Ferill 814. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1287  —  814. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um rekstrarafkomu íslenskra fyrirtækja.

Frá Oddnýju G. Harðardóttur.


     1.      Hversu mörg fyrirtæki voru skráð í fyrirtækjaskrá hvert ár 2009–2018?
     2.      Hver var hagnaður fyrirtækjanna fyrir skatta og fjármagnsliði sem hlutfall af eigin fé þeirra hvert þessara ára?
     3.      Hver var hagnaður fyrirtækjanna eftir skatt og fjármagnsliði sem hlutfall af eigin fé þeirra hvert þessara ára?
     4.      Hversu mikið greiddu fyrirtækin í tekjuskatt fyrirtækja hvert þessara ára?
     5.      Hverjar voru heildaratvinnutekjur fyrirtækjanna hvert þessara ára?
     6.      Hver var uppsafnaður greiddur tekjuskattur fyrirtækjanna hvert þessara ára? Óskað er eftir samantekt á formi uppsafnaðrar dreifingar (e. cumulative distribution).
     7.      Hverjar voru uppsafnaðar heildaratvinnutekjur fyrirtækjanna hvert þessara ára? Óskað er eftir samantekt á formi uppsafnaðrar dreifingar (e. cumulative distribution).

Greinargerð.

    Í svari við 2.–5. tölul. er þess óskað að látin verði í té tafla fyrir hvert ár 2009–2018. Í hverri töflu verði gefnar upp tíundir og fjórðungsmörk en síðasta tíundin brotin upp í hundraðshluta. Upplýsingunum verði skipað niður með svofelldum hætti: Öllum fyrirtækjum, einnig þeim sem rekin voru með tapi, verði raðað í röð eftir stærð þeirrar breytu sem um er spurt hverju sinni. Þá verði færð inn talan sem upp kemur hjá því fyrirtæki sem hefur hæstu breytu í hverri tíund, við hver fjórðungsmörk eða í hverjum hundraðshluta. Talan við 50% verði miðgildi. Loks er þess æskt að meðaltal allra fyrirtækja verði skráð í hverju tilviki.
    Í svari við 6. og 7. tölul. er óskað eftir töflu fyrir hvert ár 2009–2018. Í hverri þeirra verði framlag allra fyrirtækja lagt saman til að fá fram uppsafnaða dreifingu og tíundarmörkin merkt þegar tekið er saman hverjar eru samanlagðar atvinnutekjur þeirra fyrirtækja sem falla í neðstu tíund, þeirra sem falla í aðra tíund og þar fram eftir götum. Talan sem gefin er upp við 100% ætti því að innihalda allar áunnar atvinnutekjur fyrirtækja á Íslandi.


Skriflegt svar óskast.