Ferill 709. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1343  —  709. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um eflingu græns hagkerfis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hverjum af tillögum nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins hefur verið hrundið í framkvæmd, sbr. þingsályktun nr. 16/140 frá 20. mars 2012 og aðgerðaáætlun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem verkefnastjórn skilaði til forsætisráðuneytisins 30. janúar 2013 á grundvelli ályktunar Alþingis?
     2.      Hverjar af framangreindum aðgerðum eru enn í vinnslu?


    Með samþykkt þingsályktunar nr. 16/140, um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi, frá 20. mars 2012 fól Alþingi forsætisráðherra að stýra mótun aðgerðaáætlunar um grænt hagkerfi á grundvelli tillagna sem þá lágu fyrir frá nefnd sem Alþingi hafði kosið til að fjalla um sama málefni, sbr. ályktun Alþingis nr. 18/138 frá 10. júní 2010. Í samræmi við framangreinda þingsályktun nr. 16/140, skipaði forsætisráðherra verkefnastjórn hinn 26. september 2012 sem falið var að stýra mótun aðgerðaáætlunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Í verkefnastjórninni sátu, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Skúli Helgason, þá alþingismaður og fyrsti flutningsmaður framangreindra tveggja þingsályktunartillagna. Verkefnastjórnin hélt alls 19 fundi og fékk fjölda gesta á sinn fund. Einnig leitaði verkefnastjórn eftir umsögnum fjölmargra stofnana og ráðuneyta um einstök verkefni sem tilgreind eru í þingsályktuninni. Loks lét verkefnastjórnin framkvæma jafnréttismat á tillögum þingsályktunarinnar. Afrakstur starfs nefndarinnar var annars vegar áfangaskýrsla í nóvember 2012 og hins vegar lokaskýrsla í janúar 2013. Í lokaskýrslunni var sett fram aðgerðaáætlun og tillögur að forgangsröðun verkefna og ábyrgð skilgreind nánar niður á einstök ráðuneyti, stofnanir og Alþingi, og tillögur um fjármögnun einstakra verkefna settar fram. Frá þeim tíma er lokaskýrslan kom fram hefur forsætisráðuneytið ekki með skipulögðum og formlegum hætti sinnt eftirfylgni með framkvæmd einstakra verkefna heldur hefur ráðuneytið litið svo á að ábyrgð á framkvæmd væri hjá skilgreindum ábyrgðaraðilum. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að hafa í huga að áherslur og nálgun ráðuneyta og annarra stjórnvalda á framkvæmd og innleiðingu nýrra ólögbundinna verkefna og framfylgd aðgerðaáætlana eins og þeirrar sem hér um ræðir ræðst öðru fremur af áherslum sitjandi ríkisstjórna á hverjum tíma, sem jafnan hafa að auki stuðning meiri hluta Alþingis að baki sér, sem og af sérstökum áherslum ráðherra hvers málaflokks. Í ljósi áherslubreytinga í kjölfar alþingiskosninganna árið 2013 voru ekki forsendur fyrir forsætisráðuneytið til að fylgja aðgerðaáætluninni eftir sem sérstöku verkefni með formlegum eða skipulögðum hætti.
    Hvað sem framfylgd einstakra tillagna sem settar voru fram í þingsályktun nr. 16/140 líður þá er ljóst að áfram hefur verið og verður unnið að eflingu græns hagkerfis á Íslandi. Hefur núverandi ríkisstjórn sett sér metnaðarfull markmið í þeim efnum eins og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar ber með sér sem og sérstaklega ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftlagsmálum fyrir árin 2018–2030.
    Óski fyrirspyrjandi hins vegar eftir upplýsingum um núverandi stöðu einstakra mála og tillagna sem settar voru fram árið 2012 í umræddri þingsályktun er rétt að hann beini sérstökum fyrirspurnum þar að lútandi til viðkomandi ráðherra er bera ábyrgð á þeim stjórnarmálefnum sem tillögurnar varða.