskattstjóra upplýsingar eða ef aðili veitir rangar eða villandi upplýsingar og,
                              2.      7. gr. um að tilkynna ríkisskattstjóra ekki um breytingar er varða skráningu skv. 4. gr.
                                Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
                                Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
                              a.      alvarleika brots,
                              b.      hvað brotið hefur staðið lengi,
                              c.      ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
                              d.      fjárhagsstöðu hins brotlega,
                              e.      ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
                              f.      hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
                              g.      hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
                              h.      samstarfsvilja hins brotlega,
                              i.      fyrri brota og
                              j.      hvort um ítrekað brot er að ræða.
                                Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar með úrskurði ríkisskattstjóra og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
                                Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
                                Gera má lögaðila stjórnvaldssekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum stjórnvaldssekt.
                                Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra, og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti, er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 1. og 2. málsl. 2. mgr., numið allt að tvöfaldri fjárhæð fjárhagslegs ávinnings hins brotlega.
                  b.     (10. gr. b.)
                                Heimild ríkisskattstjóra til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
                                Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
                  c.     (10. gr. c.)
                                Nú vill aðili ekki una ákvörðun skv. 10. gr. a eða 10. gr. b og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni.
                                Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir eða stjórnvaldssektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
     2.      Lög nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum:
                  a.      F-liður 14. tölul. 8. gr. laganna orðast svo: Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.
                  b.      27. gr. laganna orðast svo:
                      Greiðslustofnun sem uppfyllir skilyrði skv. 2. mgr. er heimilt að veita greiðsluþjónustu skv. 1.–6. tölul. 4. gr. á grundvelli takmarkaðs starfsleyfis.
                      Heildarfjárhæð greiðslna sem greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi framkvæmir á einum mánuði má að hámarki nema jafnvirði 1 milljón evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
                      Ákvæði þessa kafla gilda um greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi, að undanskildum ákvæðum 10.–12. gr., 3. mgr. 13. gr., 5. mgr. 19. gr., 2.–4. mgr. 22. gr., 23. gr., 23. gr. a – 23. gr. f og 24. gr.
                      Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir veitingu takmarkaðs starfsleyfis.
                  c.      Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Greiðslustofnanir.
                  d.      Orðin „og peninga- og verðmætasendingarþjónustu“ í 2. mgr. 74. gr. laganna falla brott.
                  e.      Orðin „og peninga- og verðmætasendingarþjónustu“ í síðari málslið 2. mgr. 76. gr. laganna falla brott.
                  f.      Í stað orðanna „peninga- og verðmætasendingarþjónustu“ í 14. tölul. 77. gr. laganna kemur: starfsemi greiðslustofnunar með takmarkað starfsleyfi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Aðilar skv. 1.–19. og 21. tölul. 2. gr. sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá skulu veita upplýsingar skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. eigi síðar en 1. desember 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið þetta er samið af óformlegum vinnuhópi sem í sátu fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði ákvæði 30. og 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins ESB nr. 648/2012, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins 2005/60/EB og tilskipun ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB, eða fjórðu tilskipunar um peningaþvætti. Í framangreindum ákvæðum 30. og 31. gr. er að finna reglur um skráningu raunverulegs eiganda viðskiptafyrirtækja og annarra lögaðila eins og raunverulegur eigandi er skilgreindur í tilskipun (ESB) 2015/849. Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingar á tilskipun (ESB) 2015/849 og tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB voru gerðar breytingar á ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 um raunverulega eigendur. Tilskipun (ESB) 2018/843 hefur ekki verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og því er í frumvarpi þessi lagt til að þau ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/843 sem breyta ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 verði tekin efnislega upp í íslenska löggjöf.
    Með frumvarpinu er einnig brugðist við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, (e. Financial Action Task Force, FATF), en niðurstöður úr úttekt vinnuhópsins á árinu 2017 á stöðu mála á Íslandi komu fram athugasemdir varðandi aðgang tilkynningarskyldra aðila að upplýsingum um raunverulega eigendur samkvæmt tilmælum FATF nr. 24 og 25. Í skýrslu FATF eru einnig gerðar athugasemdir við heimildir ríkisskattstjóra til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, sem og athugasemdir við framfylgni Íslands við tilmæli FATF nr. 14 um peninga- og verðmætasendingarþjónustu.
    Tilskipun (ESB) 2015/849, fjórða tilskipun um peningaþvætti, tók gildi í Evrópusambandinu 26. júní 2017 og var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2018 frá 5. desember 2018. Tilskipunin er heildarendurskoðun á þriðju peningaþvættistilskipun Evrópuþingsins og ráðsins ( 2005/60/EB), með síðari breytingum, um sama efni. Tilskipun (ESB) 2018/843, fimmta tilskipun um peningaþvætti, sem var birt í stjórnartíðindum Evrópusambandsins þann 19. júní 2018, breytir nokkrum ákvæðum fjórðu tilskipunarinnar. Með lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, voru innleidd ákvæði tilskipunar (ESB) 2015/849, utan ákvæða 30. og 31. gr., sem og nokkur ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/843, fimmtu tilskipunar um peningaþvætti. Ákvæði fimmtu tilskipunar um peningaþvætti leiða að miklu leyti af athugasemdum sem FATF hefur gert við löggjöf Evrópusambandsins á þessu sviði og því þótti tilefni til að taka einstök ákvæði fimmtu tilskipunar um peningaþvætti efnislega upp í íslenska löggjöf um leið og ákvæði fjórðu tilskipunarinnar voru innleidd. Rétt er að taka fram að fjórða tilskipun um peningaþvætti er lágmarkstilskipun og er því ríkjum heimilt að ganga lengra en ákvæði hennar kveða á um.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í upphafi árs 2017 hóf FATF úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með aðild sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og laga starfsreglur að tilmælum FATF. Tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið í samræmi við þau. Tilmælin mynda því grundvöll sameiginlegra viðbragða við framangreindum ógnum við sjálfstæði fjármálakerfisins og tryggja jafnvægi innan þess.
    Af hálfu FATF eru framkvæmdar úttektir á því hvernig ríkjum hefur tekist að innleiða tilmælin og efla varnir sínar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ríki fá í kjölfarið frest til þess að bregðast við og gera úrbætur. Bregðist ríki ekki við kröfum FATF hafa aðildarríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi eftir því sem við á með því að setja ríki á sérstakan lista yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði. Felst þrýstingurinn meðal annars í því að gera strangari kröfur til ríkjanna eða aðila þar búsettra um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við aðila þessara ríkja geti falið í sér hættu á peningaþvætti. Ófullnægjandi varnir geta því haft víðtæk áhrif á fjármálakerfið í heild sinni og trúverðugleika á alþjóðavettvangi.
    Úttekt FATF á Íslandi lauk í febrúar 2018 og var skýrsla með niðurstöðum hennar birt í byrjun apríl sama ár. Úttektin leiddi meðal annars í ljós ýmsa veikleika á íslenskri löggjöf og þurfa stjórnvöld að bregðast við með skjótum hætti til að koma til móts við athugasemdir FATF. Ísland er nú í eftirfylgni hjá FATF sem felur meðal annars í sér reglulega upplýsingagjöf til FATF um úrbætur vegna þeirra athugasemda sem fram koma í skýrslunni. Hefur Ísland frest fram í júní 2019 til að bregðast með viðeigandi hætti við athugasemdum FATF til að komast hjá því að gripið verði til þeirra aðgerða sem lýst er hér að framan. Með innleiðing á fjórðu tilskipun um peningaþvætti, sbr. ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, var að miklu leyti komið til móts við athugasemdir FATF. Með innleiðingu á 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 er einnig komið til móts við athugasemdir FATF við tilmæli nr. 24 og 25 um upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila. Einnig er í frumvarpinu brugðist við athugasemdum FATF við heimildir ríkisskattstjóra til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Þá er í frumvarpinu komið til móts við athugasemdir FATF við tilmæli nr. 14 um peninga- og verðmætasendingarþjónustu.
    Í samræmi við 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, ber að skýra lögin og reglugerðir settar með stoð í þeim, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.
    Í frumvarpi þessu er einnig komið til móts við skuldbindingar stjórnvalda vegna samninga um upplýsingaskipti á sviði skattamála sem byggðir eru á marghliða samningi OECD og Evrópuráðsins um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum. Markmið með gerð slíkra samninga er að auka gagnsæi og sporna við skattundanskotum. Í þeim er gerð krafa um að skattyfirvöld geti skipst á upplýsingum um hverjir séu raunverulegir eigendur eigna og fjármagns og er horft til skilgreininga í lögum um peningaþvætti á því hver sé raunverulegur eigandi og til reglna um framkvæmd áreiðanleikakannana. Tvinnast hér saman regluverk um peningaþvætti og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði skattamála. Af hálfu Global Forum on Transparency and Exchange of Information for Tax Purposes, fer fram viðamikil úttekt á regluverki og framkvæmd upplýsingaskipta. Er sjónum einkum beint að aðgengi skattyfirvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur. Slík úttekt mun fara fram á Íslandi á fyrri hluta næsta árs. Afar mikilvægt er að heimild ríkisskattstjóra til að nota upplýsingar úr skránni í framangreindum tilgangi sé skýr og fari ekki á milli mála.

Lög um greiðsluþjónustu.
    Eins og fyrr segir voru í úttekt FATF meðal annars gerðar athugasemdir við framfylgni Íslands við tilmæli FATF nr. 14 um peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Þar er meðal annars kveðið á um að einstaklingar og lögaðilar sem stunda peningasendingar skuli vera starfsleyfisskyldir eða skráningarskyldir og að þeir sem nota umboðsaðila í starfsemi sinni skuli tryggja að þeir uppfylli kröfur hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Meðal þess sem úttekt FATF leiddi í ljós var að annars vegar var kveðið á um skráningarskyldu peninga- og verðmætasendingarþjónustu í eldri lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, og hins vegar að slíkum aðilum væri á grundvelli skráningarinnar heimilt að veita greiðsluþjónustu að fullnægðum ákveðnum skilyrðum skv. 27. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Vegna þeirra krafna sem er að finna í tilmælum nr. 14 hvað varðar umboðsaðila þeirra sem stunda peningasendingar er nauðsynlegt að kveða eingöngu á um starfsleyfisskyldu þessara aðila. Af þeim sökum var ákveðið að fella út skráningarskyldu þessara aðila skv. lögum nr. 64/2006, með nýjum lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Eftir stóð að greiðsluþjónustulög, nr. 120/2011, vísuðu enn til eldri laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hvað varðaði hugtakið „peninga- og verðmætasendingarþjónusta“ og skráningarskyldu þeirra aðila sem þá þjónustu veita. Til samræmis við breytingarnar sem gerðar voru með lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, er lagt til að fella tilvísanir til hugtaksins „peninga- og verðmætasendingarþjónusta“ út úr lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Eins og fyrr segir er með frumvarpi þessu lagt til að innleidd verði ákvæði 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849, fjórðu tilskipunar um peningaþvætti, en einnig er lagt til að tekin verði efnislega upp í íslenska löggjöf þau ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/843, fimmtu tilskipunar um peningaþvætti, sem breyta framangreindum ákvæðum 30. og 31. gr. fjórðu tilskipunar um peningaþvætti. Í framangreindum ákvæðum er að finna reglur um skráningu raunverulegs eiganda eins og hann er skilgreindur í tilskipun (ESB) 2015/849. Til þess að tryggja að á hverjum tíma séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur til að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er talin þörf á að auðkenna hvern einstakling sem á eða hefur yfirráð yfir lögaðila. Með innleiðingunni er einnig komið til móts við athugasemdir FATF við tilmæli nr. 24 og 25 um upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila.
    Í frumvarpinu er lagt til að í fyrirtækjaskrá verðir skráðir raunverulegir eigendur þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. gr. Lagt er til að skráning upplýsinga um raunverulega eigendur verði hluti af fyrirtækjaskrá en samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, er fyrirtækjaskrá starfrækt af ríkisskattstjóra. Gert er ráð fyrir að skráðar verði upplýsingar um þá einstaklinga sem í raun geta tekið ákvörðun um ráðstöfun fjármuna aðila skv. 2. gr. frumvarpsins, stjórnun aðilans eða sem njóta góðs af þeim eignum sem um ræðir. Í frumvarpinu er ekki að finna skilgreiningu á raunverulegum eiganda en vísað er til skilgreiningar í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Í frumvarpinu er kveðið á um að aðilum sem taldir eru upp í 1.–21. tölul. 2. gr. sé skylt að skrá raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá. Er lagt til að skylda til að afla upplýsinga um raunverulegan eiganda og tilkynna til ríkisskattstjóra hvíli á hinum skráningarskylda aðila en ríkisskattstjóri ákveði á hvaða formi tilkynning skuli vera.
    Í frumvarpinu er lagt til að þeim aðilum sem falla undir gildissvið þess, sbr. 2. gr., verði gert skylt að skrá upplýsingar um raunverulega eigendur sína eins og þeir eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Í frumvarpinu er lagt til að lögaðilum verði skylt að skrá upplýsingar um nafn raunverulegs eiganda, lögheimili, kennitölu eða fæðingardag, ríkisfang, eignarhlut (stærð) og tegund eignarhalds, og senda inn gögn til staðfestingar á upplýsingum.
    Lagt er lagt til að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, lögregla, héraðssaksóknari og tollstjóri hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur lögaðila. Einnig er lagt til að skattyfirvöld hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókn. Lagt er til að tilkynningarskyldir aðilar í skilningi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds. Hvað varðar fjárvörslusjóði og sambærilega aðila þá er lagt til að meðal annars verði skráðar upplýsingar um fjárvörsluaðila, stofnaðila, ábyrgðaraðila og rétthafa. Lagt er til að aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila verði með svipuðum hætti og aðgangur að upplýsingum um lögaðila. Í frumvarpinu er lagt til að ríkisskattstjóri skrái upplýsingar um raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá. Lagt er til að ríkisskattstjóri fái heimild til að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir, sem og heimild til að afskrá eða slíta skráningarskyldum aðila, veiti hann ekki upplýsingar skv. lögunum og verði ekki við kröfu um úrbætur.
    Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, annars vegar vegna skráningar raunverulegs eiganda og hins vegar til að bregðast við athugasemdum FATF. Athugasemdir FATF lutu að því að ríkisskattstjóri hafi ekki nægilegar heimildir til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um fyrirtækjaskrá og því er lagt til að ríkisskattstjóri fái heimild til að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir veiti tilkynningaskyldur aðili ekki upplýsingar skv. lögunum og verði ekki við kröfu um úrbætur.
    Þá er lagt til í frumvarpinu að gerðar verði minniháttar breytingar á lögum um greiðsluþjónstu, nr. 120/2011, vegna athugasemda FATF við fylgni Íslands við tilmæli FATF nr. 14 um peninga- og verðmætasendingarþjónustu en breytingarnar leiða af því að hugtakið peninga- og verðmætasendingarþjónusta féll brott úr lögum með samþykkt laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Í stað hugtaksins peninga- og verðmætasendingarþjónusta kemur greiðslustofnun.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpinu er meðal annars ætlað að innleiða ákvæði 30. og 31. gr. fjórðu tilskipunar um peningaþvætti í innlenda löggjöf, eins og Íslandi er skylt vegna aðildar sinnar að EES-samningnum. Einnig er lagt til að tekin verði efnislega upp í íslenskan rétt þau ákvæði fimmtu tilskipunar um peningaþvætti sem breyta ákvæðum 30. og 31. gr. fjórðu tilskipunarinnar. Jafnframt er því ætlað að tryggja að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem það hefur undirgengist með aðild sinni að FATF.
    Í 17. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði sem lúta að stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum aðila skv. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Um að ræða ákvæði sem lúta að afskráningu og slitum á skráningarskyldum. Í ljósi þeirra ríku almannahagsmuna sem felast í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þykir hér ekki gengið lengra með framangreindum ákvæðum en ákvæði stjórnarskrárinnar heimilar, enda skal ekki gripið til þessara úrræða nema aðrar og vægari aðferðir dugi ekki til. Þannig er sá varnagli sleginn í ákvæðinu að þessum viðurlögum verði ekki beitt nema ef um er að ræða alvarlega vanrækslu á að veita upplýsingar um raunverulega eigendur annaðhvort með því að veita ekki slíkar upplýsingar eða veita rangar upplýsingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er unnið í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og ríkisskattstjóra. Frumvarpið hefur einnig verið kynnt stýrihópi dómsmálaráðherra um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt Stjórnarráðsins og barst ein umsögn við frumvarpið frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Samtök fjármálafyrirtækja lögðu meðal annars til breytingar á ákvæðum 1., 2., 6. og 7. gr. frumvarpsins til skýringar og samræmingar og var tekið tillit til þeirra athugasemda. Samtökin gerðu einnig athugasemd við ákvæði 4. og 5. gr. frumvarpsins og lögðu til að kveðið væri á um að aðilum verði gert skylt að leggja fram afrit af viðurkenndum persónuskilríkjum sbr. 18. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Þannig væri mikið hagræði fólgið í því fyrir tilkynningarskylda aðila ef slík gögn væri aðgengileg í fyrirtækjaskrá. Ekki verður séð að ástæða sé til að gera breytingu á ákvæðinu en fyrirtækjaskrá hefur heimild samkvæmt ákvæðum 4. og 5. gr. frumvarpsins til að krefja skráningarskyldan aðila um upplýsinga og gagna. Þá var brugðist við athugasemdum samtakanna við 15. gr. frumvarpsins og gerðar breytingar á ákvæðinu.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpinu er lagt til að ríkisskattstjóra verði falið að halda utan um og starfrækja skrá yfir raunverulega eigendur en embættið heldur utan um skráningu fyrirtækja og félaga og starfrækir í því skyni fyrirtækjaskrá. Fyrir liggur greining RSK á kostnaði við kaup/smíði tölvukerfis til að halda utan um upplýsingar um raunverulega eigendur sem og kostnaði við að starfrækja skrána. Hefur kostnaður við kaup/smíði tölvukerfis verið áætlaður 15 millj. kr. en rekstrarkostnaður skrárinnar verið áætlaður 20 millj. kr. á ári.
    Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum í kjölfar samþykkt frumvarps og rúmast því kostnaður innan útgjaldaramma málefnasviðs.
    Í frumvarpinu er lagt til RSK fái tvenns konar heimild til að beita sektum vegna vanrækslu á tilkynningarskyldu. Annars vegar er lagt til að RSK fái heimild til að beita dagsektum og stjórnvaldssektum vegna vanrækslu á tilkynningarskyldu samkvæmt lögum um raunverulega eigendur. Hins vegar eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, um dagsektir og heimildir RSK til beitingar slíkra sekta skýrðar. Einnig er lagt til að stofnunin fái heimild til að beita stjórnvaldssektum veiti einstaklingur eða lögaðili rangar eða villandi upplýsingar eða uppfæri ekki upplýsingar innan tiltekinna tímamarka svo sem skylt er. Ógerlegt er að áætla tekjur af sektum enda ekki hægt að segja til um það að hvaða marki mun reyna á beitingu þeirra og hvernig ákvörðun á fjárhæð sekta mun þróast. Dagsektir og stjórnvaldssektir eru þó í eðli sínu viðurlög sem eiga að hafa fælingarmátt og er því ekki gert ráð fyrir verulegum tekjum með þessari aðgerð.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verða fjárhagsáhrif á afkomu ríkissjóðs því auknar tekjur vegna heimildar til að beita dagsektum og stjórnvaldssektum en ekki liggur fyrir hve háar þessar tekjur verða.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er sett fram markmið frumvarpsins um að tryggt sé að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur svo að unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Í 2. mgr. er lagt til að í fyrirtækjaskrá verðir skráðir raunverulegir eigendur þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. gr. en samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, er fyrirtækjaskrá starfrækt af ríkisskattstjóra

Um 2. gr.

    Í 2. gr. eru taldir upp þeir aðilar sem lögin taka til en um er að ræða aðila sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Gildissvið frumvarpsins byggir á 1. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og ákvæðinu var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843. Til þess að markmiði frumvarpsins um að á hverjum tíma séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur svo unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði náð þarf að tryggja að undir gildissvið þess falli þeir aðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá. Í 1.–18. tölul. eru taldir upp þeir aðilar sem lögin taka til, verði frumvarpið að lögum, en í 19. og 21. tölul. er að finna ákvæði sem ætlað er að taka til annarra aðila en sérstaklega eru taldir upp í öðrum töluliðum.
    Í 2. mgr. er lagt til að ríkisskattstjóri hafi ákvörðunarvald um það hvort aðili eða flokkur aðila, þ.e. ákveðnar tegundir félaga, falli undir gildissvið laganna en honum ber að horfa til markmiðs laganna við það mat.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. eru talin upp í fjórum töluliðum þau hugtök sem talin er þörf á að skýra.
    Í 1. tölul. er skilgreining á hugtakinu raunverulegur eigandi en þar er vísað til skilgreiningar í 13. tölul. 3. gr. laga um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 104/2018. Í ákvæðinu felst að um sé að ræða einstakling, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi, í hvers nafni viðskiptin eða starfsemin sem um ræðir er stunduð eða framkvæmd. Skilgreining á hugtakinu raunverulegur eigandi er að finna í 3. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849. Rétt er að árétta að gera þarf greinarmun á lagalegum eiganda og raunverulegum eiganda. Lagalegur eigandi er sá sem er skráður eigandi fjármuna, eigna eða fyrirtækja. Hann þarf þó ekki endilega að vera raunverulegur eigandi. Aðilar kunna að sjá sér hag í því að leyna eignarhaldi sínu, t.d. með því að fá aðra aðila til þess að koma fram sem lagalegur eigandi, með því að stofna flókið net fyrirtækja eða eignarhaldsfyrirtækja (skúffufélaga) eða með öðrum hætti. Raunverulegur eigandi er alltaf einstaklingur og er sá aðili sem í raun getur tekið ákvörðun um ráðstöfun fjármuna, stjórnun aðila eða sá aðili sem nýtur góðs af þeim eignum sem um ræðir.
    Í 2. tölul. er að finna skýringu á hugtakinu skráningarskyldir aðilar. Hugtakið vísar til þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. gr. eða falla þar undir skv. 19. og 21. tölul. en þeim lögaðilum er skylt að skrá upplýsingar um raunverulega eigendur skv. 4. og 5. gr. Til þess að markmiði með frumvarpinu verði náð þarf að tryggja að undir gildissvið þess falli þeir lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá, sjá 12 gr. formála tilskipunar (ESB) 2015/849.
    Í 3. tölul. er að finna skilgreiningu á hvaða aðilar í skilningi frumvarpsins eru stjórnvöld sem hafa með höndum eftirlit eða gegna réttarvörsluhlutverki samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en það eru skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri, lögregla, héraðssaksóknari, tollstjóri og Fjármálaeftirlitið. Í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er Fjármálaeftirlitinu og ríkisskattstjóra falið að hafa eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum í skilningi þeirra laga. Er Fjármálaeftirlitinu falið eftirlit með aðilum á fjármálamarkaði sem taldir eru upp í a–k-lið 2. gr. framangreindra laga en ríkisskattstjóra er falið eftirlit með öllum tilkynningarskyldum aðilum sem ekki falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, þ.e. tilkynningarskyldum aðilum skv. l–s-lið 1. mgr. 2. gr. Aðrir aðilar sem falla undir skilgreiningu 3. tölul. eru eins og fyrr segir skattrannsóknarstjóri, lögregla, héraðssaksóknari og tollstjóri en þessi stjórnvöld koma að framkvæmd málaflokksins peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Í 4. tölul. er skilgreining á því hvaða tegundir eignarhalds geti verið um að ræða sem skrá þarf. Um er að ræða beint eða óbeint eignarhald á hlutafé eða annars konar eignarheimildum, atkvæðavægi eða annars konar beint eða óbeint ákvörðunarvald, tilnefningu stjórnarmanna eða annars konar bein eða óbein yfirráð eða stjórnun skráningarskylds aðila skv. 2. gr. Yfirráð með öðrum hætti getur meðal annars tekið til viðmiðana fyrir yfirráð sem beitt er í þeim tilgangi að undirbúa samstæðureikningsskil, t.d. með samningum hluthafa, beitingu ráðandi áhrifa eða valdi til að skipa framkvæmdastjórn.

Um 4. gr.

    Ákvæði 4. gr. byggir á ákvæði um skilgreiningu á hugtakinu raunverulegur eigandi í 3. gr. og 1. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849. Lagt er til að í fyrirtækjaskrá verðir skráðir raunverulegir eigendur þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. gr. en samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, er skráin starfrækt af ríkisskattstjóra.
    Í 1. og 2. mgr. er fjallað um skyldu á aðila skv. 2. gr. að afla og veita ríkisskattstjóra upplýsingar um raunverulega eigendur eins og þeir eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með því er lögð sú skylda á skráningarskylda aðila skv. 2. gr. að leggja fram upplýsingar um raunverulega eigendur og tilkynna ríkisskattstjóra en tilkynningarnar skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Ríkisskattstjóri hefur um nokkurt skeið unnið að uppsetningu á rafrænni fyrirtækjaskrá meðal annars með það að markmiði að einfalda breytingar á skráningu félaga. Þannig er með rafrænu fyrirtækjaskránni stefnt að því að aðilar geti sjálfir skráð inn upplýsingar í skrána og sent inn nauðsynleg fylgiskjöl en ekki liggur fyrir hvenær rafræna fyrirtækjaskráin verður að fullu komin í gagnið. Tilkynningar eru nú sendar ríkisskattstjóra á þar til gerðum eyðublöðum og eru upplýsingarnar færðar inn í skrána af starfsmönnum embættisins. Þar til rafræna fyrirtækjaskráin verður komin að fullu í gagnið er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri ákveði á hvaða formi tilkynningar ásamt fylgiskjölum skuli sendar skránni en að málsmeðferðin verði rafræn sé þess kostur, sbr. ákvæði 5. mgr. Ákvæði 5. mgr. er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, 3. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 3. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
    Í 3. mgr. eru talin þau atriði sem veita skal upplýsingar um en það eru auk nafns, kennitölu, lögheimilis og ríkisfangs hins raunverulega eiganda, upplýsingar um stærð eignarhlutar og tegund eignarhalds, sbr. skilgreiningu í 1. tölul. 3. gr., hvenær eignarhluturinn komst í hendur hins raunverulega eiganda, sem og gögn til staðfestingar á að þær upplýsingar sem veittar eru séu réttar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að við nýskráningu í fyrirtækjaskrá skuli skrá upplýsingar um raunverulegan eiganda.

Um 5. gr.

    Með 5. gr. frumvarpsins er innleidd 1. mgr. 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849. Í skilgreiningu í b-lið 6. tölul. 3. gr. tilskipunarinnar á raunverulegum eiganda, er að finna nýmæli sem varðar það hver telst raunverulegur eigandi fjárvörslusjóða (e. trusts) eða annarra sambærilegra aðila (e. legal arrangements). Það skiptir ekki máli hvaða nafni slíkt fyrirkomulag er nefnt í öðrum tungumálum, svo sem fiducie (franska), treuhand (þýska) og fideicomiso (spænska). Ef uppbygging, skipulag og hlutverk þess er með sambærilegum hætti og fjárvörslusjóðir og viðkomandi fellur ekki undir skilgreiningu a-liðar 6. tölul. 3. gr. tilskipunarinnar um lögaðila þá ber að kanna eignarhald þeirra með sama hætti og um fjárvörslusjóði sé um að ræða. Skv. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins ber einstaklingum og lögaðilum sem sinna fjárvörslu eða öðrum störfum fyrir fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila að afla fullnægjandi upplýsinga um fjárvörsluaðila (e. trustee), stofnaðila (e. settlor) og ábyrgðaraðila (e. protector), auk rétthafa (e. beneficiary) og annarra aðila sem hafa bein eða óbein yfirráð fyrir fjárvörslusjóði, sem og gagna til staðfestingar á veittum upplýsingum. Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu framangreindra einstaklinga og lögaðila til að upplýsa ríkisskattstjóra þegar sótt er um útgáfu kennitölu samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá og að hafi slíkt ekki verið gert skuli skráningarskyldur aðili bæta úr því að eigin frumkvæði.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að þegar skráningarskyldur aðili í skilningi 20. tölul. 2. gr. leggur fram upplýsingar skv. 1. mgr. og staðfestingu á því að upplýsingarnar séu skráðar í opinbera skrá eða gagnagrunn annars EES-ríkis þá er ríkisskattstjóra heimilt að telja þá skráningu fullgilda. Hér er þó eingöngu átt við þá opinberu skrá eða gagnagrunn annars EES-ríkis sem vísað er til í tilskipun (ESB) 2015/849.
    Með 4. mgr. er lagt til að ríkisskattstjóra verði falið vald til þess að skera úr um það hvort aðili falli undir ákvæði 1. mgr., sbr. 20. tölul. 2. gr.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er að finna ákvæði um tilkynningar um breytingu á áður skráðum upplýsingum. Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu skráningarskyldra aðila í skilningi laganna til að tilkynna ríkisskattstjóra um allar breytingar sem verða á þegar skráðum upplýsingum skv. 4. og 5. gr. innan tveggja vikna frá því breytingin átti sér stað. Nauðsynlegt þykir að kveða á um það með skýrum hætti að allar breytingar á þegar skráðum upplýsingum samkvæmt lögunum skuli tilkynna ríkisskattstjóra inna tveggja vika og að sú skylda hvíli á skráningarskyldum aðilum. Ákvæðið leiðir af 4. mgr. 30. gr. tilskipunar 2015/849/EB um að upplýsingar í skránni skuli vera nákvæmar og í gildi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að tilkynningar um breytingar á þegar skráðum upplýsingum skuli vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og að málsmeðferðin skuli vera rafræn sé þess kostur. Ríkisskattstjóri um nokkurt skeið unnið að uppsetningu á rafrænni fyrirtækjaskrá m.a. með það að markmiði að einfalda breytingar á skráningu félaga. Þannig er með rafrænu fyrirtækjaskránni stefnt að því að aðilar geti sjálfir skráð inn upplýsingar í skránna og sent inn nauðsynleg fylgiskjöl en ekki liggur fyrir hvenær rafræna fyrirtækjaskráin verður að fullu komin í gagnið. Tilkynningar um breytingar á þegar skráðum upplýsingum eru í dag sendar ríkisskattstjóra á þar til gerðum eyðublöðum og eru upplýsingarnar færðar inn í skránna af starfsmönnum embættisins. Þar til rafræna fyrirtækjaskráin verður komin að fullu í gagnið er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri ákveði á hvaða formi tilkynningar ásamt fylgiskjölum skuli sendar skránni en að málsmeðferðin verði rafræn sé þess kostur. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, 3. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 3. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
    Í 3. mgr. s er kveðið á um skyldu tilkynningarskyldra aðila og eftirlitsaðila samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til að tilkynna ríkisskattstjóra um misræmi milli upplýsinga um raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá og upplýsinga sem þeir búa yfir. Skv. e-lið, sbr. a-lið, 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptamanns sé um lögaðila að ræða og meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi. Þannig er gert ráð fyrir að tilkynningarskyldur aðili reiði sig ekki alfarið á upplýsingar um raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá heldur kanni réttmæti þeirra upplýsinga með sjálfstæðum hætti og tilkynni skránni verði þeir varir við misræmi milli upplýsinganna.
    Með 4. mgr. er lagt til að ríkisskattstjóri grípi til viðeigandi ráðstafana þegar embættinu berst tilkynning frá tilkynningarskyldum aðila eða eftirlitsaðila í samræmi við 3. mgr. um að misræmi sé milli upplýsinga um raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá og upplýsinga sem framangreindir aðilar búa yfir. Þær ráðstafanir sem ríkisskattstjóri getur gripið til geta m.a. falist í því að merkja tímabundið í skránna að raunverulegt eignarhald sæti skoðun og mun merkingin þá koma fram á vottorði úr fyrirtækjaskrá sem og í rafrænni uppflettingu í skránni. Ríkisskattstjóri getur einnig gert breytingar á skráningunni komi í ljós að skráningin í fyrirtækjaskrá reynist röng.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. er að finna ákvæði um aðgang að skrá um raunverulega eigendur en með ákvæðinu eru innleidd ákvæði 5. mgr. og 6. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og þeim var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843. Auk innleiðingarinnar er í ákvæðinu kveðið á um aðgang skattyfirvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur.
    Í 1. mgr. eru taldir upp í fimm stafliðum þeir aðilar sem hafa aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur, en þeir aðilar eru skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og önnur stjórnvöld sem gegna réttarvörslu samkvæmt lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, tilkynningarskyldir aðilar í skilningi framangreindra laga þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og almenningur. Um er að ræða innleiðingu á a–c-lið 5. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og henni var breytt með tilskipun 2018/843/EB. Einnig er lagt til skattyfirvöld hafi aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókna.
    Með 2. mgr. er innleitt ákvæði 6. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og henni var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843. Í 2. mgr. er kveðið á um að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og stjórnvöld skv. a- og b-lið 1. mgr. skuli tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart. Þannig er gert ráð fyrir að framangreindir aðilar skuli án augljósra tafa hafa aðgang að upplýsingum skv. 4. gr. sem og öllum þeim upplýsingum og gögnum sem ríkisskattstjóri hefur undir höndum og varða raunverulega eigendur. Einnig er kveðið á um að skattyfirvöld skuli hafa aðgang að öllum upplýsingum og gögnum vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsóknir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um aðgang tilkynningarskyldra aðila skv. d-lið að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum skv. 4. gr. án augljósra tafa.
    Með 4. mgr. er innleitt ákvæði c-liðar 5. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og henni var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843 en í ákvæðinu er kveðið á um að almenningur skuli hafa aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. er að finna ákvæði um aðgang að upplýsingum um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila. Ákvæðið er að mestu leyti sambærilegt ákvæði 7. gr. um aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur en ekki er gert ráð fyrir að almenningur hafi aðgang að skrá um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila. Þess í stað skal veita hverjum einstaklingi og lögaðili sem sýnir fram á lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að upplýsingunum slíkan aðgang, sbr. e-lið 1. mgr. Í f-lið 1. mgr. er kveðið á um aðgang einstaklinga eða lögaðila sem leggja fram skriflega beiðni um upplýsingar og beiðnin varðar upplýsingar um fjárvörslusjóð eða sambærilegan aðila þegar viðkomandi fjárvörslusjóður eða viðkomandi sambærilegur aðili fer með eða er eigandi ráðandi eignarhlutar í félagi eða öðrum lögaðila, annað hvort beint eða óbeint, þó ekki aðilum skv. 1.–19. og 21. tölul. 2. gr. Framangreindir aðilar skulu þá fá aðgang að nafni rétthafa, fæðingarmánuði og ári, búsetulandi, ríkisfangi og stærð og tegund eignarhalds.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. má finna undantekningu frá ákvæði 7. gr. um aðgang að skrá um raunverulega eigendur og 8. gr. um aðgang að upplýsingum um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila. Með ákvæðinu er innleitt ákvæði 9. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og henni var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843. Skv. 9. gr. er ríkisskattstjóra veitt heimild til að takmarka aðgang aðila skv. e-lið 7. gr. og e- og f-lið 8. gr. að upplýsingum þegar raunverulegur eigandi er undir lögaldri eða ólögráða með öðrum hætti. En gert er ráð fyrir að rökstyðja þurfi beiðnir um slíkar upplýsingar sérstaklega og er ríkisskattstjóra þá falið að meta hvort veita eigi aðgang að upplýsingunum.

Um 10. gr.

    Í 10. gr. er lagt til að ráðherra setji gjaldskrá fyrir aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur. Um er að ræða þjónustgjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við afhendingu upplýsinganna. Gert ráð fyrir að gjaldtöku verði hagað á svipaðan hátt og gjaldtöku fyrir aðrar upplýsingar úr fyrirtækjaskrá

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu aðila skv. 2. gr. til að varðveita upplýsingar um raunverulega eigendur og upplýsingar um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila í fimm ár eftir að raunverulegu eignarhaldi lýkur en að þeim tíma skuli gögnunum eytt. Ríkisskattstjóra er með ákvæðinu veitt heimild til að ákveða að gögn séu varðveitt í allt að fimm ár til viðbótar ef tilefni er til.

Um 12. gr.

    Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögunum skal vera í samræmi við persónuverndarlög en þau lög gilda um sérhverja vinnslu persónuupplýsinga sem ætlað er að verði hluti af skrá. Ákvæði 12. gr. byggist á 41. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849. Í 1. mgr. er kveðið á um að vinnsla persónuupplýsinga sé eingöngu heimil í þeim tilgangi að tryggja að til staðar séu upplýsingar um raunverulegt eignarhald aðila skv. 2. gr. og að önnur vinnsla persónuupplýsinga, notkun eða miðlun sé óheimil. Í 2. mgr. er áréttað að vinnsla og varðveisla gagna og upplýsinga samkvæmt lögunum teljist til almannahagsmuna.

Um III. kafla.

    Með III. kafla eru innleidd ákvæði 58.–61. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849. Tilskipunin kveður á um að aðildarríki skuli tryggja að brot gegn lögum, reglum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra sæti viðeigandi stjórnsýsluviðurlögum sem eru í senn áhrifarík, viðeigandi og hafi fullnægjandi varnaðaráhrif. Tilskipunin kveður á um tiltekna lágmarksþætti, svo sem hvaða brot eigi að sæta viðurlögum, hverjir eigi að geta sætt viðurlögum og um lágmarksfjárhæðir sekta, en setja útfærslu að öðru leyti í hendur aðildarríkja til ákvörðunar enda kveður tilskipunin á um lágmarkssamræmingu, sbr. 5. gr. hennar.

Um 13. gr.

    Í 13. gr. er kveðið á um skyldu ríkisskattstjóra til að krefjast úrbóta komi í ljós að skráningarskyldur aðili fylgi ekki lögunum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Skal ríkisskattstjóri veita aðila hæfilegan frest til úrbóta. Almennt verður að telja að ríkisskattstjóra sé heimilt að krefjast úrbóta. Þrátt fyrir að fyrirmæli um úrbætur séu í eðli sínu ekki viðurlög er ákvæðið staðsett fremst í viðurlagakafla enda verður krafa um úrbætur samkvæmt ákvæðinu eingöngu sett fram ef skráningarskyldur aðili fylgir ekki ákvæðum laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Er staðsetning ákvæðisins í samræmi við staðsetningu sambærilegs ákvæðis í 44. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Krafa um úrbætur kemur ekki í veg fyrir beitingu annarra heimilda kaflans, svo sem stjórnvaldssektum. Það fer eftir eðli og umfangi brota hvort úrbótakrafa ein og sér sé viðeigandi eða hvort beita eigi öðrum ákvæðum kaflans samtímis. Þá getur úrbótakrafa orðið forsenda dagsekta skv. 14. gr., fari skráningarskyldur aðilar ekki eftir fyrirmælum ríkisskattstjóra um úrbætur.

Um 14. gr.

    Í 14. gr. er kveðið á um heimild ríkisskattstjóra til að beita dagsektum veiti skráningarskyldur aðili ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni hann ekki kröfu um úrbætur innan hæfilegs frests sem ríkisskattstjóri ákveður skv. 13. gr. Markmið dagsekta er að knýja skráningarskyldan aðila til að framkvæma viðeigandi úrbætur eða veita umbeðin gögn eða upplýsingar.
    Samkvæmt 1. mgr. geta dagsektirnar numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag. Í ákvæðinu eru sett fram viðmið sem ríkisskattstjóra er heimilt að taka tillit til við ákvörðun á fjárhæð dagsekta sem lúta aðallega að fjárhagslegum styrk og eðli vanrækslu. Stærð, eðli og umfang skráningarskyldra aðila er mismunandi og eðlilegt að taka tillit til þess við ákvörðun á sektarfjárhæð. Dagsektir að fjárhæð 10 þús. kr. á skráningarskyldan aðila með ársveltu undir 5 millj. kr. geta haft sama hvata til að framkvæma úrbætur eða eftir atvikum skil á gögnum og upplýsingum og 500 þús. kr. geta haft á skráningarskyldan aðila með ársveltu sem nemur hundruðum milljóna króna eða meira. Með því að taka viðeigandi tillit til fjárhagslegs styrkleika við ákvörðun dagsekta eru varnaðaráhrif þeirra aukin.
    Samkvæmt 2. mgr. eru ákvarðanir um beitingu dagsekta teknar af ríkisskattstjóra.
    Í 3. mgr. kemur fram sú meginregla að álagðar dagsektir falla ekki niður þó svo að farið verði að kröfu eftirlitsaðila um úrbætur eða skil á gögnum eða upplýsingum. Sjálfkrafa niðurfelling þeirra myndi draga verulega úr eða gera að engu þau varnaðaráhrif sem dagsektum er ætlað að hafa. Frá meginreglunni er lögð til sú undantekning í 4. mgr. að heimilt sé að lækka eða fella niður dagsektir hafi utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik valdið því að umbeðnar upplýsingar voru ekki lagðar fram eða kröfum um úrbætur ekki sinnt. Fara ber með þessa undantekningu með sama hætti og aðrar undantekningar og túlka þröngri lögskýringu. Nauðsynlegt er að ríkisskattstjóri geti tekið tillit til óvæntra eða sérstakra atvika eða aðstæðna sem kunna að koma upp í tengslum við álagningu dagsekta. Atvik eða aðstæður þar sem lækkun eða niðurfelling kynni að koma til greina væru t.d. óyfirstíganlegar hindranir til þess að verða við kröfu eftirlitsaðila.
    Í 5. og 6. mgr. er kveðið á um dagsektirnar séu aðfararhæfar og að innheimtar dagsektir skuli renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

Um 15. gr.

    Ákvæðið byggist á fyrirmynd sambærilegs ákvæði í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og er innleiðing á 58.–60. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það hvaða brot á lögunum geta sætt stjórnvaldssektum. Stjórnvaldssektir geta hvort sem er verið lagðar á einstaklinga og lögaðila.
    Lagt er til í 2. mgr. að við ákvörðun stjórnvaldssekta beri ríkisskattstjóra að taka tillit til allra atvika sem skipta máli. Taldir eru þar upp níu þættir í dæmaskyni og byggist sú upptalning að mestu leyti á 4. mgr. 60. gr. tilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. er kveðið á um fjárhæð stjórnvaldssekta. Samkvæmt ákvæðinu geta stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. en stjórnvaldssektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
    Aðrar málsgreinar ákvæðisins eru hefðbundin viðurlagaákvæði sem eiga sér fyrirmynd í viðurlagaákvæðum á fjármálamarkaði, t.d. lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Greinin er samhljóða 49. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og 112. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Tilkynning um upphaf rannsóknar skv. 2. mgr. getur meðal annars falist í því að eftirlitsaðili kalli eftir skýringum eða gögnum varðandi tiltekna háttsemi. Ekki er nauðsynlegt að í erindi komi sérstaklega fram að um upphaf rannsóknar sé að ræða.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. er að finna heimild til að afskrá skráningarskyldan aðila úr fyrirtækjaskrá hafi hann ekki brugðist við kröfu um úrbætur skv. 13. gr. Gert er ráð fyrir að ekki verði gripið til þessara úrræða nema aðrar og vægari aðferðir dugi ekki til og með því er sá varnagli sleginn að þessum viðurlögum verði ekki beitt nema ef um er að ræða alvarlega vanrækslu á að veita upplýsingar um raunverulega eigendur annaðhvort með því að veita ekki slíkar upplýsingar eða veita rangar upplýsingar. Þannig er gert ráð fyrir að áður en áður en gripið verði til þessa úrræðis þá hafi ákvæðum 14. gr. um dagsektir og 15. gr. um stjórnvaldssektir verið beitt en þau úrræði hafi ekki dugað til.
    Í 2.–3. mgr. er að finna málsmeðferðarreglur hyggist ríkisskattstjóri beita heimild 1. mgr. til afskráningar.
    Í 4. mgr. er að finna heimild fyrir raunverulega eigendur, lánadrottna eða ríkisskattstjóra til að gera kröfu um að bú aðilans verði tekið til skipta í samræmi við 6.–8. mgr. Jafnframt getur ríkisskattstjóri breytt skráningu þannig að félag sem hefur verið afskráð verði skráð á nýjan leik berist beiðni þar að lútandi innan árs frá afskráningu og sérstakar aðstæður réttlæta endurskráningu.
    Samkvæmt 5. mgr. er kveðið á um að þó að aðili hafi verið felldur af skrá breyti það ekki persónulegri ábyrgð sem stjórnar- eða félagsmenn kunna að vera í vegna skuldbindinga félagsins.
    Í 6.–8. mgr. er að finna ákvæði um hvernig fara beri með kröfu skv. 4. mgr. um að bú aðila verði tekið til skipta. Í 8. mgr. er kveðið á um að ekki megi breyta skráningu aðila í fyrirtækjaskrá eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú aðilans verði tekið til skipta en er hér meðal annars átt við skráningu stjórnarmanna.

Um 18. gr.

    Greinin er nánast samhljóða 52. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 140/2018, og 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari útfærslu á einstökum ákvæðum laganna.

Um 20. gr.

    Í frumvarpinu er lögð til innleiðing á ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins ESB nr. 648/2012, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins 2005/60/EB og tilskipun ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB, eins og hún var tekin var upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2018 frá 5. desember 2018, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónusta), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 28. febrúar 2019, bls. 3–5.
    Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingar á tilskipun (ESB) 2015/849 og tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB voru meðal annars gerðar breytingar á ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849. Tilskipun (ESB) 2018/843 hefur ekki verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og því er í frumvarpi þessi lagt til að þau ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/843 sem breyta ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 verði tekin efnislega upp í íslenska löggjöf.

Um 21. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 22. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, og lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um fyrirtækjaskrá er tvíþættar. Annars vegar er um að ræða breytingar sem lagðar eru til vegna skráningar raunverulegs eiganda lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila. Hins vegar eru lagðar til breytingar á viðurlagakafla laganna en í skýrslu FATF eru gerðar athugasemdir við heimildir ríkisskattstjóra til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Lagt er til að ríkisskattstjóri hafi heimildir til að krefjast úrbóta, leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir. Einnig er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um málshöfðunarfrest. Ákvæðin eru sambærileg ákvæðum 13.–16. gr. og 18. gr. frumvarpsins og vísast til umfjöllunar í greinargerð um þau ákvæði.
    Í ákvæðinu er einnig mælt fyrir um breytingar á greiðsluþjónustulögum, nr. 120/2011, sem leiða af því að hugtakið peninga- og verðmætasendingarþjónusta féll brott úr lögum með samþykkt laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Eftir samþykkt laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka stendur að lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, vísa til hugtaksins peninga- og verðmætasendingarþjónusta með vísan til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og er ætlunin að lagfæra það með þessari breytingu á greiðsluþjónustulögunum. Með a-lið er lagt til að í stað „Peninga- og verðmætasendingarþjónusta samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem uppfyllir skilyrði II. kafla“ orðist f-liður 14. tölul. 8. gr. laganna svo: Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi. Með b-lið eru lagðar til breytingar á 27. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, sem efnislega fjallar um tilteknar undanþágur frá lögum um greiðsluþjónustu sem fyrst og fremst reynir á vegna smærri greiðslustofnana. Í ákvæðinu er lagt til að orðin „peninga- og verðmætasendingarþjónusta“ verði fellt brott úr ákvæðinu og í staðinn komi „greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi“. Í 2. mgr. 27. gr. er lagt til að heildarfjárhæð greiðslna sem slík greiðslustofnun framkvæmi á grundvelli takmarkaðs starfsleyfis á einum mánuði megi að hámarki nema 1 milljón evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Lagt er til að heildarfjárhæðin lækki úr 3 milljónum evra í 1 milljón evra og fjárhæðin þar með aðlöguð að íslenskum greiðslumarkaði. Í 2. mgr. 27. gr. núgildandi laga um greiðsluþjónustu nr. 120/2011 hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að kveða á um lægri viðmiðunarfjárhæð. Lagt er til að heimild Fjármálaeftirlitsins til lækkunar viðmiðunarfjárhæðarinnar verði felld brott úr lögum en þess í stað verður fjárhæðin í lögunum lækkuð. Á sama tíma er lagt til að greiðslustofnanir með takmarkað starfsleyfi geti sinnt fleiri tegundum greiðsluþjónustu en einungis peningasendingu. Með þeirri breytingu næst fram samræmi milli ákvæðisins og 26. gr. tilskipunar 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaði EES, sem ákvæðið byggir á, enda gerir tilskipunin ekki ráð fyrir að undanþágur á borð við þær sem ákvæðið tekur til séu einungis bundnar við peningasendingu eða afmarkað við eina tegund greiðsluþjónustu. Ákvæði c–f-liðar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um skyldu þeirra skráningarskyldu aðila sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá til að veita upplýsingar skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. eigi síðar en 1. desember 2019.