Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1277  —  619. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur um stækkun Þorlákshafnar.


     1.      Hver er staða undirbúnings að frekari stækkun Þorlákshafnar í ljósi þess að höfnin getur orðið ein helsta inn- og útflutningshöfn Íslands, m.a. með hliðsjón af nálægð við stærstu markaðssvæði landsins og alþjóðaflugvöll, og ekki síst þar sem með siglingum um Þorlákshöfn styttist siglingaleiðin til annarra Evrópulanda verulega sem dregur úr kostnaði og losun gróðurhúsalofttegunda?
    Hafnarframkvæmdir eru á forræði stjórna hafna og sveitarstjórna þar sem þær eru eigendur hafna. Ríkið hefur veitt styrki til hafnarframkvæmda. Um styrkhæfni framkvæmda fer samkvæmt hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum. Vegagerðin metur styrkhæfni hafnarframkvæmda. Samkvæmt 25. gr. hafnalaga skal með umsókn leggja fram m.a. viðskiptaáætlun verkefnisins. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs tekur mið af fjárhagslegri getu viðkomandi hafnarsjóðs til að standa undir kostnaði vegna nauðsynlegra hafnarframkvæmda. Það er því á ábyrgð hafna og stjórnenda þeirra að ákveða hvort ráðist verði í framkvæmdir og meta arðsemi þeirra.
    Siglingasvið Vegagerðarinnar og forverar þess hjá Siglingastofnun og áður Vita- og hafnamálastofnun hafa um áraraðir veitt höfnum landsins þjónustu með ýmiss konar hafnarannsóknum, skipulagningu hafna og gerð áætlana fyrir hafnir, auk þess að hanna hafnarmannvirki. Þorlákshöfn er ein þeirra hafna sem hafa notið þessarar þjónustu.
    Í október 2018 tók siglingasvið Vegagerðarinnar að sér verkefni sem fólst í því að skoða hvaða breytingar þyrfti að gera á höfninni í Þorlákshöfn svo hægt væri að taka á móti stærri skipum. Á fundi með hafnarstjóra og bæjarstjóra var ákveðið að miða við um 180 m langa og um 35 m breiða ekjuferju. Miðað var við að dýpi þyrfti að vera á milli 10 og 12 m.
    Í upphafi verkefnisins var gerð samantekt á fyrri rannsóknum, mælingum og túlkun á þeim náttúruöflum sem móta aðstæður utan og innan hafnar í Þorlákshöfn. Þessar upplýsingar eru nauðsynleg undirstaða frekari vinnu við breytingar á höfninni. Í þessari vinnu voru skilgreindar þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera fyrir stærri skip.
    Í framhaldi af þessum áfanga stóð til að skoða áhrif mismunandi breytinga á kyrrð í höfninni í hafnareiknilíkani og hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til að kyrrð yrði ásættanleg. Slíkt reiknilíkan var sett upp fyrir höfnina og unnið með það á árunum 2014–2016.
    Undirbúningsvinna að stækkun Þorlákshafnar, þannig að hægt sé að taka á móti 180 m löngum skipum, er komin vel á veg og liggja skýrsludrög fyrir. Vinna við reiknilíkanið er hafið. Brýnt er að ljúka vinnu við forhönnun og kostnaðarútreikninga svo hægt sé að vinna að framgangi hugmyndarinnar og setja í áætlanir.
    Niðurstaða forvinnunnar er að hægt sé innan núverandi marka hafnarinnar að taka á móti skipi af þessari stærð. Nauðsynlegar framkvæmdir sem ráðast þyrfti í væru lenging Suðurvarargarðs, breikkun innsiglingar, stækkun snúningsrýmis innan hafnar, dýpkanir innan og utan hafnar og gerð garðs til að hindra sandburð í innsiglingu.

     2.      Hefur siglingasvið Vegagerðarinnar lokið við skýrslu sem það tók að sér að vinna fyrir Sveitarfélagið Ölfus þar sem setja átti fram frumhugmyndir um hvernig hægt væri að taka við allt að 230 m löngum og 30 metra breiðum skipum í Þorlákshöfn?
    Til að höfnin verði fær stærri skipum, 230 m löngum eins og nefnt er í fyrirspurninni, er nauðsynlegt að breyta núverandi mörkum hafnarinnar og byggja nýja ytri garða. Slíkar framkvæmdir eru töluvert dýrari en breytingar á núverandi höfn.
    Að beiðni hafnarstjórnar Þorlákshafnar og bæjarstjórnar Ölfuss gerði Siglingastofnun árið 2005 tillögu að stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Þá var uppi í líkanstöð Siglingastofnunar vatnslíkan af Þorlákshöfn sem notað hafði verið til að skoða hafnabætur fyrir þá starfsemi sem þegar var í höfninni. Frumhugmyndir að stórskipahöfn voru prófaðar í vatnslíkaninu. Sá annmarki var þó á að hugmyndirnar lágu að hluta til utan þess svæðis sem vatnslíkanið náði til. Þessar frumhugmyndir voru notaðar til að sýna þá stórskipahöfn sem sýnd hefur verið í gildandi aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss frá árinu 2012.
    Ekki hefur verið farið fram á það við siglingasvið Vegagerðarinnar að vinna áfram að tillögum að stórskipahöfn sem tekið getur á móti allt að 230 m löngum skipum.