Ferill 845. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1346  —  845. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um málefni hinsegin fólks sem sækir um alþjóðlega vernd.

Frá Unu Hildardóttur.


     1.      Hve margir einstaklingar, sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi, falla undir það að vera hinsegin, þ.e. að kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáning þeirra fellur að þeirri skilgreiningu að vera hinsegin?
     2.      Er það tekið sérstaklega til greina að einstaklingur sé hinsegin þegar kemur að úrvinnslu mála, t.d. þegar upprunaland hans eða það ríki sem hann yrði sendur aftur til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki en brýtur þó ef til vill á hinsegin fólki? Telur ráðherra að slík lönd séu í raun örugg eða mundi einstaklingurinn teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga?
     3.      Hvaða sértæku úrræði hefur íslenska ríkið þegar kemur að þjónustu við þessa einstaklinga og er sérstaklega gert ráð fyrir þeim hjá Útlendingastofnun?
     4.      Hefur ráðherra hug á því að setja sig í samband við félagasamtök sem gæta hagsmuna hinsegin fólks hér á landi með það að leiðarljósi að bæta þjónustu við hinsegin fólk sem sækir um alþjóðlega vernd?
     5.      Hefur ráðherra hug á að skipa ráðgjafarnefnd skipaða fulltrúum hagsmunafélaga ásamt fulltrúum hins opinbera til að greina stöðu hinsegin fólks sem sækir um alþjóðlega vernd með það að leiðarljósi að bæta stöðu þess og efla þjónustu við það?
     6.      Hefur verið tekið sérstakt tillit til hinsegin fólks sem sækir um alþjóðlega vernd þegar kemur að búsetuúrræðum, t.d. með því að leyfa samkynja pörum að deila herbergi?


Skriflegt svar óskast.