Ferill 802. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1263  —  802. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, með síðari breytingum (samningar við þjónustuaðila).


Flm.: Ari Trausti Guðmundsson, Vilhjálmur Árnason, Hanna Katrín Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Páll Magnússon, Karl Gauti Hjaltason.


1. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Í slíkum samningum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins.
    Þingvallanefnd skal móta atvinnustefnu vegna reksturs innan þjóðgarðsins, þ.m.t. móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins, m.a. með tilliti til verndarmarkmiða þjóðgarðsins, og samninga þar um. Þingvallanefnd er heimilt að setja reglugerð þar sem mælt er nánar fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæði þessu sem ráðherra staðfestir.
    Ákvæði þetta gengur framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

2. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna bætist: og taka gjöld vegna samninga skv. 5. gr. a sem skulu standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

I. Inngangur.
    Lög nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, tóku gildi 1. júní 2004. Frá þeim tíma hefur lögunum verið breytt þrívegis. Í 3. gr. laganna er mælt fyrir um markmið með friðun landsvæðis innan staðarmarka þjóðgarðsins en þar kemur fram að land þjóðgarðsins skuli vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari.
    Á síðastliðnum árum hefur ásókn fólks í þjóðgarðinn á Þingvöllum vaxið í samræmi við fjölgun ferðamanna til Íslands en þjóðgarðurinn er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Einkum er bent á að samhliða þessari fjölgun gesta hefur færst í aukana að gestir þjóðgarðsins sæki í að njóta afþreyingar innan þjóðgarðsins. Til þess að geta fullnægt verndarmarkmiðum þjóðgarðsins þykir flutningsmönnum nauðsynlegt að mæla fyrir um að atvinnurekstur geti einvörðungu farið fram innan þjóðgarðsins á Þingvöllum á grundvelli samnings við Þingvallanefnd. Með þeim hætti geta þjóðgarðsyfirvöld stuðlað að því að atvinnurekstur innan þjóðgarðsins sé á hverjum tíma samrýmanlegur verndarmarkmiðum hans.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að reka atvinnutengda starfsemi innan staðarmarka þjóðgarðsins á Þingvöllum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Einnig er lögð til gjaldtökuheimild vegna gerðar slíkra samninga, umsjón með þeim og eftirliti. Um er ræða nýmæli en sambærilegt fyrirkomulag er að finna í gildandi lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, með síðari breytingum.
    Reynslan hefur sýnt að áhugi rekstraraðila til að nýta auðlindir þjóðgarðsins hefur aukist gífurlega með auknum fjölda ferðamanna síðustu ár. Með hliðsjón af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins kann að vera nauðsynlegt að setja rekstraraðilum skilyrði og mögulega takmarka þann fjölda aðila sem fær að nýta gæðin hverju sinni þar sem svæðið ber ekki ótakmarkaðan fjölda ferðamanna og átroðningur rýrir verndargildi svæðisins.

III. Mat á áhrifum.
    Gera má ráð fyrir aukinni vinnu við gerð samninga og umsýslu sem því tengist ásamt eftirliti með atvinnurekstri en á móti kemur að kveðið er á um gjaldtökuheimild vegna þeirrar útgáfu og tengdra kostnaðarliða. Frumvarpið ætti því ekki að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þjóðgarðinn.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að óheimilt verði að reka starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Með hliðsjón af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins kann að vera nauðsynlegt að takmarka þann fjölda aðila sem fá aðstöðu innan tiltekinna svæða þjóðgarðsins og velja á milli aðila sem óska eftir slíku. Almenn sjónarmið sem gilda við úthlutun takmarkaðra gæða koma þar til skoðunar, svo sem um opinbera auglýsingu þannig að áhugasömum aðilum sé kunnugt um að úthlutun standi fyrir dyrum. Þá verða að liggja fyrir þau sjónarmið sem hafa vægi við ákvörðunartöku um úthlutun, m.a. með tilliti til verndarmarkmiða þjóðgarðsins, og gæta þarf þess að ákvörðun sé tekin á málefnalegum grundvelli. Gert er ráð fyrir að gerð verði nánari grein fyrir málsmeðferð í reglugerð.
    Í 2. mgr. er lagt til að setja skuli þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins. Önnur atriði sem gætu komið til skoðunar eru m.a. ákvæði um tímalengd samnings, endurgjald, umgengni og aðrar skyldur þjónustuaðila.
    Í 3. mgr. er lagt til að Þingvallanefnd skuli móta atvinnustefnu vegna atvinnureksturs innan þjóðgarðsins með tilliti til verndarmarkmiða hans eða með tilliti til eðlis þess atvinnurekstrar sem um ræðir. Í slíkri atvinnustefnu skal m.a. móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins og efni samninga þar um. Ráðgert er að atvinnustefna sem er mótuð með framangreindum hætti sé grundvöllur fyrir samningsgerð við atvinnurekstraraðila. Þingvallanefnd er þó jafnframt heimilt að setja reglugerð þar sem mælt er fyrir um slík skilyrði málsmeðferðar og gerð samninga samkvæmt greininni sem ráðherra er falið að staðfesta.
    Í 3. mgr. nýrrar 5. gr. a er lagt til að mælt verði fyrir um að ákvæði laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum gangi framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta þar sem lítill hluti þjóðgarðsins á Þingvöllum er innan þjóðlendu. Það þurfi því ekki að fá leyfi sveitarstjórna vegna nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðgarðsins heldur er fullnægjandi að fá til þess leyfi Þingvallanefndar.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð til viðbót við 1. mgr. 7. gr. um gjaldtöku. Gjald það sem gert er ráð fyrir í hinum nýja málslið er nauðsynlegt til að mæta kostnaði við gerð samninga sem gert er ráð fyrir í nýrri 5. gr. a og tengdum kostnaðarliðum. Gert er ráð fyrir að nánar verði mælt fyrir um gjaldtökuna í reglugerð.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.