Ferill 824. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1300  —  824. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, með síðari breytingum (fjöldi fulltrúa í slitastjórn).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Á undan orðunum „þriggja manna slitastjórn“ í 1. málsl. 1. mgr. 152. gr. laganna kemur: allt að.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Við umfjöllun nefndarinnar um 632. þingmál, sem varðar m.a. breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, benti Fjármálaeftirlitið nefndinni á að brýnt væri að gera breytingu á 1. málsl. 1. mgr. 152. gr. laganna þannig að kveðið yrði á um að stofnunin skyldi skipa allt að þriggja manna slitastjórn vegna slitameðferðar vátryggingafélags en gildandi ákvæði girðir fyrir að færri en þrír skipi slitastjórn í slíkum tilvikum. Benti Fjármálaeftirlitið á að þó svo að í upphafi slitameðferðar vátryggingafélags væri nánast undantekningarlaust þörf á þriggja manna slitastjórn væri þess ekki endilega þörf til loka slitameðferðar, sem gæti tekið mörg ár vegna lengdar á kröfulýsingarfresti vátrygginga. Fjármálaeftirlitið teldi því nauðsynlegt að orðalagi ákvæðisins yrði breytt, m.a. til að koma í veg fyrir að launakostnaður slitastjórnarmeðlima yrði óhóflega stór hluti rekstrarkostnaðar og endaði á því að rýra það sem eftir stæði fyrir kröfuhafa félagsins, svo sem vátryggingartaka og vátryggða. Þessu til stuðnings mætti benda á að í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, væri kveðið á um að í slitastjórn skyldu sitja allt að fimm menn, sbr. 4. mgr. 101. gr. laganna.
    Nefndin fellst á framangreind sjónarmið með Fjármálaeftirlitinu og leggur með þessu frumvarpi til viðeigandi breytingu á 1. mgr. 152. gr. laga um vátryggingastarfsemi.