Ferill 797. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1258  —  797. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (innleiðing reglugerðar, um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.1. gr.

    53. gr. a laganna orðast svo:
    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum, sem er birt í EES- viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 26. júlí 2018, bls. 383–393, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Tilgangur með framlagningu frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum, eins og þau voru tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, og lagt til að þau hafi lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í desember 2015 lagði framkvæmdastjórn ESB fram frumvarp að reglugerð sem átti að tryggja að einstaklingar sem ferðast á milli landa Sambandsins og dvelja þar tímabundið geti nýtt sér áskrift að stafrænu efni sem þeir hafa í sínu heimalandi, t.d. að sjónvarpi, tónlistar- og bókmenntaveitum. Dæmi um slíkar efnisveitur á Íslandi er Stöð 2, Sjónvarp Símans Premium, Spotify og Netflix. Slík not á milli landa geta almennt ekki átt sér stað vegna landfræðilegra takmarkana leyfa þjónustuveitenda. Reglugerðin var gefin út í júní 2017, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum, hér eftir „reglugerðin“. Reglugerðin tekur til allra efnisveitna á netinu sem bjóða áskrift gegn gjaldi en efnisveitur sem veita ókeypis þjónustu geta valið hvor þær bjóða slíka þjónustu fyrir sína notendur.
    Reglugerðin miðar að því að fjarlægja hindranir á því að neytendur geti notið þjónustu frá efnisveitum, sem þeir eru áskrifendur að, eða geti fengið aðgang að efni, sem þeir hafa áður keypt eða leigt í heimalandi sínu, þegar þeir ferðast til annarra aðildarríkja og dveljast þar tímabundið. Landfræðilegar takmarkanir á slíkum aðgangi helgast af því að þjónustuveitendur þurfa að tryggja að þeir hafi leyfi frá öllum höfundaréttarhöfum efnis sem þeir veita aðgang að, í öllum löndum þar sem aðgangur er veittur. Það getur verið ókleift vegna kostnaðar að afla slíks leyfis frá mörgum löndum og því er þjónustan yfirleitt eingöngu miðuð við það land þar sem þjónustan er veitt.
    Sambandið hefur samþykkt almenna aðgerðaáætlun til að auðvelda notkun stafræns efnis á innri markaðnum. 1 Samþykkt reglugerðarinnar um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum er liður í þeirri áætlun og á að auðvelda framkvæmd í því afmarkaða tilviki þegar einstakir neytendur eru tímabundið á ferðalagi í öðrum aðildarríkjum Sambandsins. Frumvarpið miðar að sama markmiði fyrir innlenda neytendur sem eru tímabundið á ferðalagi innan EES. Innleiðing reglugerðarinnar hér á landi gerir það að verkum að litið verður svo á að þjónusta efnisveitna til ferðalanga í aðildarlöndum sé áfram veitt í heimalandi viðkomandi einstaklings. Þjónustuveitendum verður skylt að tryggja að neytendur eigi kost á þessari þjónustu án aukagjalds.
    Reglur, eins og eru í reglugerðinni, um að litið verði svo á að notkun á efni frá þjónustuveitum í öðrum löndum en heimalandi veitunnar verði skilgreind sem notkun í heimalandi, verða ekki settar einhliða í einstökum löndum heldur þarf alþjóðasamstarf til. Því þarf að lögfesta ákvæði sem kveður á um þetta í öllum þeim löndum sem það á að gilda í og jafnframt að tryggja að þjónustuveitendum sé skylt að veita þessa þjónustu. Slík ákvæði eru ekki í gildandi lögum.
    Ef ekkert er aðhafst er ljóst að íslenskum neytendum mun ekki standa þetta úrræði til boða í sama mæli og hjá öðrum þjóðum innan EES. Jafnframt mun Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þá fyrirsjáanlega hefja samningsbrotamál á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólnum.
    Til að innleiða efnisákvæði reglugerðarinnar er annað hvort hægt að semja sérstök lög eða bæta við ákvæði í höfundalög. Rök þess að tengja innleiðingu reglugerðarinnar við höfundalög eru þau að ákvæði hennar takmarka að vissu marki möguleika höfundaréttarhafa til að afmarka not verka sinna við ákveðin landsvæði. Það er ýmist hægt að innleiða reglugerðina í höfundalög með nýjum efnisákvæðum byggðum á ákvæðum reglugerðarinnar eða með tilvísunaraðferð, þ.e. að í nýju ákvæði í höfundalögum verði vísað til reglugerðarinnar og tiltekið að ákvæði hennar hafi gildi hér á landi eins og þau voru tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur valið að fara þá leið með þessu frumvarpi. Samkvæmt framansögðu er lagt til í frumvarpinu að nýju ákvæði sem vísar til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum verði bætt í höfundalög og tiltekið að reglugerðin hafi gildi frá gildistökudegi laganna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja að einstaklingar sem ferðast á milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og dvelja þar tímabundið geti nýtt sér áskrift að stafrænu efni sem þeir hafa keypt í sínu heimalandi. Lagt er til að það verði gert með því að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum, eins og þau voru tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, skuli hafa lagagildi hér á landi.

3.1. Efni reglugerðarinnar.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum var samþykkt með hliðsjón af 114. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Í reglugerðinni eru 11 greinar.

Tilgangur, gildissvið og hugtök (1. og 2. gr.).
    Tilgangur og gildissvið reglugerðarinnar er sett fram í 1. gr. hennar en þar kemur fram að hún eigi að tryggja að áskrifendur efnisveituþjónustu á netinu, sem er veitt í búsetuaðildarríki þeirra með löglegum hætti, geti notað þjónustuna þegar þeir eru tímabundið staddir í aðildarríki öðru en búsetuaðildarríki sínu. Formálsgrein 12 með reglugerðinni undirstrikar að flytjanleiki efnisveituþjónustu yfir landamæri samkvæmt reglugerðinni sé ekki það sama og aðgangur að efnisveituþjónustu yfir landamæri. Hið síðarnefnda myndi varða aðgang neytenda að efnisveituþjónustu í öðrum löndum en búsetulandi en til þess efnis tekur reglugerðin ekki.
    Helstu hugtök sem notuð eru í reglugerðinni eru skilgreind í 2. gr. hennar. Þar er að finna skýringar á hver merking eftirfarandi hugtaka er í reglugerðinni: „áskrifandi“, „neytandi“, „búsetuaðildarríki“, hvað það er að vera „tímabundið staddur í aðildarríki“, „efnisveituþjónusta á netinu“ og hvað sé „flytjanleg“ efnisveituþjónusta.
    „Áskrifandi“ er skv. 1. tölulið 2. gr. reglugerðarinnar sérhver neytandi sem á grundvelli samnings um að fá veitta efnisveituþjónustu á netinu hjá þjónustuveitanda, hvort heldur er gegn greiðslu eða án greiðslu, eigi rétt á aðgangi að og notkun á slíkri þjónustu í búsetuaðildarríkinu. Í formálsgrein 15 með reglugerðinni kemur fram að hugtakið „samningur“ skv. reglugerðinni taki til sérhvers samnings milli þjónustuveitanda og áskrifanda, þ.m.t. sérhvert samkomulag þar sem áskrifandinn samþykkir skilmála og skilyrði þjónustuveitandans um veitingu efnisveituþjónustu á Netinu, hvort heldur er gegn greiðslu eða ekki. Hins vegar á ekki að líta á skráningu til að fá tilkynningar um efni eða einfaldlega samþykki á HTML-smygildum sem samning um veitingu efnisveituþjónustu á netinu.
    Skilgreining á „neytanda“ skv. 2. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar er að átt sé við einstakling sem, að því er varðar samninga sem reglugerðin nær til, kemur fram í tilgangi sem liggur utan við atvinnugrein, fyrirtæki, iðn eða sérgrein þess einstaklings.
    „Búseturíki“, sbr. 3. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar, er aðildarríki þar sem áskrifandinn hefur fasta og varanlega búsetu í samræmi við ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar.
    Það að vera „tímabundið staðsettur í aðildarríki“ er í 4. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar skilgreint sem dvöl í skamman tíma í öðru aðildarríki en búsetuaðildarríki. Í mati framkvæmdastjórnarinnar á áhrifum reglugerðarinnar 2 er tekið fram að ekki sé miðað við ákveðið tímamark heldur það að dvölin breyti ekki búseturíki viðkomandi neytanda, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Um tímabundna dvöl af ýmsum ástæðum geti verið að ræða, t.d. vegna orlofs, vinnu eða náms. Tímalengd dvalar er mismunandi eftir eðli dvalarinnar, t.d. getur námsdvöl varað mun lengur en venjulegt ferðalag vegna orlofs eða vinnuferða. Því verður ekki talið heimilt að miða við ákveðið tímamark í samningum þjónustuveitanda við notanda, sbr. 1. mgr. 7. gr. sem leggur bann við samningsákvæðum sem brjóta í bága við reglugerðina.
    „Efnisveituþjónusta á netinu“ er skilgreind í 5. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar sem flytjanleg þjónusta á netinu sem er hljóð- og myndmiðlunarþjónusta í skilningi a-liðar 1. gr. tilskipunar 2010/13/ESB 3 eða sem þjónusta sem felst aðallega í veitingu aðgangs og notkun á verkum og öðru efni sem verndað er samkvæmt höfundalögum, eða flutningi útvarpsstofnunar, t.d. íþróttaviðburðir, hvort heldur er línulega eða eftir pöntun. Þjónustan getur skv. þessu tekið til aðgangs að mismunandi efni, t.d. tónlistar, kvikmynda, bóka, frétta, tölvuleikja og íþróttaviðburða, sjá einnig umfjöllun í formálsgreinum 1, 4, 5 og 8 við reglugerðina. Ekki skiptir höfuðmáli hvaða tækni notuð er við miðlun slíkrar þjónustu á netinu, hvort sem er með streymi, niðurhali, með hugbúnaði eða annarri tækni sem leyfir notkun efnis á netinu, sbr. formálsgrein 15 við reglugerðina.
    „Flytjanleg“ er sá eiginleiki efnisveituþjónustu á netinu sem gerir áskrifendum kleift að fá aðgang að henni og nota hana í búsetuaðildarríki sínu án tillits til staðsetningar.

Skylda til að sjá til þess að efnisveituþjónusta á netinu sé flytjanleg yfir landamæri (3. gr.).
    Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið er á um skyldu veitanda efnisveituþjónustu á netinu, sem veitt er gegn greiðslu, að gera áskrifanda, sem er tímabundið staddur í öðru aðildarríki, kleift að fá aðgang að efnisveituþjónustunni á netinu og nota hana á sama hátt og í búsetuaðildarríki hans, þ.m.t. með því að veita aðgang að sama efni, fyrir sömu tegundir og sama fjölda tækja, fyrir sama fjölda notenda og með sams konar virkni, sjá nánar í formálsgreinum 15, 17, 21, 24 og 26 með reglugerðinni.
    Skyldan tekur eingöngu til áskriftarþjónustu gegn gjaldi. Gert er ráð fyrir að efnisveituþjónustur sem innheimta áskriftargjöld séu í stakk búnar til að staðfesta búsetu áskrifenda sinna. Greiðsla í þessu sambandi tekur bæði til greiðslu beint til þess sem býður efnisveituþjónustu og einnig til greiðslu til annars aðila, t.d. þegar þjónustuveitandi býður pakka sem sameinar rafræna fjarskiptaþjónustu og efnisveituþjónustu á netinu sem annar þjónustuveitandi rekur. Hins vegar teljast skyldubundin gjöld fyrir útvarp í almannaþágu, t.d. gjaldtaka skv. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013, ekki greiðsla í skilningi reglugerðarinnar, sbr. formálsgrein 18 við reglugerðina.
    Þótt skylda sé að tryggja flytjanleika efnisveituþjónustunnar á sama hátt og í búsetulandinu, þ.m.t. með því að veita aðgang að sama efni, fyrir sömu tegundir og sama fjölda tækja, fyrir sama fjölda notenda og með sams konar virkni ber þjónustuveitanda ekki skylda til að uppfylla allar gæðakröfur sem þjónustan þarf að uppfylla í búsetuaðildarríkinu nema um það sé samið. Hins vegar má þjónustuveitandinn ekki að eigin frumkvæði draga úr gæðum afhendingar efnisveituþjónustu þegar veittur er aðgangur yfir landamæri samkvæmt reglugerðinni, sbr. 3. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar. Þá er þjónustuveitandanum skylt að veita áskrifandanum upplýsingar er varða gæði efnisveituþjónustu sem er flytjanleg samkvæmt reglugerðinni, sbr. 4. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar. Þessi ákvæði eru nánar rædd í formálsgrein 18 með tilskipuninni.
    Flytjanleiki þjónustunnar skal vera án viðbótargjalds fyrir áskrifandann, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Staðsetning veitingar, aðgangs að og notkunar á efnisveituþjónustu á netinu (4. gr.).
    Kveðið er á um í 4. gr. reglugerðarinnar að efnisveituþjónusta á netinu, aðgangur og notkun hennar, til áskrifanda sem er tímabundið staðsettur í öðru aðildarríki en sínu búseturíki, skuli samkvæmt reglugerðinni eingöngu teljast fara fram í búsetuaðildarríki áskrifandans. Þetta skiptir máli varðandi höfundaréttindi og beitingu þeirra og mögulegra ákvæða í leyfissamningum sem bundnir eru við ákveðin landsvæði. Ákvæði greinarinnar leiða til þess að notkun höfundaréttarvarins efnis sem á sér stað þegar efnisveituþjónustan veitir aðgang að því (eintakagerð og opinber flutningur, sbr. 2. gr. höfundalaga) telst einungis eiga sér stað í því landi sem áskrifandi hefur fasta búsetu, ekki í því landi sem hann dvelur tímabundið.
    Þessi „lagatilbúningur“ þýðir að þjónustuveitandi efnisveitu á netinu getur boðið áskrifendum sínum aðgang að efnisveitunni yfir landamæri á meðan þeir dvelja tímabundið í öðru aðildarríki, þrátt fyrir að samningar þjónustuveitandans við rétthafa efnis í veitunni heimili honum einungis not í því ríki sem hann hefur staðfestu í. Ákvæðið hefur líka þær afleiðingar að hvorki þjónustuveitandinn né áskrifandinn sem er tímabundið í öðru landi telst hafa framið höfundaréttarbrot með því annars vegar að veita slíka þjónustu yfir landamæri eða með því að nota slíka þjónustu í öðru landi hins vegar ef slík þjónusta er veitt í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Sannprófun á búsetuaðildarríki (5. gr.).
    Þjónustuveitandi efnisveitu á netinu skal sannprófa búsetuaðildarríki áskrifandans, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar og formálsgreinar 26 og 27 með reglugerðinni. Slík sannprófun skal eiga sér stað við gerð og endurnýjun samnings um efnisveituþjónustu. Þetta skilyrði er sett til að rétthafar geti fylgst með notkun verka sinna.
    Aðferðirnar sem notaðar eru við sannprófun búsetu áskrifandans þurfa að vera sanngjarnar, hóflegar og skilvirkar, þ.e. ekki ganga lengra en þörf er á. Þjónustuveitandinn getur beðið áskrifandann um að veita nauðsynlegar upplýsingar, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.
    Við sannprófun á búsetu skal einungis nota tvær af þeim aðferðum sem taldar eru upp í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Ef þjónustuveitandinn getur ekki staðfest búsetu áskrifandans skv. reglugerðinni þá getur hann ekki veitt þjónustuna yfir landamæri til áskrifanda sem er tímabundið í öðru aðildarríki á grundvelli ákvæða reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 5. gr. hennar. Þjónustuveitandi og rétthafar geta samið um skilyrði sannprófunar búsetu áskrifanda. Þetta leiðir óbeint af ákvæðum 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sem kveður á um að rétthafar geti leyft þjónustuveitanda að veita aðgang að efni sínu yfir landamæri án þess að föst búseta áskrifanda sé sannreynd. Rétthafar geta þó alltaf afturkallað slíka heimild og ekki er heimilt að takmarka þá afturköllunarheimild, sbr. 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.
    Í bréfi framkvæmdastjórnarinnar til aðildarríkja um túlkun reglugerðarinnar kemur fram að eftirlit með búsetuskilyrðinu skuli framkvæmt, að því leyti sem slíkt er mögulegt, með því að nota þær upplýsingar sem þjónustuveitandi hefur þegar um áskrifandann. Eingöngu ef þjónustuveitandi hefur ekki nægilegar upplýsingar til að sannreyna búsetuna má biðja áskrifendur um frekari upplýsingar. Þá er í bréfinu lögð áhersla á að reglulegt eftirlit með búsetu áskrifandans með því að fylgjast með vistfangi 4 hans sé ekki í samræmi við reglugerðina.

Flytjanleiki efnisveituþjónustu á netinu sem veitt er án greiðslu (6. gr.).
    Ákvæði 6. gr. reglugerðarinnar kveður á um að sá sem veitir efnisveituþjónustu á netinu án þess að fá greitt fyrir geti ákveðið að veita áskrifendum sem eru tímabundið staddir í aðildarríki möguleika á að hafa aðgang að og nota efnisveituþjónustuna á netinu með því skilyrði að veitandinn sannreyni búsetuaðildarríki áskrifandans í samræmi við reglugerðina. Almenna reglan er hins vegar sú að reglugerðin tekur eingöngu til efnisveituþjónustu á netinu sem veitt er gegn greiðslu. Ef þjónustuveitandi efnisveitu á netinu sem ekki er veitt gegn gjaldi ákveður að bjóða sínum notendum upp á not yfir landamæri þegar þeir eru tímabundið staddir í öðru aðildarríki í samræmi við reglugerðina þarf viðkomandi þjónustuveitandi að sannreyna búsetu þeirra sem hann veitir slíka þjónustu, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Einnig þarf hann á fullnægjandi hátt að tilkynna áskrifendum sínum, viðkomandi handhöfum höfundaréttar og skyldra réttinda og viðkomandi handhöfum hvers kyns annarra réttinda á efni frá efnisveituþjónustu á netinu um ákvörðun sína áður en þjónustan er veitt.
    Þrátt fyrir að þjónustuveitandi efnisveitu á netinu sem ekki er veitt gegn gjaldi ákveði ekki að veita slíka þjónustu yfir landamæri á grundvelli reglugerðarinnar er ekki útilokað að þjónustan verði samt sem áður aðgengileg notendum sem dvelja tímabundið í öðru aðildarríki, t.d. í gegnum smáforrit þar sem aðrir þjónustuveitendur veita aðgang að efni útvarpsstöðva.

Samningsákvæði (7. gr.).
    Í 7. gr. reglugerðarinnar, sbr. einnig formálsgreinar 21 og 25 með reglugerðinni, er kveðið á um að ekki sé hægt að takmarka gildi reglugerðarinnar með samningum, hvorki á milli þjónustuveitanda og notenda né á milli þjónustuveitanda og rétthafa. Þannig getur áskrifandi krafist þess að hafa aðgang að efnisveituþjónustunni á meðan hann eða hún dvelst tímabundið í öðru aðildarríki þó svo að í áskriftarsamningum sé kveðið á um annað. Sömuleiðis getur þjónustuveitandi veitt slíka þjónustu yfir landamæri skv. reglugerðinni þótt í samningum hans við rétthafa sé kveðið á um að hann megi ekki bjóða aðgang að efninu yfir landamæri.
    Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að ákvæði reglugerðarinnar skuli einnig gilda óháð því hvort samið sé um að löggjöf þriðja ríkis skuli gilda um efni samnings rétthafa efnis og þjónustuveitanda. Þetta ákvæði er sett til þess að koma í veg fyrir að aðilar semji sig frá ákvæðum reglugerðarinnar með því að láta t.d. bandarísk lög gilda um efni samningsins, sbr. nánar í 25 formálsgrein reglugerðarinnar. Vert er að geta þess að opinber þýðing 5 á ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er villandi þar sem í þýðingunni virðist vera eingöngu vísað til gildandi laga um samninga, þ.e. landslaga hvers aðildarríkis.

Vernd persónuupplýsinga (8. gr.).
    Í 8. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um vernd persónuupplýsinga og vísað til tilskipana 95/46/EB og 2002/58/EB. Sú fyrrnefnda var felld úr gildi 25. maí 2018 og í hennar stað kom reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB (almenna persónuverndarreglugerðin). Sú reglugerð var innleidd í íslenskan rétt með lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
    Meðferð og vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli reglugerðarinnar skal takmarkast við það sem nauðsynlegt og hóflegt er til að ná tilgangi viðkomandi ákvæða reglugerðarinnar, sbr. 1. mgr. 8. gr. og formálsgrein 26 með reglugerðinni. Þannig má t.d. ekki nota upplýsingar sem safnað er til að sannprófa fasta búsetu, skv. 5. gr. reglugerðarinnar, til annars en þess og ekki t.d. deila þeim til annarra, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Þá má ekki geyma slík gögn lengur en nauðsyn krefur, sbr. 3. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar.

Fyrirliggjandi samningar og áunnin réttindi (9. gr.).
    Reglugerðin tekur einnig til fyrirliggjandi samninga og áunninna réttinda fyrir gildistöku reglugerðarinnar, sbr. 9. gr. hennar. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að ekki líði of langur tími áður en neytendur geta nýtt möguleikann á flytjanleika efnisveituþjónustu skv. reglugerðinni og til þess að jafna samkeppniskilyrði efnisþjónustuveitenda. Þetta ákvæði hefur í för með sér að ef samningar á milli þjónustuveitanda og rétthafa frá því fyrir gildistöku reglugerðarinnar kveða á um landfræðilegar takmarkanir á nýtingu efnis þá koma þau ekki í veg fyrir að þjónustuveitandi geti veitt þjónustu í samræmi við reglugerðina, sbr. 7. gr. hennar.
    Sannprófun fastrar búsetu áskrifenda skv. eldri samningnum skal fara fram innan ákveðins tíma í samræmi við 5. gr. reglugerðarinnar, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 skal sú dagssetning fyrir EFTA-ríkin innan EES vera tveimur mánuðum og einum degi eftir að ákvörðunin gengur í gildi. Sömu grundvallarsjónarmið gilda um slíka sannprófun eins og um sannprófun skv. 5. gr. reglugerðarinnar.

Endurskoðun og lokaákvæði (10. og 11. gr.).
    Í 10. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að framkvæmdastjórn ESB skuli meta, eigi síðar en 21. mars 2021, og eins og þörf krefur eftir það, beitingu þessarar reglugerðar í ljósi lagalegrar, tæknilegrar og efnahagslegrar þróunar, og gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu þar um. Samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar kom hún til framkvæmdar innan ESB frá og með 20. mars 2018.

3.2. Gildandi réttur og samanburður við önnur lönd.
    Möguleikar íslenskra neytenda til að fá aðgang að þeim efnisveituþjónustum á netinu sem þeir eru áskrifendur að á meðan þeir dveljast erlendis eru mismunandi frá einni þjónustu til annarrar. Sumar efnisveitur veita aðgang en aðrar engan og allt þar á milli. Slíkur aðgangur eða skortur á aðgangi byggist á samningum þjónustuveitandans við rétthafa efnis sem til boða stendur í efnisveitunni.
    Yfirleitt er samið um heimild til að nota efni sem til boða stendur í efnisveitum á netinu á ákveðnu svæði eða í ákveðnum löndum. Þannig getur þjónusta verið takmörkuð við Ísland. Markmið reglugerðarinnar er að breyta þessu að því er varðar áskrifendur sem dvelja tímabundið í öðru aðildarríki en sínu eigin.
    Engar reglur í íslenskum rétti skylda þjónustuveitanda efnisveitu á netinu að bjóða áskrifendum sínum afnot efnis yfir landamæri þegar þeir dvelja tímabundið erlendis. Höfundalögin, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum gilda eingöngu um athafnir sem eiga sér stað á íslensku landsvæði. Ákvæði sem kveða á um að tilteknar athafnir skuli teljast eiga sér stað á Íslandi þó svo að þær eigi sér í raun stað erlendis eru ekki í lögunum. Meginregla höfundalaga er að rétthafi hefur fullt frelsi til að ákveða hvernig verk þeirra verði notuð, þ.m.t. hvort þeir framselji rétt sinn að hluta eða öllu. Þannig geta rétthafar ákveðið að takmarka not sem þeir heimila við ákveðin lönd eða land.
    Reglugerðin öðlaðist sjálfkrafa gildi í öllum aðildarríkjum ESB 20. mars 2018, þ.m.t. í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Neytendur í öllum þeim löndum geta því notfært sér ákvæði hennar til að fá aðgang að efnisveituþjónustu sem þeir eru áskrifendur að í heimalandi sínu á meðan þeir dveljast tímabundið í öðru aðildarríki. Ísland þarf hins vegar að innleiða reglugerðina ef ákvæði hennar eiga að gilda hér á landi. Sama á við í Noregi. Innleiðing reglugerðarinnar verður skylda þegar ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018 tekur gildi. Það gerist þegar öll EFTA-ríkin sem eru aðilar að EES-samningnum hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum sínum. Noregur hefur þegar samþykkt lög sem lögfesta reglugerðina frá og með þeim degi sem konungur ákveður.

3.3. Hvernig nær frumvarpið þeim markmiðum sem stefnt er að?
3.3.1. Almennt.
    Ísland er skuldbundið til að innleiða reglugerðina skv. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018. Ákvörðunin tekur gildi þegar stjórnskipulegum fyrirvörum hefur verið aflétt þar sem þess er þörf. Slíkt hefur verið gert í Noregi og Liechtenstein. Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um afléttingu slíks fyrirvara hér á landi var lögð fyrir Alþingi 19. febrúar 2019, sbr. þingmál nr. 531 á 149. löggjafarþingi, og samþykkt 6. mars 2019. Ákvörðunin tekur gildi  á fyrsta degi annars mánaðar eftir að Ísland hefur tilkynnt um afléttinguna. Samkvæmt EES-samningnum skulu reglugerðir innleiðast „sem slíkar“, sbr. a-lið 7. gr. EES-samningsins. Þetta þýðir að við innleiðingu reglugerða verður að fylgja nákvæmlega orðalagi og uppsetningu viðkomandi reglugerðar og ekki ráðrúm fyrir landsbundnar tilhliðranir eða aðlaganir. Því er það mat ráðuneytisins að við innleiðingu reglugerðarinnar fari best á því að nota svonefnda tilvísunaraðferð. Tilvísunaraðferðin felur í sér að viðkomandi reglugerð, með þeim breytingum sem leiðir af upptöku hennar í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, verður hluti af íslenskum rétti.
    Reglugerðin hefur í för með sér ákveðna takmörkun á rétti rétthafa til að afmarka leyfi til nota verka sinna á landfræðilegum grundvelli. Af þeim sökum telur ráðuneytið rétt að fella reglugerðina inn í höfundalög og leggur til að það verði gert með því að setja nýtt ákvæði í VI. kafla höfundalaga í nýja grein 53. gr. a. Ákvæði þeirrar greinar mun vísa til reglugerðarinnar með áorðnum breytingum skv. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

3.3.2. Framfylgd og eftirlit.
    Reglugerðin hefur ekki að geyma ákvæði sem kveða á um eftirlit eða viðurlög við brotum. Af því leiðir að einungis dómstólar munu geta leyst úr mögulegum ágreiningsmálum um túlkun ákvæða gerðarinnar.
    Innan ESB var hinn 12. desember 2017 samþykkt reglugerð um samvinnu um neytendavernd milli aðildarríkja, sbr. reglugerð (ESB) 2017/2394. Hún mun taka gildi innan ESB 17. janúar 2020. Hún er enn sem komið er ekki orðin hluti af EES-samningnum. Samkvæmt reglugerðinni um samvinnu um neytendavernd (ESB) 2017/2394 fellur efni reglugerðar um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu (ESB) 2017/1128 undir efni fyrrnefndu reglugerðarinnar. Í reglugerðinni um samvinnu um neytendavernd er skylda að tilnefna eftirlitsaðila með þeim reglum sem undir hana falla. Af þessum sökum telur ráðuneytið rétt að bíða með tilnefningu eftirlitsaðila með efni reglugerðar um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu þar til reglugerðin um samvinnu um neytendavernd verður innleidd, en þá mun eftirlitsskyldan með reglugerðinni um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu væntanlega verða sett í lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
    Ráðuneytið telur, burtséð frá framangreindu, að Neytendastofa hafi heimild á grundvelli 4. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, sbr. 5. gr. og 9. gr. þeirra laga, til að hafa eftirlit með að þjónustuveitendur efnisveitu á netinu bjóði áskrifendum sínum ekki ósanngjarna skilmála eða að þeir ástundi ekki villandi eða óréttmæta viðskiptahætti varðandi möguleika áskrifenda til að nýta sér aðgang sinn að efnisveitunum á meðan á tímabundinni dvöl stendur í öðru aðildarríki í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem fela í sér innleiðingu á ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum, eins og þau voru tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018. Frumvarpið hefur að öðru leyti ekki gefið tilefni til mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Þeir aðilar sem frumvarp þetta snertir eru neytendur, þjónustuveitendur, svo sem fjarskiptafyrirtæki sem reka efnisveitur og endurvarpa útsendingum útvarpsfyrirtækja, tónlistarveitur, kvikmyndaveitur, tölvuleikjaveitur, útvarpsstofnanir og höfundarétthafar fyrir netafnot kvikmynda- og sjónvarpsefnis, tónlistar og tölvuleikja.
    Skörun við stjórnarmálefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins getur komið til vegna mögulegs eftirlits Neytendastofu með nýjum reglum vegna frumvarps um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum. Það er þó ekki skylda samkvæmt reglugerðinni að ákveða eftirlitsaðila með framfylgd reglnanna og slíkt eftirlit er ekki lagt til í frumvarpinu þar sem réttara þykir að um slíkt verði kveðið þegar reglugerð (ESB) 2017/2394 (reglugerð um samvinnu um neytendavernd) verður innleidd, sbr. umfjöllun í kafla 3.3.2. Samráð var haft við Neytendastofu.
    Höfundaréttarnefnd, sem er nefnd sérfræðinga um höfundaréttarmál og er skipuð í samráði við helstu höfundaréttarsamtök landsins, sbr. 58. gr. höfundalaga, hefur haft frumvarpið til athugunar og komið með ábendingar og athugasemdir.
    Áform um frumvarpið voru kynnt í innra samráði ráðuneyta 13. desember 2018. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda frá 25. febrúar 2019. Engar athugasemdir bárust fyrir lok samráðsfrestsins sem var til 11. mars 2019.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér að þjónustuveitendur þurfa að tryggja að einstaklingar sem nýta sér þjónustu þeirra með áskrift gegn gjaldi geti notfært sér þjónustu þeirra á meðan viðkomandi einstaklingur er á tímabundnu ferðalagi í öðru EES-landi. Það mun því hafa áhrif á allar efnisveitur sem hafa áskrifendur sem greiða áskriftargjald. Hins vegar ætti sú skylda ekki að fela í sér neina verulega byrði því tæknilega geta flestar veitur veitt slíka þjónustu nú þegar og þjónustuveitendur munu ekki þurfa að greiða rétthöfum efnis sérstaklega fyrir þessa aukaþjónustu. Efnisveitum sem veita ókeypis áskrift eða aðgang er frjálst að bjóða upp á sömu þjónustu en þurfa þá að sannreyna búsetu áskrifenda eða notenda í samræmi við reglugerðina. Almennt má gera ráð fyrir að þjónustuveitendur vilji bjóða viðskiptavinum sínum þá þjónustu að geta notað efni veitunnar á ferðalögum í öðrum EES-löndum. Þjónustuveitendur þurfa að geta staðfest heimilisfesti áskrifenda sinna en líklegt er að slík staðfesting sé þegar möguleg, sérstaklega þegar um þjónustu efnisveitu gegn gjaldi er að ræða, með núverandi innskráningarkerfum slíkra þjónustuveitenda.
    Ekki er heldur talið að rétthafar missi við þetta nein umtalsverð fjárhagsleg tækifæri eða verði fyrir fjárhagslegu tjóni þar sem eingöngu er um að ræða tímabundin not í öðrum EES-löndum af einstaklingum sem þegar nota viðkomandi efnisþjónustu hér á landi.
    Þá mun samþykkt frumvarps um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum ekki hafa teljandi fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð þar sem það mun ekki fela í sér neinar skyldur fyrir opinber yfirvöld. Framfylgd reglnanna myndi að meginefni til vera á verksviði dómstóla. Ekki er lagt til að tilnefndur verður sérstakur eftirlitsaðili með framkvæmd laganna, sbr. umfjöllun í kafla 3.3.2. Neytendastofa hefur væntanlega heimild skv. lögum um um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu til að hafa eftirlit með framfylgd efnis reglugerðarinnar, sbr. umfjöllun í kafla 3.3.2. Ólíklegt er að slíkt eftirlit myndi leiða til kostnaðar sem félli utan núverandi fjárhagsramma stofnunarinnar. Það er einnig talið ólíklegt að mörg dómsmál muni hljótast af reglum um flytjanleika efnisþjónustu eða að mögulegt eftirlit verði þungbært.
    Fyrir neytendur mun frumvarpið hafa jákvæð áhrif. Þeir munu geta nýtt sér efni innlendra þjónustuveitenda á ferðalögum um önnur EES-lönd án aukins kostnaðar. Ávinningur neytenda af því að geta notið þjónustu efnisveitna sem þeir eru áskrifendur að á meðan á tímabundnum ferðalögum innan EES stendur er ótvíræður og gæti líka aukið aðdráttarafl innlendra efnisveitna fyrir innlenda neytendur og þar með aukið framboð þeirra.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að 53. gr. a höfundalaga muni kveða á um að ákvæði reglugerðarinnar um flytjanleika efnisþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum skuli hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Sjá nánar um val þeirrar leiðar í kafla 3.3.1.
    Í almennum athugasemdum er gerð grein fyrir ákvæðum einstakra greina reglugerðarinnar, sjá kafla 3.1.
    Aðlaganir í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar varða m.a. gildistökudag 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar um hvenær þjónustuveitandi efnisveitu á netinu sem veitt er gegn gjaldi þarf að sannreyna fasta búsetu áskrifenda vegna þjónustusamninga sem til er stofnað fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Sú dagssetning er bundin gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, sjá a-lið í 1. gr. ákvörðunarinnar. Sjá einnig umfjöllun um þetta atriði í almennum athugasemdum um 9. gr. reglugerðarinnar í kafla 3.1.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum.

www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s1258-f_I.pdfFylgiskjal II.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn (Hugverkaréttindi).

www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s1258-f_II.pdf1    COM(2015) 192 final, Communication from the Commission to the European Parliament, the Council, the European Economic and Social Committee and the Committee of the Regions; A Digital Single Market Strategy for Europe, (6.5.2015).
2    Sjá Commission Staff Working Document „Impact Assessment“, SWD(20115) 270 final, bls. 24–25.
3    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/13/ESB frá 10. mars 2010 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu (tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu).
4    Vistfang (IP-tala) er nokkurs konar símanúmer á netinu, sbr. t.d. 15. gr. og 7. mgr. 47. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003.
5    Sbr. Fylgiskjal I.