Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1299  —  635. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (ríki-fyrir-ríki skýrslur).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rakel Jónsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Ásu Ögmundsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Samtökum atvinnulífsins, KPMG og PwC.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 91. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem fjallar um svokallaðar ríki-fyrir-ríki skýrslur um skattskil. Felast breytingarnar í fyrsta lagi í því að viðmiðunarfjárhæð vegna skilaskyldu innlendra móðurfélaga á ríki-fyrir-ríki skýrslum verði miðuð við evrur en ekki íslenskar krónur, í öðru lagi í breytingum á 2. mgr. greinarinnar um það hvenær skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu hvílir á innlendum félögum þrátt fyrir að þau teljist ekki vera fjölþjóðlegar heildarsamstæður og í þriðja lagi í viðbót nýs ákvæðis um svokölluð staðgöngufélög móðurfélaga (e. surrogate parent entity). Með breytingunum er m.a. ætlunin að bregðast við ábendingum OECD um íslensku reglurnar um ríki-fyrir-ríki skýrslur.
    Nefndinni var bent á að tímafrestir sem getið er um í g- og h-lið 1. gr. frumvarpsins og varða tilkynningar til ríkisskattstjóra væru óraunhæfir þar sem upplýsingar sem tilkynna skal um fyrir lok reikningsárs lægju ekki ljósar fyrir fyrr en við sama tímamark. Nauðsynlegt væri að kveða á um rýmra tímamark. Nefndin fellst á ábendinguna og leggur til að miðað verði við að tilkynningar samkvæmt ákvæðunum berist ríkisskattstjóra innan mánaðar frá lokum reikningsárs.
    Í umsögn PwC á Íslandi er bent á að í 91. gr. a tekjuskattslaga, sem og í frumvarpinu, sé vísað til félaga þar sem réttara væri að vísa til samstæðufélaga. Þannig væri skýrara að fastar starfsstöðvar gætu fallið undir skilaskyldu samkvæmt ákvæðinu enda gæti föst starfsstöð verið samstæðufélag í skilningi leiðbeiningarreglna OECD en félag ekki. Nefndin telur ljóst að með hugtakinu félag sé í þessum tilvikum vísað til félags innan samstæðu, með öðrum orðum samstæðufélags. Telur nefndin því ekki sérstaka þörf á að leggja til breytingu í þessu skyni. Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að til standi að gefa út nýja reglugerð um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu samhliða þessu frumvarpi. Vegna ábendinga um misræmi milli lagaákvæðisins og gildandi reglugerðar, nr. 1166/2016, hvetur nefndin til þess að gætt verði að samræmi og skýrleika við útgáfu nýrrar reglugerðar.

    Nefndin leggur til að síðari hluti gildistökuákvæðis 2. gr. frumvarpsins falli brott sem ekki hefur efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „eigi síðar en fyrir lok“ í g-lið komi: innan mánaðar frá lokum.
                  b.      Í stað orðanna „fyrir lok“ í h-lið komi: innan mánaðar frá lokum.
     2.      Orðin „og koma til framkvæmda 1. janúar 2020“ í 2. gr. falli brott.

    Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. apríl 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir. Einar Kárason.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Smári McCarthy.