Ferill 724. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1310  —  724. mál.
Breyttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (strandveiðar).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Axel Helgason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Guðjón Bragason og Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Aðalstein Þorsteinsson og Sigurð Árnason frá Byggðastofnun, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Þorstein Hilmarsson frá Fiskistofu, Auðun Kristinsson frá Landhelgisgæslu Íslands, Guðmund Þórðarson og Harald Arnar Einarsson frá Hafrannsóknastofnun, Arnar Atlason og Aðalstein Finsen frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Ragnar H. Kristjánsson frá Reiknistofu fiskmarkaða, Jón Kristjánsson fiskifræðing, Sigurjón Þórðarson líffræðing, Einar Sigurðsson, formann Fonts – félags smábátaeigenda á Norðausturlandi, og Vigfús Ásbjörnsson, formann smábátafélagsins Hrollaugs.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Djúpavogshreppi, Drangey – smábátafélagi Skagafjarðar, Fonti – félagi smábátaeigenda á Norðausturlandi, Hólmari H. Unnsteinssyni, Hrollaugi – félagi smábátaeigenda á Hornafirði, Jóhanni A. Jónssyni, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Strandveiðifélaginu Króki – félagi smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu.
    Frumvarpið var lagt fram af atvinnuveganefnd og miðar að því að festa í sessi þær breytingar sem gerðar voru tímabundið á fyrirkomulagi strandveiða skv. 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða á strandveiðitímabili 2018. Með frumvarpinu er lagt til að skipting aflaheimilda milli landsvæða verði felld niður og Fiskistofu veitt heimild til að stöðva strandveiðar fari heildarafli strandveiðibáta umfram það magn sem ráðstafað var til veiðanna. Er lagt til að hverju skipi verði heimilt að stunda strandveiðar í 12 daga innan hvers mánaðar á strandveiðitímabili, þ.e. í maí, júní, júlí og ágúst. Jafnframt er lagt til að strandveiðiskipum verði heimilað að landa ufsa í samræmi við ákvörðun ráðherra með reglugerð sem svokölluðum VS-afla og telst þá hvorki til hámarksafla hverrar veiðiferðar né til leyfilegs heildarafla. Honum skal haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins, hann skal veginn og skráður sérstaklega og skal jafnframt seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði og andvirði hans renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Helstu breytingar frá því sem gert var fyrir strandveiðitímabilið 2018 eru að Fiskistofu er veitt heimild til að stöðva veiðar fari heildarafli yfir heimilað magn, í stað ráðherra, og að hámarksaflamark skal ákveðið með reglugerð.
    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auka öryggi smábátasjómanna með því að tryggja ákveðinn dagafjölda til veiða í hverjum mánuði og koma þannig í veg fyrir að sjómenn rói út í vondum veðrum til þess að keppast um að veiða heimilaðan afla áður en lokað er fyrir veiðar. Nefndin telur að þetta breytta fyrirkomulag leiði til aukins öryggis, jafnræðis og eflingar strandveiðikerfisins í heild með auknum aflaheimildum og sveigjanleika hvað varðar val á veiðidögum með öryggissjónarmið að leiðarljósi. Fyrir nefndinni hafa komið fram þau sjónarmið að val á föstum dögum geti haft í för með sér að betra hráefni fáist sem dreifist jafnar til vinnslu yfir mánuðinn, að aukið framboð verði á fersku hráefni yfir sumarið, að dreifðar byggðir styrkist og geti jafnframt verið liður í að auka byggðafestu og nýliðun í greininni.
    Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja með þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulagi strandveiða á strandveiðitímabilinu árið 2018, þó að enn séu áhyggjur af skiptingu milli svæða. Þá reyndist heimild vegna ufsa vel í fyrra og var látin í ljós ánægja með að sú heimild verði aukin. Landssamband smábátaeigenda lýsti í umsögn sinni yfir stuðningi við frumvarpið í ljósi þeirrar reynslu sem fékkst af veiðikerfinu á síðastliðnu ári. Taldi sambandið frumvarpið færa strandveiðar nær kröfu smábátaeigenda um aukið frelsi til handfæraveiða.
    Landhelgisgæsla Íslands telur að reynsla síðasta sumars, þar sem leyfðir voru 12 dagar innan hvers mánaðar, hafi verið góð og að veiðidagar hafi verið valdir með tilliti til veðurfars og sjólags í stað þess að keppast um úthlutaðan kvóta á hverju svæði eins og gert var árin á undan. Sú staðreynd að smábátar eru minna á sjó í brælu stuðlar beint og óbeint að því að auka öryggi sjófarenda og með því að binda þessi ákvæði í lög er öryggið því tryggt enn betur.
    Nefndinni var bent á að bæta við ákvæði um að hægt yrði að segja sig frá strandveiðum og fá almennt veiðileyfi á strandveiðitímabilinu. Nefndin tekur undir að rétt sé að slík heimild sé í lögunum. Þó sé rétt að slík heimild taki ekki gildi fyrr en mánuðinn eftir að óskað er eftir að strandveiðileyfi verði fellt úr gildi, þ.e. komi beiðni fram í júní verði umræddu fiskiskipi ekki heimilt að hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum fyrr en í júlí. Fiskiskip sem óska þess að fá strandveiðileyfi sitt fellt úr gildi geta ekki fengið leyfi aftur til að stunda strandveiðar á sama strandveiðitímabili.
    Fyrir nefndinni var vísað til þess að ákvæði b-liðar 1. gr. frumvarpsins væri óþarft þar sem ufsi teldi ekki lengur til viðmiðunar í heildarafla. Í það minnsta þyrfti að skerpa á því að í þeim tilvikum sem heildarafli veiðiferðar væri innan við 650 þorskígildi falli ufsi ekki undir VS-afla. Jafnframt komu fram sjónarmið fyrir nefndinni um að andvirði ufsa ætti að renna óskipt til útgerða. Nefndin telur að samkvæmt frumvarpinu sé skýrt að ufsa megi telja til hámarksafla. Eigi að landa ufsa sem VS-afla skuli halda honum aðskildum frá öðrum afla, hann veginn sérstaklega og skráður. Sé það ekki gert megi telja hann til hámarksafla, þ.e. upp í 650 þorskígildi samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Nefndin bendir á að þessi heimild hafi verið til staðar á strandveiðitímabili árið 2018 og verði áfram.
    Fyrir nefndinni var heimild Fiskistofu til að stöðva veiðar áður en strandveiðitímabili lýkur andmælt. Bent var á að með því að fella ákvæðið út yrðu strandveiðimönnum tryggðir 48 dagar á tímabilinu. Einnig komu fram sjónarmið um að niðurfelling á svæðaskiptingu á afla leiddi til þess að samkeppni yrði við landið allt í stað þess að vera takmörkuð við tiltekin svæði. Breytingin kæmi sér best fyrir sjómenn á tilteknu svæði og gæti leitt til þess að aflaaukning takmarkist við það svæði. Betra væri að lengja strandveiðitímabil þannig að sjómenn gætu stýrt veiðum sjálfir miðað við fiskgengd á viðkomandi svæði. Þannig mundi afli dreifast betur á fiskmarkaði og skila betra verði.
    Nefndin bendir á að fyrirhugað er að auka aflaheimildir frá því sem var á strandveiðitímabilinu 2018 þannig að hámarksaflamark verði hækkað upp í 11.000 tonn og hámarksaflamagn ufsa verði hækkað í 1.000 tonn. Að mati nefndarinnar hefur verið dregið verulega úr líkum á því að veiðar þurfi að stöðva þar sem heildarheimildir til strandveiða hafa verið auknar. Að mati nefndarinnar eru allar líkur á því að þær viðbótarheimildir sem um ræðir tryggi að á öllum svæðum verði unnt að stunda veiðar í 12 daga alla mánuðina. Nefndin tekur fram að ráðherra hefur heimild skv. 5. mgr., sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða til að auka heildarveiði svo að unnt verði að nýta 12 daga til strandveiða í maí, júní, júlí og ágúst á hverju ári.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu. Lagt er til að bætt verði við nýrri málsgrein í 6. gr. a laganna sem heimilar fiskiskipum sem hafa fengið leyfi til að stunda strandveiðar að óska þess að strandveiðileyfi verði fellt úr gildi og hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þessi heimild taki gildi mánuðinn eftir að niðurfelling leyfis á sér stað, þ.e. sé strandveiðileyfi fellt niður í júní verður umræddu fiskiskipi heimilt að hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum í júlí. Fiskiskip sem nýta þessa heimild geta þó ekki fengið leyfi aftur til að stunda strandveiðar á sama strandveiðitímabili. Lögð er til breyting á 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. a laganna í samræmi við framangreint. Með þessu telur nefndin að komið sé að verulegu leyti til móts við mörg þau sjónarmið sem komið hafa fram í umsögnum um málið.
    Í eftirfarandi töflu má sjá veiðidaga á strandveiðum eftir svæðum og mánuðum á árunum 2010–2018:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í eftirfarandi töflu má sjá nýtingu leyfilegra daga og nýtingarhlutfall leyfilegra daga á tímabilinu 2013–2018:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    
    Nýting leyfilegra daga 2013–2018, meðaltal:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.











    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að betra væri að fyrirhuguð breyting yrði gerð til bráðabirgða og ekki fest varanlega í sessi fyrr en úttekt á fyrirkomulaginu hefði farið fram. Nefndin bendir á að reynslan frá strandveiðitímabilinu árið 2018 hafi sýnt að breytt fyrirkomulag hafi haft þau áhrif að meiri ró hafi verið yfir róðrum og veiðar dreifst meira frá því sem áður var. Markmiði breytinganna hafi að því leyti verið náð og því sé skynsamlegt að festa fyrirkomulagið í sessi. Nefndin telur enn fremur að takist vel til í sumar muni það leiða til áframhaldandi aukins öryggis, jafnræðis og eflingar strandveiðikerfisins í heild með auknum aflaheimildum og sveigjanleika hvað varðar val á veiðidögum með öryggissjónarmið að leiðarljósi.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að nauðsynlegt væri að allur strandveiðiafli færi á fiskmarkað og óheimilt yrði að flytja hann beint út því að slíkt ynni gegn verðmætaaukningu og verðmætasköpun. Landið allt væri orðið einn markaður í gegnum fiskmarkaðinn og mikilvægt að allir hefðu aðgang að fiskinum á markaðnum. Nefndin telur að skoða þurfi hvort tryggja eigi að afla frá strandveiðum skuli ávallt bjóða fyrst innlendum kaupendum og að hráefni verði því ekki flutt óunnið í gámum til erlendra aðila. Afli frá strandveiðum er afar mikilvægur fyrir fiskmarkaði þegar samdráttur er á afla frá annarri útgerð. Aflinn hefur oftar en ekki verið hryggjarstykkið í vinnslu margra fiskvinnslufyrirtækja yfir sumarið og aflinn verið gæðahráefni.
    Bent hefur verið á að ýmsar ytri aðstæður geta haft áhrif á forsendur fyrirkomulags strandveiða, þetta eru aðstæður eins og samdráttur í heildaraflaheimildum, samdráttur á vinnumarkaði, veðurfar, fiskverð og fiskgengd. Nefndin leggur áherslu á að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og atvinnuveganefnd fylgist áfram með þróun strandveiða í ljósi markmiða um eflingu strandveiða, eflingu smærri byggða, aukið öryggi smábátasjómanna og nýliðun og í ljósi sjónarmiða um jafnræði byggða og landshluta.
    Nefndin bendir á að samþykki liggur fyrir að í lok strandveiðitímabilsins 2019 muni Byggðastofnun gera ítarlega úttekt á reynslu síðustu tveggja strandveiðitímabila. Að mati nefndarinnar þarf í úttektinni að leggja áherslu á byggðafestu, öryggismál, útkomu mismunandi landshluta, sveigjanleika í kerfinu og fiskgengdar innan veiðisvæða á tímabilinu. Niðurstöðuna mun atvinnuveganefnd nota til að vinna að frekari endurbótum á strandveiðikerfinu í samráði við strandveiðimenn á svæðunum fjórum og hagsmunasamtök þeirra fyrir strandveiðitímabilið 2020. Óskað verður eftir því að úttektin liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2020.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Á eftir b-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Við 1. málsl. 4. mgr. bætist: nema strandveiðileyfi hafi verið fellt úr gildi skv. 5. mgr.
     b.      Á eftir c-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                  Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. er fiskiskipi sem hefur fengið strandveiðileyfi heimilt að óska eftir að leyfið verði fellt úr gildi og stunda fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þó tekur slík niðurfelling strandveiðileyfis ekki gildi fyrr en mánuðinn eftir að ósk um niðurfellingu á sér stað. Hafi strandveiðileyfi fiskiskips verið fellt úr gildi getur það fiskiskip ekki fengið strandveiðileyfi að nýju á umræddu strandveiðitímabili.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu, með fyrirvara.

Alþingi, 4. apríl 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, með fyrirvara. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson. Sara Elísa Þórðardóttir, með fyrirvara. Sigurður Páll Jónsson.