Ferill 818. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1291  —  818. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um fullnustugerðir og skuldaskil einstaklinga.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hversu margar fasteignir einstaklinga hafa verið seldar nauðungarsölu hvert undanfarið ár frá aldamótum?
     2.      Hversu mörg fjárnám voru gerð hjá einstaklingum og hversu mörg þeirra reyndust árangurslaus, hvert undanfarið ár frá aldamótum?
     3.      Bú hversu margra einstaklinga voru tekin til gjaldþrotaskipta hvert undanfarið ár frá aldamótum?
     4.      Hversu oft hafa einstaklingar leitað nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta og í hversu mörgum þeirra tilfella hefur nauðasamningur verið staðfestur, hvert undanfarið ár frá aldamótum?
     5.      Hversu oft hafa einstaklingar leitað nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og í hversu mörgum þeirra tilfella hefur nauðasamningur verið staðfestur, hvert undanfarið ár frá aldamótum?
     6.      Hversu margir nauðasamningar til greiðsluaðlögunar hafa fallið sjálfkrafa úr gildi vegna umsóknar um greiðsluaðlögun einstaklinga hvert ár frá gildistöku laga nr. 101/2010?
     7.      Hversu oft hafa einstaklingar leitað tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði og í hversu mörgum þeirra tilfella hefur slík greiðsluaðlögun komist á, hvert undanfarið ár frá aldamótum?
     8.      Hversu oft hafa einstaklingar leitað afmáningar fasteignaveðkrafna umfram markaðsvirði fasteignar við lok tímabundinnar greiðsluaðlögunar slíkra krafna, hversu margar slíkar umsóknir hafa verið samþykktar og hversu mörgum synjað, hvert undanfarið ár frá aldamótum?


Skriflegt svar óskast.